• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 11. apríl 2017 í máli nr. S-98/2016:

Ákæruvaldið

(Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Eyjólfi Bragasyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 14. síðasta mánaðar, á hendur Eyjólfi Bragasyni, kt. 000000-0000, Ásbúð 92 í Garðabæ, „fyrir umferðarlagabrot í Hafnarfirði með því að hafa að morgni miðvikudagsins 21. desember 2016 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti suður Hvaleyrarbraut uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar“ og að hafa þannig brotið gegn 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Samkvæmt ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Um málsatvik er skírskotað til ákæru.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð saka­mála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í sam­ræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum tekur til samkvæmt framansögðu og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði í fjórum tilvikum brotið gegn umferðarlögum frá og með árinu 2009, en þar hafa eftirgreind brot hans með því að aka sviptur ökurétti, áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Með dómi 2. apríl 2012 var hann dæmdur í þrjátíu daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt, fyrir umferðar­lagabrot, þar á meðal fyrir að aka sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Með dómi 20. desember 2013 var hann dæmdur í sextíu daga fangelsi og ævilöng ökuréttar­svipting áréttuð, vegna aksturs sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Nú síðast var hann með dómi 24. nóvember á síðasta ári dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og ævi­löng ökuréttar­svipting hans áréttuð, vegna aksturs undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti.   

Að framangreindum saka­ferli virtum, sbr. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og með hliðsjón af dómaframkvæmd, þykir refsing ákærða samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 50/1987, hæfi­lega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Ekki eru efni til að skilorðs­binda þá refsingu.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Hákon Þorsteinsson, aðstoðarmaður dómara, dæmir mál þetta.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Eyjólfur Bragason, sæti fangelsi í tvo mánuði.

 

                                                            Hákon Þorsteinsson