• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Líkamsárás
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2017 í máli nr. S-132/2017:

Ákæruvaldið

(Matthea Oddsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Heiðari Orra Þorleifssyni

(Jón Egilsson hrl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 5. apríl sl., var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 24. febrúar 2017 á hendur:

 

„Heiðari Orra Þorleifssyni, Reykjavík

 

Fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögreglu-, umferðar- og fíkniefnalagabrot framin í Kópavogi þriðjudaginn 17. mars 2015 sem hér greinir:

 

  1. Fyrir brot á lögreglulögum og hegningarlagabrot, með því að hafa á bifreiðastæði við Elko við Skógarlind í Kópavogi þar sem ákærði sat undir stýri bifreiðarinnar [...], ekki hlýtt fyrirmælum lögreglumannsins A, um að aka ekki af stað heldur ók bifreiðinni af stað þótt lögreglumaðurinn hafi opnað ökumannshurðina og haldið um stýri bifreiðarinnar, og dróst A af stað með bifreiðinni nokkra metra uns hann féll í götuna með þeim afleiðingum að hann hlaut opið sár á hné, tognun og yfirborðsáverka á hálshrygg, yfirborðsáverka á úlnlið og hendi og mar á hægra læri.

 

Telst þetta varða við 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og aðallega við 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara 2. mgr. 220. gr. sömu laga.

 

  1. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa í framhaldi af atvikum þeim sem lýst er í 1. tl. ákæru, ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði mældist 55 ng/ml, metamfetamín í blóði mældist 140 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 0,8 ng/ml) frá Skógarlind í átt að Smáratorgi inn á hringtorg við gatnamót Dalsvegar, Smáratorgs og Dalssmára, norður Dalssmára uns ákærði stöðvaði bifreiðina við Lækjasmára 2 þar sem akstri lauk og ákærði flúði af vettvangi.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987.

 

  1. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum 0,54 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á kærða.

 

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 484/2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 102. gr. umferðalaga nr. 50/1987. Þá krafist upptöku á samtals 0,54 g af amfetamíni, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1975 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 484/2002.“

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín samkvæmt öllum liðum ákæru. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru samkvæmt aðalkröfu. Hvað varðar heimfærslu til 2. mgr. 218. gr. samkvæmt 1. ákærulið er til þess litið að um hættulega aðferð var að ræða

           

Við ákvörðun refsingar er litið til greiðrar játningar ákærða hér fyrir dómi.  Þrátt fyrir að ákærði eigi sakarferil að baki hefur hann ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Vísast í  þessu sambandi til 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá skal þess getið að ákærði kvaðst hér fyrir dómi iðrast gjörða sinna og hafa tekið sig á með því að segja skilið við fyrra líferni.

Til þyngingar horfir að brot ákærða samkvæmt 1. tl. var mjög alvarlegt. Mátti ákærða vera ljóst að háskaleg háttsemi hans gæti haft í för með sér verulegt líkamstjón brotaþola. Var mildi að ekki fór verr og er þar ekki síst að þakka hlífðarklæðnaði brotaþola sem auk þess bar hjálm á höfði. Vísast í þessu sambandi til 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá leysir ástand ákærða umrætt sinn hann ekki undan refsiábyrgð, sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga, heldur er sú staðreynd að hann var undir áhrifum fíkniefna umrætt sinn til þess fallin að auka á alvarleika verknaðarins.

Nokkuð er liðið frá því að atvik áttu sér stað en frá þeim tíma hefur ákærði hlotið þrjá dóma, 13. apríl 2015, 19. janúar 2016, 25. nóvember 2016 og nú síðast 14. desember 2016, fyrir auðgunarbrot, umferðarlagabrot, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og brot gegn áfengislögum. Dómar frá frá 19. janúar  og 14. desember 2016 voru hegningaraukar við fyrri dóma og var ákærða í þeim tilfellum ekki gerð sérstök refsing. Ítrekunaráhrif á refsingu ákærða nú eru að hluta vegna auðgunarbrota sem ákærði er sakfelldur fyrir með fyrrgreindum dómi frá 25. nóvember 2016 svo og vegna umferðarlagabrota.

Refsing ákærða nú verður ákveðin sem hegningarauki við fyrrgreinda dóma, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem tekið er mið af 77. gr. laganna.

Nokkur dráttur hefur orðið á máli þessu sem ekki hefur verið skýrður. Atvik áttu sér stað í mars 2015 en rannsókninni, sem beindist að fleiri tilvikum en hér er ákært fyrir, lauk í apríl 2015. Sá hluti málsins var klofinn frá og dæmdur sérstaklega með dómi 25. nóvember 2016. Ákæra var hins vegar ekki gefin út vegna þessa hluta málsins fyrr en 24. febrúar 2017. Við ákvörðun refsingar verður höfð hliðsjón af drætti þessum.

            Samkvæmt öllu framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Í ljósi þess að refsing ákærða er ákveðin hegningarauki og þess að hann var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2016 sviptur ökuréttindum ævilangt frá uppkvaðningu dómsins, féll ákæruvaldið frá kröfu sinni um sviptingu ökuréttinda.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 484/2002 eru gerð upptæk til ríkissjóðs 0,54 g af amfetamíni, sem gerð voru upptæk í tengslum við ákærulið 3.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Jóns Egilssonar hrl. 148.800 krónur, þar með talið fyrir störf hans á rannsóknarstigi og 212.767 krónur í annan sakarkostnað.

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Heiðar Orri Þorleifsson, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955

            Ákærði sæti upptöku á 0,54 g af amfetamíni.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Jóns Egilssonar hrl. 148.800 krónur og 212.767  krónur í annan sakarkostnað.

 

                                    Sigríður Hjaltested (sign.)