• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 10. febrúar 2017 í máli nr. S-335/2015:

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Uros Rudinac

(Páll Kristjánsson hdl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 27. janúar 2017, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dags. 28. maí 2015, á hendur Uros Rudinac, kennitala 000000-0000, [...], Reykjavík. Í öðrum kafla ákæru var ákærða gefið að sök brot gegn blygðunarsemi og barnaverndarlagabrot með því að hafa sært blygðunarkennd A og sýnt henni ósið­legt og særandi at­hæfi, „með því að hafa [...] 2014, í matsal [...], sýnt nokkrum samnemendum A mynd­efni“ sem nánar greinir í fyrri ákærulið I. kafla ákæru sem ákærði hefur þegar verið sakfelldur fyrir eins og nánar greinir hér á eftir.

            Telur ákæruvaldið brotið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

            Í málinu gerir A kröfu um skaða- og miskabætur úr hendi ákærða vegna framangreinds brots. Krafist er greiðslu 1.500.000 króna auk vaxta af fjár­hæðinni samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 4. maí 2014 til 28. júní 2014 en dráttarvaxta sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga. Þá er krafist málskostnaðar við að halda kröfunni fram.

 

            Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 35/2016, sem kveðinn var upp 29. september 2016, voru ákærði og þá meðákærðu sýknaðir af sakargiftum samkvæmt fyrri lið I. kafla ákæru dagsettrar 28. maí 2015 og meðákærði B að auki sýknaður af sakargiftum samkvæmt seinni lið kaflans. Ákærði var sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt fyrri lið II. kafla ákærunnar fyrir að hafa myndað með farsíma hluta af kynmökunum sem vísað var til í fyrri lið I. kafla ákæru. Var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var hann dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum.

            Sá hluti hins áfrýjaða dóms, sem lýtur að sakargiftum á hendur ákærða, samkvæmt síðari lið II. kafla ákæru, var ómerktur og þeim þætti vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

            Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður en til vara að honum verði ekki gerð refsing, til þrautavara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa og refsing verði þá skilorðsbundin. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði. Hann krefst þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara sýknu komi til sakfellingar, til þrautavara að bætur verði stórlega lækkaðar. Verjandi reifar málavexti og lagarök, ítrekar gerðar kröfur og leggur málið í dóm með venjulegum fyrirvara.

 

                                                                I.

            Þann [...] 2014 lagði móðir brotaþola, en brotaþoli var þá ólögráða, fram kæru á hendur ákærða og fjórum öðrum aðilum fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni aðfaranótt [...] 2014. Fram kom í skýrslu hennar að brotþoli hefði frétt hjá vinkonum sínum [...] 2014 að myndskeið sem hafði að geyma hluta af kynferðismökum þeim sem kærðu var gefið að sök að hafa átt við hana gegn vilja hennar, hafi verið sýnt ónafngreindum aðilum.

            Fjórar skýrslur voru teknar af brotaþola vegna málsins og greindi hún þá frá því að hún hefði heyrt af því að krakkar í skólanum hefðu séð myndskeiðið á farsíma ákærða. Hafi það komist í umferð en einhver hefði tekið upp hluta af því á annan farsíma. Hefði ákærði beðið hana afsökunar á því að hafa sýnt myndskeiðið, í samskiptum þeirra á Facebook. Vitneskjan um þetta hafi hins vegar haft slík áhrif á hana að hún ákvað að leggja fram kæru.

            Ákærði var spurður um þetta í yfirheyrslum hjá lögreglu. Hann kannaðist við að hafa myndað kynmökin að hluta til með upptökubúnaði á farsíma en kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir andstöðu brotaþola fyrr en eftir atvikið. Eins og áður greinir var ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi. Hann kvaðst þá hafa sýnt meðkærðu myndskeiðið í skólanum á [...]deginum en síðan hafi hann eytt því er þeir sáu til. Hann kvaðst ekki hafa sýnt það í skólanum eins og honum er gefið að sök heldur hafi síminn verið tekinn af honum af öðrum [...] C eða D og einhverjum fleirum og settur á borð í skólanum. Þar hafi hópur fólks safnast saman í kringum símann en hann hafi ekki náð honum aftur strax.

 

            Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða, brotaþola og annarra vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess. Við upphaf aðalmeðferðar var spiluð hljóðlaus upptaka sem er á meðal gagna málsins en hún sýnir síma ákærða á borði í matsal [...] og var þá verið að spila upptöku af kynmökum af símanum hans.

            Ákærði neitar sök. Hann kvað umrætt myndskeið hafa verið í símanum hans. Hann hafi verið með símann á sér í skólanum á [...]deginum en þar hafi hann sýnt E, B, F og J myndefnið. Þeir hafi þá verið staddir á gangi á 2. hæð skólans. Hafi strákarnir beðið hann um að eyða myndskeiðinu þá þegar og vildu þeir ekki að nokkur sæi það. Hann hafi hins vegar ekki eytt því strax. Hann hafi verið staddur á ganginum á 1. hæð að skoða óskylt efni í símanum sínum, þegar annar [...], C eða D, kom hlaupandi, náði af honum símanum og fór með hann yfir á borð í matsal skólans. Ákærði kvaðst hafa gengið hratt á eftir honum en skyndilega hafi myndast hópur í kringum borð og hafi hann átt í mestu vandræðum með að nálgast símann. Hafi honum m.a. verið ýtt burt eða einhvern vegin haldið frá. Hann hafi reynt að ýta á móti. C og D hafi verið þarna, K og einhverjir fleiri. Að lokum hafi hann fengið nóg, náð að ýta frá og tekið við símanum. Hafi hann þá eytt myndskeiðinu. Aðspurður kvað hann fólkið hafa skoðað símann, hlegið og hafi það greinilega áttað sig á því hvaða strákar voru á upptökunni. Þá kvaðst ákærði hafa séð þegar einhverjir tóku hluta myndefnisins upp á eigin síma. Taldi ákærði að um 5-6 mínútur hefðu liðið þar til hann náði símanum aftur og miðaði þá við lengd þeirrar upptöku sem spiluð var í dómsalnum. Aðspurður kvað ákærði símann ekki hafa verið læstan með lykilnúmeri á þessum tíma. Hann hafi hins vegar verið búinn að setja slíkan lás á símann þegar hann fór í fyrstu yfirheyrslu til lögreglu og raunar sett hann á strax eftir að hann eyddi myndskeiðinu. Þá kvað ákærða sér ekki vera kunnugt um hvernig það spurðist út að myndskeiðið væri að finna á símanum hans. Ákærði kannaðist við að hafa beðið brotaþola afsökunar á því að hafa tekið myndbandið upp í Facebooksamskiptum þeirra. Hann hafi frétt af því að hún ætlaði að leggja fram kæru og vildi láta hana vita að hann hefði eytt því. Hann hefði ekki vitað að það hefði komist í dreifingu.

            Brotaþoli var ekki í skólanum þegar myndskeiðið var sýnt í skólanum af síma ákærða. Kvaðst hún hafa frétt af því í gegnum vinkonur sínar sem vissu að hún var á því. Aðspurð kvað brotaþoli vitneskjuna um þetta hafa gert illt verra en henni hafi liðið illa fyrir. Henni hafi verið misboðið og fundist mjög óþægilegt að vita til þess að einhverjir hefðu séð það. Hún hafi heyrt þá skýringu síðar að síminn hefði verið tekinn af ákærða og því hafi fleiri séð upptökuna. Brotaþoli kvaðst ekki hafa séð myndskeiðið sjálf fyrr en hjá lögreglu og hafi fundist erfitt að horfa á það. Hún kvaðst hafa hætt í skólanum strax eftir vitneskjuna um þetta og lokað mikið á skólafélaga sína. Einnig hafi hún fundið fyrir vanlíðan sem hún lýsti frekar. Brotaþoli kvaðst þó nokkuð viss um að því myndefni sem var til hefði verið eytt og taldi það ekki vera í dreifingu í dag.

            S, móðir brotaþola, kvað brotaþola enn finna til mikillar vanlíðunar vegna atviksins í heild sinni. Varðandi upptökuna og það að hún hafi verið sýnd kvað hún það hafa gert allt mun verra. Brotaþoli hefði mikið hugsað um hvað væri á myndskeiðinu og hverjir hefðu séð það. Þá hafi hún leitað til [...] og ekki farið í skólann aftur. Námið hefði ekki gengið sem best í kennaraverkfallinu en brotaþoli hafði engu að síður ákveðið að taka prófin [...]. Mál þetta hafi komið upp á þeim tíma og þá hafi ekki verið aftur snúið fyrir hana.

            T, faðir brotaþola, tók í sama streng og móðirin um að brotaþoli hefði fundið til vanlíðunar eftir atvikið og líðan hafi versnað til muna. Hann tengdi það þó ekki sérstaklega við myndbandið sem slíkt.

            E, kvaðst lítið sem ekkert hafa verið í skólanum á [...]deginum og kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hefði sýnt honum myndskeiðið af símanum sínum í skólanum. Í næstu frímínútum á eftir hafi verið greinilegt að ákærði hafði sýnt einhverjum það. Hann hafi lítið heyrt um myndskeiðið en vissi að eitthvað hefði gerst í skólanum þar sem það kom við sögu.

            B (I) kvað ákærða hafa sýnt honum umrætt myndefni á ganginum á 2. hæð skólans. Hann hafi eytt því fyrir framan hann að hans beiðni. Aðspurður kvað hann alla í skólanum hafa talað um myndskeiðið og frétti að fleiri höfðu séð það. Hann vissi ekkert um það hvort einhver hefði tekið símann af ákærða. Þá kvaðst hann heldur ekki vita hvort atvikið í matsalnum hefði verið fyrir eða eftir að hann sá myndskeiðið. Í skólanum hafi verið talað um hverjir væru á því og fólk hlegið. Vitnið kvað sér hafa liðið illa yfir þessu.

            G (F), kvaðst hafa frétt af þessu þegar I hefði fengið „snapp“. Hann, J og I hefðu verið í sömu kennslustund. Þeir hafi horft á „snappið“ og orðið mjög reiðir út í ákærða. Á snappinu sáust allir standa í hring og horfa á umrætt myndskeið af síma ákærða. Einhver hafði tekið hluta þess upp. Þeir höfðu uppi á ákærða í skólanum og töluðu við hann, nokkuð æstir. Hann hafi gefið þá skýringu að síminn hafi legið á borðinu og einhverjir strákar tekið upp á þeirra síma. Taldi hann að þetta hafi verið um hádegisbil. Vitnið kvaðst ekki vita hvað gerðist nákvæmlega. Hann kvað alla hafa verið að tala um þetta og hlegið að þessu. Ákærði hafi líka hlegið að þessu. Aðspurður kvað hann ákærða hafa ætlað að eyða myndskeiðinu strax í partýinu [...]. Vitnið kannaðist ekki við að ákærði hefði sýnt honum það sérstaklega í skólanum. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða eyða því en hann hafi sagt vitninu að hann hefði gert það.

            J kvaðst hafa frétt af því á [...]deginum í skólanum að myndskeið væri komið á „flakk“. Hann, B,, E og F hefðu viljað láta eyða því. B hafi fengið „snapp“. Þeir hafi verið kallaðir klámstjörnur í skólanum og hlegið að þeim. Vissu þeir því að ekki var allt með felldu. Þeir hafi hitt ákærða og hann hafi eytt myndskeiðinu fyrir framan þá. Þeir hafi spurt ákærða hvernig þetta hafi getað gerst og minnti vitnið að ákærði hefði sagt að einhver hefði tekið af honum símann. Aðspurður kvað vitninu sér hafa brugðið mikið yfir þessu og þeim strákunum hafi liðið mjög illa yfir því að hafa vitað af myndskeiðinu. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í matsalnum umrætt sinn og vissi ekkert um það sem þar gerðist.

            M kvaðst muna afar illa eftir atvikum í dag. Hún hefði heyrt af því að umrætt myndefni hefði verið sýnt í skólanum. Hún hafi fengið myndskeiðið frá vitninu C og hún og fleiri stelpur hafi síðan látið brotaþola vita af því. Þetta hafi verið upptakan sem lögreglan fékk í hendur. Hún kvað brotaþola hafa verið brugðið yfir þessu og staðfesti það sem fram kom í lögregluskýrslu hennar um líðan brotaþola. Hún kvaðst ekki vera í samskiptum við brotaþola í dag.

            N bar fyrir sig minnisleysi um atvik máls. Hún kvaðst ekki vera í samskiptum við brotaþola í dag. 

            P kvaðst hafa frétt af því að ákærði hefði sent C eða D myndskeið. Þá hafi M líka verið með það og O séð það. Hún kvaðst hafa sagt brotaþola frá þessu en hún hafi lítið talað um þetta atvik. Allir hafi vitað að brotaþoli var á myndskeiðinu.

            O kvaðst hafa verið í hópi þeirra stúlkna sem fóru til brotaþola að segja henni frá tilvist myndskeiðsins. Hún kvaðst hafa verið með þeim fyrstu sem sáu það á [...]deginum. Hún hafi verið í matsalnum umrætt sinn og séð hóp stráka við eitt borðið vera að skoða myndskeið og færa milli síma. Það hafi allir verið hlægjandi. Kvaðst hún ekki muna hvort ákærði var þarna. Aðspurð kvað hún þetta vera hóp sem [...] C og D væru í. Hana minnti að þeir hefðu verið þarna en gat ekki fullyrt það. Taldi hún þetta hafa verið um kl. 11.00. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa orðið vör við einhverjar ryskingar í hópnum. M hafi komið til hennar og sagt henni frá því sem væri á seyði. Hún hafi líka sýnt henni myndskeiðið. Vitnið kvað a.m.k. hluta af vinkvennahópnum hafa verið í matsalnum þegar þetta átti sér stað og því hafi þær ákveðið að fara beint til brotaþola til að segja henni hvað gerðist.

            C kvað ákærða hafa sýnt honum myndskeið af símanum sínum í matsalnum. Sími ákærða hafi legið á borði og ákærði ekki tekið hann þaðan. Fleiri hafi verið viðstaddir. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa tekið símann af ákærða. Kvaðst hann ekki hafa verið í hinu umtalaða partýi og því ekki kunnugt um tilvist myndskeiðsins. Þá hafi hann ekki kunnað lykilorðið að síma ákærða. Hann hafi látið M fá myndskeið sem hann tók upp af síma ákærða. Hann kannaðist ekki við að ákærði hefði verið eitthvað ósáttur eða að eitthvað hafi gengið á í matsalnum í tengslum við símann.

            D kvaðst hafa verið í matsalnum umrætt sinn. Aðspurður hélt hann að C hefði verið þar líka. Hafi myndskeiðið verið spilað af síma ákærða. Hafi verið talað um það í skólanum hverjir hafi verið á því. Vitnið kvaðst ekki muna eftir neinum átökum í tengslum við þetta eða að ákærða hafi verið haldið frá símanum. Borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu þar sem hann lýsir manni sem sýndi honum myndskeiðið. Kvað vitnið það hafa verið ákærða. Þá staðfesti hann lögregluskýrsluna og taldi sig muna atvik betur á þeim tíma sem hún var tekin heldur en í dag.

            K (L), kvaðst hafa séð síma ákærða á borði í matsal skólans og var þá verið að spila umrætt myndskeið. Fólk hafi staðið þar í kring. Hann hafi verið við borðið og aðspurður taldi hann sig hafa séð ákærða. Vitnið kvaðst ekki muna hvort C og D hefðu verið viðstaddir. Þá kvaðst hann ekki muna eftir því að ákærði hafi mótmælt því sem fram fór. Fólk hafi verið að taka upp af síma ákærða yfir á sinn og verið „í símanum“ á borðinu. Spurður um atgang í matsalnum í tengslum við þetta kannaðist hann ekki við það. Kvað hann viðbúið að starfsmenn í matsal hefðu haft afskipti af þeim ef eitthvað hefði gengið á. Vitnið kvað alla hafi vitað hverjir voru á myndskeiðinu. Borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að ákærði hefði sýnt vitninu myndskeiðið. Kvað hann sig hafa munað atvik betur þá enda ekki langt liðið frá atburðum er hann gaf skýrsluna.

            R sálfræðingur staðfesti vottorð sitt frá [...] 2015. Hún kvaðst hafa hitt brotaþola samtals í 13 skipti þar af fimm sinnum eftir að hún gaf út vottorðið. Þær hafi í samtölum sínum lítið komið inn á upptökuna eða efni hennar. Hins vegar hafi það atvik sem átti sér stað í skólanum þar leitt til þess að brotaþoli ákvað að leita til lögreglu. Það hafi því verið henni ofarlega í huga á því tímamarki en ekki eftir það sérstaklega. Aðspurð kvað vitnið það að sýna myndefni af þessum toga eða setja á netið geta valdið hugarangri hjá brotþolum. Þá gæti það viðhaldið einkennum áfallastreituröskunar. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð jafn „frosinn“ einstakling og dofinn í jafnlangan tíma. Brotaþoli hafi verið alveg flöt. Vitnið kvað brotaþola hafa glímt við þunglyndi fyrir þetta atvik af fjölskyldutengdum ástæðum. Í dag hafi dregið úr einkennum áfallastreitu brotaþola.

            U rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa sinnt ákveðnum þáttum rannsóknar málsins. Hún gat ekki gefið skýringar á því hvers vegna ekki hefði verið leitað eftir því að fá upptöku úr eftirlitsmyndavélakerfi skólans. Aðspurð um aðra þætti rannsóknarinnar tengdu þessu atviki kvaðst hún ekki geta svarað fyrir þá þar sem þeir hefðu ekki verið á hennar könnu.

 

                                                              II.

Niðurstaða

            Ákærði neitar að hafa sýnt samnemendum sínum myndskeiðið sem var að finna á símanum hans í matsal [...] 2014. Hann kvaðst aðeins hafa sýnt vitnunum E, B, F og J, það um hádegisbilið en þeir hafi þá ekki verið staddir í matsalanum heldur á gangi á 2. hæð skólans. Vitnin bera ekki á einn veg um það hvernig og hvenær þeir hafi fengið vitneskju um að myndskeiðið væri að finna í síma ákærða. Aðeins B kvaðst hafa séð það á þeim stað er ákærði tilgreinir, en F og J bera um að hafa séð það á „snappi“ á síma B og hann hafi fengið það sent þegar þeir voru allir í kennslustund, E kvaðst hafa komist að því síðar en hafi verið lítið í skólanum þann daginn. Enginn þeirra var í matsalnum er atvikið átti sér stað og vissu ekki hvernig það atvikaðist að upptakan var spiluð í matsalnum.

            Ákærða og fyrrnefndum vitnunum ber saman um að viðbrögð vitnanna við myndskeiðinu hafi verið mjög neikvæð og þeir alls ekki viljað að það kæmi fyrir sjónir annarra eða í dreifingu. Fóru þeir fram á það að ákærði eyddi því þegar í stað. Hvort sem þeir fengu vitneskju um myndskeiðið fyrir eða eftir hið umdeilda atvik í matsal skólans, er ljóst að við mat á trúverðugleika ákærða verður að líta til fyrrgreindra viðbragða vitnanna, sem þykir útiloka að þeir hafi haft nokkurn hug á því að þetta spyrðist út. Þá verður að líta til þess að vitnin og brotaþoli voru á myndskeiðinu en ekki ákærði.

 

            Ákærði gat ekki gefið skýringar á því fyrir dómi hvers vegna hann eyddi ekki myndskeiðinu þrátt fyrir brýna beiði vitanna. Hann hefur frá upphafi gefið sömu skýringar á því að annar [...], C eða D, hafi þrifið af honum símann og þannig hafi það atvikaðist að myndskeiðið var sýnt í matsal skólans. Þetta er sama skýring og hann gaf vitninu J og brotaþola í Facebookspjalli eftir atvikið en þau gengu út frá því að ákærði hefði sýnt myndskeiðið af símanum sínum og áfelldust hann. Þetta sést einnig í samskiptum á milli J og F.

            Verjandi ákærða vék að rannsókn málsins í málflutningi sínum sem hann taldi ábótavant hvað tiltekna þætti varðaði. Nefndi hann til að mynda að ekki hefði verið leitað eftir upptöku úr eftirlitsmyndakerfi skólans en fyrir liggur í gögnunum að eftirlitsmyndavélar eru á göngum skólans og í matsal. Undir þetta má taka, upptökur úr eftirlitsmyndavélum geta verið mikilvæg sönnunargögn og haft úrslitaþýðingu þegar verulegur vafi er uppi um atvik. Nauðsynlegt er að afla þeirra á frumstigum rannsóknar svo að upptökur fari ekki forgörðum. Hins vegar er til þess að líta að sönnunarbyrðin um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Það er því á forræði ákæruvaldsins að ákveða hvaða sönnunargögn eru lögð fram til að fullnægja sönnunarbyrði ákæruvaldsins.

            Ákærði hefur ekki gefið haldbærar skýringar á því hvernig það gat spurst út að myndskeiðið væri að finna í símanum hans. Kom fram hjá honum fyrir dómi að þegar síminn var tekinn af honum hafi hann ekki verið að skoða myndskeiðið og að ekki væri lykilorð á símanum hans. Þá hefur hann lýst því að hann hafi ekki getað nálgast símann sinn fyrr en eftir að samnemendur hans höfðu séð myndskeiðið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess. Á þeim tíma hafi hann séð suma taka myndefnið upp á eigin síma.

            Að mati dómsins er framburður ákærða einkar ótrúverðugur. Ljóst er að hefðu atvik verið með þeim hætti sem hann lýsir og síminn komast í hendur óviðkomandi, þá má ætla að viðbrögð hans hefðu orðið allt önnur, enda var hann viðstaddur. Sjá má af myndskeiðinu sem tekið var í matsalnum og var sýnt við upphaf aðalmeðferðar, að ákærða hefði verið lófa lagið að bregðast við því sem þar fór fram. Það myndskeið er 4,26 mínútur að lengd en á því má sjá síma ákærða liggja á borði þegar umrætt myndskeið af símanum hans er sýnt. Síminn er festur í snúru sem virðist vera eyrnatól sem einn piltanna er með. Sjá má þegar síminn er færður til á borðinu, honum snúið og hann handfjatlaður af og til. Ekki má greina þvögu í kringum símann en sjá má pilta grúfa sig yfir símann. Á upptökunni er ekkert að sjá sem getur stutt framburð ákærða um að aðstæður hafi verið þannig að honum væri ókleift að nálgast símann. Þá fær framburður ákærða um það hvernig það atvikaðist að síminn var tekinn af honum, og um tilraunir hans til að nálgast hann, ekki stoð af vitnisburðum í málinu.

            Með hliðsjón af ofangreindu telur dómurinn ekki varhugavert að leggja til grundvallar framburð vitnanna C og D sem hafa borið um að ákærði hafi sýnt þeim myndskeiðið og lagt símann á borðið svo að viðstaddir gátu fylgst með. Fellst dómurinn ekki á það með ákærða að C geti ekki talist vera trúverðugt vitni hvað atvik þessi varðar af þeirri ástæðu að hann hafði stöðu sakbornings um tíma og var þá grunaður um dreifingu umrædds myndefnis. Til þess er að líta að framburður C og D fær einnig nokkra stoð af vitnisburði K og O, sem bera um að myndskeiðið hafi verið sýnt án vandkvæða í matsalnum. Sá fyrrnefndi kvaðst hafa séð myndskeiðið í matsalnum umrætt sinn og taldi hann sig hafa séð ákærða þar viðstaddan.

            Vitni í málinu hafa borið um að þeir hafi vitað hverjir voru á myndskeiðinu og að skömmu eftir sýninguna hafi verið alkunna í skólanum hverjir það voru. Hafi það verið ástæða þess að vinkonur brotaþola fóru þegar til hennar til þess að greina henni frá þessu eins og fram kom í vitnisburði O og M.

            Af öllu ofangreindu virtu telur dómurinn að í máli þessu sé hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, með athöfnum og athafnaleysi sínu. Sú háttsemi er rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Um er að ræða sérlega gróft brot gegn friðhelgi brotaþola en ákærði sýndi vitandi vits myndefni sem hann hafði ekki leyfi til að sýna og átti ekkert erindi til annarra.

 

            Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að um hegningarauka er að ræða við dóm Hæstaréttar nr. 35/2016 frá 29. september 2016 en þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um 30 daga skilorðsbundið fangelsi ákærða til tveggja ára. Þann dóm ber nú að taka upp og dæma ákærða í einu lagi refsingu, sbr. 60. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Litið er til þess að ákærði hafði hreinan sakarferil á þeim tíma er um ræðir og þá var hann aðeins 19 ára gamall, sbr. 4. og 5. tl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Til refsiþyngingar horfir að ákærði braut gegn mikilsverðum hagsmunum brotaþola. Hann skeytti ekki um afleiðingar háttsemi sinnar fyrir brotaþola sem var tvímælalaust til þess fallin að valda viðkomandi miklum andlegum þjáningum. Vísast í þessu sambandi til 1. og 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

            Atvik máls þessa áttu sér stað [...] 2014. Fyrri dómur Héraðsdóms Reykjavíkur féll 20. nóvember 2015 og dómur Hæstaréttar, eins og áður greinir, 29. september 2016. Ljóst er að málsmeðferðartími í heild sinni hefur verið langur. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Brotaþoli hefur krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.500.000 króna auk vaxta. Brot ákærða er, eins og áður er að vikið, til þess fallið að valda brotaþola verulegum miska. Liggur fyrir vottorð sálfræðings þar sem staðfest er að vanlíðan brotaþola hafi verið mikil eftir að upp komst um sýningu myndskeiðsins og liggur fyrir að það hafði úrslitaáhrif á þá ákvörðun hennar að leggja fram kæru hjá lögreglu. Fram kom hjá brotaþola og móður hennar að fregnir um sýningu þess hefðu orðið þess valdandi að vanlíðan brotaþola jókst til mikilla muna.

            Ákærði hefur með broti sínu bakað sér bótaskyldu gagnvart brotaþola vegna ólögmætrar meingerðar gagnvart henni. Á hún rétt á miskabótum samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Verður því ekki fallist á kröfu ákærða um sýknu af kröfunni. Fyrir dómi greindi hún svo frá að dregið hefði úr vanlíðan hennar þar sem hún taldi að myndskeiðið hefði ekki komist í dreifingu. Staðfesti P sálfræðingur að dregið hefði úr einkennum áfallastreitu hjá brotaþola þessu samfara. Dómurinn lítur því til þessa atriðis en hafa ber þó í huga að brot það sem ákærði er sakfelldur fyrir er þess eðlis að brotaþoli getur seint eða jafnvel aldrei haft fullvissu um að myndefnið sé ekki enn til. Þó að ljóst sé að vanlíðan brotaþola sé samofin öðrum þáttum máls þessa, m.a. þeirri háttsemi ákærða að taka upp á síma sinn umrætt myndefni, er það mat dómsins að það að sýna slíkt myndefni samnemendum feli í sér mjög alvarlega meingerð gagnvart brotaþola. Sú háttsemi ein og sér var til þess fallin að valda brotaþola miklum miska, eins og áður er lýst, og hafði þær afleiðingar að hún treysti sér ekki til að halda áfram námi sínu.

            Að þessu virtu þykja hæfilegar bætur til brotaþola vera 700.000 krónur en fjárhæðin ber vexti frá 5. maí 2015, sem er sá dagur er myndskeiðið var sýnt, og dráttarvexti mánuði eftir að bótakrafan var birt ákærða eins og nánar greinir í dómsorði.

            Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber ákærða að greiða sakarkostnað málsins sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Páls Kristjánssonar hdl., 695.640 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 261.880 krónur.

 

            Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Sigríður Hjaltested, Lárentsínus Kristjánsson og Þórður Clausen Þórðarson.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Uros Rudinac, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði A 700.000 kr. í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af fjárhæðinni frá 5. maí 2014 til 28. júní 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Kristjánssonar hdl., 695.640 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 261.880 krónur.

 

                                                     Sigríður Hjaltested (sign.)

                                                     Lárentsínus Kristjánsson (sign.)

                                                     Þórður Clausen Þórðarson (sign.)