• Lykilorð:
  • Vanreifun
  • Skuldamál

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2017 í máli nr. E-1453/2016:

Íslenskir endurskoðendur ehf.

(Ólafur Karl Eyjólfsson hdl.)

gegn

Endurskoðendaþjónustunni ehf.

(Hjalti Steinþórsson hrl.)

 

            Mál þetta, sem tekið var til úrlausnar 21. febrúar sl., er höfðað með stefnu 6. maí sl., af Íslenskum endurskoðendum ehf., Bæjarhrauni 8, Hafnarfirði gegn Endurskoðendaþjónustunni ehf., Skipholti 50d, Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.879.429 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 17. febrúar 2016 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu innheimtuþóknunar að fjárhæð 601.230 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 3. apríl 2016 til greiðsludags. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.

            Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

 

I

            Stefnandi gerir þá grein fyrir málavöxtum að krafa hans sé samkvæmt reikningi vegna veittrar endurskoðendaþjónustu. Stefnandi hafi veitt stefnda endurskoðendaþjónustu við að endurskoða Byggðastofnun fyrir árið 2014, en stefnandi starfi á sviði endurskoðunar. Stefndi hafi verið lægstbjóðandi í örútboði Ríkiskaupa innan rammasamnings Endurskoðunar og reikningshalds nr. 14.21 í endurskoðun á Byggðastofnun, meðal annars. Til að uppfylla kröfur um hæfi, það er að hafa yfir nægum mannskap að ráða til að vinna verk útboðsins, hafi stefndi gert samning við stefnanda um undirverktöku á ákveðnum verkum, þar með talda endurskoðun á Byggðastofnun. Stefndi hafi sinnt endurskoðun á Byggðastofnun frá þeim tíma, en stefndi rift einhliða þeim samningi 25. janúar 2016. Í kjölfarið hafi stefnandi gefið út reikning til innheimtu ógreiddra vinnutíma við endurskoðun Byggðastofnunar.

            Stefndi hefur lýst atvikum með nokkuð ítarlegri hætti. Hann kveðst á árinu 2012 hafa boðið í verk samkvæmt örútboði Ríkiskaupa um endurskoðun og reikningshald og hafi útboðið m.a. tekið til endurskoðunar fyrir Byggðastofnun. Til að tryggja mannskap og tæknilega getu til verksins hafi stefndi efnt til samstarfs við stefnanda. Hafi aðilar gert með sér samstarfssamning 26. nóvember 2012 þar sem stefnandi hafi lofað að veita stefnda þá tæknilegu aðstoð sem með þyrfti til endurskoðunar á grundvelli örútboðs Ríkiskaupa nr. 15257 m.a. með að útvega hæft starfsfólk eins og þyrfti á hverjum tíma. Stefndi hafi verið lægstbjóðandi í allmörg verkefni sem útboðið hafi tekið til, m.a. í endurskoðun fyrir Byggðastofnun. Stefndi hafi í framhaldi gert samning við Ríkisendurskoðun um verkefnið. Þann 22. maí 2013 hafi aðilar þessa máls gert samning um undirverktöku um verkefni í örútboðinu. Í samningnum komi fram að stefnandi takist á hendur að vinna við endurskoðun verkefna sem séu í örútboðinu. Fram komi að öll verk verði unnin í samvinnu stefnda og undir gæðakerfi hans. Að öðru leyti sé aðalefni samningsins ákvæði um þóknun vegna verkefnanna og hafi komið þar fram að þóknun fyrir unna tíma og útlagður kostnaður greiddist samkvæmt tímaskýrslu að því marki sem kostnaður færi ekki umfram tekjur af verkinu. Ef kostnaður yrði meiri en tekjur þá skiptist tekjurnar í hlutfalli við launakostnað eftir að útlagður kostnaður hafi verið greiddur.

Í samræmi við samkomulag aðila hafi þeim verkefnum, sem samningur stefnda við Ríkisendurskoðun tók til og stefndi hafi ekki annast sjálfur, verið skipt niður á endurskoðendur sem væru hluthafar í stefnanda.  Hafi aðstoð við endurskoðun fyrir RÚV komið í hlut Guðna Þórs Gunnarssonar, löggilts endurskoðanda, en aðstoð við endurskoðun á Byggðastofnun komið í hlut Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, löggilts endur­skoðanda. Aðstoð við endurskoðun fyrir Orkubú Vestfjarða hafi verið falin Ómari Kristjánssyni, löggiltum endurskoðanda, en síðar hafi Guðni Þór Gunnarsson gengið inn í það verkefni frá Ómari, en án samráðs við stefnda. Hafi þessir endurskoðendur annast umrædd verkefni og síðan gert reikninga fyrir þóknun sinni á hendur stefnanda, sem aftur hafi gert reikning á hendur stefnda fyrir greiðslunum. Hafi stefnandi þannig aðeins verið milliliður í þessum viðskiptum en ekki annast neina endurskoðun í eigin nafni.

Seint á árinu 2015 hafi Ríkisendurskoðun tilkynnti stefnda að stofnunin þyrfti að taka til sín endurskoðunar­verkefni fyrir tvær heilsugæslustöðvar sem til stæði að sameina en þessi verkefni hafi fallið undir samning stefnda við Ríkisendurskoðun og stefndi sjálfur annast þau. Í framhaldi af þessu erindi Ríkis­endurskoðunar hafi fyrirsvarsmaður stefnda haft samband við framkvæmdastjóra stefnanda og tjáð honum að vegna þessarar breytingar þyrfti að eiga sér stað einhver uppstokkun á þeim verkefnum sem endurskoðendur og hluthafar í stefnanda væru að vinna fyrir stefnda og að líklega myndi stefndi taka til sín vinnu við endurskoðun fyrir RÚV, sem hafi verið hluti af samningsverkinu. Framkvæmdastjóri stefnanda, Guðni Þór Gunnarsson endurskoðandi, sem einnig sé hluthafi í stefnanda, hafi haft það verkefni með höndum eins og áður greini. Síðar hafi verið staðfest á fundi með framkvæmdastjóranum að stefndi myndi sjálfur annast endurskoðun RÚV vegna 2015. Væru atvik þessi öll rakin í tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnda 4. febrúar 2016. Við þessu hafi formaður stjórnar stefnanda brugðist með því að boða til stjórnarfundar þar sem ræða hafi átt uppsögn stefnda á verksamningi vegna RÚV. Hafi fundurinn verið haldinn 1. febrúar 2016. Fyrirsvarsmaður stefnda, sem á þessum tíma hafi átt sæti í stjórn stefnanda, hafi ekki verið boðaður til fundarins sem stjórnarmaður heldur sem fulltrúi stefnda. Hafi hann ekki mætt til fundarins, heldur sent tölvupóst inn á fundinn þar sem hann hafi lýst þeirri skoðun sinni að fundurinn væri ekki boðaður á réttan hátt og jafnframt tekið fram að engin uppsögn hefði átt sér stað á samningi aðila. Á umræddum fundi hafi fundarmenn lýst yfir að þeir litu á uppsögn á verkefni RÚV sem ósk um riftun á samstarfssamningi aðila. Sama dag hafi fyrirsvarsmaður stefnda áréttað að ekki hefði verið um neina uppsögn að ræða og gert nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum. Aftur hafi verið boðað til stjórnarfundar stefnanda 4. febrúar 2016 og sá fundur verið löglega boðaður. Á fundinum hafi m.a. verið rætt um ætlaða riftun á samningi aðila en fyrirsvarsmaður stefnda mótmælt því að um riftun væri að ræða. Þá hafi meirihluti stjórnarmanna samþykkt að tilkynna Ríkisendurskoðun um riftun á samningi stefnanda og stefnda.

Með tölvupósti 5. febrúar 2016 hafi framkvæmdastjóri stefnanda sett fram skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi aðila, sem stefndi hafi talið tilhæfulaus, enda hafi ekki verið um neina uppsögn á samningi aðila að ræða. Hafi fyrirsvarsmaðurinn svarað stefnda með tölvupósti 8. febrúar 2016 og þar m.a. komið fram að stefndi liti svo á að með aðgerðum sínum hefði stefnandi einhliða rift samstarfssamningi aðila. Daginn eftir hafi fyrirsvarsmaður stefnda rifjað upp samskipti þeirra fyrir stefnanda, varðandi verkefni fyrir RÚV í nóvember og desember 2015. Þann 31. janúar 2016 hafi stefnandi gefið út reikning að fjárhæð 2.281.260 krónur og lýst því að reikningurinn væri vegna endurskoðunar fyrir RÚV. Þessi reikningur hafi ekki borist stefnda fyrir þingfestingu málsins og ekki heldur innheimtubréf eða greiðsluáskorun. Þann 16. febrúar 2016 hafi stefnanda borist reikningur í tölvupósti, að fjárhæð 1.797.664 krónur, vegna vinnu við endurskoðun Byggðastofnunar og reikningur að fjárhæð 782.356 krónur vegna vinnu við endurskoðun Orkubús Vestfjarða og síðar innheimtubréf og greiðsluáskoranir vegna þeirra. Hafi stefndi hafnað reikningum þessum með tölvupósti 17. febrúar 2016 og m.a. bent á að hvorki tímaskýrslur né aðrar nauðsynlegar upplýsingar hefðu fylgt reikningunum, auk þess sem lokað væri fyrir aðgang stefnda að Descartes skráningarskerfi verkefnanna og mætti því allt eins gera ráð fyrir því að vinna sú sem reikningarnir væru fyrir kæmi stefnda ekki að neinum notum. Þann 29. febrúar 2016 hafi enn verið haldinn stjórnarfundur stefnanda þar sem fjallað hafi verið um samskipti aðila og um reikninga stefnanda á hendur stefnda. Stefndi hafi síðar ítrekað mótmæli sín við reikningum stefnanda eftir því sem tilefni þótti til, m.a. með bréfi 2. mars 2016. Hafi stefnandi í kjölfarið höfðað mál þetta með stefnu 8. júní 2016.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Guðni Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri stefnanda, Sævart Þór Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri stefnda, sem og Sveinbjörn Sveinbjörnsson, stjórnarmaður í stefnanda, og K endurskoðandi.   

 

II

            Í stefnu gerir stefnandi grein fyrir því að krafa stefnanda sé byggð á reikningi vegna veittrar endurskoðendaþjónustu að fjárhæð 6.879.429 krónur, sem út hafi verið gefinn 12. febrúar 2016, með eindaga 17. febrúar 2016. Stefnandi hafi veitt stefnda endurskoðendaþjónustu við að endurskoða Byggðastofnun fyrir árið 2014, en stefnandi starfi á sviði endurskoðunar. Stefndi hafi verið lægstbjóðandi í örútboði Ríkiskaupa innan rammasamnings Endurskoðunar og reikningshalds nr. 14.21 í endurskoðun á Byggðastofnun, meðal annars. Til að uppfylla kröfur um hæfi, það er að hafa yfir nægum mannskap að ráða til að vinna verk útboðsins, hafi stefndi gert samning við stefnanda um undirverktöku á ákveðnum verkum, þar með talda endurskoðun á Byggðastofnun. Stefnandi hafi sinnt endurskoðun á Byggðastofnun frá þeim tíma, en stefndi rift einhliða þeim samningi 25. janúar 2016. Í kjölfarið hafi stefnandi gefið út reikning til innheimtu ógreiddra vinnutíma við endurskoðun Byggðastofnunar. Stefndi hafi hafnað greiðslu reikningsins án efnislegs rökstuðnings. Stefnandi hafi ítrekað kröfu sína um greiðslu á reikningnum með bréfi 9. mars 2016. Krafa stefnanda sé lögmæt en ógreidd og hafi stefnandi enga möguleika aðra, til að fá kröfuna greidda, nema með atbeina dómstóla.

Stefnandi vísar til meginreglunnar um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. stoð í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum, sér í lagi III. kafla laganna. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.  

 

III

Stefndi kveður stefnanda vísa, til stuðnings kröfu sinni, til meginreglunnar um efndir fjárskuldbindinga og virðast byggja kröfu sína á samningi aðila. Í samningi aðila um undirverktöku, frá 22. maí 2013, sé ákvæði um þóknun í 3. gr. Þar komi fram að þóknun fyrir unna tíma og útlagðan kostnað greiðist samkvæmt tímaskýrslu að því marki sem kostnaður fari ekki umfram tekjur af verkefninu. Verði kostnaður meiri en tekjur þá skiptist tekjurnar í hlutfalli við launakostnað eftir að útlagður kostnaður hefur verið dreginn frá. Samkvæmt þessu ákvæði hafi stefnandi fengið greidda reikninga fyrir vinnu sína í samræmi við greiðslur frá Byggðastofnun til stefnda fyrir endurskoðunarvinnu fyrir stofnunina, samkvæmt samningi við Ríkisendurskoðun. Séu þannig að fullu uppgerð við stefnanda verklaun hans samkvæmt samningi aðila frá árslokum 2013 til ársloka 2015 vegna Byggðastofnunar. Tímar þeir sem stefnandi krefji um í málinu séu tímar sem stefnandi muni hafa skráð á árinu 2014 sem vinnu við endurskoðun á Byggðastofnun og voru umfram þá tíma sem svarað hafi til tekna af verkefninu og þeir því ekki greiðsluskyldir samkvæmt samningi aðila. Hafi stefndi raunar talið þessa tíma fleiri en eðlilegt gæti talist og bæru þeir vott um óráðsíu og skort á verkstjórn. Þeim hafi þó allt að einu verið haldið til haga með það fyrir augum að upp í þá gæti komið vegna hagnaðar af verkinu síðar. Augljóst sé að stefnandi hafi ekki átt rétt á því að fá þessa tíma greidda samkvæmt samningi aðila, enda hafi ekki komið fram nein krafa um það þegar þeir hafi fallið til á árinu 2014 heldur hafi stefndi hagað allri reikningsgerð sinni í samræmi við samning aðila og takmarkað umkrafða þóknun við tekjur af verkefninu eins og samningur aðila kveði á um. Í því sambandi sé vert að árétta að aldrei hafi farið á milli mála hvert umfang verksins væri og hafi bæði stefnanda og þeim sem verkið unnu verið full kunnugt um það. Að framansögðu leiði að umkrafinn reikningur stefnanda sé tilhæfulaus og beri að sýkna stefnda af kröfu á grundvelli hans.

Stefnandi kveðji stefnda hafa rift samningi aðila einhliða og í kjölfarið hafi stefnandi gefið út reikning til innheimtu ógreiddra vinnutíma við endurskoðun Byggðastofnunar. Við þessar staðhæfingar sé það að athuga að stefndi hafi ekki rift samningi aðila en jafnvel þó svo hefði verið hafi umræddir tímar ekki verið vinnutímar samkvæmt samningi aðila. Sé í raun ekki heil brú í málatilbúnaði stefnanda um þessa uppsöfnuðu tíma en helst hafi mátt ætla að stefnandi hafi talið að þeir myndu gjaldfalla við ætlaða riftun á samningi aðila, án þess þó að málið sé reifað á þeim grundvelli. Hvað varði ætlaða riftun þá hafi stefnandi haldið því fram að jafna megi til riftunar þeirri ákvörðun stefnda að taka til sín verkefni vegna RÚV. Líti stefnandi þá alfarið fram hjá þeirri staðreynd að samkvæmt samningi aðila sé stefnandi undirverktaki hjá stefnda og hafi skuldbundið sig til þess að veita stefnda þá tæknilegu aðstoð sem þyrfti til endurskoðunar á grundvelli örútboðs Ríkiskaupa m.a. með því að útvega hæft starfsfólk, eins og þyrfti á hverjum tíma, eins og það sé orðað í samstarfssamningi aðila frá 26. nóvember 2012. Sé auðvitað alveg ljóst að samkvæmt samningi aðila hafi stefndi sem verkkaupi forræði á þeim verkefnum sem hann fæli stefnanda hverju sinni enda sé skuldbinding stefnanda fólgin í því að útvega stefnda hæft starfsfólk eins og þyrfti á hverjum tíma. Það hafi því ekki falið í sér neina riftun þótt stefndi hafi fært til verkefni innan samningsins til að bregðast við breyttum aðstæðum en með því hafi stefndi viljað laga verkið að sínum þörfum á þeim tíma eins og hann ætti rétt á samkvæmt samningi aðila.

Við skýringu á samningi aðila yrði að hafa í huga að um væri að ræða verksamning þar sem stefnandi væri undirverktaki og kæmi það m.a. fram í 1. gr. samstarfssamnings aðila frá 22. maí 2013, sem gerður hafi verið til nánari útlistunar á samstarfi aðila um útboðið. Samningi þessum sé stórlega áfátt sem verksamningi þar sem ekki sé í honum kveðið á um rétt og skyldur aðila ef frá séu talin ákvæði um greiðslu þóknunar. Séu þannig engin ákvæði um boðvald eða stjórnunarrétt stefnda gagnvart undirverktakanum né um þau verkefni sem stefnanda séu falin, afmörkun þeirra, ábyrgð og skil o.s.frv. Verði stefnandi að bera hallann af því hversu gallaður samningurinn sé að þessu leyti þegar haft sé í huga að það samningurinn hafi verið gerður á vegum stefnanda. Um það hvort stefndi hafi rift samningi aðila yrði ekki litið til meirihluta stjórnarmanna stefnanda enda hafi þeir ekki sjálfdæmi þar um. Jafnvel þótt um slíka riftun hafi verið að ræða sé ekkert komið fram í málinu sem skýri með hvaða hætti sú riftun hefði átt að leiða til þess að umræddir tímar yrðu gjaldkræfir.

Auk umkrafinnar reikningsfjárhæðar beri einnig, hvernig sem málið er farið, að sýkna stefnda af ríflega 600.000 króna innheimtukostnaði. Ekki fari saman að gera bæði kröfu um innheimtukostnað og málskostnað í innheimtumáli og fari sú kröfugerð í bága við eðli máls og venju í innheimtumálum. Engin lagaheimild sé til slíkrar kröfugerðar.

Stefndi vísar um málskostnað til 1. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laganna.   

 

IV

            Stefnandi rekur mál þetta sem innheimtumál og ber stefna í málinu þess merki. Við aðalmeðferð málsins gáfu fyrirsvarsmenn stefnanda og stefnda skýrslur fyrir dóminum, sem og stjórnarmaður í stefnanda. Að auki gaf skýrslu löggiltur endurskoðandi, sem unnið hefur fyrir stefnda. Í þessum skýrslum kom fram, svo sem stefndi hefur bent á í greinargerð sinni, að tveir samstarfssamningar liggja að baki réttarsambandi aðila. Er sá fyrri frá 26. nóvember 2012 en sá síðari frá 22. maí 2013. Ber fyrri samningurinn með sér að vera gerður í beinu framhaldi af títtnefndu örútboði Ríkiskaupa. Er samningur þessi fáorður um annað en hvernig tilteknum endurskoðunarverkefnum sé skipt niður á milli málsaðila. Síðari samningurinn er síðan gerður til að ákveða hvernig með þóknun skuli fara samkvæmt fyrri samstarfssamningi.  Útlistað er í 3. gr. samningsins hvernig þóknun fyrir unnin verk er ákveðin og hvernig með skuli fara ef vinna við tiltekin verkefni er meiri en árleg greiðsla fyrir verkin. Skal í því tilviki halda utan um aukatíma og þeir bættir á síðari árum, ef vera skyldi að hagnaður yrði þá af verkinu. Þessu var nokkuð vel lýst í skýrslum fyrir dómi og virðist ekki ágreiningur um það. Fram kom að samningur við Ríkiskaup hafi verið til nokkurra ára. Alla jafnan væri endurskoðun fyrir fyrsta ár viðamest þar sem þá væri verið að kynnast bókhaldi stofnunarinnar. Gerð væru tiltekin grunnskjöl, sem nýtast myndu við endurskoðun síðari ára. Væri vinnan því mest fyrsta árið. Þá kom fram í skýrslum fyrir dóminum, svo sem stefndi gerir grein fyrir, að stefnandi sé í raun regnhlíf yfir tiltekna löggilta endurskoðendur, sem allir reka sjálfstæðar endurskoðendaskrifstofur. Eru verk þau sem samningar aðila taka til því ekki unnin af stefnanda, heldur félagsmönnum hans. Ekki er gerð grein fyrir þessu í stefnu. Þá kom fram að ágreiningur væri uppi um riftun eða uppsagnir á samningum. Aðilar bera það hvor á annan að hafa rift eða sagt uppi samningum.    

            Um alla þessa þætti er hér að ofan greinir er mál þetta stórlega vanreifað af hálfu stefnanda. Atvika er nánast í engu getið. Þessum samningum, sem mynda réttarsamband aðila, er ekki einu sinni lýst eða þeir lagðir fram. Þar er þó að finna ákvæði um þóknun á milli aðila, sem ágreiningur er um. Ágreiningur er um hvort samningum hafi verið rift og þá hverjum þeirra. Ekkert er um þetta fjallað né út frá hvaða reglum samninga aðila rétt sé að krefja um þóknun. Þessi þögn leiddi síðan til þess að stefnandi vísaði í málflutningi til málsástæðna um brostnar forsendur og vanefndir, sem á engan hátt koma fram í stefnu. Með hliðsjón af þessu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi án kröfu. Stefndi hafði uppi frávísunarkröfu í greinargerð sem hann féll síðar frá. Hann reifaði þó atriði tengd frávísun í málflutningi og gafst aðilum því færi á að reifa sjónarmið um vanreifun.

            Rétt er að geta þess að á sama tíma og mál þetta var flutt var einnig flutt fyrir dóminum einkamálið nr. 1902/2016, sem er á milli sömu aðila. Er það mál vegna sömu lögskipta og sömu samninga er hér var gerð grein fyrir en vegna annarra endurskoðunarverkefna. Rétt hefði verið að höfða eitt mál um þessi sömu sakarefni, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991.   

            Á grundvelli 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn verður 250.000 krónur.   

            Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ólafur Karl Eyjólfsson héraðsdómslögmaður, en af hálfu stefnda Hjalti Steinþórsson hæstaréttarlögmaður.

            Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

            Máli þessu er vísað frá dómi. 

            Stefnandi, Íslenskir endurskoðendur ehf., greiði stefnda, Endurskoðenda-þjónustunni ehf., 250.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                       Símon Sigvaldason