• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skilorð
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 16. mars 2017 í máli nr. S-48/2017:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Stefáni Þór Bjarnasyni

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 2. þessa mánaðar, var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 31. janúar síðastliðinn, á hendur Stefáni Þór Bjarnasyni, kt. 000000-0000, Álfhólsvegi 43 í Kópavogi, „fyrir fíkniefna­lagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 14. september 2016, á heimili sínu að Álfhólsvegi 43, 2.h.v., Kópavogi, haft í vörslum sínum 8,03 g af amfetamíni og 85 stk. af MDMA (Ecstasy), sem ákærði framvísaði til lögreglu“ og að hafa þannig brotið gegn 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Um málsatvik er skírskotað til ákæru.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það tekið til dóms á frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafi verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í sam­ræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum tekur til samkvæmt framansögðu og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Á meðal gagna málsins eru efnaskýrslur lögreglu frá 19. september 2016, um hin haldlögðu fíkniefni, sem þar er greint frá, að þau hafi að tegund og magni greinst sem þau efni sem frá greinir í ákæru. Ákærði hefur hvort tveggja á rannsóknarstigi og fyrir dómi játað þá háttsemi sem hann er sakfelldur fyrir og er það virt honum til máls­bóta. Samkvæmt framlögðu sakavottorði á hann að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2004 og hefur frá og með því ári í fimmgang verið gerð refsing fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þar af er þess hér getið að hann var með dómi 10. júní 2013 dæmdur í átta mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir slíkt brot, þjófnaði og tilraun til þjófnaðar. Nú síðast var hann með dómi 29. febrúar á síðasta ári dæmdur til sektargreiðslu og tímabundinnar ökuréttarsviptingar, fyrir brot gegn ákvæðum sömu laga og í máli þessu og akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Refsing ákærða samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, þykir hæfilega ákveðin fangelsi tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði hefur fyrir dómi samþykkt upptökukröfu ákæruvaldsins. Á grundvelli 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, skal hann sæta upptöku á hinum haldlögðu fíkniefnum, eins og í dómsorði greinir.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er ákærði dæmdur til að greiða sakar­kostnað málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfi­lega ákveðin 84.320 krónur, að meðtöldum virðisauka­skatti. Annan sakar­kostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

Hákon Þorsteinsson, aðstoðarmaður dómara, dæmir mál þetta.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði Stefán Þór Bjarnason, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði sæti upptöku á 8,03 g af amfetamíni og 85 töflum af MDMA (Ecstasy), sem hald var lagt á.

Ákærði greiði 84.320 krónur í sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns.

 

Hákon Þorsteinsson