• Lykilorð:
  • Eignaspjöll
  • Hótanir
  • Húsbrot
  • Kynferðisbrot
  • Líkamsárás

Ár 2009, mánudaginn 21. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-127/2009:

 

 

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Ragnari Haukssyni

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

svofelldur

 dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var 1. desember  sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 4. mars 2009, á hendur Ragnari Haukssyni, kt. 000000-0000, Heiðarbrún 16, Árborg,

 

„fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2008:

I.

Kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa föstudaginn 18. apríl, að Eyrarvegi 17, Árborg, strokið með framhandleggnum um innanverð læri stúlkunnar X, kennitala 000000-0000, og strokið með hendinni um klof hennar og viðhaft kynferðisleg og ósiðleg ummæli um kynfæri hennar, að þau væru blaut og þau hlytu að vera þröng.

 

Telst þetta varða við 199. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992 og 8. gr. laga nr. 61/2007, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

II.

Brot framin að kvöldi mánudagsins 12. maí, utan við íbúðarhúsið að Hólsbraut 11, Grímsnes- og Grafningshreppi, nema annað sé tekið fram:

 

  1. Eignaspjöll, með því að hafa valdið skemmdum á bifreiðinni LR-513, eign Vigdísar Þórðardóttur, kennitala 000000-0000, með því að hafa kastað steinhnullungum í bifreiðina, með þeim afleiðingum að dældir og rispur komu aftarlega á hægri hlið bifreiðarinnar.

 

  1. Líkamsárás og húsbrot, með því að hafa skömmu síðar veist að Guðmundi Jónssyni, kennitala 000000-0000, og tekið hann hálstaki og hrint honum á jörðina og veitt honum eftirför og ruðst í heimildarleysi inn á heimili hans og slegið hann þar hnefahögg í andlitið, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut tvær rispur og marbletti á hálsi, þrjú grunn sár á neðri vör, eymsli og bólgu á bakvöðva, tvær framtennur í efri góm losnuðu og gengu til og sprunga kom á bein milli framangreindra tanna.

 

Telst brot samkvæmt lið II/1 varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og teljast brot samkvæmt lið II/2 varða við 1. mgr. 218. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

 

III.

Brot framin þriðjudaginn 9. september á sýsluskrifstofunni, Hörðuvöllum 1, Árborg:

 

  1. Líkamsárás, með því að hafa rifið í hár Guðmundar Jónssonar, kennitala 000000-0000, og slegið með hnefanum í átt að andliti hans en höggið geigaði og lenti á öxl Guðmundar.

 

  1. Hótanir, með því að hafa stuttu síðar hótað Guðmundi lífláti.

 

Telst brot samkvæmt lið III/1 varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, en til vara við sömu grein sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga, og telst brot samkvæmt lið III/2 varða við 233. gr. almennra hegningarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu X, kennitala 000000-0000, er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 448.104, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður var liðinn frá því bótakrafan var kynnt ákærða en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Krafist er vaxta af útlögðum kostnaði og málskostnaði lögmanns eftir sömu reglum frá þeim degi er kostnaður fellur til, til greiðsludags.“

 Mál þetta var þingfest þann 26. mars sl. og frestað til 8. apríl til framlagningar greinargerðar ákærða. Þann 16. apríl sl. var dómkvaddur matsmaður að kröfu ákærða til að meta hugsanlegar afleiðingar af árás ákærða skv. lið 2 í II. ákærulið og var það mat lagt fram þann 28. október sl. Aðalmeðferð fór fram þann 1. desember sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. Ákærði kom fyrir dóminn þann 26. mars sl. og neitaði sök vegna ákæruliðar I. Ákærði játaði sök í fyrri lið ákæruliðar II en neitaði sök eins og henni er lýst í síðari lið ákæruliðar II. Kvaðst ákærði hafa slegið Guðmund Jónsson með lófanum og handarbaki í andlit en neitaði því að sprunga í beini milli framtanna hans geti verið afleiðing þess. Þá neitaði ákærði að hafa framið húsbrot. Ákærði játaði sök í báðum liðum ákæruliðar III. og hafnaði bótakröfunni í ákæru.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af ákærulið I en krafist er vægustu refsingar sem lög leyfa vegna annarra ákæruliða. Þá mótmælir ákærði bótakröfunni. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins auk virðisaukaskatts. Dómurinn fór á vettvang vegna ákæruliðar I.

 

                                                                   I.

            Málavextir.

Ákæruliður I.

Í upplýsingaskýrslu lögreglu kemur fram að lögreglan hafi farið á heimili brotaþola, X, að R-götu C, vegna meints kynferðisbrots sem hún hafi orðið fyrir. Hafði brotaþoli tilkynnt umsjónarkennara sínum í S fyrst um málið sem síðan ræddi það við námsráðgjafa skólans en hún tilkynnti það lögreglu. Er þar haft eftir stúlkunni að hún hefði farið ásamt tveimur vinum sínum á tattústofuna við Eyrarveg á Selfossi og fengið tattú hægra megin undir mjaðmabeini. Á meðan ákærði hafi verið að vinna við tattúið hefði stúlkan þurft að renna buxunum niður en hafi annars verið í þeim. Á meðan ákærði hafi verið að tattúera hana hefði hann sagt við hana: „Rosalega hlýtur þú að vera þröng.“ og „Ekki blotna svona mikið.“ Einnig hefði ákærði verið með lófann í klofinu á henni þar sem hún hefði legið á bekknum. Var eftir brotaþola haft að kærasti hennar og vinkona hefðu einnig verið inni í herberginu en ákærði alltaf verið að reka þau út. 

 

Ákæruliður II.

Upphaf þessa máls er að brotaþoli, Guðmundur Jónsson, hringdi á lögreglustöð og tilkynnti að ákærði hefði komið heim til sín, kastað steini í bifreið hans og síðan ráðist á sig og óskaði hann eftir lögreglu á staðinn.

Ekki þykja efni til að rekja málsatvik annarra ákæruliða utan þess sem rakið er í skýrslum fyrir dómi.

 

II.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákæruliður I.

Ákærði kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að þegar viðskiptamaður kæmi á stofuna til hans þá byrjaði hann á því að velja sér mynd. Síðan væri tími ákveðinn. Flúr fari þannig fram að í byrjun er viðkomandi sótthreinsaður á því svæði sem á að tattúera og húðin rökuð. Síðan eru nálar og litur tekið til og verkið hafið. Hanskar eru notaðir við að tattúera og mikil líkamleg snerting sé nauðsynleg. Brotaþoli hafi komið til ákærða 26. mars 2008, rétt fyrir lokun um sjöleytið, ásamt vinkonu sinni og dreng. Stúlkan hefði valið sér mynd og ákærði samþykkt að setja myndina á hana í framhaldi. Í ljós hefði komið að stúlkan var eingöngu sautján ára svo hringt hefði verið í föður hennar og hann samþykkt að hún yrði tattúeruð. Stúlkan hefði viljað fá myndina á móts við mjaðmabein hægra megin. Stúlkan hefði legið í þar til gerðum stól og ákærði setið á stól við hlið hennar. Í fyrstu hefði stensill verið settur á viðkomandi stað og síðan byrjað að vinna. Lýsti ákærði því svo að erfitt væri að flúra á þessu svæði því húðin þar væri mjög mjúk og teygjanleg svo það þyrfti að strekkja hana á meðan væri verið að tattúera. Þá væri nauðsynlegt að höndin sem stýrði pennanum hefði stuðning og útilokað væri að flúra öðruvísi en að hafa stuðning fyrir hönd og handlegg. Ákærði neitaði því að hafa snert stúlkuna ósiðlega og að hafa haft á orði við hana að hún væri þröng og blaut. Möguleiki væri að hann hefði viðhaft orðið „þröng“ en það hefði þá verið í þeim tilgangi að útskýra fyrir henni nálarnar, t.d. að nálar væru þröngar eða ekki. Þá neitaði hann því að hafa rætt það í kynferðislegum tilgangi að stúlkan væri blaut. Ákærði hefði þurft að spreyja á hana sótthreinsivökva og mögulega hefði hann sagst þurfa að bleyta hana af því tilefni. Kvaðst hann ekki skilja ásakanir stúlkunnar en hann hefði ekki rætt þessa hluti af kynferðislegum toga. Ákærði kvaðst, þegar hann gaf skýrslu fyrir lögreglu, hafa verið í áfalli vegna annars máls og það gæti skýrt misræmi í framburði hans, en hann hefði verið lagður inn á geðdeild í framhaldi. Dómskjal 10, ljósmynd af flúrinu, var borið undir ákærða. Kvað hann myndina hafa verið tekna 26. mars 2008 klukkan rúmlega níu um kvöldið. Hefði það verið þann dag sem hann flúraði stúlkuna en ekki 18. apríl 2008 eins og greinir í ákæru. Ákærði kvað vini stúlkunnar hafa setið inni í herberginu hjá þeim allan tímann. Þau hefðu verið að fíflast eitthvað og stúlkan hlegið og kvaðst ákærði hafa hastað á þau og sagt þeim að þau yrðu að fara út ef þau trufluðu stúlkuna en hún mætti alls ekki hlæja á meðan á flúrvinnunni stæði. Þau hefðu ekki farið en hann hefði sennilega hastað á þau í tvö skipti. Ákærði kvað ómögulegt að flúra öðruvísi en að leggja handleggi á líkama þess sem væri verið að flúra. Ákærði fullyrti að hann væri alltaf með hanska þegar hann flúraði fólk og það væri rangt hjá brotaþola að hann hefði ekki verið í hönskum. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna hvort hann hefði þurft að ýta buxum stúlkunnar eitthvað niður en ef myndin ætti að vera neðarlega á kvið þá væri útilokað annað en að ýta buxum niður. Þá kvaðst hann setja pappír yfir og undir buxnastreng til að koma í veg fyrir að föt blotni og að blek fari í þau en það sjáist vel á dskj. 10.

Vitnið X, brotaþoli, kom fyrir dóminn. Kvaðst hún hafa farið á stofu ákærða til að fá tattú. Hún hefði sest í stól á stofunni og ákærði byrjað að flúra. Ákærði hefði verið æstur en vinir hennar hefðu verið inni líka. Ákærði hefði öskrað á þau og ætlað að reka þau út. Þá hefði ákærði sagt við vitnið: „Mikið hlýturðu að vera blaut og þröng.“ Ákærði hefði þá verið að flúra vitnið. Hefði vitninu fundist þessi athugasemd vera kynferðisleg en svona segði enginn við viðskiptavin. Ákærði hefði vitað að vitnið var of ungt til að fá flúr en vitnið hefði hringt í föður sinn sem hefði samþykkt að hún fengi flúrið. Flúrið hefði verið sett til hliðar við mjaðmabeinið á vitninu, neðarlega. Kvaðst vitnið hafa legið á bakinu með buxurnar mjög neðarlega. Ákærði hefði setið við hliðina á vitninu og fannst vitninu ákærði hafa komið mjög mikið við sig. Ákærði hefði sífellt verið að hreyfa hendurnar og komið víða við vitnið. Ákærði hefði komið við vitnið með hendinni, hann hefði sett framhandlegg sinn ofan á líkama vitnisins, brjóst og niður að klofi. Ákærði hefði farið með framhandlegginn í klofið á sér, vitnið hefði fundið það. Ákærði hefði ekki farið með fingurna í klofið á vitninu en hún hefði fundið að hann kom með handarbakinu við klofið á henni. Vitnið kvaðst hafa legið með fætur saman og ákærði hefði sífellt verið á hreyfingu með hendurnar. Aðspurt um það hvort ákærði hefði farið með handlegginn á milli læra vitnisins, kvaðst það ekki geta svarað því. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði notað einhverja vökva þegar hann vann við flúrið en hélt það þó. Kvaðst vitnið ekki hafa sagt neitt við ákærða og kvaðst hafa verið hrætt. Ákærði hefði verið æstur, pirraður og hann hefði öskrað. Vitnið kvaðst hafa langað til að ganga út en ekki þorað það. Aðspurð kvað hún vinkonu sína og fyrrverandi kærasta hafa verið inni í herberginu hjá þeim og verið mjög nálægt. Ákærði hefði öskrað á þau og sagt þeim að fara út en þau ekki sinnt því þar sem vitnið hefði ekki viljað vera eitt með ákærða. Taldi vitnið að vinir hennar hefðu heyrt ummæli ákærða og vinkona hennar líka verið hrædd. Eftir að þau komu út hefðu þau rætt ummæli ákærða. Vinkonu vitnisins hefði allavega fundist þetta skrýtið. Aðspurt kvað vitnið vini sína ekki hafa sýnt nein viðbrögð við ummælum ákærða á meðan hann var að tattúera vitnið. Þá kvaðst vitnið hafa fengið afslátt á flúrinu en vitnið kvaðst ekki vita hvers vegna. Vitnið kvaðst hafa sagt námsráðgjafa sínum í skólanum frá atvikinu og fjölskyldu sinni en vitninu hefði liðið mjög illa vegna þessa. Vitnið hefði sífellt verið að hugsa um atvikið og undanfarið verið stressað. Þá hefði vitnið rætt við sálfræðing í Reykjavík en mest hefði vitnið rætt við föður sinn um málið. Vitninu var sýnd mynd af flúrinu þar sem sést að pappír er yfir buxnastreng þess. Kvaðst vitnið ekki vita hvers vegna ákærði hefði sett pappír þar og kvaðst vitnið ekki muna til þess að ákærði hefði rætt það að vitnið myndi blotna áður en hann byrjaði að flúra. Ákærði hefði verið að flúra vitnið þegar hann viðhafði ummælin. Ákærði hefði setið en samt sífellt verið á ferð með höndina en hann hefði ekki þurft að fara með höndina á brjóstin á vitninu né í klofið á því. Vitnið kvaðst hafa sagt hjá lögreglu að það hefði verið hrætt við ákærða vegna ummælanna en vitnið kvaðst ekki hafa haft neinar slíkar upplýsingar um ákærða áður en það fór til ákærða til að fá flúrið. Vitnið kvaðst aðspurt hafa séð eftir því að hafa fengið sér umrætt tattú. Vitnið kvaðst aðspurt hafa þurft að renna buxnalásnum niður og taka buxurnar niður áður en byrjað var að flúra. Aðspurt um það hvort ákærði hefði rakað skapahárin af vitninu, eins og dskj. 10  bar með sér, kvaðst vitnið ekki muna það. Þá kvaðst vitnið ekki muna hvort ákærði hefði úðað sótthreinsivökva á það. Aðspurt kvaðst vitnið halda að ákærði hefði verið með höndina í klofinu á því þegar hann viðhafði ummælin. Aðspurt um það hvort ákærði hefði verið með hanska þegar hann var að flúra kvað vitnið ákærða ekki hafa verið með hanska.

Vitnið D, kt. 000000-0000, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið með brotaþola á tattústofuna. Vitnið hefði verið í sama herbergi og ákærði og brotaþoli á meðan ákærði flúraði brotaþola. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt nein ósiðleg ummæli af vörum ákærða. Ákærði hefði ýmist setið eða staðið við að flúra. Hann hefði sagt þeim að fara út þegar þau voru að hlæja. Erfitt hefði verið fyrir ákærða að flúra brotaþola ef hún færi að hlæja. Ákærði hefði sett vökva á brotaþola á þeim stað sem hún var flúruð. Þau hefðu verið hjá ákærða í um tvo til þrjá klukkutíma en vitnið mundi það ekki vel. Kvað vitnið ákærða hafa hvílt höndina á brotaþola og nálægt klofinu á henni á meðan hann var að flúra. Kvaðst vitnið ekki hafa fylgst með svo náið allan tímann en það hefði ekki séð ákærða setja höndina í klofið á brotaþola. Vitnið kvaðst þó aðspurt ekki geta útilokað að það hefði gerst. Vitnið kvað brotaþola hafa „panikað“ þegar þau komu út af tattústofunni og sagt sér að ákærði hefði sagt við hana að hún væri blaut og þröng. Þá hefði brotaþoli spurt vitnið hvort það hefði séð ákærða káfa á sér. Vitnið kvaðst hafa sagt hjá lögreglu að ákærði hefði viðhaft umrædd ummæli en ekki vita hvers vegna, þar sem vitnið hefði ekki heyrt það sjálft, heldur haft það eftir brotaþola. Vitnið kvaðst ekki hafa upplifað það á neinn hátt að eitthvað kynferðislegt hefði verið á seyði á stofunni. Aðspurt kvað vitnið ákærða hafa notað hanska við að flúra. Vitnið kvað sig og brotaþola vera góðar vinkonur. Framburður vitnisins hjá lögreglu var borinn undir vitnið og játti vitnið þá frásögn sinni í lögregluskýrslunni. Vitnið kvað tattúið vera rétt fyrir ofan klofið á brotaþola og því hefði ákærði þurft að hafa höndina þar. Vitnið var spurt um eftirfarandi frásögn sína hjá lögreglu: „það var allavega þannig að hann var alltaf að hvíla hendina á brjóstinu eða klofinu á henni, ég er að segja, það er eins og hann gæti alveg haft hendina annars staðar, síðan sagði hann, ertu að blotna út af titringnum, ég man ekki alveg hvernig hann hafði orðað þetta, hann glotti og sagði eitthvað sona, svo varð hann reiður því við máttum ekki tala saman þarna inni.“ Vitnið kvað þetta rétt en ákærði hefði ekki farið með höndina í klofið á brotaþola, hann hefði verið meira með olnbogana. Aðspurt um það hvort vitnið hefði heyrt ákærða viðhafa ummælin um titringinn, kvað vitnið það vera rétt. Aðspurt nánar um titringinn, kvaðst vitnið kannski hafa upplifað það sem kynferðislegt.

Vitnið V, kt. 000000-0000, faðir brotaþola, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa hitt brotaþola sama kvöld og hún var flúruð. Hún hefði ekki rætt tilvikið neitt þá. Brotaþoli hefði sagt sér frá umræddu tilviki, sennilega daginn eftir, og sagt að ákærði hefði þreifað á henni. Þá hefði hún verið reið en vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við aðrar tilfinningar hjá brotaþola. Þá hefði brotaþoli talið að málið ætti að fara til lögreglunnar. Kvaðst vitnið hafa latt brotaþola til að kæra atvikið þar sem hann hefði ekki talið atvikið alvarlegt. Aðspurt kvað vitnið brotaþola vera viðkvæma og þá gagnvart svona hlutum.

F, kt. 000000-0000,  kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið með brotaþola í umrætt sinn. Kvaðst vitnið bara hafa orðið vitni að eðlilegri framkomu en það hefði ekki verið við allan tímann. Vitnið kvaðst hafa farið út að reykja og einnig farið frá til að skoða myndir. Kvað vitnið að brotaþoli hefði farið með þeim D út til að reykja. Vitnið kvaðst muna til þess að ákærði hefði úðað vökva á brotaþola á það svæði sem flúrið átti að vera. Brotaþoli hefði legið á bekk og ákærði setið við verkið. Ákærði hefði þurft að nota hendurnar mikið, hann hefði þurft að strekkja húðina, notað aðra höndina til þess og hina höndina til að flúra. Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða setja höndina á óviðeigandi stað á brotaþola, en það gæti ekki fullyrt um það. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að rætt hefði verið um stærðir á nálum. Þá kvaðst vitnið muna til þess að ákærði hefði rætt um blautt og þröngt en ekki í hvaða tilviki. Vitnið minnti þó að ákærði hefði sagt eitthvað í þá veru, „hvort hún væri að verða blaut í píkunni.“ Ákærði hefði þá verið að setja blek á byssuna. Vitnið kvaðst ekki hafa kippt sér neitt upp við þetta né hafa tekið eftir viðbrögðum brotaþola. Hún hefði verið eðlileg allan tímann og ánægð með að hafa fengið flúr. Vitnið D hefði verið við hliðina á sér þegar ákærði viðhafði þessi orð. Vitnið minnti að brotaþoli hefði nokkrum dögum seinna orðið óánægð en vitnið hefði frétt það annars staðar frá. Aðspurt kvað vitnið ákærða hafa verið með hanska en vitnið kvaðst muna atburði illa. Vitnið kvaðst muna til þess að ákærði hefði þurft að teygja á húðinni á brotaþola, hann hefði sagt að húðin væri slök á henni og þurft að strekkja á henni. Þá hefði ákærði þurft að raka brotaþola og úðað á hana vökva áður en hann byrjaði að flúra. Vitnið kvaðst ekki hafa upplifað neina kynferðislega tilburði hjá ákærða.

Vitnið G, kt. 000000-0000, umsjónarkennari, kom fyrir dóminn og kvað brotaþola hafa komið til sín daginn eftir að hún fékk flúrið og sagt sér frá atvikinu. Hún hefði tjáð sér að ákærði hefði verið með höndina í klofinu á henni og talað þannig að hann særði blygðunarkennd hennar. Brotaþola hefði greinilega liðið illa með þetta. Vitnið kvaðst hafa vísað málinu til námsráðgjafa í skólanum. Vitnið kvað brotaþola vera á starfsbraut í Fjölbrautaskólanum og ekki geta stundað nám á almennri námsbraut en hún sé nokkuð skert.  

Vitnið H, kt. 000000-0000, námsráðgjafi, kom fyrir dóminn og kvað kennara brotaþola hafa upplýst sig um málið og beðið vitnið um að ræða við brotaþola þar sem henni liði illa. Stúlkan hefði greinilega verið upptekin af þessum atburði, var greinilega kvíðin og vildi ræða um atvikið. Vitninu hefði fundist brotaþola misboðið og ekki vera í andlegu jafnvægi. Kvað vitnið frásögn brotaþola hafa verið það trúverðuga að vitnið kvaðst trúa henni. Brotaþoli hefði tjáð vitninu frá samtali sem ákærði hefði átt við brotaþola sem hefði verið óviðurkvæmilegt. Ákærði hefði sagt að hún væri blaut og hlyti að vera þröng og hefði fengið afslátt af því að hún væri svo falleg. Vitnið kvað brotaþola vera mjög óþroskaða andlega, útlit hennar gæti blekkt fólk en hún væri með skerta greind.

III.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákæruliður II.

Ákærði játaði skýlaust fyrir dóminum eignaspjöll eins og þeim er lýst í fyrsta lið þessa ákæruliðar. Farið var með þennan lið ákærunnar samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu utan þess sem ákærði skýrði sjálfur frá fyrir dóminum.

Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa veist að Guðmundi Jónssyni og hrint honum á jörðina ásamt því að hafa slegið hann nokkrum sinnum í andlitið með flötum lófa. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa slegið Guðmund hnefahögg auk þess að hafa ruðst inn á heimili hans.

Ákærði lýsti því svo fyrir dóminum að hann hefði verið staddur sem gestur í sumarbústað í Grímsnesi þegar hann hitti Guðmund. Guðmundur hefði kallað á sig og sagt að hann hefði verið að reyna að ná í ákærða. Ákærði kvaðst hafa þá orðið mjög reiður og hann hefði löðrungað Guðmund nokkrum sinnum. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að hafa tekið Guðmund hálstaki. Aðspurður kvað hann það vel geta verið að hann hefði hrint Guðmundi svo að hann hafi dottið á jörðina. Ákærði kvaðst hafa farið á eftir ákærða inn í hús Guðmundar. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að Guðmundur byggi í húsinu en orðið það strax ljóst þegar hann kom inn. Hann hefði farið út úr húsinu um leið og honum var sagt að fara út. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hefði slegið ákærða inni í húsinu en hann hefði eflaust gert það. Ákærði neitaði því að hafa slegið Guðmund með hnefanum. Hann hefði ekki séð neina áverka á Guðmundi. Ákærði kvað ástæðu þess að hann réðst á Guðmund vera þá að Guðmundur hefði verið búinn að misnota konu ákærða til nokkurra ára og hann hefði því verið brjálaður og séð svart en hann hefði lesið dóminn í Byrgismálinu nóttina áður.  Ákærði kvaðst hafa fengið taugaáfall í framhaldi. Vinur hans, Jakob, hefði komið til sín og gefið sér róandi lyf. Jakob hefði síðan tekið hann með sér í grillveislu í sumarbústað og hefði verið algjör tilviljun að Guðmundur hefði búið í næsta bústað. Eftir árásina kvaðst ákærði hafa fengið lögreglumann til að keyra sig á geðdeild þar sem hann hefði verið lagður inn.

            Guðmundur Jónsson, kt. 000000-0000, kom fyrir dóminn og lýsti því svo að hann hefði verið að ljúka við að flytja og nýbúinn að aflesta bifreiðina. Hann hefði verið inni í húsinu þegar hann heyrði dynk úti og hefði hann farið út til að kanna málið. Þar hefði hann séð stóran stein liggja á planinu auk þess að ákærði hefði verið á planinu. Ákærði hefði veist að sér og hent sér fram og til baka utan í kerru auk þess að ákærði hefði tekið hann hálstaki, enda hefði hann fengið áverka á hálsinn. Guðmundur hefði í framhaldi farið inn í húsið en ákærði hefði elt hann þangað. Guðmundur kvaðst ekki hafa lokað dyrunum á eftir sér þar sem hann hefði talið að ákærði væri hættur og farinn. Þar hefði ákærði slegið hann í andlitið en í sama mund hefði eiginkona hans komið og öskrað á ákærða að koma sér út. Ákærði hefði þá farið strax út úr húsinu. Guðmundur kvað ákærða hafa verið mjög reiðan. Kvaðst Guðmundur hafa fengið höggið beint á munninn og hefðu framtennur losnað við höggið. Væru þær enn lausar.  Kvaðst Guðmundur ekki hafa verið með lausar tennur fyrir árásina. Guðmundur neitaði því að ákærði hefði slegið hann mörg högg í andlitið, eingöngu hefði verið um eitt högg að ræða. Aðspurður kvað Guðmundur að ákærði hefði verið tíður gestur hjá sér áður en Byrginu var lokað en hann hefði ekki komið heim til sín eftir þann tíma.

            Helga Haraldsdóttir, kt. 000000-0000, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið inni þegar hún heyrði einhvern dynk úti fyrir. Guðmundur hefði farið á undan henni út og þegar hún kom út hafi hún séð ákærða þar sem hann hafði þegar ráðist á Guðmund. Hún hefði gripið yngsta son sinn og hlaupið inn til að hringja í vin sinn til að fá hjálp. Rétt seinna hefði Guðmundur komið inn fyrir og ákærði á eftir honum. Ákærði hefði slegið Guðmund í andlitið með krepptum hnefa og hefði höggið lent á kjálka Guðmundar. Ákærði hefði verið mjög æstur og hrópað að Guðmundi. Helga kvaðst hafa þekkt ákærða fyrir og minntist þess ekki að hafa séð hann í slíku ástandi áður. Helga kvaðst hafa öskrað á ákærða og sagt honum að koma sér út, sem hann hefði gert. Kvaðst hún hafa séð áverka á Guðmundi eftir það en hann hefði farið beint til læknis í framhaldi.

            Elva Dögg Magnúsdóttir, kt. 000000-0000, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í næsta sumarbústað við heimili Guðmundar Jónssonar. Hún hefði heyrt mikil læti og farið út og séð þá ákærða fara að bifreið Guðmundar og aftur fyrir hana. Meira hefði hún ekki séð. Aðspurð um frásögn sína í lögregluskýrslu kvað hún hana byggjast á því sem hún hefði heyrt eftir á.

            Unnur Lilja Stefánsdóttir, kt. 000000-0000, kvaðst muna eftir því að í umrætt sinn hefði hún verið í sumarbústað og séð ákærða taka upp grjót og kasta í bifreið Guðmundar. Ákærði og Guðmundur hefðu verið fyrir aftan bifreiðina og hún því ekki séð meira en heyrt hávaða frá þeim.

Vilborg Magnúsdóttir ransóknarlögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa tekið lögregluskýrslu af vitninu D. Kvað Vilborg að frásögn innan gæsalappa í skýrslu væri orðrétt eftir viðkomandi haft. 

Halldór Gísli Sigþórsson tannlæknir kom fyrir dóminn og kvaðst hafa meðhöndlað Guðmund eftir meinta árás. Kvaðst hann ekki hafa meðhöndlað Guðmund aftur efir það. Aðspurður kvað Halldór umræddar tennur vera hægri framtönn og hliðarframtönn hægra megin, tennur 11 og 12. Halldór kvað sprungu virðast vera á milli tveggja framtanna sem gæti hafa skapast af höggi. Talsverð beineyðing hefði verið á þessu svæði og þá væri beinið viðkvæmara fyrir höggi. Aðspurður kvaðst Halldór ekki geta fullyrt að um sprungu væri að ræða. Kvað hann bata alltaf vera erfiðari þegar bein væri orðið eins lélegt og raun var hjá Guðmundi. Aðspurður kvað Halldór sprungu varla geta orsakast út frá beineyðingu einni saman en hann kvað ekki ljóst að um sprungu væri að ræða. Útskýrði Halldór röntgenmynd af tanngarði Guðmundar fyrir dóminum. Kvað hann skugga á myndinni geta verið sprungu en það væri ekki öruggt. Mikil beineyðing væri og bólgur kringum framtennurnar. 

Júlíus Helgi Schopka kjálkaskurðlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti dskj. 15, sérfræðiálit, sem hann gerði. Kvað hann tennur Guðmundar hafa verið lausar þegar hann skoðaði Guðmund en báðar þessar tennur, 11 og 12, væru ónýtar og þær hefðu líklega verið ónýtar fyrir árásina. Talsverð beineyðing hefði verið við tennurnar og því væru beinvefir veikari fyrir. Kvaðst Júlíus ekki hafa séð brot í beini á þeirri röntgenmynd sem hann hefði tekið en hann hefði séð skugga, sem gæti verið sprunga, í eldri röngtenmynd sem fylgdi gögnum til hans. Umræddur skuggi gæti hugsanlega verið „teikningin“ í beininu sem kæmi þannig út á röntgenmynd en raunverulegur vafi væri á því hvort um brot væri að ræða. Kvað Júlíus aðspurður það vera óeðlilegt að tennur væru lausar ári síðar en losið á tönnunum hafi sennilega verið til staðar fyrir árás að töluverðu leyti. Beineyðingin hafi verið til staðar áður en röntgenmyndin var tekin og hefði vafalaust verið að gerjast í mörg ár. Júlíus skoðaði röntgenmynd sem liggur frammi í málinu og taldi að skuggi sem sést á myndinni væri sennilega sprunga en hann gæti ekki fullyrt um það.   

            Gylfi Haraldsson heilsugæslulæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvað hann Guðmund Jónsson hafa leitað til sín eftir árásina 12. maí 2008. Staðfesti hann votttorð er hann gaf út þann 12. maí 2008.

            Heiðar Ingi Heiðarsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í útkall að Hólabraut 11 á heimili Guðmundar Jónssonar. Guðmundur hefði verið með sprungna vör og blóð á vörum, rispur á hálsi en að öðru leyti hefði hann ekki kvartað. Þá hefði ákærði verið farinn af vettvangi. Kvað hann Guðmund hafa gefið þá skýringu að tilefni árásarinnar hefði sennilega verið svokallað Byrgismál.

            Kristján Örn Kristjánsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í útkall að Eyrarvegi 17 á Selfossi upp úr hádegi þann 12. maí 2008 en tilkynningin hefði verið á þá leið að þar væri maður sem hefði hug á að skaða sig. Þegar hann kom á staðinn hefði maðurinn, sem er ákærði, verið nokkuð rólegur. Vinur ákærða hefði komið á staðinn og lögreglan ekki aðhafst meira.

            Aðalsteinn Þór Guðmundsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í útkall að Eyrarvegi 17 en þar hefði verið maður sem hefði verið reiður. Tilefni útkallsins var að viðkomandi ætlaði að fremja sjálfsvíg. Hefði lögreglan verið send með forgangi á staðinn. Maðurinn hefði verið einn þegar lögreglan kom á staðinn en vinur hans hefði síðan komið og lögreglan þá yfirgefið staðinn.

            Jósep Hjálmar Sigurðsson, kt. 000000-0000, kom fyrir dóminn og kvað ákærða hafa hringt í sig að morgni í maí 2008. Ákærði hefði sagt sér að hann hefði verið að lesa dóm í Byrgismálinu og þar séð aðkomu eiginkonu sinnar í málinu. Kvaðst Jósep ekkert hafa litist á ástandið á ákærða og því farið niður á Selfoss og sótt ákærða. Hann hefði farið með hann upp að Borg í Grímsnesi í sumarbústað í grillveislu til að létta undir með honum. Hefði það verið algjör tilviljun að Guðmundur Jónsson hefði búið í næsta bústað og kvaðst Jósep ekki hafa áttað sig á því. Ákærði hefði verið órólegur í bústaðnum þar sem hann hefði gert sér grein fyrir því að Guðmundur var á næsta leiti. Jósep kvaðst ekki hafa séð þegar ákærði réðst á Guðmund. Jósep kvað ákærða hafa verið mjög illa á sig kominn andlega og kvaðst Jósep hafa ekið honum í burtu.

 

IV.

            Vottorð vegna ákæruliðar II-2.

            Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð Gylfa Haraldssonar læknis, dagsett 12. maí 2008. Kemur þar fram að tvær tennur í efri góm brotaþola  postulínshúðaðar, hafi aðeins skekkst. Tvær rispur hafi verið á hálsi og marblettir og greinilegt að brotaþoli hafi verið tekinn hálstaki. Grunn sár, þversum á þremur stöðum á neðri vör og blóð bæði á neðri og efri vör, ekki blóð í munni. Eymsli hafi verið á bakvöðva letensemi dorsi laterals og smá bólga þar.

            Þá liggur fyrir vottorð Halldórs G. Sigdórssonar tannlæknis, dagsett 4. júní 2008, þar sem segir að Guðmundur hafi fengið högg á framtennur í efri góm fyrir ca. þremur vikum síðan. Við höggið hefðu tennur 11 og 12 gengið til. Nú sé tönn 11 orðin nokkuð stabil en tönn 12 sé enn vel hreyfanleg. Fyrir höggið hafi verið orðin nokkur beineyðing við þær tennur þannig að þær hafi verið veikar fyrir. Samkvæmt röntgenmynd sé ekki hægt að sjá nein brot á tönnunum sjálfum en aftur á móti sé hægt að sjá beineyðingu sem orðin sé og svo virðist vera sprunga í beininu við og á milli þessara tveggja tanna sem vel gæti hafa komið við höggið. Staðfesti Halldór vottorð þetta fyrir dóminum og kvað það ekki óyggjandi að skuggi sá sem sjáist á röntgenmynd sé brot í beini.

            Júlíus Helgi Schopka munn- og kjálkaskurðlæknir var dómkvaddur þann 16. apríl 2009 til að meta hvort sprunga hefði myndast í beini milli framtanna Guðmundar og ef svo væri hvort hún gæti talist afleiðing af ofangreindri meintri líkamsárás ákærða. Júlíus skilaði sérfræðiáliti þann 18. ágúst sl. sem lagt var fram í málinu 28. október sl. Segir þar í niðurstöðum að umrædd sprunga í beininu milli tanna 11 og 12 sé að hans mati óljós á þeirri mynd sem tekin hafi verið 4. júní 2008 en gæti þó verið til staðar. Hins vegar sé ljóst að við tennur 11 og 12 hafi verið talsverður tannholdssjúkdómur fyrir árásina og hafi hann eytt beininu í kringum rætur þessara tanna. Ennfremur segir að tannholdssjúkdómur sem þessi sé lengi (nokkur ár) að vinna á beini í því umfangi sem sé í þessu tilfelli. Þess vegna sé ljóst að ekki sé um nýtilkomið ástand að ræða sem á einhvern hátt gæti tengst höggi á þessar tennur. Ástand þeirra hafi verið veikt fyrir höggið vegna tannholdssjúkdómsins. Það hafi því ekki þurft mikið högg til að losa þær. Þá segir í lokin að högg, eins og það sem komi fram í ákæruskjölum að Guðmundur hafi fengið, gæti hafa valdið losi á umræddum tönnum og sprungu í beininu milli þeirra.

 

 

 

 

 

V.

 

Niðurstöður í ákærulið I.

Ákærði er sakaður um, í ákærulið I, að hafa strokið með framhandleggjum um innanverð læri brotaþola og strokið hendinni um klof hennar og viðhaft kynferðisleg og ósiðleg ummæli um kynfæri hennar, að þau væru blaut og þau hlytu að vera þröng.

Ákærði hefur staðfastlega neitað þessum ákærulið og lýst því svo að ef hann hefði viðhaft ummæli um að eitthvað væri blautt þá hlyti það að vera í því tilviki þegar hann var að sótthreinsa brotaþola áður en hann gat hafið starf sitt við að flúra hana. Þá gætu ummæli um að eitthvað væri þröngt hafa verið látin falla  en þá um gerð nála sem hann hefði notað við flúrið.

Dómurinn fór á vettvang að vitnaleiðslum loknum og skoðaði þær aðstæður sem brotaþoli var við þegar hún fékk umrætt flúr.

Brotaþoli lýsti því svo í Barnahúsi m.a.: „... og ég sest í stólinn hjá honum og hann byrjar að teikna sko á mig tattúið. Og er alltaf sem sagt með hendina í klofinu á mér en ég sagði samt ekki neitt…“ „...og svo sagði hann við mig sko „mikið ertu blaut og mikið hlýtur þú að vera þröng.“ Spurð nánar út í snertinguna í Barnahúsi sagði brotaþoli: „Sko hann byrjaði á því að vera með framhandlegginn fyrst en svo fannst mér hann alltaf fara þú veist með fingurna skiluru? eða svona með hendina sko sjálfa, þú veist, þetta var voða misjafnt sko.“ Aftur í Barnahúsi lýsir brotaþoli snertingunni svo: „Sko þegar hann var að teikna þetta þá var hann sko í svo mikilli hreyfingu. Ég náttúrulega, hann hafði sett sko stólinn svo langt niður að sé sá voða lítið það sem að hann var að gera en ég fann alveg þegar hann var með hendina skiluru? Og fann alveg þú veist hreyfingarnar og svoleiðis. Þú veist, fyrst þá kemur hann sko með hand.. hérna handbakið þú veist hérna niður fyrst þegar hann var sko að teikna það. Svo fer hann að setja sko hendina svona einhvern veginn svona einhvern veginn. Og er alltaf sko einhvern veginn í þessari stöðu einhvern veginn þannig að ég sá voða lítið.“ Síðar í yfirheyrslunni segir brotaþoli: „svo fór hann einhvern veginn svona hér með hendina einhvern veginn inn í klofið á mér sko. Og hann var alltaf í sko þessari hreyfingu einhvern veginn því hann náttúrulega þurfti að færa sig hérna yfir og svo þurfti hann náttúrulega að koma hér náttúrlega til að setja tattúið á.“ Aðspurð kvaðst brotaþoli hafa legið á bakinu með fæturna beina og saman.

Fyrir dóminum lýsti brotaþoli hvernig ákærði notaði framhandlegginn til að fara í klof hennar. Aðspurð fyrir dóminum neitaði brotaþoli því að ákærði hefði farið með fingurna í klofið á henni en sagði hann hafa farið með handarbakið og framhandlegg á brjóst og klof hennar.

            Vitnin D og F kváðust fyrir dóminum ekki hafa séð að ákærði hafi farið með handlegg né hendi í klofið á brotaþola.

            Dómurinn fór á vettvang og sýndi ákærði sakflytjendum og dómara hvernig hann bæri sig að við að flúra á maga fyrir neðan eða á móts við mjaðmabein.

            Ljóst er að flúrvinna er mikið nákvæmnisverk en það er unnið fríhendis. Útilokað er að stýra eða stjórna „byssunni“ eða nálinni af festu og nákvæmni nema hafa stuðning fyrir þá hönd sem heldur á byssunni. Við þá framkvæmd er ljóst að framhandleggur á þeim sem flúrar hlýtur óhjákvæmilega að leggjast ofan á þann sem verið er að flúra. Í þessu tilviki var verið að flúra mjög neðarlega á maga brotaþola, rétt fyrir ofan lífbein. Á ljósmynd mátti sjá að til að komast að með nálina þurfti að bretta buxur brotaþola svo langt niður að sást í skapahár hennar. Því hlýtur að vera óumflýjanlegt að leggja höndina á lífbein, læri eða eftir atvikum bringu eða brjóst þess sem verið er að flúra, til að hafa sem mestan styrk í hendinni sem heldur á byssunni. Brotaþoli hefur verið nokkuð á reiki í framburði sínum varðandi þetta sakarefni. Í Barnahúsi kvað hún ákærða hafa farið með fingurna í klofið á sér en fyrir dómi neitaði hún því. Aðrar lýsingar hennar á því hvernig ákærði hefur borið sig að, samrýmast því sem hann fullyrti og sýndi fram á. Er slíkur vafi fram kominn um þessa háttsemi ákærða að sýkna ber hann af henni.

            Ákærði er einnig ákærður fyrir að hafa viðhaft kynferðisleg og ósiðleg ummæli um kynfæri brotaþola í umrætt sinn. Brotaþoli fullyrti í skýrslutöku í Barnahúsi og fyrir dóminum að ákærði hefði sagt eitthvað í þá veru að kynfæri hennar væru þröng og hvort hún væri orðin blaut. 

Vitnið D kvað fyrir dóminum og vildi í fyrstu draga úr framburði sínum fyrir lögreglu. Aðspurð kvað hún rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu, að hún hefði heyrt ákærða segja við brotaþola eitthvað í þá veru hvort hún væri að blotna út af titringnum. Vitnið F kvaðst einnig muna að ákærði hefði rætt um blautt og þröngt en ekki í hvaða tilviki og að ákærði hefði spurt eitthvað í þá veru „hvort hún væri að verða blaut í píkunni“. Samrýmist þessi framburður framburði brotaþola. Ákærða mátti vera það ljóst, miðað við allar aðstæður, þ.e. að stúlkan var með buxurnar girtar niður um sig niður fyrir skapahár og sautján ára gömul, að slík ummæli væru túlkuð af kynferðislegum toga. Þykir dóminum framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi viðhaft umrædd ummæli af ásetningi og í kynferðislegum tilgangi og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi.

Er háttsemin í ákæru heimfærð til 199. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992 og 8. gr. laga nr. 61/2007 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Verður ákærði með þessu atferli sínu talinn hafa brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992, en heimfærsla verknaðarins undir 199. gr. almennra hegningarlaga þykir ekki eiga við þá háttsemi sem sakfellt er fyrir í þessu máli. Í athugasemdum með 7. gr. sem varð að 8. gr. laga nr. 61/2007 segir að klúrt orðbragð og einhliða athafnir án þess að um líkamlega snertingu sé að ræða falli annars yfirleitt undir 209. gr. sem brot gegn blygðunarsemi en það eigi við þegar ekki sé um ítrekaða háttsemi að ræða gagnvart sama einstaklingi. Í ljósi atvika verður og að telja að með þeirri háttsemi sem að framan greinir hafi ákærði sýnt stúlkunni ósiðlegt athæfi sem varði við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

            Niðurstöður í ákærulið II.

Ákærði játaði brot samkvæmt ákærulið II-1 og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæðis. Ákærði hefur játað að hafa slegið Guðmund Jónsson í andlit nokkrum sinnum en framburður hans er alls ekki í samræmi við framburð Guðmundar. Guðmundur kveðst hafa fengið eitt högg eftir að þeir voru komnir inn í hús og staðfestir vitnisburður Helgu þá frásögn. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að hafa tekið Guðmund hálstaki en kvað það vel geta verið. Samrýmist framburður Guðmundar þeim áverkum sem lýst er í áverkavottorði og er því talin fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi veist að Guðmundi eins og í þessum ákærulið greinir.

Ákærði neitar því að afleiðingar höggsins geti verið brot í beini milli framtanna og að tennurnar hefðu getað losnað. Samkvæmt vottorðum Halldórs G. Sigþórssonar og Júlíusar Helga Schopka er ekki ljóst að um beinbrot sé að ræða. Gátu hvorugur staðfest fyrir dóminum að svo væri þótt Júlíus teldi líkurnar meiri en minni. Þá segir einnig í áliti Júlíusar að Guðmundur hafi verið með langvarandi tannholdssjúkdóm fyrir árásina og því hefði ekki þurft mikið högg til að losa þær. Með vísan til þessa þykir ekki fram komin lögfull sönnun þess að afleiðingar árásar ákærða á Guðmund í umrætt sinn hafi verið beinbrot sem er skilyrði þess að háttsemi verði færð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi.

Ákærði er sakfelldur fyrir húsbrot með því að hafa veitt Guðmundi Jónssyni eftirför og ruðst í heimildarleysi inn á heimili hans. Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að hafa farið inn í hús á eftir Guðmundi og að honum hefði ekki verið meinuð för þangað inn. Guðmundur kvaðst hafa haldið að ákærði hefði farið og því ekki áttað sig á því að hann var á eftir honum fyrr en hann var kominn inn í hús. Ber aðilum ekki saman um hversu langt ákærði var kominn en ákærði kvað fyrir dóminum að hann hefði farið inn í forstofu. Guðmundur kvað ákærða hafa verið kominn inn í stofu og vitnið Helga að hann hefði verið kominn inn úr forstofunni inn í hol. Að öllu framkomnu er sannað að ákærði fór inn á heimili Guðmundar í heimildarleysi í þeim tilgangi að veita honum eftirför. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæðis.

Niðurstöður í ákærulið III.

Ákærða er gefið að sök í þessum ákærulið að hafa þann 9. september 2008 ráðist á Guðmund Jónsson, rifið í hár hans og slegið með hnefanum í átt að andliti hans en höggið hefði geigað og lent á öxl Guðmundar. Þá er honum gefið að sök að hafa stuttu síðar hótað Guðmundi lífláti.

Ákærði játaði brot þessi fyrir dóminum og er játning hans í samræmi við rannsóknargögn og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

           

Refsiákvörðun.

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að viðhafa kynferðisleg og ósæmileg ummæli um kynfæri X í ákærulið I en sýknaður af þeirri háttsemi að hafa strokið með hendinni um klof hennar. Er brot ákærða heimfært til 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002 um barnavernd. Ákærða hefur ekki verið gerð refsing áður samkvæmt sakavottorði hans. Er refsing ákærða varðandi þennan ákærulið ákveðin fangelsi í þrjátíu daga. Rétt þykir að skilorðsbinda refsinguna og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir eignaspjöll og tvær líkamsárásir á Guðmund Jónsson auk þess að hóta honum lífláti. Ákærði hefur greiðlega gengist við hluta af ákæruliðum fyrir dóminum og fyrir lögreglu. Við ákvörðun refsingar verður að líta til 75. gr. almennra hegningarlaga varðandi brot samkvæmt ákærulið II og III. Ákærði er eiginmaður eins kæranda í svokölluðu Byrgismáli og kvaðst hann hafa fengið vitneskju um aðkomu Guðmundar Jónssonar varðandi eiginkonu sína við lesningu á þeim dómi eftir að hann birtist á vefsíðu dómstólanna en sá dómur var uppkveðinn föstudaginn 9. maí 2008. Þá liggur fyrir vottorð frá Garðari Sigursteinssyni geðlækni þar sem kemur fram að ákærði hefði leitað til hans í maí 2008 í kjölfar áfalls sem hann hefði orðið fyrir við lesningu umrædds dóms og verið lagður inn á geðdeild LSH í nokkra daga. Samrýmist það frásögn ákærða. Þá staðfestu lögreglumennirnir Kristján Örn Kristjánsson og Aðalsteinn Þór Guðmundsson að þeir hefðu farið í útkall í vinnustofu ákærða þar sem hann var talinn ætla að svipta sig lífi. Árás hans á Guðmund varð þann sama dag. Að öllu virtu þykir rétt varðandi ákæruliði II og III að láta refsingu niður falla með vísan til 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Bótakrafan.

Í málinu gerir X, kt. 000000-0000, kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 448.104 krónur auk tilgreindra vaxta. Ekkert liggur fyrir í máli þessu um það hvaða afleiðingar brot ákærða hefur haft á stúlkuna utan að vitnin G umsjónarkennari og H námsráðgjafi upplýstu fyrir dóminum að umrætt atvik hefði greinilega fengið á hana. Faðir stúlkunnar, V, kvaðst fyrir dóminum aðallega hafa orðið var við að stúlkan hefði verið reið. Ekki hefur verið sýnt fram á það fyrir dóminum hvert tjón stúlkunnar hefur verið. Þrátt fyrir það er talið sannað að brot sem þessi geti haft alvarlegar afleiðingar. Verður því talið að stúlkan eigi rétt á miskabótum vegna háttsemi ákærða á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Að málsatvikum virtum þykja bætur hæfilega ákveðnar 100.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir. Ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu málsins. Bera bæturnar vexti í samræmi við það.

Sakarkostnaður.

Í málinu gerir Sigurður Sigurjónsson hrl. kröfu um að ákærða verði gert að greiða brotaþola vegna ákæruliðar I skaðabætur sem sundurliðast þannig: Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga 250.000 krónur, lögmannsþóknun við réttargæslu 150.000 krónur og akstur vegna fyrirtöku í Barnahúsi 9.120 krónur auk virðisaukaskatts 38.984 krónur eða samtals 448.104 krónur. Bótakrafa þessi er dagsett 15. október 2008. Var þessari bótakröfu fylgt eftir við aðalmeðferð málsins. Samkvæmt yfirliti Ríkissaksóknara yfir sakarkostnað kemur fram að réttargæslumaður gerði sýslumanninum á Selfossi reikning þann 23. október 2008 að fjárhæð 44.800 krónur vegna fyrirtöku í Barnahúsi og bifreiðarkostnaðar, kr. 10.602 krónur. Í tímaskýrslu sem réttargæslumaður afhenti dóminum við aðalmeðferð málsins, og leggja átti til grundvallar við ákvörðun þóknunar hans, er gerð krafa um greiðslu fyrir fyrirtöku í Barnahúsi að fjárhæð 44.800 krónur og akstur að fjárhæð 9.120 krónur. Verður ekki annað séð en að réttargæslumaður sé að krefja fyrir vinnu sína við fyrirtöku í Barnahúsi og ferðakostnað þrisvar sinnum. Verður að átelja slíka kröfugerð. 

Að þessum niðurstöðum fengnum ber að dæma ákærða til greiðslu 4/5 hluta alls sakarkostnaðar, sem er samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara 330.172 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 302.784 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts beggja aðila. 

 

Mál þetta sótti Daði Kristjánsson saksóknari.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður dóm þennan upp.

 

Dómsorð:

Ákærði, Ragnar Hauksson, sæti fangelsi í þrjátíu daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að tveimur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 4/5 hluta alls sakarkostnaðar, sem er samtals 1.006.456 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 302.784 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts beggja aðila. 

Ákærði greiði X í miskabætur 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. mars 2008 til 26. apríl 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ástríður Grímsdóttir