• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2014 í máli nr. S-111/2014:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Eric N. Bremer

 

 

            Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 4. febrúar 2014 á hendur ákærða, Eric N. Bremer, kt. [...], Sóleyjarrima 9, Reykjavík. Málið var dómtekið 24. febrúar 2014.

            Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir eftirtalin hegningarlaga- og fíkniefnalagabrot:

                                                                        I.

            fyrir eftirtalda þjófnaði með því að hafa:

 

1.             Að morgni fimmtudagsins 28. nóvember 2013, brotist inn í einbýlishús að [...] í Kópavogi, með því að spenna upp glugga á norðurhlið húsnæðisins og stolið þaðan Sony PSVita leikjatölvu, tveimur tölvuleikjum, Nike íþróttatösku sem innihélt íþróttafatnað, skartgripum, armbandsúri og kr. 40.000 í reiðufé.

 

2.             Að morgni fimmtudagsins 28. nóvember 2013, brotist inn á neðri hæð íbúðarhúsnæðis að [...] í Kópavogi, með því að spenna upp glugga við hlið útidyrahurðar, og stolið þaðan Lenovo fartölvu, MP3 flakkara, skjávarpa og Adidas bakpoka.

 

3.             Fimmtudaginn 28. nóvember 2013 brotist inn á neðri hæð íbúðarhúsnæðis að [...] í Kópavogi, með því að spenna upp glugga í svefnherbergi, og stolið þaðan Canon myndavél ásamt tveimur linsum og skartgripum.

 

4.             Að morgni fimmtudagsins 28. nóvember 2013, brotist inn á annarri hæð íbúðarhúsnæðis að [...] í Kópavogi, með því að fara inn um opinn glugga á norðurhlið húsnæðisins, og stolið þaðan skartgripum.

 

5.             Föstudaginn 29. nóvember 2013 brotist inn í íbúð á fyrstu hæð að [...] í Kópavogi, með því að spenna upp glugga á vesturhlið húsnæðisins, og stolið þaðan tveimur flatsjónvarpstækjum, Benelli haglabyssu, hleðslutæki og 3.000 kr. í reiðufé.

 

            Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

                                                                        II.

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 29. nóvember 2013, á heimili sínu að Sóleyjarrima 9, Reykjavík, haft í vörslum sínum 1,28 g af maríhúana og sem hann framvísaði til lögreglu á vettvangi.

 

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk ofangreind 1,28 g af maríhúana sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

 

            Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin, sem réttilega eru færð til refsilaga í ákæru.

            Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki mál á sakaskrá sem hafa áhrif við ákvörðun refsingar. Þá horfir það ákærða til málsbóta að hann hefur greiðlega gengist við brotunum. Að þessu gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Þar sem ákærði hefur ekki áður gerst sekur um auðgunarbrot er rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

            Með vísan til þeirra lagaákvæða sem greinir í ákæru verða gerð upptæk þau fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

            Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn og rekstri málsins.

            Guðfinnur Stefánsson settur héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, Eric N. Bremer, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum.           

            Ákærði sæti upptöku á 1,28 g af marihuana.

 

                                                                           Guðfinnur Stefánsson