• Lykilorð:
  • Bókhaldsbrot
  • Skattsvik
  • Virðisaukaskattur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 24. maí 2017 í máli nr. S-31/2017:

Ákæruvaldið

(Kristín Ingileifsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Bjarka Rafni Jónssyni

(Jón Elvar Guðmundsson hdl.)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 26. apríl sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af héraðssaksóknara 19. janúar 2017, á hendur á hendur Bjarka Rafni Jónssyni kt. 000000-0000, Bjarkargötu 10b, Reykjavík, fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum, sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Bis, kt. 000000-0000, nú gjaldþrota og afskráð, með því að hafa:

 

1.     Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir uppgjörstímabilin mars - apríl til og með nóvember - desember rekstrarárið 2008 á lögmæltum tíma, og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna uppgjörstímabilanna mars – apríl, maí – júní, september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2008, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 15.300.286, sem sundurliðast sem hér greinir:

 

Árið 2008                   

mars - apríl                             kr.        6.700.496

maí - júní                                kr.        2.085.944

september - október               kr.        4.028.241

nóvember - desember             kr.        2.485.605

                                                kr.     15.300.286

 

2.     Látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald fyrir einkahlutafélagið Bis á rekstrarárinu 2008 og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn með fullnægjandi hætti.

 

            Framangreind brot ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.

            Framangreind brot ákærða samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður en til vara þess að refsing verði milduð eða felld niður. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

            Með kæru þann 18. september 2013 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins máli einkahlutafélagsins Bis til sérstaks saksóknara til sakamálarannsóknar, í kjölfar rannsóknar á skilum félagsins á innheimtum virðisaukaskatti. Félagið var afskráð 28. desember 2012.

            Í kærunni kemur fram að skattrannsóknarstjóri hafi byrjað athugun á skattskilum skattaðilans Bis ehf. þann 1. nóvember 2011 með því að skiptastjóra félagsins var sent bréf um að rannsókn væri hafin á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum vegna rekstrarársins 2008. Fyrrum fyrirsvarsmanni félagsins, ákærða, hefði verið send lokaskýrsla um rannsókn máls félagsins og tilkynnt um lok rannsóknar og fyrirhugaða ákvarðanatöku um refsimeðferð, en engin svör hefðu borist. Rannsóknin hefði leitt í ljós að ekki hafi verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum, fyrir hönd skattaðila, fyrir uppgjörstímabilin mars til apríl, maí til júní, júlí til ágúst, september til október og nóvember til desember rekstrarárið 2008. Með því hafi skattskyld velta og virðisaukaskattur verið vanframtalin. Bókhaldsgögn hafi ekki verið afhent. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra nemi vanframtalin skattskyld velta samtals 62.450.154 krónum og vanframtalinn útskattur samtals 15.300.286 krónum. Ekki séu fyrirliggjandi gögn vegna mögulegs innskatts.

            Það sé mat skattrannsóknarstjóra að ákærði hafi komið framangreindu til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verði séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi. Grunur leiki á því að ekki hafi verið fært bókhald fyrir skattaðilann, en bókhaldsgögn hafi ekki fengist afhent. Þá sé það mat skattrannsóknarstjóra að útgefnir sölureikningar skattaðila á hendur Verkfræðistofunni Bs ehf., Open Range Consulting Ltd., T.G. 19 ehf. og G2 byggingarverktökum ehf. séu ekki hæfir sem grundvöllur innskatts. Gögn málsins beri með sér að skattaðili hafi gefið út tilhæfulausa reikninga og afhent þá þriðja aðila í eigin nafni gegn greiðslu.

            Í málinu liggur frammi yfirlit lögreglu yfir skilaskyldan virðisaukaskatt Bis ehf. vegna ársins 2008. Yfirlitið byggir á 27 sölureikningum í nafni félagsins, einum launamiða og tveimur sölureikningum frá T.G. 19 ehf. Mismunur launamiðans og sölureikninganna sé lagður til grundvallar. Engum virðisaukaskattsskýrslum var skilað af hálfu Bis ehf árið 2008. Vanframtalin virðisaukaskattsskyld velta nemur 62.450.154 krónum og vanframtalinn útskattur 15.300.286 krónum. Ekki er talinn neinn mögulegur innskattur. Vangoldinn virðisaukaskattur fyrir rekstrarárið 2008 nemi því samtals 15.300.286 krónum.

            Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 12. september 2014 að viðstöddum verjanda sínum. Þar skýrði hann frá því að hann myndi lítið frá þessum tíma vegna fíkniefnaneyslu en dró í efa skráningu fyrirtækjaskrár þar sem hann var skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bis ehf. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa skrifað undir tilkynningar til fyrirtækjaskrár sem honum voru sýndar. Þá kvaðst hann ekki hafa ætlað sér að ganga í stjórnina, svo hann muni eftir. Ákærði neitaði að tjá sig um það hver hefði farið með fjármálastjórn fyrirtækisins og tekið ákvarðanir varðandi skattskil. Þá vildi hann ekki upplýsa um aðkomu sína eða annarra að þessum málefnum. Hann neitaði að upplýsa um hvort bókhald hefði verið fært eða hvar bókhaldsgögn væru geymd. Þá vildi hann ekki tjá sig um það af hverju virðisaukaskattsskýrslum hefði ekki verið skilað. Bornir voru undir ákærða þeir 27 sölureikningar sem yfirlit lögreglu byggist á. Ákærði vildi ekki tjá sig um hvaða viðskipti væru á bak við þá. Þá kvaðst hann ekki muna hvort þeir hefðu verið greiddir. Hann vildi ekki tjá sig um hver hefði skrifað og gefið út reikningana. Hann kvaðst þó hjá lögreglu ekki kannast við undirskrift eins reikningsins á hendur MRJ ehf.

            Ákærði kaus að tjá sig ekki um sakarefnið fyrir dómi, að öðru leyti en því að hann kvaðst ekki muna eftir þessum tíma vegna fíkniefnaneyslu. Þá lýsti hann breyttum aðstæðum sínum í dag.

 

Niðurstaða

            Ákærða er gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Bis eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna frá mars til apríl, til og með nóvember til desember rekstrarárið 2008 á lögmæltum tíma, og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna þessara tímabila, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 15.300.286 krónur. Þá er honum gefið að sök bókhaldsbrot með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald fyrir einkahlutafélagið Bis á rekstrarárinu 2008 og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn með fullnægjandi hætti.

            Ákærði neitar sök. Í greinargerð hans kveður hann ekkert hafa komið fram við rannsókn málsins sem bendi til þess að virðisaukaskatturinn hafi verið innheimtur. Það hafi verið mat skattrannsóknarstjóra að virðisaukaskatturinn hafi ekki verið innheimtur þar sem um tilhæfulausa reikninga sé að ræða. Þá hafi embættið talið útilokað að ákærði gæti hafa staðið að rekstri í samræmi við fyrirliggjandi reikninga. Það sé því ósannað að hann hafi staðið að þeim verknaði sem ákært sé fyrir. Þá liggi ekki fyrir sönnun þess að um bókhaldsbrot hafi verið að ræða, en til þess að hægt sé að sakfella fyrir það þurfi einhver rekstur að hafa verið í Bis ehf. á rekstrarárinu 2008. Það sé mat skattrannsóknarstjóra að svo hafi ekki verið.

            Á árinu 2008 var ákærði skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bis ehf. með prókúru. Ákærði vildi ekki tjá sig fyrir dóminum en hann var yfirheyrður af skattrannsóknarstjóra og sérstökum saksóknara við rannsókn málsins. Í skýrslutöku hjá lögreglu vildi hann í fyrstu ekki tjá sig um framangreint, en sagðist svo ekki telja þetta rétt og ekki vera viss um að um sína undirskrift væri að ræða. Hjá skattrannsóknarstjóra viðurkenndi ákærði að hafa átt félagið og rekið það ásamt öðrum. Þá staðfesti hann að skráning í fyrirtækjaskrá væri rétt og kannaðist við undirskrift sína á tilkynningum til fyrirtækjaskrár. Ekki verður annað séð en að undirritanir á framangreindar tilkynningar stafi frá ákærða og hefur hann ekki gefið skýringu á breyttum framburði sínum. Samkvæmt þessu er sannað að ákærða hafi borið, lögum og stöðu sinni samkvæmt, að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum í samræmi við reglur laga nr. 50/1988, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þá bar hann einnig ábyrgð á því að bókhald félagsins væri fært lögum samkvæmt. Með gögnum málsins er sannað að virðisaukaskattsskýrslum var ekki skilað vegna þeirra tímabila á árinu 2008 sem ákært er fyrir og að skatturinn var ekki greiddur. Þá var lögboðið bókhald félagsins ekki fært.

            Eins og að framan greinir hefur ákærði borið því við að ekkert bendi til þess að virðisaukaskattur hafi verið innheimtur og skattrannsóknarstjóri hafi talið reikningana tilhæfulausa. Í skýrslutöku af ákærða hjá skattrannsóknarstjóra kvaðst hann hafa gefið út þá reikninga sem byggt er á í málinu og hafa handskrifað þá auk þess sem hann hefði undirritað greiðslukvittanir. Hann kvað reikningana alla hafa verið greidda út í hönd og peningarnir hefðu verið notaðir til að greiða laun og fleira. Þá taldi hann að viðskiptafélagi hans hefði skrifað þann reikning sem hann kannaðist ekki við undirskrift á hjá lögreglu. Skylda ákærða til að skila virðisaukaskattsskýrslum og greiða skattinn stofnaðist við útgáfu reikninganna. Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er refsing meðal annars lögð við því að maður afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt, sem hann hefur innheimt eða bar að innheimta. Brot er því samkvæmt þessu fullframið þegar skýrsla eða skattur, sem innheimtur var eða bar að innheimta, er ekki afhent á réttum tíma og er refsinæmi verknaðarins óháð því hvort selt var gegn gjaldfresti eða hvort andvirði seldrar vöru eða þjónustu hafi þegar verið innheimt.

            Samkvæmt framburði ákærða sjálfs hjá skattrannsóknarstjóra var starfsemi í félaginu Bis ehf. og reikningar gefnir út á þess vegum vegna útseldrar vinnu og er það í samræmi við gögn málsins. Hann lýsti því að félagið hefði stundað viðskipti, meðal annars hefðu þeir leigt út vinnuafl og tekið að sér verkefni við smíðar. Ákærða bar því samkvæmt stöðu sinni að sjá til þess að bókhald væri fært í samræmi við lög og venjur, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994.

            Samkvæmt öllu framangreindu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða.

            Ákærði er fæddur í september 1979. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Til þess er að líta að brot ákærða voru stórfelld. Hins vegar verður að líta til þess að þau voru framin á árinu 2008, rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst 1. nóvember 2011 og málinu var vísað til sérstaks saksóknara 18. september 2013. Rannsókn málsins lauk í október 2014. Ákæra var ekki gefin út fyrr en 19. janúar 2017. Tafir á útgáfu ákæru voru skýrðar við aðalmeðferð málsins þannig að málið hafi tengst öðru máli sem hafi verið til meðferðar hjá embættinu vegna hluta reikninganna. Hitt málið hafi verið í bið vegna væntanlegrar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli þar sem fjallað væri um bann við endurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi, en upphaflega hafi verið stefnt að því að málin fylgdust að. Þegar ljóst hafi verið að niðurstöðu væri ekki að vænta á næstunni hafi verið ákveðið að ljúka þessu máli. Verður ákærða ekki kennt um framangreindar tafir og þykir rétt að taka tillit til þeirra við ákvörðun refsingar. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða 30.600.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 360 daga.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Elvars Guðmundssonar hdl., 948.600 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti en ekki leiddi annan kostnað af málinu.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kristín Ingileifsdóttir saksóknarfulltrúi.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

 

                                                            D Ó M S O R Ð:

        Ákærði, Bjarki Rafn Jónsson, sæti fangelsi í sjö mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

        Ákærði greiði 30.600.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 360 daga.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Elvars Guðmundssonar hdl., 948.600 krónur.

 

 

Barbara Björnsdóttir