• Lykilorð:
  • Klám
  • Upptaka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 17. febrúar 2017 í máli

nr. S-267/2016:

 

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson hdl.)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 13. febrúar, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi þann 5. desember 2016 með ákæru á hendur X, kt. 000000-0000, ..., ...,

„fyrir kynferðisbrot, með því að hafa frá 12. febrúar til 3. október 2016, þegar hann var handtekinn af lögreglu á heimili sínu haft í vörslum sínum og skoðað myndir og myndskeið af börnum sem sýnd voru á kynferðislegan og klámfenginn hátt eða samskonar myndir af einstaklingum sem orðnir voru 18 ára, sem voru í hlutverki barns, en myndir þessar skoðaði hann í borðtölvu af gerðinni Lenovo sem hann átti og hafði á heimili sínu.  Í nefndri borðtölvu fundust 40 klámfengnar myndir eins og lýst er hér að ofan og ein myndbandaskrá (mp4).

Telst þetta varða við 1. mgr. og 2. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 58/2012.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakar­kostnaðar og jafnframt gerð sú krafa að Lenovo turntölva sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins verði gerð upptæk til ríkissjóðs, samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga.“

Ákærði krefst sýknu en til vara vægustu refsingar.

I

Lögreglu bárust í september upplýsingar um að ákærði væri með gróft barnaklám í tölvu sem hann ætti. Fóru lögreglumenn til ... í október og haldlögðu tölvu og svokallaðan flakkara.  Fannst meint barnaklám í tölvunni.  Liggja myndirnar frammi í málinu og fer ekki á milli mála að um er að ræða efni sem fellur undir 1. mgr., 210 gr. a almennra hegningarlaga. 

Ákærði, A lögregluþjónn og B gáfu skýrsl­ur fyrir dómi. Ákærði kvaðst ekki kannast við þetta efni og ekki geta skýrt til­komu þess en hann kvaðst hafa keypt tölvuna notaða af B í ágúst sl. Kvaðst hann ekki geta skýrt það að gögn málsins bera með sér að einhverjar skrár með klámefni hafa verið opnaðar eftir þann tíma. 

B kvaðst hafa selt ákærða tölvuna líklega öðru hvorum megin við áramótin 2015 til 2016.  Vitnið kvaðst hafa fengið greitt mun seinna. Vitnið kvaðst hafa byggt vélina upp úr notuðum hlutum og hafa „straujað“ hana áður en hann afhenti hana ákærða.  Kvað vitnið vera útilokað að klámefni hefði þá verið í henni. 

Framburður ákærða þykir ekki trúverðugur þegar litið er til þeirra gagna sem fyrir liggja og framburðar vitnisins B.  Er nægilega sannað að ákærði hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við þar tilgreint refsiákvæði.

II

Ákærði hefur þrívegis verið dæmdur fyrir ölvunarakstur og fleiri brot gegn umferðarlögum, síðast 8. mars 2013 er hann var dæmdur í 60 daga fangelsi, þar af 30 dagar skilorðsbundnir í þrjú ár og sviptur ökurétti ævilangt. Ákærði hefur nú rofið skilorð þessa dóms, en með heimild í 60. gr. almennra hegningarlaga verður skilorðið látið haldast og ákærða dæmd refsing sér í lagi.  Ákveðst hún sekt að fjárhæð 200.000 krónur sem ákærði skal greiða innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en ella sæta fangelsi í 14 daga. 

Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Þá verður gerð upptæk Lenovo turntölva eins og krafist er.

Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, X, greiði 200.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 14 daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Arnar Blöndals héraðs­dómslögmanns, 126.480 krónur.

Gerð er upptæk Lenovo turntölva.