• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 12. apríl 2017 í máli

nr. S-71/2017:

 

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Pétri Steinþóri Gunnarssyni og

Vilhelm Norðfjörð Sigurðssyni

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

 

Mál þetta, sem var dómtekið í dag, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi þann 14. mars 2017 með ákæru á hendur Pétri Steinþóri Gunnarssyni, kt. 000000-0000, óstaðsettum í hús á Akureyri og Vilhelm Norðfjörð Sigurðssyni, kt. 000000-0000, Glerá 1, Akureyri,

„fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 28. nóvember 2016, í sameiningu brotist inn í frystigám fyrir utan fiskverkunina Hnýfil að Óseyri 22 á Akureyri og stolið þaðan ýmiskonar frystum fiskafurðum, (fiskibollum, fiski í orlydeigi, laxaflökum, humri, kolaflökum, ýsu, rækju, smokkfiski, smálúðuflökum reyktri ýsu, þorskbitum, hrefnukjöti og söltuðum gellum) og fuglakjöti (lunda og svartfuglsbringum), en verðmæti þýfisins var samtals að fjárhæð 689.576 krónur.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærðu hafa báðir komið fyrir dóm og játað sök. Með játningum þeirra, sem ekki er ástæða til að efa að séu sannleikanum samkvæmar, er nægilega sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu en þegar hefur farið fram, með heimild í 164. gr. laga nr. 88/2008.

Við ákvörðun refsingar ákærðu beggja verður litið til þess að ekki hlaust tjón af brotinu nema að óverulegu leyti, þar sem þýfið náðist að mestu.  Til þyngingar horfir að verkið unnu þeir í sameiningu. Vísast hér til 2. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Pétur Steinþór á töluverðan sakaferil að baki, allt frá árinu 1995. Hann hefur átta sinnum verið dæmdur til refsingar fyrir auðgunarbrot, síðast 30. desember 2013, er hann var dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, en með voru dæmdar eftirstöðvar refsingar, 270 dagar. Síðast var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot þann 2. mars 2017. Ber nú að dæma honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Litið verður til þess að ákærði gekkst greiðlega við broti sínu. Þá verður litið til þess, sbr. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, að hann hefur farið í áfengismeðferð og var ljóst er hann kom fyrir dóminn 30. mars sl. að hann heldur bindindi. Á hinn bóginn verður að lita til þess að ákærði hefur enn á ný ítrekað auðgunarbrot, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu ákveðst refsing hans fangelsi í þrjá mánuði, sem ekki er unnt að skilorðsbinda vegna sakaferils ákærða.

Ákærði Vilhelm Norðfjörð hefur ekki gerst sekur um auðgunarbrot síðan árið 2006. Þann 7. júlí það ár var hann dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Ákærði hélt ekki það skilorð. Ákærði á töluverðan sakaferil að baki. Síðast var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting áréttuð með dómi 7. nóvember 2016. Ákærði hefur að vísu játað brot sitt skýlaust, en ekki verður sagt að hann hafi gert það greiðlega, þar sem hann kaus að tjá sig ekki er málið var þingfest. Refsing hans ákveðst fangelsi í tvo mánuði, sem ekki þykir fært að skilorðsbinda þegar litið er til sakaferils ákærða og þess að hann rauf skilorð reynslulausnar sem hann fékk 26. júní 2014.

Ákærði Vilhelm Norðfjörð verður dæmdur til greiðslu þóknunar skipaðs verj­anda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir að virðisaukaskatti meðtöldum, svo og útlagðan kostnað hans.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði Pétur Steinþór Gunnarsson sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákærði Vilhelm Norðfjörð Sigurðsson sæti fangelsi í tvo mánuði.

Ákærði Vilhelm Norðfjörð greiði 179.285 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 147.560 krónur og útlagðan kostnað hans, 31.725 krónur.