• Lykilorð:
  • Afsláttur
  • Galli
  • Hlutabréf
  • Hlutafélög
  • Skoðunarskylda
  • Upplýsingaskylda

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 11. apríl 2017 í máli nr. E-3617/2015:

JTG ehf. og

Bakkagrandi ehf.

(Bernhard Bogason hdl.)

gegn

Sumardal ehf.

(Skarphéðinn Pétursson hrl.)

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 28. október 2015 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 14. febrúar 2017. Stefnendur eru JTG ehf. og Bakkagrandi ehf. Hrefnugötu 5 í Reykjavík og stefndi er Sumardalur ehf., Barónsstíg 59 í Reykjavík.

            Stefnendur krefjast þess að stefnda verði gert að greiða þeim sameiginlega 16.436.171 krónu og dráttarvexti af þeirri fjárhæð, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 30. október 2015 til greiðsludags. Auk þess krefjast stefnendur þess að stefnda verði gert að greiða hvorum um sig málskostnað að skaðlausu.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnenda en til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst hann greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnenda.

 

I.

Þann 11. mars 2015 keyptu stefnendur allt hlutafé stefnda í Straumhvarfi hf., sem nam um fjórðungi alls hlutfjár í félaginu. Kaupverðið var 87.500.000 krónur og skyldi greitt í fjórum hlutum svo sem nánar var kveðið á um í 3. gr. kaupsamnings aðila, dagsettum sama dag. Starfsemi félagsins er á sviði ferðaþjónustu ýmiss konar undir merkinu Arctic Adventures.

            Áður en gengið var til kaupanna höfðu stefnendur kannað rekstur og efnahag Straumhvarfs hf., þ. á m. skoðuðu þeir tiltekna þætti í rekstri dótturfélags þess Jöklamönnum ehf.. Voru sérfræðingar Ernst & Young hf. fengnir til að rannsaka ákveðna þætti í rekstrinum og liggur fyrir vinnuskýrsla frá þeim dagsett 27. febrúar 2015, gerð af Guðjóni Norðfjörð og Ragnari Oddi Rafnssyni. Kveða stefnendur að við rannsókn Ernst & Young hafi m.a. verið stuðst við upplýsingar sem Torfi G. Yngvason, forsvarsmaður stefnda og þáverandi framkvæmdastjóri Straumhvarfs hf., hafi veitt.

            Í 5. gr. kaupsamningsins er vikið að skilyrðum og forsendum kaupanna. Í 3. mgr. 5. gr. segir: „Kaupendur byggja kaupin m.a. á skoðun Ernst & Young á félaginu og á því að Torfi Yngvason, stjórnarmaður seljanda og fráfarandi framkvæmdastjóri félagsins hafi veitt Ernst & Young allar upplýsingar sem gætu haft áhrif á verðmæti félagsins.“ Þá er í 2. mgr. 6. gr. samningsins svohljóðandi ákvæði um ábyrgð á upplýsingum um félagið: „Seljandi ábyrgist að seljandi og/eða Torfi Yngvason búi ekki yfir neinum þeim upplýsingum við gerð samnings þessa sem kaupendur búa ekki yfir og gætu haft neikvæð áhrif á verðmæti félagsins, sbr. til dæmis að viðskiptamenn hyggist segja upp samningum við félagið.“

            Stefnendur telja að komið hafi í ljós, fljótlega eftir að kaupin voru gerð, að ýmis atriði í rekstri og efnahag félagsins hafi ekki verið í samræmi við það sem þeir hafi mátt vænta á grundvelli þeirra upplýsinga sem Torfi hafi veitt þeim. Hafa þeir af þessari ástæðu krafið stefnda um afslátt af kaupverðinu en stefndi hefur hafnað þeirri kröfu.

            Fyrir dómi gáfu aðilaskýrslu þeir Jón Þór Gunnarsson, fyrirsvarsmaður JTG ehf., Styrmir Bragason, fyrirsvarsmaður Bakkagranda, og Torfi G. Yngvason, fyrirsvarsmaður Sumardals ehf. Þá gáfu skýrslu vitnin Laurent Philippe Joseph Jegu, starfsmaður Straumhvarfs hf., og Ragnar Oddur Rafnsson, sérfræðingur hjá Ernst & Young. Loks gaf Benedikt Kjartan Magnússon, sviðstjóri hjá KPMG og dómkvaddur matsmaður, skýrslu fyrir dómi. Framburður þeirra er rakinn í niðurstöðu dómsins eftir því sem tilefni er til.

 

II.

Stefnendur reisa kröfu sína á því að félagið sem þeir keyptu hafi verið haldið galla og gallanum megi jafna til vanefnda af hálfu stefnda. Eigi þeir af þessum sökum rétt til afsláttar á kaupverðinu sem nemi stefnufjárhæð málsins.

            Stefnendur vísa til 3. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 6. gr. í kaupsamningi aðila, þar sem forsendum og skilyrðum kaupanna sé lýst. Þar sé kveðið á um ríka upplýsingaskyldu Torfa Yngvasonar, forsvarsmanns stefnda, og ábyrgðar hans á því að ekkert sé dregið undan sem geti haft áhrif á verðmæti félagsins. Jafnframt vísa stefnendur til 18. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, varðandi upplýsingaskyldu hans. Stefnendur byggja á því að Torfi hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína sem leitt hafi til þess að kaupverð félagsins hafi orðið hærra en annars hefði verið.

            Þær upplýsingar sem stefnendur byggja á að Torfi hafi búið yfir en leynt þeim, eða látið hjá líða að upplýsa um, varða annars vegar fjárhagslega stöðu félagsins Íslensk ævintýri ehf., sem hafi verið einn af stærri viðskiptaaðilum Straumhvarfs hf. auk þess sem félagið átti 30% hlut í því, og hins vegar kostnað við samning félagsins við Bókun hf., um aðgang að bókunarkerfi þess fyrirtækis.

            Hvað fyrra atriðið varðar, hafi fljótlega eftir kaup stefnanda á Straumhvarfi hf. komið í ljós að Íslensk ævintýri ehf. áttu í verulegum rekstrarerfiðleikum og að mikil hætta væri á því að það yrði af verulegum viðskiptum. Torfi Yngvason hafi verið stjórnarmaður í félaginu og stöðu sinnar vegna haft upplýsingar um þessa erfiðleika án þess að upplýsa stefnendur um þá. Erfiðleikana hafi mátt rekja til rekstrarerfiðleika franska félagsins Beyond Traveling Sarl., sem hafi verið stór viðskiptavinur Íslenskra ævintýra ehf. Það fyrirtæki hafi rekið ferðaþjónustu undir vörumerkingu Green Aventure, hafi lent í vanskilum við félagið og síðar hætt viðskiptum og orðið gjaldþrota. Kröfur Íslenskra ævintýra ehf. á hendur Beyond Traveling Sarl. hafi tapast við gjaldþrot þess síðarnefnda sem aftur leiddi til þess að rekstrargrundvöllur þess fyrrnefnda brast. Af þessum sökum hafi Straumhvarf hf. orðið af viðskiptum sem nemi um 7,6% af veltu þess en árið 2014 hafi Íslensk ævintýri ehf., sem milligönguaðili með viðskipti við Green Aventure, keypt vörur og þjónustu af Straumhvarfi hf. fyrir tæplega 70 milljónir króna. Þá hafi Straumhvarf hf. tapað hlutdeild sinni í Íslenskum ævintýrum ehf. þegar það félag komst í greiðsluþrot, en í ársreikningi þess árið 2014 hafi hlutur Straumhvarfs hf. verið metinn liðlega fjórar milljónir króna.

            Varðandi viðskiptin við Bókun hf., byggja stefnendur á því að Torfi hafi sagt þeim að í gildi væri samningur við það fyrirtæki sem kvæði á um að Straumhvarf hf. hefði aðgang að bókunarkerfi Bókunar og greiddi 100.000 krónur á mánuði fyrir þann aðgang. Eftir að gengið hafi verið frá kaupum stefnenda á Straumhvarfi hf. hafi hins vegar komið í ljós að slíkur samningur hafi ekki verið fyrir hendi og að greiða hafi þurft 250.000 krónur á mánuði fyrir aðganginn, sem síðar hækkaði í 300.000 krónur. Rekstrarkostnaður félagsins hafi hækkað sem þessu nam og haft áhrif á arðsemi félagsins og þar með verðmæti þess.

            Byggja stefnendur á því að framangreint feli í sér galla á félaginu sem þeir keyptu af stefnda þar sem þessi atriði rýri verðgildi þess. Hefðu þeir haft réttar upplýsingar undir höndum við samningsgerðina hefðu þeir ekki fallist á það kaupverð sem samið hafi verið um. Þess vegna eigi þeir rétt til afsláttar á kaupverðinu. Rökstyðja stefnendur kröfu sína með því að lýsa því hvaða áhrif framangreind atriði hafi haft á forsendur útreikninga á verðmæti félagsins með eftirfarandi hætti: EBITDA félagsins hafi í reynd ekki verið 98.318.858 krónur, svo sem forsendur kaupverðs byggðu á, heldur 89.808.242 krónur, skuldir umfram veltufé hafi numið 170.414.366 krónum en ekki 147.756.138 krónum svo sem lagt hafi verið til grundvallar útreikningi á verðmæti félagsins. Þetta leiði til þess, sé sömu forsendum beitt við útreikninga á verðmæti hlutarins sem stefnendur keyptu, að verðmæti hans sé 16.436.171 krónu lægra en þeir greiddu í raun. Til stuðnings kröfu um afslátt vísa stefnendur til V. kafla laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, og almennra reglna kröfuréttar um vanefndir og vanefndaheimildir.

 

III.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á meginreglu samningaréttar um að samninga skuldi halda. Reglunni verði ekki vikið til hliðar nema sá sem krefjist þess sanni að skilyrði til þess séu fyrir hendi. Því beri stefnendur sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði þess að veita skuli afslátt af kaupverði séu fyrir hendi. Stefndi byggir á því að sönnun stefnenda um það atriði hafi ekki tekist.

            Þá sé verðmatið, sem í stefnu sé sagt að hafi verið lagt til grundvallar við ákvörðun um kaupverð félasins, þýðingarlaust fyrir úrlausn málsins. Þær forsendur sem stefnendur kveði að verðmatið byggi á séu stefnda óviðkomandi. Hann hafi ekki komið að gerð þeirra, þær hafi ekki legið til grundvallar við samningsgerð aðila og þeirra sé hvergi getið í kaupsamningi um félagið. Stefndi byggir á því að við verðmat á hinu selda félagi beri að miða við fleira en stöðu þess við áhættuskiptin í mars 2015. Stefnendur hafi keypt fjórðungshlut í félagi sem stundi rekstur. Verðmæti slíks félags liggi í veltu og tekjum eftir að kaupin eigi sér stað en ekki fyrir þann tíma. Samkvæmt upplýsingum stefnda hafi rekstur Straumshvarfs hf. gengið mjög vel árið 2015, velta þess hafi aukist mikið og viðskipti dótturfélaga við félagið stóraukist, jafnvel margfaldast. Tekjur Straumhvarfs hf. hafi því stóraukist og hafi skilað, eða muni skila, hluthöfum félagsins mun meiri arði en rekstur þess árið 2014 gaf tilefni til þess að ætla. Í ljósi þessa væri afar sérstætt ef stefndi yrði dæmdur til þess að veita stefnendum afslátt með vísan til galla á hinu selda.

            Á stefnendum hafi hvílt skylda til að skoða hið keypta fyrir kaupin. Það hafi þeir gert. Því geti þeir ekki borið fyrir sig galla sem þeir vissu eða máttu vita um þegar kaupin voru gerð, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Rannsóknar- og aðgæsluskylda þeirra sé enn ríkari í ljósi þess að þeir byggðu kaupverð sitt á sérstakri skoðun sérfræðinga á hinu selda sbr. 2. mgr. sömu greinar. Auk þess séu forsvarsmenn stefnenda, þeir Jón Þór Gunnarsson og Styrmir Þór Bragason, þrautreyndir fagfjárfestar sem búi yfir áratuga langri reynslu af verðmati og greiningu fyrirtækja, kaupum og sölu á félögum og hafi að auki mikla reynslu af banka- og fjármálastarfsemi og fjárfestingum í ferðaþjónustufyrirtækjum. Þeim séu mætavel ljós áhrif þess á fjárhag fyrirtækja þegar afskrifa þurfi bókfærða kröfu eða þegar rekstrarkostnaður hækki. Þrátt fyrir það hafi ekki verið gerður neinn fyrirvari í kaupsamningi aðila um að slík atriði hefðu áhrif á efni samningsins.

            Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að hann hafi veitt stefnendum ófullnægjandi eða rangar upplýsingar við samningsgerðina. Hvað varðar viðskipti Straumhvarfs hf. við Íslensk ævintýri ehf. þá byggir stefndi á því að stefnendur hafi verið að fullu upplýstir um það að stærsti einstaki viðskiptavinur þess félags, Beyond Traveling Sarl. (Green Aventure), hafi ekki staðið að fullu við greiðslur vegna viðskipta á árinu 2014. Stefnendur hafi engan fyrirvara gert vegna þeirra upplýsinga og er atvikalýsing í stefnu röng hvað þetta atriði varðar. Jafnframt hafi stefnendum verið kunnugt um skuldastöðu Íslenskra ævintýra ehf. við Straumhvarf hf. og enn fremur að hana mætti rekja til vanskila Beyond Traveling Sarl. við fyrstnefnda fyrirtækið. Hafi stefnendur talið það forsendu kaupverðsins að kröfur á hendur Íslenskum ævintýrum ehf. fengjust að fullu greiddar, hafi þeim borið að kanna ástæður skuldarinnar og greiðslugetu félagsins. Stefnendum megi vera ljóst að ávallt sé einhver óvissa í viðskiptum, ekki síst þegar þau snúa að kaupum á hlutabréfum í óskráðu félagi. Þá áhættu verði samningsaðilarnir að axla. Meginhluti rekstrartekna Straumhvarfs hf. komi af sölu ferðaþjónustu. Sá markaður sé afar sveiflukenndur og ekki hægt að ganga út frá því að viðskipti einstakra samstarfsaðila verði jafnmikil frá ári til árs. Því sé engin trygging fyrir því að tilteknir samstarfssamningar gefi jafnmiklar tekjur frá einu ári til þess næsta, sérstaklega ekki þegar um fyrirtæki eins og Íslensk ævintýri ehf. sé að ræða sem hafi boðið upp á fáar tegundir ferða. Stefndi hafi hvorki ábyrgst að kröfur á hendur Íslenskum ævintýrum ehf. fengjust greiddar né heldur að það félag fengi kröfur á hendur sínum viðskiptamönnum greiddar. Því sé mótmælt sem ósönnuðu að rekstrargrundvöllur Íslenskra ævintýra ehf. sé brostinn eða að félagið hafi orðið gjaldþrota. Engin gögn þar að lútandi hafi verið lögð fram í málinu.

            Þá byggir stefndi á því að áhættan af hinu selda hafi flust yfir á stefnendur við afhendingu, þ.e. undirritun kaupsamningsins þann 11. mars 2015 og stefnendur hafi borið ábyrgð á hinu selda, þ. á m. kostnaði við bókunarkerfið, frá þeim tíma. Krafa stefnenda um afslátt á grundvelli hærri rekstrarkostnaðar bókunarkerfis sé órökstudd og vanreifuð. Ekki liggi fyrir hver kostnaður af þessum rekstarlið hafi verið fyrir kaupsamning aðila og heldur ekki eftir að hann var gerður. Gögn málsins styðji ekki staðhæfingar stefnenda um þessi atriði. Þá hafi stefndi ekki ábyrgst með nokkrum hætti kostnað vegna þessa rekstarliðar og ekki veitt þeim neinar upplýsingar sem hafi gefið þeim ástæðu til að ætla að hann yrði sá sem haldið er fram í stefnu. Sé staðhæfingum í stefnu um þessi atriði mótmælt sem röngum og ósönnuðum auk þess sem algerlega sé vanreifað á hvaða forsendum stefnda, sem seldi stefnendum 25% hlut í félagi, beri að greiða þeim allan viðbótarkostnað sem stefnendur kveða að félagið hafi haft af rekstri bókunarkerfis.

            Varakröfu sína um verulega lækkun stefnukrafna byggir stefndi á sömu sjónarmiðum og að framan er lýst varðandi sýknukröfuna að því leyti sem við á. Verði fallist á að stefnda beri að veita stefnendum afslátt beri að taka tillit til þess að stefndi seldi stefnendum 25% hlut í félagi. Því geti afsláttur af kaupverði vegna tjóns félagsins vegna tapaðra krafna á dótturfélag þess ekki numið meira en fjórðungi af því tjóni sem félagið hafi orðið fyrir vegna þessa. Á sama hátt geti ætlað tjón stefnenda vegna breytinga á rekstrarkostnaði hins selda félags ekki verið meira en fjórðungur af hækkuninni. Beri því í öllu falli að lækka kröfur stefnenda sem þessu nemi. Jafnframt mótmælir stefndi kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögu.

            Varðandi lagarök vísar stefndi til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 sem og almennra reglna samninga- og kröfuréttar, einkum til sjónarmiða um skuldbindingargildi samninga, efndir og lok kröfuréttinda. Þá vísast til ákvæða laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum III. kafla þeirra. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.

 

IV.

Í máli þessu gera stefnendur kröfu um að stefndi greiði þeim liðlega 16,4 milljónir króna í afslátt af kaupverði 25% hlutafjár í Straumhvarfi hf., sem stefnendur keyptu af stefnda 15. mars 2015 með kaupsamningi sem gerður var sama dag. Fyrir liggur að kaupverðið í heild, 87.500.000 krónur, hefur nú verið innt af hendi í samræmi við ákvæði kaupsamningsins.

            Krafa stefnenda er reist á því að hið selda hafi verið haldið galla þegar viðskiptin áttu sér stað sem leiði til þess að verðmæti þess hafi í raun verið lægra sem nemur fjárhæð kröfu þeirra. Þegar hefur verið gerð grein fyrir því hvernig stefnendur rökstyðja nánar fjárhæð kröfunnar. Byggja þeir á því að forsvarsmaður stefnda, Torfi G. Yngvason, hafi búið yfir upplýsingum um rekstur Straumhvarfs hf. sem honum hafi borið að upplýsa forsvarsmenn stefndu um áður en gengið var til kaupanna. Fyrir liggur að Torfi var framkvæmdastjóri Straumhvarfs hf. þar til hann seldi stefnendum sinn hlut í félaginu auk þess sem hann sat í stjórn Íslenskra ævintýra ehf., sem Straumhvarf átti 30% hlut í á móti 70% hlut Laurent Joseph Jegu, sem jafnframt var annar af tveimur starfsmönnum félagsins.

            Annars vegar byggja stefnendur á því að þegar kaupin fóru fram hafi franska fyrirtækið Beyond Traveling Sarl. verið í miklum vanskilum við Íslensk ævintýri ehf. sem líkur hafi verið á að hefði áhrif á möguleika síðarnefnda félagsins til að standa í skilum við Straumhvarf hf. Þetta hafi forsvarsmanni stefnda verið ljóst og hann látið hjá líða að segja stefnendum frá því. Með því hafi hann brotið gegn upplýsingaskyldu sinni samkvæmt kaupsamningi aðila sem fram komi í grein 5.3 og 6.3 en efni þessara ákvæða eru rakin í atvikalýsingu dómsins. Ekki liggja fyrir í málinu skrifleg gögn varðandi það hvaða upplýsingar Torfi veitti skoðunarmönnum en bæði Torfi og Ragnar Oddur Rafsson, annar skoðunarmanna Ernst & Young, báru fyrir dómi að þeir hefðu a.m.k. átt einn fund snemma á árinu 2015 í tengslum við skoðunina á Straumhvarfi. Stefndi mótmælir því að fjárhagsstaða Beyond Traveling Sarl. hafi verið eins alvarleg og stefendur staðhæfa þegar salan á hans hluti í Straumhvarfi fór fram og mótmælir því auk þess eindregið að hafa búið yfir vitneskju um það.

            Til að leysa úr þessu ágreiningsefni er fyrst til þess að taka að stefnendur bera sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum, m.a. um hver raunveruleg fjárhagsstaða Beyond Traveling Sarl. var og hver vitneskja forsvarsmanns stefnda um hana hafi verið þegar kaup þeirra á hlut stefnda fóru fram 11. mars 2015. Ekki er um það deilt að Beyond Traveling Sarl. er nú gjaldþrota og Íslensk ævintýri ehf. lýsti kröfu að fjárhæð liðlega 233.000 evrur í þrotabúið þann 16. september 2015. Ekkert fékkst greitt af þeirri kröfu. Þá upplýstu forsvarsmenn stefnenda, Jón Þór Gunnarsson og Styrmir Bragason, í skýrslu fyrir dómi að Íslensk ævintýri ehf. hefði hætt starfsemi og Straumhvarf yfirtekið rekstur þess.

            Ekki er um það deilt að skuld Íslenskra ævintýra ehf. við Straumhvarf hf. um áramótin 2014-15 hafi verið um 14 milljónir króna og að stefnendum hafi verið kunnugt um skuldastöðuna þegar kaupin fóru fram. Jafnframt er óumdeilt að helsta ástæða þess að Íslensk ævintýri gátu ekki staðið í skilum var sú að Beyond Traveling Sarl. var í vanskilum við félagið.

            Endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young var fengið til að rannsaka fjárhag Straumhvarfs hf. í aðdraganda kaupanna og fyrir liggja nokkuð ítarleg gögn frá þeim um stöðu félagsins. Í skýrslu fyrir dómi bar Ragnar Oddur Rafnsson, sem stýrði skoðun Ernst & Young á félaginu, að hún hefði í upphafi verið gerð í tengslum við fyrirhuguð kaup Jóns Þórs Gunnarssonar og Landsbréfa á 75% hlut annarra en stefnda í Straumhvarfi ehf. Skoðunin hefði hafist síðla 2014 og niðurstöður hennar birst í skýrslu sem nefnd er vinnuskýrsla, dagsett 27. febrúar 2015. Í skýrslunni eru m.a. upplýsingar um stöðu skammtímakrafna um ármótin 2014-15, sem sagðar eru vera tæplega 55 milljónir króna. Sú athugasemd er gerð í skýrslunni að gera megi sé ráð fyrir að einhverjar þeirra muni tapast og jafnframt tekið fram að samkvæmt hefðbundnum útreikningi skuli niðurfæra kröfurnar um 9,4 milljónir eða 17%. Þá er jafnframt meðal gagna málsins sundurliðun á kröfu Straumhvarfs hf. á hendur Íslenskum ævintýrum ehf. um sömu áramót. Þar er skuldin sögð nema 14.425.140 krónum, þar af hafi ógjaldfallin skuld numið 4.792.557 kr., 5.396.176 kr. verið innan við 30 daga gömul skuld og 4.056.407 kr. verið 30-60 daga gömul skuld. Þá er meðal gagna málsins yfirlit yfir stöðu skulda Íslenskra ævintýra ehf. við Straumhvarf frá upphafi árs 2012 til ársloka 215. Af því yfirliti má sjá að skuld félagsins eykst ár frá ári, er um 150.000 krónur í janúar 2012, 1.320.000 kr. í lok janúar 2013 en rúmlega 12 milljónir í lok þess árs. Eins og áður segir nam skuld félagsins ríflega 14 milljónum króna um áramótin 2013-2014.

            Hvað stöðu Beyond Traveling Sarl. gagnvart Íslenskum ævintýrum ehf. varðar liggur fyrir í málinu að fyrrnefnda félagið var í vanskilum við síðarnefnda félagið á árinu 2014. Af fundargerð stjórnarfundar Íslenskra ævintýra ehf. 26. september 2014, sem er undirrituð af forsvarmanni stefnda og Laurent Jegu, sem báðir áttu sæti í stjórn félagsins, má sjá að skuldastaða franska félagsins hafi verið rædd. Er greint frá því í fundargerðinni að félagið hafi greitt inn á skuld sína að undaförnu þannig að skuldin sé hætt að vaxa og hafi verið lítillega greidd niður. Það sé þó ekki nóg og lagt hafi verið til að félagið greiddi 20.000 evrur vikulega inn á eldri skuld til viðbótar við greiðslu útgefinna reikninga. Beðið sé eftir viðbrögðum við þessari tillögu. Í tölvupósti Laurent Jegu 31. október 2014 til Torfa, upplýsir Laurent um að borist hafi greiðslur að fjárhæð 25.000 evrur frá Beyond Traveling Sarl. sama dag og að nokkrum dögum seinna sé líklegt að 20.000 evrur til viðbótar verði greiddar auk þess sem félagið lofi að greiða 75.000 til 100.000 evrur 14. nóvember og 25.000 evrur á viku frá og með vikunni þar á eftir.

            Í skýrslu fyrir dómi lýsti vitnið Laurent Jegu því að Beyond Traveling Sarl. hefði í upphafi viðskipta félaganna staðið í skilum en hafi farið að safna skuldum þegar leið á viðskiptasamband þeirra. Aðrar upplýsingar um þróun skuldastöðu Beyond Traveling Sarl. við Íslensk ævintýri ehf. liggja ekki fyrir né heldur upplýsingar um það hve lengi viðskiptasamband félaganna stóð. Í óendurskoðuðum ársreikningi Íslenskra ævintýra ehf. fyrir árið 2014 kemur fram að félagið hafi verið rekið með tapi upp á 5,3 milljónir það ár, samanborið við 4 milljóna króna hagnað árið á undan. Þá kemur fram í ársreikningum að útistandandi kröfur á hendur skuldunautum nemi tæplega 13 milljónum króna. Gera verður ráð fyrir því að stærstur hluti þeirra krafna hafi verið á hendur Beyond Traveling Sarl. þó að ekki liggi fyrir í málinu gögn því til staðfestingar. Að öðru leyti liggja ekki fyrir upplýsingar um það hvernig skuldastaða franska félagsins þróaðist fram að þeim tíma þegar stefnendur keyptu Straumhvarf hf. í mars 2015 en fyrir liggur að krafa Íslenskra ævintýra ehf. í þrotabú þess nam þann 16. september 2015 liðlega 230.000 evrum eða um 33,5 milljónum íslenskra króna miðað við gengi þess dags. Í skýrslu fyrir dómi báru forsvarsmenn beggja stefndu og Laurent Jegu að sá síðastnefndi hefði gert þeim grein fyrir greiðsluerfiðleikum franska fyrirtækisins á fyrstu dögum þeirra í starfi hjá Straumhvarfi hf. en þeir kveðast hafa tekið til starfa hjá félaginu um leið og gengið hafði verið frá kaupunum. Í kjölfarið hefðu þeir haft samband við eigendur franska félagsins og eftir viðræður við þá hefði þeim verið ljóst að þessu félagi yrði ekki bjargað frá gjaldþroti. Hafi félaginu þó verið gefinn lokafrestur til að greiða viðskiptaskuld sína en engar greiðslu hefðu borist.

            Framangreind gögn tala sínu máli um þróun skuldastöðu Íslenskra ævintýra ehf. við Straumhvarf hf. Verður af framlögðum gögnum og vitnisburði aðila og vitna fyrir dómi ekki dregin ályktun um að forsvarsmaður stefnda hafi búið yfir öðrum upplýsingum en stefnendum var eða mátti vera kunnugt um. Af áðurnefndri fundargerð stjórnar Íslenskra ævintýra frá 26. september 2014 og tölvuskeyti Laurent til Torfa nokkrum vikum eftir fundinn, er ekki hægt að draga þá ályktun að Torfi hafi vitað annað en það sem endurspeglast í skuldastöðu Íslenskra ævintýra ehf. við Straumhvarf um áramótin 2014-2015 og stefnendur sjálfir höfðu upplýsingar um við kaupin. Er því ósannað að hann hafi leynt stefnendur einhverjum upplýsingum sem hann hafi búið yfir á þeim tíma þegar kaupin fóru fram. Þá verður einnig, með hliðsjón af því að stefnendur nutu ekki einungis aðstoðar sérfræðings við mat á virði félagins, heldur er óumdeilt að þeir sjálfir eru sérfræðingar á sviði fjármála og reksturs fyrirtækja í líkum rekstri, að gera ríkar kröfur til þeirra um skoðun á félaginu fyrir kaupin, sbr. 20. gr. laga nr. 50/2000. Stefnendur hafa ekki mótmælt staðhæfingum stefnda um að þeir sjálfir og skoðunarmenn Ernst & Young, sem voru trúnaðarmenn þeirra, hafi haft aðgang að öllum gögnum sem máli skipta um rekstur Straumhvarfs hf. og dótturfélaga þess áður en þeir gengu til kaupanna. Af skýrslu Ernst & Young má sjá að sérstaklega hafi verið skoðuð staða Jöklamanna ehf., sem Straumhvarf hf. átti 50% hlut í en engar vísbendingar eru um að samsvarandi skoðun hafi farið fram á Íslenskum ævintýrum ehf., sem var í 30% eigu Straumhvarfs. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að stefnendur hafi vanrækt skoðunarskyldu sína, sem var sérstaklega rík í ljósi sérþekkingar þeirra og sérfræðilegrar aðstoðar sem þeir nutu. Sérstaklega var brýnt að þeir skoðuðu stöðu Íslenskra ævintýra ehf., í ljósi þess að rekstur þess var nátengdur rekstri Straumhvarfs hf. og að þeirra eigin sögn í raun rekið eins og söludeild innan Straumhvarfs hf. fyrir viðskipti við franska viðskiptavini.

            Síðari málsástæða stefnenda lýtur að því að samningar Straumhvarfs hf. við Bókun ehf. hafi ekki reynst vera þess efnis sem forsvarsmaður stefnda upplýsti skoðunarmenn Ernst & Young um. Í áðurnefndir skýrslu Ernst & Young frá 27. febrúar 2015 segir að Bókun og Straumhvarf hafi gert með sér samning um að Straumhvarf aðstoði Bókun við þróun ákveðinna þátta í kerfi sínu og fái í staðinn að nota kerfið endurgjaldslaust þar til þessir eiginleikar séu orðnir virkir. Að því loknu eigi Straumhvarf hf. að greiða 100.000 kr. á mánuði fyrir notkun kerfisins. Í tölvuskeyti starfsmanns Ernst & Young til lögmanns stefnenda 19. ágúst 2015 segir að þessar upplýsingar hafi verið fengnar á fundi með forsvarsmanni stefnda en jafnframt er tekið fram að þeir hafi ekki fengið afhentan skriflegan samning þessa efnis við Bókun. Í tölupóstsamskiptum Bókunar við lögmann stefnanda 18. júní 2015 kemur fram að forsvarsmenn Bókunar hf. telja engan samning um þessa fjárhæð vera fyrir hendi. Í einu skeytanna segir Ólafur Gauti Guðmundsson hjá Bókun að hann muni eftir því að Torfi hafi lagt til að Straumhvarf greiddi þessa fjárhæð, þ.e. 100.000 kr. á mánuði, fyrir aðgang að kerfi Bókunar en að þeim hafi fundist upphæðin of lág og hafnað því. Þá liggur fyrir tölvuskeyti frá Bókun frá 2. júlí 2015 þar sem segir að samningur hafi náðst við nýja eigendur Straumhvarfs hf. um eitt verð fyrir móðurfélagið og fimm nánar greind félög sem tengjast því, um að greiða 250.000 kr. á mánuði auk virðisaukaskatts fyrir aðgang að bókunarkerfinu og að gjaldið muni hækka eftir eitt ár í 300.000 krónur. Jafnframt má af skeytinu ráða að af heildargreiðslunni, þ.e. 250.000 krónum, séu 90.000 kr. vegna dótturfélaga Straumhvarfs.

            Fyrir dómi bar forsvarsmaður stefnda, Torfi Yngvason, að hann hefði talið að samkomulag hefði tekist við Bókun um að Straumhvarf hf. greiddi 100.000 kr. á mánuði fyrir aðgang að kerfi Bókunar hf. og 20.000 kr. að auki fyrir hvert dótturfélag eða tengt félag. Hann kveðst aldrei hafa sagt að til væri skriflegur samningur þessa efnis.

            Af framangreindu má ráða að þær upplýsingar um verð fyrir þjónustu Bókunar sem byggt er á í skýrslu Ernst & Young eru byggðar á upplýsingum frá Torfa. Jafnframt liggur fyrir að enginn skriflegur samningur lá fyrir við Bókun.

            Jafnvel þótt fallast megi á það með stefnendum að þær upplýsingar sem Torfi veitti um viðskiptin við Bókun hafi að minnsta kosti verið ónákvæmar, miðað við það sem hann bar í skýrslu fyrir dómi, er ekki á það fallist að þetta atriði veiti þeim rétt til afsláttar af kaupverðinu. Er í því efni fyrst til þess að líta að hafi samningurinn við Bókun verið forsenda fyrir því kaupverði sem stefnendur féllust á að greiða, verður að telja að stefnendum hafi, með hliðsjón af almennri skoðunarskyldu sinni, borið að kanna með einhverjum hætti hvert efni samnings við Bókun væri. Hvorki skoðunarmenn Ernst & Young né forsvarsmenn stefnenda virðast hafa gert reka að því að afla upplýsinga um efni samningsins, s.s. með því að kalla eftir skriflegum samningum eða óska staðfestingar Bókunar á efni hans. Þá er með öllu ósannað að grundvöllur kaupverðs hlutar stefnda í Straumhvarfi hf. hafi verið ákveðið sem margfeldi af EBIDTA félagsins, svo sem stefnendur byggja afsláttarkröfu sína á. Loks verður ekki hjá því komist að horfa til þess að sá samningur sem deilt er um varðar litlum fjárhæðum hvort sem miðað er við kaupverð umdeildra viðskipta, veltu félagsins eða rekstarkostnað þess. Því er ósannað að þetta atriði eitt og sér hafi rýrt verðmæti hins selda sem neinu nemi.

            Með framangreindum rökstuðningi er ekki fallist á að hið selda félag hafi verið haldið galla sem veiti stefnendum rétt til afsláttar af kaupverðinu úr hendi stefnda. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda.

            Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnendum gert að greiða stefnda óskipt málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 850.000 krónur.

            Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

 

D ó m s o r ð :

Stefndi Sumardalur ehf. er sýkn af kröfum stefnenda, JTG ehf. og Bakkagranda ehf. Stefnendur greiði stefnda óskipt 850.000 krónur í málskostnað.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir