• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Nytjastuldur
  • Fangelsi og sekt
  • Skilorð
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 14. febrúar 2017 í máli nr. S-284/2016:

Ákæruvaldið

(Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)

gegn

Fjölni Þorra Magnússyni

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 19. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 18. október sl., á hendur Fjölni Þorra Magnússyni, til heimilis að Ranakoti, Stokkseyri,  

 

I.        fyrir umferðarlagabrot:

með því að hafa, aðfararnótt mánudagsins 1. febrúar 2016, ekið bifreiðinni [...], um Suðurlandsbraut og inn Reykjaveg í Reykjavík án þess að hafa gild ökuréttindi.

(007-2016-5934)

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

 

II.                fyrir umferðarlagabrot:

með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 13. mars 2016, ekið bifreiðinni [...] norður Fáskrúðsfjarðargöng án þess að hafa gild ökuréttindi og með 82 km hraða á klukkustund þar sem leyfilegur hámarkshraði er 70 km hraði á klukkustund.

(313-2016-4062)

 

Telst brot ákærða varða við 2. mgr. sbr. 4. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

 

III.             fyrir nytjastuld:

með því að hafa að um hádegisbil laugardaginn 30. apríl 2016 í heimildarleysi og óleyfi tekið bifreiðina [...] þaðan sem hún stóð á bifreiðastæði við Ásbúð 19 í Garðabæ og hagnýta sér síðan bifreiðina til aksturs um höfuðborgarsvæðið, þar til lögregla hafði afskipti af ákærða er þeir atburðir áttu sér stað er frá greinir í ákærulið IV. (007-2016-24407)

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

IV.              fyrir umferðalagabrot

með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. maí 2016 ekið bifreið þeirri er frá greinir í ákærulið III. án þess að hafa gild ökuréttindi vestur Laugaveg í Reykjavík undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,54‰) og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínóls. (007-2016-24407)

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og lýsti því yfir að hann óskaði ekki eftir skipun verjanda. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Í matsgerð frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna lögreglu vegna ákæruliðar IV, kemur fram að blóði ákærða hafi mælst tetrahýdrókannabínól 1,0 ng/ml. Um málavexti að öðru leyti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði þrisvar sinnum áður verið fundinn sekur um refsivert athæfi. Þann 29. maí 2009 var ákærði fundinn sekur um líkamsárás, en ákvörðun refsingar hans var frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Þann 30 maí 2013 var ákærða gerð sekt vegna ölvunaraksturs, auk þess sem hann var sviptur ökurétti tímabundið. Þann 27. júní 2013 var ákærði fundinn sekur um þjófnað, og honum gert að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til tveggja ára.

            Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum. Með vísan til 4. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. skal ákærði jafnframt greiða 305.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í 22 daga.     

Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að svipta ákærða ökurétti í fjögur ár, frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 117.426 kr. 

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Fjölnir Þorri Magnússon, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði jafnframt 305.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 22 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í fjögur ár, frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 117.426 krónur.  

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.