• Lykilorð:
  • Meiðyrði
  • Miskabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2017 í máli nr. E-669/2016:

A

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

gegn:

B

(Sigrún Jóhannsdóttir hdl.)

 

 

Mál þetta sem dómtekið var 3. apríl 2017 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 25. febrúar 2016, af A, [...],[...], gegn B, [...],[...].

 

Kröfur aðila

 

      Af hálfu stefnanda er þess krafist að eftirfarandi ummæli sem stefnda hafi viðhaft og birt um stefnanda í umræðuhópnum [...]-Árgangur [...] á Facebook í [...] verði dæmd dauð og ómerk:

 

  1. ,,ekki einn af draumum mínum að vera læst inn í herbergi meðan að drengirnir skiptust á að uppfylla sínar óskir.“

 

  1. ,,Margir fengu nú leyfi frá A til að gera það sem þeir vildu. Það var nú fínt þar sem hann gerði sama hlutinn. Það fékk enginn leyfi frá mér“.

 

Þá krefst stefnandi þess að að stefnda verði dæmd til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, með dráttarvöxtum frá 12. júlí 2015 til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum málskostnað samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti. Krafist sé 24% virðisaukaskatts ofan á dæmdan málskostnað, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

      Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda á hendur henni verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefnda þess, hvernig sem úrslit málsins verði, að stefnandi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að skaðlausu, að mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti, en stefnda sé ekki virðisaukaskattskyld.

 

Atvik máls

 

Faðir stefndu og móðir stefnanda munu hafa hafið sambúð á árinu 1986. Stefnda var þá 9 ára en stefnandi 11 ára og bjuggu þau bæði á heimilinu ásamt yngri bróður stefndu. Sóttu þau bæði [...]. Af hálfu stefnanda er því lýst í stefnu að þegar hann og stefnda hafi verið unglingar hafi þau átt í kynferðislegum samskiptum. Hafi þau verið með fullu samþykki beggja en lokið eigi síðar en 1990. Af hálfu stefndu er þessum atvikum hins vegar lýst þannig að stefnandi hafi farið að þvinga hana til margvíslegra kynsferðislegra samskipta, meðal annars samfara, fljótlega eftir að sambúð foreldra þeirra hafi hafist og hafi þessari háttsemi hans ekki lokið fyrr en upp hafi komist 1992 og stefnandi verið sendur af heimilinu.   

       Í [...] birti stefnda eftirfarandi færslu á Facebook síðu, sem árgangur hennar í [...] hafði stofnað í tilefni af fermingarafmæli árgangsins og fyrirhugaðri samkomu hans af því tilefni. Til skýringa er rétt að taka fram að með A er í færslunni og annars staðar í dómi þessum vísað til stefnanda:

  „Sæl öll. Ég verð að viðurkenna að fram að þessu hef ég ekki þurft að taka ákvörðun um hvort ég vilji koma í fermingarafmælið eða ekki. Hef verið svo heppin að vera ekki á staðnum. Nú hef ég aftur á móti þurft að taka ákvörðun. Mín upplifun af A er ein sú versta sem ég hef upplifað á minni ævi. Margt af því sem ég upplifði þar hef ég þurft að vinna mig út úr. Margir þarna eiga það eitt að þakka að C skólastjóri neitaði mér um að hringja á lögregluna þegar ég bað um það að þeir þurftu ekki að fara fangelsi. Hversu lágt álit sem þið hafið eða höfðuð á mér þá var það ekki einn af draumum mínum að vera læst inni í herbergi meðan að drengirnir skiptust á að uppfylla sínar óskir. Ég mun alltaf muna að í eitt skiptið sem þessi staða var uppi að einn „drengur“ í árganginum okkar spurði af hverju ég héldi fyrir andlitið á mér og fékk svar frá öðrum: Hún er alltaf svona. Nú skal ég útskýra af hverju. Ég vildi ekki þurfa að horfa framan í ykkur. Ég þurfti nefnilega að sitja með ykkur í bekknum daglega og horfa framan í ykkur þá. Margir fengu nú leyfi frá A til að gera það sem þeir vildu. Það var nú fínt þar sem að hann gerði sama hlutinn. Það fékk enginn leyfi frá mér. Þið getið afsakað þetta með að þið voruð bara strákakjánar en ég vissi að þetta var rangt og ef ég vissi það þá vissuð þið það. Ég get ekki talið þau skipti sem ég bað um að lögreglan væri kölluð til en var talin ofan af því. Það myndi nú enginn trúa mér á móti hópnum, mitt orðspor væri það slæmt. Enda endaði ég með að trúa því. Dagarnir mínir snerust um það að lifa þá af og reyna að gleyma hryllingnum sem átti sér stað á hverjum degi. Á endanum var mér orðið slétt sama og lék bara það hlutverk sem mér var ætlað. Ég hafði ekki lengur neinu að tapa. Ég gerði allt sem ég gat til að koma mér úr bænum og hef lítið sem ekkert komið þangað síðan. Það þýðir ekki að ég eigi ekki mínar góðu minningar um hópinn en því miður þá eru þær bara lítil dropi í hafinu af óbærilegum minningum. Í árgangnum okkar eru aðilar sem mér þykir afar vænt um og óska alls hins besta. Ég hef líka haldið sambandi við þá. Ég vona að þið skemmtið ykkur afar vel og gott að heyra að þið hafið haldið hópinn. Ég mun ekki mæta, hvorki núna né síðar. m.b.k. B.“

Stefnandi hafði ekki aðgang að framangreindri Facebook síðu en mun hafa fengið framangreinda færslu senda með tölvupósti, 5. júní, án aðkomu stefndu.

Lögmaður stefnanda ritaði stefndu bréf, 14. júní 2015, með vísan til Facebook færslunnar. Í bréfinu er því haldið fram að eftirgreind ummæli í færslunni þ.e. annars vegar „ekki einn af draumum mínum að vera læst inn í herbergi meðan að drengirnir skiptust á að uppfylla óskir sínar“ og hins vegar „margir fengu nú leyfi frá A til að gera það sem þeir vildu. Það var nú fínt þar sem hann gerði sama hlutinn. Það fékk enginn leyfi frá mér“ fælu í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda, sem vörðuðu við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í bréfinu var skorað á stefndu að biðjast afsökunar á hinum tilgreindu ummælum og leiðrétta þau þegar í stað. Þá var þess jafnframt krafist að stefnda greiddi stefnanda 200.000 krónur í miskabætur auk lögmannskostnaðar eða samtals 386.000 krónur. Var stefndu veittur frestur til 18. júní til að verða við kröfunum.

Hinn 31. ágúst 2015 mun stefnda hafa kært stefnanda til lögreglu vegna meintra kynferðisbrota stefnanda á hendur henni á árunum 1986-1993. Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, 8. desember 2015, var stefndu tilkynnt að málið hefði verið yfirfarið. Ljóst væri að kærði hefði verið ósakhæfur vegna aldurs er hluti meintra brota hefði átt sér stað. Hvað önnur meint brot varði sé það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að sök væri fyrnd. Yrði því ekki refsað fyrir háttsemina né dæmd viðurlög, ef sök sannaðist, sbr. 6. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þess sem rakið hefði verið yrði ekki hjá því komist að hætta rannsókn málsins, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Stefnda mun ekki hafa kært framangreinda niðurstöðu til embættis ríkissaksóknara.

 

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

 

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi vegið með alvarlegum hætti að æru hans með ummælum um hann í umræðuhópnum „[...]-Árgangur [...]“ á Facebook, en ummæli stefndu verði ekki skilin á annan veg en að stefnandi hafi svipt hana frelsi og haft við hana kynmök gegn vilja hennar og stuðlað að því aðrir gerðu það sama. Með ummælunum haldi stefnda því fram að stefnandi sé kynferðisbrotamaður sem hafi brotið gegn henni kynferðislega og jafnframt stuðlað að sambærilegum brotum annarra gagnvart henni. Brotin sem stefnda saki stefnanda um að hafa framið varði meðal annars við XXII. kafla laga nr. 19/1940. Ummæli stefndu um stefnanda feli í sér ásökun um refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi sem sé ósönnuð og virðist eiga að hafa átt sér stað fyrir mörgum áratugum síðan án þess að stefnandi hafi nokkurn tímann sætt rannsókn lögreglu, þrátt fyrir að stefnda hafi lagt fram kæru á hendur stefnanda, hvað þá ákæru og saksókn eða verið dæmdur fyrir slík brot. Brotin sem stefnda ásaki stefnanda um að hafa framið séu svívirðileg að áliti alls almennings og varði allt að 16 ára fangelsi. Ummælin feli í sér fullyrðingu um að stefnandi hafi beitt stefndu kynferðisofbeldi. Háttsemin sem stefnda fullyrði að stefnandi hafi gerst sekur um og engar sönnur hafi verið færðar á varði meðal annars við 194. gr. laga nr. 19/1940, en refsing fyrir slíkt brot sé allt að 16 ára fangelsi. Öll ummæli stefndu séu ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir. Ef ekki verði fallist á að ummælin feli í sér ærumeiðandi aðdróttun sé til vara byggt á því að ummælin feli í sér ærumeiðandi móðgun og þar með brot gegn 234. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnandi byggi á því að stefnda hafi vegið með alvarlegum hætti að æru hans. Með því hafi stefnda framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem stefnda beri skaðabótaábyrgð á enda um ærumeiðandi aðdróttun að ræða sem bæði sé röng og borin út og birt opinberlega gegn betri vitund stefndu. Fjárhæð miskabótakröfu stefnanda taki mið af alvarleika aðdróttunar stefndu og því að stefnda hafi meitt æru stefnanda af ásetningi. Miskabótakrafa stefnanda sé því hófleg. Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki, sem og æra hans og persóna. Réttur stefnanda til æruverndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 enda sé um að ræða skýr og ótvíræð brot á réttareglum, sem ætlað sé að vernda æru stefnanda, sbr. 235. gr. eða 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við mat á miskabótum sé rétt að hafa í huga að stefnandi búi í [...], sem sé lítið samfélag þar sem allir þekki alla. Ummæli stefndu sem viðhöfð hafi verið í umræðuhópi vegna endurfunda í skóla í bæjarfélaginu hafi því valdið stefnanda ómældum skaða. Öll skilyrði séu því uppfyllt til þess að dæma stefnanda háar miskabætur úr hendi stefndu. Hvað stefndu varði vísi stefnandi til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en það falli utan marka stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis, þegar brotið sé gegn réttindum eða mannorði annarra manna. Af öllu framansögðu sé ljóst að réttur stefnanda til æruverndar gangi framar tjáningarfrelsi stefndu, eins og hér hátti til, og því beri að taka dómkröfur stefnanda til greina og ómerkja ummælin og dæma stefndu til refsingar og greiðslu miskabóta. Krafa stefnanda um dráttarvexti sé byggð á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, þar sem segi að skaðabótakröfur beri dráttarvexti, þegar liðinn sé mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi lagði fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í því tilviki sem hér um ræði sé miðað við kröfubréf stefnanda til stefndu, 12. júní 2016, og sé því krafist dráttarvaxta frá 12. júlí 2015 til greiðsludags. Þess sé krafist að stefnda greiði stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi og sé krafan byggð 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess sé krafist að dæmdur málskostnaður beri 24% virðisaukaskatt.

Um lagarök vísi stefnandi til 234. gr., 235. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. og 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig vísi stefnandi til 71. og 72 gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísi stefnandi til 1. mgr. b.-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra skaðabótareglna, þar með talinnar sakarreglunnar. Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti á miskabótakröfu sé byggð á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá sé krafa um málskostnað byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. Einnig sé vísað til sömu laga, hvað varði varnarþing og málsaðild.

 

       Málsástæður stefndu og tilvísun til réttarheimilda

 

       Stefnda byggir á því að í stefnu séu hin umstefndu ummæli túlkuð á versta mögulegan máta og henni brigslað um að hafa meint tiltekna hluti sem erfitt sé að finna sér stað í ummælunum og því samhengi sem þau hafi birst í. Byggi stefnda á því að ummælin megi ekki með nokkru móti einangra með þeim hætti sem stefnandi geri í málatilbúnaði sínum.  Við lestur textans í heild sinni sé ljóst að um sé að ræða visst uppgjör stefndu við tímann í [...]. Honum sé sérstaklega beint að þeim aðilum sem tekið hafi þátt í ofbeldinu á sínum tíma og hann skrifaður til skýringar á því hvers vegna hún komi ekki til með að mæta á viðburði hópsins, hvorki þann sem fyrirhugaður hafi verið né þá sem seinna kunni að koma til. Mögulega megi færa rök fyrir því að betur hefði farið á því að senda hverjum og einum í hópnum, sem beitt hafi hana ofbeldi, einkaskilaboð en sökum þess hve títt ofbeldið hafi verið og gerendur margir hafi henni reynst ómögulegt að kalla fram minningar um allt ofbeldið og rifja upp alla þá sem tekið hafi þátt í því. Það séu og þekkt varnarviðbrögð heilans að leitast við að bæla niður minningar um viðvarandi og alvarleg áföll þannig að eftir sitji brotakenndar myndir af atburðunum. Það hafi hins vegar ekki aðeins verið þeir sem tekið hafi þátt í kynferðislega ofbeldinu sem notfært hafi sér aðstæður hennar heldur einnig þeir sem tekið hafi þátt í eineltinu og útskúfuninni. Erindi hennar hafi því einnig verið ætlað að opna augu þeirra sem sumir hverjir hafi allt til dagsins í dag litið niður á hana fyrir fortíðina og dæmt hana hart. Ummæli stefndu í heild sinni hafi þannig átt erindi til hópsins og verið á vissan hátt liður í uppgjöri stefndu í senn við bekk, skóla, ofbeldi og gjörvöll skólaár sín. Hvað fyrri umstefndu ummælin varði, sbr. tl. 1 í kröfugerð stefnanda, sé ljóst að þeim hafi verið beint að drengjunum, sem verið hafi með henni í árgangi, þeim sem verið hafi meðlimir í Facebook hópnum. Það komi skýrt fram sé erindið lesið í heild sinni, sbr. m.a. eftirfarandi:

„Ég mun alltaf muna að í eitt skiptið sem þessi staða var uppi að einn „drengur“ í árganginum okkar spurði af hverju ég héldi fyrir andlitið á mér og fékk svar frá öðrum: Hún er alltaf svona. Nú skal ég skýra af hverju ég vildi ekki þurfa að horfa framan í ykkur. Ég þurfti nefnilega að sitja með ykkur í bekknum daglega og horfa framan í ykkur þá.“ ... „Þið getið afsakað þetta með að þið voruð bara strákakjánar en ég vissi að þetta var rangt og ef ég vissi það þá vissu þið það líka.“ Umstefnd ummæli tengist þannig ekki á nokkurn hátt stefnanda og sé ekki hægt að lesa úr þeim nokkuð sem bendi til þess að hann hafi tekið þátt í umræddum athöfnum. Geti ummælin því ekki talist fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir eða móðgun í garð stefnanda. Þá geti ummæli, sem ekki fjalli um stefnanda, aldrei orðið tilefni til miskabóta honum til handa. Hvað síðari ummælin varði, þ.e. ummæli skv. 2. tl. í stefnu, sé ljóst að þau hafi verið sett fram í þeim eina tilgangi að árétta þá staðreynd, að þrátt fyrir að einhverjir drengjanna í hópnum kunni að hafa fengið leyfi frá stefnanda minnki það ekki á nokkurn hátt sök þeirra, sbr. „það fékk enginn leyfi frá mér“. Því sé mótmælt sem í stefnu segi að ummælin sem málið varði séu rangfærslur og uppspuni, sett fram í þeim tilgangi að skaða stefnanda. Framsetning stefndu hafi verið hófsöm, ummælin hafi ekki snúist um stefnanda heldur hafi verið minnst á hann því til stuðnings að ábyrgðin lægi hjá þeim sem brotið hafi gegn henni. Þeim hafi verið beint að aðilum innan hópsins og í þeim gert ráð fyrir að þeir vissu hvað um væri rætt. Hefðu þau verið sett fram í þeim tilgangi að sverta æru stefnanda hefði málflutningurinn án efa verið á annan veg. Að öðru leyti hafi tilgangur þeirra og tilefni nú þegar komið skýrt fram. Stefnda byggi og á því að játa verði þolendum kynferðisbrota svigrúm til að tjá sig um reynslu sína, annað sé skaðlegt brotaþolum og samfélaginu. Á þeim tíma sem nú sé liðinn frá ofbeldinu hafi vitneskja um kynferðisbrot, einkenni þeirra og afleiðingar aukist gífurlega. Öll umræða í þjóðfélaginu sé orðin mun opinskárri og engum blandist lengur hugur um hve algeng þau séu og skaðleg, bæði fyrir þann er verði fyrir þeim og samfélagið í heild. Hafi sú vitneskja ekki síst komið til vegna frásagna þeirra þolenda sem stigið hafi fram, enda alla jafna til þess fallnar að dýpka enn frekar skilning okkar á þeirri flóknu sálfræði sem að baki þessum brotum búi. Þá megi almennt ætla að verulega myndi þrengja að opinberri tjáningu fólks á skoðunum sínum, opinberri umræðu almennt og vægi slíkrar tjáningar þar sem sá sannleikur sem máli skipti en gæti meitt æru einhvers væri þeim ekki vítalaus og jafnvel refsiverður. Þá sé enn ógetið um það samfélagslega taumhald sem felist í almannaálitinu og verulega myndi slakna á, ef ekki mætti tala frjálslega um afglöp eða lesti, sem menn verði sannir að. Stefnda byggi sýknukröfu sína á því að hún hafi í skjóli tjáningarfrelsis mátt tjá sig á þann hátt sem hún gerði, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 19. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Sérstaklega beri að athuga að verndin sé að meginstefnu óháð innihaldi tjáningarinnar og geti þannig verið um að ræða tjáningu sem sé særandi eða hneykslanleg fyrir aðra. Stefnda hafni því að 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eigi við í máli þessu, enda um að ræða undantekningarákvæði frá meginreglunni um tjáningarfrelsi og ljóst að ákvæðið beri að túlka þröngt. Þannig beri að skýra allan vafa um lögmæti ummæla stefndu henni í hag. Þegar tekin sé afstaða til þess hvort skerðing á tjáningarfrelsi fullnægi þeim áskilnaði að vera nauðsynleg og í samræmi við lýðræðishefðir verði auk þess að líta til atvika hvers máls fyrir sig. Í því sambandi sé ekki nægilegt að horfa einungis til efnis ummælanna hverju sinni, heldur verði einnig að líta til samhengis þeirra og þess af hvaða tilefni þau hafi verið sett fram. Stefnda byggi á því að umrædd ummæli hafi byggst á reynslu hennar og upplifun og feli hvorki í sér refsiverða móðgun né aðdróttun gagnvart stefnanda, né hafi þau verið látin falla gegn betri vitund. Um hafi verið að ræða lýsingar stefndu á staðreyndum og upplifun á þeim raunveruleika sem hún hafi búið við á uppvaxtarárum sínum. Ólíkt stefnanda telji stefnda ummælin hófsöm og sannleikanum samkvæmt. Telji hún að við skoðun hinna umstefndu ummæla komi í ljós að þau snúist að minnstu leyti um stefnanda heldur fyrst og fremst sé um að ræða lýsingu á staðreyndum og gildisdóma um umræddra atburða. Aðeins að litlu leyti sé vikið að stefnanda í ummælunum og þá þannig að sanna megi réttmæti fullyrðinga stefndu. Stefnda vísi sérstaklega til þess að ummælin hafi verið sett fram í góðri trú um að þau væru sönn og því ekki hægt að tala um ásetning og raunar ekki heldur gáleysi, hvað innihald ummælana varði. Þá krefjist stefnda þess að sérstaklega verði litið til þess við sönnunarmatið að hve miklu leyti sönnunin sé bundin erfiðleikum. Með hliðsjón af öllu framangreindu geti stefnda ekki fallist á að ummæli hennar hafi falið í sér aðdróttun í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, né heldur móðgun í skilningi 234. gr. s.l. Í stefnu sé því haldið fram að fyrrgreind ummæli verði ekki skilin á annan veg en þann að stefnandi hafi svipt stefndu frelsi, haft við hana kynmök gegn vilja hennar og stuðlað að því að aðrir gerðu það sama. Stefnda byggi á því að það sé vissulega það sem raunverulega hafi gerst, þó hún telji ekki sjálfgefið að slíkan skilning megi draga af ummælunum. Stefnda styðji sýknukröfu sína að auki við þá grunnreglu að ekki verði refsað fyrir sönn ummæli. Reglan byggi á því að sönn ummæli varði ekki refsi- og bótaábyrgð, þótt telja megi þau ærumeiðandi og þau uppfylli að öðru leyti skilyrði ærumeiðinga. Reglan eigi sér bæði stoð í ákvæðum 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og 237. og 238. gr. alm. hgl. Að sama skapi byggi stefnda á því að reglunni verði beitt varðandi ómerkingu ummæla og miskabætur, þannig að stefnda verði sýknuð af kröfum þar að lútandi. Í stefnu sé því haldið fram að aðilar málsins hafi átt í kynferðislegum samskiptum sem unglingar en að þeim hafi lokið eigi síðar en árið 1990. Hið rétta sé að þeim hafi ekki lokið fyrr en árið 1992. Aðilar séu þannig sammála um að kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað þeirra á milli fram að árinu 1990 en þá greini á um hvenær þeim hafi lokið. Þá telji stefnandi að þau hafi verið með samþykki beggja aðila en stefnda telji samþykki hafa skort af sinni hálfu. Þess beri að geta að árið 1990 hafi stefnda verið nýorðin 13 ára gömul og stefnandi þá 15 ára. Í stefnunni sé talað um að aðilar hafi báðir verið unglingar meðan á kynferðislegum samskiptum hafi staðið. Sé hugtakið „unglingar“ skoðað nánar megi sjá að neðri mörk þeirrar skilgreiningar miðist við 13 ára aldurinn. Þannig segi á Snöru að unglingur sé ungur maður á aldrinum frá um 13 ára til 17-18 ára. Sömu skilgreiningu sé að finna í íslenskri orðabók frá árinu 2001. Þá virðist það almennur málskilningur að unglingsárin hefjist við 13 ára aldur. Þar sem aðilar séu báðir sammála því að kynferðislegt samneiti þeirra hafi hafist fyrir árið 1990 hafi það hafist í síðasta lagi þegar stefnandi hafi verið unglingur en stefnda aðeins barn að aldri. Þessi skilningur á mörkum barns og unglings fái stoð í almennum hegningarlögum, en þar hafi frá upphafi verið lagt fortakslaust bann við samræði við barn yngra en 14 ára. Skipti þar engu máli um refsinæmi verknaðarins hvort kynferðisathafnirnar hafi átt sér stað með eða gegn vilja barnsins. Tilgangurinn með jafn fortakslausu banni og þessu sé sá að vernda börn fyrir því að lifa kynlífi áður en þau hafi andlegan og líkamlegan þroska til þess. Á sama tíma hafi sakhæfisaldurinn haldist við 15 ár. Það þýði að ungmenni sem hafi náð þeim aldri séu talin búa yfir nægum þroska til þess að átta sig á afleiðingum gjörða sinna þannig að hægt sé að gera þau ábyrg gjörða sinna. Hvað sem öðru líði sé því ljóst að stefnandi hafi brotið kynferðislega gegn stefndu. Með því að gangast við því í stefnu að hafa átt í kynferðislegu samneiti við stefndu fyrir árið 1990 sé stefnandi í reynd að viðurkenna brot sín gagnvart henni. Af þeim sökum einum sé fram komin nægjanleg sönnun þess að stefnandi hafi misnotað stefndu. Í máli þessu sé ljóst að meingerð við æru stefnanda sé hverfandi í samanburði við þá meingerð sem falist hafi í því ofbeldi sem hann hafi beitt stefndu. Stefnda byggi sýknukröfu sína því á ákvæði 239. gr. alm. hgl. og ólögfestum reglum skaðabótaréttar um orðhefnd. Í ákvæðinu segi að heimilt sé að láta refsingu fyrir móðgun eða aðdróttun falla niður hafi tilefni ærumeiðingarinnar verið ótilhlýðilegt hátterni þess sem telji vegið að æru sinni eða goldið hafi verið líku líkt. Þess beri sérstaklega að geta að sú háttsemi sem orðið geti grundvöllur orðhefndar þurfi ekki að vera ærumeiðing, sbr. orðalag ákvæðisins sjálfs. Í ritinu Fjölmæli segi höfundur að háttsemin geti m.a. verið fólgin í líkamsmeiðingu, skírlífisbroti, ærumeiðingu, o.s.frv., en hún þurfi þó ekki að vera refsiverð, t.d. falli ósæmileg festaslit, ruddaskapur o.s.frv. einnig undir hugtakið. Stefnandi hafi viðurkennt að hafa beitt stefndu kynferðislegu ofbeldi, þ.e. að hafa haft átt í kynferðislegu samneiti við hana áður en hún varð 14 ára gömul. Með því hafi hann ekki aðeins beitt hana líkamlegu ofbeldi heldur einnig brotið gróflega gegn kynferðislegri sjálfsmynd hennar, kynfrelsi og friðhelgi einkalífs hennar. Með kynferðisbroti sé sjálfsákvörðunarréttur brotaþola virtur að vettugi og réttur hans til sjálfsstjórnar og athafnafrelsis brotinn á bak aftur. Um sé að ræða einn af alvarlegustu glæpum sem beinist að einstaklingum, aðeins mannsmorð sé litið alvarlegri augum samkvæmt hegningarlögum. Þá hafi hann brotið gegn kynferðislegri æru hennar og ollið henni langavarandi skaða. Háttsemi stefnanda hafi þannig verið mun grófari en ummæli þau sem stefnda hafi nokkru sinni viðhaft um stefnanda. Stefnda byggi á því að öll skilyrði fyrir 239. gr. alm. hgl. séu fyrir hendi í máli þessu. Þá byggi stefnda á þeirri dómhelguðu reglu að orðhefnd geti, auk refsileysis, leitt til sýknu vegna krafna um ómerkingu ummæla og miskabætur. Þá sé ljóst að háttsemi stefnanda hafi gefið henni fullt tilefni til hinna umstefndu ummæla og því allar forsendur til að hafna ómerkingarkröfu stefnda á grundvelli reglna um orðhefnd. Stefnda byggi á því að hin umstefndu ummæli hafi verið viðhöfð í lokuðum hópi fyrrum samnemenda á samfélagsmiðlinum Facebook, einstaklinga, sem flestir hverjir hafi þekkt til málsins og/eða hafi tekið þátt í ofbeldinu. Stefnandi geti því ekki borið fyrir sig að ummælunum hafi verið beint til almennings eða þau birt opinberlega. Þá hafi stefnandi ítrekað tjáð sig um það kynferðislega samneiti sem átt hafi sér stað á milli aðila. Varakröfu stefnanda sé mótmælt með sama hætti og aðalkröfu og með vísan til sömu málsástæðna og lagaraka. Að auki sé því mótmælt að 234. gr. alm. hgl. komi til greina í máli þessu. Í móðgun felist niðrandi tjáning sem sé til þess er fallin að lækka mann í áliti, særa sjálfsvirðingu hans, lítilsvirða persónu hans eða gefa í skyn að lítið sé í hann spunnið án þess þó að honum sé beinlínis borin á brýn ósæmilegur verknaður eða lastverðir eiginleikar. Því megi halda fram að móðganir falli ekki innan undantekningarákvæða 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Undantekningarnar taki aðeins til mannorðs sem sé hin hlutlæga æra, annarra sýn á manngildið, en geti í engu sjálfsvirðingarinnar, en að henni beinist móðganir fyrst og fremst og jafnvel eingöngu. Stefnda hafni því alfarið að forsendur séu til að dæma hana til greiðslu miskabóta og því beri að sýkna hana af miskabótakröfu stefnanda. Stefnda mótmæli því í fyrsta lagi að skilyrði 26. gr. laga nr. 50/1993 um greiðslu miskabóta séu fyrir hendi. Stefnda telji sig ekki á nokkurn hátt seka um ólögmæta meingerð gegn æru stefnanda og vísist í því sambandi að mestu til málsástæðna og lagaraka hennar varðandi ómerkingarkröfu stefnanda. Stefnda byggi á því að þó að ummælin kunni að vera skaðandi fyrir stefnanda fylgi því engin bótaábyrgð fyrir stefndu vegna meginreglunnar um refsileysi og bótaábyrgðarleysi sannra ummæla.

Stefnda byggi auk þess á því að sýkna beri hana af miskabótakröfu á grundvelli 239. gr. almennra hegningarlaga og ólögfestra regla um orðhefnd. Stefnda vísi til þess að það sé viðurkennd regla í dómaframkvæmd að orðhefnd teljist sjálfstæð ábyrgðarleysisástæða í meiðyrðamálum. Hvað þessa málsástæðu varði vísist að mestu til þess sem þegar hafi verið rakið. Stefnda bendi þó á að þrátt fyrir að fallist yrði á ómerkingu ummæla stefndu sé það ekki sjálfgefið að bótaábyrgð sé fyrir hendi. Megi þá fella niður bótaábyrgð m.a. á grundvelli tilefnis ummælanna og reglna um orðhefnd. Stefnda mótmæli fjárhæð miskabótanna sem allt of hárri og í engu samræmi við útbreiðslu ummælanna. Í stefnu sé sérstaklega tekið fram að við mat á miskabótakröfunni beri að hafa í huga smæð [...]. Þessu sé mótmælt af stefndu. [...] [...] stærsti bær landsins sem telji [...] íbúa. Ummælin hafi verið látin falla í lokuðum 51 manns Facebook hópi. Þau hafi ekki komist til vitundar stefnanda fyrr en einn úr hópnum hafi sent honum afrit af ummælunum. Á þessum fimm mánuðum hafi stefnandi ekki frétt af þeim og megi leiða líkur að því að ummælin hefðu aldrei farið af stað ella. Hvað sem því líði sé ljóst að málshöfðun þessi sé mun frekar til þess fallin að vekja athygli á þeim og auka enn frekar umræðuna um atburðina. Til vara sé því krafist lækkunar á miskabótakröfu stefnanda. Stefnda geti ekki með nokkru móti fallist á það að ummælin hafi valdið stefnanda miska, á þann hátt sem þau hafi fallið. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á umfang tjónsins né heldur að orsakasamband sé milli ummælanna og hins meinta miska. Þá sé öllum kröfum, málavaxtalýsingum, málsástæðum og staðhæfingum stefnanda mótmælt nema að því leyti sem þær samræmist málavaxtalýsingu stefndu. Sýknukrafa stefndu sé byggð á meginreglunni um refsileysi sannra ummæla og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé vísað til 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kröfu um málskostnað styðji stefnda við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Forsendur og niðurstaða

 

Í máli þessu deila aðilar um hvort ummæli sem stefnda lét falla á samfélagsmiðlinum Facebook í [...] hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttun eða móðgun í garð stefnanda. Þá deila aðilar um hvort ummælin hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem leiða eigi til greiðslu miskabóta úr hendi stefndu.

Ummælin eru þessi:

 

1       ,,ekki einn af draumum mínum að vera læst inn í herbergi meðan að drengirnir skiptust á að uppfylla sínar óskir“.

2.     ,,Margir fengu nú leyfi frá A til að gera það sem þeir vildu. Það var nú fínt þar sem hann gerði sama hlutinn. Það fékk enginn leyfi frá mér“.

 

 

Eins og áður er rakið er ágreiningslaust með aðilum að með „A“ í framangreindum texta sé átt við stefnanda.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda hafi, með framangreindum ummælum, vegið alvarlega að æru hans en ummælin verði ekki skilin á annan veg en þann að stefnandi hafi svipt stefndu frelsi og haft við hana kynmök gegn vilja hennar og stuðlað að því aðrir gerðu það sama. Með ummælunum haldi stefnda því fram að stefnandi sé kynferðisbrotamaður, sem brotið hafi gegn henni kynferðislega og jafnframt stuðlað að sambærilegum brotum annarra gagnvart henni. Brotin sem stefnda saki stefnanda um að hafa framið varði meðal annars við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og feli í sér ásökun um bæði refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi, sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi. Ummælin séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir og brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Beri því að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Ef ekki verði fallist á að ummælin feli í sér ærumeiðandi aðdróttun sé til vara á því byggt að þau feli í sér ærumeiðandi móðgun og þar með brot gegn 234. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Af hálfu stefndu er á því byggt að hún hafi í skjóli tjáningarfrelsis síns,  sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 19. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, mátt tjá sig á þann hátt sem hún hafi gert í téðri Facebook færslu. Hvað ummæli skv. tl. 1 í stefnu varði tengist þau stefnandi ekki á nokkurn hátt og sé ekki hægt að lesa úr þeim neitt sem bendi til þess að hann hafi tekið þátt í umræddum athöfnum. Geti ummælin því ekki, þegar af þeirri ástæðu, talist fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir eða móðgun í garð stefnanda. Hvað hin umstefndu ummæli í heild varði en þó sérstaklega ummæli skv. 2. tl í stefnu sé ekki nægilegt að horfa einungis til efnis ummælanna, heldur verður einnig að líta til samhengis þeirra og þess af hvaða tilefni þau hafi verið sett fram. Ummælin hafi byggst á reynslu hennar og upplifun og feli hvorki í sér refsiverða aðdróttun né móðgun gagnvart stefnanda, né hafi þau verið látin falla gegn betri vitund. Um hafi verið að ræða lýsingar stefndu á staðreyndum og upplifun á þeim raunveruleika sem hún hafi búið við á uppvaxtarárum sínum. Ummælin hafi verið hófsöm og sönn en þau hafi að minnsta leyti snúið að stefnanda heldur fyrst og fremst falið í sér lýsingu á staðreyndum og gildisdóm. Þá hafi ummælin verið sett fram í góðri trú og því ekki hægt að tala um ásetning né gáleysi hvað innihald þeirra varði. Stefnda byggi á því að stefnandi hafi viðurkennt að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við hana a.m.k. til ársins 1990 en þau hafi hafist þegar á árinu 1986. Með þeirri viðurkenningu hafi stefnandi í reynd viðurkennt gróf og ítrekuð kynferðisbrot gagnvart sér. Sé meint meingerð stefndu gagnvart æru stefnanda hverfandi í samanburði við þá meingerð, sem falist hafi í ofbeldi stefnanda gagnvart henni og verði þau talin vega að æru hans, réttlætist þau af reglum og sjónarmiðum um orðhefnd, sbr. ákvæði 239. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé því mótmælt, með vísan til framangreindra raka, að hin umstefndu ummæli hafi falið í sér móðgun gagnvart stefnanda í merkingu 234. gr. sömu laga.

       Stefnandinn, A, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður kvaðst hann fyrst hafa fengið spurnir af Facebook færslu stefndu u.þ.b. einum og hálfum mánuði eftir að hún hafi birst. Ummælin hafi verið algerlega fjarstæðukennd og ættu engan fót fyrir sér. Aðspurður kvaðst hann hafa gert sér ljóst að fullt af fólki hafi verið búið að sjá færsluna og margir rætt hana við sig. Aðspurður í hverju samþykki stefndu við því að eiga kynlíf með honum hafi verið fólgið svaraði hann því til að það hafi t.d. verið í því fólgið að hún hafi komið til hans í því skyni að stunda með honum kynlíf. Aðspurður kvaðst hann aldrei hafa játað að hafa brotið gegn stefndu kynferðislega.   

       Stefnda, B, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurð hvers vegna hún hefði látið hin umstefndu ummæli falla á umræddri Facebook síðu svaraði hún því til að hópurinn hefði í gegnum tíðina staðið fyrir ýmsum atburðum af margvíslegu tilefni. Í aðdraganda færslunnar hefði hún verið að rekast á ýmsa úr fermingarárgangi sínum sem gengið hafi hart að henni að mæta á fyrirhugað fermingarafmæli árgangsins. Hún hefði af þessu tilefni, eftir langt samtal við vinkonu sína, ákveðið að skrifa um reynslu sína og loka síðan þessum kafla í lífi sínu. Hefði hún skrifað færsluna nokkrum sinnum og reynt að skrifa hana þannig að hún biði ekki upp á neinar afsakanir eða samræður. Síðan hefði hún lagt textann í salt en einn daginn ýtt á „send“ og skráð sig úr grúppunni. Í kjölfarið hefði verið hringt til hennar en hún ekki tekið símann og að öðru leyti lokað fyrir samskipti við aðra en þá sem hún hafi þekkt. Málinu hafi þar með verið lokið af sinni hálfu þar til henni hafi borist bréfið frá lögmanni A. Þegar það hafi borist hafi hún hálfpartinn neyðst til að setjast niður og lesa þá pósta sem hún hafi fengið eftir færsluna. M.a. hefði hún fengið pósta frá tveimur, sem sagst hafi sjá óskaplega eftir sínum þætti í þessu máli. Hún hafi hins vegar ekki svarað þeim enda hafi hún ekki sent færsluna til að fá einhverjar syndaaflausnir. Tilgangurinn með bréfinu hafi fyrst og fremst verið að ljúka málinu af sinni hálfu. Kvaðst hún aldrei hafa ætlað að meiða eða særa með færslunni og því reynt að hafa hana eins almenna og hægt hafi verið þannig að aðeins þeir sem vitað hafi um hvað málið snerist myndu skilja hvað um væri að ræða. Aðspurð kvað hún stefnanda hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Móðir hennar hefði látist [...] og hún þá verið send til ættingja fyrir vestan. Þegar hún hafi komið aftur í bæinn, í [...], hafi móðir stefnanda og faðir hennar verið búin að stofna til sambúðar á heimili móður stefnanda. Stefnandi hafi fljótlega byrjað að snerta hana, fyrst með kitli og þess háttar en það þróast mjög hratt. Eftir nokkra mánuði hafi hann haft samfarir við hana í fyrsta skipti og fljótlega eftir það verið farinn fá „blowjob“ og nota á sig hjálpartæki, farinn að nota klámefni og fleira. Á sama tíma hafi hann verið mjög grófur við sig líkamlega. Það hafi byrjaði með leikjum sem orðið hafi sífellt grófari og náð hámarki um jólin 1986 þegar hann hafi náð að rota hana með boxhönskum. Þá hafi hann einnig verið mjög kúgandi andlega og haft unun af að niðurlægja hana. Þá hafi hann reynt að koma sér í vandræði gagnvart föður sínum, sem beitt hafi sig líkamlegum refsingum og lokað hana langtímum saman inni í herbergi. Þannig hafi stefnandi náð stjórn yfir öllum þáttum lífs hennar. Um tíma hafi stefnandi misst að mestu áhuga á kynlífi með sér en þá fengið furðulega ánægju út úr því að veita öðrum aðgang að sér. Síðan hafi hann tekið upp fyrri iðju sjálfur. Þegar upp hafi komist um hegðum stefnanda gagnvart sér hafi hún verið send í burtu til D en stefnandi verið sendur til föður síns. Gerður hafi verið samningur við hana um að hún fengi að fara í meðferð upp á [...] en hún hafi ekki mátt fara til Stígamóta þar sem föður hennar hafi fundist þau samtök vera kvenréttindasamtök. Þá hafi henni verið bannað að tala um þetta á heimilinu eða utan heimilisins. Stefnandi hafi ekki átt að hafa aðgang að heimilinu en það ekki gengið eftir þannig að hún hafi flutt að heiman. Þá hafi félagsmálayfirvöld gripið inn í málið og henni verið komið fyrir á heimili út í bæ en síðan í Reykjavík. Í framhaldinu hafi hún farið í meðferð sem hjálpað hafi henni við að koma sér út úr aðstæðunum. Á þessum tíma hafi hún ekki getað verið ein og ekki innan um margt fólk. Hún hafi ekki getað sofið, ekki verið í mikilli birtu, ekki verið í myrkri o.s.frv. Kvaðst hún hafa náð að vinna sig út úr þessu ástandi meðan hún hafi verið í [...]. Þegar stefnandi hafi eignast sína fyrstu dóttur kvaðst hún hafa hringt í lögregluna og tilkynnt hann en ekki kært. Stefnandi hafi fengið að halda öllum samskiptum við fjölskylduna en hún vikið. Aðspurð hvað hún hafi átt við með „leyfi“ í Facebook færslunni svaraði hún því til að hún hefði verið stödd uppi í íþróttahúsi. Stefnandi hafi verið á staðnum og verið að tala við tvo stráka. Kvaðst hún hafa séð að verið var að benda á sig en ekki spáð meira í það. Það næsta sem hún myndi hafi verið að hún hafi verið stödd inni í kvennaklefa að reyna að berjast um og segja nei en þeir hafi sagt að A hafi sagt þeim að þetta væri allt í lagi. Henni hafi verið hópnauðgað í kvennaklefanum. Þannig hafi öll hennar skólaganga verið og hún mátt búast við að setið væri fyrir sér. Facebook færslan hafi snúist um að hennar leyfi hafi ekki verið til staðar en það hafi verið eina leyfið sem skipt hafi máli. Henni hafi verið sama hver annar hefði sagt að þetta væri í lagi, sitt leyfi hafi ekki verið til staðar. Færslan hafi snúist um þetta. Aðspurð kvaðst hún ekki vita hvað drengirnir sem nauðgað hafi sér hafi heitið. A hafi ekki verið inni í klefanum en hún viti að þetta hafi verið honum að kenna. Aðspurð hvaða tilviki hún hafi verið að lýsa þegar hún hafi í Facebook færslunni sagst hafa verið læst inni í herbergi svaraði hún því til að það tilvik hafi ekkert komið A við enda hafi færslan ekki verið um A. Aðspurð svaraði stefnda því til að ummælin undir tl. 2 í stefnu snerust ekki um A en margir hafi samt fengið leyfi frá honum til að gera það sem þeir vildu. Aðspurð kvaðst hún vera að vísa til atburðar í gula húsinu. Hún vissi ekki hvort þeir hafi fengið leyfi nákvæmlega. Um væri að ræða tvo aðskilda hluti. Annars vegar að henni hafi margoft verið hópnauðgað og hins vegar að hann hafi gefið leyfi, sem haft hafi þessar afleiðingar. Það þýddi ekki að hann hafi gefið leyfi í hvert einasta sinn. Hún geti ómögulega rifjað það upp en hún væri búin að fara í gegnum mikla meðferð til að gleyma þessu og ætli ekki að rifja upp hvert einasta atvik. Hún hafi kosið að halda þeim, sem sent hafi henni skriflegar afsökunarbeiðnir, fyrir utan málið. Spurð nánar af dómara um meint leyfi frá A þ.e. hvort hann hafi leyft öðrum að hafa kynferðislegt samneyti við hana, svaraði hún: „Ég er að segja að hann hafi leyft það“.

       Vitnið, G, verkefnastjóri hjá Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurð kvaðst hún hafa verið að vinna í sumarvinnu sem ráðgjafi hjá Stígamótum 1992, þegar stefnda hafi komið þangað í ráðgjöf og stuðning. Um hafi verið að ræða kynferðisleg samskipti milli stjúpsystkina, í fyrstu milli barna en síðan hafi samskiptin breyst í kynferðislegt ofbeldi. Hafi hún fylgst með stefndu í nokkur ár þar á eftir. Stefnda hafi sagt sér sína sögu sem einkennst hafi af ofbeldi, eftir að hún hafi kynnst A. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa haft ástæðu til að efast um sannleiksgildi frásagnar stefndu. Reynsla þeirra, sem um þessi mál fjalli, sé, að þegar fólk segi frá svona erfiðri reynslu sé ekki ástæða til að efast um sannleiksgildi hennar. Það sem vakið hafi athygli þeirra hafi verið að þótt hún væri svona ung hafi hún lýst sömu einkennum og fullorðnir hafi lýst. Reynslan hafi kennt þeim að ofbeldi barna gagnvart börnum geti haft alveg jafn alvarlegar afleiðingar og ofbeldi fullorðinna gagnvart börnum. Aðspurð kvað hún stefndu hafa sagt sér að A hefði stuðlað að því að aðrir drengir beittu hana ofbeldi.

Vitnið, D félagsráðgjafi, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurt sagði vitnið að hann og faðir stefndu hafi verið vinir allt frá unglingsárunum og hafi hann verið annar af skírnarvottum stefndu. Vitninu sagðist svo frá að í eitt sinn, þegar hann hafi verið í heimsókn hjá föður stefndu, hafi hann sagt sér að leiðindamál hefði komið upp í fjölskyldunni og að hann vissi ekki hvernig hann ætti að snúa sér í því. Hafi hann spurt sig hvort hann gæti stutt stefndu í málinu en vitnið hafi á þessum tíma starfað sem hjónabands- og fjölskylduráðgjafi á [...] og haft með að gera hópa fyrir þá sem þurft hefðu að þola kynferðisofbeldi í æsku. Hafi faðir stefndu sagt við sig að best væri að hann fengi að vita nánar um málið á fundi með fjölskyldunni. Tveimur dögum seinna hefði hann sest niður í eldhúsinu með fjölskyldunni. Móðir stefnanda, hefði haft orðið og lýst því sem hún hefði orðið áskynja [um kynferðisleg samskipti stefnanda og stefndu] og bætt svo við að því miður hefði allavega verið þvingun í sumum tilvikum. A hafi setið við hliðina á sér. Kvaðst vitnið hafa spurt A hvort þetta væri rétt og hann þá hallað sér fram og falið andlitið í höndum sér og kinkað kolli. Hafi vitnið þá sagt við A: „þú verður að svara mér“. Hefði hann þá játað að þetta hefði gerst. Í framhaldinu hafi móðir stefnanda og faðir stefndu sagst myndu reyna að fá stuðning fyrir A eins og hægt væri en beðið sig að styðja stefndu eins og hann gæti, sem hann hafi gert. Aðspurt svaraði vitnið því til að A hefði játað „þvingun“. Vitnið kvaðst ekki hafa efast um orð stefndu og fjölskyldan hafi ekki heldur virst gera það. Farið hafi verið í að reyna að veita þeim báðum hjálp, stefndu fyrst í gegnum sig en hún leitað fljótlega til Stígamóta og notið stuðnings frá fólki þar. Þá hafi hann útvegað henni aðgang að stuðningshópi á [...]. Aðspurt sagði vitnið að hluti af vinnunni hafi verið að færa vinnubók. Kvaðst vitnið oft hafa séð stefndu með bókina á hnjánum, þegar hún hafi verið að skrifa í hana en hann aldrei beðið um að fá að sjá bókina. Aðspurt sagði vitnið að stefnda hefði talað um það í gegnum tíðina að A hefði stuðlað að því að aðrir drengir hefðu misnotað hana en hann aldrei spurt hana út í nein smáatriði og ekki vita annað í þessum efnum en það sem hún hefði sagt sér. Aðspurt sagði vitnið að á umræddum fundi í eldhúsinu, á heimili foreldra stefndu og stefnanda, hafi auk sín og foreldranna verið stefnandi og stefnda og yngri bróðir stefndu en reynt hafi verið að halda honum utan við það sem fram hafi komið á fundinum.

       Vitnið, E, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hún kvað sig og stefndu hafa þekkst síðan 1998. Aðspurð kvaðst hún hafa heyrt af þessum málum fljótlega eftir að þær hafi kynnst. Þegar stefnda hafi sent færsluna hafi verið búinn að vera mikill þrýstingur á hana á að mæta í fermingarafmælið. Stefnda hafi  ákveðið að segja satt og rétt frá, í stað þess að afsaka hvers vegna hún mætti ekki. Áður en hún hafi sent færsluna hafi hún lesið hana fyrir sig. Þetta hafi ekki verið gert í fljótheitum, reiði  eða hefnd. Í framhaldi af færslunni hafi a.m.k. tveir sent henni póst og beðist afsökunar á sínum þætti þ.e. að hafa sofið hjá henni án hennar samþykkis. Aðspurð kvað hún stefndu hafa sagt sér að A hefði hvatt aðra til að nota sig en hún hefði ekki farið út í smáatriði í þessu sambandi. Aðspurð kvaðst hún hafa orðið vitni að því þegar stefnda hafi fundið dagbækurnar. Hafi það gerst, þegar hún hafi verið að flytja í október 2016.

       Vitnið, F, gaf skýrslu við aðalmeðferðina. Aðspurð kvaðst hún hafa kynnst stefndu 1987 og haldið sambandi við hana í gegnum árin. Kvaðst hún minnast þess að stefnda hefði trúað sér einu sinni fyrir því að A hefði misnotað hana. Þá hafi hún trúað sér fyrir því að þegar hún hafi líklega verið 16 ára hafi sér verið hópnauðgað og hafi það gerst í skoti við [...] í [...]. Hún hafi líka sagt við sig: „A var á staðnum. Hann kom á eftir“. Aðspurt kvaðst vitnið hafa trúað þessari frásögn stefndu. 

       Eins og áður er rakið lúta kröfur stefnanda í máli þessu að tveimur tilgreindum ummælum stefndu, sem hún birti á samfélagsmiðlinum Facebook í [...]. Birtingin átti sér stað á síðu sem opnuð hafði verið í tengslum við fyrirhugað fermingarafmæli stefndu og fermingarsystkina hennar. Óumdeilt er að síðan var opin öllum fermingarhópnum. Fyrri ummælin samkvæmt kröfugerð stefnanda eru þessi: ,,ekki einn af draumum mínum að vera læst inn í herbergi meðan að drengirnir skiptust á að uppfylla sínar óskir“.

       Stefnda hefur í greinargerð sinni og skýrslu við aðalmeðferð málsins borið að skólafélagar hennar hafi ítrekað, meðan á dvöl hennar í [...] hafi staðið, beitt hana grófu og ítrekuðu kynferðislegu ofbeldi og vísi ummælin til þess. Þá hefur hún lagt fram í málinu ljósrit svonefndra dagbókarfærslna, sem hún kveðst hafa skrifað, þar sem umræddu kynferðilegu ofbeldi er lýst. Hún hefur hins vegar þvertekið fyrir að ummælunum hafi verið beint að stefnanda enda komi skýrt fram í Facebook færslu hennar, sé hún lesin í heild, að um hafi verið að ræða drengi í hennar eigin árgangi en stefnandi hafi verið tveimur árum eldri en hún og því tveimur bekkjum ofar henni í skóla.

       Ekki verður ráðið af framangreindum ummælum, hvort sem þau eru skoðuð einangruð eða í samhengi við texta Facebook færslunnar í heild sinni, að þau eigi við stefnanda. Getur stefnandi ekki fengið ummæli sem beinast að öðrum en honum sjálfum, ómerkt.Verður stefnda því sýknuð af þessum lið kröfugerðar stefnanda.

       Síðari ummælin samkvæmt kröfugerð stefnanda eru eftirfarandi: ,,Margir fengu nú leyfi frá A til að gera það sem þeir vildu. Það var nú fínt þar sem hann gerði sama hlutinn. Það fékk enginn leyfi frá mér“.

       Eins og áður er rakið byggir stefnandi á því að framangreind ummæli vegi gróflega að æru hans enda feli þau í sér fullyrðingu um að hann hafi gefið ónafngreindum drengjum leyfi til að eiga kynferðislegt samneyti við stefndu. Hafnar stefnandi því alfarið að hann hafi gert eitthvað sem túlka megi á þann veg. Séu ummælin fjarstæðukennd og ósönn.

       Af hálfu stefndu er á því byggt að ummælin skv. tl. 2 í kröfugerð stefnanda hafi verið sett fram í þeim eina tilgangi að árétta þá staðreynd, að þrátt fyrir að einhverjir drengjanna í hópnum kunni að hafa fengið leyfi frá stefnanda minnki það ekki á nokkurn hátt sök þeirra, sbr. „það fékk enginn leyfi frá mér“. Því sé mótmælt sem í stefnu segi að ummælin séu rangfærslur og uppspuni, sett fram í þeim tilgangi að skaða stefnanda. Framsetning stefndu hafi verið hófsöm, ummælin hafi ekki snúist um stefnanda heldur hafi verið minnst á hann því til stuðnings að ábyrgðin lægi hjá þeim, sem brotið hafi gegn henni. Þeim hafi verið beint að aðilum innan hópsins og í þeim gert ráð fyrir að þeir vissu hvað um væri rætt.

       Það er mat dómsins að framangreind ummæli stefndu verði ekki, einangruð eða lesin í samhengi við Facebook færslu stefndu í heild sinni, skilin á annan veg en þann að stefnandi hafi „leyft“ ónafngreindum drengjum að eiga kynferðislegt samneyti við stefndu, án hennar samþykkis. Þessi skilningur á ummælunum á sér ótvíræða stoð í skýrslu stefndu sjálfrar við aðalmeðferð málsins en eins og áður er rakið svaraði hún spurningu dómara um hvort stefnandi hefði leyft öðrum að hafa kynferðislegt samneyti við sig, þannig: „Ég er að segja að hann hafi gert það“. Stefnda hefur ekki gegn eindreginni neitun stefnanda fært sönnur á þessi ummæli sín og varða þau því, hvað meint leyfi stefnanda varðar, við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Samkvæmt 239. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er heimilt að láta refsingu samkvæmt 234. og 235. gr. laganna falla niður, ef tilefni ærumeiðingar var ótilhlýðileg háttsemi þess manns, sem telur sér misboðið eða hann hefur goldið líku líkt. Sjónarmiðin að baki ákvæðinu hafa í refsirétti verið nefnd „orðhefnd“. 

       Af hálfu stefnanda er viðurkennt í stefnu að hann hafi átt í kynferðislegu sambandi við stefndu, stjúpsystur sína, meðan þau bjuggu í foreldrahúsum og voru bæði börn að aldri. Samkvæmt framburði stefndu hófst þessi háttsemi í nóvember 1986, þegar hún var 9 ára en stefnandi 11 ára, og stóð að sögn stefnanda allt til ársins 1990. Af hálfu stefndu er því hins vegar haldið fram að hún hafi staðið allt fram á árið 1992 og verið fólgin í samförum og öðrum kynferðislegum athöfnum. Af hálfu stefndu er fullyrt að stefnandi hafi þvingað hana til þessara athafna en af hálfu stefnanda að hún hafi átt sér stað með samþykki stefndu. Að stefnandi hafi þvingað stefndu til þess að eiga kynlíf með sér styðst við framburð vitnisins, D félagsráðgjafa, sem bar við aðalmeðferð málsins, eins og áður hefur verið rakið, að stefnandi hafi aðspurður, að vitninu viðstöddu, á heimili foreldra stefndu og stefnanda, gengist við því að hafa þvingað stefndu til kynferðislegra athafna. Þá styðst framburður stefndu um kynferðislegar þvinganir stefnanda gagnvart sér við framburð vitnisins, G, verkefnastjóra hjá Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, sem áður hefur verið rakinn.

       Það er álit dómsins að sú háttsemi stefnanda, sem að framan er lýst, hafi, þrátt fyrir ungan aldur hans, verið stórlega ámælisverð og ótilhlýðileg gagnvart stefndu í merkingu 239. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er það álit dómsins að augljós tengsl hafi verið milli framangreindrar aðdróttunar stefndu og hinnar ótilhlýðilegu háttsemi stefnanda og að ummæli stefndu hafi ekki gengið lengra en frumverknaður stefnanda hafi gefið tilefni til. Þá verður ekki talið að þótt langur tími hafi liðið milli frumverknaðar stefnanda og orðhefndar stefndu eigi það að koma í veg fyrir réttaráhrif hefndarinnar. Þar sem ummæli stefndu verða samkvæmt framangreindu ekki talin fela í sér brot gegn 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 239. gr. laganna, verður stefnda sýknuð af kröfum stefnanda um ómerkingu ummælanna. Þá verður hún ennfremur sýknuð af kröfu stefnanda um miskabætur vegna ummælanna þar sem ekki verður talið að ummæli hennar hafi gengið lengra en tilefni var til samkvæmt framangreindu.

       Með vísan til alls framangreinds verður stefnda sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Með vísan til þeirrar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 950.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

 

Dómsorð

 

       Stefnda, B, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu. Stefnandi greiði stefndu 950.000 krónur í málskostnað.

 

                                                            Þórður S. Gunnarsson