• Lykilorð:
  • Sjómenn
  • Slysatrygging
  • Vátryggingamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2017 í máli nr. E-3062/2016:

A

(Guðmundur Ómar Hafsteinsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

 

            Mál þetta höfðaði A með stefnu birtri 5. október 2016 á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 8. febrúar sl. 

            Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr slysatryggingu sjómanna úr hendi stefnda vegna tjóns sem hann varð fyrir í vinnuslysi þann 4. júní 2013 um borð í Von GK 113.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn 25. janúar 2016. 

            Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi. 

 

            Stefnandi var skipverji á línubátnum Von GK.  Í stefnu segir að aðfaranótt 4. júní 2013 hafi hann verið að gera klárt fyrir að leggja línuna.  Hann hafi verið með kassa með beitu sem hann hafi þurft að kasta yfir beitningarvél, í beitningarkassa hinum megin við vélina.  Er hann hafi haldið á einni pakkningunni hafi komið lag á bátinn þannig að hann hafi fengið slink á sig og dottið á beitningarvélina og síðan þilfarið.  Hann hafi fundið fyrir óþægindum í vinstri öxlinni eftir þetta, en hafi haldið að hann myndi jafna sig.  Hafi hann haldið áfram að vinna.  Þegar frá leið hafi hann stífnað upp í öxlinni og átt erfitt með að beita sér.  Hann hafi verið stokkbólginn þegar komið var til hafnar.  Hafi hann fengið leyfi til að sleppa vinnu við löndun til þess að hann gæti leitað til læknis á heilsugæslustöðinni á Neskaupstað, en þaðan hafi verið róið á þessum tíma. 

            Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi lýsti stefnandi atvikinu svo að hann hefði verið að taka beitu og kasta yfir beitningarvélina í kar hinum megin.  Það hafi komið slagsíða á bátinn og hann runnið til og fest með höndina í beitningarvélinni og fengið hnykk í vinstri öxlina.  Hann hafi eiginlega hangið á hendinni.  Hann hafi haldið áfram að vinna, talið að þetta myndi jafna sig.  Hann hafi sagt Bjarna Ragnarssyni skipstjóra frá þessu og farið til læknis á meðan landað var úr bátnum.  Þeir hafi svo farið aftur út um kvöldið.  Hann hafi fengið bólgueyðandi lyf og verkjalyf.  Hann hafi haldið áfram fram á haustið, hafi hætt að taka verkjalyfin og þá hafi hann séð að þetta hafði ekkert batnað.  Hann hafi farið í frí í nóvember og þá ákveðið að fara til læknis.  Hann hafi sagt þá að hann væri ekki viss um að hann kæmi aftur.  Hann kvaðst ekki hafa farið neitt á sjó síðan. 

 

            Misjafnt er í gögnum málsins hvenær stefnandi á að hafa slasast.  Rétt er að rekja nokkur þessara gagna, en í sumum tilvikum hefur texti eins vottorðs verið skrifaður aftur. 

            Í ódags. tjónstilkynningu stefnanda til stefnda segir að slysið hafi orðið í október 2013. 

            Í tölvupóstskeyti lögmanns stefnanda til stefnda frá 2. júní 2014 biður hann um gögn um vinnuslys stefnanda í október 2013. 

            Í tilkynningu um slys til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 11. desember 2013, segir að slysið hafi orðið 3. nóvember 2013 kl. 11.00.  Þessi tilkynning er undirrituð af stefnanda og Herði Kristinssyni ...

            Í beiðni um myndgreiningu sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sendi Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut, dags. 11. nóvember 2013 segir að stefnandi hafi verið slæmur í vinstri öxl í tvo og hálfan mánuð. 

            Í læknabréfi frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til Sveinbjörns Brandssonar bæklunarskurðlæknis, dags. 14. janúar 2014, segir enn að stefnandi hafi slasast í nóvember. 

            Í læknisvottorði sem Fjölnir Freyr Guðmundsson skrifaði að beiðni lögmanns stefnanda, dags. 18. september 2014, er fjallað um slys í október 2013. 

            Loks í vottorði Sveinbjörns Brandssonar bæklunarskurðlæknis, dags. 13. júlí 2014, segir að stefnandi kveðist hafa lent í slysi í september 2013, en bætt við að hann myndi ekki alveg dagsetninguna. 

            Sveinbjörn ritaði annað vottorð þann 7. nóvember 2014.  Þar er vísað til slyss er hafi orðið 4. júní 2013. 

            Þessari yfirferð um dagsetningu slyssins má ljúka með því að segja frá bréfi sem stefnandi sendi stefnda þann 26. september 2014.  Þar segir stefnandi frá atvikum og skýrir að hann hafi ekki munað hvaða dag slysið hafi orðið.  Hann hafi strax eftir slysið leitað á Heilsugæsluna á Neskaupstað og fengið að vita að það hafi verið 4. júní 2013.  Hafi það komið honum á óvart að svo langt hafi verið um liðið. 

            Fyrir dómi sagði stefnandi að hann gæti ekki skýrt af hverju sagt hafi verið að slysið hafi orðið í nóvember.  Hugsanlega hafi útgerðin skrifað þetta af því að hann hætti ekki fyrr en þá. 

 

            Hér að framan er rakin lýsing stefnanda á óhappinu er hann gaf skýrslu fyrir dómi.  Vitni sáu ekki óhappið og er því enginn annar til frásagnar. 

            Vikið er að því í nokkrum skjölum hvernig stefnandi meiddist.  Eru þær lýsingar ekki einhlítar. 

            Í tjónstilkynningu til stefnda segir:  „Var með pakkningar með beitu sem þurfti að kasta yfir beitningarvélina hinum megin við kassann.  Þegar ég kastaði einni pakkningunni þá kom lag á bátinn þannig að ég missti jafnvægið og datt á beitningarvélina og síðan í þilfarið.  Fann fyrir óþægindum í vinstri öxlinni ...“ 

            Í tilkynningu um slysið til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 11. desember 2013, segir:  „Féll um borð þegar verið var að draga línun.  Hentist utan í uppstokkarann og lenti illa með vinstri öxlina utan í uppstokkarann.“ 

            Í vottorði Finnboga Karlssonar, læknis á heilsugæslustöðinni á Neskaupstað, segir:  „Þurfti að lyfta kössunum upp fyrir axlarhæð.  Fékk verk sem hann lýsir sem á vi. axlarsvæði ofanverðu ...“

            Í samskiptaseðli sem skráður er á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, dags. 11. nóvember 2013, segir:  „A er sjómaður, verið slæmur í vinstri öxl í 2,5 mánuði, neitar áverka.“ 

            Þetta skjal var borið undir stefnanda fyrir dómi og kvaðst hann ekki kannast við að hafa sagt að hann hefði ekki orðið fyrir áverka. 

            Í öðrum samskiptaseðli frá sömu stofnun, dags. 29. nóvember 2013, segir:  „slys.  féll um borð við vinnu um borð í bát.  Hann slasaðist fyrir austan.  Hann fór fyrst til læknis fyrir austan og fór svo til læknis.“  Í vottorði til sjúkratrygginga, dags. sama dag, segir að stefnandi hafi runnið utan í beitningarvél og slasast á vinstri öxl. 

            Í vottorði Sveinbjörns Brandssonar, dags. 7. nóvember 2014, sem áður er getið, er áverkum stefnanda lýst:

            „Ákveðið var að gera speglun af öxlinni og framkvæmdi undirritaður þá aðgerð 13.02.2014.  Í spegluninni kom í ljós roði og smáskemmd í ofankambsvöðvasin aftarlega, ekki rifa í gegn en klárlega breyting í festunni, hugsanlega eftir áverka.  Gerð var þrýstingsléttandi aðgerð.  Opið var inn í viðbeinslið og fræst neðan af þeim lið.“

            Síðan er því lýst að við eftirlit 25. febrúar hafi gangur eftir aðgerðina verið eðlilegur og hreyfiferlar axlarliðar verið nánast eðlilegir.  Við skoðun 8. október 2014 hafi hins vegar komið fram að stefnandi hefði ekki getað komist til vinnu vegna verkja í öxlinni.  Hann hafi þá verið með tiltölulega lélega eigin hreyfingu um axlarliðinn, sérstaklega fráfæru frá handlegg.  Skýringar á þessu eru ekki gefnar í vottorðinu, en rannsókn var gerð á öxlinni. 

            Unnið var örorkumat fyrir Lífeyrissjóðinn Gildi þann 16. september 2014.  Er þar talið að örorka stefnanda til fyrri starfa sé 100% frá 3. nóvember 2013. 

 

            Bjarni Guðmundur Ragnarsson, sem var skipstjóri á þeim tíma sem stefnandi telur sig hafa slasast, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann staðfesti að hann hefði vitað af slysinu, en hann hafi ekki séð það gerast.  Stefnanda hafi verið gefið frí frá löndun til að fara til læknis.  Eftir þetta hafi hann tekið verkjalyf, ekki verið alveg í lagi. 

            Bjarni kvaðst telja að hann hafi sagt útgerðarstjóranum frá slysinu.  Hann taldi að slysið hefði orðið í júní 2013. 

            Bjarni sagði að það hefði ekki verið skylda að hafa dagbók í þessum bát og því ekki neitt verið skráð í slíka bók. 

            Hjalti Skarphéðinn Kristinsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann var skipstjóri á Von GK á árinu 2013.  Hann sagði að slys stefnanda hefði orðið í júní, en þá hefði hann ekki verið á bátnum. 

            Hörður Kristinsson, útgerðarstjóri, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði að stefnandi hefði orðið fyrir slysi í júní, en haldið áfram á bátnum.  Hörður kvaðst hafa haldið að stefnandi hefði slasast aftur þegar hann svo hætti, en það hafi verið misskilningur. 

 

            Málsástæður og lagarök stefnanda

            Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um rétt til skaðabóta á 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, kjarasamningi sjómanna, skilmálum slysatryggingar sem hafi verið í gildi hjá stefnda fyrir áhöfn Vonar GK og ákvæðum skaðabótalaga. 

            Stefnandi byggir á því að lag hafi komið á bátinn þegar hann hafi verið að lyfta kössum með beitu.  Hann hafi misst jafnvægið og dottið á beitningarvélina og síðan á þilfarið.  Hafi hann við þetta fengið áverka á vinstri öxl.  Það að lag komi á bátinn teljist vera skyndilegur utanaðkomandi atburður í skilningi skilmála stefnda.  Þá teljist það þegar stefnandi fellur og lendir harkalega einnig vera skyndilegur utanaðkomandi atburður.  Því sé einsýnt að hann hafi meiðst í slysi samkvæmt skilmálum stefnda og eigi því rétt á bótum samkvæmt ákvæðum þeirra. 

            Stefnandi mótmælir því að aðrar lýsingar á slysinu séu réttar.  Hann vísar til álits Sveinbjörns Brandssonar, sem telji áverka á öxlinni geta verið eftir áverka. 

            Varðandi misræmi í frásögnum um dagsetningu slyssins vísar stefnandi til eigin skýrslu fyrir dómi og vottorðs um komu hans til læknis á Neskaupstað 4. júní 2013.  Misskilningur sem uppi hafi verið hafi verið leiðréttur. 

 

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Stefndi bendir á að mikils misræmis gæti í gögnum málsins um hvenær slys hafi orðið og hvernig stefnandi hafi meiðst.  Byggir hann á því að stefndi hafi ekki leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvenær það hafi orðið.  Ekkert sé skráð í dagbók skipsins um neitt slys. 

            Stefndi mótmælir því að hann hafi viðurkennt bótaskyldu vegna slyss í júní 2013. 

            Stefndi vísar til samskiptaseðils læknis, dags. 11. nóvember 2013, þar sem segi að stefnandi neiti áverka.  Byggir stefndi á að leggja verði þessa frásögn til grundvallar, en ekki hafi verið sýnt fram á að læknirinn hafi rangt eftir. 

            Stefndi byggir á því að óhapp stefnandi teljist ekki vera slys í skilningi skilmála slysatryggingarinnar. 

 

            Niðurstaða

            Með aðilaskýrslu stefnanda, skýrslu vitnisins Bjarna Guðmundar Ragnarssonar, vottorðum Sveinbjörns Brandssonar og örorkumati Júlíusar Valssonar er sannað að stefnandi hafi meiðst á vinstri öxl og að meiðslin hindri hann í starfi og teljist með réttu vera örorka. 

            Misjafnar skráningar sjást í gögnum málsins um hvenær stefnandi hlaut þessi meiðsli.  Aðilaskýrsla stefnanda fyrir dómi er skýr og studd af vætti Bjarna Guðmundar Ragnarssonar skipstjóra og vottorði um komu stefnanda til læknis á Neskaupstað og skráningu í sjúkraskrá.  Aðrar dagsetningar sem skráðar eru vitna um óvarkárni við gerð tilkynninga.  Þótt þetta misræmi sé óheppilegt er full sönnun fram komin um að óhappið hafi orðið þann 4. júní 2013 um borð í Von GK-113, þar sem báturinn var á miðum fyrir austan land. 

            Vitni sáu ekki slys stefnanda.  Í stefnu er sagt að stefnandi hafi dottið og rekið öxlina í þannig að meiðsl hlutust af.  Í aðilaskýrslu sinni lýsti stefnandi atvikinu á annan hátt.  Hann kvaðst hafa dottið vegna lags sem kom á bátinn, en flækt höndina í beitningarvélina þannig að hún kippti í handlegginn þegar hann datt.  Aðrar frásagnir af atvikinu, eða ófullkomnar lýsingar, hnekkja ekki frásögn stefnanda í aðilaskýrslunni, sem fær nokkurn stuðning í vottorði Sveinbjörns Brandssonar, sem telur líklegt að stefnandi hafi hlotið áverka.  Í aðilaskýrslu stefnanda, sem leggja verður hér til grundvallar, er lýst atviki þar sem meiðsl hljótast af skyndilegum utanaðkomandi atburði í skilningi gr. 2.3 í skilmálum stefnda.  Verður því að fallast á að stefnandi hafi orðið fyrir slysi eins og hann krefst og eigi rétt á bótum samkvæmt skilmálum tryggingarinnar. 

            Fallast ber á viðurkenningarkröfu stefnanda.  Stefnandi hefur gjafsókn og ákveðst þóknun lögmanns hans 995.000 krónur, er tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.  Stefndi verður dæmdur til að greiða sömu fjárhæð í málskostnað til ríkissjóðs. 

            Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

 

D ó m s o r ð

 

            Viðurkennt er að stefnandi, A, eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., samkvæmt skilmálum um slysatryggingu sjómanna vegna vinnuslyss er hann varð fyrir þann 4. júní 2013 um borð í Von GK 113. 

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 995.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

            Stefndi greiði 995.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.