• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Verjandi

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 14. febrúar 2017 í máli nr. S-259/2016:

Ákæruvaldið

(Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)

gegn

Zbigniew Józef Troscianko

(Dagmar Arnardóttir hdl.)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var 12. janúar sl., og dómtekið fimmtudaginn 19. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 2. nóvember sl., á hendur Zbigniew Józef Troscianko,  Öldugerði 16, Hvolsvelli,  

 

“fyrir hótanir

með því að hafa, aðfararnótt fimmtudagsins 31. desember 2015, í símtali hótað A, að brenna á henni augun og þannig valdið ótta hjá henni um líf, heilbrigði og velferð hennar sjálfrar.

                                                                        

Telst brot ákærða varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og var Dagmar Arnardóttir hdl., skipuð verjandi ákærða að hans ósk. Óskaði ákærði þá eftir fresti til að taka afstöðu til sakarefnisins. Ákærði mætti aftur fyrir dóminn 19. janúar sl., án þess að skipaður verjandi væri viðstaddur. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði þrisvar sinnum áður sætt refsingu. Þann 29. nóvember 2013, var ákærði fundinn sekur um líkamsárás og hótanir, og honum gert að sæta fangelsi í sex mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Að virtum atvikum máls, að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða og þess að hann stóðst skilorð eldri dóms, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Með tölvupósti til dómsins dags. 18. janúar sl., afsalaði verjandi ákærða sér þóknun vegna málsins. Engan sakarkostnað leiddi því af máli þessu.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Zbigniew Józef Troscianko, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.