• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Líkamsárás
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 10. febrúar 2017 í máli nr. S-521/2016:

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Söru Hadoudi

(Stefán Karl Stefánsson hrl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 31. janúar 2017, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 9. ágúst 2016 á hendur :

 

                        „Söru Hadoudi, kt. 000000-0000,

                        [...], Reykjavík,

 

fyrir eftirtalin brot:

 

1.      Líkamsárás, með því að hafa [...] 2015 á skemmtistaðnum [...] í Reykjavík, veist að B og slegið hana í andlitið, með þeim afleiðingum að hún hlaut opið sár á augnloki, augnsvæði og nefi.

M: 007-2015-55582

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

 

2.      Umferðarlagabrot, með því að hafa [...] 2016 ekið bifreiðinni [...] án þess að hafa öðlast ökurétt, undir áhrifum áfengis og óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandamagn 0,90 ‰ og tetrahýdrókannabínól 2,5 ng/ml) norður [...] í Reykjavík, til móts við [...], þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

M: 007-2016-12643

 

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

 

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

 

            Í þinghaldi 26. september 2016 lagði sækjandi fram framhaldsákæru sem gefin var út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 26. september 2016, þar sem bótakröfu var aukið við ofangreinda ákæru “með þeim hætti, að í málinu, vegna ákæruliðar I., krefst Jóhann Karl Hermannsson hdl., fyrir hönd B, kt. 000000-0000, að ákærða verði dæmd til að greiða B skaðabætur að fjárhæð kr. 611.800,- ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá [...] 2015, til þess dags þegar liðinn er mánuður frá því að ákærðu var birt skaðabótakrafan, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði dæmd til þess að greiða brotaþola málskostnað við að halda fram kröfu þessari, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.

 

Sbr. 1. mgr. 153. gr. og 1. og 5. mgr. 173. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.“

 

            Verjandi ákærðu gerir þær kröfur að ákærða verði sýknuð en til vara að henni verið dæmd vægasta refsing er lög leyfa og þá þannig að refsing verði að hluta til skilorðsbundin. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði. Hann krefst þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði stórlega lækkaðar. Verjandi reifar málavexti og lagarök, ítrekar gerðar kröfur og leggur málið í dóm með venjulegum fyrirvara.

 

Ákæruliður 1

            Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning aðfaranótt [...] kl. [...] um að kona hefði verið slegin í andlitið á skemmtistaðnum [...]. Í skýrslunni kemur fram að lögreglan hefði fengið þær skýringar á vettvangi að ákærðu og brotaþola, B, hefði lent saman á dansgólfi staðarins. Hafi því lyktað svo að ákærða sló brotaþola í andlitið svo að blæddi úr.

            Lögregla ræddi við brotaþola á vettvangi sem kvað einhvern hafa ráðist á sig og hún verið alblóðug eftir það. Var hún flutt með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar.

            Rætt var við C dyravörð en hann kvaðst hafa séð þegar ákærða sló brotaþola í andlitið. Aðdragandann hafi hann hins vegar ekki séð.

            Ákærða var enn fremur á vettvangi. Kannaðist hún við að hafa kýlt brotaþola í andlitið en aðdragandinn hafi verið sá að brotaþoli hafi verið að ýta henni og hrinda á dansgólfinu.

            Þann [...] 2015 lagði brotaþoli fram kæru á hendur ákærðu fyrir líkamsárás umrætt sinn. Kvað hún árásina hafa verið fyrirvaralausa og hún hefði aldrei séð viðkomandi.

            Skýrsla var tekin af ákærðu [...] 2016. Kvað hún brotaþola hafa verið „eitthvað pirrandi“ á dansgólfinu. Hún hafi ýtt við ákærðu sem hafi svarað í sömu mynt. Hafi þetta síðan endað í slagsmálum á milli þeirra. Borinn var undir ákærðu framburður brotaþola og svaraði ákærða því til að brotaþoli hafi örugglega verið að „pirra“ hana þannig að hún hafi kýlt hana. Ákærðu var sýnd upptaka úr öryggismyndavél og bar hún kennsl á sjálfa sig. Kvaðst hún sjá sig í átökum við brotaþola, rífa í hárið á henni og slá hana í andlitið. Hún taldi hugsanlegt að áverkar þeir sem lýst er í læknisvottorði væru eftir hana.

            Upptaka úr eftirlitskerfi skemmtistaðarins [...] sýnir dansgólfið frá nokkrum sjónarhornum. Þar er mikil þvaga og engin leið að gera sér grein fyrir aðdraganda þess sem síðar gerðist. Á upptökunni má sjá þegar dökkhærð stúlka í hvítum bol eða jakka veitist að ljóshærðri stúlku í ermalausum bol með því að rífa í hárið á henni og draga hana, að því er virðist, niður á gólf. Þá sést sú dökkhærða slá niður fyrir sig með krafti en ekki sést hvar höggin hafna. Einnig má sjá þegar dyraverðir skilja ákærðu og brotaþola að og farið er með þær í hvora sína áttina. Þegar brotaþoli er leidd út af gólfinu sést að nef hennar er dökkt líkt og það sé blóðugt.

            Á meðal gagna málsins er læknisvottorð D en þar kemur fram að ráðist hafi verið á brotaþola með kylfu en afleiðingarnar hafi verið skurðir í andliti og nefblæðing. Við skoðun í kjölfar atviksins hafi komið í ljós 1 cm skurður hægra megin á nefbroddi og grunnur skurður, um 3 cm langur, undir vinstri augabrún. Undir hægri augabrún hafi verið um 1 cm langur skurður. Þá segir í vottorðinu að skurðirnir hafi verið þrifnir og brúnir límdar saman. Brotaþoli hafi komið aftur [...] 2015 vegna verkjar í hálsi og hafi vaknað grunur um hálstognun.

           

            Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu, brotaþola og annarra vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

            Ákærða kvaðst hafa verið ölvuð umrætt sinn en hún myndi eftir því að hafa lent í átökum á dansgólfinu. Kvaðst hún þó ekkert muna eftir því sem hún sagði við lögreglu á vettvangi. Margar stelpur hafi verið á dansgólfinu en þær hafi verið að ýta hver í aðra og rífast. Muni hún eftir því að hafa slegið frá sér og rifið í hárið á stelpu sem þarna var. Hún hafi ekki séð neina áverka á stelpunni en ákærða hafi verið handtekin fyrir líkamsárás því að á henni hafi verið blóð. Nánar spurð kvaðst ákærða það geta verið að hún hafi slegið eða kýlt brotaþola í andlitið. Staðfesti hún skýrslu sína hjá lögreglu og að hafa borið kennsl á sig í slagsmálum á upptöku úr eftirlitsmyndavél. Hins vegar taldi ákærða áverka á brotaþola ekki vera eftir sig. Blóðið hafi óvart lent á sér. Þá taldi hún að til frekari átaka hefði komið þegar verið var að leiða brotaþola út en hún hafi ekki átt þátt í þeim, enda hafi þá verið að henda henni út. Taldi hún hugsanlegt að brotaþoli hefði hlotið áverka sína þá.

            Brotaþoli B lýsti því fyrir dómi að hún hefði verið á dansgólfinu með fleira fólki. Það hafi verið þröngt á dansgólfinu og dragi hún þá ályktun að einhverjar ýtingar hafi farið í taugarnar á ákærðu. Hún hafi ekki vitað af sér fyrr en hún lá á gólfinu og var þá blóðug. Hún hafi staðið á fætur og hafi þá fengið högg. Dyravörður hafi komið og leitt hana út. Dyraverðir hafi bent henni á gerandann en hún þekkti hana ekki fyrir. Nánar spurð kvaðst brotaþoli ekki geta sagt hvað gerðist nákvæmlega eða hvernig hún hafnaði í gólfinu. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hafa verið dregin á hárinu. Kvaðst hún hafa fengið „sjokk“ við þetta. Hún hafi fengið áverka í andlit, á nefbroddi var skurður sem hafi skilið eftir sig ör, þá hafi hún verið klóruð niður með báðum augabrúnum.

            E kvaðst hafa verið með brotaþola umrætt sinn og þær hafi verið að dansa. Þröngt hafi verið á dansgólfinu og mikið af fólki á. Taldi hún líklegt að brotaþoli hefði rekist utan í ákærðu sem hafi tekið því svona illa. Vitnið kvaðst hafa séð þegar brotaþoli var í gólfinu og „nett“ stúlka með sítt dökkt hár yfir henni að taka í hana. Fólk sem þarna var hafi reynt að draga ákærðu burt. Þetta hafi gerst mjög hratt og þær hafi fljótlega verið komnar út. Vitnið kvaðst hafa verið í hvítum bol sem hafi verið blóðugur á eftir. Þá hafi hún séð áverka á brotaþola, hún hafi verið blóðug á nefi og þar í kring.

            F kvað læti hafa brotist út á dansgólfinu eftir að brotaþoli hafi verið kýld af dökkhærðri stúlku. Hann kvaðst þó ekki hafa séð þegar það gerðist en heyrði það eftir atvikið. Hann hafi tekið þátt í að reyna að draga brotaþola og ákærðu í sundur en þær hafi haldið hvor í aðra. Þá hafi verið blóð úti um allt og dyraverðir hafi fljótlega komið aðvífandi.

            G kvaðst hafa séð átök á dansgólfinu en þó ekki aðdraganda þess sem gerðist. Hann og annar dyravörður hafi verið fljótir að grípa inn í og skilið ákærðu og brotaþola að. Vitnið kvaðst hafa séð ákærðu slá brotaþola höggi. Nánar spurður kvaðst hann hafa séð handarhreyfinguna en ekki hvar höggið lenti. Hann hafi tekið utan um ákærðu og farið með hana út. Vitnið kvaðst muna eftir skurði á andliti brotaþola og hafi hann fengið á sig blóð. Einhver læti hafi verið eftir þetta en þar hafi aðrir átt í hlut.

            D, sérfræðilæknir á slysadeild, gaf símaskýrslu. Kvaðst hann ekki hafa  skoðað brotaþola heldur hafi unglæknir, sem starfaði á hans ábyrgð, svo og hjúkrunarkona gert það. Ekki hafi fengist miklar upplýsingar um atburðarásina sjálfa en gerð er grein fyrir þeim áverkum sem voru í andliti brotaþola eftir viðureignina. Aðspurður kvað læknirinn ólíklegt að eitt hnefahögg ylli þremur skurðum á andliti.

            Þá komu fyrir dóminn þeir lögreglumenn sem komu á vettvang eftir að útkall barst. Staðfestu þeir að brotaþoli hafi verið blóðug í andliti. Ekki er ástæða til að reifa framburð þeirra sérstaklega.

 

Niðurstaða ákæruliðar 1

            Ákærða kannast við að til átaka hafi komið á milli hennar og brotaþola á dansgólfi skemmtistaðarins [...] umrætt sinn. Ágreiningslaust er að upptökin virðast eiga rót sína að rekja til ýtinga á dansgólfinu en þar var þvaga og lítið pláss. Ákærða taldi að hún kynni að hafa slegið brotaþola í andlitið eins og hún greindi frá hjá lögreglu en taldi áverkana þó ekki vera eftir sig.

            Á meðal gagna málsins er upptaka úr eftirlitsmyndavélum frá skemmtistaðnum. Ákærða staðfesti fyrir dóminum að hún hefði borið þar kennsl á sig veitast að brotaþola með ofbeldi, m.a. með því að slá hana í andlit. Á upptökunni sést ákærða veitast að brotaþola eins og áður er lýst og dyraverðir grípa inn í strax í kjölfar þess. Þá sést brotaþoli dökk á nefi, líkt og blóðug þegar hún er leidd út af dansgólfinu af dyraverði. 

            Brotaþoli hefur frá upphafi borið um að hafa orðið fyrir fyrirvaralausri árás af hendi aðila sem hún sá ekki greinilega. Hún muni eftir því að hafa fengið högg í andlitið og verið blóðug á eftir. Framburður hennar fær stoð af vitnisburði E sem kvaðst hafa séð dökkhærða stúlku hafa „tekið í“ brotaþola á dansgólfinu og séð áverka á andliti brotaþola. Einnig fær framburður brotaþola stoð af vitnisburði G sem bar um að hafa séð handarhreyfingu ákærðu eins og hún væri að slá brotaþola sem var blóðug á eftir. Bæði fengu þessi vitni á sig blóð meðan á þessu stóð. Ekkert í málinu styður að átök á milli brotaþola og einhvers annars hafi átt sér stað eftir þetta atvik.

            Eins og hér hefur verið rakið er sannað að ákærða veittist að brotaþola umrætt sinn og sló hana í andlitið. Ekki er ákært fyrir annars konar ofbeldi ákærðu gagnvart brotaþola. Brotaþoli var flutt strax í kjölfarið á slysadeild. Staðfest er með læknisfræðilegum gögnum að brotaþoli hlaut áverka á nokkrum stöðum í andliti. Vitnið D læknir taldi þó ólíklegt að eitt högg í andlit gæti valdið öllum þeim áverkum sem voru á andliti brotaþola, heldur þyrfti meira til. Að þessu virtu er ósannað að áverkarnir hafi allir verið eftir eitt högg frá ákærðu.

            Brot ákærðu er rétt fært til refsiákvæðis. Líkamsmeiðingar sem heimfærðar eru undir 217. gr. almennra hegningarlaga eru refsiverðar án tillits til afleiðinga sem af þeim kunna að hljótast. Þannig þarf ekki að sýna fram á tjón, þó að það hafi í reynd hlotist af háttseminni, eða aðrar afleiðingar til þess að unnt sé að sakfella fyrir brotið. Verður ákærða því sakfelld fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærða er bótaskyld vegna háttsemi sinnar. Brotaþoli krefst miskabóta úr hendi ákærðu og greiðslu útlagðs kostnaðar. Skilyrði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til greiðslu miskabóta teljast uppfyllt og verða þær ákveðnar 300.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Dráttarvextir reiknast frá [...] 2016 sem er mánuði eftir að ákærðu var birt framhaldsákæra á dómþingi. Þá er krafa um útlagðan kostnað að fjárhæð 11.800 krónur nægilega studd gögnum og er á hana fallist. Ákærðu ber jafnframt að greiða brotaþola málskostnað við að halda bótakröfu sinni fram fyrir dómi og er hann hæfilega ákveðinn 260.000 krónur.

 

Ákæruliður 2

            Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, sem var við umferðareftirlit þann [...] 2016, var ákærða stöðvuð í akstri á bifreiðinni [...]. Þegar lögreglumenn ræddu við ákærðu vaknaði grunur um að hún væri undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna og var hún látin blása í áfengismæli sem sýndi jákvæða svörun. Á lögreglustöð viðurkenndi ákærða að hafa ekið svipt ökurétti og að hafa neytt kannabisefna það kvöld. Þvagsýni sem hún gaf reyndist jákvætt fyrir neyslu kannabis. Í skýrslu lögreglu er fyllt inn í viðeigandi reiti um að sjáöldur ákærðu hafi verið samandregin, jafnvægi stöðugt, framburður greinargóður og málfar skýrt. Ástandi er nánar lýst svo: „Annarlegt ástand, sjáanleg ölvun – áberandi.“ Þá segir að hjúkrunarfræðingur hafi í kjölfarið komið á lögreglustöðina og tekið blóðsýni úr ákærðu.

            Fram kemur í matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ að í þvagsýni hafi fundist tetrahýdrókannabínól og í blóðsýni hafi það mælst 2,5 ng/ml. Þá kemur fram í matsgerð rannsóknarstofunnar alkóhólákvörðun með gasgreiningu að í blóðsýni ákærðu hafi vínandamagn mælst 0,90 ‰.

 

            Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu, brotaþola og annarra vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

            Ákærða kvaðst hafa verið stöðvuð af lögreglu í akstri. Hún hafði verið búin að drekka svolítið fyrir akstur. Hún hafi verið mjög stressuð þegar hún var stöðvuð og hafi borðað hassköku sem í bílnum var. Nánar spurð kvaðst hún ekki hafa verið það drukkin og vildi ekki láta taka sig fyrir hasskökuna. Taldi hún ólíklegt að hún yrði tekin niður á stöð og í þvag- og blóðprufu. Á stöðinni hafi hún verið beðin um að skila þvagsýni á salernisbás en þar hafi hún drukkið vodka. Aðspurð kvað hún áfengið hafa verið í veskinu hennar en hún hafi fengið að hafa það meðferðis auk þess sem ekki hafi verið leitað á henni áður. Ákærða kvaðst hafa neytt kannabis einhverjum dögum áður en hún var stöðvuð af lögreglu og hafi viljað sanna fyrir lögreglu að hún hefði dregið úr neyslu. Kvaðst hún þó hafa vitað að kannabis myndi mælast í henni vegna fyrri neyslu.

            H og I deildarstjórar hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði gerðu grein fyrir matsgerðum sínum sem eru á meðal gagna málsins. Lýstu þær því hvernig próf eru framkvæmd á rannsóknarstofunni í tengslum við mælingu á tetrahýdrókannabínóli í þvag- og blóðsýni og alkóhólákvörðun með gasgreiningu í blóðsýni. Einnig útskýrðu þær hvernig niðurstöður væru túlkaðar. Í báðum tilfellum væri áreiðanleiki prófa mjög mikill.

            Þá komu fyrir dóminn þeir lögreglumenn sem stöðvuðu ákærðu á bifreiðinni [...] umrætt sinn. J  lýsti því ferli sem fór af stað eftir að grunur vaknaði um að ákærða væri undir áhrifum. Hann kvað nokkrar sekúndur hafa liðið frá því að hún var stöðvuð þar til hann var kominn yfir að bílnum til hennar. Vitnið kvað ákærðu hafa blásið í áfengismæli sem sýndi jákvæða svörun. Hún hafi viðurkennt neyslu fyrr um kvöldið en vildi samt sýna fram á að hún hefði dregið úr henni með því að gefa þvagsýni. Lögreglumaður af sama kyni hafi ekki verið á stöðinni og hafi ákærða því farið ein inn á salernið og skilaði þvagsýni. Hafi það mælst jákvætt. Aðspurður kvað vitnið öryggisleit ávallt framkvæmda á handteknum einstaklingum. Leitað væri utanklæða, vösum snúið við og hinir handteknu fengju ekki að fara með neitt inn á salernisbás, svo sem úlpur eða töskur. Taldi hann því litlar líkur á því að ákærða hefði neytt áfengis á básnum. 

            K lýsti aðkomu sinni. Hann kvað ákærðu hafa viðurkennt að hafa ekið svipt ökurétti og notað kannabis fyrr um kvöldið. Vitnið kvaðst hafa fundið bæði áfengis- og kannabislykt af ákærðu í bílnum. Hann staðfesti að ákærða hefði gefið þvagsýnið ein á salernisbás. Kvað hann það venju að framkvæma öryggisleit og væri hún oftast tilgreind í skýrslu. Kunni hann ekki skýringu á því hvers vegna svo hefði ekki verið í þetta sinn. Aðspurður kvað ákærði engin merki hafa verið um að ákærða hefði neytt kannabisefna á básnum.

 

Niðurstaða ákæruliðar 2

            Í skýrslu lögreglu kemur fram að bæði niðurstöður áfengismælingar og þvagsýnis með tilliti til kannabisneyslu hafi verið jákvæðar. Ákærða vefengir ekki niðurstöður fyrrgreindra mælinga en telur ósannað að mælingarnar eigi rætur að rekja til áfengis- og fíkniefna sem hún hafi neytt fyrir akstur. Hafi hún enda neytt hvorutveggja eftir að akstri lauk.

            Lögreglumennirnir sem stöðvuðu ákærðu báru um að hún hafi borið einkenni þess að vera undir áhrifum áfengis- og ávana og fíkniefna. Var þess getið í lögregluskýrslu. Í kjölfarið var hún handtekin og flutt beint á lögreglustöðina. Ákærða viðurkenndi hér fyrir dómi að hafa drukkið áfengi áður en hún settist undir stýri. Samræmist það niðurstöðu mælingar S-D2-mælis sem hún gaf strax á vettvangi og sýndi hann 1.00 prómill. Framburður ákærðu um að hún hafi drukkið áfengi til viðbótar á lögreglustöðinni er ótrúverðugur en báðir lögreglumennirnir sem fyrir dóminn komu staðhæfðu að öryggisleit hefði verið framkvæmd á ákærðu. Verður að telja annað harla ósennilegt. Endanleg niðurstaða mælingar alkóhóls í blóði ákærðu var eins og áður segir 0,9 ‰.

            Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir ákærðu að hún hafi neytt kannabisefna fyrr um kvöldið. Þetta staðfestu báðir lögreglumennirnir líka. Ákærða ber því við nú að hún hafi neytt kannabis í bifreiðinni eftir að hún var stöðvuð af lögreglu og að hafi eitthvað mælst í henni hafi það ekki verið vegna nýlegrar neyslu. Að mati dómsins er breyttur framburður ákærðu einkar ótrúverðugur. Verður að telja með öllu ósannað að ákærða hafi haft ráðrúm til þess að innbyrða kannabis í bifreiðinni. Þá er framburður hennar hvað neyslu hennar varðar mótsagnakenndur auk þess sem hún var margsaga fyrir dómi.

            Með hliðsjón af ofangreindu og að virtum niðurstöðum fyrrgreindra matsgerða er sannað að ákærða hafi brotið gegn þeim ákvæðum umferðarlaga sem í ákæru greinir.

 

Refsiákvörðun

            Ákærða, sem er fædd árið [...], hefur fjórum sinnum hlotið refsingu. Á árinu 2013 var hún dæmd til greiðslu sektar fyrir akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi og fyrir ölvunarakstur. Þá gekkst hún undir lögreglustjórasátt sama ár aftur fyrir akstur án ökuréttinda og akstur undir áhrifum fíkniefna. Á árinu 2014 var hún dæmd í þriggja mánaða fangelsi fyrir auðgunarbrot, akstur án ökuréttinda og akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Var fullnustu tveggja mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í tvö ár. Ákærða rauf það skilorð og vær dæmd í fjögurra mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni með dómi [...] 2015. Var óskilorðsbundni hluti dómsins frá 2014 þá tekinn upp og henni gerð refsing í einu lagi. Fullnustu refsingarinnar var þá frestað skilorðsbundið í tvö ár.

            Þau brot sem ákærða hefur nú verið sakfelld fyrir eru framin eftir uppkvaðningu síðastgreinda dómsins og hefur hún því rofið skilorð hans. Verður refsing ákærðu samkvæmt þeim dómi því dæmd upp og henni nú gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

            Eins og áður segir hefur ákærða áður hlotið refsingu fyrir ofbeldisbrot og þá gegn valdstjórninni og er til þess litið. Sá dómur var hins vegar skilorðsbundinn og hefur því ekki ítrekunaráhrif. Hins vegar hefur hún þrívegis áður ekið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og tekur refsing hennar mið af venju hvað varðar ítrekun brota þeirrar tegundar.

            Ákærða er ung að árum og hefur það að einhverju leyti haft áhrif á ákvörðun refsingar til þessa. Hins vegar hefur hún ekki bætt ráð sitt svo séð verði. Vísast í þessu sambandi til 5. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Þá horfir til þyngingar að um tilefnislausa líkamsárás var að ræða og gildir hér einu þó að ákærða hafi verið undir áhrifum, sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga.

            Með hliðsjón af ofangreindu skal ákærðu gert að sæta fangelsi sjö mánuði.

            Ákærða er svipt ökuréttindum ævilangt.

     Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skal ákærða greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 442.500 krónur, og 157.049 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                D ó m s o r ð :

            Ákærða, Sara Hadoudi, sæti fangelsi í sjö mánuði.

            Ákærða greiði B skaðabætur að fjárhæð  300.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá [...] 2015, til 26. október 2016 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags og 11.800 krónur í útlagðan kostnað. Einnig greiði ákærða brotaþola 260.000 krónur í málskostnað.

            Ákærða er svipt ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

     Ákærða greiði málsvarnarlaun Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 442.500 krónur, og 157.049 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)