• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Nytjastuldur
  • Skilorðsrof

Árið 2017, miðvikudaginn 15. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-125/2016:

 

Ákæruvaldið

(Arndís Bára Ingimarsdóttir fulltrúi)

gegn

                                                Luai Ómari Einarssyni

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var 13. október 2016 og dómtekið 15. febrúar 2017, er höfðað með tveimur ákærum útgefnum af Lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum, sú fyrri dagsett 30. ágúst 2016, á hendur Luai Ómari Einarssyni,  Stífluseli 14, Reykjavík

 

fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot

með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 31. júlí 2015 tekið bifreiðina [...] í heimildarleysi úr innkeyrslu við Birkihlíð 12 í Vestmannaeyjum og ekið bifreiðinni, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, sem leið lá að Nýjabæjarbraut 10 í Vestmannaeyjum. Eftir aksturinn var bifreiðin óökufær þar sem stýrisbúnaður hennar var ónýtur auk þess sem vinstra framdekk var eyðilagt og vinstri hlið bifreiðarinnar rispuð.

(Mál nr. 319-2015-2719)

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum, 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkröfur:

Þá hefur Helgi Már Ólafsson hdl. krafist þess, fyrir hönd B að ákærði verði dæmdur til að greiða [...] bætur samtals að fjárhæð kr. 1.621.270, auk vaxta frá 11.12.2015 skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttavexti skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

 

Auk þess hefur A, krafist þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér bætur að fjárhæð kr. 91.700, auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31.07.2015 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“

 

Þá er málið höfðað með ákæru sama lögreglustjóra, dags. 11. október 2016, á hendur ákærða

 

„fyrir fíkniefnalagabrot

I.

með því að hafa að kvöldi laugardagsins 30. júlí 2016 haft í vörslum sínum samtals 2,99 gr. af kókaíni og 2,90 gr. af amfetamíni en efnin fundust í jakkavasa ákærða við fíkniefnaeftirlit lögreglu við Áshamar 24 í Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2016-2713)

 

II.

með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí 2016 haft í vörslum sínum samtals 7 töflur af MDMA og 0,42 gr. af amfetamíni en efnin fundust í buxnavasa ákærða við almennt fíkniefnaeftirlit lögreglu við Skólaveg í Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2016-2738)

 

Teljast brot ákærða samkvæmt ákæruliðum I. og II. varða við 2., sbr., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/1001 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á samtals 3,32 gr. af amfetamíni, 2,99 gr. af kókaíni og 7 töflum af MDMA samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 með síðari breytingum.“

Síðari ákæran var þingfest 8. desember 2016 undir málanúmerinu S-200/2016, en í þinghaldi 15. febrúar 2017 voru málin sameinuð undir málanúmeri þessa máls, þ.e. S-125/2016.

Í þinghaldi 15. febrúar 2017 óskaði sækjandi eftir að falla frá þeim lið ákæru 30. ágúst 2016 sem varðar það að ákærði hafi ekið þar greindri bifreið undir áhrifum áfengis og féll jafnframt frá kröfu um sviptingu ökuréttar.

Við fyrirtöku málsins 15. febrúar 2017 játaði skýlaust alla háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt báðum framangreindum ákærum, að teknu tilliti til framangreindrar breytingar á ákæru 30. ágúst 2016.

Þá samþykkti ákærði í síðastgreindu þinghaldi fram komnar einkaréttarkröfur.

Var málið þá tekið til dóms skv. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eftir að sækjandi og skipaður verjandi höfðu tjáð sig um lagaatriði og viðurlög, enda taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játningin væri sannleikanum samkvæm.

Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær dómkröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu bótakrefjenda eru þær kröfur gerðar sem að framan greinir.

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa, auk hæfilegra málsvarnarlauna skipaðs verjanda.

Um málavexti vísast til ákæruskjala. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærum, eins og ákæru 30. ágúst 2016 hefur verið breytt, og þar þykir rétt færð til refsiákvæða, að því gættu að heimfærsla háttsemi til ákvæða 1. og 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 í ákæru 30. ágúst 2016 á ekki lengur við.

Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hófst sakaferill ákærða með því að þann 18. desember 2009 var hann sakfelldur fyrir þjófnað og nytjastuld, auk aksturs án ökuréttinda og annarra umferðarlagabrota. Var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í 2 ár. Þann 4. október 2011 gekkst ákærði undir 34.000 kr. fésektargreiðslu hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fyrir ávana- og fíkniefnabrot. Þann 3. maí 2012 var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir þjófnað og ávana- og fíkniefnabrot. Þann 30. ágúst 2012 var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár fyrir þjófnað og var dómurinn hegningarauki. Þann 28. maí 2014 gekkst ákærði undir að greiða féksekt að fjárhæð 350.000 kr. með viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Reykjavíkur, fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk ávana- og fíkniefnabrota. Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í 12 mánuði frá 28. maí 2014. Þann 7. febrúar 2015 gekkst ákærði undir að greiða fésekt að fjárhæð 60.000 kr. hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fyrir akstur sviptur ökurétti. Þann sama dag, þ.e. 7. febrúar 2015, gekkst ákærði undir að greiða fésekt að fjárhæð 340.000 kr. með viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ölvunarakstur, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur sviptur ökurétti. Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í 24 mánuði frá 28. maí 2015. Þann 20. maí 2015 gekkst ákærði undir að greiða tvær fésektir, með tveimur sektargerðum hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, báðar að fjárhæð 90.000 kr. og var önnur fyrir brot gegn tollalögum nr. 88/2005 og hin fyrir brot gegn vopnalögum nr. 16/1998. Lokst gekkst ákærði undir tvær fésektir með sektargerðum hjá Lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum þann 1. apríl 2016 og voru báðar vegna ávana- og fíkniefnabrota,  og var önnur að fjárhæð 50.000 kr. en hin að fjárhæð 65.000 kr.

Brot ákærða samkvæmt ákæru 30. ágúst 2016 voru framin 31. júlí 2015 og rauf hann með þeim skilorð dómsins frá 30. ágúst 2012, en rannsókn hófst hjá lögreglu gegn ákærða sem sakborningi fyrir lok skilorðstímans og ber að dæma upp refsingu dómsins og gera ákærða refsingu í einu lagi sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en jafnframt ber að líta til 78. gr. sömu laga vegna refsinga sem ákærða hafa verið gerðar eftir að brot hans voru framin 31. júlí 2015. Þá verður litið til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar ákærða nú, sem og þess að hann hefur hreinskilnislega játað brot sín og fallist á að greiða bætur vegna þeirra.

Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði en að virtum atvikum málsins þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti og er brot hans ítrekað. Verður ákærða því jafnframt gert að greiða fésekt að fjárhæð 100.000 kr. innan 4 vikna en sæta ella fangelsi í 8 daga.         

Þá ber samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum að gera upptæk haldlögð fíkniefni eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísun til 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem aðeins er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 653.480 kr.  að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk ferða- og aksturskostnaðar verjandans, 14.989 kr.

Ákærði hefur samþykkt að greiða bótakröfur þær sem greinir í ákæru og verður honum gert að greiða þær eins og nánar greinir í dómsorði, en kröfurnar voru birtar ákærða 30. september 2016 og verður upphaf dráttarvaxta miðað við það er mánuður var liðinn frá þeirri dagsetningu, en ekki þykir fært að miða við það er kröfurnar voru kynntar ákærða í símtali lögreglumanns við hann þann 14. júlí 2016.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Luai Ómar Einarsson, sæti fangelsi í 5 mánuði.

Fresta ber fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 100.000 kr. fésekt til ríkissjóðs innan 4 vikna en sæti ella fangelsi í 8 daga.

Upptæk eru gerð til eyðingar 3,32 gr. af amfetamíni, 2,99 gr. af kókaíni og 7 töflum af MDMA.

Ákærði greiði B 1.621.270 kr., auk vaxta frá 11. desember 2015 skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til 30. október 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði A kr., auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. júlí 2015 til 30. október 2016, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl.,  653.480 kr., auk ferða- og aksturskostnaðar verjandans, 14.989 kr.  

 

 

                                                                                                Sigurður G. Gíslason