• Lykilorð:
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 17. mars 2017 í máli

nr. S-54/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Marthen Elvari Veigarssyni Olsen

 

Mál þetta, sem dómtekið var 14. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, útgefinni 13. febrúar sl., á hendur Marthen Elvari Veigarssyni Olsen;

fyrir fjárdrátt, með því að hafa á frá tímabilinu 3. september 2015 til 8. nóvember 2016 meðan hann var persónulegur talsmaður [A], samkvæmt lögum nr. 88/2011 og með umboð til að greiða fyrir vörur og þjónustu af reikningi umbjóðanda síns, dregið sér 681.277 krónur  af reikningi hans í [...], með því að millifæra 633.842 krónur út af reikningnum og inn á sinn reikning nr. [...] og með því að nota debetkort umbjóðanda síns og verslað vörur og þjónustu til eigin nota að fjárhæð 47.435 krónur, en [A] er mjög fatlaður og þroskaskertur og getur lítið sem ekkert tjáð sig.

Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði fer fram á vægustu refsingu sem lög leyfa.

 

I

Ákærði hefur hér fyrir dómi skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og brotum hans er lýst í ákæru.  Með játningu ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins, þ. á m. kæruskýrslu dagsettri 22.11.2016 og yfirheyrsluskýrslu ákærða hjá lögreglu, dagsettri 19. desember sama ár, er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök.  Brot ákærða eru og rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu, en sækjanda og ákærða var gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

 

II

Ákærði, sem er 25 ára, hefur áður sætt refsingu, en með dómi þann 18. júlí 2012 var honum gerð sektarrefsing fyrir þjófnaðarbrot.

Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir fjárdrátt.  Með háttseminni braut hann alvarlega trúnað gagnvart fötluðum einstaklingi og verður, auk lýsts sakarferils, m.a. til þess horft við ákvörðun refsingar, sbr. viðeigandi ákvæði 70. gr., en einnig 77. gr. hegningarlaganna.  Á hinn bóginn ber að virða það ákærða til málsbóta að hann játaði brot sín án undanbragða þegar við lögreglurannsókn málsins og endurgreiddi tilgreinda fjárhæð að fullu ásamt vöxtum og kostnaði fyrir útgáfu ákæru lögreglustjóra.  Að auki hefur ákærði lýst yfir iðran sinni vegna háttseminnar.

Að öllu ofangreindu virtu þykir refsing ákærða eftir atvikum hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi, sem fært þykir að skilorðsbinda eins og í dómsorði greinir.

Engan kostnað leiddi af rekstri málsins samkvæmt yfirlýsingu fulltrúa ákæruvalds, Eyþórs Þorbergssonar fulltrúa, fyrir dómi.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Marthen Elvar Veigarsson Olsen, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.