• Lykilorð:
  • Umboðssvik

                                      E N D U R R I T

                                      Ú R  D Ó M A B Ó K

                   H É R A Ð S D Ó M S   R E Y K J A V Í K U R

 

                                               

                                                            Málið nr. S-906/2012

                                                            Ákæruvaldið

                                                            (Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari)

                                                            gegn

                                                            Lárusi Welding

                                                            (Óttar Pálsson hrl.)

                                                            Magnúsi Arnari Arngrímssyni

                                                             (Helgi Birgisson hrl.)

                                                            Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og

                                                             (Gestur Jónsson hrl.)

                                                            Bjarna Jóhannessyni

                                                             (Bjarni Eiríksson hdl.)

                                               

                                               

                                                Dómur 5. júní 2014

 

 

            Árið 2014, fimmtudaginn 5. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af héraðsdómurunum Guðjóni St. Marteinssyni, sem dómsformanni, Arngrími Ísberg og Sverri Ólafssyni prófessor, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-906/2012, en málið var dómtekið 16. f.m.

 

            Málið er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, dagsettri 12. desember 2012, á hendur:

             „Lárusi Welding, kt. 000000-0000, [...],

            Magnúsi Arnari Arngrímssyni, kt. 000000-0000, [...],

            Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, kt. 000000-0000, [...]og

            Bjarna Jóhannessyni, kt. 000000-0000, [...],

 

fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum.

 

                                                                        I.

Á hendur ákærðu Lárusi Welding, þáverandi forstjóra Glitnis banka hf., kt. 000000-0000, [...], og Magnúsi Arnari Arngrímssyni, þáverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis banka hf., fyrir umboðssvik, með því að hafa 8. eða 9. júlí 2008, í fyrrgreindum störfum sínum og sem meðlimir í áhættunefnd bankans, misnotað aðstöðu sína og stefnt fjármunum bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga er þeir samþykktu í sameiningu, á milli funda áhættunefndar, að veita einkahlutafélaginu FS38, kt. 000000-0000, eignalausu félagi með takmarkaða ábyrgð, sem var í áhættuflokki 9 hjá Glitni banka hf., lán að fjárhæð 6.000.000.000 króna, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, sem var í andstöðu við reglur bankans um lánveitingar og markaðsáhættu þar sem þeir sinntu ekki þeirri skyldu sinni að gæta að hagsmunum bankans með því að draga úr áhættu hans af lánveitingunni.

 

Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf., kt. 000000-0000, í  Aurum Holdings Limited en hlutabréf þess félags voru ekki skráð í kauphöll.

 

Ákærðu Lárus og Magnús Arnar samþykktu lánveitinguna 8. eða 9. júlí 2008, utan reglulegs fundar áhættunefndar án þess að nauðsyn bæri til en ákærði Lárus staðfesti samþykkið símleiðis á fundi áhættunefndarinnar 9. júlí 2008, þar sem ákærði Magnús Arnar var viðstaddur. Ákærðu samþykktu lánveitinguna með vísan til þess að um 19% hlutur FS38 ehf. í Aurum Holdings Limited yrði síðar seldur til félagsins Damas LLC fyrir andvirði um 3.000.000.000 króna þótt skuldbindandi samningur lægi hvorki fyrir um slíka sölu né söluverð. Jafnframt var gert ráð fyrir því að sá hlutur FS38 hf. í Aurum Holdings Limited sem eftir stæði hækkaði í verði úr 1.350.000.000 króna upp í 3.100.000.000 króna en þar til að sú hækkun væri komin fram skyldi Fons hf. gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir  1.750.000.000 króna. Lánasamningur vegna lánsins var undirritaður af ákærða Lárusi og öðrum starfsmanni Glitnis banka hf. 16. júlí 2008 en samkvæmt honum var 25,7% hlutur í Aurum Holdings Limited jafnframt settur að veði til tryggingar endurgreiðslu lánsins. Lánið var greitt út 21. júlí  2008. Þessar tryggingar voru ófullnægjandi í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um verðmæti Aurum Holdings Limited, bága greiðslugetu Aurum Holdings Limited og Fons hf. og vöntunar á tryggingum fyrir skuldbindingum síðarnefnda félagsins hjá Glitni banka hf. en fyrr á árinu 2008 þurfti bankinn ítrekað að veita Fons hf. greiðslufrest á gjaldföllnum afborgunum og endurskoða lánaskilmála á láni til Aurum Holdings Limited. Með lánveitingunni veltu ákærðu Lárus og Magnús Arnar áhættunni af kaupum FS38 ehf., á eignarhlutanum í Aurum Holdings Limited, yfir á Glitni banka hf.

Lánsfjárhæðinni var ráðstafað 21. júlí 2008 þannig:

1.      2.792.115.139 krónur voru millifærðar til uppgreiðslu á eftirstöðvum láns Fons hf. nr. 310990 hjá Glitni banka hf., dags. 16. nóvember 2007, upphaflega að fjárhæð 2.500.000.000 króna.

2.      2.000.000.000 króna voru greiddir inn á reikning 513-26-4160, í eigu Fons hf., félaginu til frjálsrar ráðstöfunar.

3.      Eftirstöðvar, 1.207.884.861 króna, voru lagðar inn á handveðsettan reikning í eigu Fons hf. hjá markaðsviðskiptum Glitnis banka hf. til að bæta tryggingastöðu Fons hf.

Sama dag millifærði Glitnir banki hf. 1.000.000.000 króna af reikningi Fons hf. inn á reikning nr. 515-26-390680 í eigu meðákærða Jóns Ásgeirs.

 

Með lánveitingunni fékk Fons hf. til frjálsrar ráðstöfunar 2.000.000.000 króna í stað þess að grynnka á skuldum félagsins hjá Glitni banka hf. en með þeirri ráðstöfun, sem ákærðu Lárus og Magnús Arnar samþykktu, var áhætta bankans aukin verulega og bankanum valdið verulegri fjártjónshættu.

 

Lánið hefur ekki fengist endurgreitt og telja verður umrædda fjármuni bankanum að stærstum hluta glataða þar sem hinn veðsetti hlutur FS38 ehf. í Aurum Holdings Limited varð verðlaus á árinu 2009 við það að lánardrottnar félagsins tóku það yfir gegn niðurfærslu alls hlutfjár félagsins í 1 sterlingspund. Þá hefur skiptum á þrotabúi FS38 ehf. verið lokið án þess að nokkuð kæmi upp í lýstar kröfur auk þess sem bú Fons hf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.

 

                                                                        II.

Á hendur ákærða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, aðallega fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu, Lárusar og Magnúsar Arnars, en til vara fyrir hylmingu og til þrautavara fyrir peningaþvætti, með því að hafa, á árinu 2008, í krafti áhrifa sinna í Glitni banka hf., beitt meðákærðu Lárus og Bjarna fortölum og þrýstingi og hvatt til þess, persónulega og með liðsinni Jóns Sigurðssonar, varaformanns stjórnar Glitnis banka hf. og Gunnars Sigurðssonar, forstjóra Baugs Group hf., að meðákærðu Lárus og Magnús Arnar samþykktu að veita FS38 ehf.   6.000.000.000 króna lán frá Glitni banka hf., honum sjálfum og Fons hf. til hagsbóta með þeim hætti sem greinir í ákærulið I. Ákærði Jón Ásgeir réð yfir um 40% af hlutafé bankans í gegnum félög sem hann, fjölskylda hans og viðskiptafélagar áttu meirihluta í og stjórnuðu. Honum gat ekki dulist að með lánveitingunni væru ákærðu Lárus og Magnús Arnar að misnota aðstöðu sína og valda bankanum verulegri fjártjónshættu en að undirlagi ákærða Jóns Ásgeirs heimilaði Fons hf. ráðstöfun á 1.000.000.000 króna af lánsfjárhæðinni inn á reikning ákærða Jóns Ásgeirs sem hann tók við og nýtti í eigin þágu meðal annars til að greiða 704.916.008 króna ótryggða yfirdráttarskuld sína hjá Glitni banka hf. Fékk ákærði Jón Ásgeir þannig hlut í ávinningi af brotinu og naut hagnaðarins.

                                                                        III.

Á hendur ákærða Bjarna Jóhannessyni, þáverandi viðskiptastjóra hjá Glitni banka hf., fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu Lárusar og Magnúsar Arnars, með því að hafa í störfum sínum á fyrirtækjasviði bankans, vegna þrýstings frá ákærða Jóni Ásgeiri og með samþykki ákærða Lárusar, undirbúið lánveitingu bankans til FS38 ehf. og þar á meðal útbúið lánabeiðni fyrir FS38 ehf. í þeim tilgangi að leggja hana fyrir áhættunefnd bankans, fyrir 6.000.000.000 króna láni til að fjármagna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aurum Holdings Limited, eins og rakið er í ákærulið I, þrátt fyrir að ákærði hefði vitneskju um að verðmæti Aurum Holdings Limited væri verulega lægra en gengið var út frá í lánabeiðninni, skuldbindandi samningur væri ekki kominn á um sölu eignarhlutans og að sjálfsskuldarábyrgðin væri lítils virði vegna erfiðrar greiðslustöðu Fons hf. Ákærða var eða hlaut að vera ljóst að með tillögu um greiðslu á 2.000.000.000 króna af lánsfjárhæðinni til Fons hf., sem hann vissi að meðákærða Jóni Ásgeiri væri ætlaður helmingurinn af, væri áhætta bankans aukin verulega og fjártjónshætta bankans af lánveitingunni væri veruleg. 

                                                                        IV.

Telst háttsemi ákærðu allra varða við  249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1.  mgr. 22. gr. sömu laga hvað varðar ákærðu Jón Ásgeir og Bjarna, en til vara við 254. gr. sömu laga og til þrautavara við 264. gr. sömu laga hvað varðar ákærða Jón Ásgeir.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ 

 

            Verjandi ákærða Lárusar Welding krefst sýknu og að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.

            Verjandi ákærða Magnúsar Arngrímssonar krefst sýknu og að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.

            Verjandi ákærða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun  verði greidd úr ríkissjóði.

            Verjandi ákærða Bjarna Jóhannessonar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun  verði greidd úr ríkissjóði.

 

            Með bréfi slitastjórnar Glitnis hf. til embættis sérstaks saksóknara, dagsettu 7. maí 2010, var lögð fram kæra á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding og Magnúsi Arnari Arngrímssyni en einnig voru tilgreindir í kærunni Pálmi Haraldsson, Rósant Már Torfason og Guðný Sigurðardóttir. Samkvæmt gögnum málsins átti lánveitingin til FS38 sér nokkurn aðdraganda. Hinn 11. júní 2008 var samþykkt áþekkt lán til FS38 með ákveðnum fyrirvara. Ekki varð úr þessari lánveitingu. Samkvæmt gögnum málsins var málið áfram til athugunar innan bankans  og lauk því með lánveitingunni sem í ákæru greinir og var lánsfjárhæðinni ráðstafað eins og þar er lýst. Um nánari útlistum þessa er vísað til framburðar ákærðu og vitnisburðar sem rakin verður. Kæra slitastjórnar Glitnis leiddi til rannsóknar sem er grundvöllur ákæru málsins. Lögregluskýrslur eru margar og ítarlegar og þykir ekki ástæða til að rekja efni þeirra hér. Um málavexti þykir að öðru leyti mega vísa til framburðar ákærðu og vitnisburðar fyrir dóminum þar sem ítarlega er gerð grein fyrir þessu.

 

            Nú verður reifaður framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi

            Mikill fjöldi tölvupósta var borinn undir ákærðu og vitni undir aðalmeðferð málsins. Svör viðkomandi hafa að mestu leyti verið felld inn í framburð eða vitnisburð en stöku pósta er getið sérstaklega.

            Ákæruliður I

            Ákærði Lárus Welding neitar sök. Hann gerði nánari grein fyrir afstöðu sinni til sakarefnisins við upphaf skýrslutöku fyrir dómi. Hann kvaðst hafa starfað í fjögur ár hjá FBA hf. síðar Íslandsbanka FBA. Hann tók við starfi sem útibússtjóri Landsbanka Ísland hf. í London á árinu 2003. Því starfi gegndi hann fram í apríl 2007 en forstjóri Glitnis banka (hér á eftir nefndur Glitnir) hafði samband við ákærða sumarið 2006 og bauð honum starf framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis banka. Ekki varð af ráðningu í þetta sinn en í mars/apríl 2007 var aftur komið að máli við ákærða og honum boðið starf forstjóra Glitnis og var hann ráðinn forstjóri bankans í maí 2007. Hann lýsti markmiðum bankans. Ákærði kvað sér gefið að sök að hafa svikið bankann en hann tók fram að meirihluti tekna bankans væri vegna vaxtamunar og lánveitingar hafi því verið aðalstarfsemi bankans. Hann kvað að stór hluti starfs hans sem forstjóra og nefndarmanns í áhættunefnd bankans hafi verið að taka ákvarðanir um lánveitingar og kvaðst hann reikna með því að á sextán mánaða starfstíma sínum hjá bankanum hafi hann komið að allt að átta hundruð lánamálum. Hann kvað áhættunefnd bankans almennt aðeins hafa tekið ákvarðanir um viðskipti þar sem undirliggjandi hagsmunir voru verulegir og námu hærri fjárhæð en einum milljarði króna. Hann lýsti því að eðli bankastarfsemi væri að taka áhættu og áhætta fælist í flestum viðskiptaákvörðunum. Hann kvaðst aldrei hafa heyrt á 10 ára starfsferli sínum í bönkum að ákvarðanir sem teknar voru gætu verið á skjön við lög en lögfræðingar hafi komið að flestum ákvörðunum á einhvern hátt og lýsti hann þessu. Hann kvað ekki hafa verið staðið öðruvísi að ákvörðun lánsins sem í ákæru greinir en í þeim ákvörðunum eða lánamálum bankans þar sem endanlegar heimtur urðu góðar. Hann kvað stærstum hluta lánsins, sem í ákæru greinir, hafa verið ráðstafað til uppgjörs á útistandandi kröfum bankans á óskráð eignarhaldsfélag, Fons hf., sem óvíst var um endurheimtur á. Fjármagnsútflæði vegna lánsins hafi verið 1,3 milljarðar króna sem hafi numið 0,05 prósentum af lánasafni bankans á þessum tíma. Bankinn hafi fengið tryggingu í eign sem líklegt þótti að myndi fyllilega standa undir endurgreiðslu lánsins innan fárra vikna eða mánaða. Hann kvað lánveitinguna hafa átt sér nokkurn aðdraganda sem hafi hafist í maí 2008 eftir því sem ákærði kvaðst hafa séð af gögnum málsins og rifjað upp eftir skýrslutökur hjá lögreglu en hann kvað vera farið að fyrnast yfir minni sitt af þessum atburði, enda nærri sex ár liðin. Hann kvað ákæruvaldið láta líta svo út sem innan bankans hafi staðið styr um lánveitinguna sem um ræðir og að ákærði hafi virt ráð starfsmanna bankans að vettugi. Hann kvað þetta ósanngjarna og ranga framsetningu. Kjarni málsins væri sá að að baki lánveitingunni hafi legið viðskiptalegar forsendur. Vilji bankans var að ná fram frekari tryggingu í viðskiptum við Fons. Markmiðið hafi verið að komast nær undirliggjandi eignum. Að mati ákærða og annarra sem stóðu að þessari ákvörðun var staða bankans bætt með ráðstöfuninni. Hann kvaðst eftir upprifjun þessa enn vera sömu skoðunar miðað við gögnin sem lágu fyrir. Hann kvað málið hafa þróast úr hefðbundnu lánamáli innan bankans í það að vera mál þar sem starfsmenn bankans sáu tækifæri til að bæta stöðu bankans gagnvart Fons hf. og það hefði verið gert. Þetta hafi verið sambærilega vinna og unnin var í málum annarra eignarhaldsfélaga þetta sumar, en eignaverð fór lækkandi. Í samræmi við vinnureglur Glitnis hafi málið verið unnið hjá viðskiptastjóra og lánastjóra Fons innan bankans auk þess sem aðrir sérfræðingar bankans komu að málinu, svo sem fjármálastjóri bankans. Hann lýsti því að eftir tveggja mánaða vinnu í málinu innan bankans hafi verið komin niðurstaða sem starfsmenn bankans voru sammála um að væri bankanum til hagsbóta. Hann kvaðst með vísan í gögn málsins hafa samþykkt lánveitinguna símleiðis á fundi áhættunefndar 9. júlí 2008. Samþykktin á fundi áhættunefndar þann dag hafi verið bókuð sem millifundasamþykkt. Hann kvað bókunina eiga sér eðlilegar skýringar í ferðalögum nefndarmanna sem þekktu málið best á þessum tíma auk þess sem málið hafi verið nefndinni kunnugt vegna fyrri samþykktar. Ekki hafi staðið til að sniðganga áhættunefndina og það hafi ekki verið gert enda ákvörðunin staðfest á fundi áhættunefndar 9. júlí 2008 og lánið verið greitt út 21. sama mánaðar. Því hafi verið nægur tími fyrir nefndarmenn til að koma athugasemdum sínum að en nefndin hefði samþykkt sambærilega lánveitingu til Fons 11. júní 2008 sem fól í sér álíka áhættu fyrir bankann. Lánveitingin sem í ákæru greinir hafi verið innan viðskiptamarka og allra lánareglna bankans. Þá kvað hann að sér væri enn óljóst hvaða reglur bankans hann ætti að hafa brotið. Hann lýsti því að hann hefði treyst vinnu starfsmanna bankans sem komu að málinu. Fyrir lá að komið var á samkomulag milli Aurum Holdings Limited (hér á efir nefnt Aurum) og Damas LLC (hér á eftir nefnt Damas) um sölu á hlut í fyrirtækinu til Damas. Samtímagögn sýni að full alvara var í þeim viðskiptum. Rammasamkomulagið skipti máli, þótt lánveitingin, stæði ekki eða félli með samkomulaginu. Verðmæti Aurum var til staðar hvort sem af viðskiptunum yrði eða ekki. Bankinn hefði fengið mikið af gögnum um fyrirtækið, m.a. uppfærða fimm ára áætlun sem hefði fengið meðhöndlun í fyrirtækja- og lánanefnd bankans. Engin gögn sem bankinn hafði eða vinna innan bankans gaf annað til kynna en að verðmæti veðandlagsins stæði undir láninu. Hann hafnaði því að hann hefði látið undan fortölum og þrýstingi. Hann kvað viðskiptalegu forsendur lánveitingarinnar þessar: Ótryggð áhætta Glitnis á Fons ehf. minkaði um 2,25 milljarða króna með uppgreiðslu fyrirliggjandi láns og lækkun á tryggingargjaldi í markaðsviðskiptum. Þá var lánveitingin liður í að bæta stöðu bankans gagnvart Fons sem var í samræmi við önnur verkefni innan bankans á þessum tíma. Þá hafi áhætta bankans færst frá óskráðu eignarhaldsfélagi yfir á undirliggjandi eign sem var í góðum rekstri með öflugt stjórnendateymi. Þetta fyrirkomulag hafi verið í samræmi við það sem aðrir bankar gerðu á þessum tíma. Þá hafi skipt miklu máli fyrir Glitni að með þessu fyrirkomulagi hafi náðst stjórn á gjaldeyriseign á móti lánum í krónum.

            Ákærði kveðst hafa starfað í sextán mánuði sem forstjóri Glitnis banka þar af hafi tólf mánuðir í raun verið krísustjórn vegna alþjóðlegrar fjármálakreppu. Hann kvaðst hafa tekið allar ákvarðanir af heilindum og heiðarleika og ávalt með hagsmuni bankans í huga. Hann hefði aldrei haft persónulega hagsmuni af málum sjálfur. Hann hafi ekki átt hlut í bankanum og aldrei hagnast persónulega á ákvörðunum sem hann tók í starfinu. Hann tók fram að hvorki hann né aðrir starfsmenn bankans hafi, frekar en þeir sem standa frammi fyrir viðskiptaákvörðunum í dag, getað tryggt að öll mál fengju farsælan endi. Hann kvað staðreyndina þá að hefði áætlun Aurum gengið eftir hefði ákærði og aðrir sem unnu að málinu líklega fengið jákvæða umsögn fyrir að koma veðböndum á Aurum og tryggja hagsmuni bankans sem þannig varð framar öðrum skuldheimtumönnum Fons. Hann þekki afdrif kröfunnar en hún virðist ekki hafa fengið farsælan endi fyrir bankann að sögn ákærða.

            Spurður um stefnu bankans sumarið 2008 gagnvart útlánum kvað ákærði bankann þá hafa verið í því umhverfi sem þá ríkti og reynt að halda sjó en erfitt hafi verið að nálgast fjármagn í erlendri mynt. Það sama átti ekki við um íslenskar krónur. Ávallt hafi verið gætt aðhalds í útlánum. Hann kvaðst allan starfstíma sinn hjá bankanum hafa farið að reglum hans. Hann kvað þá meðákærða Magnús Arnar hafa verið samstarfsmenn til margra ára. Einnig áður en þeir hófu störf hjá Glitni. Hann lýsti einnig tengslum við meðákærða Bjarna. Hann lýsti tengslum við meðákærða Jón Ásgeirs sem hafi verið viðskiptamaður Landsbankans í London er ákærði starfaði þar.

            Ákærði kvað Fons hafa óskað eftir láninu sem um ræðir en meðákærði Jón Ásgeir hafi virst hafa einhverja milligöngu. Ákærði mundi ekki eftir samskiptunum annað en það sem hann hafði lesið í gögnum málsins. Hann mundi ekki eftir þrýstingi frá meðákærða Jóni Ásgeiri um að lánið yrði veitt. Meðákærði Jón Ásgeir fékk hluta fjárhæðarinnar sem Fons fékk eins og lýst er í ákærunni. En ákærði kvað þetta hafa verið vegna skuldar Fons við meðákærða Jóns Ásgeir. Ákærði kvað lánsfjárhæðinni hafa verið ráðstafað eins og lýst sé í ákærunni. Pálma Haraldssyni hafi ekki verið lofað skaðleysi í viðskiptum við bankann tengdum þessu máli.

            Spurður um ákvörðum við lánveitinguna, sem í ákæru greinir, vísaði ákærði til bókunar áhættunefndar bankans þar sem segir að ákvörðunina hafi ákærði tekið ásamt meðákærða Magnúsi Arnari og Rósant Má. Ákvörðunin hafi verið staðfest á fundi áhættunefndar 9. júlí 2008. Með staðfestingu lánveitingarinnar í áhættunefnd þennan dag hafi nefndin öll samþykkt lánveitinguna. Ástæða þess að meðákærði Magnús Arnar og Rósan Már samþykktu lánveitinguna fyrir fund áhættunefndar hafi verið sú að þeir þrír hafi þekkt málið best innan bankans og vegna fyrirhugaðrar fjarveru þeirra var samþykktin bókuð sem millifundasamþykkt sem staðfest var á fundi áhættunefndarinnar 9. júlí 2008. Þetta sé ástæða þess að málið var afgreitt með þessum hætti. Auk þess benti ákærði á að málið hefði í raun komið fyrir hjá áhættunefndinni áður eins og áður var rakið og neitaði ákærði því að samþykki milli funda hefði verið gert í þeim tilgangi að sniðganga umfjöllun áhættunefndar bankans. Hann mundi ekki hvort fyrirhugað var að taka málið fyrir á fundi áhættunefndar 9. júlí 2008 eða hvort málið var á dagskrá nefndarinnar þann dag. Hann kvað málið hafa verið til umfjöllunar innan bankans frá því í maíbyrjun 2008 og verið í vinnslu innan bankans síðan. Hann lýsti samskiptum við starfsmenn bankans sem unnu að málinu áður en lánabeiðnin var útbúin. Hann lýsti því hvernig málið var unnið innan bankans uns það var komið í þá mynd sem samþykkt var og ákærði var sáttur við.

            Spurður um lánveitingasamþykktir milli funda almennt kvað ákærði allan gang á því og lýsti hann því hvernig slíkt hafi gengið fyrir sig. Iðulega hafi verið sendir tölvupóstar vegna þessa en einnig hafi samþykktir átt sér stað í samtölum manna. Ekki hafi verið áskilnaður um það í reglum bankans að samþykki milli funda yrði staðfest með tölvupósti.

            Spurður um tryggingu bankans vegna lánveitingarinnar vísaði ákærði til fyrirliggjandi gagna. Einkum hafi verið litið til hlutabréfanna í Aurum. og sjálfskuldarábyrgðar Fons auk krafna FS38 á Stím.

            FS38 hafi verið í áhættuflokki níu hjá bankanum. Eins og önnur eignarhaldsfélög myndi félagið greiða skuld sína við bankann með sölu eigna eða arðgreiðslum af undirliggjandi eignum. Við mat á verðmati Aurum hafi einkum verið litið til forsamnings milli Aurum og Damas sem hafði hug á því að kaupa hlut í Aurum. Ekki hafi verið lykilatriði við mat bréfanna hvort viðskiptin með bréfin, eins og forsamningurinn kvað á um, gengju eftir. Verðmat félagsins standi en forsamningurinn hafi hins vegar verið góður mælikvarði á verðmæti fyrirtækisins og sýni að verðmatið hafi verið rétt. Ákærði var spurður um þann hluta greinar 8.4 í útlánahandbók Glitnis þar sem segir að trygging skuli metin á markaðsvirði eða kaupvirði eftir því hvort sé lægra. Hann kvað útlánið í fullkomnu samræmi við reglur bankans og matið hafa verið rétt. Vísaði hann m.a. til verðmats sem unnið var innan bankans af Daða Hannessyni. Þá hafi farið fram verðmat í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis sem sýni verð á bilinu 100 til 200 milljónir punda. Þá hafi málið áður verið rætt innan bankans og fimm ára áætlun Aurum hafi legið fyrir í fyrirtækjasviði bankans. Fyrirtækið hafi því verið vel þekkt innan bankans sem var lánveitandi þess. Hann kvað verð Aurum hafa verið rétt miðað við ákvörðunartökuna sem um ræðir og að lánveitingin hafi verið í samræmi við lánareglur bankans eins og áður er fram komið. Lánabeiðnin kveður á um það að ráðgert sé að selja 19 prósent hlut í Aurum á 3 milljarða króna. Síðan átti 6 prósent hlutur sem eftir stóð að hækka úr 1,35 milljörðum króna í 3,1 milljarð króna. Spurður um þessa verðmætaaukningu, hvernig hún hafi átt að eiga sér stað, vísaði ákærði til lánamálsins. Hann kvað þetta örugglega hafa verið rætt og vegna þessa hafi komið til sjálfskuldarábyrgð Fons. Það hafi verið mat þeirra sem um málið fjölluðu innan bankans að bréfin í Aurum stæðu undir lánveitingunni eins og lýst var. Þess vegna hafi útfærsla lánsins verið eins og raun ber vitni. Með lánveitingunni hafi bankinn minnkað ótryggða áhættu bankans á Fons. Hann kvað matið á lánveitingunni hafa verið það að staða bankans hefði verið betri eftir hana en áður. Nýtt útlán hafi verið 2 milljarðar króna en áhætta bankans hafi í rauninni aukist um 1,3 milljarða eins og ákærði bar áður og er þá tekið mið af kröfunni sem greidd var vegna yfirdráttar á reikningi meðákærða Jóns Ásgeirs.

            Ákærði kvað Fons hafa verið veittur söluréttur á FS38 til bankans. Hann taldi þetta hafa komið til vegna þess að bankinn hafi við lánveitinguna krafist kaupréttar. Því hafi þetta komið inn en ekki breytt stöðunni að hans mati. Mikilvægast hafi verið fyrir bankann að hafa kauprétt til að tryggja að allt verðmæti sem myndaðist hjá félaginu umfram 6 milljarða væri tryggt bankanum. Engu breytti fyrir bankann þótt sölurétturinn yrði nýttur enda var hann einnar krónu virði.

            Spurður um stöðu Fons á þessum tíma kvað hann félagið hafa verið í skilum en einhverjar framlengingar lána félagsins hafi átt sér stað. Hann kvað stöðu slíkra félaga hafa verið þá á þessum tíma að bankinn hafi almennt reynt að styrkja tryggingastöðu sína gagnvart þeim, þar á meðal Fons. Ákærði kvaðst hafa þekkt stöðu Aurum á þessum tíma, greiningin hafi farið fram í fyrirtækjalánanefnd bankans. Félagið hafi verið með jákvæða EBITU. Hann kvað nýja stjórnendur hafa tekið við Aurum og tölur sýni gott gengi félagsins fram á sumarið 2008.

            Ákærði lýsti ráðningu sinni sem forstjóra Glitnis, launakjörum og fleiru. Hann lýsti því hvernig fulltrúar stærstu eigenda bankans gerðu tillögu um stjórnarmenn í bankanum sem kosnir voru á hluthafafundi. Eignarhald bankans hafi engin áhrif haft á ákvarðanir ákærða sem forstjóra bankans.

            Borinn var undir ákærða fjöldi tölvupósta og hann spurður um efni þeirra. Margir tölvupóstarnir sýndu samskipti einstaklinga innan bankans varðandi lánamálið sem hér um ræðir og fleira. Ekki er með góðu móti hægt að sjá hvernig margir póstarnir sem bornir voru undir ákærða og aðra undir aðalmeðferðinni tengjast málinu og verða þeir ekki raktir. Þá kvað ákærði marga tölvupóstana sýna vangaveltur um ýmislegt, margt af því hafi aldrei komist til framkvæmda og varði ekki sakarefni málsins.

            Allir ákærðu og vitni hafa borið fyrir dóminum um lánveitinguna sem um ræðir og skýrt efni tölvupósta eftir getu og eins og minni þeirra náði, eins og rakið verður. Svör ákærða verða nú rakin eins og ástæða þykir en ákærði mundi ekki efni margra póstanna eða tilefni þeirra enda langur tími liðinn. Margir tölvupóstar eru frá meðákærða Jóni Ásgeiri eða hans er getið í þeim á einhvern hátt. Ákærði kvað þrýsting frá meðákærða Jóni Ásgeiri ekki hafa haft áhrif á ákvörðun sína um mál þetta.

            Ákærði var spurður um tölvupóst er varðar frestun á afborgun á láni Fons og  áhrif á stöðu lántakanda ef fresta þarf afborgunum á lánum hans hjá bankanum. Ákærði kvað þetta ekki hafa nein áhrif væru venjulegar ástæður fyrir þessu. Spurður hvort Fons hafi verið í vanskilum á þessum tíma kvað ákærði mörg eignarhaldsfélög hafa verið í lausafjárvandræðum á þessum tíma. Hins vegar færi fram sífellt mat á því hvernig eign félaganna stæði og hvort þau stæðu undir skuldum. Mál þetta snúist um það að hans mati. Þótt svona standi á hjá viðskiptamanni sé fullkomlega heimilt samkvæmt reglum bankans að veita honum ný lán, einkum ef með því sé talið að verið sé að bæta stöðu bankans.

            Samkvæmt fundargerð áhættunefndar bankans frá 9. júlí 2008 var lánabeiðnin ekki tekin fyrir undir lið 10 eins og boðað hafði verið, heldur undir lið 12. Ákærði kvaðst ekki hafa munað eftir fundinum en hann virðist hafa hringt inn samkvæmt bókun á fundinum. Hann kvað að svo virtist sem hann hefði hringt úr öðrum síma en sínum eigin þar sem þetta símtal væri ekki á lista yfir símtöl ákærða þennan dag. Upphaflega var send út dagskrá fundarins 9. júlí en dagskránni síðan breytt og bókað á fundinum að lánaákvörðun hafi verið samþykkt milli funda. Ákærði kveðst ekki geta skýrt þessa breytingu en hann minnti að fram hefði komið í yfirheyrslu Guðrúnar að hún hefði gleymt einhverju er dagskrá þessa fundar var send út. Það skýri hvers vegna dagskrá fundarins breyttist að þessu leyti. Ákærði kvað alltaf hafa staðið til að leggja lánabeiðnina fyrir fundinn 9. júlí. Hvers vegna það var gert með þeim hætti sem gert var hljóti að skýrast af því að einhverjar aðstæður hafi komið upp sem leiddu til þess að Guðrún, sem ritaði fundargerð, hafi talið og spurt hvort ekki væri búið að samþykkja málið milli funda og því spurning hvort ekki ætti að bóka afgreiðsluna eins og gert var. Ákærði kvað bókunina á fundinum sýna að þeir meðákærði Magnús og Rósan Már hafi tekið ákvörðunina um lánveitinguna til FS38 sem í ákæru greinir en lánveitingin hafi síðan verið staðfest á fundi áhættunefndarinnar 9. júlí. Hann mundi ekki hvernig þessi ákvörðun hafi verið tekin milli funda. Hvort það hafi verið gert með tölvupóstum, sem algengt var, en einnig hafi samþykktir verið gerðar á annan hátt og skýrði hann það. Hann kvað samþykki áhættunefndarinnar vera til þess að tryggja að ákvörðun um lánveitingu sé tekin á faglegum grunni. Hún staðfesti að allir hefðu verið sáttir við afgreiðsluna. Ákærði kvað áhættunefndina alla hafa samþykkt lánveitinguna með staðfestingunni á fundinum og eftir það hafi málið farið í áframhaldandi úrvinnslu innan bankans. Hafi einhver nefndarmanna áhættunefndar verið ósáttur við málið hafi verið auðvelt fyrir viðkomandi að koma að mótmælum þar sem lánið hefði ekki verið greitt út fyrr en nokkru síðar. Ákærði tók fram að málið hafi á þessum tíma verið nokkuð þekkt innan bankans enda hafi það verið tekið fyrir fyrr um sumarið og vitað var að hópur manna innan bankans hafði unnið að málinu og að endanlega úrlausn hafi verið sú sem afgreidd var á þessum fundi, eins og áður hefur verið rakið. Ákærði kvað koma sér á óvart að Rósant Már hafi neitað því að hafa samþykkt lánveitinguna. Hann kvaðst aldrei hafa orðið þess áskynja að Rósant Már væri andvígur lánveitingunni og vísaði ákærði í því sambandi til tölvupóstsamskipta þeirra sem sýni að komin hafi verið á sátt um afgreiðslu málsins innan bankans. Þá kvaðst ákærði ekki minnast þess að gögn væru til um það sem sýndu að Rósant Már hefði óskað eftir því að nafn hans yrði fjarlægt af samþykktinni.

            Ákærði varð spurður um 3. gr. siðareglna áhættunefndar sem hljóðar svo: ,,Nefndin skal koma saman reglulega en getur fundað að beiðni nefndarfulltrúa eða þegar þörf krefur. Þegar þörf krefur og eingöngu þegar ákvarðanir geta ekki beðið til næsta reglulega fundar er hægt að leita eftir flýtimeðferð með tölvuskeyti. Ákvörðunina skal staðfesta á næsta reglulega fundi.Tvo fulltrúa þarf til að samþykkja hverja ákvörðun og skal annar vera fulltrúi fjármálasviðs eða forstjórinn.“

            Ákærði kvað ekki skilgreint í reglunum hve brýn þörfin þyrfti að vera í þessu sambandi. Hann skýrði ástæðu millifundasamþykktarinnar á sama hátt og að framan greindi. Þeir aðilar sem unnu að málinu hafi verið að fara í frí og málið hafi verið samþykkt á þennan hátt af þeim sem þekktu það best og því hafi málið verið bókað eins og  raun bar vitni. Ákærði kvað millifundasamþykktir hafa verið algengar á fundum áhættunefndar og ein til tvær slíkar hafi verið teknar fyrir á hverjum fundi nefndarinnar.

            Ákærði kvað reglur markaðsviðskipta ekkert hafa með þetta mál að gera og skýrði hann það nánar. Hér væri verið að fjalla um lán á móti óskráðum hlutabréfum. Þau viðskipti sem hér um ræðir væru allt önnur en markaðsviðskipti þar sem verið væri að fást við markaðsveðbréf sem væru á skráðum markaði.

            Meðal gagna málsins er samningur um kaup- og sölurétt. Ákærði mundi ekki hvort bankinn hefði verðmetið kaupréttinn sem bankinn hafði sem viðbótartryggingu. Hann kvað það ekki hafa verið gert en bankinn hefði séð að með kaupréttinum gæti bankinn náð stjórn á eigninni sem um ræðir en verðmæti væru fólgin í slíkum kauprétti. Hefði samningurinn um kaup Damas gengið eftir hefði það haft þau áhrif að verðmæti félagsins hefði hækkað. Hann kvað neðra gildið við mat bankans það að verðmæti Aurum stæði undir 4,25 milljörðum króna þótt ekki yrði af Damasviðskiptunum. Hann skýrði að það hefðu ekki verið hagsmunir Baugs að verð á Aurum yrði metið sem hæst enda hafi Baugur ekki verið að selja sína eign í Aurum. Hagsmunirnir hefðu verið þeir að af Damasviðskiptunum yrði. Það að þrýsta á hærra verð voru því, eins og á stóð, ekki hagsmunir Baugs. Bankinn hefði því metið Aurum svo að félagið gæti staðið undir 4,25 milljörðum króna án Damas en ef af þeim viðskiptum yrði gæti Aurum staðið undir 6 milljörðum króna.

 

            Ákærði Magnús Arnar neitar sök. Hann kvaðst hafa hafið störf hjá Glitni banka í maí 2007. Haustið 2007 tók hann að starfa á fyrirtækjasviði og í maí 2008 tók hann við sem framkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs. Hann kvað milli 25 og 30 starfsmenn hafa starfað á fyrritækjasviði bankans, allir hefðu verið sérfræðingar á sínu sviði og með lengri starfsaldur þarna en ákærði. Hann kvaðst ekki hafa unnið að fjármögnun bankans en sumarið 2008 hafi verið dregið úr útlánum í erlendum myntum.

            Hann lýsti kynnum þeirra meðákærða Lárusar sem réð ákærða til bankans en ákærði kvað þá áður hafa starfað saman hjá Landsbankanum. Hann þekkti ekki til meðákærða Jóns Ásgeirs. Ákærði kvað áhættunefnd bankans hafa samþykkt lánveitinguna til FS38 en þeir meðákærði Lárus og Rósant Már hefðu samþykkt lánveitinguna fyrir fund og áhættunefnd staðfest hana á fundi 9. júlí 2008, eins og fundargerð beri með sér. Hann kvað það ekki hafa haft neina merkingu þótt samþykki þeirra þriggja hafi farið fram á milli funda en hann mundi ekki aðdraganda samþykkisins og vissi ekki hvernig lánveitingin milli funda var samþykkt, hvort það var gert með tölvupósti eða á annan hátt. Hann kvaðst þekkja reglur bankans sem lúta að samþykki milli funda. Hann kvað málið líta svo út, samkvæmt dagskrá fundar áhættunefndar 9. júlí 2008, að fyrirhugað hafi verið að taka málið fyrir á fundinum eins og dagskráin beri með sér. Ákærði var á fundinum en mundi ekki eftir umfjöllun um lánið. Spurður hvers vegna afgreiðsla lánamálsins hafi ekki mátt bíða afgreiðslu nefndarinnar 9. júlí kvaðst hann ekki muna það en vísaði til þess að það hafi ekki virst standa til annað en að taka málið fyrir á fundinum, eins og útsend dagskrá fundarins beri með sér. Sá háttur sem hafður var á hafi ekki verið í því skyni að sniðganga umfjöllun áhættunefndar. Hann vissi ekki hver bað um lánið fyrir hönd FS38. Ákærði kannaðist við tölvupósta þar sem meðákærði Jón Ásgeir kom við sögu en hann vissi ekki um aðdraganda lánveitingarinnar eða hvort þrýst hefi verið á hana. Ákærði kvaðst ekki hafa útbúið lánamálið. Hann kvað endurgreiðslu lánsins hafa verið tryggða með veði í hlutbréfum Aurum og með sjálfskuldarábyrgð Fons. Hann hafi vitað það um stöðu FS38 sem fram kom í umfjöllun um málið innan bankans en FS38 hafi átt kröfu á Stím. Hann kvað áhættuflokk FS38, sem var eignarhaldsfélag, hafa verið átta samkvæmt lánabeiðninni en samkvæmt lánveitingunni hafi hann verið níu. Hann kvaðst ekkert hafa vitað um framvindu viðskiptanna við Damas en hann mundi ekki hvort hann vissi af forsamningnum. Hann vissi ekki hvernig mat var lagt á verðmæti trygginga í Aurum en matið hafi verið talið í eðlilegum farvegi eins og fyrri afgreiðslur málsins innan bankans.

            Spurður um þá ætlan bankans að sex prósenta hlutur hækkaði í 3,1 milljarð króna hafi verið mat seljandans sem hafi verið í ábyrgð fyrir þessum mun og það hafi verið metið nægjanlegt. Hann kvað ekki hafa skipt máli hvort þessi eignarhlutur hækkaði eða ekki þar sem Fons hafi verið í ábyrgð fyrir þeim mismun sem um ræðir. Þannig hafi trygging verið í lagi. Bankinn hafi verið eins settur með sjálfsskuldarábyrgð Fons vegna þessa og með beinni kröfu á félagið.

            Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um stöðu Fons umfram það sem fram kom í umfjölluninni um málið í bankanum. Hann kvaðst hafa fjallað um stöðu Aurum í lánanefnd og hafi staða félagsins virst vera góð. Hann kvaðst ekki muna hvernig andvirði lánsins sem um ræðir var ráðstafað en vísaði um það til lánabeiðninnar. Hann kvaðst hafa talið stöðu bankans betri eftir lánveitinguna til FS38.

            Hann mundi ekki eftir umræðum á fundi lánanefndarinnar 9. júlí 2008 um málið en þetta lánamál hafi verið mjög líkt lánamáli sem lagt var fyrir áhættunefnd og samþykkt í júní 2008, nánast eins. Málið hafi því ekki verið breytt nema að litlu leyti. Ákærði kvað að miðað við bókun fundarins 9. júlí 2008 hafi þeir ákærði Lárus og Rósant Már ákveðið lánveitinguna til FS38 og áhættunefndin hafi síðan staðfest samþykktina. Ákærða var gerð grein fyrir því að Rósant Már hefði neitað að hafa samþykkt lánveitinguna milli funda. Ákærði kvað tölvupóst frá Rósant Má, frá 14. júlí 2008, þar sem hann samþykkir hærri yfirdrátt til ákærða Jóns Ásgeirs vegna þess að Jón Ásgeir væri að bíða eftir peningum sem kæmu út úr lánveitingunni sem hér um ræðir, sýna að neitun Rósants Más á samþykkinu væri ekki trúverðug í ljósi samþykkis hækkunar yfirdráttarins. Auk þessa hafi Rósant Már fengið senda dagskrá fundar áhættunefndar 9. júlí 2008 og hann hefði því getað komið að athugasemd hefði hann ekki verið samþykkur lánveitingunni eins og gögnin beri með sér að hann hafi verið.

            Ákærði var spurður hvernig hlutabréfin í Aurum hefðu verið metin út frá reglum um markaðsviðskipti. Ákærði lýsti markaðsviðskiptum og kvað hér um allt annað mál að ræða en bein útlán á móti eignum. Allt önnur sjónarmið ættu við en þegar um markaðsviðskipti væri að ræða.

            Ákærði vissi ekki hvenær forsamningurinn lá fyrir í bankanum en kvað ekki hafa skipt máli hvort viðskiptin samkvæmt honum ættu sér stað eða ekki. Það sem máli skipti fyrir bankann var verð bréfanna í Aurum og verðmatið hafi því verið það sem skipti bankann máli.

            Ákærði kvað ekkert óvenjulegt hafa verið við þessa lánveitingu miðað við aðrar lánveitingar sem ákærði kom að hjá bankanum.

 

            Ákærði Jón Ásgeir neitar sök. Í upphafi skýrslutökunnar gerði hann nánar grein fyrir neitun sinni og afstöðunni til sakarefnisins. Hann kvaðst hafa haft stöðu grunaðs manns í 12 ár hjá embætti sérstaks saksóknara og fyrirrennara þess og lýsti hann þessu nánar. Hann gerði athugasemdir við rannsókn máls þessa og gögn sem fylgdu ákæru málsins og kvað þar hafa vantað upp á. Ekki hafi verið gætt hlutlægni við rannsóknina. Hann skýrði hvers vegna hann kaus að gefa ekki skýrslu hjá lögreglunni undir rannsókn málsins. Hann kvað ástæðuna slæma reynslu sína af því og skýrði hann það frekar. Ákærði kvaðst telja með ólíkindum að sækjandinn hafi haldið undan lykilgögnum í málinu og fann að því að rannsakendur hefðu ekki leitað eftir gögnum þrátt fyrir ábendingar þar um. Nefndi hann í því sambandi starfsmenn Kaupþings um að skoða gögn sem unnin voru hjá bankanum við það verkefni bankans að koma að sölu hlutar í Aurum til Damas þar sem verðmatið var 121 milljón punda. Þá vísaði ákærði á önnur gögn sem skipta máli við verðmatið á Aurum og ákæruvaldið lagði ekki fram að hans sögn. Ákærði kvaðst engin yfirráð hafa haft varðandi það hvernig Glitnir tók á lánamálum en kvað ekkert óeðlilegt við að ýtt væri á eftir svörum í bankanum og ekkert óeðlilegt við það að ákærði, sem á þessum tíma var stjórnarformaður Baugs, hefði komið að því hvernig viðskiptin urðu með hlut í félagi þar sem Baugur var leiðandi hluthafi. Þá kvað hann engin svik hafa átt sér stað við lánveitinguna sem í ákæru greinir.

            Ákærði kvaðst hafa verið óbeinn hluthafi í bankanum á árinu 2008 gegnum eignarhaldsfélagið FL Group og Baug. Þessi fyrirtæki hafi haft atkvæðisrétt upp á 32,9 prósent í bankanum. Ákærði kveðst ekki geta lýst aðdraganda lánsins til FS38. Hann lýsti því að samkvæmt gögnum málsins hafi undirbúningur lánveitingarinnar hafist í maí 2008. Aðkoma sín að málinu hófst eftir að málið var komið af stað. Ástæðan var sú að lánveitingin tengdist eign Baugs, þ.e. Aurum, og fyrirhuguðum viðskiptum með hlut í félaginu. Hann kvað Fons hafa leitað eftir viðskiptunum og að síðari aðkoma sín hafi tengst viðskiptunum með hlutabréf í Aurum. Hann kveðst aldrei hafa haft aðstöðu til að hafa áhrif á lánamál hjá bankanum. Ekki þessa máls fremur en annarra. Hann hafi ekki fengið neina sérmeðferð í bankanum og ef eitthvað væri þá hafi hann fengið verri þjónustu en í sambærilegum bönkum hér á landi. Hann kvaðst ekkert saknæmt felast í því að varpa fram hugmyndum. Lánamál sem þetta „spretta ekki upp á borðið hjá bankamönnum“. Málið eigi rætur að rekja til hugmynda viðskiptavina. Hugmyndir sem ákærði setti fram í þessu máli séu ekki ólíkar hugmyndum sem hann hafi sett fram í öðrum málum. Gögn málsins beri með sér að endanleg afgreiðsla lánsins hafi verið langt frá hugmyndum ákærða en mál sem þetta gangi á milli manna þar til endanleg niðurstaða er fengin um lánveitinguna. Hann viti ekki hvernig lánveitingin sem um ræðir var samþykkt í bankanum og hann viti ekki hvaða gögn bankinn hafði þegar lánveiting var ákveðin en tók fram að bókfært markaðsvirði Aurum hjá Baugi endurspeglaði ekki markaðsverðmæti félagsins.

            Ákærði kvaðst lítið hafa vitað um FS38 utan að það var eignarhaldsfélag. Niðurstaða málsins hafi verið meðal annars sú að Pálmi Haraldsson fengi fjármuni í hendur. Fons hefði lofað að kaupa skuldabréf af eignarhaldsfélagi ákærða, Þú Blásól, og það hafi greiðst upp er Fons fékk peningana í hendur. Fyrir mistök hafi fjármunirnir hins vegar verið greiddir inn á reikning ákærða í stað eignarhaldsfélagsins. Ákærði kveðst hafa ráðstafað fjármununum fyrir hönd Þú Blásólar en yfirdráttur hans í bankanum hafi verið greiddur upp enda kvaðst ákærði áður hafa lagt út fjármuni fyrir Þú Blásól. Þótt þetta lánamál hefði ekki komið til hefði Fons staðið við loforðið enda hefði Fons ekki verið eignarlítið félag á þessum tíma. Hann kvaðst ekki hafa heildaryfirsýn yfir stöðu Fons en kvað félagið hafa selt eignir í ágúst fyrir tugi milljarða króna og fengið á sjöunda milljarð króna í lausu fé út úr sölunum.

            Ákærði lýsti tengslum Baugs við Fons og sameiginlegum verkefnum félaganna. Verkum hafi verið skipt milli þeirra með hliðsjón af því hver var aðalfjárfestir viðkomandi félags. Baugur hafi verið það varðandi Aurum og þess vegna hafi Baugur „leitt vagninn í því máli“. Þetta skýri aðkomu Baugs að málinu en ákærði kvað Baug hafa séð mikil verðmæti í Aurum og Baugur hafi ekki viljað selja sinn hlut í félaginu því talið hafi verið að verðmæti félagsins myndi hækka við aðkomu Damas að því og skýrði ákærði þetta nánar. Hann kvað forsamning milli Aurum og Damas hafa verið undirritaðan í júní um kaup Damas á hlut í Aurum. Framvinda málsins hafi síðan farið í eðlilegan farveg eftir undirritun forsamningsins, þá hefjist áreiðanleikakönnun og fleira, en samningsaðilar hafi komið sér saman um verð, stjórnarhætti og fleira. Eftir undirritun forsamningsins hafi Damas lánað Aurum verðmætan skartgripalager á góðum kjörum þar sem Damas taldi að þeir væru að eignast hlut í Aurum. Ákærði kvað ljóst að ekki væri farið í slíka samningagerð og vinnu tengda henni nema alvara fylgdi, enda kostnaður mikill. Venjan væri sú að forsamningsgerð væri undanfari samnings milli aðila þótt það hafi ekki verið í máli þessu vegna aðstæðna sem síðar sköpuðust og megi rekja til force majeure aðstæðna sem sköpuðust á mörkuðum. Verð í forsamningi standi yfirleitt þótt smávægileg frávik kunni að eiga sér stað. Það komi m.a. fram í fundargerð Baugs, í september 2008, að vinna við þetta hafi verið í gangi. Hann lýsti því hvernig vermæti Aurum var ákvarðað í forsamningnum og tók fram að það hefðu ekki verið hagsmunir Baugs að hafa verðmæti Aurum of hátt. Verðið sem miðað var við í samningnum hafi verið fremur lágt og skýrði ákærði það. Reiknað hafi verið með því að verðið hækkaði eftir aðkomu Damas. Hann kvað stöðu Aurum hafa verið góða á þessum tíma og skýrði það nánar.

 

            Ákærði Bjarni neitar sök. Hann kvaðst hafa verið viðskiptastjóri á fyrirtækjasvæði Glitnis á þeim tíma sem í ákæru greinir. Meðákærði Magnús Arnar hafi verið yfirmaður hans frá því í maí 2008. Ákærði hafi borið ábyrgð á samskiptum við hóp fyrirtækja og hans starf hafi falist í því að annast viðskipti vegna félaganna. Hann hafi komið óskum viðskiptavina til lánastjóra. Fyrirtækin hafi verið af ýmsum toga og greindi ákærði frá þessu en ákærði hefði m.a. verið viðskiptastjóri Baugs, Fons og FS38. Hann kvaðst ekki vita stöðu bankans varðandi ný útlán sumarið 2008 en ákærði kvaðst ekki hafa starfað á „útlánahliðinni“ eins og hann bar. Hann kvaðst í starfi sínu hafa starfað í samræmi við reglur bankans. Hann kvaðst hafa átt samskipti við meðákærða Jón Ásgeir vegna fyrirtækjanna sem hann stýrði. Spurður um ákvörðunina um að lána FS38 6 milljarða króna kvað hann meðákærðu Lárus og Magnús Arnar hafa tekið þá ákvörðun ásamt Rósant Má og öðrum meðlimum áhættunefndar bankans. Hann kvaðst fyrst hafa heyrt af lánamáli þessu og aðdraganda þess í maí 2008. Hann hefði að litlu leyti komið að málinu. Aðkoma hans hafi ekki komið frá neinum sérstökum heldur hafi málið komið frá viðskiptavinum og farið síðan í vinnslu innan bankans. Ákærði kveðst ekki hafa farið fram á það við nefndarmenn áhættunefndar að lánveitingin, sem um ræðir, yrði samþykkt á milli funda og hann viti ekki hvernig lánveitingin var samþykkt. Hann kvaðst vita hvað þyrfi til að mál væri samþykkt milli funda en tvo meðlimi áhættunefndar þyrftu til og annar yrði að vera formaður eða varaformaður nefndarinnar. Ákærði kvað lánamálið til FS38 hafa verið á dagskrá fundar áhættunefndar 9. júlí 2008 og til stóð að taka málið fyrir þar. Pálmi Haraldsson hefði beðið um lánið fyrir hönd FS38 sem var eignarhaldsfélag. Spurður um það hvort meðákærði Jón Ásgeir hefði komið að málinu kvað ákærði það hugsanlegt. Hann tók fram að breyta hafi átt hluthafahópi í félagi sem Baugur hafi átt stærstan hlut í og skýrði hann hugsanlega aðkomu meðákærða Jóns Ásgeirs með hliðsjón af því og kvað mikilvægt að ekki væri órói meðal hluthafahópsins meðan á sölu stæði. Meðákærði Jón Ásgeir hafi ekki þrýst á ákærða um veitingu lánsins. Hann kvað það engin áhrif hafa haft á afgreiðslu mála, þar sem meðákærði Jón Ásgeir kom að málum, þótt hann hafi verið í fyrirsvari fyrir stærsta hluthafa bankans. Hann kvað það hafa geta komið til að hann yrði kallaður til að kynna mál og hann hafi reiknað með því í fjarveru lánastjóra. Hann kvaðst ekki muna hver greindi honum frá samþykki lánveitingarinnar milli funda. Hann kvað ekki hafa staðið þannig á í málinu að afgreiðsla þess gæti ekki beðið næsta fundar áhættunefndar. Hann kvað endurgreiðslu lánsins hafa verið tryggða með veði í hlutabréfum í Aurum og með sjálfsskuldarábyrgð Fons. Ákærði neitaði því að hafa vitað að verðmæti Aurum hefði verið lægra en gengið hefði verið út frá í lánabeiðninni. Hann kvað formleg möt hafa legið fyrir sem gáfu verðið til kynna.

            Ákærði kveðst ekki hafa verið upplýstur um það hvernig viðskiptin við Damas gengu. Hann kvað forsamninginn milli Damas og Aurum hafa legið fyrir í bankanum er lánið til FS38 var veitt. Félögin sem stóðu að forsamningnum hafi verið sammála um verðið sem miða skyldi við í fyrirhuguðum viðskiptum með bréfin í Aurum. Ákærði kvað sex prósenta hlutinn í Aurum sem eftir stóð hjá FS38 hafa þurft að hækka í 3,1 milljarð króna. Til að tryggja bankann vegna þessa hafi Fons gengist í ábyrgð. Ákærði skýrði að samlegðaráhrif af viðskiptunum hefðu gefið von um þetta og skýrði hann það nánar. Hann mundi ekki eftir skuldastöðu Fons gagnvart bankanum á þessum tíma en hann lýsti uppgjöri framvirkra samninga við Fons á þessum tíma sem bættu stöðu bankans og skýrði ákærði það nánar. Hann kvað stöðu bankans hafa verið betri eftir lánveitinguna til FS38 en fyrir hana og skýrði það mat sitt. Spurður um kauprétt og sölurétt sem komi hafi til síðar vissi ákærði ekki um tilurð þessa. Hann kvað kaupréttinn hafa komið frá fjármálastjóra bankans. Hugsunin var sú að ef greiðsla bærist næði bankinn tangarhaldi á félaginu en ef tap yrði þá yrði hugsanlega hægt að nýta það til skattaafsláttar. Ákærði kvað andvirði lánsins hafa verið ráðstafað eins og í ákærunni greinir nema að hluti fjárhæðarinnar hafi verið greiddur inn á reikning Fons en ekki meðákærða Jóns Ásgeirs. Ákærði vissi þó ekki hvort Fons greiddi meðákærða Jóni Ásgeiri.

            Ákærði Bjarni kvað lánamál þetta ekki frábrugðið öðrum sem hann kom að hjá bankanum og algengt væri að lánamál hefðu verið unnin í samvinnu við fulltrúa áhættunefndarmanna. Ákærði kvað ástæðu þess að hann vann lánabeiðnina sem um ræðir fyrir fund áhættunefndarinn 9. júlí 2008 hafa verið þá að hann hafi þurft að ganga í þetta starf lánastjóra sem kominn var í sumarfrí. Ákærði hafi þá tekið gömlu lánabeiðnina og uppfært hana í samræmi við nýja tillögu sem samin var með meðákærðu Lárusi og Magnúsi Arnari og Rósant Má á fundi. Ákærði kveðst hafa útbúið lánabeiðnina byggða á lánabeiðni sem Guðný Sigurðardóttir hefði gert í júní. Hann hefði þannig uppfært hina nýja tillögu miðað við þá fyrri. Hann hafi beðið um að málið færi fyrir fund áhættunefndar 9. júlí og það yrði að vera aftarlega á dagskrá fundarins. Ástæða þessa kvað ákærði vera þá að hann hafi þurft að fara til læknis þennan dag og hann hafi viljað vera kominn til vinnu til þess að gera grein fyrir tillögunni, ef hann þyrfti þess.

            Ákærði kvað bókfært verð ekkert segja til um raunverulegt verð eignar. Hvergi komi fram í lánahandbók að miða eigi við bókfært verð eigna.

 

            Vitnið Alexander Kristján Guðmundsson var fjármálstjóri hjá Glitni fram í maí 2008. Hann bar ábyrgð á reikningshaldi, áhættustýringu og fjármögnun. Hann sat í áhættunefnd bankans. Hann lét af störfum bankanum í maí 2008 og hætti á sama tíma í áhættunefnd. Hann skýrði að hann hefði ekki forsendur til að svara spurningum um það hvort breyting hefði orðið á starfsemi bankans við ráðningu ákærða Lárusar Welding. Hann lýsti starfslokum sínum hjá bankanum og ástæðum þeirra. Hann lýsti því hvernig staðið var að samþykki áhættunefndar milli funda. Að jafnaði hafi einhver sem fór með viðkomandi mál, líklega lánstjóri, óskað eftir afgreiðslu milli funda. Það hafi verið gert með beinum samskiptum viðkomandi eða með tölvupóstum eftir atvikum. Hann taldi að að jafnaði hefði beiðni verið send á alla nefndarmenn áhættunefndar og viðkomandi nefndarmenn hefðu samþykkt. Afgreiðsla milli funda væri borin upp á næsta fundi á eftir og afstaða nefndarmanna en ekkert hafi útilokað umfjöllun nefndarmanna um viðkomandi millifundasamþykkt. Spurður um mat á þörfinni fyrir millifundasamþykkt, samkvæmt 3. gr. siðareglnanna, kvað hann það mat hafa verið huglægt hverju sinni. Hann kvaðst lítið vita um aðdraganda lánveitingarinnar sem ákæra málsins lýtur að. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við það að millifundasamþykktir hafi verið notaðar til að sniðganga áhættunefndina. Hann kvað breytingar eða frestun afborgana þýða að viðkomandi félag væri þá ekki í vanskilum og slík staða þyrfti ekki að útiloka ný lán til viðkomandi.

            Vitnið Rósant Már Torfason gegndi yfirmannsstöðu á fjárfestingarbankasviði Glitnis í árbyrjun 2008. Hann var fjármálastjóri frá 20. maí 2008 og gegndi því starfi uns bankinn féll. Hann átti sæti í áhættunefnd bankans frá apríl 2008 og sat í nefndinni fram að falli bankans. Hann kvað starfsmenn bankans hafa reynt að minnka efnahagsreikning bankans á árinu 2008 og halda aftur af útlánum, þó fremur í erlendri mynt. Hann minnti að samþykki milli funda áhættunefndar hefði gerst þannig að erindi hafi verið sent til áhættunefndarmanns, stundum allra, og stundum minni hóps, þar sem óskað hafi verið eftir samþykki fyrir beiðninni. Beiðninni hafi síðan verið svarað í tölvupósti og hún samþykkt eða henni synjað eða menn hafi hist á fundi vegna slíks erindis. Hann kvað engin sérstök skilyrði hafa verið til að leita eftir samþykki milli funda en almennt hafi verið litið á þetta svo að samþykki milli funda ætti sér stað ef þess þyrfti og erindið gæti ekki beðið næsta fundar. Hann mundi ekki eftir umræðu á fundi áhættunefndar er millifundasamþykktir voru staðfestar eins og reglur bankans kveða á um. Hann kvað það ekki útlokað og nefndarmenn gætu neitað staðfestingu millifundasamþykkta og komið andmælum sínum á framfæri, einkum ef ekki var búið að greiða lán út. Spurður um aðkomu sína að lánveitingunni sem hér um ræðir lýsti hann setu sinni á lánanefndarfundi 4. og 11. júní 2008 þar sem málið var borið upp með aðeins öðrum hætti en afgreiðslan 9. júlí 2008. Til grundvallar við mat hlutabréfa í Aurum á fundinum 11. júní og síðan 9. júlí 2008 hafi verið greint frá áhugasömum kaupendum á Aurum og að verðið þar væri áþekkt verðinu sem miðað var við. Hann lýsti samþykki áhættunefndar til að lána FS38 2,2 milljarða króna með veði í Aurum hlutabréfunum. Þetta hefði ekki gengið eftir af ástæðum sem hann rakti. Af þeim sökum var reynt að koma með nýjar hugmyndir vegna lánsins og lýsti hann þeim að hluta en málið hafi tekið um tvo mánuði í meðferð bankans og tók málið breytingum á þeim tíma. Hann kvaðst hafa viljað sjá aðrar útfærslur á málinu og vildi hann að lánamálið færi fyrir stjórn bankans ásamt öðrum málum. Hann var spurður nánar út í afstöðu sína að þessu leyti. Hann kvaðst ekki hafa verið andvígur lánveitingunni vegna þess að ekki hafi verið talið að hún rúmaðist innan valdheimildar áhættunefndar, ekki heldur vegna þess að með lánveitingunni væri brotið gegn reglum bankans um takmarkanir á stórum áhættum, og ekki heldur vegna þess að með lánveitingunni væru brotnar reglur bankans um lágmarks tryggingarþekju. Þá hafi hann ekki talið unnt að sækja frekari tryggingar til FS38. Þá hafi andstaða hans ekki stafað af því að hann hafi talið lánveitinguna brot á öðrum lánareglum sem bankinn setti sér og hann hafi ekki talið lánveitinguna andstæða lögum. Hann kvaðst hafa verið mótfallinn lánveitingunni vegna þess að með því að lána hundrað prósent á móti verðmæti óskráðra hlutabréfa væri verið að taka hlutabréfaáhættu. Bankinn hafi á sama tíma verið að kaupa hlutabréf í öðrum félögum og lýsti hann því. Þetta lánamál væri tengt þeim málum. Hann kvað hins vegar hafa skipt máli hvernig láninu var ráðstafað til uppgreiðslu ótryggðra almennra krafna á Fons. Hann kvaðst ekki hafa viljað að málið væri klárað eins og raunin varð og mat hans hafi verið það að æskilegt væri að stjórn bankans fengi málið til umfjöllunar. Hann kvaðst hafa gert grein fyrir þessari afstöðu sinni á símafundi 1. júlí 2008. Hann hafi síðan farið í frí síðari hluta dags 7. júlí og verið utan símasambands í eina viku. Málið hafi verið samþykkt á meðan hann var í fríinu. Hann kvað fundargerð áhættunefndar sýna að hann sjálfur og ákærðu Lárus og Magnús Arnar hefðu samþykkt málið á milli funda. Hann kvað það ekki rétt. Hann hefði ekki samþykkt málið á milli funda eins og bókað er. Málið var sent áhættunefnd 8. júlí og hann kvaðst hafa skilið þetta svo að málið ætti að taka fyrir á fundi áhættunefndarinnar 9. júlí. Hann kvað ákærða Bjarna hafa hringt í sig og sent sér tölvupóst er hann kom úr fríinu og óskað eftir því að yfirdráttarheimild ákærða Jóns Ásgeirs yrði hækkuð og jafnframt að hún yrði greidd til baka er ákærði Jón Ásgeir fengi greiðslur út úr Aurum málinu sem hefði verið samþykkt í síðustu viku. Hann kvaðst hafa treyst Bjarna varðandi þetta. Hann kvaðst fyrst hafa áttað sig á árinu 2009 eða 2010 að hann hefði verið skráður fyrir samþykki milli funda og lýsti hann tilefni þess er að hann komst að þessu. Hann kvaðst hafa reiknað með því að lánamálið sem hér um ræðir hefði farið fyrir stjórn bankans en hann hefði síðan komist að því að svo var ekki. Hann kvaðst ekki hafa þekkt til Aurum annað en það sem fram kom í tölvupóstum og það sem fram kom á fundi áhættunefndar 11. júní 2008.

            Hann kvað enga almenna reglu eða viðmið hafa verið notuð af bankanum við mat á tryggingarverðmæti óskráðra hlutabréfa. Reglur bankans kveði á um það að bankinn áskilji sér rétt til að verðmat fari fram en það hafi ekki verið skylt og ekkert í reglum bankans segi til um það. Í einhverjum tilvikum var lánað út á óskráð hlutabréf þannig að króna kæmi á móti krónu. Starfsemi bankans hafi verið margvísleg og þess væru dæmi að lánað hafi verið án trygginga. Allur gangur hafi verið á þessu og lýsti hann því nánar.

            Að framan var rakin vitneskja Rósants Más um verðmæti hlutabréfa í Aurum á fundi í áhættunefnd 11. júní 2008. Hann kvaðst ekki hafa vitað af virðismati Kaupþings banka í apríl 2008 og hann vissi ekki niðurstöðu þess mats um að hlutafjárvirði félagsins væri 121 milljón punda. Þá vissi hann ekki og mundi ekki eftir að hafa séð virðismat Daða Hannessonar, starfsmanns fyrirtækjaráðgjafar Glitnis, í maí 2008 um að hlutafjárvirði Aurum væri 190 til 200 milljónir punda.

            Rósant Már mundi ekki eftir því að ákærði Lárus hefði verið undir þrýstingi um að klára málið en hann hafi verið áfram um að ljúka því. Hann kvað alltaf hafa staðið til að lánveitingin sem hér um ræðir færi fyrir áhættunefnd bankans og hann hafi aldrei skynjað neitt í undirbúningi málsins um að til stæði að reyna að komast hjá því að leggja málið fyrir nefndina. Hann kveðst ekki hafa heyrt af neinum athugasemdum nefndarmanna áhættunefndar sem staðfestu millifundarsamþykktina á fundi áhættunefndarinnar 9. júlí 2008. Þeir hefðu átt kost á því að gera athugasemdir eða synja staðfestingar þar sem lánið hafði ekki verið greitt út en reglur bankans geri ráð fyrir því að það hafi verið mögulegt þótt hann muni ekki dæmi þess. Hann kvaðst reyndar hafa setið stutt í áhættunefnd bankans.

            Rósant Már kvað nefndarmann áhættunefndar hafa getað gengið út frá því að upplýsingar á fundinum 11. júní 2008, um að verðmæti hlutarins í Aurum væri 4 milljarðar króna, væru réttar.

            Vitnið Sverrir Örn Þorvaldsson kvaðst á árinu 2008 hafa starfað í aðalstýringardeild innan Glitnis en deildin hafi verið undir stjórn Rósants Más Torfasonar. Hann kvaðst hafa setið í áhættunefnd en ekki haft atkvæðisrétt. Hann lýsti því hvernig staðið var að erindum sem samþykkt voru milli funda. Þau erindi hafi iðulega verið staðfest með tölvupósti eða erindin hafi gjarnan verið sett á dagskrá næsta fundar nefndarinnar þar sem farið var yfir ákvarðanir sem teknar voru á milli funda og þá höfðu nefndarmenn tækifæri til að gera athugsemdir og ræða málið, kysu þeir það. Hann kvaðst ekki þekkja aðdraganda lánveitingar Glitnis til FS38 sem hér um ræðir. Hann hafi ekki haft miklar upplýsingar um lánveitinguna og ekki önnur gögn en þau sem lögð voru fram á fundi áhættunefndarinnar 9. júlí 2008. Hann kvaðst nú, sex árum síðar, ekki muna sérstaklega eftir þeim fundi. Hið sama eigi við um vitneskju hans um Aurum. Hann hafði aðeins upplýsingar sem lagðar voru fram á fundinum 9. júlí. Hann kvaðst einhvern tímann hafa setið fund í bankanum þar sem Aurum var til umræðu en hann mundi ekki hvort það var á fundi áhættunefndarinnar 9. júlí 2008. Hann kvaðst telja að lánabeiðnin, sem hér um ræðir, hafi borist í fundarboði fyrir fundinn 9. júlí en hann mundi ekki hvernig upplýsingar um samþykki lánabeiðninnar milli funda barst á fundinn. Hann kvaðst enga skoðun hafa haft á lánveitingunni. Aðrir starfsmenn bankans höfðu unnið mikið að málinu. Hann kvað ekkert hafa komið fram sem benti til þess að þessi lánveiting væri andstæð reglum bankans.

            Vitnið Guðrún Gunnarsdóttir starfaði hjá fyrirtækjasviði Glitnis fram í apríl 2008 en eftir það hjá lánaeftirliti bankans. Hún átti sæti í áhættunefnd bankans á sama tíma. Hún kvað yfirleitt hafa verið þannig staðið að samþykki milli funda áhættunefndar að sendur hafi verið tölvupóstur á viðkomandi ásamt viðkomandi lánamáli, yfirleitt á alla nefndarmenn áhættunefndar. Yfirleitt hafi verið svarað með tölvupósti. Allur gangur hafir verið á því hvort umræða fór fram í áhættunefnd við staðfestingu samþykkta milli funda en þetta hafi ekki verið í föstu formi og umræða gat farið fram eftir fund um bókun á tilteknum fundi. Hún kvaðst ekki hafa haft aðra aðkomu að lánamálinu, sem hér um ræðir, en þá að málið hafi komið til hennar og hún sent út dagskrá fundarins 9. júlí 2008. Samkvæmt henni var ætlunin að taka málið fyrir á fundi nefndarinnar þann dag. Þar hafi hún ritað fundargerð þar sem bókað er að málið hefði verið samþykkt milli funda. Hún mundi ekki hvernig upplýsingar komu á  fundinn um að lánið hefði verið samþykkt milli funda en hún taldi að annar hvor ákærðu Lárus eða Magnús Arnar hefði greint frá því. Hún kvað engin gögn til um þetta. Hún viti ekki hvernig henni var greint frá samþykktinni milli funda og hún kunni ekki skýringu á því hvers vegna málið var samþykkt milli funda fyrst það var á dagskrá fundar áhættunefndar eins og rakið var. Hún kvað ákærða Lárus hafa tekið þátt í fundinum símleiðis en ákærði Magnús Arnar hafi setið fundinn. Hún kvaðst ekki vita hvenær samþykktin milli funda átti sér stað en samkvæmt bókuninni höfðu ákærðu Lárus og Magnús Arnar staðið að henni ásamt Rósant Má. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að áhættunefndarmenn ræddu millifundasamþykkt á fundi áhættunefndar þar sem slíkar samþykktir voru til staðfestingar. Hún kvað dæmi þess að er áhættunefndarmenn fengu fundargerðir sendar hafi þeir gert athugasemdir eftir á um það hvernig bókanir voru um einstök mál. Hún kvaðst hafa þekkt eitthvað til Aurum þar sem Glitnir var aðili að sambankaláni til félagsins og hefði hún sinnt því máli fyrir bankann. Hún mundi ekki hver afstaða hennar var til lánveitingarinnar til FS38. Hún lýsti því að við lán út á tryggingar í bréfum óskráðra félaga hafi farið fram verðmat viðkomandi félags. Hún lýsti því að hún vissi að farið hefðu fram veðköll gagnvart Fons vegna markaðsviðskipta félagsins á þeim tíma sem hér um ræðir.

            Vitnið Árni Hrafn Gunnarsson var starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Glitnis í júlí 2008. Hann vissi ekki um aðdraganda lánveitingarinnar sem um ræðir en kvaðst hafa haft aðkomu að skjalagerð þótt hann myndi ekki allt. Hann kvaðst lítið vita um aðkomu Baugs að málinu. Hann kvaðst ekki hafa haft heildarmynd af lánveitingunni. Ekki hafi verið í hans verkahring að leggja mat á tapsáhættu vegna lánveitingarinnar. Hann lýsti því aðspurður að almennt hafi lánamál ekki verið lögð fyrir stjórn bankans og hann viti ekki hvort þetta mál hafi verið lagt fyrir stjórnina.

            Vitnið Einar Örn Ólafsson var framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs hjá Glitni í júlí 2008. Hann kvað fyrirtækjaráðgjöf hafa heyrt undir starfsvið sitt hjá bankanum auk eigin viðskipta sem fólust í því að halda utan um bréf bankans í óskráðum félögum. Hann lýsti fundi í bankanum þar sem ýmis mál voru rædd. Þá hafi komið upp spurning um verðmæti Aurum. Honum hafi þá verið afhent skjöl og hann í kjölfarið myndað sér skoðun um verðmæti félagsins á þeim grunni. Hann kvaðst ekki hafa þekkt til Aurum sumarið 2008, varla annað en úr fréttum og hann hafi ekki vitað annað en það sem fram kom í gögnunum sem afhent voru á fundinum en hann muni ekki hvaða gögn hann sá. Hann hafi ekki þekkt framtíðaráætlanir Aurum til næstu ára og honum hafi ekki verið kunnugt um að deild innan Glitnis hafi metið framtíðaráætlanir Aurum hófstilltar. Hann kvað líklegt að hann hafi ekki vitað um að aðrir lánveitendur hefðu metið áætlanir félagsins með sama hætti, eða hófstillar. Hann þekkti ekki áætlanir og horfur á markaði fyrir úr og skartgripi í Bretlandi á þessum tíma og hann þekkti ekki til stjórnenda Aurum sem nýlega höfðu tekið við félaginu. Hann kvað að áætlanir Aurum og trú á þeim og trú á stjórnendum félagsins hefði skipt máli við mat á Aurum. Hann mundi ekki hvort hann vissi á þessum tíma að Daði Hannesson, starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Glitnis, hafði í maí 2008 gert frumvirðismat á Aurum og hann vissi ekki þá að niðurstaða þess mats var 190 til 200 milljónir sterlingspunda virði í Aurum. Hann kvað bókfært verð Aurum hjá eigendum gefa mjög litla vísbendingu um verðmæti félagsins og skýrði hann það nánar.  Hann vissi ekki að fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka hafði í apríl 2008 gert virðismat á Aurum þar sem niðurstaðan var sú að félagið væri 121 milljón sterlingspunda virði. Hann kvað þekkingu hafa verið innan Glitnis til að verðmeta hlutabréf í óskráðum félögum enda hafi bankinn lánað út á slík bréf og bankinn hafi verið í viðskiptum með þau. Hann mundi ekki eftir því hvort leitað hafi verið til deildar hans hjá bankanum varðandi mat á Aurum en það væri líklegt. Af gögnum málsins að ráða sýnist honum starfsmenn deildar hans hafa komið að málinu.

            Vitnið Haukur Skúlason var fjárfestingastjóri eigin viðskipta bankans á árinu 2008 og hafði með að gera kaup og sölu á óskráðum eignarhlutum í félögum. Hann kvað sig minna að hann hefði gert gróft verðmat á nokkrum eignarhlutum, m.a. eignarhlutum í Aurum en hann hafi ekki þekkt félagið og stöðu þess. Þetta hafi verið gert vegna athugana sem tengdust málum Baugs hjá bankanum. Hann kvaðst ekki hafa þekkt vel til Aurum er málið var til vinnslu í bankanum vorið og sumarið 2008. Hann þekkti ekki til félagsins á rekstrarárinu 2008 til 2009. Hann kvaðst hafa haft áætlun um væntanlega EBITA-framlegð en ekki ítarlega rekstraráætlun. Nánar spurður kvaðst hann í raun ekki hafa gert verðmat á Aurum. Til að gera slíkt mat þyrfti ítarlegri gögn en þau sem hann hefði haft undir höndum. Hann hafi áætlað verð á félagið. Hann mundi ekki eftir því að deild innan fyrirtækjalánasviðs bankans hafði metið áætlanir stjórnenda Aurum um fimm ára áætlun fremur hófstilltar. Þá kvaðst hann ekki hafa vitað að aðrir lánveitendur félagsins höfðu metið fimm ára áætlanir Aurum með sama hætti. Hann kvaðst ekki hafa þekkt vel til markaða með úr og skartgripi á Englandi á þessum tíma. Hann þekkti ekki til stjórnendateymis Aurum sem nýlega hafði tekið við. Hann kvað þessar upplýsingar allar hafa skipt máli við virðismat á Aurum. Hann vissi ekki að Daði Hannesson hafði gert virðismat á Aurum og vissi því ekki um niðurstöðu mats Daða sem var að hlutafjárvirði Aurum hafi verið 190 til 200 milljónir sterlingspunda. Hann vissi ekki af verðmati fyrirtækjaráðgjafar við Kaupþing banka frá apríl 2008 og að niðurstaða þess mats var að hlutafjárviði félagsins hafi verið 121 milljón sterlingspunda. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa rætt við ákærða Lárus um Aurum. Hann greindi frá því að vinna hans, sem tengdist Aurum, hefði verið vegna mögulegrar endurfjármögnunar Baugs. Vinna hans hafi ekki tengst lánveitingunni sem mál þetta fjallar um.

            Vitnið Einar Sigurðsson starfaði í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis í júlí 2008. Hann kvaðst hafa unnið hjá skilanefnd Glitnis í eitt og hálft ár eftir hrun. Hann lýsti breytingum á stjórn bankans eftir að ákærði Lárus Welding varð forstjóri, en þá hafi aðrar áherslur verið varðandi vöxt á tilteknum sviðum bankans og lýsti hann því. Einar lýsti starfi fyrirtækjaráðgjafar. Hann hafi komið að verðmati óskráðra hlutabréfa. Hann kvaðst þekkja aðdraganda láveitingarinnar sem hér um ræðir að hluta. Hann hafi á þessum tíma skoðað heildarhagsmuni bankans gagnvart einstökum félögum þ. á. m. Baugi Group. Í þessu hafi falist að vita hverjar undirliggjandi eignir voru. Bankinn hafi fengið upplýsingar frá Einari Sigurðssyni og Stefáni Hilmarssyni um undirliggjandi eignir í þessu sambandi. Þá hafi ákærði Jón Ásgeir, aðaleigandi Baugs, ýtt á þetta mál og önnur. Það hafi tengst því með réttu að ýta á að losa eignir Baugs úr veðböndum svo að Baugur gæti lokið öðrum viðskiptum. Einar kvaðst muna eftir að hafa setið fund um lánveitinguna sem hér um ræðir með ákærðu Lárusi, Bjarna og Pálma Haraldssyni auk starfsmanns Fons þar sem Fons var að sýna uppgjör en hann mundi ekki nánar eftir því hvaða útfærsla hafi verið til umræðu sem varðaði Aurum. Hann kvað Pálma ekki hafa verið lofað skaðleysi í viðskiptum við bankann. Einar lýsti fundi áhættunefndar 4. júní 2008 en hann mundi lítið eftir því sem fram fór á þeim fundi. Einar kvað rekstur Aurum hafa komið til tals en gögn höfðu borist frá Baugi. Hann vissi ekki að fyrirtækjasvið bankans hafði metið fimm ára áætlanir Aurum fremur hófstilltar. Hann vissi ekki að aðrir lánveitendur Aurum höfðu metið áætlanir Aurum með sama hætti. Hann kvað áætlanir og trú á þeim hafa getað skipt máli við virðismat á félaginu. Hann kvaðst ekki hafa þekkt markaði fyrir úr og skartgripi í Bretlandi á þessum tíma og hann hafi ekki þekkt stjórnendateymi Aurum sem nýlega hafði tekið við en hann kvað að trú á stjórnendur félagsins hefði skipt máli við verðmat félagsins. Hann vissi ekki að fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka hafði gert virðismat á Aurum í apríl 2008 og að niðurstaða matsins var 121 milljón sterlingspunda. Fyrir liggur að Daði Hannesson, starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Glitnis, vann virðismat á félaginu. Einar mundi að niðurstaða Daða var há, að hans mati, og skýrði hann það. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við það að millifundasamþykktir hefðu verið notaðar til að sniðganga áhættunefndina.

            Vitnið Helgi Anton Eiríksson var yfir Evrópustarfsemi Glitnis á árinu 2008. Hann sat í áhættunefnd bankans frá febrúar 2007 og sat í nefndinni í júlí 2008. Hann taldi sig hafa setið einn fund í áhættunefnd í júní 2008 þar sem málið sem var undanfari lánveitingarinnar til FS38 var tekið fyrir og samþykkt. Hann mundi ekki eftir umræðu eða andstöðu við málið í nefndinni. Hann kvað meðlimi áhættunefndar ganga út frá því að upplýsingar sem fylgdu viðkomandi lánamáli væru réttar, svo sem um verðmæti veða. Hann kvaðst hafa setið fundi í áhættunefnd þegar millifundasamþykktir voru staðfestar. Hann kvaðst ekki telja að neinar tilteknar aðstæður þyrftu að vera fyrir hendi til að unnt væri að samþykkja mál milli funda. Í slíkum tilvikum hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að nefndarmenn synjuðu staðfestingar eða ræddu viðkomandi mál. Hann kvað nefndarmönnum einnig hafa staðið til boða að fá upplýsingar og synja staðfestingar ef þeim sýndist svo. Mál hafi ekki verið að fullu samþykkt fyrr en áhættunefnd hefði staðfest millifundasamþykktina. Hann kvaðst ekki hafa setið fund í áhættunefndinni 9. júlí 2008. Hann kvaðst lítið muna eftir máli þessu og það sem hann myndi væri einkum fyrir þær sakir að starfsmaður sérstaks saksóknara hefði sent honum vitnisburð sinn fyrir skýrslutökuna fyrir dómi.

            Vitnið Eiríkur S. Svavarsson var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri FS38 í júlí 2008. Félagið var eignarhaldsfélag í eigu Fons sem hafði verið mjög sterkt félag á þessum tíma, með sterkan efnahag. Hann hafði enga aðkomu að lánamálinu sem hér um ræðir og tók engar ákvarðanir þar um og átti engin samskipti við lánveitandann vegna þessa.

            Vitnið Erlendur Magnússon kvaðst hafa starfað í nokkrum nefndum innan Glitnis á árinu 2008. Hann kvaðst hafa hætt störfum í áhættunefnd bankans snemma árs 2008. Hann lýsti því hvernig yfirleitt var staðið að samþykkt milli funda áhættunefndar og í hvaða tilvikum það var gert. Algengast hafi verið að slík mál hafi verið rædd mikið áður, jafnvel innan nefndarinnar eða milli einstakra nefndarmanna, og menn hafi þannig þekkt viðkomandi mál vel. Hann kvaðst ekki hafa þekkt stöðu Aurum í lok árs 2007 og fram á árið 2008. Hann vissi ekki um breytingar á stjórn félagsins, ekki um nýja stjórnendur og nýjar rekstraráætlanir eða að rekstur félagsins hefði verið vel yfir áætlun mánuðina febrúar til júlí 2008. Félagið hafi ekki heyrt undir hans deild í bankanum. Hann vissi ekki betur en að Fons hefði verið í skilum í bankanum á árinu 2008. Hann kvaðst lengi hafa starfað við viðskipti í Bretlandi og að hann þekkti örlítið til í enskum lögum. Hann kvað gildi forsamnings vera sterka viljayfirlýsingu sem væri siðferðislega mjög sterk í enskum viðskiptum. Í samninginn séu sett lykilatriði sem samið væri um eftir skjalagerð og áreiðanleikakönnun og lýsti hann því nánar. Hann lýsti því að nálægt 99 prósent fyrirhugaðra samninga í september og október 2008 hefðu ekki gengið eftir. Ástæðan var fjármálakreppa.

            Vitnið Guðný Sigurðardóttir var lánastjóri hjá Glitni á árinu 2008. Hún lýsti því að er óskað hefði verið eftir samþykki áhættunefndar milli funda hafi erindið verið sent áhættunefndarmönnum í tölvupósti og óskað eftir samþykki. Erindinu hafi síðan yfirleitt verið svarað með tölvupósti. Þessi erindi hafi getað borið að með ýmsum hætti að hennar sögn og þá lýsti hún reglum bankans um samþykki milli funda. Hún kvaðst hafa verið fjarverandi er málið sem hér um ræðir var afgreitt. Það hefði verið til umræðu innan bankans í einhvern tíma, ákærði Bjarni hefði sent inn lánabeiðnina en fyrir kom að viðskiptastjóri sendi inn lánabeiðni til lánanefndar. Hún mundi ekki eftir því að hafa samið lánabeiðnina en langur tími væri liðinn og hún vissi ekki hvort ákærði Bjarni gerði það. Ákærði Bjarni kunni að hafa lokið við gerð lánabeiðninnar eftir að hún hefði byrjaði á henni. Hún mundi þetta ekki. Hún kvaðst ekki muna eftir fundum áhættunefndar 4. og 11. júní og 9. júlí 2008 er þetta mál var til umfjöllunar. Guðný kvaðst hafa komið úr fríi 16. júlí og þá tekið við lánamálinu sem um ræðir og gengið frá útgreiðslu. Hún kvaðst ekki muna hver fjárhagsstaða Fons var á þessum tíma en við skoðum gagna hafi hún séð að eigið fé var verulegt.

            Vitnið Daði Hannesson var sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis á árinu 2008. Hann hafði m.a. annast verðmat óskráðra hlutabréfa og lýsti hann því hvernig staðið var að slíku mati. Hann kvaðst hafa annast verðmat á Aurum að beiðni Einars Sigurðssonar, yfirmanns síns í bankanum. Matið hafi verið unnið á grundvelli margvíslegra og ítarlegra gagna sem hann lýsti og hefði hann aldrei efast um gæði kynningar á félaginu sem hann hafði undir höndum. Hann kvað niðurstöðu virðismatsins hafa gefið til kynna að virði hlutfjár í Aurum væri á bilinu 190 til 200 milljónir sterlingspunda ef allar áætlanir stæðust. Miðað við varfærna nálgun, og lækkun um 20 prósent, væri virðið um 110 milljónir sterlingspunda. Hann kvaðst hafa sent Einari Sigurðssyni niðurstöðu matsins 26. maí 2008. Hann greindi nánar frá forsendum sem matið byggði á en kvaðst ekki hafa vitað af framtíðaráætlunum stjórnenda Aurum sem hafi verið taldar hófstilltar af aðilum sem höfðu með lánamál félagsins að gera og hann hafi ekki vitað af mati fyrirtækjasviðs Kaupþings banka í apríl 2008. Hann kvað upplýsingar sem hann fékk síðar hafa rennt frekari stoðum undir verðmat sitt á Aurum.

            Vitnið Gunnar Sævar Sigurðsson var forstjóri Baugs á árinu 2008. Hann lýsti viðskiptatengslum við ákærðu Lárus og Magnús Arnar vegna starfa sinna hjá Baugi sem var stór lántaki hjá Glitni banka. Hann kvað Baug ekki hafa notið neinnar sérstakrar stöðu sem lántakandi hjá Glitni vegna eignarhalds bankans í gegnum FL Group og samskipti Baugs við bankann hafi ekki verið á neinn hátt frábrugðin samskiptum Baugs við aðrar íslenskar fjármálastofnanir á þessum tíma. Hann kvaðst enga aðkomu hafa haft að lánveitingu Glitnis til FS38 sem í ákæru greinir. Hann lýsti því er Damas lýsti áhuga á kaupum á 30 prósenta hlut í Aurum en Baugur hafði verið leiðandi fjárfestir í Aurum. Hann kvað Aurum hafa verið saman sett úr þremur félögum sem hann lýsti en félagið hafi rekið mikinn fjölda verslana í Bretlandi. Hann kvað aðdraganda þessa hafa verið þann að Kaupþing hafi kynnt Damas fyrir sér og Baugi snemma árs 2008. Í kjölfarið var fundur í London sem sátu sendinefnd frá Damas, starfsmenn Kaupþings, Gunnar og fleiri fulltrúar Baugs. Hann lýsti því og skýrði hvernig menn sáu fyrir sér hag af því að fá Damas til samstarfs og að það hefði að öllum líkindum aukið verðmæti félagsins. Í framhaldinu var undirritaður forsamningur þar sem tekið var á öllum helstu þáttum málsins og samið um verðhluta í Aurum. Hann lýsti því hvernig verð Aurum kom til í samningunum og skýrði hann hvernig það var ákvarðað af hálfu Baugs. Afstaða Baugs um verðið var skýrð fyrir fulltrúum Damas og forsamningur undirritaður í júní eins og rakið var. Damas hafi í framhaldinu farið í áreiðanleikakönnun sem var lokið, að hann minnti í september 2008 og samningurinn þá langt kominn, aðeins örfá atriði hafi staðið út af. Hann lýsti því sem gerðist í framhaldinu og að hætt hefði verið við samninginn og hafi forstjóri Aurum kynnt Damas mönnum það. Hann lýsti aðdraganda og ástæðum þessa, m.a. breyttri heimsmynd á fjármálamörkuðum vegna bankahruns. Aldrei hafi verið vafi á því að viðræðurnar við Damas hafi farið fram í fullri alvöru og kostnaður Damas vegna þeirra verið mikill og skýrði Gunnar það nánar. Hann kvaðst sjálfur, og aðrir sem að málinu komu, hafa verið vissir um að viðskiptin myndu ganga eftir. Hann kvaðst hafa komið að mörgum viðskiptum þar sem gerður var forsamningur af ástæðum sem hann skýrði. Hann kvað verð í slíkum samningum besta vísinn að markaðsverði viðkomandi eigna. Hann lýsti ráðningu forstjóra Aurum haustið 2007 og hugmyndum um uppbygginu félagsins með honum. Gunnar kvaðst hafa fylgst mjög vel með daglegum rekstri Aurum og Baugur hafi fengið vikulegar söluskýrslur. Hann kvað jólasölu félagsins 2007 hafa verið góða og reksturinn hafa verið mjög góðan fyrri hluta árs 2008 og að sala og hagnaður hafi verið vel yfir áætlunum. Hann kvað fall Lehman banka hafa haft þau áhrif að rekstur versnaði mjög í október til desember 2008. Hann kunni ekki að skýra það hvers vegna gögn sem sýna þetta hafi ekki verið meðal upphaflegu rannsóknargagna máls þessa þar sem lögreglan hafi lagt hald á öll þessi gögn hjá sér og öll gögn tengd Aurum. Gögnin hljóti að vera í vörslum lögreglunnar.

            Vitnið Pétur Már Halldórsson greindi frá menntun og starfsferli. Hann kvaðst hafa fyrir hönd Fons setið í stjórnum margra fyrirtækja í Englandi. Þá kvaðst hann hafa setið í stjórn Aurum fyrir hönd Fons. Hann skýrði tiltekin atriði í lið 7.1 í fundargerð stjórnar Aurum, dagsettri 12. mars 2008. Hann kvað skjalið sýna að hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir hefði hækkað úr 16 milljónum punda í 20 milljónir punda. Hann skýrði þetta nánar en félagið hefði rekið 160 verslanir. Hann skýrði tilurð fimm ára áætlunar félagsins og kynningu hennar en hann taldi áætlunina hafa verið raunhæfa. Áætlunin var lögð fyrir stjórn í febrúar 2008. Þá skýrði hann grunn fimm ára áætlunarinnar en fyrir liggur súlurit sem vitnið skýrði. Hann kvað rekstur félagsins hafa gengið umtalsvert betur en áætlunin gerði ráð fyrir frá febrúar 2008 þar til vitnið hætti störfum í stjórninni er Fons seldi eignarhlut sinn.  Hann skýrði endurskoðaða áætlun Aurum fyrir júní 2008 þar sem fram kemur að endurskoðuð áætlun hafi verið 19,2 milljónir punda en var 3,2 milljónir betra en upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir og 4,5 milljónum punda betri en síðasta ár. Hann kvaðst á vormánuðum, mars eða apríl 2008, hafa vitað af viðræðum við Damas um sölu eða viðskipti við félagið til að styrkja það. Hann tók ekki þátt í viðræðunum. Hann skýrði að báðir aðilar hefðu hagnast á samstarfinu. Stjórn Aurum hefði vitað af þessum viðræðum. Hann lýsti því að á stjórnarfundi Aurum, líklega 25. júní 2008, hefðu komið fram upplýsingar um árangurríka heimsókn Damas í verslanir í London og hefðu aðilar frá Aurum fylgt þeirri heimsókn eftir með heimsókn til Dúbaí og Bangkok. Hann skýrði skjal um þessi samskipti. Hann lýsti samskiptum við Pálma Haraldsson vegna fyrirhugaðrar sölu Aurum. Hann kvað ljóst að vermæti Aurum ykist með aðkomu Damas. Hann hefði því ráðlagt Pálma að selja ekki hlutinn í Aurum og talið að Aurum myndi hækka í verði en ljóst var að Baugur vildi ekki selja sinn hlut. Hann kvað rannsakendur ekki hafa haft samband við sig vegna málsins.

            Vitnið Jeff Blue var framkvæmdarstjóri Baugur Group í London. Hann kvaðst hafa verið í stjórn Aurum á þessum tíma. Hann kvaðst sem framkvæmdarstjóri Baugs hafa komið að samskiptum Aurum og Damas. Hann hafi aldrei greint annað en að full alvara væri á ferðinni í samningaviðræðunum enda hafi mikil vinna og fjármagn verið lagt í þær. Aðdragandi samskipta Aurum og Baugs hafi verið sá að Kaupþing hafi annast milligöngu og komið á fundi í febrúar 2008 með fulltrúum Damas og Kaupþings banka og fulltrúum Baugs, meðal annars Gunnari Sigurðssyni. Síðan hafi annar fundur átt sér stað í London í maí og í Leicester. Hann kvað að frá upphafi hefði verið gerð grein fyrir verðhugmyndum Baugs sem var 100 milljónir punda fyrir allt hlutaféð í Aurum. Þetta hafi verið verðhugmynd félagsins frá upphafi samskipta. Síðan kom bréf frá Damas í maí og forsamningur var undirritaður í júní sem innihélt samkomulag milli aðila. Markmið Damas í samningaviðræðunum við Aurum var bæði að kaupa eignarhluta og hafa vöruskipti milli félaganna. Hann lýsti hag beggja félaganna af viðskiptunum og lýsti styrk þeirra, hvors á sínu sviði, og hvernig samlegðaráhrifin nýttust báðum. Damas hafði hug á að kaupa um þrjátíu prósent hlutafjár félagsins en byggt var á verðmati Aurum að fjárhæð 100 milljónir punda. Hann lýsti því að á þessum tíma hefði Aurum gengið vel og afkoma verið umfram fjárhagsáætlun. Framkvæmdarstjórn hafi endurskoðað áætlanir sínar, sem hann tók þátt í að gera, en hann hafi talið áætlunina raunhæfa. Hann skýrði hvernig hvatakerfi var árangurstengt og að það hafi haft þau áhrif að áætluninni var stillt í hóf. Félagið hafi ekki greitt út arð á þessum tíma og ekki hafi verið reiknað með því þar sem félagið var keypt vegna vaxtamöguleika og lýsti hann því nánar. Spurður hvaða hluta Damas myndi kaupa kvað hann ljóst á þessum tíma að Baugur hafi ekki ætlað að selja sinn hlut enda hafi félagið talið að verðmæti Aurum hafi verið meira en sem nam þessari fjárhæð. Þá hafi staðið til að Damas legði félaginu til nýtt hlutafé. Hann kvaðst hafa 15 ára reynslu af bankastarfsemi og lýsti tilgangi með gerð forsamnings þar sem helstu atriði í væntanlegu samkomulagi væru sett inn og lýsti hann atriðum í forsamningi sem væru bindandi. Hann lýsti áreiðanleikakönnun Damas í framhaldinu og fundum og vinnu vegna þess. Báðir aðilar höfðu lagt mikið af mörkum svo að af samningum gæti orðið. Spurður hvers vegna ekki varð af samningum kvað hann Damas verða að svara hluta þeirra. Aurum hafi haldið málinu áfram sumarið 2008 og lýsti hann því. Engin ákveðin dagssetning sýni hvenær Damas hafi verið orðið afhuga viðskiptunum en það hafi ekki orðið fyrr en eftir júlí-mánuð 2008. Hann kvaðst telja að fundur í stjórn Damas, um miðjan september, hefði verið tímamarkið en viðræður hafi haldið áfram eftir það og fram í október og aðilar hafi þá enn vonað að af viðskiptunum yrði.

            Vitnið staðfesti skjal sem sýnir góða stöðu Aurum í júlí 2008. Þar sjáist að fyrirtækið var komið fram úr áætlunum í júlí og stefndi í að svo yrði áfram. Fram kom að endurskoðuð EBITA-spá hafi farið úr 16 milljónum punda í 19 milljónir punda vegna frammistöðu félagsins fyrrihluta ársins. Þessi lýsing endurspegli samhljóða álit framkvæmdastjórnarinnar. Hann staðfesti að í aðdraganda undirritunar forsamnings hefðu stjórnendur Baugs fengið skriflega afstöðu Damas og staðfesti hann að það hefði verið gert með bréfi Damas til Gunnars Sigurðssonar, dagsettu 6. apríl 2008. Hann kvað engar aðrar skoðanir á verðmati Aurum hafa komið fram fyrr en í september enda hafi samkomulag um verðmatið á Aurum verið frá upphafi.

            Vitnið Don McCarthy lýsti bakgrunni sínum og reynslu í viðskiptum í Bretlandi og stjórnarsetu í félögum sem hann ætti hlut í. Í lok árs 2007 hafi stjórnarformaður Aurum hætt störfum og Justin Stead varð framkvæmdastjóri. Vitnið kvaðst hafa verið í stjórn. Hann kvað framkvæmdastjórn félagsins hafa lagt fram fimm ára áætlun fyrir félagið. Stjórnin, og hann þar með, hafi síðan staðfest áætlunina. Í fimm ára áætluninni er lýst ýmsum þáttum og skýrði vitnið áætlunina og einstaka þætti hennar en hluti hennar hafi verið mjög varfærinn og taldi hann hana raunhæfa. Spurður um árangur félagsins fyrri hluta ársins 2008 kvað hann reksturinn hafa gengið vel og lýsti hann því. Framkvæmdastjóri félagsins hafi gefið stjórninni skýrslu í júní og júlí þar sem EBITA-veltan hafi verið nærri þremur milljónum punda hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og áætlanir félagsins hefðu verið hækkaðar sem þessu nam. Hann lýsti því að hann hefði frétt af áhuga Damas á Aurum í mars 2008 en sambandið hefði komist á fyrir milligöngu Kaupþings banka sem Damas setti sig í samband við. Hann lýsti því hvernig félögin gætu styrkst með samvinnu. Damas hafi verið að leita eftir samstarfsaðila í Bretlandi. Hann kvaðst hafa hitt menn frá Damas í maí 2008. Síðan var ákveðinn fundur í Dúbaí. Hann kvað slíkan fund aldrei hafa verið settan upp hefði ekki verið talið að um trúverðugan viðsemjanda væri að ræða. Hann vissi af forsamningnum sem undirritaður var 14. júní 2008. Hann var ekki viss um það hvernig 100 milljóna punda hlutafjárvirði Aurum kom inn í samninginn en honum virtist verðið hafa verið sanngjarnt. Hann kvað áreiðanleikakönnun dýra og að aðilar forsamnings legðu ekki út í slíka vinnu nema alvara væri að baki. Hann kvaðst ekki hafa haft áhyggjur af Damas vegna sögu þess. Síðar kom í ljós að bræðrum, sem stjórnuðu fyrirtækinu, var vikið úr því vegna óviðeigandi meðferðar á fjármunum að hans sögn. Þetta hafi komið í ljós á árinu 2009. Spurður hvers vegna ekki varð af viðskiptunum lýsti hann því að breyting sem varð í viðskiptaheiminum 16. september 2008 hafi haft mest áhrif. Hann lýsti samskiptum Jeffs Blue og Tawhid Abdullah í byrjun september 2008 og að ekkert annað hafi þá komið fram en að af viðskiptunum yrði. Í júlí 2008 hafi engin merki verið um að Damas væri afhuga verkefninu. Þvert á móti kom allt annað fram og skýrði hann það með vörum sem Damas lánaði Aurum á þessum tíma. Þá nefndi hann fleiri atriði sem sýndu að Damas var ekki afhuga verkefninu á þessum tíma. Hann kvaðst hafa verið stjórnarformaður Aurum til ársins 2012. Hann lýsti endurskipulagningu félagsins á árinu 2009 en þá var Landsbankinn lánveitandi og hefðu þeir tekið þátt í að endurfjármagna félagið og lýsti hann því. Hann kvaðst hafa fengið um tífalda fjárfestingu sína í félaginu til baka. Endurskipulagning félagsins hafi verið gerð á forsendum fimm ára áætlunarinnar sem rakin var að framan og í raun hafi hún aðeins frestast í framkvæmd um eitt til tvö ár en gengið eftir að þeim tíma liðnum. Vitnið vissi ekki um að neitt skriflegt hefði borist frá Damas um að afstaða þeirra til verðsins í forsamningnum væri breytt. Vitnið kvaðst hafa komið að Aurum haustið 2007. Hann lýsti sterkri markaðsstöðu í Bretlandi á þessum tíma. Spurður um afkomu félagsins eftir jólasölu 2007 til 2008 kvað hann söluna hafa verið þokkalega og kvaðst telja að hún hefði verið í samræmi við áætlanir. Hann skýrði tilefni fundar í febrúar 2008 vegna skilmálabreytinga á sambankaláni Aurum. Þessi ráðstöfun hafi verið eðlileg og skýrði hann það út frá rekstri Aurum. Hann skýrði rekstrarfé félagsins á þessum tíma og skýrði að ekki hefði skort rekstrarfé. Hann lýsti stöðu á breskum skartgripamarkaði á árinu 2008 og að staða félagsins hefði verið sterk fyrri hluta ársins.

            Vitnið Justin Stead var framkvæmdastjóri Aurum á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann lýsti bakgrunni sínum og menntun og áralöngu starfi við úraviðskipti og tengd svið á mörkuðum. Hann kvað aðdraganda umleitana Damas til að kaupa hlut í Aurum hafa verið þann að haft var samband við vitnið snemma árs 2008 um hugsanlegan fjárfesti í félaginu. Baugur, sem var aðalhluthafi Aurum, hafi viljað halda viðræðum áfram. Viðræður um þetta hófust í apríl 2008. Damas hafi farið í viðræðurnar við Aurum með það í huga að kaupa hlut í félaginu og einnig af öðrum ástæðum sem hann skýrði m.a. út frá styrk hvors félags um sig á mismunandi sviðum. Damas hafi ætlað að kaupa um þrjátíu prósenta hlut í Aurum. Stead kvaðst ekki vita hver það var sem hugðist selja en það hafi ekki verið á hans verksviði. Forsamningurinn var árangur viðræðna við Damas en Baugur var aðalhluthafi og hafi stjórnað samningsgerðinni. Forsamningurinn var niðurstaða tveggja mánaða fundarhalda, meðal annars í Dúbaí, en samband milli forsvarsmanna fyrirtækjanna var gott og voru margir fundir haldnir. Forsamningurinn var undirritaður 14. júní í Dúbaí eftir þriggja daga heimsókn aðila frá Aurum í Damas. Forsamningurinn var sterk vísbending um heildarsamkomulag meðal annars um 100 milljóna punda verð félagsins sem hafi verið ákveðið út frá ýmsum þáttum meðal annars stöðu markaðarins og fimm ára framtíðar spá félagsins en hann kvað sjást á nýlegri sölu félagsins að spáin hafi verið raunhæf. Mikill áhugi var fyrir málinu hjá báðum félögum og lýsti hann jákvæðum samlegðaráhrifum þessa fyrir bæði félögin, styrk hvors um sig á einstökum sviðum og áhrifum samlegðar og samstarfs. Hann kvað Aurum ekki hafa átt við rekstrarvanda að stríða í júlí 2008 en félagið hafi gengið mjög vel þá. Ekki hafi verið skortur á rekstrarfé nema á jákvæðan hátt, eins og hann sagði, og rökstuddi hann þetta álit sitt. Hann kvað engan aðila frá Glitni hafa haft samband við sig á þessum tíma. Hann lýsti því að áreiðanleikakönnun hefði farið fram eftir gerð forsamnings og lýsti hann gangi hennar en hann kvaðst meðal annars hafa heimsótt stafsstöð Damas í Hong Kong og Bangkok. Þá hafi fleiri ferðir verið farnar í þessu skyni og lýsti hann því. Þá hafi verkefnastjóri Damas komið til Bretlands vegna þessa þar sem honum var kynnt starfsemi Aurum. Samkvæmt þessu hafi viðræðurnar við Damas verið í gangi í júlí 2008 og allt hafi gengið eðlilega að hans sögn. Vitnið kvað nokkra hluti hafa valdið því að kaupin gengu ekki eftir, meðal annars að Damas hafi verið að fara á markað og Damas hafi átt við einhver innri vandamál að stríða. Hann kvaðst aldrei hafa merkt annað en að full alvara hefði verið í viðræðum við Damas. Samskiptin sem hann lýsti að ofan hafi gefið honum vísbendingu um að viðskiptin væru fullkomin frá öllum sjónarmiðum og gengju vel. Hann lýsti samskiptum sínum við Tawhid Abdullah eftir að viðskiptin fóru út um þúfur. Þar hafi ýmislegt borið á góma sem hann lýsti og kvað hann aldrei hafa komið fram í samskiptum við Tawhid Abdullah að hann hefði efasemdir um verðið á Aurum sem fram kom í forsamningnum.

            Vitnið Þórólfur Jónsson var á árinu 2008 framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings á Íslandi. Hann lýsti starfi deildarinnar sem var m.a. annars verðmat og fleira. Þórólfur kvað Ómar Alís, deildarstjóra hjá Kaupþingi í Dúbaí, hafa haft samband í janúar 2008 og greint frá því að Damas hefði áhuga á því að komast í samband við eigendur Aurum. Hefði vitnið spurt að því hvort hann hefði einhver samskipti við þá en eigendurnir voru þá, Baugur og Fons. Þórólfur kvaðst hafa rætt þetta við Gunnar Sigurðsson, forstjóra Baugs, og spurt hvort einhver eftirspurn væri eftir þessu. Þetta hafi verið upphaf málsins. Hann kvað þetta hafa leitt til þess að forstjóri Damas og Gunnar Sigurðsson funduðu um málið í London. Leiddi það til fjölmennari fundar í Dúbaí, 3. apríl 2008, en rætt hafi verið að Damas keypti 30 prósenta hlut í Aurum og var útfærsla þess rædd fram og til baka að hans sögn. Þórólfur kvað Gunnar Sigurðsson hafa nefnt að hugsanlega vildi Fons minnka eignarhlut sinn í Aurum. Hann kvaðst ekki hafa haft upplýsingar um að FS38 hefði keypt hlut Fons í Aurum á 6 miljarðar króna í júlí 2008. Þórólfur lýsti vinnu við gerð forsamnings eftir að hafa leitað ráðgjafar utanaðkomandi lögmanna. Skjalið var síðan sent Damas, 21. maí 2008. Svör bárust 5. júní 2008 og var samningurinn síðan undirritaður 14. s.m. Hann lýsti því að 100 miljóna punda verðmæti Aurum hafi verið lágmarkstala af hálfu Baugs til að af samningi gæti orðið. Hann kvaðst aldrei hafa skynjað annað en að full alvara væri í þessum viðskiptum enda hafi Damas lagt út í verulegan kostanað vegna þeirra. Hann kvað ferlið sem um ræðir hafa hafist í janúar 2008 og hafi vinnan haldið áfram fram að undirritun forsamningsins í júní sama ár. Síðan hafi tekið við vinna við áreiðanleikakönnun í júlí og ágúst uns verkefnið fjaraði út um hrunið að hans sögn. Hann lýsti gildi forsamnings eins og þess sem hér um ræðir. Hann kvað jafnan hafi komið fram í þessari vinnu að Damas hafði hugmyndir um ávinning af þessum viðskiptum sem ekki hefði nýst félögunum sínu í hvoru lagi. Þórólfur lýsti vinnu við verðmatið og upplýsingum sem notaðar voru, svo sem framtíðaráætlunum félagsins og fleiru en aðferðin hafi verið hefðbundin eins og hann lýsti.

            Vitnið Edda Lára Lúðvíksdóttir starfaði sem sérfræðingur hjá Glitni á árinu 2008. Hún kvaðst hafa haft umsjón með málefnum Aurum innan bankans í febrúar 2008 en það hafi hún gert ásamt tveimur starfsmönnum bankans í London. Hún lýsti því að Aurum hefði verið á athugunarlista hjá bankanum en það merkti að ræða þyrfti málefni félagsins og skýrði hún það. Hún lýsti fyrirgreiðslu bankans og breytingu á lánaskilmálum og því hvernig ýmislegt hafði þar áhrif, t.d nýir stjórnendur Aurum og viðskiptaáætlun sem hafi verið talin fremur hógvær. Hún mundi ekki eftir gögnum sem hún hafði undir höndum vegna rekstrar Aurum frá febrúar 2008 en hana minnti þó að í einhverjum liðum hafi rekstur félagsins verið yfir áætlun.

            Vitnið Sigurður Harðarson var hópstjóri hjá ráðgjafafyrirtækinu Capacent á árinu 2008 en starf hans hafi m.a. verið að verðmeta óskráð félög. Hann hafi unnið pakkaverðmöt á Aurum, m.a. fyrir árið 2007. Hann lýsti gerð slíkra verðmata þar sem ekki væri grafið „neitt rosalega djúpt ofan í félagið“. Verðmatið hafi verið unnið fyrir Baug í nokkur ár vegna uppgjörs félagsins. Við kaup og sölu eignarhluta væru unnin ítarlegri verðmöt. Hann lýsti vinnu við verðmötin sem um ræðir og skýrði þau.

            Vitnið Hálfdán Guðni Gunnarsson var starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings á árinu 2008. Hann kvaðst hafa verðmetið Aurum og komið fram sem ráðgjafi Baugs. Hann kvaðst hafa setið fundi vorið 2008 sem vörðuðu áhuga Damas á um þriðjungs hlut í Aurum en aldrei hafi annað komið fram en að að full alvara væri í viðræðunum. Hann greindi frá því að með forsamningum kæmu aðilar sér saman um meginatriði viðskiptanna áður en lagt væri út í kostnaðarsama vinnu, svo sem áreiðanleikakannanir. Hann kvaðst ekki hafa vitað um kaup FS38 á hlut Fons í Aurum í júlí 2008 á 6 milljarða króna. Hann lýsti vinnu sinni við verðmat Aurum og gögnum og aðferðum sem notaðar voru við matið en m.a. var farið yfir áætlanir á fundi með stjórnendum Aurum og hafi verðmatið verið unnið áður en forsamningurinn var gerður í júní 2008. Hann kvað niðurstöðu matsins um hlutafjárvirði Aurum upp á 121 milljón sterlingpunda hafa verið raunhæft mat. Annars hefði bankinn ekki látið matið frá sér. Hann kvað verðmatið varfærið er tekið væri mið af 1,5 prósenta framtíðarvexti. Metagildið væri 1,4 og riskfree rate 5 prósent sem væri hærra en sögulegt gildi sem væri 4,75. Allt séu þetta þættir sem hafi áhrif til lækkunar verðmatsins. Stuðlarnir sýni að ekki sé verið að reyna að hækka verðmatið.

            Vitnið Andri Freyr Stefánsson var lögfræðingur Fons sumarið 2008. Hann kvaðst hafa annast skjalagerð vegna lánsins sem um ræðir í júlí 2008 en hann þekkti ekki aðdraganda málsins. Hann kvaðst hafa mætt á fund hjá Glitni í júlí 2008 en bankinn hefði lánað fyrir kaupunum sem um ræðir. Hann kvað Pálma Haraldsson hafa ákveðið, fyrir hönd FS38, að kaupa hlut Fons í Aurum. Andri Freyr gat ekki borið um aðkomu Baugs að málinu eða framvindu samninga um sölu Aurum.

            Vitnið Einar Þór Sverrisson hæstaréttarlögmaður var stjórnarmaður í Fons. Hann kvað Glitni hafa óskað eftir því að Fons kæmi með frekari tryggingar fyrir lánastöðu sinni gagnvart bankanum en hann mundi ekki hvort frumkvæðið var bankans eða Fons. Einhverjar viðræður urðu í kjölfarið og leiddu þær til niðurstöðunnar sem mál þetta fjallar um. Niðurstaðan hafi verið sú að bankinn hafi bætt tryggingarstöðu sína gagnvart Fons. Hann kvaðst hafa komið að málinu, átt fund vegna þess, en kvaðst ekki muna samskiptin nánar nú, þó hljóti fleiri að hafa komið að málinu fyrir hönd Fons og þá Pálmi Haraldsson sem var framkvæmdastjóri félagsins og fleiri. Einar Þór kvað Fons hafa verið sterkt félag í mars 2008 og hafi eigið fé verið um 20 milljarðar króna að hann taldi. Síðar hafi eignir lækkað fram á haustið 2008 af alkunnum ástæðum. Hann kvað Fons hafa verið með 10 milljarða plús í eigið fé fram að yfirtöku Glitnis og því að hlutafé í FL Group varð verðlaust. Við yfirtöku Glitnis hafi eigið fé Fons þurrkast út að hans sögn.

            Fyrir liggur að ekkert lántökugjald var greitt vegna lánsins sem í ákæru greinir. Einar Þór kvað það e.t.v. hafa verið vegna þess að lítill hluti lánsins fór út úr bankanum, stærstur hluti þess fór í að gera upp útistandandi kröfur. Hann kvað sölurétt, sem gerður var í tengslum við lánasamninginn sem í ákæru greinir, hafa verið einnar krónu virði fyrir Fons. Það sem máli skipti hafi verið kaupréttur Glitnis sem gat tekið yfir eignina án fullnustugerða.

            Vitnið Pálmi Haraldsson kvaðst hafa verið hluthafi og framkvæmdastjóri Fons á þeim tíma sem hér um ræðir. Spurður um tengsl sín við ákærða Jón Ásgeir kvað hann þá viðskiptafélaga. Spurður um aðdraganda lánveitingarinnar sem í ákæru greinir kvað hann aðdragandann í stuttu máli þann að almennt hafi hallað undan fæti í viðskiptalífi hér og annar staðar. Lausafjárstaða versnaði og á sama tíma hafi Glitnir haft  áhuga á því að laga stöðu sína gagnvart Fons og hafi bankinn sóst eftir hlutabréfunum í Aurum en Fons hafi vitað af Damas sem hafði áhuga á að koma inn í Aurum. Pálmi kvað hefðbundinn slag hafa verið tekinn um verð bréfanna. Hann hafi viljað fá sem hæst verð fyrir þau en bankinn hafi viljað borga sem minnst. Niðurstaðan hafi verið samningur sá sem lýst sé í ákærunni. Lánsfjárhæðin til FS38 hafi ráðist af því að hann hafi viljað fá sex milljarða króna fyrir hlutabréfin og hann hafi verið fastur fyrir varðandi verð bréfanna. Niðurstaðan hafi orðið sú að sex milljarðar stóðu en Fons hafi gengist í ábyrgð að fjárhæð 1750 milljónir króna, að hann minnti, til að tryggja bankann. Peningunum hafi verið ráðstafað eins og lýst er í ákærunni. Hann kvað hluta fjármagnsins hafa verið ráðstafað til þess að greiða niður skuldir Fons vegna Stíms og að því leyti mætti segja að málin tengdust. Fons hafi aldrei verið lofað neinu um að félagið yrði skaðlaust vegna þátttökunnar í Stími. Vitnið kvað ákærða Jón Ásgeir ekki hafa verið á sínum vegum hafi hann þrýst á starfsmenn bankans um að klára þetta mál. Hann taldi afskipti ákærða Jóns Ásgeirs skýrast af því að hann hefði trúlega talið að það hentaði Baugi betur að fá Damas sem hluthafa í Aurum í stað Fons og skýrði hann það nánar. Pálmi kvaðst telja að eignin í Aurum hefði verið eina eign Fons á efnahagsreikningi sem ekki var veðsett á þessum tíma. Þetta hafi þannig verið veðhæfasta eign Fons og besta trygging bankans að fá veð í Aurum bréfunum. Hann kvað markmið bankans hafa komið skýrt fram um að reyna að tryggja sér verðmætin í Aurum.

            Pálmi var spurður um hreyfingalista úr bókhaldi Fons sem sýni að eignarhlutur Fons hafi verið færður niður. Hann kvað ekkert óeðlilegt við það. Bókfært verð væri ekki hið sama og markaðsverð. Pálmi mundi ekki hvort söluhagnaður var af sölu Aurum miðað við upphaflegu fjárfestinguna en hann mundi ekki hvert var upphaflegt kaupverð. Borin var undir Pálma fundargerð stjórnarfundar Fons sem haldinn var 31. mars 2008 og hann spurður um stöðu Fons á þessum tíma. Hann kvað lausafjárstöðu félagsins hafa verið erfiða en efnahagsstaðan hafi verið mjög sterk. Pálmi kvað ekkert flókið við tölvupósta sem bornir voru undir hann. Þeir sýni þjark um verð á Aurum í einhverja mánuði. Það hafi endað með samkomulagi. Hann hafi haldið að báðir aðilar væru sáttir. Sex milljarða verðmiðinn væri frá honum kominn og enginn vafi hafi verið á því að starfsmenn bankans unnu að hag bankans og hann að hag Fons. Hann kvaðst hinsvegar óska þess að hann hefði aldrei haft viðskipti við bankann.

            Vitnið Björn Ingi Sveinsson tók sæti í stjórn Glitnis, 30. apríl 2007 og sat í stjórninni uns bankinn var yfirtekinn í september 2008. Hann lýsti aðdraganda stjórnarsetu sinnar en hann veitti forstöðu félagi sem fjárfesti í bankanum. Hann gat ekki borið um ráðningu ákærða Lárusar sem forstjóra bankans. Sú ákvörðun hafi legið fyrir er félag vitnisins fjárfesti í bankanum og var hann sáttur við þá ráðstöfun sem stjórnin staðfesti. Hann kvaðst hafa átt ágætt samstarfs við ákærða Lárus og hann hafi ekki orðið var við það að hann væri undir óeðlilegum þrýstingi af hálfu forsvarsmanna stærstu eigenda bankans. Hann hafi heldur ekki orðið var við það að ákærði Lárus tæki sérstakt tillit til hagsmuna sömu aðila við ákvarðanatöku í bankanum.

            Vitnið Nikhil Sengupta var á árinu 2008 forstöðumaður í NRD banka í Dúbaí. Í starfi sínu hjá bankanum hafi hann verið í stöðugu sambandi við mögulega fjárfesta og þannig hafi hann verið í sambandi við Damas sem væri stór kaupandi í Dúbaí og hafi kynnt fyrir þeim mögulega erlenda fjárfestingu. Hann lýsti því að einn fjárfestingakosturinn sem Damas var boðinn hafi verið Aurum Holdings og tengd fyrirtæki, sem hann nefndi. Damas, hefði sýnt þessari fjárfestingu áhuga. Þeir hefðu þá haft samband við Kaupþing banka til að fá þá til að kynna þá fyrir hluthöfum Aurum. Þetta var upphaf samskiptanna. Kaupþing veitti upplýsingar um starfsemi Aurum. Eftir viðræður og fundi var sent bréf til hluthafa Aurum 6. apríl 2008 þar sem sett var fram tillaga um viðskipti. Skjalið er undirritað af Tawhid Abdullah, fyrir hönd Damas. Eftir þetta voru fundir í London og Dúbaí. Í júní var undirritaður forsamningur milli félaganna þar sem sett voru fram atriði um viðskiptin. Hann mundi ekki hver átti frumkvæðið að forsamningnum en taldi að það hefði verið Baugur. Forsamningurinn hafi verið staðlað skjal fyrir viðskipti af þessu tagi, fyrirætlanir aðila kæmu þar fram og rammi viðskiptanna. Skjalið hafi verið háð samningum. Spurður um verðið á Aurum, um 100 milljónir sterlingspunda, kvað hann enga formúlu eða vísindi liggja að baki slíku verði. Verðið hafi orðið til gegnum samskiptin við Baug sem hafi sett þetta verð fram sem lágmarksverð fyrir félagið. Verðhugmyndirnar voru ekki samþykktar án könnunar að hans sögn en að athuguðu máli varð þetta niðurstaðan. Hann lýsti sjónarmiðum sem félagið lagði til grundvallar 100 milljóna sterlingspunda virði Aurum sem hafi verið niðurstaðan áður en nýtt hlutafé var lagt til. Banki vitnisins og Damas hafi skoðað þetta og niðurstaðan orðið sú að 100 milljónir sterlingspund væri eðlilegt verð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun. Hann lýsti samningnum að hluta og að eftir það hafi Damas látið gera áreiðanleikakönnun, bæði viðskiptalega og fjárhagslega, meðal annars í Dúbaí en hann mundi ekki hvenær. Markmið Damas með samningaviðræðunum hafi bæði verið að kaupa hlut í Aurum og samningar um vörukaup en upphaflega hafi tilgangurinn verið að eignast um þrjátíu prósenta hluta í Aurum auk þess sem til hafi staðið að leggja til nýtt hlutafé. Damas hafi síðan séð að talsverður ávinningur var í samningnum um vörukaup. Hann vissi ekki um lánið sem í ákæru greinir. Spurður um það hvers vegna viðskiptin með hlutinn í Aurum hefðu ekki gengið eftir lýsti hann því svo að reynt hefði verið að fá yfirsýn yfir framlegðaráhrif og hvort þrjátíu prósenta hlutur væri viðunandi fyrir Damas. Er þetta átti sér stað hafi verið komið fram í september 2008, bankakreppan hér á landi hafði skollið á og ljóst að bankinn og hluthafar Aurum áttu í verulegum fjárhagsvanda. Engin formleg slit á viðræðum áttu sér stað en málið varð sjálfdautt eftir þetta. Það hafi því verið ljóst í lok september eða í byrjun október 2008 að ekki yrði af kaupunum.

            Vitnið Tawhid Abdullah kvaðst hafa verið aðaleigandi og framkvæmdastjóri Damas á árinu 2008. Aðdragandi samskipta við Aurum var sá að aðili frá þjóðarbanka Dúbaí hefði haft samband en Damas athugaði möguleika á því að auka viðskipti í Bretlandi með því að eignast hlut í Aurum. Samskipti við Aurum hafi staðið yfir í þrjá til fjóra mánuði en hann mundi ekki hvenær þær hófust. Dúbaí bankinn, sem var með í ferlinu frá upphafi, og hefði nákvæmar dagsetningar vegna þessa, kom á fundi með Damas og Aurum. Meiningin var sú að Damas keypti um þrjátíu prósenta hlutafjár í Aurum auk þess sem samningarnir snerust að hluta um vörukaup milli félaganna. Forsamningurinn hafi sýnt samningsvilja aðila. Hann kvað Dúbaí bankann hafa útbúið forsamninginn sem undirritaður var en samningurinn hafi ekki verið skuldbindandi en þá hafi félagið haft ófullkomnar upplýsingar frá bankanum. Spurður um heildarverð Aurum í samningnum að fjárhæð 100 milljónir sterlingspunda kvað hann þetta verð gagnaðilans en ekki hefði verið samið um endanlegt kaupverð. Ekki hafi verið unnt að samþykkja verðið fyrr en að lokinni áreiðanleikakönnun. Fyrstu skref þeirrar könnunar áttu sér stað en henni lauk ekki að hans sögn. Hann kvað Damas ekki hafa unnið verðmat á Aurum. Síðar kom til þess að ákveðið var að halda málinu ekki áfram. Hann kvað ekki hafa orðið af kaupunum þar sem stjórn fyrirtækisins ákvað á fundi í september 2008 að gera það ekki vegna þess að verðið væri of hátt. Þá hefði ný stjórn Damas tekið við og hún ákveðið að engin viðbótarfjárfesting yrði í Evrópu. Aurum hafi verið greint frá þessu bréflega um það bil einum mánuði eftir undirritun forsamningsins. Ekki hafi verið rætt um málefni Aurum í stjórn nema í þetta eina sinn þ.e. í september 2008. Vitnið staðfesti að hafa ritað bréf fyrir hönd Damas til Gunnars Sigurðssonar, dagsett 6. apríl 2008, þar sem meðal annars koma fram verðhugmyndir á Aurum. Vitnið kvað áreiðanleikakönnun hafa átt að fara fram í þremur hlutum. Spurður um tímamörk í þessu sambandi kvað hann fyrsta hlutann hafa verið tímasettan en vissi ekki um hina tvo hlutana. Hann kvað hafa verið gert ráð fyrir því að undirritun bindandi skjala ætti sér stað fyrir 31. júlí 2008 og að eftir það færi fram áreiðanleikakönnun. Hann kvað þrjá starfsmenn sérstaks saksóknara hafa komið til fundar við sig í Dúbaí vegna rannsóknar málsins. Hann kvaðst hafa hætt störfum hjá Damas í október 2009. Hann kvað það hafa verið ákvörðun fjölskyldunnar að hann hætti hjá félaginu en hlutur hafi verið seldur og hann hafi skort fé.

            Vitnið Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn kvaðst hafa stýrt rannsókn máls þessa ásamt öðrum nafngreindum aðila en auk þeirra hafi hópur rannsakenda unnið að rannsókninni og lýsti hann fyrirkomulaginu. Spurður um það hvort rannsakað hefði verið hvort til hafi verið útreikningar á áætluðu eiginfjárvirði Aurum á þeim tíma sem um ræðir í málinu kvað hann það hafa verið gert með yfirheyrslum. Grímur var spurður að því hvers vegna gögn fjárfestingasniðs sem sýnir heildarvirði Aurum hafi verið rúmar 181 milljóna punda og að eiginfjárvirði félagsins hafi verið 107 milljónir punda, hafi ekki verið meðal rannsóknargagna sem fylgdu ákæru málsins við þingfestingu. Hann kvað ástæðuna þá að litið hefði verið til þess að gagnamagnið yrði ekki of mikið og að þessar upplýsingar kæmu fram annar staðar í gögnum málsins. Vitnið Þórólfur Jónsson bar um upphaf viðskiptanna og að Damas hefði leitað eftir þeim eins og rakið var í vitnisburði Þórólfs. Grímur var spurður í því ljósi hvort leitað hefði verið að gögnum hjá Kaupþingi um fyrirhuguð kaup Damas á hlutnum í Aurum. Hann kvað svo ekki hafa verið. Það hafi m.a. helgast af því að ekki hafi legið fyrir verðmat hjá Kaupþingi og því hafi við rannsóknina ekki verið leitað til þess. Framburður Þórólfs hjá lögreglunni gat gefið tilefni til þess að skoða tölvupósta hans og gögn sem honum voru ekki tiltæk og vísaði hann til þess við skýrslutökuna. Grímur kvað ekki hafa komið til athugunar undir rannsókninni að fylgja þessu eftir með því að veita honum aðgang að gögnunum sem um ræðir.  Grímur var spurður hvort hann hefði undir rannsókn málsins haft undir höndum rekstraráætlun Aurum sem ekki var í upphaflegum gögnum sem fylgdu ákæru málsins. Hann mundi ekki eftir því. Grímur var spurður að því hvort ekki hefði komið til álita að fá dómkvadda matsmenn til að meta virði Aurum á þeim tíma sem máli skipti, einkum í ljósi mjög mismunandi niðurstöðu um verðmæti Aurum á þessum tíma. Hann kvaðst telja að sú umræða hefði farið fram en í ljósi þess að fyrir lá að verið var að meta félagið af matsmönnum sem dómkvaddir voru undir rekstri einkamáls hafi verið horft til þess og að gera það mat að gögnum í þessu máli. Hann kvað ástæðu þess að ekki var unnið sérstakt mat við rannsókn málsins hafa verið undirmatið í einkamálinu. Hann kvað rannsakendur ekki hafa verið með hugmyndir um hvert verðið ætti að vera. Það sem lá fyrir var lánveiting Glitnis sem byggði á ákveðnum gögnum, einkum í forsamningum þar sem ákveðnar tölur komu fram. Það hafi fyrst og fremst verið þær tölur sem voru til rannsóknar. Hann kvað lögregluna ekki hafa notið sérfræðiráðgjafar til að greina áhættuna sem fólst í lánveitingunni sem um ræðir.

            Grímur kvað lögreglustjóra hafa tekið ákvörðun um það að gera ákvörðun setts ríkissaksóknarar um að Rósant Már sæti ekki ákæru, sbr. 5 gr. laga nr. 135/2008, ekki að skjali í málinu. Verjendur fengu vitneskju um þessa ákvörðun í þinghaldi í janúar 2014 en þá voru liðin þrjú ár frá því að hún lá fyrir. Grímur kvað engin sérstök gögn hafa komið frá Rósant Má, aðeins upplýsingar sem fram komu við skýrslutöku af honum. Grímur var spurður um ýmis önnur gögn sem verjendur töldu sig hafa átt rétt á að fá afhent á grundvelli 37. gr. laga nr. 88/2008 og sem lögreglan hafði undir höndum en ekki voru gerð að rannsóknargögnum. Grímur kvað ákærandann hafa ákveðið að gera þessi gögn ekki að hluta málsskjala. Síðar hafi verið ákveðið að gera gögnin að málsskjölum og eftir að þau komu fram undir rekstri einkamáls.

            Vitnið Bjarni Ármannsson var forstjóri Glitnis á árinu 2007 uns hann lét af störfum 30. apríl 2007. Hann skýrði ástæður starfsloka sinna hjá bankanum sem voru meðal annars breytingar á eignarhaldi og fleira. Hann kvað þetta og fleira hafa verið tilefni til þess að stíga til hliðar og þetta væri komið nóg hjá sér í bankanum, eins og hann orðaði það. Hann hafi því átt frumkvæði að starfslokum sínum og lýsti hann þeim og hvernig að þeim var staðið. Hann vissi ekki um ráðningu eftirmanns síns í bankanum.

            Vitnið Einar Sveinsson var stjórnarmaður í bankanum á árinu 2007. Hann lýsti stjórnarskiptum í bankanum í apríl 2007 en þau hafi verið vegna breytinga sem urðu á hluthöfum bankans og lýsti hann því. Hann þekti ekki aðdraganda ráðningar ákærða Lárusar til bankans. Hann lýsti því að útlán bankans hefðu aukist með aðkomu nýrra eigenda.

            Vitnið Skarphéðinn Berg Steinarsson var stjórnarmaður í Glitni á árunum 2007 og 2008 en hann hafði tekið sæti vegna eignarhalds FL Group. Hann lýsti því hvernig hluthafar ræddu um skipun stjórnar bankans en það hafi verið með hefðbundnum hætti að hans sögn. Hann lýsti leit eftirmanns Bjarna Ármannssonar, sem hætti störfum, og þá hafi komið upp nafn ákærða Lárusar Welding sem var ráðinn forstjóri. Stjórn bankans hafi samið við forstjórann. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við að ákærði Lárus væri undir óeðlilegum þrýstingi af hálfu forsvarsmanna stærstu eigenda bankans. Hann vissi ekki til þess að stærstu hluthafar bankans hefði fengið hagfelldari afgreiðslu sinna mála í bankanum. Hann kvað hafa verið unnið að stækkun bankans á stjórnartíma sínum hjá bankanum.

            Vitnið Jón Sigurðsson var varaformaður stjórnar Glitnis á árinu 2008 en stjórnarseta hans hafi komið til vegna starfs hans hjá FL Group sem var stór hluthafi í bankanum. Hann lýsti kynnum sínum af ákærðu Lárusi Welding og Jóni Ásgeiri en kynni þeirra væru í gegnum viðskiptalífið. Hann lýsti ráðningu Lárusar hjá bankanum en kvaðst aldrei hafa orðið var við það að Lárus væri undir óeðlilegum þrýstingi í starfi sínu af hálfu forsvarsmanna stærsta eiganda bankans, ákærða Jóns Ásgeirs, og hann vissi ekki til þess að ákærði Lárus tæki sérstakt tillit til hagsmuna stærsta eiganda bankans í ákvörðunum sem hann stóð frammi fyrir sem forstjóri bankans. Hann kvað þá ákærða Lárus ekki hafa unnið saman að einstökum lánamálum. Hann kvað þá ákærða Lárus oft ræða saman sem vini og ákærði Lárus hafi sem slíkur leitað álits hjá sér varðandi afmarkaðan þátt þessa máls sem þá hafi verið nánast fullmótaður og búinn að vera lengi í vinnu í bankanum. Hann kvað ekkert í samskiptum sínum við ákærða Lárus hafa gefið annað til kynna en að hann ynni með hagsmuni bankans í huga.

            Vitnið Þorsteinn M. Jónsson var stjórnarformaður Glitnis banka frá 30. apríl 2007 til 20. febrúar 2008. Hann kvað, er skóinn tók að kreppa að á fjármálamörkuðum, hafa verið ákveðið að draga úr lánveitingunum, fremur í erlendri mynt en í krónum. Hann lýsti aðdraganda þess að hann tók sæti í stjórn bankans en það hafi verið fyrir tilstilli eiganda bankans. Hann vissi ekki hvernig aðrir stjórnarmenn voru tilnefndir en sjálfkjörið hafi verið í stjórnina. Hann lýsti tengslum við ákærða Jón Ásgeir en þau tengsl hafi verið í gegnum viðskipti, en hann hafi lítið þekkt til ákærða Lárusar fyrir komu hans í bankann. Hann lýsti aðdraganda ráðningar ákærða Lárusar eftir að Bjarni Ármannsson ákvað að láta af störfum. Nokkrir hafi verið nefndir sem eftirmenn, þar á meðal ákærði Lárus, og allir voru á einu máli um að ákærði Lárus væri góður kostur fyrir bankann. Hann skýrði hvers vegna svo hafi verið og að stjórn bankans hafi verið einróma með ráðningu hans. Hann kvaðst aldrei hafa orðið þess var að ákærði Lárus hefði verið undir óeðlilegum þrýstingi af hálfu forsvarsmanna stærsta eiganda bankans. Þá hafi hann aldrei orðið var við að ákærði Lárus hefði við ákvarðanatöku tekið sérstakt tillit til hagsmuna stærsta eiganda bankans.

            Vitnið Katrín Pétursdóttir var stjórnarmaður Glitnis banka á árinu 2007 fram í febrúar 2008. Hún lýsti því er leitað var til hennar um að taka sæti í stjórn bankans. Hún vissi ekki um aðdraganda ráðningar ákærða Lárusar Welding. Hún kvaðst aldrei hafa skynjað að ákærði Lárus hefði verið undir óeðlilegum þrýstingi af hálfu stærstu eigenda bankans og hún hafi aldrei skynjað að hann tæki sérstakt tillit til þessara aðila við ákvarðanir í bankanum.

            Vitnið Haukur Guðjónsson var í stjórn bankans frá því í apríl 2007 fram í febrúar 2008. Í apríl 2008 kom hann aftur inn í stjórn bankans. Hann kvað stefnu bankans frá apríl 2008 hafa verið þá að stækka bankann. Síðan, er lánamarkaðir þrengdust, hafi bankinn ekki sótt þau verkefni sem áður stóð til og einhverjum málum hafi verið frestað í von um að rofa myndi til á lánamörkuðum. Hann kvaðst engin tengsl hafa haft við ákærða Lárus Welding fyrr en hann var ráðinn til starfa en hann vissi ekki aðdraganda ráðningarinnar.

            Vitnið Pétur Guðmundarson var stjórnarmaður í Glitni banka frá 30. apríl 2007 til febrúar 2008. Hann lýsti því er leitað var til hans um að taka sæti í stjórn bankans sem óháður stjórnarmaður. Hann gat ekki borið um ráðningu ákærða Lárusar til bankans. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við það að ákærði Lárus hefði verið undir óeðlilegum þrýstingi af hálfu forsvarsmanna stærstu eigenda bankans. Hann vissi ekki til þess að afgreiðsla mála stærstu hluthafa í bankanum hefði leitt til hagfelldari afgreiðslu erinda viðkomandi þeim.

            Vitnið Þorsteinn Már Baldvinsson var stjórnarformaður Glitnis banka frá því í febrúar 2008. Hann kvað hafa verið stefnt að því að draga úr nýjum útlánum á árinu 2008. Hann lýsti aðdraganda þess að hann tók sæti í stjórn bankans. Hann vissi ekki hvernig aðrir stjórnarmenn voru valdir. Hann kvað tengsl sín við ákærða Lárus Welding engin en leiðir þeirra ákærða Jóns Ásgeir hefðu legið saman gegnum viðskipti. Hann kvaðst aldrei hafa merkt að ákærði Lárus hefði verið undir óeðlilegum þrýstingi af hálfu stærstu eigenda bankans. Ákærði Lárus hefði í störfum sínum í bankanum fyrst og fremst tekið tillit til hagsmuna bankans.

            Vitnið Guðmundur Óli Björgvinsson vann fyrir slitastjórn Landsbanka Íslands á árinu 2009 og tók þátt í söluferli Aurum en leitað var til hans sem ráðgjafa. Hann lýsti því er hlutafé félagsins var fært niður í eitt pund og er víkandi láni að fjárhæð rúmar 43 milljónir punda var skuldbreytt og breytt í eitt prósent hlutafjár. Hann hafði enga hugmynd um verðmat á félaginu um mitt ár 2008.

 

            Niðurstaða

            Ákæruliður I

            Ákærðu Lárus og Magnús Arnar neita sök. Eins og lýst er í ákærunni áttu báðir, ákærði Lárus sem forstjóri bankans og ákærði Magnús Arnar sem framkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs, sæti í áhættunefnd Glitnis banka á þeim tíma sem í ákæru greinir. Þeim er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga er þeir 8. eða 9. júlí 2008 samþykktu í sameiningu á milli funda áhættunefndar lánveitinguna til FS38 sem í ákæru greinir.

            Í ákærunni er vísað til samþykkis ákærðu milli funda áhættunefndar 8. eða 9. júlí 2008. Ýmislegt er óljóst um fyrirtöku málsins á fundinum eins og rakið var að framan. Vitnið Guðrún Gunnarsdóttir, ritari áhættunefndar, sendi út fundarboð fyrir fundinn 9. júlí. Þar kom fram að lánið, sem hér um ræðir, var á dagskrá. Hún mundi ekki hvernig ákveðið var að breyta dagskránni og bóka lánamálið samþykkt milli funda og staðfesta það þannig eins og gert var. Hún gat sér til um skýringar eins og rakið var. Ákærði Magnús Arnar sat fundinn en ákærði Lárus tók þátt í fundinum símleiðis. Báðir ákærðu hafa staðfest fyrir dóminum að hafa samþykkt erindið milli funda. Er því sannað með framburði beggja ákærðu og öðrum gögnum málsins að þeir hafa samþykkt erindið milli funda áhættunefndar eins og í ákæru greinir en ekki er upplýst hvort það var 8. eða 9. júlí 2008. Það kemur þó ekki að sök eins og á stendur, sbr. 1. mgr. 180. gr. sakamálalaga.

            Í ákærunni segir að ákærðu hafi samþykkt lánveitinguna með vísan til þess að um 19% hlutur FS38 ehf. í Aurum Holdings Limited yrði síðar seldur til félagsins Damas LLC fyrir um þrjá milljarða króna þótt skuldbindandi samningur lægi hvorki fyrir um slíka sölu né söluverð. Gögn málsins bera með sér að ákærðu samþykktu lánveitinguna milli funda. Hvorki ákærðu né gögn málsins um samþykki þeirra bera með sér að samþykkið hafi verið gert með vísan til þess að um 19% hlutur FS38 ehf. í Aurum Holdings Limited yrði síðar seldur til félagsins Damas LLC fyrir um þrjá milljarða króna. Er það, gegn neitun ákærðu, ósannað.

            Í röksemdum, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. laga 88/2008, segir að ákærði Lárus hafi ákveðið að samþykkja lánveitinguna milli funda vegna fyrirliggjandi andstöðu í áhættunefnd.

            Þótt þessa sé ekki getið í meginmáli ákærunnar þykir nauðsynlegt að fjalla um þetta þar sem fyrir liggur að mál þetta hafði verið lengi í meðförum innan bankans og ýmsir starfsmenn bankans höfðu unnið að málinu. Ekkert vitnanna Rósants Más Torfasonar, Guðrúnar Gunnarsdóttur, Sverris Arnar Þorvaldssonar og Alexanders Kristjáns Guðmundssonar, sem öll sátu í áhættunefnd bankans þegar sambærilega lánabeiðni var þar tekin fyrir og samþykkt 11. júní 2008, bar um það að andstaða hafi verið við málið þá en lánamál þetta hafi lengi verið í meðförum bankans. Þá var engin athugasemd gerð eftir á við lánveitinguna sem staðfest var á fundinum 9. júlí 2008, en lánið var ekki greitt úr fyrr er 21. júlí 2008. Í 3. gr. siðareglna fyrir áhættunefnd Glitnis banka, sem nánar verður vikið að síðar, segir að mál sem fengið hefur flýtimeðferð (millifundaákvörðun) skuli staðfesta á næsta fundi áhættunefndar. Með þessu er komið í veg fyrir að áhættunefndin sé sniðgengin við ákvarðanir sem undir hana heyra. Af þessum sökum er ekki rökrétt sú fullyrðing í röksemdakafla ákæru að ákærði Lárus hafi ákveðið að samþykkja ákvörðunina milli funda vegna fyrirliggjandi andstöðu í áhættunefnd en vitnin Guðrún Gunnarsdóttir, Rósant Már Torfason, Sverrir Örn Þorvaldsson, Alexandar Kristján Guðmundsson og Helgi Anton Eiríksson, báru, að nefndarmenn í áhættunefnd gætu synjað staðfestingar, komið með spurningar og athugasemdir, aflað gagna o.fl. áður en til staðfestingar kæmi. Allt er þetta í samræmi við 5. gr. siðareglnanna þar sem segir að allir nefndarmenn hafi vald til að neita tiltekinni ákvörðun eða máli sem lagt er fyrir nefndina. Það var ekki gert í þessu tilviki og lánveitingin staðfest í samræmi við reglurnar, athugasemdalaust. 

            Að öllu ofanrituðu virtu, og gegn neitun ákærðu, og þar sem enginn vitnisburður liggur fyrir um það að andstaða hafi verið við málið í áhættunefnd er það ósannað.

            Í ákærunni segir að ákærðu hafi samþykkt lánveitinguna milli funda áhættunefndar án þess að nauðsyn bæri til eins og nánar greinir í ákærunni. Um þörfina á samþykki lánabeiðni milli funda er fjallað í 3. gr. siðareglna fyrir áhættunefnd Glitnis banka. Þar segir:

            „Nefndin skal koma saman reglulega en getur fundað að beiðni nefndarfulltrúa eða þegar þörf krefur. Þegar þörf krefur og eingöngu þegar ákvarðanir geta ekki beðið til næsta reglulega fundar er hægt að leita eftir flýtimeðferð með tölvuskeyti. Ákvörðunina skal staðfesta á næsta reglulega fundi. Tvo fulltrúa þarf til að samþykkja hverja ákvörðun og skal annar vera fulltrúi fjármálasviðs eða forstjórinn.“

            Í ákærunni er ákærðu gefið að sök að hafa í störfum sínum farið út fyrir heimildir sínar til lánveitingar og er vísað til reglna fyrir áhættunefnd (Code of Cunduct) Glitnis banka. Engar leiðbeiningar er að finna í reglunum um túlkun eða skýringu á því hve brýn þörfin þurfi að vera hverju sinni. Vitnisburður sem rakin hefur verið bendir til þess að allur gangur hafi verið á því hvernig staðið var að samþykktum milli funda. Vitnisburðurinn bendir til þess að í framkvæmd hafi ekki verið gerðar miklar kröfur varðandi mat á þörfinni til að unnt væri að samþykkja milli funda, enda bar að staðfesta slíkar samþykktir á næsta fundi áhættunefndar. Verður að líta svo á að í framkvæmd hafi myndast venja innan bankans um þetta. Ákærðu höfðu sínar eðlilegu og skiljanlegu forsendur fyrir matinu á þörfinni, sem var vegna fyrirhugaðrar fjarveru þeirra beggja og Rósants Más, eins og rakið var, en allir höfðu þessir menn unnið mikið að málinu innan bankans og þekktu það mjög vel. Þá benda gögn málsins ekki til þess að Rósant Már hafi verið málinu andsnúinn þótt hann hafi löngu síðar ekki kannast við að hafa staðið að samþykkinu. Vinna hans að málinu fyrir og eftir fund áhættunefndar 9. júlí 2008 bendir ekki til andstöðu hans en samþykki hans var óþarft eins og á stóð. Þá liggur fyrir að Rósant Már sendi ákærðu Lárusi, Bjarna og Magnúsi Arnari tölvupóst 1. júlí 2008 þar sem hann lýsti sínum hugmyndum varðandi útfærslu þessa máls á mjög áþekkan hátt og varð síðan niðurstaðan í áhættunefndinni 9. s.m. Er um þetta vísað til framburðar ákærðu Lárusar og Magnúsar Arnar. Ekki er við neinar leiðbeiningar að styðjast við mat á þörfinni en samkvæmt vitnisburði er þetta háð huglægu mati hverju sinni. Það er mat dómsins að ekki sé unnt að byggja sakfellingu á því að önnur framkvæmd hefði átt að vera á reglunum varðandi mat á þörfinni en sú sem myndast hafði innan bankans. Því er nær útilokað að hið persónulega mat sem þurfti að beita varðandi þörfina hverju sinni geti verið grundvöllur sakamáls en engin vitni hafa borið að þessar reglur bankans hafi verið brotnar og engum datt það í hug. Er um þetta vísað til framburðar ákærðu Lárusar og Magnúsar Arnar svo og til vitnisburðar Rósants Más Torfasonar og Sverris Arnar Þorvaldssonar.

            Með vísan til alls ofanritaðs og til vitnisburðar sem rakinn hefur verið að framan er það mat dómsins að ákærðu hafi ekki farið gegn 3. gr. siðareglnanna með millifundasamþykktinni. Þessi niðurstaða fær einnig stoð í reglunum sjálfum þar sem segir að staðfesta skuli slíka ákvörðun á næsta reglulega fundi sem var gert í þessu tilfelli. Vitnin Guðrún Gunnarsdóttir, Rósant Már Torfason, Sverrir Örn Þorvaldsson, Alexandar Kristján Guðmundsson og Helgi Anton Eiríksson, sem öll voru meðlimir áhættunefndar á þessum tíma báru að nefndarmenn í áhættunefnd gætu synjað staðfestingar, komið með spurningar og athugasemdir, aflað gagna o.fl. áður en til staðfestingar kæmi. Þetta er í samræmi við 5. gr. siðareglnanna sem vísað var til að framan. Samkvæmt þessu er mál sem undir áhættunefnd heyrir ekki endanlega afgreitt fyrr en það hefur verið borið upp í nefndinni. Önnur skýring á reglunum er ótæk. Má vísa um þetta til vitnisburðar Helga Antons Eiríkssonar. Í tilvikinu sem hér um ræðir komu engar athugasemdir eða mótmæli fram og var lánveitingin staðfest í samræmi við reglurnar, athugasemdalaust.

            Ákærðu er gefið að sök að hafa farið út fyrir heimildir sínar til lánveitingar með samþykki lánveitingarinnar til FS38, eignarlausu félagi með takmarkaða ábyrgð án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins og með þessu hafi ákærðu ekki sinnt þeirri skyldu sinni að gæta hagsmuna bankans með því að draga úr áhættu hans af lánveitingunni.

            FS38 var ekki eignalaust við lánveitinguna þar sem félagið eignaðist þá veðandlagið, þ.e. hlutabréfin í Aurum. Við mat á því hvort ákærðu brutu reglur bankans með lánveitingunni verður að virða málið í heild og varðar þá mestu virði trygginganna sem veittar voru vegna lánveitingarinnar og staða bankans fyrir og eftir lánveitinguna. Reglurnar sem þarna er vísað til eru almennar reglur Glitnis banka um lánveitingar og markaðsáhættu. Önnur grein reglnanna sem ber yfirskriftina „Lánastefna“ hljóðar svo:

            „Bankinn skal stýra útlánasafni sínu, þar á meðal ábyrgðum og annarri mótaðilaáhættu með tilliti til efnahagslegar skilyrða á hverju markaðssvæði. Bankinn leitast við að tryggja gæði útlánasafnsins með því að dreifa áhættu eftir greinum og löndum, sem og greinum innan hvers lands. Lánaáhætta gagnvart einstöku efnahagssviði skal ekki fara fram yfir 35% af útlánasafni bankans á samstæðugrundvelli.

            Bankinn leitast við að takmarka stórar útlánaáhættur, þ.e. útlánaáhættur sem nemur meira en 10% af reglubundnu eiginfjárhlutfalli (CAD vegið eigið fé). Þannig má engin einstök langtímaútlánaáhætta vera hærri en 20% af CAD vegnu eiginfjárhlutfalli Glitnis á samstæðugrundvelli. Langtímamörk fyrir einstaka stóra útlánaáhættu skulu takmarkast við viðskiptavini sem eru í áhættuflokkum 1-5 miðað við áhættumatslíkan bankans. Sérstaklega skal þess gætt að meta lánshæfi viðskiptavinar, gæði trygginga eða annarra áhættuþátta sem og eðli útlánaáhættunnar og eðlilega áhættu hennar. Uppsafnaðar samstæðuútlánaáhættu sem eru hærri en 10% af samstæðuvegnu eigin fé mega ekki fara yfir 200%.

            Allar ákvarðanir um útlánaáhættu og/eða markaðsáhættu skulu byggðar á formlegu áhættumati á viðskiptavininum og fjárhagsstöðu hans, lánshæfi hans, útlánasögu og öðrum viðeigandi upplýsingum. Ítarleg greining skal gerð á eðlislægri áhættu ákvörðunarinnar sem og viðeigandi áhættumildandi þáttum.“

            Ákærðu er ekki gefið að sök að hafa brotið gegn útlánamörkum sem þarna

er lýst og verður því ekki fjallað um það.

            Í ákærunni segir að tryggingar hafi verið ófullnægjandi í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um verðmæti Aurum og bága greiðslugetu þess.

            Eins og framburður ákærðu og vitnisburður ber með sér liggja frammi ýmis gögn um verðmæti Aurum á þessum tíma, þ.e. í júlí 2008. Ekki verður ráðið af ákærunni hvaða fyrirliggjandi upplýsingar er átt við og hvert hafi þá verið virði félagsins samkvæmt þessum sömu upplýsingum. Hins vegar verður að skilja ákæruna svo að það sé mat ákæruvaldsins að vermæti Aurum hafi ekki staðið undir láninu frekar en aðrar forsendur sem lánveitingin byggði á. Með þessu hafi ákærðu brotið gegn ofangreindri 2. gr. reglna sem rakin var. Verður vikið að hluta þessa síðar en nú verður fjallað um fyrirliggjandi upplýsingar um verðmæti Aurum í júlí 2008.

            Ekki verður ráðið af ákærunni hvaða verð Aurum ákærðu hefðu átt að leggja til grundvallar er þeir mátu Aurum sem veðandlag. Í ákærunni segir aðeins að lánið hafi verið veitt án fullnægjandi trygginga. Vegna óvissu um þetta, lýsti ákæruvaldið þeirri skoðun undir aðalmeðferð málsins að miða hefði átt við bókfært verð félagsins. Hvorki er áskilnaður um þetta í lögum né í dómaframkvæmd og reglur bankans kveða ekki á um það að þessi háttur skuli hafður á. Ákærðu bar samkvæmt þessu ekki að styðjast við þetta viðmið við mat á verðmæti hlutbréfanna í Aurum er þeir mátu veðhæfi þeirra. Þessi niðurstaða styðst einnig við þá staðreynd að bókfært verð gefur ekki rétta mynd af markaðsverði eignar og má um þetta vísa til framburðar ákærðu Lárusar, Magnúsar Arnar og meðákærðu Bjarna og Jóns Ásgeirs og til vitnisburðar Einars Arnar Ólafssonar og Pálma Haraldssonar. Þetta má heita alkunna.

            Ákærðu verða samkvæmt þessu ekki sakfelldir fyrir brot á 2. gr. reglnanna sem hér um ræðir vegna þess að þeir lögðu bókfært verð Aurum ekki til grundvallar mati sínu á veðhæfi félagsins.

            Eins og rakið hefur verið að framan átti lánamálið sem hér um ræðir sér langan aðdraganda innan Glitnis banka og hafði verið unnið að málinu lengi af mörgum stafsmönnum bankans og í ýmsum deildum hans. Þá hafði áþekkt lánamál komið fyrir áhættunefnd bankans áður og verið samþykkt.

            Samtímagögn sem varða mestu við mat á verðmæti félagsins á þessum tíma eru verðmat Daða Hannessonar hjá fyrirtækjaráðgjöf Glitnis banka og verðmat Kaupþings banka.

            Samkvæmt þessum gögnum málsins var verðmat Aurum á bilinu 90-110 milljónir sterlingspunda lagt til grundvallar forsamningnum. Sannað er með vitnisburði Þórólfs Jónssonar, Hálfdans Guðna Gunnarssonar, Gunnars Sigurðssonar, Nikhil Sengupta, Tawhid Abdullah, Jeffs Blue, Dons McCarthy og Justin Stead og með undirritun forsamningsins 14. júní 2008 og öðrum gögnum málsins varðandi þetta að unnið var að gerð forsamningsins með viðskipti í huga. Það var staða málsins í júlí 2008 er lánið var veitt.

                Verðmat Aurum á bilinu 90–110 milljónir sterlingspunda lá til grundvallar forsamningi. Vitni báru að viðræður, sem fóru fram á milli Damas og Aurum, hefðu farið fram í fullri alvöru, með það að takmarki að láta verða af viðskiptunum. Fjöldi vitna bar um það að Damas hefði ætlað sér að hefja frekari viðræður og áreiðanleikakönnun á grundvelli forsamningsins.

                Margir aðilar framkvæmdu verðmat á Aurum og eru niðurstöður þeirra nokkuð mismunandi. Nú er það svo að mjög erfitt getur verið að verðmeta fyrirtæki, sem ekki eru skráð á markaði. Mjög margir mismunandi áhættuþættir hafa áhrif á niðurstöðuna. Nokkrir þeirra eru: frjálst fjárstreymi næstu ára, vöxtur frjáls fjárstreymis eftir að spátímabili lýkur, ávöxtunarkrafa eiginfjár, ávöxtunarkrafa lánsfjár. Til þess að geta spáð um framtíðar frjálst fjárstreymi er nauðsynlegt að spá fyrir um sölutekjur, alla kostnaðarliði, afskriftir og skatta. Mismunandi forsendur leiða til mismunandi niðurstaðna sem, eins og áður sagði, geta verið mjög dreifðar. Öðru máli gegnir um fyrirtæki sem verslað er með á markaði. Þá er það „collective“ skoðun markaðarins, hundruða, jafnvel þúsunda, aðila sem reglulega stunda viðskipti með hluti í fyrirtækinu, sem ákveður hvert verðmæti fyrirtækisins er.

                Vitanlega er verðmat á óskráðum fyrirtækjum framkvæmt og skiptir þá mestu máli að það sé gert af fagmennsku og að framkvæmdaaðilar hafi góða þekkingu á markaðnum svo og núverandi stjórnendum fyrirtækisins og framtíðaráætlunum þeirra. Verðmat verður að horfa „fram á við“ því að verð fyrirtækis í dag er ekkert annað en núvirt framtíðarfjárstreymi. Sú aðferðafræði sem mest er notuð í dag er DCF (discounted cash flow) aðferðin og er rétt að geta þess að mörg helstu og virtustu ráðgjafafyrirtæki heims, þ. á. m. McKinsey, ráðleggja eindregið að DCF-aðferðinni sé beitt þegar það er mögulegt. Aldrei ber að takmarka verðmat fyrirtækis við kennitölur liðinna ára. Slíkar upplýsingar segja lítið til um mögulega framtíðarverðmætasköpun fyrirtækisins.

                Dómurinn telur að áreiðanlegustu verðmötin hafi verið framkvæmd af Glitni banka og Kaupþingi, sem hvor tveggja beitti DCF aðferðinni. Niðurstöður þeirra voru í samræmi við forsamninginn, en þó aðeins hærri.

                Vegna erfiðleikanna við að verðmeta óskráð fyrirtæki er því eðlilegast að líta á „rétt verð“ sem það verð sem kaupendur og seljendur verða sammála um. Í ákveðnum skilningi er rétt að líta á slíkt verð sem rétt eða sanngjarnt verð. Í forsamningnum segir: „The Purchaser (Damas) and the Company (Aurum) have agreed that the indicative equity valuation of the Company shall amount to £100,000,000 prior to the issuance of any shares to the Purchaser.“ Í ljósi þessarar staðreyndar má ekki leggja of mikla áherslu á verðmöt, sem framkvæmd hafa verið af mismunandi aðilum, í mismunandi tilgangi og fyrir mismunandi aðila með þörf fyrir mismunandi útkomur. Þau dæmast öll á ákveðinn hátt ómerk eftir að kaupandi og seljandi hafa komist að samkomulagi um það að miða upphafspunkt söluferilsins við ákveðið verð, sem í þessu tilfelli var 100,000,000 sterlingspunda.

            Það er mat dómsins að engu breyti eins og á stendur þótt forsamningurinn hafi ekki verið skuldbindandi um verð. Hann gaf ákærðu, með réttu, vísbendingar um verðmæti Aurum á þessum tíma, í júlí 2008, og forsvaranlegt var af þeim að taka mið af þessu ásamt öðru því sem þeir studdust við varðandi matið á félaginu. Það er ekki í verkahring dómsins að taka afstöðu til þess hvert var verðmæti hlutabréfanna í Aurum sem sett voru sem trygging fyrir hluta lánsins sem um ræðir. Hins vegar er það mat dómsins að þær aðferðir sem notaðar voru við framagreind möt séu viðurkenndar og þekktar og hefur ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að verklag og aðferðir sem notaðar voru við gerð þessara gagna hafi verið rangar þannig að ekki hafi verið á þeim byggjandi við mat ákærðu á verðmæti hlutabréfanna og þar með veðandlagsins.

            Fram kom í vitnisburði Gríms Grímssonar rannsóknarlögreglumanns að við mat á þessu hafi lögreglan stuðst við undirmatsgerð, dagsetta 23. apríl 2012. Því mati hefur verið hnekkt með yfirmatsgerð sem dagsett er 16. október 2013. Enginn matsmanna kom fyrir dóm enda voru þeir dómkvaddir til að vinna matsgerðir sínar í tengslum við rekstur einkamáls. Eins og fram kom í vitnisburði Gríms Grímssonar var undir rannsókn málsins ákveðið að fá ekki dómkvadda matsmenn við rannsókn þessa máls.

            Það er niðurstaða dómsins um þetta að sú forsenda ákærunnar að verðmæti Aurum hafi verið metið of hátt sé ósönnuð.

            Þá er í ákærunni vísað til bágrar greiðslustöðu Aurum. Vitnin Edda Lára Lúðvíksdóttir, Jeff Blue, Don McCarthy, Justin Stead og Pétur Már Halldórsson lýstu því fyrir dóminum að félagið hefði á þessum tíma gengið vel og er vísað til vitnisburðarins um þetta. Þótt breytingar hafi orðið á lánskilmálum sambankaláns er það ekki sönnun þess að greiðslugeta félagsins hafi verið bág á þessum tíma. Með vísan til þessa og vitnisburðarins sem rakinn var er ósannað að greiðslugeta félagsins hafi verið svo bág á þessum tíma og ákærðu hafi af þeim sökum ekki mátt samþykkja lánveitinguna. Ákæruvaldið hefur engin fullnægjandi gögn langt fram sem gefa aðra niðurstöðu til kynna.

            Samkvæmt þessu er ósannað að ákærðu hafi með mati sínu á verðmæti Aurum sem tryggingar ekki gætt þeirrar skyldu sinnar að gæta hagsmuna bankans. Þeir verða því ekki á þessum forsendum taldir hafa brotið 2. gr. almennra reglna Glitnis banka um lánveitingar og markaðsáhættu.

            Þá segir í ákærunni að trygging Fons að fjárhæð 1750 þúsund krónur hafi verið ófullnægjandi vegna vöntunar á tryggingum fyrir skuldbindingum Fons hjá bankanum en fyrr á árinu 2008 hafi bankinn ítrekað þurft að veita Fons greiðslufrest á gjaldföllnum afborgunum.

            Í lánabeiðninni vegna lánsins til FS38 kemur fram að útlánamörk Fons lækka við lánveitinguna. Þá báru vitnin Pálmi Haraldsson, Einar Þór Sverrisson og Erlendur Magnússon að Fons hefði á þessum tíma verið fjárhagslega mjög sterkt félag. Vitnisburður Guðnýjar Sigurðardóttur, lánastjóra Glitnis banka, er á sama veg en hún bar um fjárhagsstöðu Fons á þessum tíma og að eigið fé félagsins hefði verið verulegt. Þá báru ákærðu og m.a. vitnið Rósant Már Torfason að ekkert í reglum bankans banni að lána félagi sem skuldi bankanum eða sé í vanskilum og jafnvel megi lána án trygginga eins og lýst var. Heildarmat á hagsmunum bankans af lánveitingunni var það sem réð för, svo sem ákærðu hafa borið. Þeir hafa báðir borið auk meðákærða Bjarna og vitna að staða bankans hafi verið betri eftir lánveitinguna en fyrir. Mat á þessu lýtur að fjártjónshættu bankans vegna lánveitingarinnar. Verður nú fjallað um þetta svo að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort ákærðu hafi með lánveitingunni stefnt fjármunum bankans í verulega hættu og þar með brotið gegn reglum bankans sem hér um ræðir.

            Til þess að svara þessari spurningu er rétt að bera saman áhættuna sem bankinn stóð frammi fyrir gagnvart Fons og ákærða Jóni Ásgeiri fyrir og eftir lánveitinguna. Fyrir lánveitinguna var skuldastaða Fons og ákærða Jóns Ásgeirs gagnvart Glitni banka eftirfarandi:

Staðan fyrir 6 milljarða lánið

 

Ótryggt útlán til Fons

2.75

Ótryggt tap Fons af markaðsviðskiptum

1.25

Ótryggt útlán til Jón Ásgeirs

0.705

Heildarstaðan

4.705

 

                Heildarlánastaðan var 4,705 milljarðar og voru öll lánin ótryggð.
                Sex milljarða lánið til FS38, til kaupa á 25,7% hlut Fons í Aurum, var veitt með skilyrðum, sem höfðu áhrif á skulda – og áhættustöðu Glitnis banka gagnvart, Fons, FS38 og ákærða Jóni Ásgeiri.

                Af 6 milljarða láninu voru 2,75 milljarðar notaðir til að gera upp ótryggða skuld Fons, 1,25 milljarðar voru lagðir inn á lokaðan (veðsettan) reikning til tryggingar á útistandandi skuld vegna markaðsviðskipta með verðbréf og 2 milljarðar voru lagðir inn á reikning Fons hjá Glitni. Af þessum 2 milljörðum var 1 milljarður greiddur inn á einkareikning ákærða Jóns Ásgeirs, sem notaði 0,705 milljarða til greiðslu á ótryggðum yfirdrætti hjá Glitni. Upphæðin sem fór út úr Glitni, í tengslum við lánið, var því, 

                                6,00 – 2,75 – 1,25 – 0,705 = 1,295 milljarðar.

                Við 6 milljarða lánveitinguna breyttist ótryggt lán upp á 4,705 milljarða króna í 6 milljarða króna lán sem naut:

    • Veðs í eignarhlut FS38 í Aurum, metinn á 4 milljarða króna

    • Sjálfskuldarábyrgðar Fons upp á 1,75 milljarða

    • Kaupréttar á FS38

    • Þess að Fons felldi niður kröfu á FS38 upp á 2,5 milljarða króna.

 

                Staðan eftir lánveitinguna var því:

Staðan eftir 6 milljarða lánið  

 

Sjálfskuldaábyrgð Fons

1.75

Nettólán til FS38

4.25

Heildarlánastaðan

6.00

 

                Nauðsynlegt er að átta sig á tryggingastöðu lánsins. Fyrir 6 milljarða lánið var skuldastaðan lán upp á 4,705 milljarða, sem var ótryggt. Eftir 6 milljarða lánið var Glitnir með mismunandi tryggingar.

                Nú er ekki auðvelt að átta sig á því hvor staðan er betri, lán upp á 4,705 milljarða án tryggingar eða lán upp á 6 milljarða, með þeim tryggingum sem nefndar eru að ofan. Til þess að átta sig á mögulegri útkomu er hægt að hugsa sér eftirfarandi samanburð:

                Fyrir 6 milljarða lánið. Miðað við jafnar líkur á 0%, 25%, 50%, 75% og 100% endurheimtun útistandandi láns er hægt að meta líkurnar á neikvæðri útkomu út frá eftirfarandi töflu:

 

Mögulegt tap Glitnis við mismunandi endurheimtur á láni fyrir 6,0 milljarða lánið

Endurheimtur[%]

0.00%

-4.7

25.00%

-3.525

50.00%

-2.35

75.00%

-1.175

100.00%

0

Líkur á neikvæðri útkomu =

80.00%

               

                Eftir 6 milljarða lánið. Eins og að ofan er gert ráð fyrir jöfnum líkum á 0%, 25%, 50%, 75% og 100% endurheimtun lánsins. Enn fremur er gert ráð fyrir jöfnum líkum á því að hlutur FS38 í Aurum sé metinn á 1, 2, 3, 4, 5 eða 6 milljarða króna. Út frá þessum forsendum má meta líkurnar á neikvæðri útkomu fyrir Glitni banka í samræmi við eftirfarandi töflu,

 

Tap Glitnis við mismunandi endurheimtur á láni og mismunandi verð á Aurum eftir 6 milljarða lánið

            Verðmæti Aurum hlutar

Endurheimtur[%]

0

1

2

3

4

5

6

0.00%

-6

-5

-4

-3

-2

-1

0

25.00%

-4.5

-3.5

-2.5

-1.5

-0.5

0.5

1.5

50.00%

-3

-2

-1

0

1

2

3

75.00%

-1.5

-0.5

0.5

1.5

2.5

3.5

4.5

100.00%

0

1

2

3

4

5

6

Líkur á neikvæðri útkomu = 45.71%

 

                Hér er um mikla einföldun að ræða en í fjarvist frekari upplýsinga, um mögulegar útkomur fyrir endurheimtur skulda og verðmæti hlutar FS38 í Aurum, er jöfn dreifing á mögulegar útkomur ein leið til að fá magnlega niðurstöðu. Miðað við þessar forsendur eru líkurnar á neikvæðri útkomu, eftir 6 milljarða lánið, töluvert lægri en áður en lánið er veitt, eða 45,71% á móti 80%. Niðurstaðan er því sú að þrátt fyrir stærra lán, hafi áhættustaða Glitnis banka verið skárri eftir 6 milljarða lántökuna en fyrir hana. Dómurinn áttar sig á takmörkunum þessarar aðferðafræði, en hér er einungis ein möguleg leið til að fá magnlegan samanburð á áhættunni fyrir og eftir 6  milljarða lánveitinguna.

                Tölvupóstar á milli starfsmanna Glitnis banka, þar á meðal ákærðu, bera þess vitni að þeir hafi lagt sig fram við að ná tryggingum fyrir nýju lánastöðunni. Dómurinn telur að tölulegu athuganirnar að ofan styðji þá staðhæfingu að það hafi tekist.

            Ákæruvaldið hefur ekki lagt fram gögn um samanburð á stöðu Glitnis banka fyrir og eftir lánveitinguna og engin matsgerð liggur fyrir um þetta. Dómurinn telur umfjöllunina um þetta nauðsynlega til að unnt sé taka afstöðu til þess hvort ákærðu hafi með lánveitingunni gerst brotlegir við reglur bankans með því að meta ábyrgð Fons eins og þeir gerðu. Þá er samanburðurinn nauðsynlegur við mat á fjártjónshættu. Umfjöllunin um þetta hér að ofan er byggð á gögnum málsins og sérfræðiþekkingu innan dómsins.

            Það er því að mati dómsins ósannað að ákærðu hafi með því að meta ábyrgð Fons á þessum hluta lánveitingarinnar, eins og þeir gerðu í júlí 2008, gerst brotlegir við fyrrgreinda 2. gr. lánareglnanna. Þá er það niðurstaða dómsins að ákæruvaldið hafi ekki sannað að áhættustaða Glitnis banka hafi verið verri eftir lánveitinguna en fyrir.

            Í greinargerð ákærunnar er, auk 2. gr. lánareglnanna, sem fjallað var um að framan, jafnframt vísað til greinar 8.4 í útlánahandbók Glitnis og ákærðu taldir hafa farið gegn þeirri grein með lánveitingunni. Grein 8.4 er svofelld:

             „Almennt skal Glitnir kappkosta að draga úr áhættu að því marki sem mögulegt er með formlegum veðum, tryggingum, samningum og öðrum mildandi þáttum. Trygging er metin á markaðsvirði eða kaupverði, eftir því hvort er lægra, og Glitnir skal almennt áskilja sér þann rétt að leita eftir óháðu mati á veðsettum eignum nema viðskipti með þær séu víðtæk. Virði veðsettra trygginga skal alltaf endurmetið við árlega endurskoðun lánsins.

            Þess skal gætt að meta ábyrgðaraðila og fjárhagsstöðu þeirra og taka tillit til binditímayfirlit tryggingarinnar og viðkomandi upphæðar.

            Samninga og aðrir mildandi þætti skulu notaðir að teknu tilliti til eðli viðskiptavinarins, ákvörðun mótaðila, bindistímayfirlits, tegundar fjármögnunar og sambandi við viðskiptavin. Með slíkum úrræðum skal ætíð leitast við að styrkja stöðu Glitnis og verja Glitni með nægilegum hætti ef kemur til vanskila.

            Ef arðsöm verðbréf eru veðsett skal nota rauntímamat til að virkja veðköll og gæta skal þess að fylgjast vel með slíku veði.“

            Því var lýst að framan að dómurinn telur ósannað að tryggingarnar sem teknar voru hafi ekki verið í lagi með hliðsjón af 2. grein lánareglnanna. Vísað er til þess sem þar sagði um þetta. Regla 8.4 í útlánahandbókinni segir m.a. að trygging skuli metin á markaðsvirði eða kaupverði eftir því hvort er lægra. Hlutabréfin í Aurum voru óskráð og félagið ekki á markaði. Áður er lýst samtímagögnum sem lágu til grundvallar verðmatinu á félaginu og var nefnt þar að ekki hefði verið sýnt fram á annað en að byggt hafi verið á þekktum og viðurkenndum aðferðum við gerð samtímamatanna sem vísað var til. Ekkert saknæmt var að mati dómsins við vinnu ákærðu við að leggja þessi gögn til grundvallar og hafa þeir ekki brotið ofangreinda reglu.

            Þá segir í grein 8.4 að Glitnir skuli almennt áskilja sér rétt til að leita eftir óháðu mati á veðsettum eignum nema viðskipti með þær séu víðtæk. Mikil vinna hafði farið fram innan bankans um margra vikna skeið vegna þessa máls og margir starfsmenn bankans þekktu orðið vel til málsins. Daði Hannesson, starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Glitnis, vann verðmat í samræmi við ofangreinda grein 8.4 auk þess sem fleiri gögn lágu fyrir svo sem forsamningurinn. Því var lýst að framan að dómurinn telur verðmat Glitnis banka byggt á viðurkenndum aðferðum. Það er mat dómsins að ákærðu hafi gert það sem ætlast var til við þessar aðstæður til að kappkosta að draga úr áhættu eins og lýst er í tilvitnaðri grein og hafa þeir því ekki gerst brotlegir við hana.

            Undir aðalmeðferð málsins var mikill fjöldi tölvupósta borinn undir ákærðu og vitni. Í málflutningi ákæruvaldsins og sóknarræðu kom skýrt fram að málatilbúnaður þess er að miklu leyti reistur á tölvupóstum sem ákæruvaldið hefur túlkað til rökstuðnings fyrir sakfellingu samkvæmt ákæru. Gríðarlegur fjöldi tölvupósta liggur frammi í málinu. Þeir virðast að hluta fjalla um samskipti ákærðu og fleiri sem geta tengst sakarefninu beint eða óbeint en sumir póstarnir alls ekki að því er virðist enda ljóst af þeim að þar var ýmislegt rætt. Hluti tölvupóstanna gefa að einhverju leyti sýn á tímann sem málið hafði verið til athugunar í bankanum og að margir starfsmenn bankans komu þar að. Ákærðu og fjöldi vitna kom fyrir dóminn vegna þessa. Eins og rakið var skýrðu ákærðu og vitni póstana eftir getu en af skiljanlegum ástæðum mundu ákærðu og vitni mismikið eftir þessu enda sex ár liðinn frá samskiptunum og fjöldi pósta mikill, til dæmis bar vitnið Rósant Már Torfason að hann hefði á þessum tíma fengið senda um 100 tölvupósta á dag. Ákærðu bera ekki hallan af því þótt þeir eða vitni muni ekki efni einstakra tölvupósta nú, sex árum síðar.

            Þótt sönnunarmatið sé frjálst er sú leið ótæk að mati dómsins að byggja sönnun í málinu á túlkun á tölvupóstunum sem eru, a.m.k. að hluta, andstæðir framburði ákærðu og/eða vitna fyrir dómi. Önnur niðurstaða væri að mati dómsins andstæð grundvallarreglum um sönnun í sakamálum.

            Ákærðu er gefið að sök brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga þar sem segir: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“

            Ákærðu voru í aðstöðu til þess að skuldbinda bankann eins og greinin áskilur. Eitt skilyrði umboðssvika er að ákærðu hafi misnotað aðstöðu sína. Því hefur verið lýst hér að framan að ákærðu hafi með lánveitingunni ekki brotið þær reglur bankans sem málatilbúnaður ákæruvaldsins er reistur á. Samkvæmt þessu misnotuðu ákærðu ekki aðstöðu sína og verða því ekki sakfelldir fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Því ber að sýkna þá.

 

            Ákæruliður II

            Ákærði Jón Ásgeir neitar sök. Ákæruvaldið sýnist einkum byggja sakargiftir á hendur ákærða Jóni Ásgeir á tölvupóstum og túlkun þeirra um að hann hafi í krafti áhrifa sinna í Glitni banka hf. haft þau áhrif á ákærða Lárus og Bjarna sem þar er lýst. Fjöldi vitna var spurður um þetta fyrir dómi. Ekkert þeirra styður þá fullyrðingu í ákærunni. Samkvæmt þessu, og gegn neitun ákærða, er ósannað að ákærði Jón Ásgeir hafi  haft þau áhrif á lánveitinguna í krafti áhrifa sinna innan Glitnis banka hf. sem lýst er í ákærunni. Á sama hátt og rakið var að ofan er sönnun með tölvupóstum eins og ákæruvaldið byggir hér á, ótæk leið og andstæð grundvallarreglum um sönnun í sakamálum.

            Með vísan til alls þessa og til þess að niðurstaða ákæruliðar I leiðir sjálfkrafa til sýknu samkvæmt þessum ákærulið ber að sýkna ákærða Jón Ásgeir af kröfum ákæruvaldsins.

 

            Sérálit Arngríms Ísberg héraðsdómara varðandi ákæruliði I og II.

            Ákærðu, Lárusi og Magnúsi, eru gefin að sök umboðssvik í I. kafla ákæru. Þeir voru báðir hátt settir starfsmenn Glitnis banka hf. og bar í starfi sínu að gæta hagsmuna bankans í hvívetna. Í ákærunni er þeim gefið að sök að hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni. Eins og fram hefur komið stóðu þeir að því að lána FS38 ehf. 6 milljarða króna. Félag þetta var eignalaust og hafði engan rekstur með höndum. Það fékk lánið til að kaupa hlutabréf Fons hf. í Aurum Holdings Limited og voru þau hlutabréf til tryggingar láninu. Um aðrar tryggingar var ekki að ræða nema tímabundna ábyrgð Fons hf. eins og rakið var. Aurum var erlent félag og ekki skráð á markaði. Það lágu því takmarkaðar upplýsingar fyrir um verðmæti þess. Af gögnum málsins, þar með töldum framburði fyrir dómi, má ráða að mat á virði hlutabréfanna í félaginu, sem voru veð fyrir láninu, hafi miðast við að félagið Damas keypti hlutabréfin. Áform Damas ein og sér um kaupin voru þó ekki svo ákveðin að verjanlegt væri að byggja á þeim við lánveitinguna. Þá er og komið fram að Aurum hafi tapað á rekstri sínum árin fyrir 2008. Það er mitt mat að með því að lána FS38 ehf. nefnda fjárhæð með veði í bréfunum í Aurum hafi ákærðu valdið verulegri fjártjónshættu fyrir bankann. Þeir hafi því misnotað aðstöðu sín hjá bankanum og stefnt fjármunum hans í verulega hættu. Lánið var algerlega án fullnægjandi trygginga og þar af leiðandi var það veitt andstætt reglum bankans. Ég tel því að sakfella eigi ákærðu fyrir umboðssvik og dæma þá til fangelsisrefsingar.

            Ákærði Jóni Ásgeiri er gefin að sök hlutdeild í umboðssvikunum fyrir að hafa með fortölum og þrýstingi hvatt til þess að lánið væri veitt. Þá er og komið fram að hluti af láninu rann til ákærða eins og lýst er í ákærunni. Í gögnum málsins kemur fram að ákærði hafði veruleg afskipti af þessari lánveitingu og hvatti til hennar. Afskipti hans voru langt um fram það sem eðlilegt getur talist af manni sem engri stöðu gegndi hjá bankanum en fór með stóran eignarhlut í honum. Ekki er hægt að líta á afskipti hans í öðru ljósi en því að honum var ætlaður hluti af láninu eins og rakið hefur verið. Ákærða hlaut þó að vera ljóst að veðið, sem stóð til tryggingar láninu, var á engan hátt fullnægjandi. Það er mitt mat að ákærði sé sekur um hlutdeild í umboðssvikunum og að dæma eigi hann til fangelsisrefsingar fyrir það.

           

            Ákæruliður III

            Ákærði Bjarni neitar sök. Ákærða er samkvæmt þessum ákærulið gefið að sök hlutdeildarbrot. Ákærði kom sem starfsmaður bankans ekki að því að ákveða lánveitinguna eða samþykkja veðið til tryggingar henni. Í ákærunni er hlut ákærða lýst á þann veg að hann hafi unnið þau störf sem fyrir hann var lagt að vinna í tengslum við lánveitinguna en aðrir höfðu tekið ákvörðun um hana eins og rakið var. Að mati dómsins er ósannað að ákærði hafi með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningu eða á annan hátt stuðlað að lánveitingunni.

            Með vísan til alls þessa og til þess að niðurstaða ákæruliðar I leiðir sjálfkrafa til sýknu samkvæmt þessum ákærulið ber að sýkna ákærða Bjarna af kröfum ákæruvaldsins.

 

            Eftir þessum úrslitum skal allur sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun ásamt virðisaukaskatti sem eru svofelld auk útlagðs kostnaðar verjanda:

            Málsvararlaun Óttars Pálsson hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Lárusar Welding, 14.319.550 krónur auk 922.119 króna vegna útlagðs kostnaðar.

            Málsvarnarlaun Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Magnúsar Arnar Arngrímsson, 9.161.500 krónur.

            Málsvarnarlaun Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, 10.391.400 krónur.

            Málsvarnarlaun Bjarna Eiríkssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða Bjarna Jóhannessonar, 9.211.700 krónur.

            Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

            Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Sverrir Ólafsson prófessor.

 

                                                            Dómsorð:

            Ákærðu, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Bjarni Jóhannesson, eru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins.

            Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun ásamt virðisaukaskatti sem eru svofelld auk útlagðs kostnaðar verjanda:

            Málsvararlaun Óttars Pálssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Lárusar Welding, 14.319.550 krónur auk 922.119 króna vegna útlagðs kostnaðar.

            Málsvarnarlaun Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Magnúsar Arnar Arngrímsson, 9.161.500 krónur.

            Málsvarnarlaun Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, 10.391.400 krónur.

            Málsvarnarlaun Bjarna Eiríkssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærða Bjarna Jóhannessonar, 9.211.700 krónur.

 

                                                            Guðjón St. Marteinsson

                                                            Arngrímur Ísberg

                                                            Sverrir Ólafsson