• Lykilorð:
  • Endurgreiðslukrafa
  • Gjöf
  • Riftun
  • Riftunarmál þrotabúa

 

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2012 í máli nr. E-5861/2010:

Kaupþing hf.

(Guðni Ásþór Haraldsson hrl.)

gegn

Sigurði Einarssyni

(Gestur Jónsson hrl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 7. maí sl., er höfðað með stefnu 20. ágúst 2010 af Kaupþingi hf., Borgartúni 19, Reykjavík, gegn Sigurði Einarssyni, 10 Astell Steet, Chelsea, London SW3, Englandi. Réttarstefna 4. nóvember 2011 hefur verið sameinuð málinu.

            Stefnandi gerir þær dómkröfur að rift verði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, ráðstöfun Kaupþings hf. frá 25. september 2008, um að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á greiðslu lánssamninga aðila nr. 690-35-3008, dagsettum 1. desember 2005, nr. 690-35-3154, dagsettum 4. maí 2006, nr. 690-35-4252, dagsettum 27. nóvember 2006, nr. 690-35-5244 dagsettum 23. mars 2007 og nr. 690-35-8386, dagsettum 11. ágúst 2008. Jafnframt er gerð sú krafa aðallega að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 549.308.558 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 25. september 2008 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 496.218.406 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. september 2008 til greiðsludags. Þá er þess krafist að staðfest verði kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík í málinu nr. K-22/2011, sem fram fór þann 1. júlí 2011 um kyrrsetningu eignarhluta stefnda í Valhúsabraut 20, Seltjarnarnesi, eignarhluta stefnda í jörðinni Stíflisdal, landsnúmer 170165, sumarhúsi á jörðinni Stíflisdal, fnr. 220-9388 og 20% eignarhluta stefnda í Hvítsstöðum ehf., kt. 000000-0000. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

            Stefndi krefst sýknu, að ákvörðun sýslumanns um kyrrsetningu verði felld úr gildi og að kyrrsetningarkröfu stefnanda verði hrundið. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar.

 

 

                                                                     I

Stefndi var forstjóri stefnanda. Hinn 1. desember 2005 gerði stefndi lánssamning við stefnanda. Samkvæmt lánssamningi, sem kvað á um skuldbindingu í japönskum jenum, nam fjárhæð lánsins 1.023.230.196 krónum og skyldi það endurgreitt í einu lagi 1. desember 2010. Í 5.1. gr. samningsins var ákvæði um að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar samkvæmt lánssamningi setti lántaki bankanum að handveði hluti í Kaupþingi banka hf., í eigu lántaka, að nafnverði 3.744.423 krónur, sbr. handveðsyfirlýsingu frá 1. desember 2005.  Þá sagði í 6.1. gr. að ábyrgð lántaka á skuldinni samkvæmt lánasamningi takmarkaðist við verðmæti veðsins og hvers kyns viðbótartrygginga sem hann kynni að leggja fram í samræmi við ákvæði 5. gr. en auk þess skyldi hann því til viðbótar bera ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún væri á hverjum tíma. Samkvæmt iii. lið 7.1. gr. skuldbatt lántaki sig til að selja ekki eða veðsetja öðrum hina veðsettu hluti. Áþekkt ákvæði var í fyrrgreindri handveðsyfirlýsingu sem áfrýjandi undirritaði 1. desember 2005 samhliða lánssamningnum.

Hinn 4. maí 2006 gerði stefndi lánssamning við stefnanda vegna nýs láns sem hann tók til kaupa á hlutum í honum. Fjárhæð þessa láns var jafnvirði 1.240.109.298 króna í japönskum jenum og skyldi lánið greiðast í einu lagi 4. maí 2011. Hinn 27. nóvember 2006 gerði stefndi lánssamning við stefnanda vegna nýs láns sem hann tók til kaupa á hlutum í honum. Fjárhæð þessa láns var jafnvirði 792.845.742 króna í japönskum jenum og skyldi lánið greiðast í einu lagi 27. nóvember 2011. Hinn 23. mars 2007 gerði stefndi lánssamning við stefnanda vegna nýs láns sem hann tók til kaupa á hlutum í honum. Fjárhæð þessa láns var jafnvirði 247.641.202 króna í japönskum jenum og skyldi lánið greiðast í einu lagi 23. mars 2012.  Hinn 11. ágúst 2008 gerði stefndi lánssamning við stefnanda vegna nýs láns sem hann tók til kaupa á hlutum í honum. Fjárhæð þessa láns var jafnvirði 248.014.531 króna í japönskum jenum og skyldi lánið greiðast í einu lagi 11. ágúst 2011. Allir framangreindir samningar höfðu á að skipa samsvarandi ákvæðum og samningurinn frá 1. desember 2005 að því er varðar takmörkun ábyrgðar og að hlutir í stefnanda keyptir fyrir andvirði lánsins skyldu settir að handveði til tryggingar greiðslu lána og um takmörkun á sölu eða veðsetningu hluta. Í engum framangreindra lánssamninga var kveðið á um það að stefnandi skyldi tryggja stefnda skaðleysi vegna umræddra lána sem hann tók til kaupa á hlutum í stefnanda. Stefnandi staðhæfir að þrátt fyrir veðsetningu hlutanna hafi stefndi notið umtalsverðs arðs af þeim.

 Á fundi stjórnar stefnanda 25. og 26. september 2008 var lögð fram greinargerð frá starfskjaranefnd hans sem tekin hafði verið saman fyrr í þeim mánuði. Í henni var meðal annars tekið fram að í samræmi við launastefnu stefnanda hafi hann gert starfsmönnum kleift að kaupa hluti í sér og fjármagnað þau kaup. Síðan sagði: „Nefndinni er áhyggjuefni að sumir háttsettir stjórnunarstarfsmenn eiga í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna nýlegs falls verðs hlutabréfa. Nefndin er þeirrar skoðunar að taka ætti skref til úrbóta í máli þessu. Megináhersla bankans ætti að vera á að lykilstarfsmönnum hans sé unnt að einbeita sér að sóknarfærum bankans á erfiðum tímum.“ Á grundvelli tillagna nefndarinnar ákvað stjórnin að veita forstjóra stefnanda heimild til að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við hlutafjárkaupalán þeirra með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum. Samkvæmt því gaf forstjórinn 25. september 2008 út yfirlýsingu til stefnda þar sem honum var tilkynnt að stefnandi hafi ákveðið „að fullnusta ekki persónulega ábyrgð“ hans vegna lána til kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Takmarkist ábyrgð hans við hlutabréf í stefnanda sem sett hafi verið sem veð.

Tveimur vikum síðar, 8. október 2008, fór stjórn stefnanda þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar hans í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Daginn eftir, 9. sama mánaðar, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar stefnanda og skipaði jafnframt skilanefnd sem tók við heimildum stjórnarinnar. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var öllum eignum stefnanda, þar á meðal kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., að undanskildum nánar tilgreindum eignum. Samkvæmt því voru kröfur stefnanda á hendur stefnda vegna fyrrgreindra lánssamninga framseldar til umrædds banka.

Hinn 25. maí 2009 var stefnanda skipuð slitastjórn sem ákvað að rifta þeirri ráðstöfun 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á greiðslu lánssamninganna. Var honum tilkynnt þessi ákvörðun slitastjórnarinnar með bréfi 18. maí 2010 og hann jafnframt krafin um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar vegna riftunarinnar.

 

II

            Stefnandi máls þessa byggja kveðst aðild til sóknar á 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, þar sem kveðið sé á um að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Enda þótt lánssamningar þeir, sem hin persónuleg ábyrgð stefnda hafi lotið að, hafi verið framseldur Nýja Kaupþing banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins standi slíkt ekki í vegi því að stefnandi krefjist riftunar umræddra ráðstafana enda verið að endurheimta verðmæti sem Kaupþing banki hf. hafi gefið eftir fyrir framsal kröfuréttindanna til Arion banka hf. Stefnandi og kröfuhafar hans hafi þannig orðið fyrir verðmætamissi sem stefnandi vilji endurheimta með málshöfðun þessari. Lánssamningar stefnda við Kaupþing banka hf. hafi 25. september 2008 verið eign bankans. Þann sama dag hafi verðmæti þeirra verið rýrt með því að fella niður persónulega ábyrgð lántakanda. Þannig hafi sú rýrnun átt sér stað á sama tíma sem bankinn hafi átt lánssamningana. Sú staðreynd að lánin hafi eftir það verið flutt yfir til Nýja Kaupþing banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 breyti ekki þeirri staðreynd að niðurfelling ábyrgðarinnar hafi þá átt sér stað. Því sé krafan um endurgreiðslu á auðgun stefnda eign stefnanda. 

            Stefnandi byggi aðallega á því að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda sé gjöf á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laganna megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin hafi verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Umþrætt niðurfelling og þar með gjafagerningur að mati stefnanda, hafi átt sér stað 25. september 2008. Frestdagur sé 15. nóvember 2008. Gjöfin hafi þannig verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag í skilningi tilvísaðs ákvæðis.

            Gjafahugtak 131. gr. laga nr. 21/1991 sé talið hafa þrjú meginskilyrði. Í fyrsta lagi að gjöfin rýri eignir skuldara, í annan stað að gjöfin leiði til auðgunar móttakanda og í þriðja lagi að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Stefnandi telji öll þessi skilyrði uppfyllt. Að því er varði fyrsttalda skilyrðið þá telji stefnandi óumdeilt að það skilyrði teljist uppfyllt. Stefnandi bendi í þessu sambandi á að niðurfærsla hinnar persónulegu ábyrgðar hafi falið í sér eftirgjöf kröfuréttinda af hálfu stefnanda, en eftirgjöf kröfuréttinda geti m.a. talist til gjafagernings í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Af ráðstöfuninni hafi leitt að stefnandi hafi ekki lengur átt lögvarða fjárkröfu á hendur stefnda á grundvelli lánssamnings. Ráðstöfunin hafi þegar af þessum ástæðum leitt til rýrnunar á eignum stefnanda.

            Að því er varði annað skilyrðið, um auðgun móttakanda, þá telji stefnandi að það skilyrði sé jafnframt uppfyllt. Niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar hafi leitt til þess að stefndi sé laus undan persónulegri greiðsluskyldu og njóti um leið fjármuna sem hefðu að öðrum kosti runnið til stefnanda og um leið kröfuhafa hans. Af framangreindu sé ljóst að ráðstöfunin hafi leitt til auðgunar stefnda, enda tilgangur ráðstöfunarinnar beinlínis að fella niður persónulegar skuldbindingar stefnda.

            Að því er þriðja skilyrðið varði, þ.e. að gjafatilgangi sé til að dreifa, þá telji stefnandi jafnframt ljóst að þetta skilyrði sé uppfyllt. Að mati stefnanda verði ekki séð að ráðstöfunin hafi haft annan tilgang en að ívilna stefnda, ásamt öðrum starfsmönnum, og létta af þeim fjárhagslegar byrðar á kostnað bankans þannig að þeir hafi getað einbeitt sér að störfum sínum í þágu bankans á erfiðleikatímum. Hafi stefndi og aðrir starfsmenn, verið leyst undan persónulegri greiðsluábyrgð og um leið á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Ákvörðun bankans hafi verið tekin þegar fyrirsvarsmönnum hafi verið, eða mátti vera ljóst, að tekið hafi verið að fjara undan fjárhag bankans eða a.m.k. hætt við að svo yrði í ljósi þess ástands sem þá hafi ríkt í bankakerfinu, en stefnanda hafi verið skipuð skilanefnd einungis rúmum tveimur vikum eftir að ráðstöfunin hafi átt sér stað. Telji stefnandi að um sé að ræða gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi umrædd ákvörðun bankans hvorki byggst á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu hans.

            Verði ekki falist á að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 byggi stefnandi til vara á því að hún sé riftanlega á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. sömu laga. Samkvæmt tilvísuðu ákvæði megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafi haft af henni hafi vitað eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Samkvæmt 141. gr. sé það þannig skilyrði riftunar að ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg, hin ótilhlýðilega ráðstöfun falli í einn hinna þriggja flokka sem taldir séu upp í ákvæðinu, skuldari hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafi haft af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Stefnandi telji öll þessi skilyrði uppfyllt.

            Stefnandi telji ráðstöfunina hafa verið ótilhlýðilega þar sem með henni hafi verið felld niður kröfuréttindi í eigu stefnanda gagnvart stefnda án þess að nokkuð endurgjald hafi komið fyrir. Ekki verði séð að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar stefnda, svo og annarra starfsmanna bankans, hafi verið framkvæmd með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi heldur gagngert til þess að ívilna starfsmönnum í þeirri stöðu sem upp hafi verið komin. Ráðstöfunin hafi verið óvenjuleg og framkvæmd á miklu erfiðleikatímabili í starfsemi bankans og fyrirsvarsmönnum bankans, sem tóku ákvörðun um ráðstöfunina, mátt vera það ljóst. Af þessu leiði að eftirgjöf kröfuréttindanna geti ekki talist tilhlýðileg ráðstöfun eins og á hafi staðið. Þá telji stefnandi ljóst að hin ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir stefnanda, hér kröfuréttindi, hafi ekki getað orðið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda hafi leitt til þess að stefndi hafi losnað undan persónulegri greiðsluskyldu. Með því hafi stefnandi og kröfuhafar hans orðið fyrir tjóni sem því nemi, enda ljóst að eftir það hafi ekki verið unnt að ganga að stefnda persónulega um greiðslu skuldarinnar.

            Stefnandi byggi jafnframt á því að stefnandi hafi verið ógjaldfær á tímamarki ráðstöfunarinnar í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Nánar tiltekið sé á því byggt að fjárhagsstaða stefnanda á tímamarki ráðstöfunarinnar, 25. september 2008, hafi verið orðin slík að hann hafi í raun ekki verið fær um að greiða skuldir sem fallið hafi á gjalddaga í fyrirsjáanlegri framtíð og ekki hafi verið líklegt að úr rættist. Sé þannig á því byggt að á þessu tímamarki hafi í raun að óbreyttu verið ljóst, eða því sem næst, að fyrirsjáanlegt greiðsluþrot hafi blasað við stefnanda og eins og síðar hafi komið á daginn. Þannig hafi stefndi orðið greiðsluþrota skömmu síðar og fyrir frestdag í skilningi laga um gjaldþrotaskipti, en stefnanda hafi verið skipuð skilanefnd einungis rúmum tveimur vikum eftir að ráðstöfunin hafi átt sér stað.

            Stefnandi byggi jafnframt á því að stefndi hafi vitað, eða í öllu falli mátt vita, um ógjaldfærni stefnanda á tímamarki ráðstöfunarinnar og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Stefnandi bendi á að grandsemiskilyrði 141. gr. sé talið fullnægt ef móttakanda hefði átta að gruna að skuldari væri ógjaldfær. Í ljósi þess sé á því byggt að stefndi, stöðu sinnar vegna sem framkvæmdarstjóri viðskiptaþróunar Kaupþings banka hf., hafi vitað eða mátt vita að stefnandi væri ógjaldfær í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 og jafnframt um þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg í þeim skilningi sem getið er hér að framan.

            Stefnandi vísi til þess að í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um að fari riftun fram með stoð í 131. – 138. gr. laganna skuli sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu, hér stefnanda, fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabús. Af þessu leiði jafnframt að sé fallist á riftun umþrættrar ráðstöfunar á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, svo sem stefnandi krefjist, eigi stefnandi rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu þeirrar auðgunar sem af ráðstöfuninni hafi leitt.

            Stefnandi byggi á því að auðgun stefnda svari til hinnar persónulegu ábyrgðar sem hafi verið felld niður. Ef ekki hefði komið til niðurfellingar persónulegrar ábyrgðar stefnda á láni gagnvart stefnanda, hefði stefnandi getað krafið stefnda persónulega um greiðslu eftirstöðva lánsins. Með umræddri ákvörðun bankans hafi sá möguleiki stefnanda verið felldur niður og hafi það leitt til samsvarandi auðgunar stefnda. Tjón stefnanda svari jafnframt til þeirrar auðgunar stefnda.

 

            Krafa stefnanda sundurliðist þannig:

Samningur 3008

Uppgreiðsluverðmæti lánssamnings 25.09.2008                                 1.801.408.297 kr.

Fjárhæð vegna 10% ábyrgðar                                                             180.140.829 kr.

Samningur 3154

Uppgreiðsluverðmæti 25.09.2008                                                       1.818.854.403 kr.

Fjárhæð vegna 10% ábyrgðar                                                             181.885.440 kr.

Samningur 4252

Uppgreiðsluvermæti 25.09.2008                                                         1.179.471.817 kr.

Fjárhæð vegna 10% ábyrgðar                                                            117.947.181 kr.

Samningur 5244

Uppgreiðsluvermæti 25.09.2008                                                         396.533.424 kr.

Fjárhæð vegna 10% ábyrgðar                                                             39.653.342 kr.

Samningur 8386

Uppgreiðsluvermæti 25.09.2008                                                         296.817.662 kr.

Fjárhæð vegna 10% ábyrgðar                                                             29.681.766 kr.

            Samtals nemi krafa stefnanda 549.308.558 krónum sem gefnar hafi verið eftir með ákvörðun stjórnar Kaupþings banka hf.   Fjárhæðir skv. ofanrituðu byggist á samantekt PricewaterhouseCoopers hf. sbr. dómskjal nr. 10.

            Verði hins vegar á því byggt, sbr. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 92/2010 og 153/2010, að lán stefndu sé lán í íslenskum krónum tengt við gengi erlendra gjaldmiðla, og þannig að brjóti í bága við VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, leggur stefnandi fram varakröfu til samræmis við fjárhæð lánsins í íslenskum krónum. Um sundurliðun varakröfu sé vísað til útreiknings  PricewaterhouseCoopers hf. á dómskjali nr. 32. Varakrafan byggist á því að verði lánssamningar aðila talinn fela í sér skuldbindingu í íslenskum krónum með óheimilli viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla miðist vaxtaútreikningar lánssamninga við almenna óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Varakrafa byggist að öðru leyti á öllum sömu málsástæðum og lagarökum og byggt sé á í aðalkröfu.

            Krafist sé dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. september 2008 til greiðsludags. Vísist um það til dómvenju Hæstaréttar Íslands þess efnis að riftunarkröfur beri dráttarvexti frá þeim degi sem hin riftanlega ráðstöfun fór fram.

            Stefnandi vísi til þess að verði riftun ekki viðurkennd á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, en þess í stað á grundvelli 141. gr. laganna, þá eigi stefnandi skaðabótakröfu á hendur stefnda eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Stefnandi byggi á því að tjón stefnanda, í skilningi skaðabótareglna, sé hið sama og samkvæmt auðgunarkröfu stefnanda. Sé þannig á því byggt að niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar hafi leitt til þess að stefnandi og kröfuhafar hans hafi ekki fengið notið þeirra kröfuréttinda á hendur stefnda sem þau hefðu ellegar átt á grundvelli lánssamninga stefnanda og stefnda. Tjón stefnanda svari til fjárhæðar hinna niðurföllnu kröfuréttinda eða 549. 308.558 krónum. Sé jafnframt krafist dráttavaxta frá sama tímamarki og í auðgunarkröfu en til vara frá dagsetningu riftunarbréfs stefnanda. Af framansögðu leiði að fjár- og dráttarvaxtakrafa stefnanda, bæði að því er varðar auðgunar- og skaðabótakröfu, sé hin sama.

            Að því er varðar kröfu um staðfestingu kyrrsetningar hafi Héraðsdómur Reykjavíkur með dómum í málum nr. E-5862/2010 og nr. E-4903/2010 staðfest riftunarkröfu stefnanda í sambærilegum riftunarmálum og höfðað hafi verið til staðfestingar á riftun slitastjórnar á niðurfellingu ábyrgðar stefnda. Ekki hafi komið fram af hálfu stefnda aðrar mótbárur gegn riftunarkröfu stefnanda en fram hafi komið í framangreindum dómsmálum. Þar sem um sé að ræða sambærileg mál megi því telja á því miklar líkur að dómur í máli stefnanda gegn stefnda verði stefnanda í vil. Telji stefnandi því að skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 sé uppfyllt. Stefndi hafi í máli nr. E-5861/2010 krafist frávísunar en þeirri kröfu verið hafnað.

            Vegna þess álags sem sé á dómstólum nú um stundir sé þó ljóst að nokkur tími muni líða uns endanleg dómsniðurstaða liggi fyrir í máli stefnanda á hendur stefnda. Stefnandi fullyrði að stefndi hafi að undanförnu haft frammi þær ráðstafanir sem telja megi líklegar til að minnka og takmarka líkur á að takist að fullnusta kröfu stefnanda á hendur stefnda þegar dómur hafi gengið um hana sbr. og skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990. Þá beri einnig að hafa í huga að efnahagsstaða stefnda hafi versnað mjög með framangreindum dómum Héraðsdóms Reykjavíkur enda hafi með þeim dómum aukist mjög líkur á að sambærilegt mál stefnanda gegn stefnda fari á sama hátt. Af því leiði að hvati hafi aukist mjög fyrir stefnda til að hafa uppi þær aðgerðir sem kunni að leiða til þess að hagsmunum stefnanda sé stefnt í hættu.

            Í annan stað þá liggi einnig fyrir að krafa sú er liggi að baki kyrrsetningarbeiðni þessari sé mjög há og kunni það því að leiða til þess að enn frekari ástæða sé fyrir stefnda að koma eignum undan enda standi líkur til þess að gangi endanlegur dómur stefnanda í vil muni eigur stefnda ganga að mestu eða öllu leyti til stefnanda og ef til vill annarra kröfuhafa stefnda. Stefnandi telji að eignastaða stefnda fari versnandi þannig að nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að tryggja hagsmuni sína með því að kyrrsetja þær eignir sem enn kunni að vera fyrir hendi hér á landi fyrir kröfu sinni að því marki sem þær nægi til að tryggja kröfu stefnanda.

            Stefnandi styðji heimild sína til að krefjast kyrrsetningar hjá stefnda við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990, sbr. og 3. tl. 1. mgr. 7. gr. sömu laga.  Einnig sé vísað til 6. tl. 21. gr., 2. mgr. 22. gr. og 3. mgr. 24. gr. i.f. laga nr. 90/1989.

            Þá liggi fyrir að stefndi hafi flutt lögheimili sitt til London og þannig gert það örðugra fyrir stefnanda að tryggja kröfu sína. Telji stefnandi að þegar af þeirri ástæðu líkur á að stefndi flytji frekari eignir úr landi og leiði af því að líkur minnki á að stefnanda takist að fullnusta kröfu sína gagnvart stefnda. Megi meðal annars benda á að stefndi hafi möguleika á að nýta sér undanþáguheimildir þær sem felist í reglum Seðlabanka Íslands nr. 370 frá 29. apríl 2010 sbr. og lög um 87/1992 til að koma peningum úr landi. Hafi stefnandi þá í huga fjármuni þá sem kunni að vera til staðar á bankareikningum stefnda og/eða kunni að hafa fengist með sölu á eignum hans hér á landi vegna flutnings hans til Lúxemborgar. Stefnanda þyki ljóst að flutningur heimilis og fjölskyldu stefnda til annars lands leiði til þess að hvati sé fyrir hann að koma eignum, er annars stæðu til greiðslu á skuldbindingum hans hér á landi, undan til að nýta við framfærslu sína og sinna í Lúxemborg.

            Stefnandi telji að eignastaða stefnda fari versnandi þannig að nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að tryggja hagsmuni sína með því að kyrrsetja þær eignir sem enn kunna að vera fyrir hendi hér á landi fyrir kröfu sinni að því marki sem þær nægja til að tryggja kröfu stefnanda.

            Um lagarök vísar stefnandi einkum til 131., 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum, sbr. meðal annars lög nr. 44/2009. Þá vísar stefnandi til 5. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

 

                                                                     III

            Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þar sem hugsanleg fjárkrafa samkvæmt 2. tl. stefnukröfu hafi verið framseld Arion banka hf. þann 21. október 2008 geti stefnandi ekki átt aðild að henni. Stefndi byggi jafnframt á því að samkvæmt reglum gjaldþrotaskiptaréttarins og kröfuréttarins verði riftunarkrafa samkvæmt 1. tl. og krafa um endurgreiðslu auðgunar samkvæmt 2. tl. stefnukröfu aðeins hafðar uppi af hálfu sama aðila. Stefndi bendi í þeim efnum meðal annars á að samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins öðlist framsalshafi öll réttindi sem fylgja hinni framseldu kröfu. Þar sem stefnandi geti samkvæmt ofansögðu ekki átt aðild að fjárkröfunni samkvæmt 2. tl. geti hann heldur ekki átt aðild að riftunarkröfunni samkvæmt 1. tl. Af framangreindum ástæðum beri að sýkna stefnda af báðum kröfunum á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

            Fallist dómurinn ekki á ofangreint byggi stefndi á því að réttur stefnanda til þess að höfða riftunarmál á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 þurfi að hafa orðið virkur meðan stefnandi hafi verið eigandi þeirra hagsmuna sem riftunarkrafan beinist að. Sú sé ekki raunin í þessu máli. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.  

            Verði stefndi ekki sýknaður af framangreindum ástæðum krefjist hann sýknu á grundvelli neðangreindra málsástæðna. Til þess að ráðstöfun feli í sér gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 þurfi þrjú skilyrði að vera uppfyllt. Ráðstöfunin þurfi að rýra eignir skuldarans, hún þurfi að leiða til eignaaukningar hjá móttakanda og tilgangurinn með ráðstöfuninni þurfi að vera sá að gefa. Ráðstöfun stefnanda frá 25. september 2008 uppfylli ekkert framangreindra skilyrða.

            Stefndi mótmæli því að ákvörðunin frá 25. september 2008 um niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar stefnda, og annarra starfsmanna, samkvæmt lánssamningum vegna hlutafjárkaupa í stefnanda hafi hvorki byggst á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu stefnanda. Ákvörðunin hafi í fyrsta lagi verið tekin með hagsmuni stefnanda að leiðarljósi. Með henni hafi verið leitast við að tryggja að starfsmenn stefnanda gætu einbeitt sér að störfum í þágu bankans. Ekki þurfi að fara mörgum orðum um ástandið á fjármálamörkuðum á þeim tíma þegar ákvörðunin hafi verið tekin. Vegna öldurótsins hafi gengi hlutabréfa í stefnanda lækkað. Við slíkar aðstæður hafi verið algjört lykilatriði fyrir stefnanda að tryggja að starfsmenn bankans gætu sinnt störfum sínum af heilum hug án þess að þurfa að hafa áhyggjur af persónulegum fjármálum sínum. Þá hafi jafnframt meiri hagsmunir verið fólgnir í því fyrir stefnanda að ganga ekki að tryggingum þrátt fyrir að verðmæti hlutabréfa flestra starfsmanna, þ.m.t. stefnda, hafi verið meira en uppgreiðsluverð lánssamninganna vegna neikvæðra áhrifa sem slíkt hefði getað haft fyrir stöðu bankans.

            Í öðru lagi hafi ráðstöfunin haft þann tilgang að uppfylla loforð stefnanda til starfsmanna um skaðleysi þeirra af hvatakerfinu. Stefnandi hafi haft ríka hagsmuni af því að þurfa ekki að leysa til sín hlutabréf starfsmanna. Vegna skuldbindingar stefnanda um að tryggja skaðleysi starfsmanna af hvatakerfinu hafi verið tekin ákvörðun um að fella niður persónulega ábyrgð þeirra á lánssamningunum umfram verðmæti veðsettra eigna. Í tilviki 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga geti aðeins verið um gjöf að ræða ef fjárhagsleg verðmæti séu afhent eða gefin séu eftir réttindi sem ella hefðu verið innheimtanleg ef ekki hefði komið til eftirgjafarinnar. Vegna loforðsins til starfsmanna hafi aldrei verið hægt að innheimta kröfur á grundvelli lánssamninganna þótt ekki hefði komið til ráðstöfunarinnar. Kröfur um greiðslur á grundvelli lánssamninganna, umfram verðmæti hinna veðsettu hluta, hefðu m.ö.o. aldrei notið lögverndar.

            Í þriðja lagi geti ráðstöfunin aldrei hafa falið í sér gjöf vegna gagngjaldsins sem starfsmenn, þ.m.t. stefndi, hafi innt af hendi. Ráðstöfunarréttur starfsmanna stefnanda á hlutabréfum í þeirra eigu hafi sætt mun meiri takmörkunum en gilt hafi um aðra hluthafa bankans, sbr. m.a. 5. og 7. gr. lánssamninganna og 7. gr. handveðsamnings. Þeim hafi verið óheimilt að selja hluti sína og greiða upp lánssamningana nema að fenginni heimild frá stefnanda. Takmörkunin hafi komið í veg fyrir að starfsmenn gætu selt hlutabréfin til að greiða upp lánin. Í tilviki stefnda hafi verðmæti bréfanna verið mun meira en uppgreiðsluverðmæti lánanna á þeim degi þegar ráðstöfunin hafi verið framkvæmd, eins og nánar sé rakið að neðan. Þessi takmörkun á ráðstöfunarrétti hafi því falið í sér gagngjald af hálfu stefnda sem hafi að minnsta kosti verið jafnhátt fjárkröfu stefnanda samkvæmt 2. tl. stefnukröfu. 

            Stefndi mótmæli því að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Ráðstöfunin hafi hvorki verið ótilhlýðileg, stefnda til hagsbóta á kostnað annarra, né hafi hún leitt til þess að eignir stefnanda hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða hafi leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Sömu rök eiga hér við og í tilviki 131. gr. laganna.

            Ósannað sé að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin hafi verið framkvæmd, eða hafi orðið það vegna hennar og að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leitt hafi til ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar. Stefnandi beri sönnunarbyrði um að framangreind skilyrði séu öll uppfyllt. Þá standi það honum jafnframt nær að afla gagna um gjaldfærni sína.

            Í stefnu sé aðeins vísað til þess að vegna yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á hluthafafundi stefnanda 9. október 2008 hafi greiðsluþrot stefnanda verið fyrirsjáanlegt 25. september 2008. Þessu sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda. Stefndi vísi í þessum efnum m.a. til fundargerðar stjórnarfundarins 25. september 2008 þar sem tekin hafi verið ákvörðun um niðurfellingu ábyrgðarinnar. Af fundargerðinni verði ekki með nokkru móti ráðið að staða bankans hafi verið með þeim hætti sem byggt sé á af hálfu stefnanda. Þannig sé beinlínis tekið fram í kafla 2-3 að viðskipti síðastliðins árfjórðungs hafi verið ásættanleg og að horfur séu viðunandi. Þá sé jafnframt bókað að vonir standi til þess að þriðji ársfjórðungur verði betri en sá á undan. Í kafla 6 sé fjallað um opnun nýrra útibúa í fimm ríkjum. Í kafla 7 sé bókað að frá og með 1. janúar 2009 muni evra verða uppgjörsmynt bankans. Í kafla 5 sé fjallað um lausafjárstöðu bankans. Þar komi m.a. fram að í lok ágúst 2008 hafi bankinn átt EUR 8,4 milljarða af lausu fé sem myndu duga til að greiða allar skuldbindingar sem féllu á gjalddaga næstu 308 daga. Jafnframt sé tekið fram að stefnt sé að lengja þetta tímabil í 360 daga. Í ljósi alls framangreinds sé vandséð hvernig hægt sé að halda því fram að stefnandi hafi verið ógjaldfær 25. september 2008 þegar ráðstöfunin hafi verið framkvæmd. Með vísan til sömu sjónarmiða og hér hafi verið rakin sé því jafnframt hafnað að stefndi hafi vitað um ógjaldfærni stefnanda – henni hafi aldrei verið til að dreifa á umræddu tímamarki.

            Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, þvert á væntingar stefnda, að ráðstöfunin frá 25. september 2008 sé riftanleg á grundvelli ákvæða gjaldþrotaskiptalaga, krefjist stefndi sýknu af 2. tl. stefnukröfu. Stefndi byggi á því að við mat á auðgun hans af ráðstöfuninni verði að líta til þeirra fjárhagslegu verðmæta sem falist hafi í gagngjaldi hans. Ráðstöfunarréttur stefnda og annarra starfsmanna yfir hlutabréfum í þeirra eigu hafi sætt mun meiri takmörkunum en gilt hafi um aðra hluthafa bankans. Í staðinn hafi stefnandi lofað að tryggja skaðleysi starfsmanna vegna hlutafjárkaupanna með því að leysa til sín hlutabréfin ef verðmæti þeirra yrði lægra en sem næmi 120% af uppgreiðsluverðmæti lána. Miklir hagsmunir hafi verið fólgnir í því fyrir stefnanda að leysa ekki til sín hlutabréfin. Af þessu leiði að ávinningur stefnda af ráðstöfuninni geti aldrei orðið hærri en sem nemi mismuninum á uppgreiðsluverðmæti lánanna sem um ræði og verðmæti hinna handveðsettu hlutabréfa á þeim tíma þegar ábyrgðin hafi verið felld niður.

            Á dskj. 37 komi fram að 25. september 2008 hafi dagslokagengi hlutabréfa í stefnanda verið 755. Þann dag hafi stefndi átt 8.992.423 hluti í stefnanda. Samkvæmt þessu hafi verðmæti hlutanna verið 6.789.279.365 krónur. Uppgreiðsluverðmæti lánssamninganna hafi á sama tíma verið 5.493.085.603 krónur. Verðmæti hlutanna hafi þar af leiðandi verið 1.296.193.762 krónum hærra en uppgreiðsluverðmæti lánssamninganna. Af þessu leiði að stefnandi geti ekki átt fjárkröfu á hendur stefnda á grundvelli riftunarinnar.

            Stefndi byggi í öðru lagi á því að tjón stefnanda geti aldrei orðið meira en sem nemi tjóni stefnanda, sbr. 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Ráðstöfunin frá 25. september 2008 hafi ekki leitt til tjóns fyrir stefnanda. Samkvæmt yfirlýsingu PriceWaterhouseCoopers hafi allir lánssamningar vegna hlutabréfakaupa starfsmanna verið metnir á 0 krónur í stofnefnahagsreikningi Arion banka hf. Stefndi telji að lánssamningar vegna kaupa annarra en starfsmanna á hlutabréfum í stefnanda hafi einnig verið metnir á 0 krónur í stofnefnahagsreikningnum, þ.e. samningar þar sem persónuleg ábyrgð hafði ekki verið felld niður eins í tilviki starfsmanna stefnanda. Af þessu leiði að ráðstöfunin geti ekki talist hafa valdið stefnanda tjóni. Endurgjald stefnanda fyrir lánssamninga við starfsmenn hefði orðið jafnhátt þó svo að hin persónulega ábyrgð hafi enn verið til staðar. Stefndi skori á stefnanda að upplýsa um verðmat á öllum lánssamningum um hlutafjárkaup í stefnanda, við aðra en fyrrum starfsmenn bankans. 

            Telji dómurinn, þvert á væntingar stefnda, að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda krefjist stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda, annars vegar á grundvelli 145. gr. laga nr. 21/1991 og hins vegar á grundvelli skuldajafnaðar við launakröfu stefnda sem lýst hafi verið í bú stefnanda með bréfi 21. desember 2009, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Að því er 145. gr. varði vísi stefndi til þess sem að ofan hafi verið rakið. Í ljósi atvika málsins leiði sanngirnissjónarmið til þess að lækka beri dómkröfuna.

            Krafa stefnda í bú bankans byggist á áðurnefndum ráðningarsamningi stefnda við stefnanda frá 18. desember 2006. Nánar tiltekið hafi stefnda ekki verið greidd laun af hálfu stefnda fyrir október 2008. Þá hafi stefndi ekki fengið greitt umsamið framlag til öflunar lífeyrisréttinda fyrir árið 2008. Umsamin 12 mánaða launagreiðsla eftir starfslok hafi heldur ekki verið innt af hendi, sem og orlof vegna launagreiðslna 2008 og 2009. Loks byggist krafan á því að Kaupþing hafi ekki staðið við skyldur sínar gagnvart breskum skattyfirvöldum. Krafan sé sett fram í enskum pundum GBP og sundurliðist sem hér segi:

1.      Laun fyrir október 2008......................................................... GBP         45.000

2.      Lífeyrisframlag í 10 mánuði (janúar-október 2008)................ GBP       135.000

3.      12 mánaða laun eftir starfslok (severance payment)............... GBP       540.000

4.      Lífeyrisframlag af launum eftir starfslok................................ GBP       162.000

5.      Orlof (13,04%) af launagreiðslum skv. tölulið 1 og 3 ...........  GBP         76.284

6.      Ábyrgðarkrafa vegna skattskuldar Kaupþings við

bresk skattyfirvöld (áætluð ábyrgð)....................................... GBP       133.120

7.      Endurgreiðslukrafa á Kaupþing vegna mistaka við greiðslu

lífeyrisframlags sem leiddu til ofsköttunar ............................  GBP       113.618

8.      Drv. af liðum 1-5 frá gjaldd.til 22.04.09 (7,5% p.a.).............. GBP         73.285

Samtals ..................................................................................  GBP   1.278.307

          Nánari útskýringar á einstökum kröfuliðum sé að finna í kröfulýsingu stefnda. Stefndi byggi á því að öll skilyrði skuldajafnaðar séu uppfyllt og því beri að lækka kröfu stefnanda á grundvelli skuldajafnaðar. Stefndi bendi í fyrsta lagi á að samkvæmt 13. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., skuli framsal kröfuréttinda samkvæmt ákvörðuninni ekki svipta skuldara rétti til skuldajafnaðar sem hann eigi gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans. Reglan sé í samræmi við almennar reglur kröfuréttarins um heimild gagnkröfuhafa til að lýsa yfir skuldajöfnuði á móti almennri kröfu þrátt fyrir framsal hennar. Samkvæmt framansögðu sé stefnda heimilt að beita skuldajöfnuði gagnvart dómkröfu stefnanda.

            Í öðru lagi byggi stefndi á því að kröfurnar séu hæfar til að mætast að því er tíma varði. Lausnardagur ætlaðrar kröfu stefnanda sé kominn, sbr. m.a. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Að því er varði gagnkröfu stefnda þá hafi 1 og 2. tl. kröfunnar gjaldfallið við starfslok stefnda hjá stefnanda í lok október 2008, 3. og 4. tl. kröfunnar á mánaðarfresti frá nóvember 2009 til nóvember 2010, 5. tl. á mánaðarfresti frá október 2009 til nóvember 2010. Dráttarvaxtakrafa stefnda samkvæmt 8. tl. gagnkröfunnar hafi gjaldfallið 22. apríl 2009 við upphaf slitameðferðar stefnanda. Ekki liggi fyrir hvort viðbótarskattur muni verða lagður á stefnda af hálfu enskra skattyfirvalda vegna mistaka stefnanda, sbr. 6.-7. tl. gagnkröfunnar og þar af leiðandi sé óvíst með gjalddaga kröfunnar. Skilyrði 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga séu jafnframt uppfyllt. Skilyrði ákvæðisins um að gagnkröfuhafi þurfi að hafa eignast kröfuna áður en þrír mánuðir séu til frestdags sé í það minnsta uppfyllt að því er varði 1.-5. tl. gagnkröfunnar. Frestdagur bús stefnanda sé 15. nóvember 2008. Stefndi hafi eignast kröfurnar sem um ræði við undirritun ráðningarsamnings 18. desember 2006.

            Í þriðja lagi bendi stefndi á að kröfurnar sem um ræðir séu sambærilegar, þ.e. í báðum tilvikum sé um peningakröfur að ræða. Þá sé ljóst að gagnkrafan, þ.e. krafa stefnda í bú stefnanda, sé gild, skýr og ótvíræð.

            Vaxtakröfum stefnanda sé mótmælt, þ.m.t. kröfu um dráttarvexti og upphafstíma þeirra. Auðgunarkrafa geti fyrst borið vexti frá þeim tíma sem stefndi hafi þurft að skila auðgun sinni, en það hafi í fyrsta lagi verið á gjalddögum lánssamninganna. Verði að einhverju leyti fallist á kröfur stefnanda krefjist stefndi þess að vextir verði einungis dæmdir frá dómsuppsögu í héraði og vextir þá ákvarðaðir skv. 7. gr. laga nr. 38/2001 eða eftir atvikum 8. gr. Málskostnaðarkrafa stefnda sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.

            Að því er varði kröfu um staðfestingu kyrrsetningar byggi stefndi meðal annars á því að ekki hafi verið um gjöf að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá verði ráðstöfuninni heldur ekki rift á grundvelli 141. gr. laganna. Loks byggi stefndi á því að hann hafi hvorki auðgast af ráðstöfuninni né stefnandi orðið fyrir tjóni. Þrátt fyrir framangreint mótmæli stefndi því ekki að fallist verði á dómkröfur stefnanda í máli þessu samkvæmt 1. og 2. tölulið í dómkröfukafla stefnu. Áréttað skuli hins vegar að í því felst engin viðurkenning á réttmæti þeirra krafna sem stefnandi reisi málatilbúnað sinn á. Sem fyrr segi mótmælir stefndi því alfarið að stefnandi eigi kröfu á hendur sér vegna ráðstöfunarinnar frá 25. september 2008.

 

                                                                     IV

            Í máli þessu gerir stefnandi aðallega þá kröfu að ráðstöfuninni 25. september 2008 verði rift á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 og stefnda gert að endurgreiða sér 549.308.558 krónur eftir 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Til vara er gerð krafa lægri fjárhæðar. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, má krefjast riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækis eins og stefnanda eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti ef ekki er sýnt að eignir fyrirtækisins muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Frestdagur við slit stefnanda var 15. nóvember 2008, sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008.

            Hæstiréttur Íslands hefur með dómi í máli nr. 518/2011, sem upp var kveðinn 10. maí sl., leyst úr mörgum af þeim málsástæðum sem um er deilt í þessu máli en sakarefni málanna eru samkynja. Er í báðum tilvikum gerð krafa um að rift verði með dómi ráðstöfun stefnanda frá 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð á greiðslu lánssamninga og krafa gerð um greiðslu fjárhæðar sem nemur auðgun lántaka vegna niðurfellingar ábyrgðarinnar. Í báðum málum er krafist sýknu byggða á aðildarskorti vegna þess að fjárkrafa stefnanda hafi verið framseld til Nýja Kaupþings banka hf. 21. október 2008 og hann þar með fyrirgert rétti til að sækja kröfuna á hendur stefnda. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 518/2011 sagði að því er þessa málsástæðu varðar að horfa bæri til þess að þegar kröfur samkvæmt lánssamningunum hafi verið framseldar hafi þær einungis verið tryggðar með veði í hlutum í Kaupþing banka hf. sem hafi orðið með öllu verðlausir eftir fall hans skömmu áður. Af þeim sökum yrði að leggja til grundvallar að ekkert endurgjald hafi komið fyrir kröfurnar úr hendi Nýja Kaupþings banka hf. Einnig hafi endurgreiðslukrafan, sem stefndi hefði uppi í málinu, ekki stofnast fyrr en 17. maí 2010 er hann hafi lýst yfir riftun gagnvart áfrýjanda. Að því virtu væri Kaupþing hf. réttur aðili að lögum til að beina síðastgreindri kröfu að áfrýjanda og yrði því ekki fallist á sýknukröfu vegna aðildarskorts, en Kaupþing hf. hafi ávallt haldið því fram í málatilbúnaði sínum að krafan tilheyri sér og hafi ekki verið framseld öðrum. Aðstæður að þessu leyti eru með sama hætti og í því máli sem hér er leyst úr. Í því efni stofnaðist endurgreiðslukrafan 18. maí 2010. Með hliðsjón af því verður sýknukröfu byggða á aðildarskorti hafnað.

            Þá byggir stefndi á því að ráðstöfunin frá 25. september 2008 hafi ekki falið í sér gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Að því er þessa málsástæðu varðar hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu í dómi í máli nr. 518/2011 að sú ákvörðun stjórnar Kaupþings hf. 25. september 2008 að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum, sem þeim hefðu verið veitt til hlutabréfakaupa, hafi augljóslega verið byggð á þeirri forsendu að verðmæti hlutanna gæti rýrnað verulega sem aftur kynni að valda starfsmönnunum slíkum áhyggjum að þeir gætu ekki einbeitt sér sem skyldi að störfum sínum fyrir stefnda. Þótt fallast mætti á að ákvörðunin hafi að þessu leyti verið tekin með hagsmuni bankans í huga hafi hún verið í því fólgin að aflétta fjárskuldbindingum af þeim starfsmönnum, sem tekið hefðu lánin. Samkvæmt því hafi einnig gjafatilgangur búið að baki ákvörðuninni þegar hún hafi verið tekin og áfrýjanda mátt vera það ljóst. Að þessu leyti eru atvik þessara mála sambærileg. Með hliðsjón af því og þess að stefnda hefur hvorki tekist sönnun þess að stefnda hafi beinlínis verið lofað algeru skaðleysi af lántökum tengdum hlutabréfakaupum og að hann hafi ekki getað selt bréfin var stefnanda heimilt að rifta fyrrgreindri ráðstöfun, sem gerð var í þágu stefnda, á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.

            Við úrlausn um verðmæti lánssamninga þeirra sem um er deilt í máli þessu ber að líta til þess að af fyrirliggjandi gögnum um hvernig staðið hefur verið að ráðstöfunum Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum Nýja Kaupþings hf. til Nýja Kaupþings banka hf., að um var að ræða mat á heildarvirði lánasafna, en ekki einstakra lána, við gerð upphaflegs efnahagsreiknings hins nýja banka. Hvílir á stefnda að renna stoðum undir þá staðhæfingu að umrædd lán með persónulegri ábyrgð lántaka hafi verið einskis virði í uppgjöri á milli stefnanda og Nýja Kaupþings banka hf. vegna yfirtöku síðarnefnda bankans á eignum og skuldum stefnanda. Þeirri sönnunarbyrði gat stefndi ekki velt yfir á stefnanda. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að lánssamningar stefnda hafi verið metnir til verðs samkvæmt efni sínu ef ábyrgð stefnda á efndum þeirra hefði staðið óbreytt þegar þeir voru framseldir Nýja Kaupþing banka hf. Af þeim sökum hefur stefnandi sannanlega orðið fyrir tjóni þegar ábyrgð stefnda var felld niður 25. september 2008 sem nemur uppgreiðsluverðmæti 10% af lánunum.

            Af orðalagi 1. og 2. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, þar sem kveðið er á um endurgreiðslu úr hendi þess sem hefur haft hag af riftanlegri ráðstöfun, er ljóst að það tímamark, sem miðað er við í þeim ákvæðum, er hvenær riftun er lýst yfir eða eftir atvikum hvenær endurgreiðslukrafa er gerð upp. Þótt gögn málsins bendi til að verðmæti hlutanna, sem settir höfðu verið að veði til tryggingar greiðslu á skuldbindingum áfrýjanda samkvæmt lánssamningum í málinu, hafi staðið undir þeim skuldbindingum þegar ábyrgð á lánunum var felld niður, er ljóst að tveimur vikum síðar voru hlutirnir orðnir verðlausir og þar með hefði ábyrgð stefnda orðið virk. Þar sem sú ábyrgð hafði verið gefin eftir með hinni riftanlegu ráðstöfun varð stefnandi fyrir tjóni og með því að komast þannig hjá greiðslu auðgaðist stefndi að sama skapi. Verður krafa stefnanda um endurgreiðslu úr hendi stefnda því tekin til greina. Ekki eru efni til að lækka hana með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991 eða af öðrum ástæðum. Þá hefur stefndi fallið frá málsástæðu byggða á skuldajöfnuði við launakröfur sínar.

            Í aðalkröfu miðar stefnandi við að lánssamningar séu allt samningar í erlendri mynt. Varakrafa miðar við að samninga beri að endurreikna þar sem um sé að ræða lánssamninga í íslenskum krónum þar sem lánsfjárhæð sé miðuð við gengi erlendra gjaldmiðla sem óheimilt er samkvæmt íslenskum lögum og dómafordæmum Hæstaréttar. Samningarnir fimm eru allir samhljóða að efni sínu. Samkvæmt þeim lofar lántaki að taka að láni og bankinn að lána að jafnvirði tiltekna fjárhæð í íslenskum krónum í japönskum jenum. Í skilmálum er tekið fram að hlutar láns sem séu í öðrum gjaldmiðli en evrum skuli bera LIBOR fljótandi vexti, auk 1.2% álags. Hlutar lánsins í evrum skuli bera EURIBOR fljótandi vexti. Hluti lánsins í íslenskum krónum skuli bera REIBOR fljótandi vexti. Skuli endurgreiða lán, ásamt vöxtum, með eingreiðslu á gjalddaga lánsins. Greiðslustaður sé í Kaupþing banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

            Samkvæmt þessu tók stefndi lán hjá stefnanda að jafnvirði tiltreindri fjárhæð í íslenskum krónum sem var tengt við gengi erlendra gjaldmiðla. Fela samningarnir þannig í sér skuldbindingu í íslenskum krónum, en miða fjárhæðir við gengi erlendra gjaldmiðla. Slík gengistrygging er andstæð ákvæðum laga nr. 38/2001, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 153/2010. Hefur stefnandi í varakröfu reiknað kröfuna til lækkunar á þessum grundvelli og vaxtahæð samkvæmt fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Verður við það miðað í niðurstöðu málsins. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2011 verða dráttarvextir miðaðir við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

            Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 má kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga, ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða fullnusta verði verulega örðugri. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sömu laga skal kyrrsetningarbeiðni að jafnaði beint til sýslumanns í því umdæmi, þar sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing. Undantekningar frá því er að finna í 1. til 3. tl. 1. mgr. 7. gr., en samkvæmt 3. tl. er heimilt að beina kyrrsetningarbeiðni til sýslumann þar sem eignir gerðarþola er að finna, hafi hann ekki skráð heimili hér á landi.  

            Stefndi er búsettur í London og hefur þar skráð heimili. Með dómi í máli þessu er stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 496.218.406 krónur, ásamt vöxtum. Þar var hafnað málsástæðum stefnda um aðildarskort stefnanda í málinu. Með hliðsjón af búsetu stefnda í London, samþykki hans á dómkröfum að því er kyrrsetningu varðar og fjárhæð dæmdra krafna í máli þessu verður að telja skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 fullnægt til að kyrrsetja eignir stefnda. Með vísan til þessa verður orðið við kröfu stefnanda og staðfesta kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík frá 1. júlí 2011 í máli nr. K-22/2011.

            Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Guðni Á. Haraldsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður.

            Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

 

                                                    D ó m s o r ð:

            Rift er ráðstöfun stefnanda, Kaupþings hf., frá 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð stefnda, Sigurðar Einarssonar, á greiðslu lánssamninga aðila nr. 3008, dagsettum 1. desember 2005, nr. 3154, dagsettum 4. maí 2006, nr. 4252, dagsettum 27. nóvember 2006, nr. 5244, dagsettum 23. mars 2007 og nr. 8386, dagsettum 11. ágúst 2008.

            Stefndi greiði stefnanda 496.218.406 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. ágúst 2010 til greiðsludags.  

            Staðfest er kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. K-22/2011, sem fram fór 1. júlí 2011 um kyrrsetningu eignarhluta stefnda í Valhúsabraut 20, Seltjarnarnesi, eignarhluta stefnda í jörðinni Stíflisdal, landsnúmer 170165, sumarhúsi á jörðinni Stíflisdal, fnr. 220-9388 og 20% eignarhluta stefnda í Hvítsstöðum ehf., kt. 000000-0000, fyrir dæmdri kröfu.

            Málskostnaður fellur niður.

 

                                                  Símon Sigvaldason