• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skilorð
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 15. febrúar 2017 í máli nr. S-12/2017:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jósef Jan Damrath

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 2. þessa mánaðar, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 10. síðasta mánaðar, á hendur Jósef Jan Damrath, kt. 000000-0000, Suðurhvammi 9 í Hafnarfirði „[f]yrir eftirtalin þjófnaðarbrot í Reykjavík, með því að hafa:

1.      Fimmtudaginn 22. september 2016 í verslun Hagkaups, Holtagörðum, Reykjavík, stolið rakspíra og penna, samtals að verðmæti kr. 9.099.

[...]

2.      Föstudaginn 21. október 2016 í verslun Bónuss, Lóuhólum 2-4, Reykjavík, stolið 6 kartöflupokum og 2l kókflösku, samtals að verðmæti kr. 1.763.

[...]

            Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Um málsatvik er skírskotað til framangreindrar ákæru.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað brot sín og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í sam­ræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau rétt heimfærð til refsiákvæðis. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði á ákærði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2006, en hefur þar af tvívegis áður gerst sekur um auðgunarbrot. Vegna þeirra brota samþykkti hann sektargreiðslur með sáttum hjá lögreglustjóra, annars vegar 29. apríl 2009 og hins vegar 14. mars 2012. Til málsbóta horfir að ákærði hefur, hvort tveggja á rannsóknarstigi og fyrir dómi, gengist við brotum sínum. Að framan­greindu virtu og eftir 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða sam­kvæmt 1. mgr. 244. gr. sömu laga hæfilega ákveðin fangelsi í þrjátíu daga og skal fullnusta hennar bundin skilorði svo sem nánar greinir í dómsorði.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Hákon Þorsteinsson, aðstoðarmaður dómara, dæmir þetta mál.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Jósef Jan Damrath, sæti fangelsi í þrjátíu daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

                                                            Hákon Þorsteinsson