• Lykilorð:
  • Brotaþoli
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Nálgunarbann
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 14. febrúar 2017 í máli nr. S-277/2016:

Ákæruvaldið

(Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)

gegn

Jai Khorchai

 

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 19. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 18. október sl., á hendur Jai Khorchai,  til heimilis að Reykjabraut 1, Þorlákshöfn,  

 

I.          fyrir líkamsárás

með því að hafa að kvöldi föstudagsins 1. janúar 2016 á heimili sínu að A, veist að B, hrint henni svo hún féll við og í kjölfarið slegið hana í andlitið.

 

Telst brot ákærða varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

II.                fyrir brot gegn nálgunarbanni

með því að hafa, í neðangreindum tilfellum hringt símleiðis í í B, þrátt fyrir að ákærða hefði, með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi dags. 8. janúar 2016 sem birt var fyrir ákærða kl. 12:30 þann sama dag, verið bannað að vera í sambandi við hana með nokkru móti í fjóra mánuði:

 

   a. klukkan 14:35 föstudaginn 26. febrúar 2016

   b. klukkan 15:56 föstudaginn 26. febrúar 2016

   c. klukkan 11:17 laugardaginn 27. febrúar 2016

   d. klukkan 14:00 laugardaginn 27. febrúar 2016

   e. klukkan 14:23 laugardaginn 27. febrúar 2016

   f. klukkan 23:43 laugardaginn 27. febrúar 2016

   g. klukkan 22:40 fimmtudaginn 3. mars 2016

   h. klukkan 22:42 fimmtudaginn 3. mars 2016

 

Teljast brot ákærða varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Þá er í ákæru tilgreind svohljóðandi einkaréttarkrafa:

 

„Í málinu gerir Kristrún Elsa Harðardóttir hdl. kröfu f.h. brotaþola um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000,- auk vaxta skv. 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt fyrir kærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 22. nóvember sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði þrisvar sinnum áður sætt refsingu, þar af tvívegis vegna umferðarlagabrota. Þann 12. desember 2008 var ákærði fundinn sekur um líkamsárás, og honum gert að sæta fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 90 dagar. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til þess að ákærði stóðst skilorð eldri dóms, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Sakarkostnaður samkvæmt yfirlitum lögreglu nemur samtals 210.893 kr. Þá er þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola hæfilega ákveðin 289.540 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Í gögnum málsins er að finna skjal með yfirskriftinni „krafa um skaðabætur“. Að mati dómsins uppfyllir umrætt kröfuskjal bótakrefjanda skilyrði 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008, um greinargerð kröfuhafa. Ákærði hefur verið fundinn sekur um brot þau sem greinir í ákæru og ber ábyrgð á tjóni því er af brotum hans hlaust. Að framangreindu virtu þykir rétt að fallast á kröfu bótakrefjanda, líkt og greinir í dómsorði, þó þannig að miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 300.000 kr. Samkvæmt gögnum málsins var umrædd bótakrafa birt ákærða með ákæru og fyrirkalli þann 22. nóvember sl.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Jai Khorchai, sæti fangelsi í 90 daga, en fresta skal fullnustu  refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði sakarkostnað, samtals 500.433 krónur, þar af þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kristrúnar Elsu Harðardóttur, 289.540 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Ákærði greiði Kristrúnu Elsu Harðardóttir hdl., f.h. brotaþola, miskabætur að fjárhæð kr. 300.000,- auk vaxta skv. 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2016 til 22. desember 2016, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.