• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Fangelsi
  • Eignaupptaka
  • Útivist
  • Verjandi

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 16. mars 2017  í máli nr. S-251/2016:

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi)

gegn

Þorvaldi Magnússyni

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var 8. desember sl. og dómtekið fimmtudaginn 9. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 18. október sl., á hendur Þorvaldi Magnússyni,  til heimilis að Suðurgötu 79, Hafnarfirði, 

 

“fyrir fíkniefnalagabrot og brot á lögum um fullnustu refsinga:

með því að hafa að morgni fimmtudagsins 19. nóvember 2015 er ákærði sem þá var til afplánunar í fangelsinu að Litla Hrauni á Eyrarbakka, var fluttur af fangavörðum til fyrirtöku við Héraðsdóm Suðurlands við Austurveg á Selfossi, haft í vörslu sinni að hluta til í dreifingarskyni 51,53 g af maríhúana sem óþekktir aðilar höfðu komið fyrir á salerni dómstólsins en ákærði kom fíkniefnunum þar fyrir innvortis upp í endaþarmi sínum og hugðist þannig smygla þeim inn í fangelsið að Litla Hrauni á Eyrarbakka, en umrædd fíkniefni fundust er ákærði var færður til röntgenrannsóknar á HSU eftir hádegi sama dag.

 

Telst brot ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum og 81. gr. laga 49, 2005 um fullustu [sic] refsinga sbr. 1. tl. 52. gr. sömu laga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá lögreglu nr. 31498) samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 28. nóvember sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var tekið til dóms, samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þann 9. mars sl., eftir að því hafði í tvígang verið frestað að beiðni skipaðs verjanda ákærða, en ekki var mætt af hálfu ákærða í þinghald framangreindan dag.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði sextán sinnum áður sætt refsingu frá árinu 2000, þar af sjö sinnum vegna fíkniefnalagabrota, síðast með dómi uppkveðnum 19. nóvember 2015, þar sem ákærða var dæmdur hegningarauki, en ekki gerð sérstök refsing. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms og verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Að virtum sakaferli ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði.

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs verjanda hans og er hæfilega ákveðin 347.820 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts, að teknu tilliti til starfa verjanda á rannsóknarstigi, auk ferðakostnaðar verjanda, sem nemur 33.000 kr.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Þorvaldur Magnússon, sæti fangelsi í 30 daga.  

Gerð eru upptæk 51,53 g af maríhúana, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 31498.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samtals 380.820 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 347.820 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts og ferðakostnaður verjanda, 33.000 krónur.  

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.