• Lykilorð:
  • Gjafsókn
  • Gæsluvarðhaldsvist
  • Miskabætur
  • Skaðabótamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2017 í máli nr. E-3533/2016:

A

(Bjarni Hauksson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(María Thejll hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 10. mars 2017, var höfðað 16. nóvember 2016 af hálfu A, [...], á hendur íslenska ríkinu til greiðslu miskabóta.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda miskabætur að fjárhæð 2.600.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun lögmanns, án tillits til gjafsóknar.

Stefndi krefst þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Atvik málsins eru þau að stefnandi var handtekinn aðfaranótt 26. október 2013 þegar hann var við störf sem dyravörður á veitingastaðnum [...]. Lögregla kom þá á staðinn og handtók alla starfsmennina vegna gruns um að þar væri rekin vændisstarfsemi. Stefnandi kveðst hafa verið yfirheyrður af lögreglu og kynnt sakarefnið þá um nóttina og aftur um morguninn. Hann hafi gert grein fyrir starfi sínu á veitingastaðnum og því að hann vissi ekki til þess að vændi væri stundað þar. Síðar sama dag var stefnanda með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 8. nóvember 2013 á grundvelli rannsóknarhagsmuna og var honum gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stæði. Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar Íslands, sem staðfesti með dómi 29. október 2013 að stefnandi skyldi sæta gæsluvarðhaldi og einangrun, en þó einungis til 1. nóvember 2013. Stefnandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi þann dag.

Stefnandi kveðst hafa svarað öllum spurningum lögreglu og gert grein fyrir hlutverki sínu á veitingastaðnum. Starf hans hafi falist í dyravörslu og engin mannaforráð hefðu fylgt því. Hann hefði lýst því hvernig samskiptum við aðra starfsmenn hefði verið háttað og hvernig almennt verklag hefði verið á veitingastaðnum. Hann hafi alltaf neitað allri vitneskju um að vændi væri stundað þar og hafi hann ekkert komið nálægt neinu slíku. Stefnandi kveðst hafa verið yfirheyrður fjórum sinnum af lögreglu á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi. Stefndi kveður það ekki vera rétta frásögn. Stefnandi hafi fyrst verið yfirheyrður hjá lögreglu um hádegi 26. október 2013 meðan hann sætti handtöku. Hann hafi svo verið yfirheyrður tvisvar sinnum á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi. Fyrst 30. október 2013 og aftur sama dag og gæsluvarðhaldið rann út, þann 1. nóvember 2013.

Með bréfi ríkissaksóknara, dags. 18. júní 2015, var stefnanda tilkynnt að rannsókn málsins væri lokið. Málið hefði verið fellt niður hvað hann varðaði á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008, þar sem það sem fram hefði komið við rannsóknina þætti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellingar.

Stefnandi krefst í máli þessu miskabóta vegna handtöku og síðan gæsluvarðhalds í einangrun frá 26. október 2013 til 1. nóvember s.á., samtals í sjö daga. Bótakrafa stefnanda var kynnt stefnda með birtingu stefnu 16. nóvember 2016. Stefndi viðurkennir bótaskyldu, en aðila greinir á um hæfilega bótafjárhæð. Stefndi telur bótakröfu stefnanda of háa og hefur boðist til að greiða honum 600.000 krónur í miskabætur.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Bótaskylda stefnda

Stefnandi telji með vísan til atvika málsins að fyrir liggi bótaskylda ríkisins á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt 1. og 2. mgr. lagaákvæðisins eigi maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta vegna handtöku og gæsluvarðhalds ef mál hans hefur verið fellt niður. Samkvæmt 4. mgr. sama lagaákvæðis skuli bæta bæði fjártjón og miska.

Þvingunaraðgerðir í formi handtöku og gæsluvarðhalds feli í sér meiri háttar skerðingu á persónufrelsi einstaklinga, sem verndað sé í 67. gr. stjórnarskrárinnar, 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og fleiri alþjóðasáttmálum um mannréttindi. Þessar þvingunaraðgerðir séu þær mest afgerandi sem ríkisvaldið geti beitt gegn borgurunum og það sé augljós krafa samfélagsins að einstaklingar fái bætt það tjón sem af þeim hljótist þegar í ljós komi að þeim hafi verið beitt ranglega. Stefnandi hafi með ólögmætum hætti verið sviptur frelsinu með handtöku og gæsluvarðhaldi og hafi ríkisvaldið þannig brotið á hans helgustu mannréttindum.

Stefnandi hafi alltaf neitað sök undir rannsókn málsins. Miðað við rannsóknargögn virðist grunur lögreglu eingöngu hafa byggst á því að hann væri að vinna þarna á veitingastaðnum og hlyti þess vegna að hafa vitað eitthvað um ætlaða ólögmæta starfsemi. Ekki sé að sjá að nokkur maður sem skýrslu hafi gefið í málinu hafi borið á stefnanda sök. Virðist hann þannig alfarið hafa verið fórnarlamb aðstæðna.

Með vísan til þess að málið hafi verið látið niður falla gagnvart stefnanda og atvika allra verði að telja að fyrir liggi bótaskylda ríkisins á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt ákvæðinu eigi maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta vegna aðgerða skv. IX-XIV kafla laganna hafi mál hans verið fellt niður. Stefnandi hafi saklaus verið handtekinn og sætt síðan gæsluvarðhaldi og einangrun í sjö daga. Engu breyti um bótarétt hans þó að talið yrði að þvingunaraðgerðir hefðu verið lögmætar, eins og á stóð, þegar ákvörðun um þær hafi verið teknar, og að mat lögreglu og dómstóla um að beita þessum úrræðum hefði verið byggt á lögmætum grundvelli. Bótaréttur stofnist þegar mál manns sem borinn hefur verið sökum í sakamáli hafi verið fellt niður samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Engin skilyrði séu fyrir hendi til að lækka bætur eða fella þær niður á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, enda hafi stefnandi ekki valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á. Grunur lögreglu um aðild stefnanda að refsiverðu broti hafi verið byggður á veikum grunni og hann hafi afdráttarlaust neitað sök frá upphafi. Framburður hans hafi verið stöðugur og staðfastur um þau atriði sem máli hafi skipt. Hann hafi svarað öllum spurningum lögreglu og veitt mikilvægar upplýsingar um þá starfsemi sem fór fram á veitingastaðnum. Hann hafi aldrei reynt að afvegaleiða lögreglu í framburði sínum eða með öðru háttalagi og hafi að öllu leyti verið samvinnuþýður. Ekkert í framburði hans eða framferði almennt eftir handtöku hafi verið þess eðlis að hann hafi valdið eða stuðlað að umræddum þvingunaraðgerðum. Hann hafi að engu leyti sýnt af sér eigin sök í framangreindum skilningi laga um meðferð sakamála. Jafnvel þó að talið yrði að hann hafi að einhverju leyti valdið þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á hafi þær gengið of langt. Ekki hafi verið ástæða til að svipta hann frelsinu í svo langan tíma.

Bótakrafa stefnanda

Stefnandi hafi orðið fyrir stórfelldum miska vegna þvingunaraðgerða lögreglu. Við mat á miska verði að hafa í huga að stefnandi hafi ranglega verið sakaður um aðild að mjög alvarlegu refsiverðu broti. Hann hafi ekki aðeins þurft að þola langa frelsissviptingu vegna málsins heldur fylgi slíku máli mikil fordæming af hálfu samfélagsins. Sakargiftum hafi verið lýst sem sölu og milligöngu um vændi og ekki þurfi að fjölyrða um alvarleika slíkra brota. Stefnandi sé fjölskyldumaður og eigi eiginkonu og tvö börn. Dóttir hans hafi verið [...] þegar málið hafi komið upp og [...] sonur hans [...]. Það hafi gert málið erfiðara fyrir stefnanda en ella að börnin hafi verið á viðkvæmum aldri þegar hann sætti þvingunaraðgerðum. Telji hann að umtalið í kringum málið og fordæmingin hafi bitnað á honum og fólkinu hans og muni bitna á þeim um ókomna tíð. Þannig hafi málið valdið stefnanda augljósum óþægindum og raskað högum hans og stöðu og í því felist miski hans.

Sundurliðun stefnukröfu

Stefnandi sundurliðar kröfu sína um miskabætur með eftirgreindum hætti:

1. Handtaka                                                     500.000 kr.

2. Gæsluvarðhald (7 d x 300.000 kr.)

2.100.000 kr.

Samtals

2.600.000 kr.

Lagarök

Til stuðnings kröfu sinni um bætur vísi stefnandi til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þar segi að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Þá vísi hann einnig til ákvæðis 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar komi fram í 1. mgr. að maður sem borinn hafi verið sökum í sakamáli eigi rétt til bóta skv. 2. mgr., ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi, án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann væri talinn ósakhæfur.

Þá vísi stefnandi til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafi lagagildi á Íslandi með lögum nr. 62/1994, alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979, og til almennra skaðabótareglna. Mál stefnanda hafi verið fellt niður af ríkissaksóknara og liggi þannig fyrir að hann hafi saklaus sætt þvingunaraðgerðum lögreglu. Stefnandi eigi rétt á fullum bótum og hann verði ekki sakaður um að hafa valdið eða stuðlað að aðgerðum lögreglu og dómstóla sem hann reisi kröfu sína á þannig að efni séu til að lækka eða fella niður bætur.

Krafan um vexti og dráttarvexti á stefnukröfu sé byggð á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað sé byggð á 129. til 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Um aðild vísist til 1. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Um varnarþing vísist til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. sakamálalaga, nr. 88/2008, eigi maður, sem borinn hefur verið sökum í sakamáli, rétt til bóta ef mál hans hefur verið fellt niður. Samkvæmt 2. mgr. 228. gr. skuli dæma bætur vegna aðgerða samkvæmt IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi. Eftir síðari málslið málsgreinarinnar megi þó fella þær niður eða lækka hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á. Ekki séu sett frekari skilyrði fyrir hinni hlutlægu bótaábyrgð samkvæmt XXXVII. kafla laga nr. 88/2008.

Í dómaframkvæmd hafi ekki verið talið skipta máli hvort lögmæt skilyrði hafi brostið til aðgerða sem haft hafi í för með sér tjón eða hvort ekki hafi verið, eins og á hafi staðið, nægilegt tilefni til að grípa til þeirra eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Í dómaframkvæmd hafi ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar með áorðnum breytingum verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur XXXVII. kafla laga nr. 88/2008.

Stefndi líti svo á að ekki verði séð að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann byggi kröfu sína á. Hann eigi því rétt á eðlilegum bótum samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laganna.

Bótafjárhæð sem krafið sé um sé mótmælt sem allt of hárri og órökstuddri. Á því sé byggt að lækka beri kröfur stefnanda til muna enda séu þær í miklu ósamræmi við dómaframkvæmd þar sem fallist hafi verið á bótaskyldu. Það ósamræmi sé í engu rökstutt. Ekki sé útskýrt í stefnu hvers vegna bætur til stefnanda ættu að vera miklu hærri en bætur í sambærilegum málum.

Krafa stefnda um niðurfellingu málskostnaðar grundvallist á þeirri staðreynd að stefnandi hafi ekki beint neinni bótakröfu að stefnda áður en hann hafi höfðað málið. Tilraunir stefnda til að sætta málið með greiðslu miskabóta eftir þingfestingu þess fyrir dómi hafi ekki borið árangur.

Stefndi vísi til áðurgreindra laga og réttarheimilda varðandi lækkunarkröfu. Krafa um niðurfellingu málskostnaðar styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Niðurstaða

Í máli þessu greinir aðila á um það hver sé hæfileg fjárhæð miskabóta sem stefnda beri að greiða stefnanda á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Ágreiningslaust er að stefnda beri að greiða stefnanda bætur vegna handtöku hans aðfaranótt 26. október 2013 og gæsluvarðhaldsvistar hans í einangrun í framhaldi af þeirri handtöku frá því síðdegis þann 26. október 2013 þar til 1. nóvember s.á. Stefndi hefur boðist til að greiða stefnanda 600.000 krónur og telur það hæfilega fjárhæð. Stefnandi krefst miskabóta að fjárhæð 2.600.000 krónur, þar af 500.000 króna vegna handtöku. Þegar miskabætur eru ákveðnar á þessum grundvelli eru þær almennt ákveðnar í einu lagi og hefur ekki skapast dómvenja fyrir því að ákveða sérstaklega bætur fyrir handtöku þegar jafnframt er krafist bóta vegna gæsluvarðhalds.

Til að gæta jafnræðis, eftir því sem unnt er, ber að taka mið af dómaframkvæmd við ákvörðun fjárhæðar bóta, sem ríkinu er gert að greiða samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/2008. Við mat á bótafjárhæð hefur í dómaframkvæmd m.a. verið litið til þess hvers eðlis þvingunaraðgerðir séu og til þess hversu lengi þær standa. Þá verður ráðið að málsatvik skipti máli þegar bótafjárhæð er ákveðin, m.a. um ástæður þess hversu lengi þvingunaraðgerðir standa. Litið er annars vegar til þess hvort sá sem í gæsluvarðhaldi hefur setið hefur verið staðfastur í framburði sínum eða hvort framburður hans hafi tekið breytingum þannig að rannsókn dragist á langinn af þeim sökum. Hins vegar kann að standa svo á að yfirvöld hafi dregið yfirheyrslur eða aðrar rannsóknaraðgerðir að nauðsynjalausu þannig að þvingunaraðgerðir hafi af þeim sökum staðið lengur en efni stóðu til.

Stefnandi vísar til stuðnings kröfum sínum um hærri bætur en boðnar eru m.a. til þess að brot sem varða vændisstarfsemi, og honum hafi verið gefið að sök að hafa átt hlutdeild í, séu alvarleg og fordæmd í samfélaginu og miski hans sé því mikill. Sú málsástæða að eðli brots skuli hafa áhrif á bótafjárhæð vegna gæsluvarðhalds fær að nokkru stoð í réttarframkvæmd í öðrum norrænum ríkjum. Í Danmörku gilda t.d. um hliðstæða bótareglu tiltekin viðmið varðandi bótafjárhæðir. Þar er m.a. litið til eðlis og alvarleika þess brots sem viðkomandi er gefið að sök við ákvörðun bóta vegna gæsluvarðhalds. Eru bætur þá ákveðnar þeim mun hærri sem meint brot var alvarlegra.

Lögmenn aðila vísuðu við málflutning til nýlegra dóma til stuðnings kröfum sínum. Af hálfu stefnda var m.a. vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. desember 2016 í máli nr. E-1359/2016. Í því máli voru manni, sem handtekinn var 26. október 2013 við sömu lögregluaðgerð og stefnandi var handtekinn, dæmdar miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur. Sá maður hafði sætt gæsluvarðhaldi í einangrun í framhaldi af handtöku lengur en stefnandi í þessu máli, eða til 5. nóvember 2013. Telur stefndi að með hliðsjón af því eigi stefnandi í þessu máli ekki rétt til hærri miskabóta en 600.000 króna, svo sem stefndi hafi boðið honum.

Þess er að gæta að í málinu sem dæmt var 7. desember sl. var því haldið fram af hálfu stefnda að það hefði haft áhrif á tímalengd gæsluvarðhaldsins að maðurinn breytti framburði sínum hjá lögreglu og að það hefði verið til þess fallið að torvelda rannsókn málsins. Í máli þessu er ekki um neitt slíkt að ræða og er það ágreiningslaust að stefnandi hafi verið staðfastur í framburði sínum. Stefndi kveður skýrslu fyrst hafa verið tekna af stefnanda um hádegi 26. október 2013 og að hann hafi aðeins tvisvar sinnum verið yfirheyrður meðan hann sætti gæsluvarðhaldi í einangrun, fyrst 30. október 2013 og loks 1. nóvember s.á., en þann dag var hann látinn laus. Stefndi telur stefnanda ekki hafa valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann byggir kröfur sínar á.

Með hliðsjón af fyrrnefndum sjónarmiðum um þau áhrif sem ástæður þess hversu lengi gæsluvarðhald varir geta haft við ákvörðun bóta og mismunandi atvikum að þessu leyti í málunum tveimur, sem að öðru leyti eru hliðstæð, verður ekki fallist á það með stefnda að til þess að samræmis sé gætt verði stefnanda ekki ákveðnar hærri bætur en 600.000 krónur. Á hinn bóginn fær fjárhæð bótakröfu stefnanda ekki stoð í dómaframkvæmd í málum af þessu tagi. Verður því fallist á kröfu stefnda um verulega lækkun hennar.

Að virtum málsatvikum og þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin eru miskabætur sem stefnda verður gert að greiða stefnanda vegna framangreindra atvika hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Stefnandi krefst þess í stefnu að bótafjárhæðin beri dráttarvexti frá þingfestingu málsins, 22. nóvember 2016. Stefndi mótmælti ekki þeim upphafsdegi dráttarvaxta fyrr en við aðalmeðferð málsins. Var sú málsástæða þá of seint fram komin og kemst ekki að í málinu gegn andmælum stefnanda. Verða dráttarvextir því ákveðnir frá þingfestingardegi svo sem krafist er, sbr. og niðurlag 9. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi krefst þess að málskostnaður milli aðila verði látinn niður falla. Það er m.a. heimilt ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í málinu er deilt um fjárhæð miskabóta. Þótt málatilbúnaður stefnanda lúti einnig að bótagrundvellinum er óumdeilt að stefnda gafst ekki tilefni til að viðurkenna bótaskyldu sína gagnvart stefnanda fyrr en málið var höfðað og gerði það þá. Með framangreindri niðurstöðu dómsins er fjárhæð bóta ákveðin mun lægri en stefnandi krafðist en þó hærri en stefndi hafði boðið. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og krefst málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, svo sem áskilið er í gjafsóknarleyfi, en stefnda, íslenska ríkinu, verður ekki gert að greiða málskostnað í ríkissjóð samkvæmt 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991. Að öllu þessu virtu fellur málskostnaður milli aðila niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Bjarna Haukssonar hrl., sem ákveðin er 744.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 800.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 22. nóvember 2016 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Bjarna Haukssonar hrl., 744.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                                        Kristrún Kristinsdóttir