• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Útivist
  • Ökuréttarsvipting

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 15. febrúar 2017 í máli nr. S-23/2017:

Ákæruvaldið                                                                              

(Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Níels Agnari Poulsen

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 17. síðasta mánaðar, á hendur Níels Agnari Poulsen, kt. 000000-0000, Faxabraut 3 í Reykjanesbæ, „fyrir umferðar- og fíkni­efnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 18. september 2016 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 14 ng/ml) eftir Amtmannsstíg í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. Í kjölfarið lagði lögregla hald á 1,02 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem ákærði hafði haft í vörslum sínum og framvísaði við líkamsleit.“ Með framangreindri háttsemi hafi ákærði brotið gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðar­laga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt að ákærði sæti upptöku á 1,02 g af tóbaksblönduðu kannabisefni samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.

Um málsatvik er skírskotað til ákæru.

Ákærði sótti ekki þing og boðaði ekki forföll, en í fyrirkalli sem gefið var út 25. síðasta mánaðar og var birt ákærða ásamt ákæru málsins 8. þessa mánaðar, kom meðal annars fram að sækti ákærði ekki þing mætti hann búast við að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viður­kenndi að hafa framið þau brot sem hann væri ákærður fyrir og að dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Dómurinn telur þannig sannað, með vísan til ofanritaðs og gagna málsins að öðru leyti, að ákærði hafi framið þá háttsemi sem ákært er út af og eru brotin rétti­lega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði á samkvæmt framlögðu saka­vottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2003, en þar af hefur honum í eftirgreindum tilvikum verið gerð refsing fyrir sams konar brot og hann er sakfelldur fyrir í máli þessu. Með dómi 10. mars 2005 var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir þjófnað og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Með dómi 16. mars 2007 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot og aftur fyrir þess háttar brot með dómi 18. mars 2008, auk brots gegn vopnalögum og þjófnað. Með þeim dómi var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi. Með dómi 23. júní 2011 var hann dæmdur til greiðslu sektar fyrir fíkniefna­lagabrot. Með dómi 18. apríl 2012, var hann dæmdur til greiðslu sektar og tíma­bundinnar sviptingar ökuréttar, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir að aka undir áhrifum þess háttar efna. Með dómi 14. júní síðar sama ár var hann svo að nýju dæmdur til greiðslu sektar og tímabundinnar sviptingar ökuréttar, fyrir sams konar brot. Þau brot framdi hann 17. febrúar og 12. apríl 2012 og var því gerður hegningarauki við dóminn frá 18. apríl það ár. Með dómi 2. október sama ár var ákærði svo dæmdur til sektargreiðslu og tímabundinnar sviptingar ökuréttar, fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptur ökurétti, en brotin framdi hann 28. júní 2012, eða eftir þann tíma sem fyrrgreindir dómar sama ár gengu. Hann samþykkti greiðslur sekta vegna fíkniefnalagabrota, með þremur sáttum hjá lögreglustjóra 4. september 2013, 28. febrúar 2014 og 22. nóvember 2014. Með dómi 26. október 2015 var hann dæmdur í þrjátíu daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og akstur undir áhrifum þess háttar efna og sviptur ökurétti. Nú síðast var hann svo með dómi 16. mars 2016 dæmdur í 75 daga fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð, vegna sams konar brota sem hann framdi 15. desember 2015.

Að framangreindu virtu og að gættri 77. gr. sömu laga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

Með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga, er ævilöng ökuréttar­svipting ákærða áréttuð.

            Á grundvelli 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 skal ákærði sæta upptöku á 1,02 grömmum af tóbaksblönduðu kannabisefni, eins og greinir í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 er ákærði dæmdur til að greiða sakar­kostnað málsins, sem samkvæmt yfirliti um slíkan kostnað og með stoð í öðrum framlögðum gögnum, nemur samanlagt 87.014 krónum.

Hákon Þorsteinsson, aðstoðarmaður dómara, dæmir mál þetta.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Níels Agnar Poulsen, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði sæti upptöku á 1,02 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem hald var lagt á.

Ákærði greiði 87.014 krónur í sakarkostnað.

 

Hákon Þorsteinsson