• Lykilorð:
  • Bókhaldsbrot
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Virðisaukaskattur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2016 í máli nr. S-634/2014:

Ákæruvaldið

(Kristín Ingileifsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Rafni Sveinssyni,

                                                (Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Atvinnubifreiðum og tækjum ehf.,

                                                (Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Íslandsleiðum ehf.,

                                                (Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Húsaborg ehf. og

                                                (Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Tinnubergi ehf

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. apríl sl., er höfðað með ákæru útgefinni af sérstökum saksóknara 17. júlí 2014 á hendur Rafni Sveinssyni, kt. 090455-2149, Fannafold 174, Reykjavík, Atvinnubifreiðum og tækjum ehf., kt. 541201-3430, Fannafold 174, Reykjavík, Íslandsleiðum ehf. (áður Brotaberg), kt. 590302-3410, Fannafold 174, Reykjavík, Húsaborg ehf., kt. 4512050210, Fannafold 174, Reykjavík og Tinnubergi ehf., kt. 690305-0460, Fannafold 174, Reykjavík, fyrir eftirtalin meiriháttarbrot gegn skattalögum og lögum um bókhald:

A.     

1.     Á hendur ákærða Rafni sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Atvinnubifreiðar og tæki, með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir öll tímabil rekstrarársins 2011 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilsins nóvember – desember, rekstrarárið 2011, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 2.269.158, sem sundurliðast sem hér greinir:

Árið 2011

nóvember – desember            kr.  1.014.413

                                                            kr.  1.014.413

Samtals:                                  kr. 1.014.413

2.     Á hendur ákærða Rafni fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins, Atvinnubifreiðar og tæki, í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins á rekstrarárinu 2011.

B.     

1.     Á hendur ákærða Rafni sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Íslandsleiða (áður Brotaberg), með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir öll tímabil rekstrarársins 2011 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilsins nóvember – desember, rekstrarárið 2011, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 699.684, sem sundurliðast sem hér greinir:

Árið 2011

nóvember – desember            kr.    699.684

                                                            kr.    699.684

Samtals:                                  kr.   699.684

2.     Á hendur ákærða Rafni fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins Íslandsleiða, í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins á rekstrarárinu 2011.

C.     

1.     Á hendur ákærða Rafni sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Tinnubergs, með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir öll tímabil rekstrarársins 2011 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilanna
mars – apríl, júlí - ágúst og september – október,  rekstrarárið 2011, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 6.157.390, sem sundurliðast sem hér greinir:

 

Árið 2011

mars – apríl                             kr.       80.336

júlí – ágúst                              kr.  1.544.754

september – október              kr.  4.532.300

                                                            kr.  6.157.390

Samtals:                                  kr.  6.157.390

 

2.     Á hendur ákærða Rafni fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins Tinnubergs, í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins á rekstrarárinu 2011.

D.     

1.     Á hendur ákærða Rafni sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Húsaborgar, með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir öll tímabil rekstrarársins 2011 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilanna mars – apríl, september – október og nóvember – desember, rekstrarárið 2011, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 2.276.226, sem sundurliðast sem hér greinir:

Árið 2011

mars - apríl                             kr.          1.263

september – október               kr.   1.714.732

nóvember – desember            kr.      560.231

                                                            kr.   2.276.226

Samtals:                                  kr.   2.276.226

2.     Á hendur ákærða Rafni fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins, Húsaborgar, í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins á rekstrarárinu 2011.

Framangreind brot ákærða Rafns samkvæmt A til D – liðum ákæru eru talin varða við:

a)     1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið A – liðar, 1. tölulið B – liðar, 1. tölulið C - liðar og 1. tölulið D – liðar ákæru.

b)     2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. tölulið A – liðar, 2. tölulið B – liðar, 2. tölulið C - liðar og 2. tölulið D – liðar ákæru.

Framangreind brot ákærðu Atvinnubifreiða og tækja ehf., Íslandsleiða ehf., Tinnubergs ehf. og Húsaborgar ehf. eru talin varða við:

a)   8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt að því er varðar 1 töluliði A – D liða ákæru, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.

a)   40. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. töluliði A – D liða ákæru.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærðu neita sök. Af hálfu verjanda er krafist sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

Með kærum 28. febrúar 2013 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málefnum ákærðu til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara vegna gruns um brot gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, ákvæðum laga nr. 145/1994 um bókhald og lögum nr. 19/1940. Í kærunni kemur meðal annars fram að með bréfum skattrannsóknarstjóra, 2. nóvember 2012, hafi ákærðu verið tilkynnt um fyrirhugaða ákvarðanatöku um refsiverða háttsemi. Hafi ákærðu verið gefinn frestur til athugasemda, en engar slíkar borist. Rannsókn skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og virðisaukaskattskilum ákærðu hafi m.a. leitt í ljós að ákærðu hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattskýrslum fyrir uppgjörstímabilin á rekstrarárinu 2011. Þá hafi bókhald rekstrarársins 2011 ekki verið fært fyrr en eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi byrjað 19. júní 2012, en bókhaldið hafi verið afhent skattrannsóknarstjóra 1. ágúst 2012. Leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna rekstrarársins 2011 hafi verið skilað til ríkisskattstjóra eftir að rannsókn málsins hafi hafist. Með bréfi skattrannsóknarstjóra 2. nóvember 2012 hafi skýrsla embættisins verið send ríkisskattstjóra til endurákvörðunar opinberra gjalda vegna endurákvörðunarheimilda.

Á meðal rannsóknargagna málsins eru yfirlit úr tekjubókhaldskerfi ríkisins sem fylgdu kæru skattrannsóknarstjóra til embættis sérstaks saksóknara. Á grundvelli þessara yfirlita hefur embætti sérstaks saksóknara tekið saman yfirlit yfir innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt af hálfu hinna ákærðu félaga. Eru yfirlit þessi miðuð við stöðu félaganna 4. apríl 2013. Ákærði Rafn gaf skýrslu hjá embætti sérstaks saksóknara 11. desember 2013. Í skýrslu ákærða kom fram að helsta ástæða þess að hann hafi dregið að skila inn virðisaukaskattskýrslum vegna hinna ákærðu félaga hafi verið reynsla sem hann hafi lent í varðandi Atvinnubifreiðar og tæki ehf. Árið 2008 hafi hann skilað inn inneign á innskatti í rekstri félagsins sem hafi orðið til þess að skattyfirvöld hafi óskað eftir bókhaldi félagsins. Hafi ákærði ekki fengið bókhaldið til baka, ásamt innskattinum, fyrr en fimm árum síðar. Hafi það fyrst verið um einum og hálfum mánuði fyrir skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara. Þegar Atvinnubifreiðar og tæki ehf. hafi fengið innskattinn greiddan hafi félagið átt inneign upp á einhverjar milljónir króna. Hafi sú inneign átt að þurrka út virðisaukaskattskuld félagsins. Samkvæmt yfirliti er ákærði Rafn hefur gefið út 11. desember 2013 kemur fram að Atvinnubifreiðar og tæki ehf. hafi átt inni innskatt að fjárhæð 2.678.085 krónur. Þessu yfirliti fylgir afrit af bréfi skattstjóra í Reykjavík frá 25. september 2008 þar sem fram kemur að skattstjóri hafi móttekið frá félaginu virðisaukaskattskýrslu fyrir uppgjörstímabilið maí - júní 2008. Áður en hægt sé að taka afstöðu til skýrslunnar óski skattstjórinn í Reykjavík eftir að lagður sé fram hreyfingalisti fyrir hvert tímabil fyrir sig á innskattslyklum og útskattslyklum fyrir uppgjörstímabilið maí – júní 2008. Ennfremur sé óskað eftir hreyfingalista allra lykla í bókhaldi félagsins fyrir tímabilið. Með bréfi skattstjóra 15. október 2008 óskaði skattstjóri eftir bókhaldsgögnum félagsins vegna þessa sama tímabils.

Verjandi ákærða skoraði á ákæruvald, undir meðferð málsins, að leggja fram endurskoðað yfirlit um virðisaukaskattskil ákærðu í ljósi þess að fyrst eftir að yfirlit embættis sérstaks saksóknara, sem tekið hafi mið af stöðu hinna ákærðu félaga í tekjubókhaldskerfi ríkisins 4. apríl 2013, hafi borist leiðrétting á innsendum virðisaukaskatti vegna tímabilsins maí – júní 2008.  Vinna ætti málið með þeim hætti að öllum þeim innborgunum sem borist hefðu inn á skuldir hinna ákærðu félaga yrði ráðstafað þannig að þær færu fyrst til greiðslu höfuðstóls áður en tekið væri af vegna álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Þá myndi koma í ljós að aldrei hafi verið um skuld á höfuðstól að ræða vegna þeirra tímabila sem ákært væri fyrir.  

Ákæruvald hlutaðist til um endurútreikning á yfirlitum um innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt hinna ákærðu félaga fyrir þau tímabil sem ákært væri fyrir. Yfirlit miðuðu við stöðu félaganna í tekjubókhaldskerfi 4. apríl 2016. Samkvæmt yfirlitum kom í ljós að engar breytingar höfðu átt sér stað á þeim tímabilum sem ákært væri fyrir vegna Íslandsleiða ehf., Húsaborgar ehf. og Tinnubergs ehf. Breytingar áttu sér hins vegar stað hjá Atvinnubifreiðum og tækjum ehf. Þær breytingar leiddu til þess að ákæra vegna 1. tl. A. liðar ákæru var leiðrétt og fór ákærufjárhæð vegna tímabilsins nóvember – desember 2011 úr 2.269.158 krónum niður í 1.014.413 krónur.

Á yfirlitum sérstaks saksóknara um innheimtan og skilskyldan virðisaukaskatt af hálfu Atvinnubifreiða og tækja ehf. kemur fram að vangoldinn virðisaukaskattur hafi eftir lögboðinn eindaga, vegna greiðslutímabilsins nóvember – desember 2011, verið samtals 1.014.413 krónur. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 3.563.470 krónum, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga samtals 2.549.057 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi komið 101.941 króna sem varið hafi verið til greiðslu á álagi, 126.078 krónum sem varið hafi verið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Fram kemur að virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað fyrir neitt tímabil ársins 2011.

Fram kemur á yfirlitum sérstaks saksóknara um innheimtan og skilskyldan virðisaukaskatt af hálfu Íslandsleiða ehf. að vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga, vegna greiðslutímabilsins nóvember – desember 2011, hafi verið samtals 699.684 krónur. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 6.540.858 krónum, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga samtals 5.841.174 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi komið 70.468 krónur sem varið hafi verið til greiðslu á álagi og 44.810 krónur til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Fram kemur að virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað fyrir neitt tímabil ársins 2011.

Á yfirlitum sérstaks saksóknara um innheimtan og skilskyldan virðisaukaskatt af hálfu Tinnubergs ehf. kemur fram að vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga, vegna greiðslutímabilsins mars – apríl 2011, hafi verið samtals 80.336 krónur. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 222.501 krónu, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga samtals 142.165 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 8.534 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 14.024 krónum til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Að því er greiðslutímabilið júlí – ágúst 2011 varði hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 1.544.754 krónum.  Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 1.615.650 krónu, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga, samtals 70.896 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 154.475 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 109.571 krónu verið varið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Að því er greiðslutímabilið september – október 2011 varðar hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 4.532.300 krónum.  Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 4.532.300 krónum, en ekkert hafi verið greitt fyrir eða á eindaga. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 453.230 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 384.506 krónu til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Fram kemur að virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað fyrir neitt tímabil ársins 2011.

Fram kemur á yfirlitum sérstaks saksóknara um innheimtan og skilskyldan virðisaukaskatt af hálfu Húsaborgar ehf. að vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga vegna greiðslutímabilsins mars – apríl 2011 hafi verið samtals 1.263 krónur. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið þeirri fjárhæð, en ekkert hafi verið greitt fyrir eða á eindaga. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 126 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 12.248 krónum til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Að því er greiðslutímabilið september – október 2011 varði hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 1.714.732 krónum.  Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið 4.086.857 krónum, en greitt hafi verið fyrir eða á eindaga samtals 2.372.125 krónur. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 171.473 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 267.681 krónu til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Að því er greiðslutímabilið nóvember – desember 2011 varði hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 560.231 krónu. Höfuðstóll til greiðslu þetta tímabil hafi numið þeirri fjárhæð, en ekkert hafi verið greitt fyrir eða á eindaga. Greiðslum hafi verið varið inn á höfuðstól, en til viðbótar hafi 56.023 krónum verið varið til greiðslu á álagi og 73.089 krónum til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Fram kemur að virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað fyrir neitt tímabil ársins 2011. 

 

Ákærði gaf skýrslu hjá embætti sérstaks saksóknara 11. desember 2013. Hann kvaðst hafa verið skráður stjórnarformaður og prókúruhafi hjá hinum ákærðu félögum á þeim tíma er ákæruefnið tæki til. Ákærði kvaðst hafa haft með höndum daglegan rekstur félaganna og borið ábyrgð á skattskilum vegna rekstrarársins 2011. Við uppgjör hafi ákærði notast við bókhaldsþjónustu. Aðrir skráðir stjórnarmenn í félögunum hafi enga aðkomu átt að rekstrinum. Ákærði kvað bókhald og bókhaldsgögn hinna ákærðu félaga hafa verið afhent skattrannsóknarstjóra 1. ágúst 2012. Hafi bókhaldið verið fært eftir að rannsókn málsins fór af stað hjá skattrannsóknarstjóra. Þrátt fyrir að bókhaldsþjónusta hafi séð um færslu bókhalds hafi færsla þess verið á ábyrgð ákærða. Ákærði hafi ekki skilað virðisaukaskattskýrslum vegna tímabila rekstrarársins 2011. Hafi hann ákveðið að skila inn leiðréttingarskýrslu í lok ársins. Margar skýrslur hafi verið með inneign vegna innskatts. Ákærði hafi ákveðið að draga það að leggja skýrslurnar inn þar sem skatturinn hafi ekki greitt inneignir út fyrr á árinu en félögin hafi verið með innskatt á fyrri hluta árs. Félögin hafi fengið áætlun, sem greitt hafi verið eftir. Ákærði hafi einfaldlega treyst á leiðréttingarskýrslur við uppgjör ársins. Óverulegur munur hafi verið á milli áætlaðs skatts og raunverulegs skatts þegar árið hafi verið gert upp. Innskattur hafi jafnan verið mjög hár í byrjun árs sem skýrðist af viðhaldi vörubifreiða og tækja, sem fram færi á veturna. Útseld vinna ætti sér stað á sumrin. Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við yfirlit um innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt félaganna fyrir árið 2011 sem embætti sérstaks saksóknara hefði tekið saman. Yfirlit vegna félaganna Atvinnubifreiða og tækja ehf., Íslandsleiða ehf. og Tinnubergs ehf. væru frá 4. apríl 2013 en vegna Tinnubergs ehf. frá 7. mars 2013. Að því er varðaði félagið Atvinnubifreiðar og tæki ehf. hafi ákærði átt inni innskatt á árinu 2008. Hafi skattstjóri kallað eftir bókhaldi félagsins á því ári en hins vegar ekki skilað því til baka fyrr en á árinu 2013. Hafi félagið átt inni innskatt upp á um tvær milljónir króna. Búið væri að loka bókhaldsári vegna Tinnubergs ehf. og enginn innskattur komið fram sem ekki hefði verið gerð grein fyrir. Sama ætti við um félögin Íslandsleiðir ehf. og Húsaborg ehf.

Framburður ákærða fyrir dómi var á sama veg og hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa verið eigandi og umráðamaður þeirra félaga er sættu ákæru í málinu. Daglegur rekstur hafi alfarið verið í höndum ákærða. Þannig hafi skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti vegna rekstrarársins 2011 verið á ábyrgð ákærða. Bókari hafi séð um að færa bókhaldið fyrir ákærða. Ákærði hafi greitt og gefið út reikninga og sett fylgiskjöl í möppur og í framhaldi hafi hann komið möppum til bókara sem fært hafi bókhaldið. Færsla þess hjá bókara hafi oft dregist talsvert fram eftir næsta ári og hvað rekstrarárið 2011 varði þá hafi ákærði sennilega afhent bókaranum þau gögn í júní 2012. Ákærði kvaðst hafa vitað að virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti ætti að skila á tveggja mánaða fresti. Rekstur ákærða hafi verið með þeim hætti að töluvert af innskatti hafi jafnan verið á fyrri hluta árs. Innkoma í rekstri hafi hins vegar verið yfir sumarið. Ef innskattur hafi legið fyrir hafi ríkisskattstjóri jafnan kallað eftir bókhaldinu til að fara yfir það. Ákærði hafi þess vegna ákveðið að skila ekki skýrslum fyrir hvert tímabil heldur greiða miðað við áætlun yfirvalda. Síðan hafi leiðréttingarskýrslu verið skilað eftir árið. Ákærði kvaðst sjálfur hafa tekið ákvörðun um að haga hlutum með þessum hætti. Ákærði kvaðst ekki gera athugasemdir við yfirlit embættis sérstaks saksóknara um innheimtan og skilaskyldan viðrisaukaskatt vegna rekstrarársins 2011. Að því er varðaði Atvinnubifreiðar og tæki ehf. hafi ákærði á árinu 2008 átt inni innskatt. Skattstjóri hafi tekið bókhald félagsins og hafi því ekki verið skilað fyrr en á árinu 2013. Félagið hafi átt inni um tvær milljónir króna og félagið því ekki í skuld. Ákærði kvað stöðuna hafa verið þá að þegar ákæra í málinu vegna félaganna hafi verið gefin út hafi félögin verið búin að greiða upp skattskuldir sínar, að viðbættu álagi, dráttarvöxtum og kostnaði.

Bókari ákærða kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa aðstoðað ákærða, Rafn. við færslu bókhalds hinna ákærðu félaga. Venjulega hafi ákærði komið með bókhaldsgögn félaganna eftir árið og bókarinn fært bókhaldið í framhaldi. Eins hafi bókarinn gengið frá ársreikningum og skattframtölum vegna félaganna. Á þeim tíma er virðisaukaskattskýrslum hafi verið skilað í pappírsformi hafi ákærði sjálfur skilað skýrslum og virðisaukaskatti. Er tekin hafi verið upp rafræn skil á skýrslum hafi ákærði hætt að skila skýrslum og leitað aðstoðar hjá bókaranum við skil. Ákærði hafi tekið ákvörðun um að senda ekki inn virðisaukaskattskýrslur vegna einstaka tímabila heldur skila leiðréttingaskýrslu í lok árs. Bókarinn kvaðst muna eftir því að á árinu 2008 hafi félagið Atvinnubifreiðar og tæki ehf. átt innskatt. Skattstjóri hafi kallað eftir bókhaldi félagsins vegna þessa. Bókhaldinu hafi hins vegar ekki verið skilað fyrr en nokkrum árum síðar. Kvaðst bókarinn hafa átt í samskiptum við ríkisskattstjóra vegna skila á bókhaldinu. Tafir á skilum hafi eitthvað haft með flutning hjá skattyfirvöldum að gera. Það hafi verið inneign hjá félaginu vegna þessa. Að því er varðaði rekstrarárið 2011 hafi leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts verið skilað í júní 2012, eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi farið af stað.

Fyrir dóminn kom starfsmaður tollstjóra. Gerði starfsmaðurinn grein fyrir yfirlitum úr tekjubókhaldskerfi ríkisins og hvernig greiðslur væru skráðar í kerfið og þeim skuldajafnað á mótum öðrum skuldum félaga. Þá kom fyrir dóminn skrifstofustjóri hjá ríkisskattstjóra. Kvað hann mál Atvinnubifreiða og tækja ehf. hafa verið til skoðunar hjá skattyfirvöldum vegna innskatts á árinu 2008. Kallað hafi verið eftir frekari gögnum vegna málsins. Máli hafi síðar af einhverjum ástæðum mislagst hjá skattyfirvöldum og því dregist úr hófi að skila félaginu bókhaldsgögnum. Loks kom fyrir dóminn lögreglufulltrúi er vann að tilteknum þáttum í rannsókn málsins.

 

Niðurstaða:

Ákærðu krefjast frávísunar málsins frá dómi. Reisa þau kröfu sína í fyrsta lagi á því að búið sé að refsa ákærðu með því að leggja á ákærðu álag, auk þess sem ákærðu hafi greitt dráttarvexti og kostnað vegna vanhalda við skil á virðisaukaskatti. Verði ekki refsað aftur vegna sömu brota. Með því að sækja ákærðu í annað sinn til sakar fyrir sama brot væri verið að brjóta gegn reglunni ne bis in idem, sbr. 4. gr. 7 samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Ef svo væri gert væri um að ræða brot gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur það ekki verið talið fara í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð að stjórnvöld hafi gert manni að greiða skatt af álagi á skattstofn og sama manni séu síðan í öðru máli gerð viðurlög vegna sama brots, sbr. dóm Hæstaréttar 11. júní 2015 í máli nr. 550/2014 og aðra dóma réttarins sem þar er vísað til. Málinu verði því ekki vísað frá héraðsdómi á þessum grundvelli.

Í öðru lagi telja ákærðu að vísa beri málinu frá dómi á þeirri forsendu að útreikningar þeir sem ákæruvaldið byggi á í málinu séu óskiljanlegir. Það sé augljóst af gögnum málsins að þess hafi ekki verið gætt af hálfu innheimtumanns ríkissjóðs að ráðstafa greiðslum á þann hátt sem hagkvæmast hafi verið fyrir ákærðu. Ef svo hefði verið gert hefði engin skuld verið á höfuðstól krafna. Þá sé verulegt ósamræmi á milli gagna málsins og ekkert samræmi á milli hreyfingalista yfir kröfur á hendur ákærðu sem ákæruvald hafi lagt fram við þingfestingu málsins og þess hreyfingalista sem lagður hafi verið fram í þinghaldi 23. febrúar 2016. Hin ákærðu félög hafi oft á tíðum átt inni verulegar fjárhæðir hjá innheimtumanni ríkissjóðs vegna ofgreiðslna. Þegar þessar fjárhæðir hafi komið til útborgunar hafi þeim verið ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og gjalda sem ákærðu telji m.a. að hafi ekki verið lagastoð til þess að innheimta. Megi þar benda á að sérstakt gjald að fjárhæð 5.000 krónur hafi verið innheimt í hvert sinn og haldi ákærðu því fram að innheimta gjaldsins sé ólögmæt. Þá sé við innheimtu oftekinna dráttarvaxta dreginn af fjármagnstekjuskattur, sem einnig sé ólögmætt.

Á rannsóknarstigi hjá lögreglu og við meðferð málsins hér fyrir dómi voru borin undir ákærða Rafn yfirlit embættis sérstaks saksóknara um innheimtan og skilaskyldan virðisaukaskatt vegna þeirra tímabila sem ákæra tekur til. Hvorki við rannsókn málsins hjá lögreglu né hér fyrir dómi bar ákærði brigður á þessa útreikninga. Ákærði bar því hins vegar við að félagið Atvinnubifreiðar og tæki ehf. hafi átt inni innskatt frá árinu 2008, sem skattyfirvöld hefðu dregið að ganga frá. Hefði ekki verið tekið tillit til þess við útreikninga. Í málinu liggur fyrir að tölulegar niðurstöður í yfirlitum lögreglu voru miðaðar við greiðslustöðu í tekjubókhaldskerfi ríkisins 4. apríl 2013. Ákæruvald lét endurskoða og uppfæra yfirlit yfir stöðu félaganna miðað við stöðu í tekjubókhaldi ríkisins 4. apríl 2016. Yfirlitin sýndu engar tölulegar breytingar á þeim tímabilum sem ákært er fyrir varðandi önnur félög en Atvinnubifreiðar og tæki ehf. Voru fjárhæðir varðandi það félag lækkaðar miðað við stöðuna 4. apríl 2016 og þannig tekið tillit til innskattsins frá árinu 2008.  

Tekjubókhaldskerfi ríkisins er hið almenna innheimtukerfi ríkisins. Er það upplýsingakerfi þar sem haldið er utan um innheimtu skatta og gjalda fyrir hönd ríkissjóðs, ríkisstofnana og annarra opinberra aðila. Jafnframt er kerfið sjálfvirk bókun vegna bókhaldsskila. Berast kerfinu innheimtukröfur frá fjölmörgum álagningarkerfum, m.a. álagningarkerfum ríkisskattstjóra og tollstjóra. Samkvæmt opinberum upplýsingum af vef Fjársýslu ríkisins samanstendur kerfið af níu kerfishlutum. Tengjast þeir náið innbyrðis. Hið almenna innheimtukerfi ríkisins byggir á lögum og reglugerðum settum á grundvelli laga. Standa þannig löglíkur til þess að upplýsingar úr kerfinu á hverjum tíma séu réttar. Yfirlit úr tekjubókhaldskerfinu liggja til grundvallar rannsóknum í málum sem þessum. Þó svo flókið geti verið að lesa upplýsingar úr kerfinu verður ekki á þær varnir ákærðu fallist að útreikningar séu óskiljanlegir þannig að varði frávísun málsins frá dómi.  

Samkvæmt skýrum dómafordæmum Hæstaréttar leiðir það af eðli máls og er í samræmi við lög að skattgreiðslur ganga fyrst upp í eldri skuldir. Álag og dráttarvextir eru lögbundnar greiðslur, sem greiða ber eftir ákveðnum reglum og verða hluti viðeigandi skattskuldar. Hið sérstaka gjald sem ákærðu vísa til að greitt hafi verið til viðbótar við skattskuldir verður á sama hátt hluti viðkomandi skattskuldar. Þá mæla lög ekki gegn því að fjármagnstekjuskattur sé lagður á endurgreidda dráttarvexti, eins og aðrar inneignir í lánastofnunum.

Í máli þessu eru ákærða og hinum ákærðu félögum gefin að sök meiriháttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald. Eru brot ákærða Rafns talin varða við 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 að því leyti sem brot voru framin í rekstri hinna ákærðu félaga, sem ákærði var fyrirsvarsmaður fyrir. Að öðru leyti eru brot hans talin varða við 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940, og 1. tl., 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994. Brot hinna ákærðu félaga eru talin varða við 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 40. gr. laga nr. 145/1994.  

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er mælt fyrir um að skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendi hann eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð. Fésektarlágmark samkvæmt þessari málsgrein á ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur verið miklar. Sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hinna ákærðu félaga tók ákærði ákvörðun um að skila ekki virðisaukaskattskýrslum fyrir hvert og eitt uppgjörstímabil rekstrarársins 2011, heldur ákvað að skila einungis leiðréttingarskýrslum þegar bókhald ársins hafði verið fært. Var það ekki fyrr en á miðju ári 2012. Með því braut ákærði gegn umræddri 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, en samkvæmt 24. gr. laganna er hvert uppgjörstímabil tveir mánuðir og skulu skráningarskyldir aðilar eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða þann virðisaukaskatt sem þeim bar að standa skil á. Með sama hætti brutu hin ákærðu félög gegn 8. mgr. 40. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 40. gr.   

Þá stóð ákærði ekki skil á innheimtum virðisaukaskatti fyrir hluta ársins 2011, sem innheimtur var af rekstri hinna ákærðu félaga. Að því er félagið Atvinnubifreiðir og tæki ehf. varðar á það við um tímabilið nóvember – desember 2011 og nemur fjárhæðin eftir leiðréttingu 1.014.413 krónum. Með sama hætti og fyrir sama tímabil stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var fyrir Íslandsleiðir ehf., samtals að fjárhæð 699.684 krónur. Eins stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri Tinnubergs ehf. fyrir tímabilin mars – apríl, júlí – ágúst og september – október 2011, samtals að fjárhæð 6.157.390 krónur. Að lokum stóð hann ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var af rekstri Húsaborgar ehf. fyrir tímabilin mars – apríl, september – október og nóvember – desember 2011, samtals að fjárhæð 2.276.226 krónur. Brot þessi voru fullframin með því að lögboðnar greiðslur voru ekki inntar af hendi á eindaga. Ákærði, sem er skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður hinna ákærðu félaga, bar ábyrgð á því að félögin stæðu skil á skýrslum og skilagreinum til skattyfirvalda. Um er að ræða fjögur einkahlutafélög og nema skattundanskot alls ríflega 10.100.000 krónum. Er um meiriháttar brot í skilningi 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 að ræða.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 145/1994 skal í bókhaldi skrá viðskipti jafnskjótt og þau fara fram, enda sé það í samræmi við góða bókhaldsvenju. Önnur atvik skulu skráð svo fljótt sem unnt er eftir að þau eiga sér stað. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 37. gr. laganna telst meiriháttar brot gegn lögunum ef bókhaldsskyldur maður eða fyrirsvarsmaður lögaðila færir ekki tilskilið bókhald fyrir sjálfan sig eða lögaðila þannig að hann uppfylli ekki kröfur laga í meginatriðum. Samkvæmt 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 skal sömu refsingu sæta og samkvæmt 1. mgr. sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gerist sekur um meiri háttar brot gegn 37. og 38. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994. Ákærði hefur lýst því að bókari hafi aðstoðað hann við færslu bókhalds fyrir hin ákærðu félög. Ákærði hafi greitt og gefið út reikninga og sett þessi fylgiskjöl í möppu. Eftir árið hafi ákærði látið bókara fá þessi gögn, sem í framhaldi hafi fært bókhaldið, og á sama tíma hafi bókari unnið ársreikninga og gert skattaskýrslur fyrir félögin. Miðað við framburð ákærða og bókara hinna ákærðu félaga var það ekki fyrr en í júní 2012 sem bókari tók til við að færa eiginlegt bókhald ársins 2011, en röðun fylgiskjala í möppur telst eitt og sér ekki færsla á bókhaldi í skilningi laga nr. 145/1994. Með þessari háttsemi braut ákærði gegn 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 og 1. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994. Að því er hin ákærðu félög varðar á þessi háttsemi undir 40. gr. sömu laga. Samkvæmt öllu ofanrituðu verða ákærðu sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.  

            Ákærði Rafn er fæddur í apríl 1955. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé. Með hliðsjón af því er hér að framan greinir og refsilágmarki laga nr. 50/1998 er refsing ákærðu ákveðin þannig að ákærði Rafn sæti fangelsi í 6 mánuði, sem bundið verður skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir. Þá greiði ákærði Rafn 18.262.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 10 mánuði.

Atvinnubifreiðar og tæki ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 1.825.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Íslandsleiðir ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 1.258.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Húsaborg ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 4.097.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Tinnuberg ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 11.082.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Ákærðu greiði sakarkostnað með þeim hætti er í dómsorði greinir. Hefur við ákvörðun hans verið litið til virðisaukaskatts.  

Mál þetta var þingfest hér fyrir dómi 9. september 2014. Að ósk ákærðu og með samþykki ákæruvalds var meðferð málsins frestað á meðan beðið væri dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í íslensku máli varðandi tvöfalda refsingu, eða ne bis in idem. Varð dómurinn við þessari beiðni ákærðu. Í lok árs 2015 taldi dómurinn ekki fært að fresta málinu frekar en ekki liggur enn fyrir sá dómur Mannréttindadómstólsins sem beðið hefur verið eftir. Var þá ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram á fyrri hluta árs 2016.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kristín Ingileifsdóttir saksóknarafulltrúi.

Símon Sigvaldason kveður upp þennan dóm.

 

                                                             D ó m s o r ð :

            Ákærði, Rafn Sveinsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði Rafn greiði 18.262.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 10 mánuði.

            Atvinnubifreiðar og tæki ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 1.825.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

            Íslandsleiðir ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 1.258.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Húsaborg ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 4.097.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Tinnuberg ehf. greiði óskipt með ákærða Rafni 11.082.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

            Ákærðu greiði sameiginlega málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.395.000 krónur.

 

Símon Sigvaldason