• Lykilorð:
  • Aðild
  • Gjaldþrotaskipti
  • Greiðsla
  • Lagaskil
  • Riftun
  • Skuldabréf

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2017 í máli nr. E-2766/2012:

Kaupþing hf.

(Jón Gunnar Ásbjörnsson hdl)

gegn

Kaupthing Singer & Friedlander Ltd.

(Helgi Þór Þorsteinsson hdl.)

Tradition London Clearing Ltd.

(Reimar Snæfells Pétursson hrl.)

Deutche Bank AG

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

 

I

       Mál þetta, sem var dómtekið 14. febrúar sl., var höfðað 21. júní 2012 af Kaupþingi hf., Borgartúni 26 í Reykjavík, á hendur aðalstefnda, Kaupthing Singer & Friedlander Ltd., 21 New Street í Lundúnum, hendur varastefnda, Tradition London Clearing Ltd., Beaufort House, 15 St. Botolph í Lundúnum, og á hendur þrautavarastefnda, Deutsche Bank AG, Taunusanlage 12, Frankfurt Am Main í Þýskalandi.

       Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að rift verði greiðslu stefnanda til aðalstefnda, Kaupthing Singer & Friedlander Ltd., dags. 16. maí 2008, að fjárhæð 4.409.359,44 evrur, vegna viðskipta, dags. 13. maí 2008.

       Í öðru lagi krefst stefnandi þess að aðalstefndi greiði stefnanda 4.409.359,44 evrur  með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 6. september 2012 til greiðsludags.

       Í þriðja lagi krefst stefnandi þess að aðalstefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

       Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur í varaaðild:

       Í fyrsta lagi að rift verði greiðslu stefnanda til varastefnda, Tradition London Clearing Ltd., dags. 16. maí 2008, að fjárhæð 4.409.359,44 evrur, vegna viðskipta, dags. 13. maí 2008.

        Í öðru lagi að varastefndi greiði stefnanda 4.409.359,44 evrur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2012 til greiðsludags.

       Í þriðja lagi að varastefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðar­reikningi eða mati réttarins.

       Verði hvorki aðal- né varastefnda gert að þola dóm í málinu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur í þrautavaraaðild:

       Í fyrsta lagi að rift verði greiðslu stefnanda til þrautavarastefnda, Deutsche Bank AG, dags. 16. maí 2008, að fjárhæð 4.409.359,44 evrur, vegna viðskipta, dags. 13. maí 2008.

       Í öðru lagi að þrautavarastefndi greiði stefnanda 4.409.359,44 evrur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2012 til greiðsludags.

       Í þriðja lagi að þrautavarastefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðar­reikningi eða mati réttarins.

       Af hálfu aðalstefnda er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að krafa stefnanda verði stórlega lækkuð. Í báðum tilvikum gerir aðalstefndi kröfu um málskostnað.

       Varastefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnanda.

       Þrautavarastefndi gerir aðallega þá kröfu að hann verði sýknaður en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst þrautavarastefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

       Í upphafi fóru stefndu fram á að málinu yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms 24. júní 2013. Að því loknu fór fram umfangsmikil gagnaöflun. Þorri skjala er á enskri tungu sem hefur kallað á mikla vinnu við þýðingar.

 

II

       Málsatvik eru þau að 28. apríl 2004 birti stefnandi útboðslýsingu (e. Offering Circular) fyrir fjögurra milljarða evra skuldabréfaútgáfu til meðallangs tíma sem bar yfirskriftina Euro Medium Term Note Programme. Á forsíðu útboðslýsingarinnar kemur fram að stefnandi hafi heimild til þess að gefa út, á grunni útboðslýsingarinnar eða „skuldabréfarammans“, eins og segir í þýðingu löggilts skjalaþýðanda, skuldabréf í hvaða gjaldmiðli sem er. Þar segir einnig að heildarnafnvirði allra skuldabréfa sem á hverjum tíma væru útistandandi samkvæmt skuldabréfarammanum mætti ekki verða hærra en 4 milljarðar evra með ákveðnum fyrirvara. Átti að gefa skuldabréfin út til nánar tiltekinna miðlara. Við það yrði miðað að skuldabréfin yrðu skráð í kauphöllina í Lúxemborg á næstu tólf mánuðum eftir dagsetningu útgáfulýsingarinnar. Þá segir á forsíðunni að upplýsingar um heildarnafnverð skuldabréfanna, vexti, útgáfuverð o.fl., sem ekki væri fjallað um í útgáfulýsingunni, kæmu fram í sérstökum verðviðaukum (e. Pricing Supplement). Síðar í útgáfulýsingunni kemur fram að í verðviðauka geti verið skilmálar sem gangi framar ákvæðum útgáfulýsingar.

       Í útgáfulýsingunni kemur fram að skuldabréfin yrðu gefin út í handhafaformi og upphaflega í formi tímabundins allsherjarskuldabréfs (e. Temporary Global Note) eða varanlegs allsherjarskuldabréfs (e. Permanent Global Note). Í báðum tilvikum var við það miðað að skuldabréfin yrðu afhent sameiginlegum vörsluaðila, Euroclear Bank, sem rekstraraðila Euroclear-kerfisins, og Clearstream Banking í Lúxemborg. Þar segir enn fremur að hægt verði að skipta tímabundna allsherjarskuldabréfinu fyrir endanlegt skuldabréf eða varanlegt allsherjarskuldabréf auk þess sem unnt verði að skipta varanlegu allsherjarskuldabréfi fyrir endanlegt skuldabréf við svonefndan skiptiatburð (e. Exchange Event). Átti það einungis við ef vanefnd yrði af hálfu útgefanda eða að Euroclear og Clearstream hættu starfsemi.

       Í útgáfulýsingunni er gert ráð fyrir því að skuldabréfin verði gefin út af stefnanda samkvæmt svonefndum umsýslusamningum (e. Agency Agreement) sem útgefandinn komi til með að gera við Deutsche Bank AG, London Branch, sem umsjónaraðila útgáfu, aðalumsjónaraðila greiðslna (e. Paying Agent) og umsýslubanka. Þar og í öðrum gögnum málsins er Deutsche Bank AG kallaður umsýsluaðili (e. Agent). Í þessu sambandi var sérstaklega vísað til umsýslusamnings frá 28. apríl 2004. Ekki verður séð að þessi samningur hafi verið lagður fram í málinu. Hins vegar liggur frammi einn samningar sem dagsettur eru 28. apríl 2004 sem ber yfirskriftina „Amended and restated Programme Agreement“ milli stefnanda sem útgefanda og tólf miðlara (e. Dealers), þar á meðal Deutsche Bank AG og stefnanda sjálfs, en hann tengist framangreindri útgáfulýsingu frá sama degi. Jafnframt hefur verið lagt fram skjal sem ber yfirskriftina „Deed of Covenant“, dags. sama dag, sem var gefið út „í þágu“ (e. in favor of) einstakra reikningseigenda í Clearstream og Euroclear. Þetta liggur fyrir í þýðingu löggilts skjalaþýðanda og ber þá yfirskriftina „Skuldbindingarskjal“. Þar er fjallað um vörslu allsherjarskuldabréfa og útgáfu svonefndra undirliggjandi skuldabréfa (e. Underlying Notes) sem reikningseigendur í framangreindum greiðslukerfum (e. Clearing System) geti verið skráðir fyrir. Í greinargerðum stefndu eru undirliggjandi skuldabréf af þessum toga almennt kölluð hlutdeild og er þá vísað til þess að um sé að ræða hlutdeild í allsherjarskuldabréfi. Þeir aðilar sem eru skráðir í greiðslukerfum fyrir hlutdeild í viðkomandi allsherjarskuldabréfi eru hins vegar almennt nefndir hlutdeildareigendur bæði í gögnum málsins og í dóminum. Þess er getið í skuldbindingarskjalinu að allsherjarskuldabréf geti fallið úr gildi við tilteknar aðstæður sem gerð væri grein fyrir í útgáfulýsingu, en við það öðluðust reikningseigendur tiltekin réttindi gagnvart útgefanda.

       Meðal skuldabréfa sem heimilt var að gefa út á grundvelli útgáfulýsingarinnar voru víkjandi skuldabréf (e. Subordinated Notes) samkvæmt nánari ákvæðum í verðviðauka. Í útgáfulýsingunni er fjallað sérstaklega um víkjandi stöðu samkvæmt slíkum skuldabréfum. Þar segir í íslenskri þýðingu að þess háttar skuldabréf feli í sér „ótryggðar og óskilyrtar skuldbindingar útgefanda, sem eru í víkjandi stöðu í samræmi við og í skilningi 84. gr. X. kafla (Laust fé og eigið fé) laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 („lögin“) og njóta jafnrar rétthæðar án nokkurs innbyrðis forgangs sín á milli“. Í ákvæðinu er því næst gerð grein fyrir því með hvaða hætti víkjandi skuldabréf komi til greiðslu ef útgefandi verði tekinn til skipta. Segir þar að víkjandi skuldabréf komi þá til greiðslu á eftir öðrum kröfum sem ekki eru víkjandi, a.m.k. á sama tíma og víkjandi skuldbindingar í skilningi 84. gr. laga nr. 161/2002, en áður en hlutafé eða sambærilegt eigið fé útgefanda er greitt. Þá skuldbatt útgefandi sig til þess að stofna ekki til víkjandi skuldbindinga „með öðrum hætti en í samræmi við og í skilningi“ 84. gr. laga nr. 161/2002. Að lokum segir í ákvæðinu orðrétt: „Ákvæði þessarar greinar 2(b) heyra undir og skulu túlkuð í samræmi við íslensk lög.“

       Í útgáfulýsingunni kemur fram að útgefandinn og umsýsluaðili hafi átt að líta á þá sem skráðir væru hjá Euroclear eða Clearstream sem eigendur (e. holder) tiltekinna nafnverðsfjárhæðar skuldabréfa, sem eigendur þeirra í öllu tilliti. Þetta átti þó ekki við um greiðslu höfuðstóls eða vaxta, en í því tilviki skyldi útgefandi og umsjónaraðili greiðslna líta á handhafa allsherjarskuldabréfsins (e. bearer) sem eiganda. Samkvæmt d-lið 6. gr. útgáfulýsingarinnar var handhafi allsherjarskuldabréfsins eini aðilinn sem átti rétt á því að taka við greiðslum af skuldabréfum sem heyrðu undir viðkomandi allsherjarskuldabréf. Skráðir hlutdeildareigendur gátu aftur á móti einungis krafið Euroclear eða Clearstream um sína hlutdeild í greiðslum útgefanda til handhafa allsherjarskuldabréfsins.

       Í 18. gr. útgáfulýsingarinnar kemur fram að túlka skuli umsýslusamninginn, skuldbindingarskjalið, skuldabréfin að undanskildu skilmálum greinar 2(b), höfuðstólsmiða og vaxtamiða, í samræmi við ensk lög. Sérstaklega var tekið fram að skilmáli 2(b) heyrði undir og bæri að túlka í samræmi við íslensk lög. Í skuldbindingarskjalinu frá 28. apríl 2004 var einnig kveðið á um að efni þess lyti enskum lögum og að það skyldi túlkað í samræmi við ensk lög.

       Á grundvelli framangreindra gagna gaf stefnandi út verðviðauka 28. júní 2004 vegna samtals 300 milljóna evra víkjandi skuldabréfa með breytilegum stighækkandi vöxtum (e. Floating Rate Subordinated Step-Up Notes). Lokagjalddagi átti að vera 30. júní 2014. Vextir voru ákveðnir þriggja mánaða EURIBOR með 0,65% álagi, sem skyldi hækka í 1,65% álag frá og með júní 2009. Gjalddagar vaxta voru fjórum sinnum á ári, 30. mars, 30. júní, 30. september og 30. desember ár hvert. Samkvæmt verðviðaukanum gat útgefandi innleyst skuldabréfin á nafnverði á gjalddaga vaxta í júní 2009 og á öðrum vaxtagjalddögum eftir það. Eins og áður segir var nafnverð skuldabréfanna 300 milljónir evra en útgáfuverðið nam 99,764% samanlagðs nafnverðs eða 298.242.000 evrum. Skuldabréfin sem gefa átti út samkvæmt verðviðaukanum báru ISIN-númerið XS 0194805429.

       Skuldabréf, eða hlutdeild í allsherjarskuldabréfi, gátu gengið kaupum og sölum á markaði. Í h-lið 7. gr. útgáfulýsingarinnar var kveðið á um að útgefandi eða dótturfélag útgefanda gæti hvenær sem er „keypt skuldabréf á hvaða verði sem er á frjálsum markaði eða á annan hátt“. Þá segir þar að útgefanda væri heimilt að eiga keypt skuldabréf, endurútgefa þau, endurselja eða, „að vali útgefanda, afhenda hvaða umsjónaraðila greiðslna sem er til niðurfellingar“. Um niðurfellingu (e. Cancellation) segir í i-lið sömu greinar að öll innleyst skuldabréf yrðu án tafar felld úr gildi. Síðan segir orðrétt: „Öll skuldabréf sem þannig eru felld niður og öll skuldabréf sem eru keypt og niðurfelld samkvæmt málsgrein (h) að ofan ... skulu framsend umsýsluaðila og verða hvorki endurútgefin né endurseld.“

       Mál þetta lýtur að kaupum stefnanda á hlutdeild í skuldabréfaflokki með framangreindu ISIN-númeri að nafnverði 5 milljónir evra. Stefnandi hefur lagt fram skjal, sem hann nefnir kaupnótu og telur vera til marks um sölu aðalstefnda á umræddri hlutdeild, en heiti hans er efst á nótunni. Á skjalinu kemur fram að stefnandi staðfesti sölu viðkomandi á framangreindri eign 13. maí 2008 fyrir 87,5% af nafnverði eða sem nemur 4.375.000 evrum. Við þá fjárhæð bættust áfallnir vextir að fjárhæð 34.359,44 evrur. Samtals nam umsamin greiðsla því 4.409.359,44 evrum. Fram kemur á kaupnótunni að uppgjörsdagur (e. Settlement date) væri 16. maí 2008. Þá segir þar að viðskiptatími (e. Trade Time) hafi verið kl. 13.06.

       Í málinu liggja einnig frammi gögn er sýna samskipti milli starfsmanns þrautavarastefnda, Nick Oxlade, og starfsmanns varastefnda, Simon Arthey, kl. 8.32 og 8.33 tveimur vikum fyrr, eða 1. maí 2008. Lúta þau að mögulegum viðskiptum með 5 milljón evrur í skuldabréfaútgáfunni XS 0194805429 sem starfsmaður þrautavarastefnda kvaðst reiðubúinn að selja fyrir „76.00 L+2583BP“. Svar starfsmanns varastefnda var á þá leið að hann þakkaði fyrir og myndi vonandi verða í sambandi fljótlega.

       Samkvæmt gögnum málsins leitaði forstöðumaður verðbréfaviðskipta hjá aðalstefnda, Stephen Ong, til þáverandi starfsmanns stefnanda með tölvuskeyti sama dag, 1. maí 2008, kl. 8.43, þar sem aðalstefndi kvaðst hafa seljanda á skuldabréfi með ISIN-númerið XS 0194805429 að nafnverði 5 milljónir evra. Starfsmaður stefnanda svaraði á þá leið að stefnandi hefði ekki hafa áhuga á að kaupa bréfið að svo stöddu.

       Tveimur vikum síðar, eða 13. september 2008 kl. 10.45, sendi fyrrgreindur starfsmaður aðalstefnda, Stephen Ong, starfsmanni stefnanda að nýju fyrirspurn um áhuga stefnanda á því að kaupa 5 milljón evrur í framangreindri skuldabréfaútgáfu. Kvaðst hann hafa verið spurður að nýju af seljanda um möguleika á sölu bréfsins. Með svarskeyti Eiríks Magnúsar Jenssonar, starfsmanns stefnanda, sem virðist hafa verið sent kl. 12.04, upplýsir hann að stefnandi sé reiðubúinn að kaupa framangreinda hlutdeild „at E+1300 – Cash price 87,5“. Með svarskeyti, sem virðist hafa verið sent kl. 13.04, kveðst fyrrgreindur starfsmaður aðalstefnda geta selt stefnanda „eur5m at E+1300 price 87.50“. Starfsmaður aðalstefnda óskar síðan eftir staðfestingu skilmála viðskiptanna og upplýsingum um Euroclear númer stefnanda með tölvuskeyti sem sagt er að hafi verið sent kl. 12.22. Með svarskeyti, sem virðist hafa verið sent kl. 13.36 er gefið upp Euroclear númer stefnanda, 98822. Starfsmaður aðalstefnda, Stephen Ong, gefur síðan kl. 13.50 út á sérstöku Bloomberg-netfangi svonefndan viðskiptamiða (e. Trade Ticket) þar sem efni viðskiptanna er lýst með sama hætti og á kaupnótunni.

       Í málinu liggja einnig fyrir gögn er sýna að starfsmaður þrautavarastefnda, Vivek Nahar, lét fyrrgreindan samstarfsmann sinn hjá þrautavarastefnda, Nick Oxlade, vita með tölvuskeyti, sem virðist hafa verið sent kl. 11.08 sama dag, 13. maí 2008, að áðurnefndur starfsmaður varastefnda, Simon Arthey, hefði haft samband og óskaði eftir því að Nick hringdi í hann varðandi víkjandi skuldabréf Kaupþings sem hann ætti að þekkja. Hafi Simon viljað fá vitneskju um „size and price“. Einnig liggur fyrir tölvuskeyti sama dag, sem virðist hafa verið sent kl. 15.10, frá starfsmanni varastefnda, fyrrgreindum Simon Arthey, til áðurnefnds starfsmanns þrautavarastefnda, Nick Oxlade, þar sem Simon kveðst hafa gleymt að biðja um afrit viðskiptamiðans. Nick Oxlade hjá þrautavarastefnda sendi Simon Arthey hjá varastefnda umbeðin viðskiptamiða (e. Trade Ticket) með tölvuskeyti kl. 15.17. Þar kemur fram að þrautavarastefndi selji 5 milljón evrur í skuldabréfaútgáfunni XS0194805429 fyrir 76,00 miðað við 13. maí 2008. Nánari upplýsingar um umrædd viðskipti koma þar fram, þ. á m. að höfuðstóll nemi 3.800.000 evra og áfallnir vextir 34.359,44 evrum, samtals 3.834.359,44 evrur. Þá skyldi uppgjörsdagur vera 16. maí 2008. Í gögnum málsins er einnig skjal sem stafar frá varastefnda um framangreindan löggerning milli þrautavarastefnda og varastefnda með upplýsingum um þau sem virðast hafa verið skráð í kerfi varastefnda 13. maí 2008 kl. 14.33 (e. Input Time). Þar kemur fram að um kaup hafi verið að ræða (e. Buy) og að þau hafi átt sér stað kl. 14.20 (e. Trade Time). Þar er jafnframt getið um umboðshlutfall og umboðsþóknun (e. Commission Rate og Commission Amount), sem nam 1,875% og 93.750 evrum, auk þess sem verði og öðru var lýst með sama hætti og á framangreindum viðskiptamiða. Efst á skjali þessu segir: „Deal Reference: 930621“ og „Matching Reference: 930621“. Í skjalinu segir einnig: „Sett: BE EUROCLEAR 27565“.

       Jafnframt eru í málinu að finna gögn um löggerning milli aðalstefnda og varastefnda um sama hlut í umræddri skuldabréfaútgáfu XS0194805429. Annars vegar er um að ræða viðskiptamiða sem fyrrgreindur starfsmaður aðalstefnda, Stephen Ong, sendir út á Bloomberg-netfangi sínu að því er virðist kl. 13.42, til staðfestingar á því að Simon Arthey hjá varastefnda selji (e. Sells) 5 milljónir evra í framangreindri skuldabréfaútgáfu á verðinu 79,75 eða fyrir 3.987.500 evrur auk vaxta að fjárhæð 34.359,44 evrur, samtals 4.021.859,44 evrur. Einnig liggur fyrir í málinu skjal sem stafar frá varastefnda um framangreindan löggerning milli varastefnda og aðalstefnda, þar sem upplýsingar um viðskiptin virðast hafa verið skráð í kerfi kerfi varastefnda 13. maí 2008 kl. 14.33 (e. Input Time). Þar kemur fram að um sölu hafi verið að ræða (e. Sell) og að hún hafi átt sér stað kl. 14.20 (e. Trade Time). Þar er jafnframt getið um umboðshlutfall og umboðsþóknun (e. Commission Rate og Commission Amount), sem nam 1,875% og 93.750 evrum, auk þess sem verði og öðru var lýst með sama hætti og á framangreindum viðskiptamiða. Efst á skjali þessu segir: „Deal Reference: 930628“ og „Matching Reference: 930621“. Í skjalinu segir einnig í tveimur römmum aftan við forskráða textann „Settlement“: „ BE EUROCLER 27565“.

       Ágreiningslaust er að umræddir löggerningar milli þrautavarastefnda og varastefnda, varastefnda og aðalstefnda og aðalstefnda og stefnanda voru efndir í gegnum greiðslumiðlunarkerfi Euroclear 16. maí 2008 þar sem umræddar fjárhæðir voru færðar milli reikninga aðila sem og skráð eignarhald á viðkomandi hlutdeild í allsherjarskuldabréfi þannig að það endaði í höndum stefnanda. Fram kemur í stefnu og í yfirlýsingu endurskoðanda stefnanda að í kjölfar þessara viðskipta hafi skuldir stefnanda verið færðar niður um sem nam 5 milljónum evra í reikningum bankans.

       Eins og rakið er í stefnu sagði stjórn stefnanda af sér 8. október 2008. Daginn eftir neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í stefnanda og setja yfir hann skilanefnd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008 var stefnanda veitt heimild til greiðslustöðvunar sem var framlengd með úrskurði 13. nóvember 2009. Lögum nr. 161/2002 var breytt með lögum nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009. Stefnanda var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009 og er frestdagur við slitameðferð stefnanda 15. nóvember 2008. Fram kemur í stefnu að við það sé miðað að upphafsdagur slitameðferðarinnar sé gildisdagur laga nr. 44/2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 lá fyrir dómsúrskurður um slitameðferð stefnanda.

       Umboðsmaður stefnanda í Lundúnum ritaði aðalstefnda bréf 8. desember 2011 þar sem óskað var eftir því að aðalstefndi staðfesti að hann hefði verið eigandi umræddrar hlutdeildar í allsherjarskuldabréfinu. Hafi svo ekki verið var óskað eftir því að upplýst yrði hver hefði verið raunverulegur eigandi hennar og aðili að viðskiptunum. Skiptastjórar aðalstefnda svöruðu með bréfi 22. desember 2011, þar sem fram kom að aðalstefndi hefði verið að aðstoða miðlara, þ.e. varastefnda, við viðskiptin og hefði því ekki verið gagnaðili stefnanda í þeim.

       Með bréfi 23. desember 2011 óskaði umboðsmaður stefnanda í Lundúnum eftir því að Tradition (UK) Limited léti í té gögn um viðskiptavini hans sem sýndu að þeir hefðu verið raunverulegir aðilar viðskiptanna. Með bréfum 3. og 6. janúar 2012 upplýsti Tradition (UK) Limited að félagið hafi komið á viðskiptum þar sem varastefndi keypti af þrautavarastefnda 5 milljónir evra í skuldabréfaútgáfu með ISIN nr. XS0194805429, sem félagið hafi selt samstundis aftur til aðalstefnda á verðinu 79,75.

       Með bréfi 11. janúar 2012 óskaði umboðsmaður stefnanda í Lundúnum eftir því að þrautavarastefndi staðfesti að hann hafi verið „aðalrétthafi og/eða rétthafi“ í tengslum við þessi viðskipti. Ef hann var ekki rétthafi var óskað upplýsinga um hver það hefði verið. Stefnandi kveðst ekki hafa fengið víðhlítandi svör við þessari fyrirspurn.

 

III

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

       Stefnandi rökstyður aðild sína að málinu með vísan til þess að hann sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Bendir hann á að samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, megi við slitameðferð stefnanda krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., gildi við slitameðferðina með sama hætti og við hefðbundin gjaldþrotaskipti.

       Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á því að greiðsla sem hann innti af hendi til stefnda hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var, en slíkar greiðslur séu riftanlegar skv. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að þau þrjú skilyrði sem tilgreind eru í ákvæðinu séu fyrir hendi.

       Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að greiðslan hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Frestdagur við slitameðferð stefnanda sé 15. nóvember 2008. Stefnandi hafi greitt skuld sína við stefnda 16. maí 2008 og þannig hafi greiðslan átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Leggur stefnandi áherslu á að það tímamark sem miða beri við samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 sé þegar afhending fjármuna fari fram.

       Í öðru lagi byggir stefnandi á því að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var. Stefnandi tekur fram að stefndi hafi verið rétthafi skuldabréfs í útgáfu stefnanda nr. XS194805429, en skuldabréfið hafi verið á gjalddaga 30. júní 2014. Stefnandi hafi greitt stefnda skuld sína samkvæmt bréfinu að fullu 16. maí 2008. Stefndi hafi þannig fengið kröfu sína samkvæmt skuldabréfinu greidda rúmlega sex árum fyrir gjalddaga. Stefnandi byggir á því að skuld sem greidd sé fyrir gjalddaga teljist almennt hafa verið greidd fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.

       Stefnandi ítrekar enn fremur að 8. október 2008 hafi stjórn hans sagt af sér og að 9. sama mánaðar hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar í stefnanda og sett yfir hann skilanefnd. Hafi stefnandi verið tekinn til slitameðferðar í kjölfarið. Stefnandi heldur því fram að ef ekki hefði komið til hinnar riftanlegu greiðslu hefði aðalstefndi aldrei fengið kröfu sína greidda á gjalddaga, hvorki í heild né að hluta. Aðalstefndi hefði þess í stað eignast kröfu við slitameðferð stefnanda. Ljóst sé að við slitameðferð stefnanda muni almennar kröfur ekki greiðast að fullu og ekki fyrr en löngu eftir gjalddaga. Bendir stefnandi á að það raski jafnræði kröfuhafa við slitameðferð stefnanda ef sumir þeirra, sem með réttu hefðu átt að eiga kröfu við slitameðferðina, fá kröfur sínar greiddar að fullu. Með því hafi stefnandi mismunað kröfuhöfum. Þannig hafi greiðsla stefnanda verið til hagsbóta með ótilhlýðilegum hætti fyrir aðalstefnda á kostnað annarra kröfuhafa. Með því að rifta greiðslunni leitist stefnandi þannig við að skapa jafnræði milli kröfuhafa. Gangi kröfur stefnanda eftir muni stefndi njóta jafns réttar á við sambærilega kröfuhafa.

       Í þriðja lagi telur stefnandi ekki liggja fyrir að greiðslan hafi verið eðlileg eftir atvikum, sbr. niðurlag 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að þessi liður greinarinnar feli í sér undantekningu sem beri að skýra þröngt, auk þess sem hann leggur áherslu á að aðalstefndi beri sönnunarbyrðina um að hún eigi við.

       Stefnandi tekur fram að til þess að undantekningin í 134. gr. laganna um að greiðsla „hafi virst venjuleg eftir atvikum“ geti mögulega átt við hafi greiðsla sem þessi, þar sem skuld er greidd löngu fyrir gjalddaga, m.a. þurft að vera venjuleg í viðskiptum milli aðila. Uppgreiðsla skuldabréfa fyrir gjalddaga hafi ekki verið venjuleg í viðskiptum milli stefnanda og aðalstefnda.

       Af hálfu stefnanda er á það bent að jafnvel þótt hann hafi haft heimild til þess að kaupa skuldabréfið samkvæmt skilmálum þess þá breyti það því ekki að greiðslurnar séu riftanlegar. Ákvæði sem heimili skuldara að kaupa eigin skuld hafi sömu réttaráhrif og uppgreiðsluheimild. Ekki sé hægt að fallast á að ákvæði í skuldabréfi, um að þrátt fyrir tilgreindan gjalddaga megi eða beri ávallt að greiða upp skuldina fyrr, gangi framar riftunarreglu 134. gr. gjaldþrotalaga. Ef sú væri raunin væri ávallt hægt að semja sig undan riftunarreglunum.

       Stefnandi tekur fram að með þessu sé því ekki haldið fram að innlausnar- og endurkauparéttur sé almennt ólögmætur í skuldabréfum. Að sjálfsögðu sé lögmætt að áskilja slíkan rétt, bæði fyrir skuldara og kröfuhafa. Slík samningsákvæði víki þó fyrir riftunar­reglum gjaldþrotalaganna. Þá skipti ekki máli gagnvart riftunarreglum gjaldþrotalaganna þó að greiðsla á skuld myndi almennt teljast lögmæt að öllu leyti. Ráðstöfun geti verið riftanleg á þeim grundvelli jafnvel þó að hún hafi ekki verið ólögmæt, sviksamleg eða saknæm af hálfu þeirra sem stóðu að henni.

       Stefnandi bendir jafnframt á að riftun á greiðslu skuldar sé ekki ætlað að ógilda skuldabréfið eða aðra löggerninga sem hafi verið grundvöllur að því að skuld stefnanda við stefnda var greidd fyrir gjalddaga. Riftunin beinist eingöngu að því að hnekkja greiðslunni sjálfri og endurheimta í peningum hagnað eins kröfuhafa sem sé á kostnað annarra og raski hún þannig að óbreyttu jafnræði kröfuhafa.

       Stefnandi getur þess einnig að riftunarregla 134. gr. gjaldþrotalaga sé hlutlæg regla sem leiði til riftunar þrátt fyrir að löggerningar að baki greiðslu skuldar hafi verið lögmætir og allir aðilar hafi verið í góðri trú. Meginreglan sé sú að huglæg afstaða skuldara eða kröfuhafa skipti engu máli fyrir riftun greiðslunnar.

       Stefnandi telur að ráða megi af öllu framangreindu að uppgreiðsla skuldarinnar rúmlega sex árum fyrir gjalddaga hafi ekki verið „eðlileg eftir atvikum“. Ekkert í viðskiptasambandi aðila hafi gefið tilefni til að ætla að slík venja væri í gildi og þess háttar uppgjör skulda hafi ekki tíðkast áður milli stefnanda og stefnda. Þá hafi engin skylda hvílt á stefnanda, hvorki samkvæmt lögum né samningum, til að greiða bréfin fyrir gjalddaga þeirra. Það sé stefnda að sýna fram á að greiðsla skuldarinnar, sem óumdeilanlega hafi verið innt af hendi fyrir gjalddaga, sé þrátt fyrir allt venjuleg eftir atvikum.

       Stefnandi kveður kröfu sína um endurgreiðslu byggja á 142., sbr. 143. gr. gjaldþrotalaga. Stefnandi telur að greiðsla kröfunnar 30. maí 2008 hafi orðið til þess að stefndi hafi auðgast um sem nam 4.409.359,44 evrum. Aðalstefndi hefði ekki fengið kröfuna greidda á gjalddaga. Tjón stefnanda nemi sömu fjárhæð og auðgun aðalstefnda. Skilyrði fyrir endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga séu því fyrir hendi.

       Stefnandi krefst dráttarvaxta af allri fjárhæðinni frá og með málshöfðunardegi. Dráttarvaxtakrafan eigi sér stoð í III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna.

       Af hálfu stefnanda er á því byggt að sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun skuli samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 greiða þrotabúi fé í kjölfar riftunar sem eigi sér stoð í 131. til 138. gr. laganna. Hafi hann fengið peningana greidda skipti notkun þeirra engu um kröfu þrotabúsins. Stefnandi staðhæfir að aðalstefndi hafi tekið við greiðslunni frá stefnanda og því sé kröfu um riftun réttilega beint að honum þangað til sýnt verði fram á annað.

       Þar sem aðalstefndi hafi aftur á móti vísað til þess að varastefndi hafi verið raunverulegur móttakandi greiðslunnar í málinu sé því félagi stefnt til vara fari svo að aðalstefnda verði ekki gert að þola dóm í málinu. Með sama hætti sé Deutsche Bank AG stefnt til þrautavara ef aðal- og varastefndu verði ekki gert að þola dóm um kröfur stefnanda. Byggir stefnandi á því að 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu fyrir hendi. Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu séu sömu kröfur gerðar á hendur varastefnda. Kröfugerð, málsatvikalýsing, málsástæður og lagarök í stefnu eigi við um varastefnda og þrautavarastefnda með sama hætti og um aðalstefnda.

 

2. Helstu málsástæður og lagarök aðalstefnda

       Aðalstefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti þar sem kröfum stefnanda sé beint að röngum aðila. Telur hann gögn málsins sýna að hann hafi ekki verið eigandi hinna seldu skuldabréfa, heldur hafi hann eingöngu haft milligöngu um viðskiptin fyrir varastefnda og þá aðila sem hann leiði rétt sinn frá, þ. á m. þrautavarastefnda. Þessu til stuðnings vísar aðalstefndi m.a. til tölvupóstsamskipta sem hafi átt sér stað fyrir viðskiptin þar sem fram hafi komið að aðalstefndi væri að koma fram fyrir hönd annars seljanda. Þá telur aðalstefndi að ráða megi af framlögðum viðskiptamiðum (e. Trade Ticket) að umrætt skuldabréf hafi aðeins farið inn á reikning aðalstefnda í mjög stutta stund eða 8 mínútur. Aðalstefndi kveðst því ekki hafa verið eigandi skuldabréfanna heldur hafi hann einungis haft milligöngu um sölu þeirra frá upprunalegum eiganda til stefnanda.

       Aðalstefndi byggir enn fremur á því að íslensk gjaldþrotalög eigi ekki við um viðskiptin. Því til stuðnings vísar aðalstefndi til þess að í XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (ffl.), sé fjallað um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja. Ákvæði kaflans eigi rætur að rekja til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 (tilskipunin). Aðalstefndi vísar til þess að í 1. mgr. 104. gr. ffl. sé mælt fyrir um að taki dómstóll hér á landi ákvörðun um slit lánastofnunar sem hafi staðfestu hér á landi skuli réttarframkvæmd, málsmeðferð og framkvæmd þeirrar ákvörðunar lúta íslenskum lögum, þó með þeim takmörkunum sem greini í 2. mgr. 99. gr. laganna. Í l-lið 2. mgr. 99. gr. laganna komi fram að viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði skuli fara eftir lögum þess ríkis sem gildi um samninginn um þau viðskipti. Eins og ráða megi af formála tilskipunarinnar sé þetta frávik frá meginreglunni, um að lög heimalandsins gildi, sett til þess að vernda „heilleika skipulagðra markaða sem starfa í samræmi við lög aðildarríkis þar sem viðskipti eru með fjármálagerninga“.

       Aðalstefndi kveður það ágreiningslaust að allsherjarskuldabréfið hafi verið skráð á skipulegan verðbréfamarkað kauphallarinnar í Lúxemborg. Þau viðskipti sem hér um ræði hafi þó átt sér stað „yfir borðið“, en ekki farið í gegnum kerfi kauphallar Lúxemborgar. Það breyti hins vegar engu í þessu sambandi, enda hafi skuldabréfið verið skráð þar á markað og lotið öllum reglum sem gilda um slík skráð verðbréf, þ. á m. upplýsingaskyldu til kauphallarinnar, reglum um innherjaupplýsingar og viðskipti innherja o.fl. Aðalstefndi bendir enn fremur á að upprunalegur enskur texti 27. gr. tilskipunarinnar vísi til viðskipta sem eigi sér stað í tengslum við eða í samhengi við skipulegan verðbréfamarkað (e. in the context of a regulated market), en ekki aðeins til viðskipta sem fari fram í gegnum kerfi hins skipulega markaðar. Umrædd viðskipti falli undir verndarandlag undantekningar l-liðar 2. mgr. 99. gr. ffl. Því verði íslenskum gjaldþrotalögum ekki beitt í málinu, enda segir í skilmálum skuldabréfanna að ensk lög gildi um þau, nema hvað varði afmarkaða þætti sem ekki skipti máli hér.

       Aðalstefndi byggir á því að 18. gr. skilmála skuldabréfanna feli skýrlega í sér samning um lagaval í skilningi 3. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar. Enn fremur vísar aðalstefndi til þess að skuldabréfin hafi sterkust tengsl við England, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000. Aðalskyldan í viðskiptunum hafi verið að afhenda skuldabréfin, en aðalstefnda hafi borið skylda til þess. Aðalstefndi sé með höfuðstöðvar í Englandi. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 43/2000 leiði af þessu að um viðskiptin skuli gilda ensk lög.

       Í ljósi alls ofangreinds telur aðalstefndi ljóst að ensk lög hafi gilt um viðskiptin, en ekki íslensk lög. Þar sem íslensk lög hafi ekki átt við um viðskiptin verði ekki byggt á reglum íslenskra gjaldþrotalaga til að rifta þeim. Stefnandi hafi ekki gert neinn reka að því að sýna fram á að viðskiptin kunni að vera riftanleg samkvæmt enskum lögum. Þar sem íslenskum gjaldþrotalögum verði ekki beitt um viðskiptin og allt ósannað um efni annarra gjaldþrotalaga sem geti átt við beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

       Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu eftir sem áður að íslensk gjaldþrotalög eigi við um viðskiptin byggir aðalstefndi á því að riftunarreglum gjaldþrotalaga verði engu að síður ekki beitt um þau, enda séu þau ekki riftanleg samkvæmt lögum þess lands sem gilda um viðskiptin. Í þessu efni bendir aðalstefndi á að samkvæmt n-lið 2. mgr. 99. gr. ffl. verði löggerningur ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir. Í frumvarpi með lögum nr. 78/2011, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, (slit, eftirlit, innleiðing) er sérstaklega tekið fram að um sé að ræða innleiðingu á 30. gr. framangreindrar tilskipunar 2001/24/EB.

       Af hálfu aðalstefnda er vísað til þess að EFTA-dómstóllinn hafi fjallað um efnisinntak 30. gr. tilskipunarinnar. Þar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að greinin taki meðal annars til riftunar samkvæmt gjaldþrotarétti á grundvelli reglna um undanskot eigna frá gjaldþrotaskiptum. Leggur aðalstefndi áherslu á í þessu sambandi að íslenskum dómstólum beri að túlka ákvæði íslenskra laga sem framast er unnt til samræmis við sameiginlegar reglur á EES-svæðinu, og að einungis sé hægt að víkja frá því sé slík túlkun útilokuð miðað við orðalag ákvæðisins. Orðalag n-liðar 2. mgr. 99. gr. ffl. útiloki alls ekki að túlka ákvæðið til samræmis við 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar.

       Aðalstefndi vísar til þess að fyrir liggi í málinu matsgerð dómkvadds matsmanns, David Chivers QC, sem aflað hafi verið undir rekstri málsins. Þar sé vikið að ýmsum úrræðum samkvæmt enskum lögum sem geti leitt til þess að löggerningi verði vikið til hliðar. Þar fjalli hann fyrst um ákvæði enskra gjaldþrotalaga frá 1986 og geri því næst grein fyrir efni gr. 238 um viðskipti á undirvirði, gr. 239 um ívilnanir, gr. 244 um okurlánaviðskipti, gr. 245 um riftun tiltekinna fljótandi veða, og gr. 423 um viðskipti sem séu sviksamleg gagnvart kröfuhöfum. Matsmaður taki fram að augljóst sé í máli þessu að hvorki sé um að ræða okurlánaviðskipti né fljótandi veð. Þær reglur eigi því ekki við, eins og nánar er rökstutt í matsgerðinni. Aðalstefndi víkur einnig að fleiri reglum sem matsmaður útiloki að geti átt við. Þær reglur sem í raun komi til álita séu 238. gr., 239. gr., 423. gr. og heimildir í félagalögum frá 2006 til að rifta löggerningi þar sem stjórnarmaður hefur ekki tekið tillit til kröfuhafa.

       Aðalstefndi gerði við aðalmeðferð málsins grein fyrir niðurstöðu matsmanns um skilyrði þess að beita 238. gr. ensku gjaldþrotalaganna. Í matsgerðinni komi fram að það sé skilyrði þess að víkja löggerningi til hliðar á þessum grunni að félagið sé í gjaldþrotaskiptum eða greiðslustöðvun. Enn fremur að félagið hafi stundað viðskipti á undirvirði og jafnframt að viðskiptin hafi verið gerð á viðeigandi tíma, eins og segi í þýðingu löggilts skjalaþýðanda. Félag sé talið hafa stundað viðskipti á undirvirði ef um gjöf er að ræða eða það stundar annars konar viðskipti við viðkomandi með skilmálum sem fela í sér að félagið fái ekkert endurgjald eða ef félagið stundar viðskipti við viðkomandi „gegn endurgjaldi sem er umtalsvert verðminna, metið til fjár eða ígildi fjár, en endurgjaldið, metið til fjár eða ígildis fjár, sem félagið lét í té“. Aðalstefndi telur augljóst að í umræddum viðskiptum hafi hvorki verið um gjöf að ræða né að með þeim hafi stefnandi ekki fengið endurgjald í sinn hlut. Í matsgerð sé vikið að því hvað átt sé við með því að endurgjald sé umtalsvert verðminna meðal annars með eftirfarandi umfjöllun: „Ef annað kemur ekki til er virði eignar ekki talið lægra en fjárhæðin sem sæmilega vel upplýstur kaupandi væri reiðubúinn að greiða fyrir hana í viðskiptum ótengdra aðila. Ef markaður er til staðar með eignir af þeirri gerð sem um ræðir er markaðsverðið yfirleitt talið endurspegla virði eignarinnar. ... Hins vegar, ef eign er seld á frjálsum markaði eftir að hún hefur verið auglýst og markaðssett með tilhlýðilegum hætti, er söluvirðið yfirleitt talið endurspegla markaðsvirði eignarinnar á söludeginum.“ Síðan fjalli matsmaður í nokkuð löngu máli um það hvernig mat sé lagt á hvort um undirvirði sé að ræða þegar félag kaupir til baka skuldir sínar. Um þetta atriði vísar aðalstefndi orðrétt til eftirfarandi orða í matsgerðinni:

79. ... verðmatsaðferðirnar geta verið af tvennum toga. Hin fyrsta felst í því að miðað er við nafnvirði hinnar afléttu skuldar, og hin síðari felst í því að ákvarða raunvirði (eða söluvirði) hinnar afléttu skuldar. Af enskri dómaframkvæmd er ekki ljóst hvor aðferðin teljist rétt við þessar kringumstæður. Þótt ensk dómaframkvæmd útheimti að meta þurfi virðið út frá sjónarhóli félagsins, þá er ekki ljóst hvort með því sé átt við að skoða þurfi virðið út frá efnahagsreikningi félagsins eða frá sjónarhóli kröfuhafa félagsins.

...

81. Ekki hefur reynt á þessa greiningu á undirvirði í tengslum við kaup félags á eigin skuld fyrir enskum dómstólum. ...

82. Engu að síður tel ég að enskur dómstóll myndi svara spurningunni um virði frá sjónarhóli annarra kröfuhafa en ekki á grundvelli óhlutbundinnar efnahagsreikningsgreiningar. ... Spurning um virði verður að skoðast með tilliti til áhrifa viðskiptanna á kröfuhafa. Ef áhrifin eru hlutlaus eða jákvæð er ekki um að ræða undirvirði. Ef áhrifin eru neikvæð er um að ræða undirvirði.

...

84. Það kann að vera mikilvæg spurning hvort dómstóllinn muni líta til eftirfarandi þrotameðferðar félagsins við mat á virði skulda félagsins á (fyrri) dagsetningu viðskiptanna. Með öðrum orðum, er rétt að dómstóllinn meti hver áhrif viðskiptanna hafi verið á kröfuhafa félagsins með tilliti til þess að félagið hefur verið tekið til eiginlegrar þrotameðferðar, eða aðeins á grundvelli þess hversu líkleg slík meðferð virtist vera á umræddum tíma. Við þessari spurningu eru engin skýr svör, en nálgun Scott lávaraðar í málinu Phillips g. Brewin Dolphin (sjá að ofan) bendir til þess að fyrri nálgunin sé rétt, þar sem dómstóllinn viðurkenndi að veruleikinn hefði meira vægi en hugsanlegar vangaveltur á umræddum tíma. Ennfremur er það tilgangur 238. greinar að líta aftur til tímabilsins fyrir hina eiginlegu þrotameðferð og leiðrétta viðskipti sem í reynd voru skaðleg kröfuhöfum.

 

       Aðalstefndi bendir á að hér sé niðurstaða matsmanna að nokkru leyti frábrugðin niðurstöðu álitsgerðar prófessors Louise Gullifer um sama efni, sem telur að enskir dómstólar líti „yfirleitt ekki til baka við verðmat viðskipta sem gerð eru á opnum og gegnsæjum markaði“. Aðalstefndi tekur fram að sé nálgun hins dómkvadda matsmanns lögð til grundvallar sé ekki útilokað að litið yrði svo á að viðskiptin hafi farið fram á undirvirði. Hins vegar leggur aðalstefndi áherslu á að ekki liggi fyrir skýr svör við þeirri spurningu hvernig eigi að meta slík viðskipti. Því næst bendir aðalstefndi á að matsmaðurinn taki sérstaklega fram að í reynd hafi „spurningin um hvort áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins hafi virst tryggt á umræddum tíma eftir sem áður umtalsvert vægi“. Hafi þótt ástæða til að álykta á tíma viðskiptanna að þau „yrðu félaginu hagfelld (t.d. vegna þess að félagið taldi af sanngirni að það fengi fullt virði í tengslum við kaup sín á eigin skuld)“ þá kynnu „tilteknar málsvarnir sem kveðið er á um í grein 238(5) að eiga við“. Aðalstefndi telur að þær varnir eigi við hér auk þess sem skilyrði um að viðskiptin hafi átt sér stað á viðeigandi tíma hafi ekki verið uppfyllt.

       Skilyrði um að viðskiptin hafi verið gerð á viðeigandi tíma lýtur samkvæmt matsgerðinni bæði að tíma og fjárhagslegri stöðu. Aðalstefndi bendir á að síðara atriðið geri kröfu um að félagið hafi verið ófært, „á dagsetningu viðskiptanna, um að greiða skuldir sínar eða varð ófært um að greiða skuldir sökum viðskiptanna“. Aðalstefndi telur að viðskiptin hafi ekki farið fram á viðeigandi tíma í skilningi 238. gr. ensku gjaldþrotalaga þar sem greiðsluþrotsskilyrðinu sé ekki fullnægt. Þar vísar aðalstefndi til umfjöllunar í matsgerð um hvenær félag teljist ófært um að greiða skuldir sínar, sbr. grein 123(1) og grein 123(2) í gjaldþrotalögunum.

       Samkvæmt fyrri málsgreininni teljist félag komið í greiðsluþrot ef „sannað er þannig að dómstóllinn telji viðunandi að félagið sé ófært um að greiða skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga“. Samkvæmt síðari málsgreininni sé félag einnig talið ófært um að greiða skuldir sínar ef „sannað er þannig að dómstóll telji viðunandi að virði eigna félagsins sé lægra en fjárhæð skulda þess, að teknu tilliti til skilyrtra og síðari skulda“. Aðalstefndi víkur að því að meta þurfi gjaldfærni miðað við þann tíma sem viðskiptin voru gerð og vísar þar til matsgerðar því til sönnunar. Þar sé notast við tvenns konar próf, annars vegar sjóðstreymisprófið, þar sem litið sé til allra skulda sem séu gjaldkræfar eða verði það í tiltölulega náinni framtíð, og hins vegar efnahagsreikningsprófið þar sem litið sé á eignir félagsins að teknu tilliti til síðari og skilyrtra skulda þess og metið hvort „óraunhæft sé að ætla að það geti greitt þessar skuldir“.

       Aðalstefndi telur að ráða megi af umfjöllun matsmannsins að mat á ógjaldfærni að enskum rétti svipi að miklu leyti til þess mats sem fram fari samkvæmt íslenskum rétti á sama atriði. Er á því byggt af hans hálfu að öll gögn málsins bendi til þess að stefnandi hafi verið gjaldfær á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað. Aðalstefndi vísar í þessu sambandi til álagsprófa Fjármálaeftirlitsins sem stefnandi hafi staðist. Niðurstaða síðara álagsprófsins hafi verið tilkynnt 14. ágúst 2008. Aðalstefndi vísar einnig til kauphallarreikninga og árshlutareikninga stefnanda frá þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað. Hafi árshlutareikningarnir verið kannaðir af endurskoðendum sem hafi staðfest að þeir hefðu ekki orðið neins varir sem gæfi annað til kynna en að árshlutareikningarnir gæfu glögga mynd af rekstri stefnanda. Þá bendir aðalstefndi á að í afkomutilkynningu 31. júlí 2008 komi sérstaklega fram að tryggt lausafé stefnanda næmi 991 milljarði króna og nægði til þess að greiða allar útistandandi skuldir til meira en 360 daga. Aðalstefndi tekur einnig fram að þegar viðskiptin hafi átt sér stað hafi skuldatryggingarálag lækkað umtalsvert frá því sem það hafði verið áður. Þannig hafi það lækkað úr 950 punktum í byrjun apríl 2008, en aðeins verið 440 punktar þegar viðskiptin áttu sér stað. Aðalstefndi vísar enn fremur til þess að skuldabréf stefnanda hafi verið metin í fjárfestingaflokki af Moody´s og Fitch matsfyrirtækjunum þegar viðskiptin áttu sér stað. Því telur aðalstefndi að stefnandi hafi ekki verið ógjaldfær á tíma viðskiptanna. Aðalstefndi áréttar það sem matsmaður segi í matsgerð að það velti á þeim gögnum sem til eru um kringumstæður viðkomandi máls hvort skilyrðum prófsins um ógjaldfærni sé fullnægt. Þrátt fyrir að hafa aðgang að öllu bókhaldi bankans og fjárhagsupplýsingum um hann eftir að viðskiptin áttu sér stað hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem bendi til þess að stefnandi hafi þegar verið orðinn ógjaldfær í maí 2008.

       Eins og áður segir byggir aðalstefndi einnig á því að jafnvel þó að viðskiptin verði talin hafa átt sér stað á „viðeigandi tíma“ séu þau ekki riftanleg með vísan til greinar 238(5) í ensku gjaldþrotalögunum. Í matsgerðinni segi um þetta atriði:

103.   Grein 238(5) gþl. 1986. Grein 238(5) gþl. 1986 kveður á um að dómstólar skuli ekki fallast á kröfu um úrskurð samkvæmt 238. grein vegna viðskipta á undirvirði ef hann telur víst að:

(1)     Félagið sem gerði viðskiptin hafi gert það í góðri trú sem lið í rekstri sínum, og

(2)     Það hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla, á þeim tíma sem viðskiptin voru gerð, að þau myndu verða því hagfelld.

104.   Jafnvel þótt málsvörnin sé háð því að félagið hafi framkvæmt viðskiptin viljandi og vitandi vits, þá þarf varnaraðilinn að sýna fram á að hún eigi við. Sönnunarbyrðin getur hins vegar færst yfir á skiptastjórann eða umsjónarmann greiðslustöðvunarinnar þegar varnaraðilinn hefur sýnt fram á að skilyrðum greinar 238(5) virðist fullnægt.

105.   Prófið sem kveðið er á um í lið 238(5)(a) er bæði huglægt (góðri trú) og hlutlægt (sem lið í rekstri sínum). Í Re Sarflax málinu, sem varðaði eldri ákvæði, var niðurstaða dómstólsins sú að viðskipti sem félag gerir í tengslum við niðurlagningu starfsemi sinnar ættu að teljast viðskipti sem félagið gerir „sem lið í rekstri sínum“ í skilningi liðar 238(5)(b).

106.   Prófið samkvæmt grein 238(5)(b) er alfarið huglægt og veltur ekki á eiginlegri niðurstöðu viðskiptanna fyrir félagið heldur á því hvort það hafi verið hlutlægar réttmætar forsendur til að telja, þegar viðskiptin voru gerð, að viðskiptin myndu verða félaginu hagfelld.

107.   Viðskipti sem félag gerir til þess að tryggja áframhaldandi stuðning birgja kunna að falla undir vörnina samkvæmt ákvæðinu. Raunar geta viðskipti af ýmsu tagi sem gerð eru í góðri trú og gætu annars talist hæpin, þ.m.t. viðskipti sem eru mótaðila félagsins hagfelldari vegna sterkari samningsstöðu hans fallið undir grein 238(5).

 

       Aðalstefndi telur augljóst að framangreindar varnir eigi við um viðskiptin. Bendir hann sérstaklega á að endurkaup útgefanda á eigin skuldum séu og hafi verið alvanaleg framkvæmd á fjármálamörkuðum og geti þau verið útgefanda hagkvæm í því skyni að lækka skuldir, bæta skuldatryggingarálag og mynda hagnað. Þá hafi viðskiptin verið hluti af yfirlýstri stefnu bankans sem m.a. hafi verið rædd á stjórnarfundi félagsins. Tilkynnt hafi verið opinberlega um þessa framkvæmd bankans. Þá hafi viðskiptin verið einungis ein af mörg hundruð sambærilegum viðskiptum á árunum 2005 til 2008. Viðskiptin hafi verið í samræmi við markaðsverð á hlutdeildum í umræddum allsherjarskuldabréfum á þessum tíma. Þá hafi þau átt sér stoð í upphaflegum skilmála allsherjarskuldabréfsins. Jafnframt beri tölvupóstsamskipti miðlara stefnanda og aðalstefnda ekki annað með sér en að viðskiptin hafi verið gerð í góðri trú og í samræmi við vilja og þarfir stefnanda.

       Aðalstefndi telur matsgerðina enn fremur styðja að ekki sé unnt að vefengja umræddan gerning á grundvelli 239. gr. ensku gjaldþrotalaganna frá 1986 er lýtur að ívilnunum til kröfuhafa. Skilyrði fyrir beitingu þess ákvæðis sé að félagið sé í gjaldþrotaskiptum eða greiðslustöðvun, að það ívilni kröfuhafa eða ábyrgðarmanni eða ábyrgðaraðila skulda eða annarra skuldbindinga félagsins og að þegar ívilnunin hafi verið veitt hafi félagið verið „undir áhrifum löngunar“ til að ná fram þeirri niðurstöðu, sem og að ívilnunin hafi verið veitt á „viðeigandi tíma“.

       Aðalstefndi kveður matsgerðina fjalla ítarlega um það hvað geti talist „ívilnun“ í þessari merkingu. Hann tekur fram að umfjöllun matsmannsins bendi til þess að hann telji kaup á hlutdeild í allsherjarskuldabréfi, sem leiði til þess að kröfuhafi sé í hagstæðari stöðu en ef hann þyrfti að lýsa kröfu við slit, geti talist ívilnun, þ.e.a.s. ef skuldabréfaeigandinn er skilyrtur kröfuhafi. Hins vegar telur aðalstefndi að burtséð frá þessu verði greiðslunni ekki rift með vísan til 239. gr. ensku gjaldþrotalaganna þar sem önnur skilyrði greinarinnar séu ekki uppfyllt. Í fyrsta lagi sé það skilyrði ekki uppfyllt að stefnandi hafi verið undir áhrifum löngunar til þess að veita ívilnun. Þar vísar aðalstefndi m.a. til þess sem fram komi í matsgerð að sé ákvörðunin reist á „eðlilegum viðskiptalegum sjónarmiðum“ en ekki „af afdráttarlausri löngun til að bæta stöðu kröfuhafans ef til gjaldþrotaskipta kemur“ sé gerningurinn gildur. Aðalstefndi telur augljóst að hinn umdeildi gerningur verði ekki rakinn til löngunar til þess að ívilna kröfuhafa. Vísar hann þar til þess sem rakið hafi verið um að endurkaup útgefanda á eigin skuldabréfum hafi verið og séu alvanaleg á fjármálamörkuðum, endurkaupin hafi verið í samræmi við yfirlýsta stefnu stefnanda sem hafi verið birt opinberlega, stefnandi hafi átt í mörg hundruð sambærilegum viðskiptum, þau hafi verið í samræmi við upphaflega skilmála allsherjarskuldabréfsins og farið fram á markaðsverði.

       Þessu til viðbótar áréttar aðalstefndi að skilyrðið um að gerningurinn hafi átt sér stað á „viðeigandi tíma“ sé ekki uppfyllt.

       Aðalstefndi kveður enn fremur útilokað að skilyrðum ákvæðis 423. gr. ensku gjaldþrotalaganna sé fullnægt svo unnt sé að rifta umræddri greiðslu. Þar vísar aðalstefndi til þess sem rakið er í matsgerðinni um þessi skilyrði sem eru að félagið hafi átt í viðskiptum á undirvirði og að sannað þyki að þau hafi verði gerð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að aðili, sem hafi gert kröfu á hendur því eða kann að gera það síðar, nái til eigna félagsins, eða að skerða með öðrum hætti hagsmuni slíks aðila í tengslum við kröfu sem hann hafi gert eða kunni að gera það. Með vísan til þess sem rakið hafi verið um viðskiptin, yfirlýsingar stefnanda á þessum tíma og fjölda sambærilegra viðskipta þar sem stefnandi taldi sig hafa hag af slíkum viðskiptum, telur aðalstefndi að ekki hafi verið raunverulegur tilgangur þeirra að forða eignum frá kröfuhöfum bankans.

       Með vísan til sömu röksemda telur aðalstefndi að ákvæði greinar 172(3) í enskum félagalögum frá 2006 geti ekki átt við. Um þau skilyrði sem þá þurfi að vera fyrir hendi vísar aðalstefndi til umfjöllunar í matsgerð, en þar komi fram að stjórnarmönnum félaga beri að taka mið af hagsmunum kröfuhafa félagsins við tilteknar aðstæður.

       Telji dómurinn engu að síður að beita skuli íslenskum riftunarreglum, byggir aðalstefndi á því að ekki hafi verið um uppgreiðslu skuldar að ræða, heldur viðskipti með skuldabréf á skipulögðum markaði. Því mótmælir aðalstefndi því að viðskiptin hafi falið í sér greiðslu á skuld stefnanda við aðalstefnda. Aðalstefndi telur ljóst, líkt og staðfestingar viðskiptanna beri með sér, að ekki hafi verið um að ræða beiðni um uppgreiðslu skuldabréfanna, heldur viðskipti með skuldabréf skráð á skipulögðum verðbréfamarkaði.

       Þessu til stuðnings bendir aðalstefndi á að í 7. kafla skilmála skuldabréfanna í útgáfulýsingu sé fjallað um það í hvaða tilvikum heimilt sé að greiða skuldabréfin upp. Í c-lið 7. kafla sé fjallað um uppgreiðslu að frumkvæði útgefanda. Þar komi skýrt fram að slík uppgreiðsla sé aðeins heimil ef sérstaklega sé kveðið á um slíkt í verðviðaukanum. Í verðviðaukanum með skuldabréfunum komi fram í lið 21(i) að slík uppgreiðsla sé einungis heimil á vaxtagjalddögum sem falla í júní 2009 og eftir það. Þá sé í c-lið 7. kafla einnig fjallað um það hvernig skuldabréf sem þannig eru greidd upp skuli valin með drætti 30 dögum áður en þau eru uppgreidd og hvernig tilkynningum til skuldabréfaeigenda skuli háttað m.t.t. slíkrar uppgreiðslu. Af framangreindu sé ljóst að ekki hafi verið um að ræða uppgreiðslu að frumkvæði útgefanda samkvæmt c-lið 7. kafla skilmálanna enda engin slík skilyrði uppfyllt eða formsatriða gætt.

       Aðalstefndi tekur fram að í h-lið 7. kafla skilmálanna sé sérstaklega tekið fram að útgefandi geti hvenær sem er keypt skuldabréf, hvort sem er á opnum markaði eða með öðrum hætti. Í kjölfar slíkra kaupa geti útgefandinn síðan ýmist átt skuldabréfin, endurútgefið þau, endurselt þau eða afhent þau greiðsluumsjónarmanni (e. paying agent) útgáfunnar til afturköllunar (e. cancellation). Útgáfulýsingin geri þannig skýran greinarmun á kaupum útgefanda á skuldabréfi, afturköllun þess og uppgreiðslu. Þá sé sérstaklega tekið fram í i-lið 7. kafla að uppgreidd bréf skuli afhent greiðsluumsjónarmanni til afturköllunar, en ekkert liggi fyrir í málinu um að skuldabréfin sem aðalstefndi hafi keypt hafi verið afhent til afturköllunar í kjölfar uppgreiðslu. Skuldabréfin geti því ekki talist uppgreidd einungis við það eitt að þau hafi verið keypt af útgefanda, enda sé gert ráð fyrir því að þau megi endurselja, auk þess sem sérstakt ferli þurfi að fara fram til þess að afturkalla þau í kjölfar slíkra kaupa. Þá bendir aðalstefndi á að kaupverð skuldabréfanna, 4.409.359,44 evrur m.v. gengi skuldabréfanna 87,5, sé mun lægra en uppgreiðsluverðmæti skuldabréfsins ef það hefði verið greitt upp samkvæmt skilmálum útgáfulýsingarinnar og verðviðaukans, enda um að ræða höfuðstól að fjárhæð 5.000.000 evra auk áfallinna vaxta. Fjárhæðin sem greidd hafi verið fyrir skuldabréfið styðji því þann málatilbúnað aðalstefnda að um hafi verið að ræða viðskipti með bréfið en ekki uppgreiðslu.

       Aðalstefndi byggir jafnframt á því að við mat á hvort um hafi verið að ræða greiðslu skulda verði að líta til framangreindra skilmála skuldabréfanna og þess regluverks sem skráning bréfanna hafi lotið á skipulegum verðbréfamarkaði í Lúxemborg. Ef litið yrði svo á að kaup útgefanda á eigin skuldabréfum væru ætíð uppgreiðsla slíkra bréfa að íslenskum lögum væri íslenskum skuldabréfaútgefendum ómögulegt að stunda viðskiptavakt með eigin bréf eða eiga viðskipti með þau yfirhöfuð án þess að hætta væri á því að slíkum ráðstöfunum yrði rift. Slík niðurstaða yrði til þess að draga verulega úr öryggi í viðskiptum með skuldabréf skráð á skipulegum mörkuðum. Þá væri enn fremur hætt við að íslenskir útgefendur brytu skilmála útgáfulýsinga í hvert sinn sem þeir ættu viðskipti með eigin bréf ef litið væri svo á að kaup útgefanda á eigin bréfum jafngiltu uppgreiðslu þeirra. Aðalstefndi byggir á því að svo geti ekki verið. Heimild útgefanda til endurkaupa eigin skuldabréfa sé ekki tilraun til þess að semja sig undan riftunarreglum eins og gefið sé í skyn í stefnu, heldur hluti af alþjóðlega viðurkenndri framkvæmd sem sé algeng þegar um er að ræða útgáfu skuldabréfa sem skráð eru á skipulegum markaði.

       Máli sínu enn frekar til stuðnings bendir aðalstefndi á að samkvæmt a-lið 18. kafla skilmála skuldabréfanna í útboðslýsingunni skuli ensk lög gilda um skuldabréfin og að þau skuli túlkuð samkvæmt enskum lögum. Aðalstefndi telur því ljóst að ekki sé hægt að beita reglu íslensks réttar um að skuld teljist uppgreidd þegar réttindi og skyldur komist í hendur sama aðila, enda hafi ekki verið sýnt fram á að um sambærilega reglu sé að ræða í enskum rétti. Raunar gefi skilmálar skuldabréfanna skýrlega til kynna að svo sé ekki.

       Telji dómurinn engu að síður að um hafi verið að ræða greiðslu á skuld byggir aðalstefndi á því að greiðslan hafi virst eðlileg eftir atvikum og því ekki riftanleg. Bendi aðalstefndi á að skuldabréfin hafi verið skráð á alþjóðlegan, skipulegan verðbréfamarkað, virkur markaður hafi verið með viðskipti þeirra og viðskipti aðalstefnda með þau ekki óeðlileg að neinu leyti. Þá hafi það verið opinberlega yfirlýst stefna stefnanda að greiða upp skuldabréf sín, enda hafi stefnandi haft aðgang að ódýrari fjármögnun heldur en á grundvelli skuldabréfanna. Aðalstefndi telur alþekkt að fjármálastofnanir endurkaupi skuldir sínar á markaði ef hagstæð kjör bjóðast.

       Í þessu sambandi bendir aðalstefndi á að endurkaup útgefinna skulda fjármálafyrirtækis séu ekki óvenjulegar ráðstafanir í sjálfu sér. Aðalstefndi vísar til þess að viðurkennt sé að við mat á því hvort greiðslur geti talist venjulegar eftir atvikum verði að líta til þess hvort skuldari hafi metið það svo að hann hagnaðist af því að greiða þegar í stað. Þannig geti uppgreiðsla á skuldabréfaláni verið skuldara hagstæð eftir mati hans á þeim tíma sem hann greiddi, t.d. vegna þess að hann gat fjármagnað þá greiðslu með nýju og ódýrara fjármagni.

       Aðalstefndi bendir á að stefnandi hafði á árunum 2006 og 2007 sætt gagnrýni alþjóðlegra matsfyrirtækja fyrir að fjármögnun hans væri um of háð aðgangi að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, þ.e. skuldabréfamörkuðum. Í kjölfarið hafi stefnandi leitast við að styrkja innstæðugrunn sinn og aukið fjölbreytileika fjármögnunar sinnar. Á síðari hluta ársins 2007 og fyrri hluta ársins 2008 hafi stefnandi boðið upp á svokallaða Edge-innlánsreikninga í ýmsum Evrópulöndum og aukið þannig aðgang sinn að ódýrari fjármögnun. Það hafi síðan verið yfirlýst stefna stefnanda á árinu 2008 að endurkaupa útgefnar skuldabréfaskuldir sínar, en fram kemur í afkomuyfirliti, sem stefnandi hafi gefið út 30. apríl 2008, að hann hefði unnið markvisst að því að kaupa upp útgefnar skuldir sínar og að hann myndi halda slíkum kaupum áfram.

       Aðalstefndi telur ljóst af framangreindu að ákvörðun stefnanda um endurkaup skuldabréfanna með aðkomu aðalstefnda hafi byggst á viðskiptalegum forsendum, enda hafi stefnandi þá getað fjármagnað rekstur sinn með ódýrari hætti í formi innlána. Telur hann að það hafi verið fjárhagslega hagstætt fyrir stefnanda að kaupa nokkurn hluta skuldabréfaskulda sinna sem hafi borið hærri vexti en innlánsreikningar. Þá hafi það einnig verið fjárhagslega hagkvæmt fyrir stefnanda að kaupa skuldabréfin til baka á verði sem hafi verið lægra en uppgreiðsluverð þeirra, enda hafi hann bókfært mismuninn sem hagnað í bókum sínum. Endurkaupin og greiðslan í því sambandi hafi þannig verið á viðskiptalegum forsendum og eðlileg eftir atvikum.

       Aðalstefndi mótmælir þeirri fullyrðingu sem fram komi í stefnu að ekki sé hægt að fallast á að ákvæði í skuldabréfi sem heimili endurkaup á skuldabréfinu eða uppgreiðslu skuldarinnar fyrir gjalddaga gangi framar riftunarreglu 134. gr. gjaldþrotalaga. Í þessu sambandi bendir aðalstefndi á að ákvæði um endurkaup og uppgreiðslu skuldabréfa fyrir gjalddaga eru til þess fallin að veita útgefanda svigrúm um það hvernig hann hagar fjármögnun sinni og geri honum kleift að kaupa til baka eða greiða upp slíkar skuldir þegar hann metur að slíkt sé fjárhagslega hagstætt. Þar sem slík ákvæði séu ekki óeðlileg í sjálfu sér séu það forsendur fyrir beitingu þeirra sem eigi að liggja til grundvallar því hvort slík ákvæði verði talin samrýmast riftunarreglu 134. gr. gjaldþrotalaga. Aðalstefndi áréttar það sem að framan greinir, að það hafi verið mat stefnanda að það væri fjárhagslega hagstætt og yfirlýst stefna hans að ráðast í endurkaup skulda sinna. Beiting ákvæða um endurkaup á þeim forsendum hljóti því að teljast falla utan gildissviðs riftunarreglu 134. gr., enda slík viðskipti eðlileg eftir atvikum.

       Þá mótmælir aðalstefndi þeirri fullyrðingu, sem fram komi í stefnu, að til þess að viðskiptin geti talist venjuleg eftir atvikum hefðu þau m.a. þurft að vera venjuleg í viðskiptum milli aðila. Aðalstefndi bendir á að í þessu sambandi sé fráleitt að líta eingöngu til viðskiptasambands stefnanda og aðalstefnda að þessu leyti, heldur þurfi að líta til þess hvort endurkaup á skuldabréfum hafi verið venjuleg í starfsemi stefnanda og annarra fjármálafyrirtækja yfirhöfuð. Í þessu sambandi vísar aðalstefndi enn til yfirlýstrar stefnu stefnanda um endurkaup á skuldum sínum, auk þess sem starfsmaður stefnanda staðfesti einnig í tölvupóstsamskiptum við miðlara aðalstefnda að stefnandi hefði verið virkur á eftirmarkaði með skuldabréf áður en viðskiptin hafi átt sér stað.

       Aðalstefndi bendir einnig á þá staðreynd að stefnandi hafi nú höfðað fleiri tugi riftunarmála vegna endurkaupa á útgefnum skuldabréfum sínum. Það eitt sýni með óyggjandi hætti að stefnandi hafi greinilega verið mjög virkur á markaðnum með eigin skuldabréf. Viðskiptin hafi þannig verið venjuleg í starfsemi stefnanda, þó svo að hann hafi ekki átt í öðrum slíkum viðskiptum við aðalstefnda sjálfan. Máli sínu til enn frekari stuðnings bendir aðalstefndi á að endurkaup útgefinna skulda séu alvanaleg í starfsemi fjármálafyrirtækja, óháð fjárhagslegri stöðu þeirra.

       Varðandi fullyrðingu stefnanda um að huglæg afstaða aðalstefnda skipti engu máli fyrir riftun greiðslunnar, bendir aðalstefndi á að þrátt fyrir að 134. gr. sé ætlað að vera hlutlæg riftunarregla, þá geti huglæg afstaða kröfuhafa engu að síður komið til skoðunar við mat á því hvort viðskiptin hafi verið eðlileg eftir atvikum. Eins og að framan greini liggi ekkert fyrir í málinu um að ætlun stefnanda hafi verið að ívilna aðalstefnda eða að aðalstefndi hafi ekki verið í góðri trú um viðskiptin, enda liggi fyrir að stefnandi hafði verið virkur í viðskiptum með eigin bréf á eftirmarkaði og að hann hafi lagt fram tilboð í eigin bréf. Góð trú aðalstefnda um að viðskiptin hafi verið hluti af almennri fjárstýringarstarfsemi stefnanda árið 2008 styðji þannig málatilbúnað hans um að viðskiptin hafi virst eðlileg eftir atvikum.

       Telji dómurinn eftir sem áður að viðskiptin gætu engu að síður verið riftanleg að íslenskum lögum byggir aðalstefndi á því honum verði ekki gert að endurgreiða þrotabúinu alla dómkröfuna, enda hafi hann ekki notið hags af ráðstöfuninni nema að takmörkuðu leyti. Í þessu sambandi bendir aðalstefndi á að í 142. gr. laga nr. 21/1991 komi fram að ef riftun fer fram með stoð í 131. til 138. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamannsins hafi orðið honum að notum. Þannig sé gert ráð fyrir því að sá sem hag hafi af ráðstöfuninni skuli endurgreiða þrotabúi þá auðgun sem hann hafi haft af ráðstöfuninni. Endurgreiðslureglunni sé þannig ætlað að taka mið af stöðu og hagsmunum riftunarþola og miði við að hve miklu leyti ráðstöfunin hafi orðið honum að notum. Krafa um endurgreiðslu skv. 142. gr. laga nr. 21/1991 sé þannig krafa um endurgreiðslu auðgunar, en ekki skaðabótakrafa sem miði við stöðu þrotabúsins. Talið hafi verið eðlilegt að beita slíkri reglu þegar krafist sé riftunar á grundvelli hlutlægra reglna, enda ekki um að ræða skaðabótakröfu sem lúti huglægum skilyrðum.

       Aðalstefndi tekur fram að sérregla 142. gr. laga nr. 21/1991 um móttöku peninga byggi á því að riftunarþoli verði sjálfur að bera ábyrgð á því hvernig honum nýtast peningar sem hann hafi fengið í hendur. Í þessu sambandi bendir aðalstefndi á að þrátt fyrir að hann hafi tekið við greiðslu frá stefnanda að andvirði 4.409.359,44 evrur í peningum, þá hafi hann engu að síður verið skuldbundinn til þess að greiða 4.021.859,44 evrur til varastefnda vegna viðskipta þeirra með skuldabréfin. Auðgun aðalstefnda nemi því aðeins 387.500 evrum, sem sé sú fjárhæð sem hann hafi sjálfur haldið eftir vegna viðskiptanna við stefnanda.

       Aðalstefndi byggir á því að honum verði ekki gert að greiða til baka peninga sem hann hafi tekið við sem greiðslu vegna viðskipta þegar ljóst sé að hann sjálfur hafi aldrei getað auðgast á viðskiptum um hærri fjárhæð en 387.500 evrur. Í þessu efni skipti engu máli þó svo að greiðslan sem hann hafi tekið við hafi verið í peningum, en hluta hennar hafi hann óhjákvæmilega orðið að ráðstafa til varastefnda.

       Að öðru leyti er lækkunarkrafan reist á 145. gr. laga nr. 21/1991. Því til stuðnings vísar aðalstefndi til þess sem að framan hefur verið rakið um að hann hafi ekki notið nema að takmörkuðu leyti hagnaðar af viðskiptunum. Verði aðalstefnda gert að greiða alla fjárhæðina sem stefnandi krefjist hefði það í för með sér beint tjón fyrir aðalstefnda sem nemi a.m.k. 4.021.859,44 evrum. Þannig þyrfti aðalstefndi að endurgreiða fjárhæð sem hann hafi aðeins notið sjálfur að hluta, en framselt stærstan hluta áfram til varastefnda. Þá bendir aðalstefndi á að hann sé sjálfur í slitameðferð. Verði honum gert að greiða kröfu stefnanda að fullu, og verði stefnanda unnt að skuldajafna kröfunni við þær kröfur sem aðalstefndi eigi í slitameðferð stefnanda, sé ljóst að endurheimtur kröfuhafa aðalstefnda í þeirri slitameðferð muni minnka. Þannig muni kröfuhafar aðalstefnda bera tjónið af hinum riftanlegu ráðstöfunum, án þess þó að hafa nokkurn tímann notið fulls hags af þeim.

       Aðalstefndi kveðst styðja kröfu sína um málskostnað við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um lagarök að öðru leyti vísar hann til sömu lagagreina sem rakin hafa verið.

 

3. Helstu málsástæður og lagarök varastefnda, Tradition London Clearing Ltd.

       Varastefndi kveðst vera enskur lögaðili og hafa með höndum milligöngu um miðlun verðbréfa milli kaupenda og seljenda. Hann hafi einungis takmarkað starfsleyfi og stundi ekki viðskipti fyrir eigin reikning.

       Varastefndi kveður þrautvarastefnda, sem er þýskur lögaðili með útibú í London, og aðalstefnda, sem er enskur lögaðili, hafa nýtt sér þjónustu varastefnda. Varastefndi hafi gert það eitt í málinu að miðla skuldabréfum, sem stefnandi hafði gefið út, frá þrautavarastefnda til aðalstefnda og tekið fyrir það þóknun að fjárhæð 187.500 evrur. Varastefndi hafi ekki haft neina vitneskju um hvort aðalstefndi keypti bréfin fyrir eigin reikning eða í þágu viðskiptavinar. Enn síður hafi varastefndi vitað í þágu hvaða viðskiptavinar aðalstefnda bréfin kynnu að vera keypt. Þessi atriði hafi aldrei borið á góma og umræða um slíkt hefði verið afar óvenjuleg á alþjóðlegum skuldabréfamarkaði í London. Verð í viðskiptunum hafi ráðist af eftirspurn og framboði bréfanna þennan dag. Varastefndi hafi ekki haft ástæðu til að ætla að verð bréfanna væri meira eða minna en lagt hafi verið til grundvallar í viðskiptunum.

       Af hálfu varastefnda er á það bent að samið hafi verið um þessi viðskipti 13. maí 2008 eða meira en sex mánuðum fyrir frestdag við slit stefnanda. Þann 16. maí 2008 hafi aðalstefndi greitt varastefnda umsamið verð skuldabréfanna gegn afhendingu þeirra og með því hafi uppgjöri vegna viðskiptanna verið lokið. Samtímis hafi varastefndi framkvæmt samskonar uppgjör gagnvart þrautavarastefnda. Allt þetta hafi verið umsamið 13. maí 2008 og venjubundið.

       Varastefndi kveður stefnanda hins vegar ekki hafa átt neina aðild að þessum venjubundnu og eðlilegu viðskiptum varastefnda. Varastefndi telur fráleitt að hann verði að þola dóm vegna þessa líkt og stefnandi geri kröfu um. Varastefndi byggir þessa afstöðu á eftirtöldum sex ástæðum, sem allar leiði til sýknu að undanskilinni þeirri sjöttu sem leiðir til verulegrar lækkunar krafna stefnanda:

       Í fyrsta lagi byggir varastefndi á því að eina greiðslan sem hann hafi móttekið hafi verið greiðsla frá aðalstefnda. Um riftanleika þeirrar greiðslu gildi hins vegar ekki íslensk lög. Viðskiptin hafi átt sér stað milli tveggja enskra lögaðila, um þau hafi verið samið á alþjóðlegum skuldabréfamarkaði í London, þau hafi varðað skuldabréf skráð á markað í Lúxemborg og greiðslan hafi farið fram í uppgjörskerfum Euroclear í Lúxemborg. Stefnandi haldi því hins vegar hvergi fram að þessi greiðsla sé riftanleg samkvæmt enskum lögum, sem væri þó skilyrði kröfu hans sbr. 2. málslið 1. mgr. 104. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. l-lið 1. undirliðar 2. mgr. 99. gr. og 2. undirlið 2. mgr. 99. gr. laganna, eins og þessi ákvæði verði túlkuð með hliðsjón af m.a. 27. og 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB sem er hluti EES-samningsins. Þvert á móti liggi fyrir að um viðskiptin hafi gilt ensk lög, sbr. 22. gr. viðskiptaskilmála varastefnda. Þegar af þessari ástæðu verði að sýkna varastefnda af öllum kröfum í málinu, enda verði að skoðast sem ágreiningslaust að viðskiptin séu óriftanleg samkvæmt enskum lögum. Í öllu falli áskilur varastefndi sér rétt til þess að leggja fram sannanir á því telji hann ástæðu til þess síðar meir.

       Í öðru lagi byggir varastefndi á því að hann geti enga aðild átt að máli sem sé rekið á grundvelli 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Hann hafi aldrei móttekið „greiðslu skuldar“ frá stefnanda í skilningi 134. gr. og því verður að sýkna hann af öllum kröfum sem séu gerðar á hendur honum í málinu. Um það vísar varastefndi til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.

       Í þriðja lagi byggir varastefndi á því að engin önnur skilyrði 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti geti átt við um hann í málinu. Hann hafi enga greiðslu fengið nema frá aðalstefnda og það á þeim degi sem um hafi verið samið í öndverðu. Þá hafi aðkoma varastefnda að viðskiptunum í alla staði verið venjubundin og eðlileg. Með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda sé hins vegar látið hjá líða að fjalla um þetta í einstökum atriðum, en varastefndi telur ómögulegt að sjá hvernig skilyrði 134. gr. geti átt við um þau viðskipti sem varastefndi hafi átt í raun og veru.

       Í fjórða lagi byggir varastefndi á því að ekkert í 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti geti leitt til þess að kröfur stefnanda gegn honum verði teknar til greina. Varastefndi kveður framsetningu málsins af hálfu stefnanda vera þannig að hann hann mótmæli í heild sinni málatilbúnaði hans varðandi öll skilyrði ákvæðisins. Hafa verði í huga að stefnandi byggi mál sitt ekki með nokkrum hætti á 146. gr. laga gjaldþrotaskipti, enda í sjálfu sér óumdeilt að varastefndi hafi hvorki vitað né mátt vita um þær aðstæður sem riftunarkrafan gagnavart aðalstefnda byggist á.

       Í fimmta lagi byggir varastefndi á því að kröfur stefnanda á hendur varastefnda séu fyrndar. Fyrningarfrestur krafna stefnanda samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 hafi byrjað að líða eigi síðar en 16. maí 2008 og þær hafi því verið fyrndar þegar mál þetta hafi verið höfðað.

       Í sjötta lagi byggir varastefndi á því að hann verði aldrei krafinn um greiðslu á hærri fjárhæð en sem svari til þóknunar hans af viðskiptunum eða 187.500 evrur. Hann hafi aldrei fengið meiri verðmæti en þessi í hendur vegna viðskiptanna.

       Varastefndi mótmælir enn fremur upphafsdegi dráttarvaxtakröfu stefnanda.

       Um lagarök vísar varastefndi til XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., laga um fjármálafyrirtæki, tilskipunar nr. 24/2001/EB sem er hluti EES-samningsins, lög nr. 2/1993, lög um vexti og verðtryggingu, lög um meðferð einkamála og til laga um fyrningu kröfuréttinda, 70. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 1. gr. fyrsta samningsviðauka við sáttmálann. Þá vísar varastefndi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 129. gr. laganna, til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni.

 

3. Helstu málsástæður og lagarök þrautavarastefnda, Deutsche Bank AG.

       Varastefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Hann færir þau rök fyrir þessari málsástæðu að stefnandi hafi átt í viðskiptum við aðalstefnda um þá hagsmuni sem málið fjalli um. Aðkoma þrautavarastefnda hafi eingöngu verið með þeim hætti að hann hafi selt varastefnda umrædda hagsmuni og fengið greitt fyrir úr hendi varastefnda. Varastefndi virðist samkvæmt gögnum málsins hafa selt umrædda hagsmuni til aðalstefnda, sem aftur virðist hafa selt hagsmunina til stefnanda. Þrautavarastefndi hafi hins vegar aldrei átt í viðskiptum við stefnanda og engar greiðslur hafi farið milli þeirra vegna viðskipta með þá hagsmuni sem málið fjalli um. Ekkert hafi gefið tilefni til að ætla að stefnanda ætti aðild að viðskiptum með hagsmunina.

       Þrautavarastefndi telur gögn málsins sýna að um þrenn aðskilin viðskipti hafi verið að ræða. Í fyrsta lagi milli hans og varastefnda, í öðru milli varastefnda og aðalstefnda og í þriðja lagi milli aðalstefnda og stefnanda. Engu breytir þó að viðskiptin hafi átt sér stað sama dag. Þetta sé einnig augljóst að mati þrautavaratefnda í ljósi þess að mismunandi verð hafi verið greitt í hverju tilviki og að aðalstefndi hafi átt í viðskiptunum fyrir eigin reikning. Þá leggur þrautavarastefndi áherslu á að hann sé fjármálastofnun sem sérhæfi sig í viðskiptum með ýmis konar fjármálagerninga og því hafi verið algerlega óþarft fyrir hann að eiga í viðskiptum með hagsmuni í allsherjarskuldabréfi í gegnum millilið. Mótmælir þrautavarastefndi því alfarið að nokkur hafi komið fram fyrir hans hönd í viðskiptum öðrum.

       Fallist dómurinn ekki á framangreint byggir þrautavarastefndi á því að ekkert skuldarsamband hafi verið á milli stefnda og stefnanda. Riftunarregla 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga komi eingöngu til álita gagnvart þeim sem fái greidda skuld og hafa beinlínis hag af því. Samkvæmt því verði að liggja fyrir með óyggjandi hætti að stefndi hafi átt tiltekna greiðslu sem kröfuhafi hennar og sá sem greiddi greiðsluna hafi innt hana af hendi sem skuldari greiðslunnar.

       Ekki hafi verið um slíkt að ræða í þessu máli eins og komi skýrt fram í framlagðri útgáfulýsingu. Ekkert skuldarsamband hafi verið milli stefnanda og þrautavarastefnda með þeim réttaráhrifum sem því fylgi samkvæmt skilmálum allsherjarskuldabréfsins. Þetta skuldarsamband hafi verið milli útgefanda og sameiginlegs vörsluhafa. Af þeim sökum geti þrautavarastefndi ekki átt aðild að riftunarkröfu á grundvelli 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga og því eigi að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.

       Fallist dómurinn ekki á sýknu vegna aðildarskorts er sýknukrafa varastefnda í öðru lagi reist á því að ekki sé unnt að rifta kaupum stefnanda á hagsmunum sem málið fjalli um þar sem skilyrði riftunar séu ekki fyrir hendi.

       Þrautavarastefndi vísar í þessu sambandi m.a. til 1. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, einkum d-liðar og n-liðar 2. mgr. ákvæðisins. Þá vísar hann til þess að þessu ákvæði hafi verið ætlað að innleiða 30. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana, en tilskipunin hafi verið tekin upp í heild sinni í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Skýra verði framangreind ákvæði laga nr. 161/2002 til samræmi við tilskipunina, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Af þessu dregur þrautavarastefndi þá ályktun að skilyrði riftunar þurfi bæði að vera uppfyllt í heimaríki, Íslandi, og samkvæmt lögum gistiríkis. Í greinargerð kemur fram því til stuðnings að í málinu liggi fyrir að þrautavarastefndi sé með starfsstöð og veiti þjónustu í Englandi. Það hafi verið starfsmenn útibús hans í Lundúnum sem hafi annast viðskiptin af hálfu þrautavarastefnda. Af þeim sökum þurfi skilyrði fyrir riftun viðkomandi ráðstöfunar einnig að vera fyrir hendi í enskum rétti ef koma eigi fram riftun á Íslandi.

       Í greinargerð kveður þrautavarastefndi að samkvæmt viðeigandi ákvæðum enskra laga séu skilyrði riftunar ekki ekki fyrir hendi. Í því sambandi skipti einkum máli að stefnandi hafi fengið eðlilegt gagngjald fyrir greiðslu sína, þ.e.a.s. hagsmuni í allsherjarskuldabréfinu, og ekkert liggi fyrir um vilja hans til að hygla samningsaðila sinn á kostnað annarra kröfuhafa hafi legið að baki viðskiptum stefnanda. Áskildi þrautavarastefndi sér rétt til þess að leggja fram frekari gögn þessu til stuðnings, þar með talið upplýsingar um tilvist og efni viðkomandi réttareglna ensks réttar á þessu sviði, sbr. 2. mgr. 44. gr. einkamálalaga.

       Við aðalmeðferð málsins vísaði þrautavarastefndi til ýmissa gagna sem aflað var undir rekstri málsins sem hann taldi gefa til kynna að útilokað væri að hnekkja umræddum greiðslum samkvæmt enskum lagareglum. Vísaði þrautavarastefndi þar m.a. til greinargerðar John Armour, prófessors við Oxford háskóla, þar sem fjallað sé um enskar réttarreglur á hlutlægan hátt og hvort og þá hvernig reglurnar eigi við í þessu máli. Enn fremur vísaði þrautavarastefndi til matsgerðar Louise Gullifer, prófessors við Oxford háskóla, sem dómkvödd hafði verið sem matsmaður í héraðsdómsmálinu E-2769/2012, þar sem stefnandi var matsþoli, en það mál sé sambærilegt þessu máli og reynir á sömu reglur ensks réttar. Enn fremur vísaði þrautavarastefndi til matsgerðar David Chivers QC, sem aðalstefndi hefur lagt fram í þessu máli, en þrautavarastefndi mótmælti sönnunargildi þeirrar matsgerðar að því leyti sem það væri í andstöðu við framangreindar mats- og álitsgerðir. Að auki hafi verið lögð fram gögn um efni viðeigandi enskra lagaákvæða, sem og dóma og fræðirit, en mats- og álitsgerðir séu þessum gögnum til fyllingar. Að mati þrautavarastefnda lýsi öll þessi gögn enskum rétti með fyllilega sambærilegum hætti þó að blæbrigðamunur kunni að vera á skoðunum umræddra fræðimanna á beitingu reglnanna með hliðsjón af þeim atvikum sem liggi fyrir í málinu. Með þessum gögnum telur þrautavarastefndi sig hafa axlað þá sönnunarbyrði sem á hann séu lagðar samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um tilvist og efni umræddra lagareglna, en á honum hvíli ekki sönnunarbyrði um beitingu reglnanna.

       Í stuttu máli telur þrautavarastefndi að skilyrði 238. gr. ensku gjaldþrotalaganna frá 1986, er taki til ráðstafana á undirverði ef viðskiptin áttu sér stað á svokölluðum viðmiðunartíma, séu ekki fyrir hendi. Viðmiðunartíminn séu síðustu tvö ár fyrir upphaf gjaldþrotaskipta. Hann eigi ekki við nema að félagið hafi verið ófært um að greiða skuldbindingar sínar í skilningi 123. gr. gjaldþrotalaganna. Þrautavarastefndi byggir á því að staða stefnandi hafi ekki verið með þeim hætti í maí 2008. Enn fremur byggir þrautavarastefndi á því að viðskiptin hafi ekki verið á undirvirði í skilningi 238. gr. ensku gjaldþrotalaganna, enda hafi þau farið fram á markaðsvirði. Þá vísar þrautavarastefndi til þess að ákvæðinu verði ekki beitt ef viðskiptin voru gerð í góðri trú í þeim tilgangi að halda rekstri félagsins áfram. Byggir þrautavarastefndi á því að endurkaup stefnanda hafi verið gerð í góðri trú til að halda rekstri félagsins áfram.

       Þrautavarastefndi telur jafnframt upplýst að ekki séu uppfyllt skilyrði til þess að beita megi 239. gr. ensku gjaldþrotalaganna er fjalli um ívilnanir á viðmiðunartíma. Viðmiðunardagur í þessu tilviki séu síðustu sex mánuðir fyrir upphaf gjaldþrotaskipta. Telur þrautavarastefndi að umrædd viðskipti falli utan þess frests, enda verði að miða við viðskiptadag 13. maí 2008, en frestdagur, 15. nóvember 2008, marki upphaf skipta stefnanda. Þá bendi ekkert til þess að stefnandi hafi verið ófær um að greiða skuldir sínar í maí 2008. Að auki byggir þrautavarastefndi á því að endurkaupin geti ekki talist ívilnun, enda hafi viðskiptin m.a. farið fram á markaði og verið í samræmi við skilmála allsherjarskuldabréfsins. Enn fremur hafi á það skort að stefnandi hafi viljað bæta stöðu kröfuhafa í málinu ef til gjaldþrotaskipta kæmi, en það sé skilyrði fyrir því að reglan geti átt við. Að lokum taki ákvæðið aðeins til ívilnana sem beint sé að kröfuhöfum, en þrautavarastefndi kveðst ekki hafa verið kröfuhafi stefnanda.

       Þrautavarastefndi kveður enn fremur liggja fyrir að ákvæði 423. gr. ensku gjaldþrotalaganna geti ekki átt við en þau taki til viðskipta á undirverði sem séu sviksamleg gagnvart kröfuhöfum. Þá verði að telja augljóst að almennar ógildingarreglur ensks samningaréttar geti ekki komið til skoðunar í málinu.

       Þrautavarastefndi tekur fram að ekki sé á því byggt af hálfu stefnanda að 146. gr. laga nr. 21/1991 eigi við, en það ákvæði taki til ráðstafana í þágu þriðja aðila sem ekki hafi verið í viðskiptum við þrotamann. Allt að einu og með vísan til þess sem fram hafi komið um að þrautavarastefndi hafi ekki átt í neinum samskiptum eða viðskiptum við stefnanda telur hann ljóst að riftun á hendur honum komi ekki til álita á þeim grunni vegna þess að skilyrði 146. gr. gjaldþrotaskiptalaga um grandsemi séu ekki uppfyllt.

       Fallist dómurinn ekki á sýknu á þessum grundvelli er krafa þrautavarastefnda í þriðja lagi reist á því að skilyrði riftunar samkvæmt 134. gr. gjaldþrotalaga séu ekki fyrir hendi. Teflir hann fram tveimur meginröksemdum fyrir þeirri ályktun. Annars vegar að ekki hafi verið um greiðslu á skuld að ræða, heldur kaup og sölu á hagsmunum í allsherjarskuldabréfi sem hafi verið staðgreiðsluviðskipti. Í öðru lagi hafi þessi kaup virst venjuleg eftir atvikum.

       Þrautavarastefndi telur að sönnunarbyrðin um að skilyrði 134. gr. gjaldþrotalaganna séu fyrir hendi liggi öll hjá stefnanda. Þrautavarastefndi telur að sönnunarkröfur séu ekki uppfylltar í málinu. Stefnandi hafi hvorki lagt fram gögn né rökstutt með fullnægjandi hætti að hann hafi innt umrædda greiðslu af hendi við þrautavarastefnda sem greiðslu á skuld þar sem þrautavarastefndi hafi verið kröfuhafi og stefnandi skuldari. Þá bendir þrautavarastefndi á að megintilgangur riftunarreglna gjaldþrotalaga sé að koma í veg fyrir ólögmæta eða sviksamlega tilfærslu fjármuna frá þrotamanni til kröfuhafa og þannig leitast við að koma í veg fyrir undanskot eigna sem geti raskað jafnræði kröfuhafa. Reglum 134. gr. gjaldþrotalaga sé fyrst og fremst ætlað að taka til greiðslna á skuldum sem farið hafi fram með öðrum hætti eða við aðrar aðstæður en gert hafi verið ráð fyrir. Þrautavarastefndi hafnar því alfarið að þetta eigi við í málinu enda hafi viðskiptin með hagsmunina verið venjuleg og eðlileg og í samræmi við það sem tíðkist með slíka hagsmuni.

       Þrautavarastefndi byggir á því að riftun á grundvelli 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga geti ekki farið fram þar sem viðskipti hans með hagsmunina sem málið fjallar um hafi farið fram 13. maí 2008. Þannig falli þau utan sex mánaða riftunarfrestsins sem ákvæðið mæli fyrir um enda hafi frestdagur vegna slitameðferðar verið 15. nóvember 2008 líkt og byggt sé á í stefnu.

       Til stuðnings því að ekki hafi verið um greiðslu á skuld að ræða vísar þrautavarastefndi í fyrsta lagi til ákvæða í skilmálum allsherjarskuldabréfanna um innlausn og kaupheimildir útgefanda. Þar hafi verið gerður skýr greinarmunur á þessu tvennu, að greiða upp skuld fyrir gjalddaga (innlausn) og að kaupa hagsmuni í bréfunum. Í málinu liggi fyrir að ekki hafi farið fram innlausn, enda sýni gögn málsins að fjárhæð allsherjarskuldabréfsins sé að öllu leyti ógreidd. Allsherjarskuldabréfið sé því enn útistandandi og ógreitt.

       Þrautvarastefndi tekur fram að stefnandi hafi hins vegar sjálfur keypt hagsmuni í umræddu allsherjarskuldabréfi í samræmi við ákvæði bréfsins sem veiti honum rétt til þess að eiga viðskipti með þau sem fjárfestir á eftirmarkaði, hvenær sem er og á hvaða verði sem er. Byggir þrautavarastefndi á því að stefnandi hafi því keypt viðkomandi hagsmuni í allsherjarskuldabréfinu gegn staðgreiðslu. Því hafi verið um staðgreiðsluviðskipti að ræða en ekki greiðslu á skuld fyrir gjalddaga. Því geti ekki komið til álita að beita ákvæði 134. gr. gjaldþrotalaga í málinu.

       Í tilefni af röksemdum stefnanda í stefnu mótmælir þrautavarastefndi m.a. því að ákvæði sem heimili skuldara að kaupa eigin skuld hafi sömu réttaráhrif og uppgreiðsluheimild. Bendir þrautavarastefndi í því sambandi m.a. á að sérstaklega sé tekið fram í útgáfulýsingu að útgefandi geti í kjölfar slíkra viðskipta ákveðið að halda bréfinu, gefa það út að nýju, endurselja það eða afhenda það greiðsluaðila til afskráningar.

       Þrautavarastefndi byggir á því að til þess að um greiðslu á skuld sé að ræða verði greiðslan að hafa farið fram í þeim tilgangi að greiða skuld við kröfuhafa gegn því að skuldin falli niður. Greiðsla í tengslum við viðskipti með framseljanlega fjármálagerninga milli aðila sé þannig ekki greiðsla skuldar og því ekki riftanleg á grundvelli 134. gr. gjaldþrotalaga. Stefnandi hafi komið fram í viðskiptunum sem hver annar fjárfestir á virkum eftirmarkaði með hagsmuni í allsherjarskuldabréfinu, en ekki sem skuldari.

       Af hálfu þrautavarastefnda er jafnframt krafist sýknu á þeim grunni að þeir hagsmunir sem stefnandi hafi keypt hafi ekki verið skuldabréf samkvæmt íslenskum kröfurétti. Við kaup á þessum hagsmunum hafi kaupandinn því ekki eignast kröfu á hendur stefnanda sem útgefanda allsherjarskuldabréfsins. Stefnandi hafi heldur ekki orðið skuldari gagnvart þeim aðila. Ekkert skuldarsamband hafi því verið milli stefnanda og eiganda hagsmunanna þegar umrædd viðskipti hafi farið fram. Vísar varastefndi til ákvæða útgáfulýsingarinnar um skráningarkerfi allsherjarskuldabréfs þessu til stuðnings. Telur hann að af ákvæðum þeirra leiði að skuldarsamband hafi aðeins verið milli útgefanda og sameiginlegs vörsluhafa þess, sem hafi talist handhafi þess og eigandi bréfsins. Þetta þýði að kaupandi hagsmuna í allsherjarskuldabréfi eignist ekki kröfurétt á hendur útgefanda allsherjarskuldabréfsins. Kaupandinn geti því ekki krafið útgefandann um greiðslu á grundvelli hagsmunanna. Þessu til frekari stuðnings vísar þrautavarastefndi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 12. október 2011 í málinu nr. 398/2011.

       Þrautavarastefndi vísar einnig til þess að ákvörðun kaupverðs fyrir hagsmunaeignina sýni að ekki hafi verið um greiðslu á skuld að ræða heldur staðgreiðsluviðskipti. Verðið hafi ákvarðast af því verði sem markaðurinn hafi verið tilbúinn að greiða fyrir hagsmunina. Það hafi því verið óháð ákvæðum útgáfulýsingarinnar um höfuðstól og vexti. Kaupverðið hafi því ekki numið uppgreiðsluverðmæti ætlaðrar skuldar, þ.e. höfuðstól og áföllnum vöxtum.

       Þrautavarastefndi kveður í greinargerð sinni stefnanda ekki byggja á því að við kaup hagsmunanna hafi krafa fallið niður eða skuld verið greidd þar sem réttindi og skyldur hafi komist á sömu hendi. Allt að einu mótmælir þrautavarastefndi því að sú meginregla kröfuréttar komi til álita. Í því efni bendir hann á að reglur ensks réttar gildi um allsherjarskuldabréfið, eins og fram komi í útgáfulýsingunni. Þar af leiðandi gildi þau um réttaráhrif framsals við sölu hagsmuna í allsherjarskuldabréfinu og skyldur útgefanda við slíkt framsal. Þrautavarastefndi telur að sú meginregla, að krafa samkvæmt allsherjarskuldabréfi falli niður með því að réttindi og skyldur komist á sömu hendi, gildi ekki í enskum rétti. Þvert á móti gildi þar sú regla að skuldari allsherjarskuldabréfs geti eignast bréfið eða hagsmuni í því án þess að skuld samkvæmt því falli niður. Þar af leiðandi geti hann átt viðskipti með bréfið allt fram að gjalddaga þess. Því sé ljóst að heimilt hafi verið að víkja frá þeirri meginreglu íslensks fjármunaréttar að krafa samkvæmt skuldabréfi falli sjálfkrafa niður með því að réttindi og skyldur komist á sömu hendi. Því komi sú meginregla ekki til álita í málinu.

       Jafnvel þó að framangreind meginregla íslensks kröfuréttar geti átt við telur þrautavarastefndi ljóst að skilyrði séu uppfyllt til þess að víkja frá henni. Bendir hann á að eigendur þeirra hagsmuna  sem um ræðir séu ekki kröfuhafar í íslenskum rétti. Þeir eigi því ekki kröfu á hendur útgefanda allsherjarskuldabréfs. Jafnvel þó að útgefandi kaupi þannig hagsmuni í bréfi sem hann hefur gefið út eignist hann ekki kröfu á hendur sjálfum sér þar sem engin krafa fylgi hagsmunum í slíku bréfi. Til þess að um samruna réttinda og skylda sé að ræða í tengslum við allsherjarskuldabréf verði að útgefandi að kaupa kröfu handhafa allsherjarskuldabréfsins, í þessu tilviki Euroclear Bank S.A./N.V.

       Verði talið að skuldarsamband sé milli aðila og að framangreind regla komi af þeim sökum til álita byggir þrautavarastefndi á því að heimilt sé að víkja frá henni í þessu máli. Ekki er óhjákvæmilegt að við kaup útgefanda á eigin skuldabréfi verði samruni á réttindum og skyldum að ræða þannig að kröfuréttindum ljúki.  Framsal skuldabréfs geti þvert á móti verði liður í samningi sem farið yrði með samkvæmt reglum um lausafjárkaup og án þess að kröfuréttindum ljúki. Þrautavarastefndi telur að þetta eigi við í þessu máli þar sem skilmálar allsherjarskuldabréfsins mæli fyrir um að útgefandi þess geti átt viðskipti með bréfið samkvæmt reglum um lausafjárkaup og fengið það framselt til sín án þess að í því felist endurgreiðsla á skuld samkvæmt bréfinu, enda geri skilmálarnir beinlínis ráð fyrir því að kröfuréttindum samkvæmt því ljúki ekki í slíku tilviki fyrr en bréfið er afskráð með sérstökum hætti.

       Þrautavarastefndi byggir jafnframt á því að ósannað sé að stefnandi hafi fært kröfufjárhæð niður um þá fjárhæð sem kaupunum nam. Þá tekur þrautavarastefndi fram að staða allsherjarskuldabréfsins 12. desember 2012 sýni að kröfufjárhæð bréfsins hafi ekki verið færð niður um þá fjárhæð. Hafi þetta verið greiðsla á skuld hafi borið að afskrá þessa hagsmuni og lækka höfuðstólsfjárhæð til samræmis. Þar sem það hafi ekki verið gert leiði það til sömu niðurstöðu og að framan sé lýst. Jafnvel þó að stefnandi kunni að hafa fært niður skuldina í bókum sínum skipti það ekki máli við mat á því hvort skuldin hafi í raun verið felld niður á grundvelli viðkomandi útgáfulýsingar og umsýslusamnings. Ekki geti því hafa verið um greiðslu á skuld að ræða.

       Þrautavarastefndi vísar einnig til þess að tilgangur viðskiptanna hafi ekki verið að greiða upp skuldir stefnanda. Þvert á móti bendi allt til þess að stefnandi hafi sjálfur litið svo á að hann væri að kaupa framseljanlegan fjármálagerning. Hafi ástæður aðila og tilgangur þeirra með viðskiptunum verið fyllilega eðlilegur og lögmætur og ekki hafi á nokkurn hátt verið stefnt að því að ívilna einhverjum sem kröfuhafa.

       Þrautavarastefndi byggir jafnframt á því að greiðslan sem um ræðir hafi ekki verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var, enda hafi hún verið liður í staðgreiðsluviðskiptum. Bendir hann á að þegar hagsmunir í allsherjarskuldabréfi gangi kaupum og sölum gerist það eðli málsins samkvæmt alltaf fyrir gjalddaga bréfsins. Þar sem um staðgreiðsluviðskipti hafi verið að ræða skipti engu hver hafi verið eiginlegur gjalddagi allsherjarskuldabréfsins.

       Í tengslum við þessa málsástæðu mótmælir þrautavarastefndi því sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi bókfært greiðsluna sem lækkun á útistandandi skuldum, enda hafi ekki verið sýnt fram á að umræddir hagsmunir í allsherjarskuldabréfinu hafi verið felldir niður í samræmi við ákvæði útgáfulýsingarinnar.

       Þrautavarastefndi reisir sýknukröfu sína enn fremur á því að greiðslan sem um ræðir hafi virst venjuleg eftir atvikum og því komi riftun samkvæmt 134. gr. gjaldþrotalaga ekki til álita. Leggur þrautavarastefndi áherslu á að beita eigi rúmri túlkun á þessum lið í 134. gr. gjaldþrotalaga auk þess sem slakað sé á sönnunarkröfum.

       Þrautavarastefndi mótmælir þeim skilningi sem komi fram í stefnu að viðskipti þurfi að hafa verið venjuleg milli aðila svo að þau geti talist venjuleg eftir atvikum. Telur hann að líta verði til þess hvað teljist venjulegt í sambærilegum viðskiptum almennt, ekki aðeins viðskiptum þeirra aðila sem um ræði, jafnvel þó svo að viðskipti þeirra geti jafnframt komið til skoðunar við slíkt mat. Auk þess verði að líta til þess hvernig skuldari hafi litið á viðskiptin, hvort hann hafi séð hag sínum betur borgið með þeim.

       Þrautavarastefndi vísar til þess að kaup útgefanda á eigin hagsmunum í allsherjarskuldabréfum tíðkist bæði á Íslandi og erlendis. Tilgangurinn geti t.d. verið að útgefandi telji það vænlegan kost að auka eigið fé eða að hann eigi kost á betri lánskjörum annars staðar. Slík viðskipti séu ekki takmörkuð við þau tilvik þar sem útgefandi sé í fjárhagsvanda og gefi slíkt ekki til kynna.

       Þrautavarastefndi tilgreinir ýmis atriði í greinargerð því til stuðnings að endurkaup af þessum toga séu bæði algeng og venjuleg. Varðandi stefnanda sjálfan vísar hann meðal annars til skýrslu hans frá september 2008 þar sem komi fram að hann hafi markvisst keypt til baka útistandandi skuldir sínar og muni halda áfram að gera það. Sama komi fram í fundargerð stjórnar stefnanda frá 25. og 26. september 2008, en þar komi fram að bankinn hafi hagnast á endurkaupunum og muni halda þeim áfram.

       Þar fyrir utan telur þrautavarastefndi algjörlega ósannað að honum hafi mátt vera kunnugt um að ógjaldfærni stefnanda væri yfirvofandi á þeim tíma sem viðskipti þessa máls fóru fram. Ekkert hafi bent til þess á þeim tíma að stefnandi væri í svo alvarlegum fjárhagsörðugleikum að líkur væru á gjaldþroti. Þvert á móti hafi allar upplýsingar um stefnanda bent til þess að ekki væri nein hætta á slíku.

       Við mat á því telur þrautavarastefndi að leggja verði til grundvallar þær upplýsingar sem fjárfestar á markaðnum hafi haft aðgang að um stöðu fjármálamarkaðarins á Íslandi og stöðu íslenskra banka. Heldur hann því fram að vísbendingar um það sem koma skyldi hafi ekki legið fyrir fyrr en í fyrsta lagi einhverjum dögum eftir 29. september 2008. Þá hafi verið tilkynnt að Glitnir banki hf. hefði leitað til Seðlabanka Íslands um aðstoð vegna lausafjárvanda og að brugðist hafi verið við erindinu með því að íslenska ríkið lagði bankanum til aukið hlutafé gegn því að eldra hlutafé yrði fært verulega niður.

       Þrautavarastefndi bendir í þessu sambandi á nokkrar opinberar upplýsingar um stöðu stefnanda og almenna stöðu íslensks fjármálamarkaðar. Þar vísar hann meðal annars til ársreikninga stefnanda vegna ársins 2007, niðurstöðu álagsprófs Fjármálaeftirlitsins 6. febrúar 2008 og afkomutilkynningar stefnanda 31. júlí 2008. Bendir þrautavarastefndi meðal annars á að í afkomutilkynningunni hafi komið fram að bankinn hefði hagnast á fyrri helmingi ársins um 34,1 milljarð króna og að tryggt lausafé hans næmi 991 milljarði króna, en það nægði til þess að greiða allar útistandandi skuldbindingar til meira en 360 daga. Hann vísar einnig til upplýsinga frá Fjármálaeftirlitinu 14. ágúst 2008 um að íslensku bankarnir hefðu staðist álagspróf eftirlitsins, en þá hafi verið haft eftir forstjóra eftirlitsins að þetta sýndi að eiginfjárstaða bankanna væri sterk og að hún gæti þolað töluverð áföll. Þrautavarastefndi tiltekur einnig að einkunnir matsfyrirtækja í ágúst 2008 hafi sýnt að staða stefnanda væri mjög sterk.

       Þrautavarastefndi telur að hrun fjármálageirans í öllum hinum vestræna heimi, þar á meðal Íslandi, sem hafi fylgt í kjölfar gjaldþrots Lehman Brothers, hafi engan veginn verið fyrirsjáanlegt aðilum markaðarins. Jafnvel eftir fall Lehman Brothers hafi verið til staðar upplýsingar fyrir fjárfesta á markaði um að gjaldþrot stefnanda væri ekki yfirvofandi. Þannig hafi Fjármálaeftirlitið birt frétt þar sem eftirlitið hafi áréttað að gjaldþrot fjárfestingabankans væri ekki áhyggjuefni fyrir fjármálakerfið á Íslandi með hliðsjón af lágu hlutfalli af eiginfjárgrunni. Þá sé ljóst að fjárhagsleg staða fjölmargra banka í öðrum löndum hafi á þessum tíma verið verri en stefnanda þótt þeir hafi engu að síður staðið af sér óveðrið á fjármálamörkuðum. Hafi þar ráðið úrslitum að pólitísk ákvörðun hafi verið tekin af stjórnvöldum í viðkomandi löndum um að bjarga bönkunum. Hafi þrautavarastefndi engan veginn getað séð það fyrir að sú yrði ekki raunin á Íslandi.

       Þrautavarastefndi bendir einnig á að kaupverð hagsmunanna hafi ekki gefið annað til kynna en að stefnandi væri gjaldfær, enda kaupverðið í samræmi við markaðsverð þeirra. Ekkert bendi til þess að viðskiptin hafi átt sér stað vegna bágrar stöðu stefnanda.

       Samkvæmt framansögðu telur þrautavarastefndi að riftun samkvæmt 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti komi ekki til álita þar sem greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Leiðir af því að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda.

       Þrautavarastefndi byggir einnig á því að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda þar sem ósannað sé að stefnandi hafi verið sá lögaðili sem hafi keypt hagsmunina. Geti útprentanir úr kerfum stefnanda ekki haft neitt sönnunargildi í málinu.

       Þrautavarastefndi krefst enn fremur sýknu á grundvelli tómlætis. Viðskipti þau sem málið snúist um hafi átt sér stað í maí 2008. Ekki hafi verið haft samband við þrautavarastefnda vegna þeirra fyrr en þremur og hálfu ári síðar og óskað upplýsinga um viðskiptin. Málið hafi síðan ekki verið höfðað fyrr en í september 2012 eða rúmlega fjórum árum eftir að viðskiptin áttu sér stað.

       Óháð því hvort fallist verði á riftunarkröfu á hendur þrautavarastefnda gerir hann sérstaklega kröfu um sýknu af kröfu stefnanda um endurgreiðslu fjárhæðarinnar. Það sé rangt að þrautavarastefndi hafi hagnast af viðskiptunum og að stefnandi hafi orðið fyrir samsvarandi tjóni. Stefnandi hafi fengið í hendur þá hagsmuni sem hann hafi keypt af aðalstefnda og hafi nafnvirði þeirra verið hærra en sú fjárhæð sem stefnandi hafi greitt aðalstefnda. Ekki sé því hægt að halda því fram að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni við kaupin.

       Þrautavarastefndi bendir einnig á að hér hafi verið um viðskipti með framseljanlega fjármálagerninga að ræða á markaðsverði eins og það hafi verið á hverjum tíma. Vegna þessa hafi þrautavarastefndi ekki hagnast á viðskiptunum og stefnandi hafi að sama skapi ekki orðið fyrir neinu tjóni. Þrautavarastefndi bendir auk þess á að hafi þessi kaup leitt til þess að hagsmunirnir hafi verið felldir niður þá hljóti skuldir stefnanda að hafa lækkað. Af þeirri ástæðu hafi tjón stefnanda eðlilega ekki verið neitt.

       Til stuðnings varakröfu um lækkun stefnukröfunnar bendir þrautavarastefndi á að ekkert liggi fyrir um hvort stefnandi hafi selt þriðja aðila hagsmunina í allsherjarskuldabréfunum. Ekki sé hægt að útiloka að slíkt hafi verið gert, enda ósannað að þessir hagsmunir hafi verið felldir niður með þeim hætti sem ákvæði allsherjarskuldabréfsins mæli fyrir um að sé gert. Þá liggi heldur ekkert fyrir um hvort stefnandi hafi nýtt hagsmunina með öðrum hætti sér til tekna, þ. á m. veðsett þá eða nýtt í endurhverfum viðskiptum. Þá byggir þrautavarastefndi á því að stefnanda hafi borið að takmarka tjón sitt eftir almennum reglum, t.d. með því að selja hagsmunina áfram eða fella þá niður. Verði ekki hjá því komist að hann beri sjálfur áhættuna og hallann af því að hafa ekki gert það.

       Þrautavarastefndi gerir einnig kröfu um lækkun á grundvelli 145. gr. gjaldþrotalaga. Það sé verulega ósanngjarnt nái kröfur stefnanda fram að ganga. Líta verði til þess að umrædd viðskipti hafi átt sér stað fyrir um fjórum árum. Ekki sé unnt að gera þá kröfu til þrautavarastefnda að hann gerði sér grein fyrir því á einhverjum tímapunkti að stefnandi væri með endurkaupunum að greiða skuld og með því að hygla einum kröfuhafa umfram aðra. Því síður hafi hann mátt eiga von á málssókn til riftunar og endurgreiðslu löngu síðar.

       Þrautavarastefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 á kröfu sem sé í erlendri mynt. Telur hann dráttarvexti samkvæmt íslenskum lögum byggja á þeirri forsendu að krafan sé í íslenskum krónum og því sé ósanngjarnt og í andstöðu við ákvæði nefndra laga að krefjast íslenskra dráttarvaxta af stefnukröfu í erlendri mynt.

       Þá mótmælir þrautavarastefndi upphafstíma dráttarvaxta. Ekki sé efni til þess að reikna dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögu þar sem ekki verði ljóst fyrr en þá hvort stefnandi eigi einhverja kröfu á hendur þrautavarastefnda. Fyrr en það liggi fyrir geti ekki verið um að ræða vanefndir á greiðslu sem réttlæti dráttarvexti. Annað sé í andstöðu við tilgang heimildar til að reikna dráttarvexti.

       Þrautavarastefndi kveðst reisa kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnanda á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Fer hann þess á leit að við ákvörðun málskostnaðar verði litið til þess að varastefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur hér á landi og einnig að málshöfðunin á hendur varastefnda sé með öllu tilhæfulaus.

 

IV

       Eins og rakið hefur verið greiddi stefnandi 4.409.359,44 evrur með einni greiðslu 16. maí 2008. Stefnandi hefur lagt fram svonefnda kaupnótu um þau viðskipti sem lágu að baki þessari greiðslu. Jafnframt liggja fyrir tölvuskeyti þar sem samið er um viðskiptin 13. maí 2008 milli starfsmanns stefnanda og aðalstefnda sem og tölvuskeyti sem staðfestir umrædd viðskipti. Af þessum gögnum má ráða að starfsmaður aðalstefnda hafi selt stefnanda hlutdeild í allsherjarskuldabréfi með auðkennisnúmerið ISIN nr. XS0194895429 að nafnverði 5 milljónir evra. Kaupverðið nam 4.375.000 evrum, en með áföllnum vöxtum er falla skyldu í hlut viðkomandi hlutdeildareiganda, samtals 34.359,44 evrur, nam fjárhæð kaupanna 4.409.359,44 evrum.

       Stefnandi krefst riftunar á framangreindri greiðslu á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Ákvæði þetta gildir almennt við slit fjármálafyrirtækis samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, þegar ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til þess að efna skuldbindingar þess að fullu. Fyrirmæli 134. gr. laga nr. 21/1991 eru í XX. kafla laganna sem fjallar um riftun ráðastafana þrotamanns. Þar segir að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefnandi byggir á því að greiðslan sem krafist er riftunar á hafi falið í sér greiðslu skuldar sem innt hafi verið af hendi fyrr en eðlilegt var.

       Ágreiningur er uppi um það að hverjum beina eigi kröfunni. Stefnandi telur rétt að beina riftunar- og endurgreiðslukröfu að aðalstefnda þar sem hann sé gagnaðili hans í viðskiptunum 13. maí 2008 samkvæmt kaupnótu og öðrum gögnum málsins. Allir stefndu krefjast sýknu á grundvelli aðildarskorts. Aðalstefndi telur sig einungis hafa verið milligönguaðila í viðskiptunum og varastefndi virðist byggja málsástæðu um aðildarskort á svipuðum grunni. Þrautavarastefndi leggur aftur á móti áherslu á að um þrenn aðskilin viðskipti hafi verið að ræða. Telur hann sig ekki hafa átt í neinum viðskiptum við stefnanda heldur varastefnda.

       Eins og rakið er í kafla II lýsti þrautavarastefndi yfir vilja sínum til þess að selja 5 milljóna evra hlut í framangreindu allsherjarskuldabréfi fyrir 76% af nafnverði að morgni 1. maí 2008. Starfsmaður varastefnda tekur við þessu sölutilboði með þeim skilaboðum um að hann gæti vonandi svarað fljótlega. Þau svör geta samrýmst því að varastefndi hafi haft í hyggju að leita kauptilboða sem væru hærri en sölutilboð þrautavarastefnda. Nokkrum mínútum síðar þennan sama morgun setur starfsmaður aðalstefnda sig í samband við starfsmann stefnanda og leitar eftir kauptilboði með þeim orðum að hann hafi seljanda að þessum hlut. Á þeim tíma var þrautavarastefndi eigandi hlutarins og þegar búinn að lýsa vilja sínum til að selja hann fyrir tiltekið verð. Þessi samskipti verða ekki skilin á annan veg en að á varastefndi og aðalstefndi hafi verið að reyna að koma á viðskiptum milli þrautavarastefnda og stefnanda sem miðlarar í svonefndum „pöruðum viðskiptum“ í samræmi við reglur sem um það gilda í Bretlandi. Í slíkum viðskiptum koma bæði seljandi og kaupandi fram undir gagnkvæmri nafnleynd, en miðlarinn kemur fram í viðskiptunum undir eign nafni. Leiðir hann viðskiptin til lykta með aðild sinni án þess að stunda spákaupmennsku í þágu viðskiptavinar síns eða fyrir eigin reikning, enda liggja þegar fyrir bindandi kaup- og sölutilboð eiginlegs seljanda og kaupanda.

       Starfsmaður aðalstefnda leitaði að nýju eftir svari við því 13. maí 2008, kl. 10.45, hvort stefnandi hefði áhuga á því að kaupa umræddan hlut í allsherjarskuldabréfinu með orðum sem ekki verða skilin á anna veg en að seljandinn hafi óskað að nýju eftir því að finna kaupanda að hlutnum. Starfsmaður stefnanda svaraði nokkru síðar að stefnandi væri reiðubúinn að kaupa framangreindan hlut fyrir 87,5% af nafnverði hlutarins. Í kjölfarið var gengið frá viðskiptunum í samræmi við fyrirliggjandi sölu- og kauptilboð með því að senda staðfestingar um þau milli aðila. Gögn málsins gefa til kynna að búið hafi verið að ganga frá sölu hlutarins til stefnanda kl. 13.06 að íslenskum tíma fyrir 87,5% af nafnverði, þegar gengið var frá sölu þeirra frá þrautavarastefnda til varastefnda kl. 14.20 að enskum tíma fyrir 76% af nafnverði. Samkvæmt framlögðum viðskiptamiðum fóru viðskiptin milli varastefnda og aðalstefnda fram samtímis viðskiptum milli þrautavarastefnda og varastefnda, þ.e. kl. 14.20. Verð hlutarins nam þá 79,75% af nafnverði. Uppgjör greiðslna og afhending hlutarins í allsherjarskuldabréfinu fóru síðan fram 16. maí 2008 í samræmi við framangreind viðskipti.

       Þær upplýsingar sem hér hafa verið raktar um kaup- og sölu þessa hlutar í umræddu allsherjarskuldabréfi benda til þess að bæði aðal- og varastefndi hafi komið fram í viðskiptunum sem milliliðir gagnvart þrautavarastefnda sem seljanda og stefnanda sem kaupanda. Tekjur varastefnda af hlutdeild sinni í viðskiptunum nam mismuninum á því kaupverði sem hann innti af hendi og söluverðinu til aðalstefnda, eða 187.500 evrum. Þá námu tekjur aðalstefnda af viðskiptunum mismuninum á kaupverði því sem hann innt af hendi til varastefnda og söluverðinu til stefnanda eða 387.500 evrum. Þó að hér sé um umtalsverðar fjárhæðir að ræða helgast þær alfarið af mismuninum af sölutilboði þrautavarastefnda og kauptilboði stefnanda sem lágu fyrir þegar vara- og aðalstefndi gengu til viðskiptanna. Telur dómurinn ekki liggja fyrir að þessar tekjur aðal- og varastefnda breyti því að um miðlun í viðskiptum hafi verið að ræða af þeirra hálfu. Leiðir það til þess að ófært er að krefjast riftunar greiðslunnar og endurgreiðslu hennar á grundvelli 134. gr. og 142. gr. laga nr. 21/1991 úr hendi aðal- eða varastefnda.  Þegar af þeirri ástæðu verða þeir sýknaðir af kröfum stefnanda.

       Stefnandi reisir málatilbúnað sinn alfarið á því að íslensk gjaldþrotalög gildi um riftun gerninga stefnanda sem áttu sér stað áður en slitameðferð hófst. Þrautavarastefndi telur að af 1. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, sbr. einkum d- og n-liði 2. mgr. greinarinnar, leiði að einnig þurfi að liggja fyrir að skilyrðum enskra laga sé fullnægt til að rifta megi greiðslunni. Telur þrautavarastefndi sig hafa leitt nægilega í ljós að ekki sé unnt að rifta umræddri greiðslu á grundvelli enskra laga, eins og nánar er lýst í kafla III.4.

       Ákvæði 99. gr. laga nr. 161/2002 ber yfirskriftina „Fjárhagsleg endurskipulagning lánastofnana með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki“. Með fjárhagslegri endurskipulagningu er vísað til úrræða sem dómstólar hafa til að heimila greiðslustöðvun eða til að leita nauðasamninga. Þegar slíkar ráðstafanir eru heimilaðar ná þær sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnun starfrækir í öðru aðildarríki EES-samningsins, eins og segir í 1. mgr. 99. gr. laganna. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar gilda einnig íslensk lög með nánar tilgreindum frávikum, sem rakin eru í stafliðum a til n í 2. mgr. 99. gr. laganna. Í d-lið þeirrar málsgreinar sagði þegar mál þetta var höfðað að heimild til endurskipulagningar fjárhags hefði ekki áhrif á rétt veðhafa vegna eignarréttinda sem staðsett væru í öðru aðildarríki. Í n-lið sömu málsgreinar kom á sama tíma fram að þrátt fyrir d- og e-liði sé heimilt að beita III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt. Með lögum nr. 78/2011, er tóku gildi 29. júní 2011, var bætt við ákvæðið svohljóðandi setningu: „Löggerningur verður þó ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir.“

       Stefnandi sætir ekki fjárhagslegri endurskipulagningu, heldur er félagið í slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Því á ákvæði 99. gr. laganna ekki við um stefnanda samkvæmt orðum greinarinnar. Aftur á móti segir í 1. mgr. 104. gr. laganna að taki dómstóll hér á landi ákvörðun um slit lánastofnunar sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi skuli heimildin ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum aðildarríkjum. Í síðari málslið hennar kemur síðan fram að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar skuli fara að íslenskum lögum „með þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr. 99. gr.“.

       Með síðari málslið 1. mgr. 104. gr. laganna er tekin afstaða til lagavals um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd við slit á lánastofnun með staðfestu og starfsleyfi hér á landi þegar áhrif slitanna ná til annarra aðildarríkja EES-samningsins. Meginreglan er að íslensk lög gildi í því tilviki en með sömu undantekningum og komi fram í 2. mgr. 99. gr. laganna sem áður er getið. Í þessu ljósi gildir sú takmörkun sem kemur fram í d- og n-lið 2. mgr. 99. gr. laganna um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd við slitameðferð lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki.

       Framangreind ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 eiga rætur að rekja til tilskipunar nr. 2001/24/EB, sem íslenska ríkið skuldbatt sig til að innleiða í íslenskan rétt með aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt þeirri tilskipun gildir sú meginregla að lög heimaaðildarríkis, í þessu tilviki íslensk lög, eigi við um slit fjármálafyrirtækis, þ. á m. um það hvort „löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir eða skorti réttarvernd“, sbr. l-lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Frá þessu er vikið í 30. gr. tilskipunarinnar, en ákvæðið er svohljóðandi: „Ákvæði 10. gr. skal ekki gilda um reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd, í þeim tilfellum þegar sá sem hefur hag af þessum löggerningum leggur fram sannanir um að / ˗ gerningurinn, sem er skaðlegur öllum lánardrottnum, fellur undir lög aðildarríkis annars en heimaaðildarríkis, og / ˗ lögin bjóða engin úrræði til að vefengja gerninginn sem um ræðir.“

       Með vísan til 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og að teknu tilliti til dóms EFTA dómstólsins frá 17. október 2014 í máli LBI hf. gegn Merril Lynch International Ltd., verður að túlka n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 þannig að með orðalaginu „ógiltur“ sé ekki aðeins vísað til ógildingarreglna samningaréttar heldur einnig til reglna XX. kafla laga nr. 21/1991, um riftun gerninga, að því marki sem þeir eru skaðlegir öllum lánardrottnum. Eins og ákvæðið hljóðar og með hliðsjón af meginreglu tilskipunarinnar um lagaval við slit fjármálafyrirtækis, sem endurspeglast í 1. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002, kemur málsvörn, sem byggir á lögum þess ríkis sem gildir um gerninginn, einungis til skoðunar ef færðar eru sönnur á að skilyrðum riftunar samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 er fullnægt.

       Eins og rakið hefur verið er unnt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar sex mánuðum fyrir frestdag á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, meðal annars ef hún er innt af hendi fyrr en eðlilegt var. Frestdagur við slitin er eins og áður segir 15. nóvember 2008. Greiðslan sem krafist er að verði rift var innt af hendi 16. maí 2008 og fór því fram innan þess tímabils sem ákvæðið mælir fyrir um fyrir frestdag. Verður að hafna röksemdum þrautavarastefnda fyrir sýknu á þeim grunni að viðskiptin að baki greiðslunni hafi átt sér stað fyrir þann tíma, enda verður samkvæmt orðalagi ákvæðisins að miða við þann tíma sem greiðsla var innt af hendi.

       Aðila greinir einnig á um hvort unnt sé að líta svo á að með greiðslunni hafi stefnandi greitt skuld fyrr en eðlilegt var og ef svo er hvort hún hafi virst venjuleg eftir atvikum.

       Stefnandi var skuldari samkvæmt því allsherjarskuldabréfi sem hlutdeildin, er stefnandi keypti í umrætt sinn, tilheyrði. Ekki verður annað ráðið af útgáfulýsingu sem og skuldbindingarskjalinu, sem lýst er í kafla II, en að eigandi hlutdeildar í allsherjarskuldabréfinu öðlist ekki beinan kröfurétt á hendur útgefanda nema við ógildingu allsherjarskuldabréfsins eða þegar því er skipt fyrir endanlegt skuldabréf við svonefndan skiptaatburð. Það er ágreiningslaust að hvorugt átti við þegar greiðslan sem um er deilt í máli þessu var innt af hendi. Eigendur hlutdeilda í allsherjarskuldabréfinu virðast á því stigi ekki hafa átt beina kröfu á hendur stefnanda um greiðslu höfuðstóls og vaxta samkvæmt allsherjarskuldabréfinu heldur verður að líta svo á að handhafi allsherjarskuldabréfsins hafi verið eiginlegur kröfuhafi stefnanda. Hlutdeildareigendur áttu á þessu stigi því aðeins kröfu á hendur Clearstream eða Euroclear sem handhafa allsherjarskuldabréfsins.

       Ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 tekur einungis til þess þegar skuld er greidd. Þegar litið er til þess sem rakið hefur verið þykir ljóst að stefnandi var í skuld á grundvelli allsherjarskuldabréfsins þegar hin umdeilda greiðsla var innt af hendi. Jafnframt verður að leggja til grundvallar að eigendur hlutdeilda í því hafi hver fyrir sig átt hlutfallsleg kröfuréttindi um peningagreiðslu á hendur handhafa allsherjarskuldabréfsins að fenginni greiðslu útgefanda. Ekki er í 134. gr. laga nr. 21/1991 beinlínis áskilið að greiðsla á skuld sé innt af hendi til þess sem er samningsbundinn handhafi kröfunnar ef hún gengur í raun til lækkunar eða fullrar greiðslu á skuldinni. Skiptir þá ekki máli þó að samið hafi verið á þann veg að annar aðili en endanlegur hagsmunaeigandi eigi einn rétt á því að hafa uppi kröfu á grunni skuldabréfs á hendur útgefanda. Fær dómurinn ekki séð að niðurstaða Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 398/2011 breyti þessu.

       Af dómafordæmum verður ráðið að ekki beri að skýra ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 svo þröngt að endurkaup útgefanda skuldabréfs á kröfu á hendur sér á grundvelli skuldabréfsins geti ekki falið í sér greiðslu skuldar, enda leiði kaupin til þess að skuld hans gagnvart kröfuhafa lækki eða falli niður. Þannig hefur í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 162/2010 og 163/2010, sem og í dómum réttarins í málum nr. 702/2011 og nr. 545/2013, verið komist að þeirri niðurstöðu að greiðsla í tilefni af því að útgefandi kaupir kröfu samkvæmt skuldabréfi eða öðrum skuldaskjölum sé greiðsla á skuld í þessari merkingu, enda falli krafan þá niður þar sem réttindi og skyldur eru þá á sömu hendi. Á það jafnvel við þó að greiðslan sem slík sé annarrar og lægri fjárhæðar en sem nemur lækkun á skuldbindingu útgefandans.

       Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ræður það fyrst og fremst úrslitum um niðurstöðu málsins hvort greiðslan sem deilt er um hafi í raun gengið til lækkunar á skuld stefnanda samkvæmt allsherjarskuldabréfi því sem áður er getið. Við úrlausn á því verður að taka mið af réttarstöðu útgefanda gagnvart handhafa skuldabréfsins sem og stöðu raunverulegra eigenda hagsmuna í allsherjarskuldabréfinu samkvæmt fyrirmælum í fyrirliggjandi útgáfulýsingu og skuldbindingarskjali. Með því er verið að heimfæra raunverulegar aðstæður undir þau atriði sem þýðingu eiga að hafa samkvæmt fyrirmælum 134. gr. laga nr. 21/1991, en ekki að játa aðilum heimild til að semja sig frá riftunarreglum gjaldþrotalaga.

       Í þessu sambandi verður ekki fram hjá því litið að sú greiðsla sem stefnandi innti af hendi var endurgjald fyrir hagsmunaeign í allsherjarskuldabréfi sem Clearstream eða Euroclear var skráður handhafi að, eins og rakið er í útgáfulýsingu. Fól greiðslan því ekki í sér efndir á skuldbindingu útgefanda allsherjarskuldabréfsins gagnvart handhafa þess. Í útgáfulýsingunni er í h-lið 7. gr. fjallað um endurkaup útgefanda á skuldabréfum sem heyra undir allsherjarskuldabréf. Þar er vikið að réttaráhrifum slíkra viðskipta og því lýst að keypt skuldabréf sé heimilt að eiga, endurútgefa, endurselja eða „að vali útgefanda, afhenda hvaða umsjónaraðila greiðslna sem er til niðurfellingar“. Í síðari málslið i-liðar 7. gr. útgáfulýsingarinnar kemur fram að öll skuldabréf sem eru keypt „og niðurfelld samkvæmt málsgrein (h) að ofan“ skuli framsend „umsýsluaðila og verða hvorki endurútgefin né endurseld“.

       Samkvæmt útgáfulýsingunni giltu ensk lög almennt um túlkun útgáfulýsingarinnar og tengdra skjala. Frá þessu var vikið í b-lið 2. gr. útgáfulýsingarinnar. Gerð er grein fyrir efni hennar í kafla II. Við aðalmeðferð málsins taldi stefnandi að af þeirri undantekningu leiddi að íslensk lög ættu að gilda um réttaráhrif endurkaupa útgefanda á víkjandi skuldabréfum eins og því sem stefnandi keypti 29. maí 2008 og málið lýtur að. Í fyrrgreindum b-lið 2. gr. útgáfulýsingarinnar kemur fram að víkjandi skuldabréf feli í sér ótryggðar og óskilyrtar skuldbindingar útgefanda sem séu í víkjandi stöðu í samræmi við og í skilningi 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þar er jafnframt tekið fram að ákvæði þessarar greinar útgáfulýsingarinnar skuli túlkuð í samræmi við íslensk lög. Í tilvitnaðri grein laga nr. 161/2002 var á þessum tíma fjallað um hvernig eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis væri skilgreindur sem og hlutfall hans af áhættugrunni. Töldust víkjandi lán sem uppfylltu tiltekin skilyrði hluti af svonefndum eiginfjárgrunni B, sbr. 6. mgr. 84. gr. laganna. Meðal þeirra skilyrða var að endurgreiðslutími lánsins væri ekki skemmri en fimm ár auk þess sem við gjaldþrot eða slit fengist aðeins greitt af því á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fjármálafyrirtækinu en áður en kæmi að endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár. Víkjandi lán með endurgreiðslutíma frá tveimur til fimm ára tilheyrðu aftur á móti eiginfjárgrunni C, sbr. 7. mgr. ákvæðisins. Um slík víkjandi lán skyldi jafnframt kveðið á um það að óheimilt væri að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárkrafa viðkomandi fjármálafyrirtækis færi undir tiltekið lágmark. Í 8. mgr. greinarinnar kom fram að heimilt væri „að flýta endurgreiðslu víkjandi lána æski lántaki þess, enda liggi fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins og slík endurgreiðsla hafi ekki óviðunandi áhrif á eiginfjárstöðu að mati þess“. Telur stefnandi að af þessu leiði að honum hafi í raun verið óheimilt að kaupa umrætt víkjandi skuldabréf, enda teljist það hafa verið endurgreitt vegna þess að réttindi og skyldur samkvæmt því hafi við kaupin komist í hendur útgefanda og því fallið niður í samræmi við meginreglur íslensks kröfuréttar.

       Málatilbúnaður þessi felur í sér andsvör við málsvörn stefndu og er því ekki of seint fram kominn eins og þrautavarastefndi hélt fram við aðalmeðferð málsins. Á hinn bóginn telur dómurinn að stefnandi dragi of víðtækar ályktanir af þeirri undantekningu sem fólst í b-lið 2. gr. útgáfulýsingarinnar. Þar er einungis kveðið á um að íslensk lög eigi að gilda um stöðu víkjandi skuldabréfa í réttindaröð við slit sem og að stefnandi myndi fylgja fyrirmælum 84. gr. laga nr. 161/2002 um stofnun víkjandi skuldbindinga. Bæri að túlka ákvæði um þetta efni í samræmi við íslensk lög. Í ljósi þeirra takmarkana sem fólust í 8. mgr. 84. gr. laganna á þessum tíma mátti líta svo á að stefnanda væri ekki unnt að fella niður kröfur samkvæmt víkjandi skuldabréfum sem stefnandi hafði keypt á grundvelli h-liðar 7. gr. útgáfuskilmálanna. Miðað við orðalag ákvæðisins á þessum tíma virðist stefnanda hins vegar hafa verið heimilt á grundvelli sama samningsákvæðis að kaupa víkjandi skuldabréf sem heyrði undir allsherjarskuldabréf og eiga það áfram eða selja að nýju, enda haggaði það ekki við greiðsluskyldu stefnanda sem útgefanda gagnvart handhafa allsherjarskuldabréfsins. Að mati dómsins fær það ekki stoð í b-lið 2. gr. útgáfulýsingarinnar eða 84. gr. laga nr. 161/2002 að almennar reglur íslensks kröfuréttar, um að kröfuréttindi falli sjálfkrafa niður við samruna réttinda og skyldna samkvæmt skuldabréfi, gangi framar ótvíræðum áskilnaði í samningi um að útgefandinn verði að tilkynna umsjónaraðila greiðslu um niðurfellingu kröfuréttindanna. Í því sambandi verður jafnframt að hafa í huga að ekkert er því til fyrirstöðu að aðili skuldbindi sig á þann veg með samningi að vikið sé frá fyrrgreindri meginreglu íslensks kröfuréttar.

       Í þessu ljósi og með vísan til framangreindra skilmála verður að leggja til grundvallar að með kaupum stefnanda á umræddu skuldabréfi sem heyrði undir allsherjarskuldabréf hafi stefnandi eignast kröfu á hendur handhafa allsherjarskuldabréfsins um greiðslu höfuðstóls og vaxta. Sú krafa fól í sér eign sem stefnandi gat ákveðið að eiga áfram eða selja hana öðrum, allt eftir eigin mati á því hvað honum þótti hagfellt. Samkvæmt skilmálunum gat greiðsla vegna endurkaupa á slíkri hlutdeild hins vegar ekki gengið til lækkunar á skuld útgefanda nema hann færi sérstaklega fram á það við umsjónaraðila greiðslu. Var stefnanda raunar óheimilt samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002 að fara fram á slíkt. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi borið sig eftir því að skuld hans samkvæmt allsherjarskuldabréfinu yrði lækkuð í kjölfar endurkaupanna í maí 2008 í andstöðu við framangreinda lagareglu. Allur höfuðstóll þess var því ógreiddur þegar mál þetta var höfðað.

       Fyrirmæli 134. gr. laga nr. 21/1991 er lúta að greiðslu á skuld verður að skýra samkvæmt orðanna hljóðan. Heimild sem skuldari kýs að nota ekki til lækkunar á skuld í kjölfar endurkaupa á skuldabréfi sem heyrir undir allsherjarskuldabréf getur samkvæmt ákvæðinu ekki falið í sér greiðslu skuldar. Af framansögðu leiðir að skuld samkvæmt umræddu allsherjarskuldabréfi var ekki greidd á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Því getur ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 ekki átt við í máli þessu. Þegar af þessari ástæðu verður að sýkna þrautavarastefnda ásamt aðal- og varastefnda.

       Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar ber að líta til þess að frávísunarkröfum allra stefndu var hrundið með úrskurði 24. júní 2013 en ákvörðun málskostnaðar um þann þátt málsins var látinn bíða lokaniðurstöðu málsins. Rekstur máls þessa var umfangsmikill fyrir alla aðila og aflaði aðalstefndi m.a. matsgerðar dómkvadds matsmanns um enskan rétt. Þegar litið er til þess sem rakið hefur verið, og tekið tillit til mismunandi umfangs í vörnum stefndu, þykir rétt að stefnanda verði gert að greiða aðalstefnda og þrautavarastefnda 5.000.000 króna en varastefnda 2.000.000 króna í málskostnað.

       Dregist hefur fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 að kveða upp dóm í máli þessu. Aðilar og dómari töldu ekki efni til þess að endurflytja málið.

       Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

       Aðalstefndi, Kaupthing Singer & Frielander Ltd., varastefndi, Tradition London Clearing Ltd., og þrautavarastefndi, Deutsche Bank AG, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Kaupþings hf.

       Stefnandi greiði aðal- og þrautavarastefnda hvorum um sig 5.000.000 króna og varastefnda 2.000.000 króna í málskostnað.

                                   

 

                                                            Ásmundur Helgason