• Lykilorð:
  • Frelsissvipting
  • Hótanir
  • Kynferðisbrot
  • Líkamsárás
  • Umferðarlagabrot
  • Ærumeiðingar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 15. febrúar 2017 í máli nr. S-242/2016:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

A

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 18. janúar 2017, er höfðað með ákæru, útgefinni af héraðssaksóknara 29. mars 2016, á hendur A, kennitala 000000-0000, [...], með dvalarstað að fangelsinu Litla-Hrauni, „fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, hótanir, kynferðisbrot og stórfelldar ærumeiðingar gegn sambýliskonu sinni, með því að hafa föstudaginn 5. febrúar 2016, svipt þáverandi sambýliskonu sína, X, frelsi frá um klukkan 11 til 15, á heimili þeirra að [...]. Á meðan á frelsissviptingunni stóð veittist ákærði að X og sló hana ítrekað hnefahöggum í síðuna og höfuðið, reif í hár hennar, tók hana hálstaki og sparkaði ítrekað í síðu hennar og fætur þar sem hún lá á gólfinu. Ákærði skipaði X jafnframt að setjast í stól og sparkaði stólnum svo undan henni svo hún féll í gólfið. Á meðan á þessu stóð hótaði ákærði X ítrekað lífláti og meinaði henni útgöngu úr íbúðinni og er hún reyndi að flýja í eitt skiptið stöðvaði ákærði hana í forstofu, reif í hár hennar og sló hana hnefahöggum. Ákærði lét svo X girða niður um sig og skoðaði kynfæri hennar og rass með vasaljósi auk þess sem hann tók mynd af berum kynfærum hennar og áreitti hana þannig kynferðislega. Í kjölfar ofbeldis þess sem að framan er lýst og á meðan á frelsissviptingunni stóð, þvingaði ákærði X til munnmaka og endaþarmsmaka og beitti hana þannig ofbeldi og ólögmætri nauðung. Af öllu þessu hlaut X mar á höfði, bæði á enni og í hársvörð, eymsli víða um líkamann og jaxl brotnaði í efri gómi vinstra megin auk þess sem ákærði móðgaði og smánaði X með háttseminni.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr., 199. gr., 1. mgr. 218. gr., 226. gr., 233. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Af hálfu X, kennitala 000000-0000, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 4.300.000 krónur auk vaxta af 4.000.000 króna samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða, en með dráttarvöxtum af 4.300.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Brotaþoli krefst þess einnig að ákærði verði dæmdur til að greiða þóknun réttargæslumanns.

 

            Þann 3. maí 2016 gaf lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út nýja ákæru á hendur ákærða þar sem ákært er:

                                                            I.

„Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 8. október 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 220 ng/ml) gegn rauðu umferðarljósi á gatnamótum Reykjavegar og Suðurlandsbrautar en lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar við Hallarmúla í Reykjavík.

            Telst brot þetta varða við 1. mgr. 5. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

II.

            Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 26. júlí 2015 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandamagn 1,45 ‰ og amfetamín 30 ng/ml) um Akrafjallsveg á Akranesi, norðan við Garðalund, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.

            Telst brot þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. gr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

III.

            Fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 29. október 2015, ráðist með ofbeldi X, sambýliskonu sína, á heimili þeirra að [...], ýtt henni í sófa í stofunni og þar rifið í hár hennar og slegið hana hnefahöggi í andlitið, í þvottahúsi íbúðarinnar haldið X í gólfinu, slegið hana með krepptum hnefa í höfuðið, sparkað hnéparki í höfuð hennar og tekið hana hálstaki, allt með þeim afleiðingum að X hlaut skurð hægra megin á höfði, eymsl og roða vinstra megin á höfði, stórt mar vinstra megin á enni, fjölda klórfara á enni, bólgu á nefi, bólgu yfir vinstra kinnbeini, skurði á munn, rauð för og eymsl á hálsi, mar og roða beggja vegna á höndum, eymsl yfir vinstri úlnlið og skeinu og eymsl á vinstri fæti.

            Telst brot þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

            Málin voru sameinuð.

 

            Verjandi ákærða krefst sýknu af ákæru dagsettri 29. mars 2016, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa, að frátalinni líkamsárás, en vegna hennar er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Vegna ákæruliða I og II í ákæru frá 3. maí 2016 er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa, en vegna ákæruliðar III er krafist sýknu og til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna. Ákærði viðurkennir bótaskyldu í málinu.

 

            Mál þetta var þingfest 8. apríl 2016. Aðalmeðferð fór fram 12. maí sama ár og var dómur kveðinn upp 21. júní. Með dómi Hæstaréttar Íslands 8. desember 2016 í málinu nr. 559/2016 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Málsatvik

Ákæra dagsett 29. mars 2016

            Samkvæmt frumskýrslu lögreglu kom X á lögreglustöð kl. 15.30 þann 5. febrúar 2016 vegna líkamsárásar af hálfu ákærða, sambýlismanns síns. Rannsóknarlögreglumaður var kallaður út ásamt barnaverndarstarfsmanni. Lögregla fór að heimili X og ákærða en hann reyndist ekki vera þar.

            Í skýrslu X kemur fram að hún hafi verið í sambúð með ákærða um nokkurra mánaða skeið. Hann hafi beitt hana miklu líkamlegu og andlegu ofbeldi bróðurpartinn af þeim tíma. Hann hafi þó aldrei gengið jafn hart fram og þennan dag. Ákærði hefði verið að skemmta sér og komið heim nóttina áður. Hann hefði viljað að þau ræddu saman. Þau hafi vakað til klukkan 6 en hún hafi þurft að vakna klukkan 7 til að fara með son sinn til læknis. Þegar hún hafi komið til baka hafi ákærði verið vakandi og farinn að drekka landa. Hann hafi þá enn viljað ræða málin, en hann hefði sakað hana um að vera í slagtogi með mönnum úr undirheimunum sem leituð hans og að nektarmynd hefði birst af henni á netinu. Hann hefði ekki viljað trúa henni þótt hún hefði bent á fjölmörg atriði sem sýndu að myndin væri ekki af henni. Hann hefði sagt að hann ætlaði að gefa henni einn séns, en annars gengi hann frá henni. Hann elskaði hana það mikið að hann væri alveg til í að sitja í fangelsi í 16 ár fyrir að drepa hana. Hann hefði lýst því hvernig hann ætlaði að drepa hana með því að hræða úr henni líftóruna og borða hana síðan með hníf og gaffli.

            Hann hefði svo farið að kýla hana með hnefanum í höfuðið og síðuna. Við eitt höggið hefði jaxl í henni brotnað. Hann hefði einnig sparkað í síðu hennar og fætur þar sem hún hafi legið á gólfinu. Þetta hefði verið um hádegisleytið þennan dag. Ákærði hefði fyrirskipað henni að hlýða sér og meðal annars sagt henni að setjast á stól, en í hvert skipti sem hún hefði sest hefði hann sparkað í stólinn þannig að hún hefði fallið í gólfið. Hún hefði einu sinni reynt að flýja út úr íbúðinni. Hann hefði þá náð henni frammi á gangi og dregið hana á hárinu inn aftur. Hann hefði sagt henni að ef hún reyndi að flýja myndi hún hafa enn verra af. Hann hefði svo haldið áfram að kýla hana í andlit og höfuð og rifið í hárið á henni. Í eitt skipti hefði hún náð að komast út úr íbúðinni en hann hefði náð henni á pallinum fyrir framan og gert sig líklegan til að kasta henni fram af pallinum. Hann hefði dregið hana á hárinu aftur inn í íbúðina, hent henni á bekk í forstofunni og kýlt hana. Hann hefði svo sagt henni að setjast í sófann og segja sannleikann, annars myndi hann brjóta myndaramma á höfðinu á henni. Þá hefði hann einnig hótað því að setja stóra eldhúspönnu í gegnum höfuð hennar ef hún hlýddi ekki.

            Ákærði hefði farið með hana inn í svefnherbergi þar sem hann hefði viljað fá sönnun þess að nektarmyndin sem hann hefði séð væri ekki af henni. Hann hefði skipað henni að gyrða niður um sig og hefði viljað skoða inn í rassinn á henni. Hann hefði tekið myndir af rassi og kynfærum og viljað meina að þetta væri eins. Hún hefði sagt við hann að það væri ekki rétt þar sem hún hefði rifnað við fæðingu sonar síns. Hann hefði skoðað það og hún þá farið að gráta. Hann hefði þá sagt „ok við skulum þá stoppa“. Hann hefði skoðað upp í hana með vasaljósi og henni hefði þótt þetta mjög óþægilegt. Síðan hefði hann óskað eftir því að hún hefði við hann munnmök en hún hefði bent honum á að hann hefði brotið í henni jaxl og hún væri mjög aum í munni og kjálka. Þá væri hún aum í hálsi eftir hálstak. Honum hefði verið alveg sama. Þetta hefði endað með því að hún hefði orðið að framkvæma munnmök og því hefði lokið með kynmökum. Hún hefði grátið á meðan hún hefði haft við hann munnmök. Hún hefði ekki viljað þetta, en af tvennu illu við þessar aðstæður hefði hún frekar viljað hefðbundið kynlíf. Hún hefði því beðið hann um að „klára þetta hinsegin“ sem hann hafi orðið við.

            Eftir þetta hefði ákærði skipað henni að fara í sturtu þar sem hann gæti ekki farið með henni út svona útlítandi. Þá hefði hann sagt henni að útbúa umboð til þess að sækja bifreið í eigu föður hans á lögreglustöð í Hafnarfirði. Hann hefði farið út til að skipta um dekk á bifreið hennar en orðið brjálaður þegar hann kom inn aftur þar sem umboðið hefði ekki verið tilbúið. Hún hefði verið búin að hringja í vinkonu sína sem hefði ætlað að koma með startkapla, en vinkonan hefði verið sein og ákærði verið æstur vegna þess. Ákærði hefði stungið upp á því að hún og vinkona hennar færu með umboðið að sækja bifreiðina. Hún hefði séð þarna flóttaleið. Vinkonan hefði komið um klukkan 15. Hún hefði ekki tekið vel í að skutla henni fyrr en hún hefði gert henni grein fyrir alvarleika málsins. Þær hefðu svo farið á næstu lögreglustöð til þess að leggja fram kæru.

            X kvað son sinn hafa verið heima meðan á þessu stóð. Hann hefði orðið vitni að þessu og grátið allan tímann. Ákærði hefði ekki haft í neinum hótunum varðandi drenginn.

            X fór í beinu framhaldi af skýrslugjöf hjá lögreglu á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota. Í skýrslu neyðarmóttöku er haft eftir henni að kærasti hennar hefði lamið hana illa, mest í höfuð og kjálka svo að brotnað hefði upp úr jaxli. Eftir barsmíðarnar hefði hann viljað að hún veitti honum munnmök en hún hefði neitað þar sem henni væri illt í munninum eftir höggin. Hann hefði ekki látið segjast og ýtt höfði hennar niður. Hún hefði á endanum gert það sem hann hefði beðið um en kvartað stöðugt undan sársauka. Hún hefði beðið hann um að ljúka þessu frekar með venjulegum kynmökum. Hann hefði þá viljað gera það um endaþarm og hún leyft honum það.

            Í vottorði Svanhvítar Sæmundsdóttur tannlæknis frá 2. mars 2016 kemur fram að X hafi leitað til hennar 18. febrúar 2016 vegna líkamsárásar 5. sama mánaðar þar sem brotnað hefði upp úr jaxli vinstra megin í efri gómi. Kinnahlið jaxlsins hafi verið brotin burt og hluti fyllingar. Fram kemur að tönnin hafi verið mikið viðgerð en óskemmd. Tönnin hafi verið í rótfyllingarferli sem hafi byrjað í janúar 2015. Þar sem kinnahlið tannarinnar sé alveg farin sé tönnin ekki jafn sterk og góð fyrir krónugerð og áður.

 

Ákæra dagsett 3. maí 2016

            Samkvæmt skýrslu lögreglu var óskað eftir aðstoð hennar að [...] vegna heimilisofbeldis þar sem par var sagt í átökum og annar aðilinn væri kominn með hamar í hendi til að verja sig. Hitti lögregla þar fyrir ákærða, X og B, systur X, sem hafði verið að gæta barna hennar. Er lögreglu bar að voru þau öll stödd innan dyra og allt var rólegt. Á heimilinu voru einnig tvö börn X sem voru sofandi og vöknuðu ekki við átökin. Ákærði greindi frá því að þau X hefðu farið út um kvöldið en farið að rífast eftir að heim var komið þar sem X væri svo afbrýðisöm og treysti sér ekki. Hún hefði ráðist á hann og klórað og slegið en hann hefði reynt að verjast með því að halda henni. Hún hefði þá náð í hamar og ráðist að honum en hann hefði hlaupið út. Systir X hefði komið út úr svefnherbergi á sama tíma og hann hafi farið út.

            X greindi frá því að hún hefði fengið systur sína til að passa börnin á meðan hún hefði farið út með ákærða. Ákærði hefði drukkið áfengi en hún drykki ekki. Þau hefðu komið heim ásamt frænda ákærða sem hefði svo farið. Ákærði hefði viljað fara aftur út að skemmta sér en henni hefði verið illa við það og meinað honum að fara. Hann hefði þá orðið ógnandi og rifið í hárið á henni, haldið henni og lamið hana nokkrum sinnum. Hún hefði borið hendurnar fyrir sig til að hlífa andlitinu. Hún hefði einnig reynt að klóra og slá frá sér til að losna og síðan náð í hamar til að verja sig frekar. Systir hennar hefði svo vaknað og komið fram en þá hefði ákærði hlaupið út.

            B sagðist hafa verið að passa börnin og hún hefði ákveðið að gista. Hún hefði vaknað við það að systir hennar hefði hrópað á hjálp. Hún hefði þá farið fram og séð X á gólfinu með hamar í hendi og ákærði hefði haldið henni niðri á hárinu. Hún hefði reynt að ganga á milli til að skilja þau að en þá hefði ákærði sleppt og hlaupið út og hún hringt á lögregluna.

            Samkvæmt skýrslunni var frekar snyrtilegt innandyra en greinilegt að átök höfðu átt sér stað. Blóðblettir voru á gólfinu á ganginum og í þvottahúsinu og bleyta á stofugólfi eftir að vökvi hafði hellst niður.

            Ákærði var blóðugur á báðum höndum og klóraður og blóðgaður á hálsi og aftan við hægra eyra. X var með skurð, sem blæddi mikið úr, á hægri hlið höfuðs í hársverðinum. Þá var hún áberandi marin og bólgin á nefi og enni og blóðug í framan og á vörum.

            X leitaði samdægurs á slysadeild. Í vottorði Sigurveigar Margrétar Stefánsdóttur sérfræðilæknis á bráðadeild frá 23. febrúar 2016 kemur fram að hún hafi komið í fylgd lögreglu vegna líkamsárásar kærasta sem hún hafi átt í sambandi við í um tvo mánuði. Hún hafi verið með 2 cm skurð hægra megin á höfði í hári sem blætt hafi úr. Saumuð hafi verið þrjú spor. Vinstra megin á höfði hafi verið eymsli og roði. Vinstra megin á enni hafi verið stórt mar, eymsli og fjöldi klórfara. Nefið á henni hafi verið bólgið og aumt og blámi sjáanlegur. Þá hafi verið eymsli neðan við vinstra auga og bólga þar yfir kinnbeini. Litlir skurðir hafi verið í munni og rauð för og eymsli á hálsi. Þá hafi hana verkjað við kyngingu. Á báðum höndum hafi verið mar og roði, sérstaklega yfir vinstri úlnlið. Á vinstri fæti hafi verið smá skeina og mikil eymsli við þreifingu neðan við patellu en hún hafi haltrað við gang vegna verkja.

 

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

            Ákærði neitar sök vegna ákæru frá 29. mars 2016, en játar þó líkamsárás. Hann greindi frá því að þau X hefðu verið í sambúð frá því í ágúst 2015. Þau hefðu haldið áfram sambandi sínu eftir þetta atvik en hefðu slitið sambandinu 16. desember sl. Hann hefði verið í slæmu ástandi vegna mikillar neyslu meðan á sambúð þeirra hefði staðið og stundum stungið af þannig að hún hefði þurft að leita hans. Ákærði lýsti því að sl. ár hefði verið honum mjög erfitt.

            Ákærði lýsti því að aðfaranótt 5. febrúar 2016 hefði hann komið heim um tvö-leytið en þau X hefðu verið í sambandi fyrr um nóttina. Hann hefði verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og verið með ranghugmyndir. Hann hefði farið að ásaka X um að vera í slagtogi með mönnum sem vildu hafa uppi á honum. Þau hefðu vakað til klukkan 6 um morguninn. Hann hefði sofið í fjóra tíma en þá vaknað, verið enn undir áhrifum og farið að drekka áfengi að nýju. Ákærði kvaðst hafa verið undir miklum áhrifum en muna vel það sem gerst hefði þennan morgun. Hann hefði hins vegar haldið áfram að drekka yfir daginn og farið í óminnisástand. X hefði farið með son sinn til læknis en þegar hún hefði komið til baka hefði hann farið að ásaka hana að nýju um það sama, auk þess sem hann hefði sakað hana um að birta nektarmynd af sér á Facebook. Þau hefðu rifist og hann hefði hrint henni til hliðar og utan í vegg auk þess sem hann hefði slegið hana einu sinni eða tvisvar. Hann greindi svo frá því að hann myndi eftir tveimur höggum sem hefðu verið í höfuð hennar. Hann kvaðst ekki muna eftir höggum í síðuna, hálstaki eða að hafa rifið í hár hennar. Þá hefði hann ekki sparkað í hana. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að hafa sparkað stól undan henni. Hann kvaðst þó ekki geta útilokað að eitthvað af þessu hefði átt sér stað. Spurður um framburð sinn hjá lögreglu um að X hefði hlaupið á hurð kvaðst hann ekki muna hvort það væri rétt. Hann kvaðst minnast þess að hafa séð eitt lítið sár á X en ekki aðra áverka. Hann hefði heyrt það síðar að tönn hefði brotnað í henni en hún hefði ekki talað um það þennan dag. Hann gæti ekki útilokað að það hefði verið af hans völdum.

            Ákærði kvaðst ekki kannast við hótanir í garð X og hann hefði ekki svipt hana frelsi. Hann hefði til að mynda farið í sturtu og hún hefði hæglega getað komist út en hún hefði aldrei reynt það.

            Varðandi myndatökuna kvaðst ákærði hafa séð mynd af sköpum konu á Facebook sem hann hefði talið vera af X. Hann hefði spurt hana hvort þetta væri hún. Hún hefði sjálf verið að hugleiða hvort svo gæti verið. Hún hefði sent honum mynd af sér með teygju í hárinu og mynd af húðflúri sínu til að sanna að þetta væri ekki hún. Þegar þau hefðu deilt um þetta um morguninn hefði hún spurt hann hvort hann vildi ekki bara koma og taka mynd af sér og skoða. Hann hefði tekið hana á orðinu og tekið mynd á síma X. Þegar hann hefði verið búinn að taka myndina hefði honum þótt þetta vera óviðeigandi. Hann hefði séð að X sárnaði þetta og hún hefði grátið. Myndin hefði ekki farið neitt lengra og hann hefði lagt símann á borð. Ákærði kvaðst í upphafi hafa neitað myndatökunni hjá lögreglu þar sem honum hafi þótt þetta rangt en hann hefði svo sjálfur viljað gefa aðra skýrslu hjá lögreglu og greina rétt frá.

            Eftir þetta hefði ástandið róast og þau farið inn í herbergi þar sem þau hefðu stundað kynlíf. Það hefði oft gerst hjá þeim að þau hefðu rifist en stundað kynlíf í kjölfarið. X hefði verið samþykk kynmökum þeirra. Hann hefði spurt hana hvort hún vildi þetta og hún játað því. Hann hefði fyrst beðið um munnmök og hún hefði samþykkt þau. Það hefði verið sameiginleg ákvörðun þeirra að stunda síðan endaþarmsmök. Hún hefði ekki beðið um annars konar mök. Ákærði kvaðst ekki viss um í hvaða röð framangreindir atburðir hefðu gerst en taldi kynlífið hafa verið í lokin.

            Eftir kynlífið hefði hann farið í sturtu en þá hefði allt verið orðið rólegt. Vinkona X hefði komið til að gefa þeim start. Hún hefði skutlað þeim að bensínstöð þar sem hann hafi náð í startkapla og þær hefðu síðan ætlað saman að sækja bifreið hans.

            Ákærði greindi frá því að sonur X hefði verið í íbúðinni þennan dag. Hann taldi að hann hefði orðið vitni að einhverju í atburðarásinni en gat ekki sagt til um hverju. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við viðbrögð af hans hálfu.

            Ákærði neitar sök vegna III. liðar ákæru frá 3. maí 2016. Hann kvaðst hafa farið með X þetta kvöld að hitta frænda hans á bar en systir hennar hafi passað börn hennar. Frændi hans hefði komið heim með þeim og hann hefði svo viljað halda áfram að skemmta sér með honum. X hefði ekki viljað að hann færi. Frændi hans hafi svo farið. Hann hefði reynt að komast út og komið hefði til átaka milli hans og X í anddyri íbúðarinnar. Hún hefði slegið hann og klórað hann í framan og á hálsi. Hann hefði reynt að komast undan en svo tekið á henni og rifið í hárið á henni. Hann hefði slegið hana einu sinni eða tvisvar með flötum lófa. Spurður um framburð sinn hjá lögreglu þar sem hann lýsti átökum inni á baðherbergi kvað hann það rétt sem þar kæmi fram. Þetta hefði endað með því að hún hefði farið inn í þvottahús og sótt hamar. Hann hefði farið inn í þvottahúsið en ekkert hefði gerst þar inni. X hefði ætlað að ráðast á hann með hamrinum. Hann hefði þá verið kominn út fyrir íbúðina og hefði haldið í hurðina en hún hefði verið að reyna að komast út. Systir hennar hefði þá komið og róað hana og tekið af henni hamarinn. Í því hefði lögreglan komið og farið með hann af vettvangi. X hefði svo sótt hann og þau farið saman á hótel. Ákærði neitaði því að hafa sparkað í X, slegið hana með krepptum hnefa í höfuðið eða tekið hana hálstaki. Hann kvaðst hafa séð að X hefði fengið gat á höfuðið og bólgu af hans völdum. Hann kvaðst telja þá áverka sem lýst væri í ákæru of mikla til þess að þeir gætu allir verið af hans völdum en hann gæti þó ekki útilokað það. Hann kvaðst sjálfur hafa verið með klórför. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn og muna takmarkað eftir þessum atburðum.

            Brotaþoli X greindi frá því að hún hefði verið í sambúð með ákærða frá því í september 2015. Hún kvað ákærða hafa verið á djamminu þann 5. febrúar 2016 og undir miklum áhrifum. Hann hefði haft samband við hana á Facebook og verið með ranghugmyndir um að hún hefði verið í sambandi við einhverja menn sem væru á eftir honum, auk þess sem hann hefði talið nektarmynd sem hann hefði séð á Facebook vera af henni. Hún hefði neitað því að myndin væri af sér og rökstutt það með ýmsum hætti. Hann hefði þó ekki trúað henni og ekki viljað koma heim vegna mannanna. Hann hefði svo komið heim milli klukkan 2 og 3 um nóttina. Þau hefðu rætt saman um þessi atriði en ekki hefði komið til rifrildis milli þeirra. Þau hefðu svo farið að sofa milli klukkan 5 og 6 um morguninn. Hún hefði vaknað aftur milli klukkan 7 og 8 til þess að fara með son sinn til læknis. Hún hefði komið aftur heim milli 10:30 og 11. Ákærði hefði þá verið byrjaður að drekka landa. Hann hefði byrjað með ásakanir að nýju og hefði kýlt hana inni í eldhúsi þannig að tönn hefði brotnað. Hann hefði einnig tekið hana hálstaki með annarri hendi og hótað henni margoft. Sonur hennar hefði orðið vitni að þessu og hefði grátið. Hún hefði tekið son sinn í fangið en þá hefði ákærði kýlt hana og hún látið drenginn frá sér. Ákærði hefði skipað henni að setjast á stól en hann hefði sparkað honum undan henni þannig að hún hefði fallið. Hún hefði reynt að hlaupa út en ákærði hefði þá komið á eftir henni í forstofuna, rifið í hárið á henni og dregið hana inn þar sem hann hefði áfram kýlt hana. Hún hefði ekki reynt aftur að komast út. Hann hefði skipað henni að setjast í sófann. Hún hefði grátið en hann hefði skipað henni að hætta, annars „gangi hann frá henni“. Hún hefði sest í sófann og hann hefði fyrirskipað henni að segja sannleikann. Myndarammar hefðu verið á gólfinu eftir að hann skellti hurð. Hann hefði tekið gler úr ramma og hótað að brjóta það á höfðinu á henni og lemja hana með pönnu ef hún segði ekki sannleikann. Hann hefði tekið í hana þarna í sófanum. Hún hefði svo legið á gólfinu í stofunni og hann sparkað í hana.

            Hann hefði svo aftur farið að tala um nektarmyndina. Hann hefði beðið hana um að fara inn í svefnherbergi og sýna honum að myndin væri ekki af henni. Hún hefði neitað því að þetta væri hún en þurft að gyrða niður um sig. Hann hefði notast við símann hennar og sett ljósið á símann til þess að sjá betur. Hún hefði ekki viljað leyfa honum að skoða sig. Hann hefði tekið mynd á símann til þess að sjá þetta. Henni hefði fundist þetta niðurlægjandi og hefði brotnað niður og grátið. Hann hefði þá ákveðið að hætta. Hún kvaðst hafa boðið ákærða á Facebook um nóttina að koma og skoða. Hún hefði ekki boðið honum að beina að sér vasaljósi eða taka mynd af sér og ekki sagt neitt slíkt um morguninn.

            Eftir myndatökuna hefði hún lagst í rúmið og hann hefði lagst við hliðina á henni og tekið utan um hana. Hún hefði haldið að þá myndi hann róast, en þá hefði hann farið úr og viljað að hún færi niður á sig. Hún hefði beðist undan þar sem hann væri nýbúinn að brjóta í henni tönn og hún væri aum í hálsinum eftir átökin. Hann hefði þá beðið um „bara smá“ og hefði ýtt við henni og hún farið niður með kökkinn í hálsinum. Hún hefði beðið hann um að klára þetta „venjulega“ en hann hefði beðið um „smá meira“. Hann hefði svo fallist á að klára þetta venjulega. Þá hefði hann viljað endaþarmsmök og hún hefði fallist á það til að ljúka þessu af. Hún hefði ekki viljað stunda kynlíf. Hún hefði verið hrædd við hann og óttast að hann beitti hana frekara ofbeldi. Eftir þetta hefði hann farið í sturtu. Hún hefði þá fengið símann sinn aftur og sent vinkonu sinni, sem hefði ætlað að koma og gefa þeim start, smáskilaboð og beðið hana um að koma strax. Vinkonan hefði spurt hvort ekki væri allt í lagi en hún hefði neitað því og beðið hana um að senda ekki fleiri skilaboð. Ákærði hefði viljað að hún færi líka í sturtu en hún ekki viljað það þar sem hún væri þreytt og henni liði illa. Hann hefði ekki viljað að hún færi út svona útlítandi. Hún hefði þá farið í bað með son sinn.

            Ákærði hefði því næst beðið hana um að falsa umboð til að sækja bifreið, skráða á föður hans, á lögreglustöð. Hann hefði þá aftur orðið æstur og óþolinmóður. Þegar vinkona hennar hefði komið um kl. 15 hefði hún strax sett son sinn í bifreið vinkonunnar. Ákærði hefði þurft að fara aftur inn til að sækja penna. Hún hefði þá náð að segja vinkonu sinni aðalatriðin og að hún yrði að komast í burtu. Þær hefðu farið á bensínstöð og sótt startkapla og skutlað ákærða heim aftur. Þær hefðu svo ekið að Lágafellsskóla, þar sem hún hefði greint vinkonu sinni nánar frá atvikum, og síðan á lögreglustöð. Henni hefði liðið illa og viljað fara til lögreglu til þess að kæra ofbeldið gegn sér. Hún kvaðst hafa verið með brotna tönn, mar á enni, kúlu á höfði og verið aum um allan líkamann eftir þetta, meðal annars í fótum og síðu. Hún væri með vefjagigt og öll högg gerðu hana verri. Þá glími hún við kvíðaköst og svefnleysi.

            X greindi frá því að framburður hennar, þegar málið hefði áður verið fyrir dómi, hefði verið lýsing á því hvernig hún teldi ákærða hafa upplifað atburði. Framburður hennar nú væri samkvæmt hennar eigin upplifun. Þau ákærði hefðu tekið upp samband að nýju eftir atvikið. Hann hefði sagt henni sína upplifun og hún hefði lokað á sína þar sem hún hefði viljað láta sambandið ganga og trúað því að ákærði myndi breytast. Þegar hún hefði farið í sálfræðiviðtöl í desember sl. hefði hún farið að sjá málið frá sinni hlið. Hún hefði slitið sambandinu við ákærða sama dag. Hún hefði þó heimsótt hann um jólin. Hún greindi frá því að skýrslur hennar hjá lögreglu hefðu verið réttar. Spurð um tölvupóst sem hún sendi héraðssaksóknara, um að hún teldi að ekki hefði verið um nauðgun að ræða, kvaðst hún hafa sent hann að beiðni ákærða. Þá hefði hann sagt henni að skipta um réttargæslumann. Hún lýsti því að bæði ákærði og faðir hans hefðu beitt sig þrýstingi til að breyta framburði sínum.

            X lýsti atvikinu frá því 29. október 2015 þannig að þau ákærði hefðu farið saman út að hitta frænda hans. Ákærði hefði verið undir áhrifum þetta kvöld en hún hefði ekið. Þau hefðu farið heim ásamt frændanum en ákærði hefði svo viljað halda áfram að skemmta sér með frænda sínum. Hún hefði verið því mótfallin. Frændinn hefði farið en ákærði hefði orðið æstur og beðið hana um að slá sig. Hann hefði sest í sófann og kallað hana öllum illum nöfnum og orðið sífellt æstari. Hann hefði tekið í hárið á henni, togað hana niður í sófann og kýlt hana. Hann hefði svo dregið hana á stofugólfið og haldið áfram að kýla hana og sparkað í hana. Hann hefði einnig tekið hana hálstaki en hún mundi ekki hvenær í atburðarásinni það hefði gerst. Hún hefði náð að komast undan honum og hlaupa inn í þvottahús þar sem hún hefði náð í hamar. Hann hefði komið á eftir henni og tekið í höndina með hamrinum og haldið henni niðri. Hann hefði tekið í hárið á henni með hinni hendinni og sparkað í andlitið á henni með hnjánum. Þá hefði hann einnig kýlt hana. Hún hefði kallað til systur sinnar sem hefði sofið í herberginu við hliðina á eftir að hafa gætt barna hennar. Systir hennar hefði komið og hringt á lögregluna. Ákærði hefði látið af árásinni þegar systir hennar kom og hlaupið út. Hún hefði hlaupið á eftir honum. Ákærði hefði haldið hurðinni. Systir hennar hefði beðið hana um hamarinn og hún hefði látið hann frá sér. Systir hennar hefði reynt að róa hana og lögreglan hefði komið skömmu síðar. Hún hefði fengið gat á höfuðið og verið víða bólgin og marin eftir þetta. Ákærði hefði fengið klórför eftir hana þegar hún hefði varið sig og reynt að komast í burtu. Þau ákærði hefðu ekki slitið sambandinu eftir þetta atvik. Hún hefði fyrirgefið honum en hann hefði lofað að fara í meðferð og þetta myndi ekki gerast aftur. X kvaðst ekki hafa tjáð sig áður um þetta atvik þar sem hún hefði ekki viljað gera þetta verra fyrir ákærða.

            Vitnið C kvaðst hafa verið vinkona bæði X og ákærða. Þann 5. febrúar 2016 hefði hún ætlað að koma til þeirra og aðstoða þau með bifreið. Hún hefði verið í símasambandi við X yfir daginn. X hefði ýtt á eftir henni að koma sem fyrst og svo sent henni smáskilaboð þar sem fram hefði komið að ekki væri allt í lagi hjá henni. Bæði ákærði og X hefðu komið út þegar hún hefði komið til þeirra en hún hefði ekki greint að neitt væri að. Ákærði hefði beðið hana um að skutla sér á bensínstöð til þess að fá lánaða startkapla. Hún hefði svo ekið honum til baka og gefið honum start. Ákærði hefði verið í annarlegu ástandi og það hefði verið áfengislykt af honum. Meðan hann hefði farið inn að sækja penna til að láta hana skrifa undir falsað umboð til þess að X gæti sótt bifreið föður hans hefði X sagt henni að gera það sem hann segði. Hún hefði greinilega verið mjög skelkuð og sagt að þær þyrftu að koma sér í burtu. Þær hefðu ekið á bak við [...] þar sem X hefði greint henni frá því sem gerst hefði. Hún hefði sagt ákærða hafa kýlt úr sér tönn meðan hún hefði haldið á syni sínum. Hann hefði skipað henni að setjast á stól sem hann hefði kippt undan henni. Hann hefði valdið henni ýmsum meiðslum sem hún muni ekki lengur hvernig voru, en hefði greint frá hjá lögreglu. Ákærði hefði tekið nektarmynd af X þar sem hann hefði haldið því fram að slík mynd hefði verið af henni á netinu. Hún kvaðst hafa séð upp í X þar sem tönnin hefði brotnað. Þá hefði hún séð áverka á henni og myndirnar tvær. Ákærði hefði einnig farið fram á að X veitti honum munnmök. X hefði reynt að biðjast undan og svo beðið um venjulegu aðferðina til að losna undan þessu. X hefði lýst því að þetta hefði verið án hennar vilja. Hún hefði síðar farið að draga úr þessu atviki. Þegar málið hefði verið áður til meðferðar fyrir dómi hefði X reynt að fá hana til að draga úr sögunni. Hún hefði því umorðað hlutina vegna hennar. Vitnið kvaðst hafa gætt sonar X þennan dag en drengurinn hefði sagt við hana að hann ætlaði að drepa ákærða þar sem hann væri vondur við mömmu hans.

            Vitnið D, móðir X, greindi frá því að hún hefði verið í miklum samskiptum við dóttur sína á sambúðartíma hennar og ákærða og fundið að henni hefði liðið illa. X hefði viljað halda henni frá því sem hefði gengið á. Hún hefði reynt að leyna fyrir henni atvikinu í október 2015. B, dóttir hennar, hefði greint henni frá atvikinu. Hún hefði reiðst er hún heyrði af þessu og farið heim til X. Hún hefði spurt hana hvað hefði komið fyrir andlitið á henni en fengið þau svör að hún hefði dottið í stiga. X hefði verið með glóðarauga og bólgin í framan. Ákærði hefði verið heima.

            Vitnið kvaðst hafa reynt að hringja í X að morgni 5. febrúar 2016 en hún hefði þennan dag verið að gæta dóttur hennar. X hefði sagst tala við hana síðar. X hefði svo hringt og beðið hana um að taka son sinn þar sem eitthvað hefði komið upp á. Hún hefði svo hitt C og tekið við syni X. Hún hefði síðan fengið símtal frá fulltrúa barnaverndar og farið á lögreglustöðina og séð X þar í sjokki. Fulltrúi barnaverndar og lögregla hefðu viljað ræða við drenginn. X hefði ekki viljað ræða um þetta atvik við hana. Hún hefði verið dofin yfir þessu en fengið áfall núna nýlega.

            Vitnið B, systir X, kvaðst ekki vita neitt um það sem gerðist á heimili systur hennar þann 5. febrúar 2016. Hún hefði hins vegar verið að gæta barna systur sinnar þann 29. október 2015. Hún hefði sofnað í sófanum en vaknað er þau komu heim ásamt vini þeirra. Hún hefði þá farið inn í barnaherbergi til að sofa. Hún hefði vaknað aftur við hróp systur sinnar á hjálp. Hún hefði farið fram og séð blóð á ganginum. Hún hefði komið að ákærða og systur sinni í þvottahúsinu þar sem hann hefði staðið fyrir aftan hana, haldið henni niðri og verið að kýla hana með krepptum hnefa. Vitnið taldi sig hafa séð tvö högg í andlit X en ekki annað ofbeldi. Hún hefði talað rólega til þeirra og beðið þau um að hætta. Hún hefði þá náð að koma þeim fram á gang. Þar hefðu þau haldið fast í hvort annað. X hefði verið með hamar í höndunum sem hún hefði tekið af henni. Hún hefði svo náð að losa þau frá hvoru öðru en ákærði hefði þá hlaupið út. X hefði hlaupið á eftir honum en hann haldið hurðinni. Á meðan hefði hún hringt á lögregluna. Eftir þetta hefði allt róast og hann hefði komið inn aftur og sagt að þau skyldu slaka á. Blóð hefði verið um allt gólf í íbúðinni. X hefði verið með skurð á höfðinu og hún hefði séð klórför á ákærða.

            Vitnið E, faðir ákærða, lýsti því að ákærði hefði verið á slæmum stað þegar hann kynntist X. Hann hefði fljótlega farið að búa með henni og viljað fara í meðferð og taka sig á. Vitnið hefði hitt þau milli jóla og nýárs og ákærði hefði þá talað um að gengið hefði á ýmsu í sambandinu. Þau hefðu svo komið til hans á [...] um mánaðamótin janúar/febrúar í fyrra og farið aftur í byrjun febrúar. Stuttu síðar hefði komið til átaka milli þeirra og ákærði hefði beitt hana ofbeldi. Hann hefði hvatt ákærða til að gefa sig fram þegar hann hefði verið eftirlýstur. Hann hefði svo séð umfjöllun um atvikið í blöðunum og séð að um alvarlegar ásakanir væri að ræða. X hefði hins vegar sagt honum að þetta hefði ekki verið með þeim hætti sem þar hefði verið greint frá heldur hefði lögreglan snúið út úr fyrir henni. Vitnið hefði ekki beitt hana þrýstingi heldur sagt henni að hún gæti ekki tekið framburð sinn til baka. Það hefði augsýnilega verið um líkamsárás að ræða en hún yrði að gera hitt upp við sjálfa sig. Hún hefði verið ákveðin í því að þetta væri ekki svona.

            Vitnið Arnþrúður María Felixdóttir lögreglumaður kvaðst hafa verið kölluð til í tilefni af komu brotaþola á lögreglustöð vegna líkamsárásar 5. febrúar 2016. Rannsóknarlögreglumaður hefði rætt við brotaþola um það sem gerðist. Hún hefði séð hana en ekki rætt við hana. Brotaþoli hefði verið fámál og með áverka á enni.

            Vitnið Guðmundur Ingi Rúnarsson lögreglumaður greindi frá vettvangsrannsókn á heimili ákærða og brotaþola að [...]. Þeim hefði verið vísað á brotna tönn. Rannsóknin hefði að mestu beinst að svefnherberginu þar sem þeim hefði verið sagt að mesti hlutinn hefði farið fram. Þar hefði verið mikil óreiða en að öðru leyti hefði íbúðin að mestu leyti verið snyrtileg.

            Vitnið Sigurður Árni Reynisson rannsóknarlögreglumaður stýrði rannsókn málsins frá 5. febrúar 2016. Hann greindi frá því að við skýrslutöku hjá lögreglu hefði komið upp grunur um kynferðisbrot og þá hefði verið farið með brotaþola á neyðarmóttöku. Hann hefði þá tekið við málinu og rætt við hana. Ákveðið hefði verið að fara heim til hennar og rannsaka vettvanginn. Hann hefði farið þangað ásamt Guðmundi Inga. Brotaþoli hefði haft sýnilega áverka á höfði og hefði misst tönn. Henni hefði verið mjög brugðið og liðið illa. Hún hefði verið hrædd við ákærða. Brotaþoli hefði síðar viljað draga í land með alvarleika brotsins og lýst efasemdum um hvort þetta hefði raunverulega verið með þeim hætti sem hún hefði lýst eða hvort hún hefði hugsanlega leyft ákærða þetta. Hún hefði komið til hans nokkrum sinnum og rætt þetta við hann. Hann hefði hvatt hana til að ræða við réttargæslumann sinn og leita til sálfræðings. Hann hefði greint henni frá því að málið væri komið úr hennar höndum vegna eðlis brotsins. Hún hefði greint frá því því að ákærði og faðir hans hefðu beitt hana þrýstingi til þess að draga framburð sinn til baka. Hann kvaðst ekki hafa séð tölvupóst til héraðssaksóknara þar sem hún hefði greint frá því að ekki hefði verið um nauðgun að ræða.

            Vitnið Ingunn Jónsdóttir, sérfræðilæknir á neyðarmóttöku, greindi frá komu brotaþola á neyðarmóttöku 5. febrúar 2016. Hún skýrði skýrslu um komu hennar og hvernig frásögn hennar hefði verið rituð. Hún hefði punktað hjá sér og ritað frásögnina strax eftir skoðun. Hún hefði hitt brotaþola þegar hún hefði verið þarna í einhverja stund og rætt við hjúkrunarfræðing. Brotaþoli hefði greinilega greint frá kynferðisbroti. Vitnið lýsti því að sér hefði virst brotaþoli vera flöt og segja frá án mikilla tilfinninga. Hún hefði haft brotna tönn og áverka á höfði.

            Vitnið Eyrún Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, sem tók á móti brotaþola lýsti því sem hún hefði sagt. Hún taldi brotaþola hafa lýst kynferðisofbeldi og taldi áverka hennar samræmast lýsingunni. Þetta hefði ekki verið með hennar vilja og að undangengnu ofbeldi, niðurlægingu og hótunum. Miðað við lýsingu brotaþola hefði hún látið undan til að verða ekki verr útleikin. Hún hefði beðist undan munnmökum vegna brotinnar tannar og sársauka af þeim völdum. Hún hefði beðið hann um að ljúka þessu á annan hátt. Brotaþoli hefði verið dofin og þreytt við komu á neyðarmóttöku en yfirveguð og sagt vel frá. Lýsing á atvikum hefði verið rituð niður eftir að brotaþoli var farin. Í þessu tilviki hefði hún heyrt brotaþola segja frá atvikinu þrisvar sinnum.

            Vitnið Svanhvít Sæmundsdóttir tannlæknir skýrði vottorð sitt frá 2. mars 2016 þar sem greint er frá brotnum jaxli brotaþola eftir líkamsárás 5. febrúar 2016. Jaxlinn hefði verið í rótarfyllingarmeðferð á þessum tíma og því verið veikari fyrir. Hún taldi mögulegt að tönnin brotnaði við högg en gat ekki sagt til um hversu þungt högg þyrfti til. Óvíst væri hversu mikill sársauki fylgdi slíku broti en það færi eftir því hvort tönnin væri lifandi eða ekki. Hún taldi að tönnin í brotaþola hefði ekki verið lifandi og því ekki með tilfinningu, en hins vegar væru beinvefirnir í kring með tilfinningu. Það fylgdi því ekki beinlínis tannpína en það gæti verið sársauki í beini eða kjálka í kring.

            Vitnið Helgi Már Tulinius lögreglumaður ritaði frumskýrslu um málið frá því í október 2015. Hann lýsti komu lögreglu á staðinn vegna átaka á milli pars. Allt hefði verið rólegt en blóð hefði verið á gangi og í þvottahúsi. Ákærða og brotaþola hafi ekki borið saman um hvað hefði gerst. Hann hefði sagt að hann hefði verið að verjast árás en hún að hann hefði viljað fara út og þau rifist vegna þess. Ákærði hefði verið ógnandi í hennar garð og slegið hana. Hún hefði reynt að verjast honum með hamri. Systir brotaþola hefði vaknað og hringt á lögregluna. Brotaþoli hefði verið með sár í hársverði sem talsvert hefði blætt úr. Þá hefði hún verið marin í andliti. Ákærði hefði verið blóðugur á höndum með klórför á bringu og bak við eyru eða á hálsi.

            Vitnið Stella Aðalsteinsdóttir lögreglumaður lýsti því að ástandið hefði verið rólegt er lögregla kom á vettvang í október 2015. Hún hefði rætt við brotaþola sem hefði verið í uppnámi en nokkuð róleg. Hún hefði tekið framburð brotaþola upp á diktafón og svo ritað frásögn hennar niður eftir honum. Það sem kæmi fram í skýrslu hennar væri allt hennar frásögn. Brotaþoli hefði einkum haft áhyggjur af afleiðingum þessa fyrir ákærða. Hún hefði verið með skurð á höfði og farið á slysadeild. Brotaþoli hefði lýst því að atburðirnir hefðu gerst í stofu og þvottahúsi. Ákærði hefði ýtt henni niður í sófa og slegið hana þar nokkrum sinnum. Hún hefði svo flúið inn í þvottahús. Vitnið mundi ekki til þess að brotaþoli hefði nefnt baðherbergi eða forstofu. Hún hefði greint frá því að hafa slegið ákærða í fótlegg með hamri. Systir brotaþola hefði vaknað, gengið á milli og hringt í lögreglu. Brotaþoli hefði ekki verið sátt við aðkomu lögreglu að málinu og reynt að koma í veg fyrir að hún færi með ákærða af vettvangi.

            Vitnið Sigurveig Margrét Stefánsdóttir sérfræðilæknir á bráðadeild lýsti áverkum brotaþola við komu í október 2015. Hún taldi áverka hennar samræmast lýsingu hennar á því að hún hefði fengið ýmis högg. Erfitt væri að segja til um hvernig högg þyrfti til að skurður, eins og hún hefði haft, myndaðist. Læknirinn taldi áverka brotaþola vera of mikla og á of mörgum stöðum til þess að þeir gætu skýrst af tveimur höggum í andlit. Skurðir í munni kæmu til vegna högga á andlit. Hún taldi áverka á hálsi geta samræmst því að brotaþoli hefði verið tekin hálstaki. Áverkar á höndum hefðu verið roði á úlnliðum eins og haldið hafi verið um þá. Hún hafi verið aum í öðrum úlnliðnum.

            Vitnið Agnes Björg Tryggvadóttir sálfræðingur greindi frá því að hafa hitt brotaþola tvisvar sinnum áður en hún flutti til [...]. Hún hefði talið hana þurfa frekari meðferð enda hefði hún enn haft töluverð áfallaeinkenni og verið haldin miklu þunglyndi. Hún hefði vísað henni á neyðarmóttöku á [...]. Brotaþoli hefði lýst alvarlegri árás 5. febrúar 2016 þar sem hún hefði upplifað ótta og hjálparleysi. Hún hefði lýst áfallastreitueinkennum, meðal annars endurupplifunareinkennum, svefnleysi og lystarleysi. Hún hefði forðast að hugsa og tala um þetta og hefði ásakað sjálfa sig. Þá hefði hún verið vör um sig. Tilfinningar hennar til ákærða hefðu verið flóknar. Hún hefði saknað hans og góðra stunda sem þau höfðu átt en hefði samt lýst því að hún hefði verið hrædd við hann megnið af sambandinu. Hún hefði lýst ítrekuðum tilvikum andlegs og líkamlegs ofbeldis. Hún hefði bæði viljað slíta sambandinu og halda því áfram ef hann lagaðist.

            Vitnið Pétur Maack Þorsteinsson sálfræðingur greindi frá því að brotaþoli hefði komið til hans til meðferðar þrisvar sinnum. Hún hefði greinst með mikinn kvíða og þunglyndi sem hefði farið saman við lýsingar hennar á eigin líðan. Þetta hefði reynst mjög hamlandi fyrir hana. Hún hefði lýst ofsakvíðaköstum sem færu saman í tíma við þá atburði er hún hefði greint frá. Ekki sé hægt að fullyrða um orsakasamband en það hafi verið hennar upplifun að þetta tengdist. Hún hefði ekki tengt bílslys sem hún lenti í á unglingsaldri við þetta. Hún hefði greint frá stjórnsemi ákærða strax frá upphafi sambandsins. Hún hefði greint honum frá líkamsárás í október 2015 sem hún hefði ekki kært og lýst ítarlega atvikum í febrúar 2016. Ákærði hefði haft sterk tök á henni en hún hefði verið farin að velta því fyrir sér að slíta sambandinu. Hún hefði fyllt út próf vegna áfallastreituröskunar og samkvæmt því standist hún öll greiningarskilmerki hennar. Brotaþoli verði áfram til meðferðar hjá honum a.m.k. fram á vor.

 

Niðurstaða

Ákæra dagsett 29. mars 2016

            Ákærði neitar sök að mestu leyti en játar þó líkamsárás. Hann lýsti því að hann hefði rifist við brotaþola, hrint henni til hliðar og utan í vegg. Þá hefði hann slegið hana tvisvar sinnum í höfuðið. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa beitt brotaþola frekara ofbeldi en hann gat þó ekki útilokað að eitthvað frekar hefði átt sér stað. Ákærði greindi frá því að þennan dag hefði hann verið undir miklum áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann myndi vel það sem hefði átt sér stað þennan morgun, en ástand hans hefði farið versnandi og hann hefði farið í óminnisástand.

            Ákærða er í ákæru í fyrsta lagi gefin að sök frelsissvipting með því að hafa svipt brotaþola frelsi frá um klukkan 11 til 15 á heimili þeirra þann 5. febrúar 2016. Ákærði neitar því að hafa svipt brotaþola frelsi. Hún hafi aldrei reynt að fara út en hefði hæglega getað það, til að mynda þegar hann hefði farið í sturtu. Brotaþoli lýsti því að ákærði hefði veist að henni með ofbeldi fljótlega eftir að hún hefði komið úr læknisheimsókn þennan morgun milli klukkan 10:30 og 11. Hún hefði þá reynt að hlaupa út en ákærði hefði elt hana, rifið í hárið á henni og dregið hana inn þar sem barsmíðar hans hefðu haldið áfram. Hún kvaðst ekki hafa reynt aftur að komast út. Þá lýsti hún því að árás ákærða hefði staðið yfir þar til ákærði hefði farið í sturtu. Þá hefði hún ekki reynt að fara, en hún hefði átt von á því að vinkona hennar kæmi. Ákærði man illa atburði þessa dags og hann hefur ekki getað útilokað að hafa veist að brotaþola með þeim hætti sem lýst er í ákæru þótt hann muni ekki eftir því. Með hliðsjón af stöðugum og trúverðugum framburði brotaþola um þetta er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi meinað henni för út úr íbúðinni meðan á atlögu hans stóð allt fram til þess að hann fór í sturtu skömmu áður en vinkona brotaþola kom um kl. 15. Svipti ákærði brotaþola þannig frelsi sínu svo varðar við 1. mgr. 226 gr. almennra hegningarlaga en sækjandi lýsti því við munnlegan málflutning að tilvísun til 1. mgr. ákvæðisins hefði fallið niður í ákæru fyrir mistök.

            Ákærða er í öðru lagi gefin að sök líkamsárás gagnvart brotaþola með því að slá hana ítrekuðum hnefahöggum í síðu og höfuð, rífa í hár hennar, taka hana hálstaki, sparka ítrekað í síðu hennar og fætur og sparka undan henni stól svo að hún féll í gólfið. Eins og að framan greinir hefur ákærði játað hluta þessarar háttsemi en kveðst að öðru leyti ekki geta útilokað að þetta hafi átt sér stað. Hann kvaðst minnast þess að hafa séð eitt sár á brotaþola en ekki aðra áverka. Hann hafi ekki heyrt um brotnu tönnina þennan dag en kvaðst ekki getað útilokað að það væri af hans völdum.

            Brotaþoli lýsti því hvernig ákærði hefði veist að henni með höggum og spörkum, tekið hana hálstaki, rifið í hárið á henni og sparkað undan henni stól. Framburður hennar er trúverðugur og fær stoð í framburði vitnisins C. Þá liggja fyrir ljósmyndir af áverkum brotaþola, auk þess sem brot úr tönn hennar fannst á vettvangi. Með hliðsjón af framangreindu og að hluta játningu ákærða er sannað að hann hafi gerst sekur um líkamsárás samkvæmt ákærunni og varðar háttsemi hans við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærða eru í þriðja lagi gefnar að sök hótanir, en hann hafi ítrekað hótað brotaþola lífláti meðan á árás hans hafi staðið. Ákærði neitar því að hafa hótað brotaþola. Hún lýsti því hins vegar að hann hefði margoft hótað sér þennan dag. Framburður hennar hefur verið stöðugur og skýr um þetta efni. Í ljósi þess að ákærði man illa atburði þessa dags og með hliðsjón af því sem gekk á á þessum tíma verður trúverðugur framburður brotaþola lagður til grundvallar. Er því sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi ítrekað hótað brotaþola lífláti og varðar brot hans við 233. gr. almennra hegningarlaga.

            Í fjórða lagi eru ákærða gefin að sök kynferðisbrot. Er annars vegar um að ræða kynferðislega áreitni með því að láta brotaþola gyrða niður um sig og skoða kynfæri hennar og rass með vasaljósi auk þess að hafa tekið mynd af berum kynfærum hennar. Ákærði játar þessa háttsemi en neitar sök þar sem brotaþoli hafi heimilað þetta. Hún hafi þennan morgun boðið honum að skoða og taka mynd af sér og hann hafi tekið hana á orðinu. Brotaþoli neitar því að hafa heimilað myndatökuna. Í Facebook-samskiptum aðila frá því nóttina áður kemur fram að brotaþoli sagði ákærða að koma og skoða tryði hann því ekki að nektarmyndin sem hann sæi væri ekki af henni. Þar kemur hins vegar ekkert fram um myndatöku. Brotaþoli lýsti líðan sinni meðan á þessu atviki stóð. Þá greindi ákærði frá því að hafa séð að henni sárnaði og hún hafi farið að gráta en hann hafi þá hætt. Að framangreindu virtu og þeim aðstæðum sem uppi voru umrætt sinn er sannað að háttsemi ákærða var í óþökk brotaþola. Fær það jafnframt stoð í framburði vitnisins C. Af hálfu ákærða hefur því verið borið við að háttsemin varði ekki við 199. gr. almennra hegningarlaga þar sem myndatakan hafi ekki verið í kynferðislegum tilgangi heldur hafi ákærði ætlað að bera myndina saman við aðra. Samkvæmt ákvæðinu felst kynferðisleg áreitni meðal annars í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta. Ákærði hefur viðurkennt að hafa lýst með vasaljósi úr síma upp í rass og kynfæri brotaþola og tekið mynd af henni. Með myndatöku þessari braut ákærði gegn kynfrelsi brotaþola. Hún hefur lýst því að aðstæður hafi verið niðurlægjandi og ákærði hefur sjálfur sagt að honum hafi, eftir myndatökuna, þótt þetta óviðeigandi. Með hliðsjón af framangreindu verður háttsemi ákærða talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga.

            Þá er ákærða gefið að sök að hafa þvingað brotaþola til munnmaka og endaþarmsmaka og beitt hana þannig ofbeldi og ólögmætri nauðung. Ákærði neitar sök vegna þessa þáttar ákærunnar en kveðst hafa stundað kynmök með brotaþola með hennar samþykki. Brotaþoli lýsti því að ákærði hefði viljað stunda munnmök stuttu eftir að framangreindri myndatöku hafi lokið. Hún hafi beðist undan og vísað til áverka í munni og hálsi af hans völdum. Hann hafi samt viljað mökin og ýtt við henni. Hún hafi gert þetta þar sem hún hafi óttast frekara ofbeldi af hans hálfu en þetta hafi alls ekki verið með hennar vilja. Hún hafi svo beðið hann um að ljúka þessu frekar með „venjulegum“ hætti. Hann hafi þá viljað endaþarmsmök og hún hafi fallist á það til þess að ljúka þessu af.

            Brotaþoli fór til lögreglu og kærði háttsemi ákærða strax að henni lokinni. Hún fór í framhaldi af því á neyðarmóttöku. Fullt samræmi er í framburði hennar á þessum stöðum og fyrir dómi. Brotaþoli hefur skýrt hvers vegna hún bar með öðrum hætti um þennan hluta ákærunnar er málið var áður fyrir dómi. Þá hefur hún skýrt tölvupóst til héraðssaksóknara þar sem hún greindi frá því að henni hefði ekki verið nauðgað. Þykja skýringar hennar trúverðugar.

            Framburður brotaþola er skýr um það að hún hafi verið mótfallin kynmökunum. Hún hafi reynt að komast undan þeim en gefið eftir af ótta við ákærða. Framburður hennar er trúverðugur og fær stoð í gögnum frá neyðarmóttöku og vitnisburði C. Með hliðsjón af framangreindu og þegar virtar eru þær aðstæður sem uppi voru umrætt sinni, þar sem ákærði hafði um nokkurra klukkutíma skeið beitt brotaþola ofbeldi, er sannað að ákærði hafi með ólögmætri nauðung þvingað brotaþola til munnmaka og endaþarmsmaka. Þótt fram hafi komið að brotaþoli hafi óskað eftir að ákærði lyki kynmökunum með öðrum hætti en munnmökum og hún hafi svarað ákærða játandi er hann vildi stunda endaþarmsmök þykir í ljósi aðstæðna ekki hægt að líta svo á að um samþykki hennar hafi verið að ræða. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þessa háttsemi og varðar brot hans við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

            Þá eru ákærða gefnar að sök stórfelldar ærumeiðingar með því að hafa, með öllu framangreindu, móðgað og smánað brotaþola. Þykir ákærði með þeirri háttsemi sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir hafa móðgað og smánað brotaþola og gerst sekur um stórfelldar ærumeiðingar, sbr. 233. gr. b almennra hegningarlaga.

 

Ákæra dagsett 3. maí 2016

Ákæruliðir I og II

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín samkvæmt þessum ákæruliðum. Sannað er með játningu hans og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákæruliður III

            Í þessum lið ákærunnar er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa ýtt brotaþola í sófa í stofunni og þar rifið í hárið á henni og slegið hana hnefahöggi í andlitið, í þvottahúsi íbúðarinnar haldið henni í gólfinu, slegið hana með krepptum hnefa í höfuðið, sparkað hnésparki í höfuð hennar og tekið hana hálstaki.

            Ákærði neitar sök samkvæmt ákærunni en hefur viðurkennt að hafa slegið brotaþola einu sinni eða tvisvar með flötum lófa. Hann neitar því að hafa sparkað í hana, slegið hana með krepptum hnefa eða tekið hana hálstaki. Hann lýsti því að til átaka hefði komið á milli þeirra og þau hefðu bæði hlotið áverka. Hann hefði orðið var við að brotaþoli hefði fengið gat á höfuðið og bólgu. Þá greindi hann frá því að hann hefði verið undir áhrifum áfengis þessa nótt og muni því takmarkað eftir þessu.

            Brotaþoli greindi frá því að ákærði hefði tekið í hárið á henni, togað hana niður í sófa, kýlt hana og sparkað í hana. Hann hefði einnig haldið í hárið á henni og sparkað í andlit hennar með hnjánum. Þá hefði hann tekið hana hálstaki.

            Vitnið B, systir brotaþola, greindi frá því að hafa komið að átökum ákærða og brotaþola. Þau hefðu verið í þvottahúsinu þar sem ákærði hefði haldið brotaþola boginni niður og verið að kýla hana með krepptum hnefa. Hún taldi að hún hefði séð hann veita brotaþola tvö högg en ekki séð annað ofbeldi.

            Samkvæmt læknisvottorði Sigurveigar Margrétar Stefánsdóttur sérfræðilæknis hafði brotaþoli margvíslega áverka eftir átökin en hún kom á slysadeild í beinu framhaldi. Samkvæmt framburði læknisins er útilokað að valda öllum þessum áverkum með einungis tveimur höggum. Læknirinn taldi áverka brotaþola vera í samræmi við lýsingu hennar á ýmsum höggum. Þá samræmdust áverkar á hálsi því að hún hefði verið tekin hálstaki.

            Brotaþoli skoraðist undan því að gefa skýrslu vegna málsins hjá lögreglu og við fyrri meðferð málsins fyrir dómi. Framburður hennar nú er í fullu samræmi við það sem hún greindi lögreglu frá á vettvangi og það sem haft er eftir henni í læknisvottorði. Framburður hennar er trúverðugur og fær að hluta til stoð í framburði vitnisins B, auk framangreinds læknisvottorðs. Framburður ákærða er hins vegar ekki fyllilega trúverðugur en ljóst er af fjölda og dreifingu áverka á brotaþola að hún varð fyrir mun fleiri en tveimur höggum. Þá hefur ákærði viðurkennt takmarkað minni um atburði vegna áfengisneyslu. Með hliðsjón af framangreindu er sannað að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás með þeim hætti sem í ákæru greinir, nema að hafa haldið brotaþola í gólfinu í þvottahúsi, en fram kom hjá vitninu B að ákærði hefði haldið í brotaþola, en ekki haldið henni í gólfinu. Þá er það sannað með framangreindu læknisvottorði að afleiðingar árásarinnar hafi verið þær sem í ákæru greinir. Brot ákærða varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

 

Refsing, einkaréttarkrafa og sakarkostnaður

            Ákærði er fæddur í apríl 1992. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 2008 hlotið fjóra refsidóma fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot, nytjastuld og þjófnað. Þá var honum ekki gerð sérstök refsing vegna brots gegn 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940 með dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 10. október 2016 sem var hegningarauki við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. júní 2016. Við ákvörðun refsingar verður litið til 1., 2. og 6. töluliðar 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í fjögur ár. Gæsluvarðhald ákærða frá 7. febrúar 2016 kemur til frádráttar refsingu.

            Ákærði er nú í þriðja sinn fundinn sekur um brot gegn 45. gr. og/eða 45. gr. a í umferðarlögum. Ber samkvæmt því og með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru frá 3. maí 2016 að svipta ákærða ökurétti ævilangt.

 

            Af hálfu brotaþola, X, er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð 4.300.000 krónur. Við meðferð málsins gerðu ákærði og brotaþoli með sér munnlegt samkomulag um að hann greiddi henni bætur að fjárhæð 3.300.000 krónur. Undir aðalmeðferð málsins dró ákærði samkomulagið til baka. Hann viðurkennir nú bótaskyldu en eftirlætur dóminum að ákvarða fjárhæð bóta. Krafa brotaþola sundurliðast þannig að 4.000.000 króna eru vegna miska en 300.000 krónur vegna áætlaðs tannlæknakostnaðar. Krafa um áætlaðan tannlæknakostnað er ekki studd neinum gögnum og er því ekki hægt að taka hana til greina. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af gögnum um afleiðingar brotanna fyrir brotaþola þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 3.000.000 króna sem bera vexti eins og í dómsorði greinir. Upphafsdagur dráttarvaxta er 8. maí 2016 en þá var liðinn mánuður frá því að bótakrafan var birt ákærða.

 

            Með hliðsjón af 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar. Í málinu hefur í tvígang farið fram aðalmeðferð, án þess að ákærða verði um það kennt. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 559/2016 segir að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði nýs efnisdóms í málinu. Rétt þykir að dæma ákærða til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns við fyrri dómsmeðferð málsins, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 2.987.160 krónur, auk 26.448 króna í aksturskostnað og til greiðslu á þóknun réttargæslumanna brotaþola við fyrri dómsmeðferð, Bjarna Haukssonar hrl., 818.400 krónur, og Jóns Egilssonar hrl., 1.166.220 krónur. Þá greiði ákærði 335.119 krónur í annan sakarkostnað. Rétt þykir hins vegar að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 1.628.430 krónur, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 43.848 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Egilssonar hrl., 822.120 krónur, vegna seinni meðferðar málsins fyrir dómi, úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.

            Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Barbara Björnsdóttir, Sigríður Hjaltested og Símon Sigvaldason.

 

                                                            D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, A, sæti fangelsi í fjögur ár. Gæsluvarðhald ákærða frá 7. febrúar 2016 kemur til frádráttar refsingu.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

            Ákærði greiði X 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar til 8. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 2.987.160 krónur, auk 26.448 króna í aksturskostnað, og réttargæsluþóknun Bjarna Haukssonar hrl., 818.400 krónur, og réttargæsluþóknun Jóns Egilssonar hrl., 1.166.220 krónur. Ákærði greiði 335.119 krónur í annan sakarkostnað.

            Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 1.628.430 krónur, auk 43.848 króna í aksturskostnað, og réttargæsluþóknun Jóns Egilssonar hrl., 822.120 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

 

                                                            Barbara Björnsdóttir

                                                            Sigríður Hjaltested

                                                           Símon Sigvaldason