• Lykilorð:
  • Brotaþoli
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Fangelsi
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 14. febrúar 2017 í máli nr. S-280/2016:

Ákæruvaldið

(Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)

gegn

Örvari Ólafssyni

 

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 19. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 18. október sl., á hendur Örvari Ólafssyni,  með óþekkt lögheimili í Reykjavík,  

 

I.

fyrir líkamsárás

með því að hafa, aðfararnótt föstudagsins 17. júní 2016, á þáverandi heimili sínu við A, veist með hrindingum að B, ítrekað tekið hana hálstaki og þrengt að öndunarvegi hennar svo hún átti erfitt með andardrátt.

 

Telst brot ákærða varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

II.

fyrir barnaverndarlagabrot

með því að hafa, er atvik þau er í fyrsta ákærulið greinir áttu sér stað, misboðið, móðgað og sýnt af sér yfirgang og ruddalegt athæfi gagnvart C er ákærði kvaðst ætla að sýna C hvernig ákærði myndi niðurlægja B, áður en ákærði veittist að B að C ásjáandi.

                                                                                                                

Telst brot ákærða varða við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

 

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og lýsti yfir að hann óskaði ekki eftir skipun verjanda. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði fjórum sinnum áður sætt refsingu, síðast á árinu 2009. Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Að virtum atvikum máls, að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða og sakaferils hans, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 49.006 kr. 

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Örvar Ólafsson, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsinga og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 49.006 krónur.

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.