• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Eignaupptaka
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist
  • Þjófnaður
  • Ökuréttarsvipting

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands miðvikudaginn 15. febrúar 2017 í máli nr. S-227/2016:

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi)

gegn

Róberti Sigurjónssyni

 

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 26. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 28. október sl., á hendur Róberti Sigurjónssyni,  til heimilis að Krummahólum 3, Reykjavík, 

 

„fyrir þjófnað, fíkniefna- og umferðarlagabrot:

I.

með því að hafa, skömmu eftir hádegi föstudaginn 20. maí 2016 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti austur Suðurlandsveg við Fossnes á Selfossi, óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínóls.

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. sbr. 2. mgr.  45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987 sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga

 

II.

með því að hafa síðdegis föstudaginn 20. maí 2016 í söluskúr við Seljalandsfoss í Rangárþingi eystra, stolið einu sokkapari og armbandi samtals að verðmæti kr. 8.540.-

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

III.

með því að hafa að kvöldi laugardagsins 16. júlí 2016 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti austur Suðurlandsveg við Vorsabæ í Rangárþingi eystra.

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

IV.

með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 16. júlí 2016 haft í vörslu sinni 4,19 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða eftir að bifreiðinni [...] sem ákærði var farþegi í umrætt sinn hafði verið stöðvuð vegna umferðareftirlits við Hótel Rangá á Rangárvöllum, Rangárþingi ytra.

 

Telst brot ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum,  til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá nr. 32957), samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 21. desember sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í matsgerð frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna lögreglu vegna ákæruliðar I, kemur fram að í blóði ákærða hafa mælst tetrahýdrókannabínól 3,9 ng/ml. Um málavexti að öðru leyti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Rétt er að geta þess að í ákæruskjali er kennitala ákærða misrituð, þar sem hún endar á „3189“, en skyldi með réttu vera „3129“. Framangreind misritun hefur ekki áhrif á úrslit málsins, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda engu að síður ljóst gegn hverjum málið er höfðað og villan ekki þess eðlis að vörnum ákærða yrði áfátt vegna hennar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði tíu sinnum áður sætt refsingu. Þann 7. júlí 2010 var ákærða gerð sekt meðal annars vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, auk þess sem hann var sviptur ökurétti tímabundið. Þann 22. febrúar 2011, var ákærða dæmdur hegningarauki við framangreinda sektarákvörðun, og honum gerð sekt meðal annars vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, auk þess sem hann var sviptur ökurétti tímabundið. Þann 23. maí 2011 var ákærði fundinn sekur um þjófnað og fíkniefnalagabrot, og honum gert að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Þann 9. september sama ár var ákærði fundinn sekur um þjófnað, nytjastuld og eignaspjöll og honum gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Þann 30. júlí 2012 var ákærða gerð sekt vegna fíkniefnalagabrots. Þann 2. júní 2014 var ákærða gert sekt meðal annars vegna akstur undir áhrifum fíkniefna. Þann 23. desember 2014 var ákærða gerð sekt vegna fíkniefnalagabrots. Þann 23. júní 2015 var ákærði fundinn sekur um þjófnað, vopnalagabrot, akstur undir áhrifum fíkniefna og önnur umferðarlagabrot. Var honum þá gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Þann 2. september 2015 var ákærði fundinn sekur um akstur undir áhrifum fíkniefna, akstur sviptur ökurétti og fíkniefnalagabrot og honum gert að sæta fangelsi í tvo mánuði, auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Loks var ákærði þann 17. maí 2016 fundinn sekur um þjófnað og honum gert að sæta fangelsi í 30 daga.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Með vísan til dómvenju og að virtum sakaferli ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að árétta ævilanga sviptingu ökuréttar ákærða.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði.

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 112.671 kr.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.


D ó m s o r ð :

Ákærði, Róbert Sigurjónsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.  

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Gerð eru upptæk 4,19 g af amfetamíni, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 32957.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 112.671 krónur.  

 

Sólveig Ingadóttir

 

 

                                                                        .