• Lykilorð:
  • Samningur
  • Önnur mál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2012 í máli nr. E-561/2012:

Datacell ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Valitor hf.

(Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.)

 

            Mál þetta höfðaði DataCell ehf., Síðumúla 28, Reykjavík, með stefnu birtri 6. febrúar 2012 á hendur Valitor hf., Laugavegi 77, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 21. júní sl. 

            Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 1.000.000 króna, að opna greiðslugátt samkvæmt samstarfssamningi stefnanda og stefnda dags. 15. júní 2011.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt yfirliti að fjárhæð 4.529.169 krónur. 

            Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst hann málskostnaðar samkvæmt yfirliti að fjárhæð 1.877.700 krónur. 

 

            Stefnandi segir að starfsemi sín sé tvíþætt.  Annars vegar starfræki hann gagnaver hér á landi og í Sviss og selji aðgang að þeim.  Fyrst og fremst sé greitt fyrir þjónustuna með greiðslukortum.  Hins vegar vinni hann fyrir aðila sem byggi starfsemi sína á frjálsum fjárframlögum.  Taki hann við rafrænum greiðslum til þessara aðila samkvæmt samningi við aðila sem veiti greiðsluþjónustu og starfi innan alþjóðlegu kortafyrirtækjanna.  Einn af viðskiptavinum sínum á þessu sviði sé Sunshine Press Productions ehf., rekstarfélag WikiLeaks uppljóstrunarsíðunnar. 

            Stefnandi segir að hér á landi séu það þrír aðilar sem bjóði greiðsluþjónustu þeim sem samþykki greiðslur með greiðslukortum.  Auk stefnda séu það Korta­þjónustan ehf. og Borgun hf. 

            Þann 15. júní 2011 gengu aðilar máls þessa frá samningi um greiðslugátt fyrir stefnanda.  Hófst notkun hennar nokkru síðar og segir stefnandi að framlög hafi streymt inn.  Hafi spurst út í fjölmiðlum hér á landi og erlendis að unnt væri að leggja fram fé til WikiLeaks með kortum í gegnum greiðslugátt stefnanda. 

            Stefndi lokaði greiðslugátt stefnanda fyrirvaralaust þann 8. júlí 2011.  Tilkynnti hann stefnanda um lokunina með tölvupósti kl. 8.59 þann dag.  Þar segir:  „ ... Valitor hf. hefur ákveðið að segja upp samstarfssamningi milli Valitor og Datacell ehf., dags. 15. júní sl. og samningi um notkun þjónustuvefs Valitor, dags. 30. júní sl., vegna brota á almennum viðskiptaskilmálum söluaðila og þeirrar staðreyndar að alþjóðlegu kortasamsteypurnar heimila ekki þjónustu sem Datacell sinni fyrir hönd Wikileaks og ekki var tilgreind í umsókn.  Uppsögnin tekur gildi samstundis.“ 

            Lögmaður stefnanda mótmælti uppsögninni samdægurs.  Kemur fram hjá honum að starfsmenn stefnda hafi verið upplýstir um í hvaða tilgangi greiðslugáttin hafi verið opnuð. 

            Lögmaðurinn ítrekaði mótmæli sín tvívegis, en stefndi svaraði loks þann 4. ágúst 2011.  Þar er því mótmælt að stefnda hafi verið kynnt fyrirhuguð notkun greiðslugáttarinnar. 

            Lauk bréfaskiptum aðila með bréfi lögmanns stefnanda þennan sama dag, en stefna í þessu máli var gefin út og birt 6. febrúar sl. 

            Bæði í stefnu og greinargerð stefnda er vitnað til þess að danskt fyrirtæki, Teller A/S, hafi sagt upp sambærilegum samningi við stefnanda þann 7. desember 2010.  Hafi það verið gert að kröfu Visa Europe og Master Card International, að því er fram hafi komið í fréttum á þeim tíma. 

            Ólafur Vignir Sigurvinsson, forsvarsmaður stefnanda, gaf skýrslu við aðal­meðferð málsins.  Hann kvaðst telja að þjónusta fyrirtækisins við WikiLeaks væri hýsing, það þyrfti að hafa yfir ákveðinni tækni að ráða til að vinna þetta verk.  Hann kvað þá ekki hafa leynt neinu í samskiptum sínum við stefnda.  Hann hefði fyllt út form á heimasíðu stefnda og takmarkað væri hvað hægt væri að skrifa mikið inn í formið.  Starfsmenn stefnda hefðu tekið síðuna út, farið inn á síðuna og prófað að greiða.  Þeir hafi hlotið að sjá að gert væri ráð fyrir framlögum til WikiLeaks.  Þá sagði hann að vitað hefði verið að Kortaþjónustan hefði verið búin að loka á viðskipti þeirra. 

            Ólafur kvaðst hafa fylgst með samskiptum Valitors og Exodus, sem vann að uppsetningu greiðslugáttarinnar fyrir stefnanda.  Starfsmenn Exodus hefðu spurt beint hvort þeir vissu hvað væri á ferðinni og starfsmenn Valitors hafi sagst vita það.  Ólafur tók fram að WikiLeaks stundaðu ekki ólöglega starfsemi. 

            Viðar Þorkelsson, forstjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst ekki hafa komið að málum þegar gengið var frá samningi við stefnanda.  Hann sagði að WikiLeaks hefði leitað eftir samningi á árinu 2010, en beiðni þeirra hefði verið hafnað.  Hann sagði að umsókn væri metin eftir þeim upplýsingum sem þar kæmu fram.  Hér hafi komið í ljós að stefnandi hafi veitt þjónustu við fjársöfnun fyrir þriðja aðila.  Upplýsingar hafi því ekki verið réttar í umsókn.  Þess vegna hafi samningnum verið sagt upp. 

            Viðar kvaðst hafa talað í síma við starfsmann Visa í Evrópu, sem hefði sagt honum frá þessum færslum á WikiLeaks og bent á að Teller hefði sagt upp viðskiptum við DataCell vegna þess að kortasamtökin töldu viðskiptin ekki í samræmi við starfs­reglur þeirra.  Hann hafi þó ekki gefið honum bein fyrirmæli. 

            Viðar kvaðst ekki vita hvernig skoðun á greiðslugátt stefnanda hefði verið framkvæmd. 

            Reginn Mogensen, framkvæmdastjóri hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst ekki hafa komið neitt nálægt vinnu með umsókn stefnanda.  Hann kvaðst ekki vita til þess að komið hefði fram að til stæði að taka við greiðslum fyrir WikiLeaks.  Hann hefði frétt af því þegar aðili VISA talaði við hann í síma.  Þeir hefðu þá kannað málið og síðan hefði samningnum verið rift.  Honum hefði verið rift vegna þess að hann hafi farið gegn viðskiptaskilmálum þeirra.  Þarna hafi verið tekið við greiðslum fyrir annan aðila.  Þeir þyrftu að þekkja þann aðila sem fengi greiðslu.  Þá hafi ekki verið greint rétt frá í umsókn. 

            Reginn kvaðst ekki vita til þess að nokkur starfsmaður stefnda hefði skoðað síðuna og greiðslugáttina hjá stefnanda. 

            Hlynur Þór Jónsson starfar sem forritari hjá Xodus.  Hann gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði að Ólafur Sigurvinsson hefði beðið þá að setja upp svokallaða donations-síðu.  Þeir hafi hannað síðuna þar sem fram komi upplýsingar um framlög til WikiLeaks og þeir hafi sent tengil inn á síðuna til stefnda.

            Atli Már Jóhannsson starfar sem grafískur hönnuður hjá Xodus. Hann gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvað þá hafa hannað greiðslugátt fyrir stefnanda.  Við framkvæmd verksins hafi hann átt samskipti við tvo starfsmenn stefnda.  Að minnsta kosti annar þeirra hafi vitað að um væri að ræða fjársöfnun fyrir WikiLeaks.  Þeir hafi einnig fengið tengla inn á síðuna, þar sem þetta sjáist. 

            Þá gaf Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar, skýrslu fyrir dómi.  Hann staðfesti að þeir hefðu á sínum tíma opnað greiðslugátt fyrir stefnanda.  Samningnum hefði verið rift að kröfu kortafyrirtækjanna.  Slíkt væri heimilt samkvæmt skilmálum þeirra. 

            Anna Guðrún Jónsdóttir, starfar hjá Greiðsluveitunni, sem vann að úttekt á greiðslugátt stefnanda.  Hún sagði fyrir dómi að þau hefðu tekið gáttina út og prófað að greiða í gegnum hana með prufukorti.  Hún sagði að þau hefðu fengið að vita að þetta væri svokölluð framlagssíða. 

            Í stefnu var skorað á stefnda að leggja fram afrit af bréfum alþjóðlegu korta­fyrirtækjanna þar sem lagt væri fyrir stefnda að loka umræddri greiðslugátt.  Þessu svaraði stefndi með þeim orðum að engin bréf hefðu borist frá þessum aðilum. 

            Þá er í stefnu ráðagerð um að tekin verði skýrsla af þeim starfsmönnum stefnda sem komu að málinu og jafnframt skorað á stefnda að upplýsa dóminn um hverjir það hafi verið.  Þessu svaraði stefndi svo:  „Stefnandi óskar eftir upplýsingum um það hverjir „komu að málinu“ en ekki er fyllilega ljóst til hvers hann vísar í því sambandi.  Bendir stefndi á að í gögnum málsins koma fram nöfn nokkurra starfs­manna stefnda sem komu að samningsgerðinni og/eða riftun samningsins.  Vísar stefndi til þess.“ 

 

            Málsástæður og lagarök stefnanda

            Stefnandi kveðst eiga kröfu til þess að stefndi efni samning aðila eftir efni sínu.  Stefnandi kveðst ekki hafa breytt starfsemi sinni frá því að samningur var undirritaður eða vanrækt að upplýsa um í hvaða tilgangi greiðslugáttin væri opnuð.  Hann hafi ekki brotið samningsskilmála eða misnotað. 

            Stefnandi vísar til gr. 4.2 í viðskiptaskilmálum stefnda, sem banni notkun korta til að greiða fyrir klám, vændi, eiturlyf o.fl., svo og til eða fjármagna hryðjuverk.  Stefnandi segir að starfsemi WikiLeaks falli ekki hér undir. 

            Þá telur stefnandi að stefndi geti ekki byggt á gr. 4.3, en þar segir að söluaðila sé óheimilt að taka við greiðslum vegna viðskipta korthafa við þriðja aðila.  Segir stefnandi að hér sé lagt bann við þeirri misnotkun að leyfa þriðja aðila að gera við­skipti í gegnum greiðslugáttina.  Aðstaðan hér sé önnur.  Söfnun framlaga sé hluti af viðskiptum stefnanda.  Hann hafi veitt Sunshine Press móttökuþjónustu gegn gjaldi fyrir fjárframlög frá styrktaraðilum Wikileaks.  Styrktaraðilarnir séu ekki viðskiptum við Sunshine Press eða Wikileaks. 

            Þá segir stefnandi að ákvæði 21.3 og 21.5 í almennum viðskiptaskilmálum stefnda geti ekki heimilað riftun í þessu tilviki.  Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi í engu breytt eðli starfsemi sinnar.  Þá sé aðstaðan sem samstarfssamningurinn veiti ekki misnotuð. 

            Stefnandi segir enga heimild standa til þess að rifta samningi aðila vegna fyrir­mæla frá alþjóðlegum kortasamsteypum. 

            Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vitað að tilgangur greiðslugáttarinnar hafi verið að taka við framlögum til WikiLeaks.  Gáttin hafi verið tekin út og prófuð, m.a. með því að greiða í gegnum hana.  Til þess þurfi að hafa tengil inn á heimasíðu samningsaðilans.  Kannað sé hvaða vara og þjónusta sé seld.  Því hafi starfsmenn stefnda séð að korthafar gátu styrkt starfsemi WikiLeaks í gegnum gáttina. 

            Stefnandi segir það meginreglu í íslenskum rétti að sá aðili sem bjóði fram þjónustu sína í atvinnuskyni sé skyldugur til að veita þjónustu hverjum sem leiti til hans, nema brýnar og málefnalegar ástæður mæli því í mót.  Þetta gildi ekki síst þegar um sé að ræða leyfisskylda starfsemi og þjónustu sem einungis fáir aðilar bjóði.  Einkum eigi þessi sjónarmið við um greiðslukortafyrirtæki, en hafni þau viðskiptum geti það útilokað aðila frá því að stunda starfsemi sína.  Sjónarmið um skyldu til samningsgerðar eigi við í þessu máli og verði beitt til takmörkunar á heimild til riftunar samnings. 

            Stefnandi segir að stjórnarskrárvarinn réttur sinn til atvinnu sé í húfi, en stefndi komi með aðgerðum sínum í veg fyrir að stefnandi reki starfsemi sína.  Segir hann að aðstaða sín sé slík að hann geti ekki leitað til neinna annarra aðila til að fá umrædda þjónustu. 

            Stefnandi vísar til laga nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu, almennra reglna samninga- og kröfuréttar og samningalaga nr. 7/1936. 

           

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Í greinargerð sinni segir stefndi að hann hafi gengist undir það að hlíta skil­málum og fyrirmælum er honum berist frá VISA og MasterCard kortafyrirtækjunum, svo og að tryggja að viðskiptavinir sínir geri slíkt hið sama. 

            Stefndi byggir á því að sér hafi verið heimilt að rifta samningnum við stefnanda.  Stefnandi hafi brotið gegn viðskiptaskilmálum og þetta brot heimili riftun.  Vísar stefndi til gr. 4.3 í skilmálunum þar sem segi að óheimilt sé að taka við greiðslum vegna viðskipta korthafa við þriðja aðila.  Því hafi verið óheimilt að nýta þjónustu stefnda til að taka við fjármunum fyrir þriðja mann. 

            Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi breytt starfsemi sinni frá því sem til-greint var þegar samningur var gerður, án þess að tilkynna sér um breytinguna.  Þetta sé í andstöðu við gr. 21.5 í skilmálunum, en þar segi að tilkynna skuli hvers konar breytingar á eðli starfsemi.  Fram komi í ákvæðinu að verulegar breytingar heimili riftun samnings.  Stefnandi hafi ekki upplýst að hann hygðist taka við fjárframlögum fyrir þriðja mann á grundvelli samningsins við stefnda.  Í umsókn hafi þessa ekki verið getið.  Með þessu hafi stefnandi brotið gegn viðskiptaskilmálum stefnda. 

            Stefndi segir að Greiðsluveitan ehf. hafi vottað kerfi stefnanda, en í því felist ekki viðurkenning á réttmæti starfseminnar sem stefnandi reki.  Starfsmenn stefnda hafi ekki vitað að átt hafi að nota greiðslugáttina til að taka á móti framlögum fyrir WikiLeaks. 

            Stefndi byggir á því að vegna framangreindra brota á viðskiptaskilmálum sínum hafi sér verið heimil riftun samnings aðila.  Byggir hann hér á gr. 21.3 í skil­málunum. 

            Stefndi segir að ætla verði að stefnanda hafi verið ljóst að hann hafi brotið gegn viðskiptaskilmálunum.  Bendir hann á að skömmu áður hafi verið sagt upp samningi stefnanda við Teller a/s að kröfu alþjóðlegu kortasamsteypanna.  Honum hafi mátt vera ljóst að móttaka framlaga fyrir WikiLeaks væri ekki samrýmanleg viðskiptastefnu þessara aðila.  Hafi því hvílt á stefnanda sérstök skylda til að benda stefnda á fyrirhugaða notkun greiðslugáttarinnar. 

            Stefnandi vísar til almennra reglna um brostnar forsendur.  Stefnanda hafi mátt vera ljóst að stefnda var ekki heimilt að veita þjónustu við að taka við greiðslum fyrir WikiLeaks.  Sé augljóst að stefndi hefði ekki gert samning við stefnanda hefði honum verið ljós tilgangur stefnanda.  Stefndi hafi beitt blekkingum.  Það hafi verið ákvörðunarástæða fyrir samningnum að stefnandi veitti ekki þjónustu til þriðja aðila og uppfyllti viðskiptaskilmálana að öllu leyti.  Þá hafi það verið forsenda stefnda að rétt væri greint frá viðskiptum stefnanda í umsókn.  Einnig megi beita reglum um brostnar forsendur ef aðili hefur frá byrjun verið í villu um einstök atriði.  Enn bendir stefndi á að stefnandi virðist hafa komið á viðskiptasambandinu með sviksamlegum hætti.  Honum hafi verið ljóst að viðskipti hans samrýmdust ekki viðskiptastefnu alþjóðlegu kortasamsteypanna og hafi falið tilgang umsóknar sinnar. 

            Um framangreint vísar stefndi einnig til 33. gr. samningalaga nr. 7/1936.  Stefnandi hafi haldið mikilvægum atriðum leyndum við samningsgerðina með óheiðarlegum hætti. 

            Stefndi mótmælir því að til sé meginregla um skyldu þeirra sem bjóði þjónustu til að eiga viðskipti við hvern sem þess óskar.  Þvert á móti sé samningsfrelsi megin­reglan.  Þá telur stefndi að það sé ekki í sínum verkahring að tryggja atvinnufrelsi stefnanda. 

            Loks segir stefndi að án tillits til þess hvort riftun hafi verið heimil sé ekki grundvöllur til að fallast á kröfu stefnanda um skyldu til að opna greiðslugátt fyrir stefnanda eða að leggja á dagsektir.  Stefnandi vísi hér ekki til neinna lagaheimilda. 

            Stefndi mótmælir tilvísunum til laga nr. 120/2011, en þau hafi tekið gildi eftir að atvik þessa máls áttu sér stað.  Þá ætti ekkert ákvæði laganna hér við.  Vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, einkum reglna um skuldbindingargildi samninga og um forsendur.  Þá vísar hann almennt til samningalaga nr. 7/1936. 

 

            Niðurstaða

            Óumdeilt er að aðilar gerðu með sér bindandi samning.  Ágreiningur er um það hvort stefnda hafi verið heimilt að rifta samningnum. 

            Aðilar byggja á því að þeir hafi gert svokallaðan Samstarfssamning, sem dagsettur var 15. júní 2011.  Í honum er ekki að finna ítarlega skilmála, en vísað er skýrlega til almennra viðskiptaskilmála stefnda.  Í samningnum kemur fram að viðskipti stefnanda eru kölluð 7372  Tölvuforritun.  Í umsókn stefnanda, sem send var stefnda í tölvupósti 14. júní 2011, kemur fram að hann reki gagnaver, hýsingu og tækniþjónustu. 

            Ekki kemur neitt fram í samningnum eða umsókninni sem bendir til þess að stefnandi hafi ætlað að safna fjárframlögum til annars aðila, þ.e. WikiLeaks.  Ekki verður fallist á það með stefnanda að viðtaka fjárframlaga geti kallast tækniþjónusta. 

            Stefndi hefur lagt fram í málinu gögn sem sýna að uppsögn Kortaþjónustunnar á samningi við stefnanda spurðist út og verður að ætla að starfsmönnum stefnda hafi verið ljóst að stefnandi hafði tekið þátt í fjársöfnun fyrir WikiLeaks.  Þá er sannað með framburði vitna í þessu máli, svo og vefsíðu stefnanda, sem stefndi hlaut að hafa kannað áður en gengið var frá samningnum, að það lá ljóst fyrir að tilgangur greiðslu­gáttarinnar var, a.m.k. öðrum þræði, að taka við fjárframlögum fyrir WikiLeaks.  Það athugast í þessu sambandi að stefndi hefur ekki leitt sem vitni þá starfsmenn sína sem áttu samskipti beint við stefnanda, heldur eingöngu yfirmenn sem kváðust ekki hafa komið að samningsgerðinni.  Verður þannig að leggja til grundvallar að samið hafi verið að nokkru á annan veg en segir í hinum skrifuðu textum. 

            Þar sem stefnda var ljóst að stefnandi hugðist safna fé fyrir WikiLeaks í gegnum greiðslugáttina, getur hann ekki borið fyrir sig ákvæði skilmálanna um að óheimilt sé að nýta gáttina til viðskipta fyrir annan aðila, eða að starfsemi stefnandi hafi breyst. 

            Þar sem talið er að stefnda hafi hlotið að vera ljós tilgangur með notkun greiðslugáttarinnar, er hafnað málsástæðu hans um að stefnandi hafi leynt hann atriðum sem hann hafi vitað að skiptu verulegu máli og að óheiðarlegt sé af stefnanda að bera samninginn fyrir sig. 

            Stefndi byggir á því að sér hafi verið óheimilt að taka við framlögum til WikiLeaks og að stefnanda hafi verið þetta ljóst.  Þessa fullyrðingu sína hefur stefndi ekki stutt neinum gögnum, eða vísað til réttarreglna sem banni móttöku fjár til þessa aðila.  Hefur hann heldur ekki sýnt fram á að móttaka framlaga til WikiLeaks sé ósam­rýmanleg viðskiptastefnu kortafyrirtækja.  Verður því ekki fallist á að samningnum hafi mátt rifta vegna brostinna eða rangra forsendna. 

            Stefndi telur að ekki sé heimilt að leggja á hann dagsektir.  Þá heimild er að finna í 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.  Skyldu stefnda verður ekki fullnægt með aðför og verður því að beita dagsektum til að þvinga fram efndir skyldu.  Stefndi mót­mælti ekki þeirri fjárhæð sem stefnandi krefst, en allt að einu verður vegna mótmæla stefnda við dráttarvaxtakröfunni að ákveða fjárhæð hennar.  Eru dagsektir hæfilega ákveðnar 800.000 krónur.  Er frestur til að efna skylduna hæfilega ákveðinn 14 dagar, en dagsektir falla á frá þeim tíma. 

            Við ákvörðun málskostnaðar til stefnanda verður að líta til þess að ágreinings­efni málsins eru ekki margbrotin og gagnaöflun var einföld.  Hins vegar eru mikilsverðir hagsmunir í húfi.  Verður málskostnaður ákveðinn með virðisaukaskatti 1.500.000 krónur. 

            Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

 

D ó m s o r ð

 

            Stefnda, Valitor hf., er skylt, innan 14 daga frá birtingu dóms þessa, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 800.000 krónur fyrir hvern dag eftir þann tíma, að opna greiðslugátt samkvæmt samstarfssamningi stefnanda, DataCell ehf., og stefnda, dags. 15. júní 2011. 

            Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.