• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 15. febrúar 2017 í máli nr. S-54/2017:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Caroline Jeanne Simons

(Daníel Reynisson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 7. febrúar 2017, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum 6. febrúar 2017 á hendur Caroline Jeanne Simons, fædd [...], Hontenissesstraat 22, Rotterdam, Hollandi, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 22. desember 2016, staðið að innflutningi á samtals 372,53 g af kókaíni, sem hafði að meðaltali 81% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin flutti ákærða til landsins sem farþegi með flugi [...] frá Dusseldorf, Þýskalandi, falin í líkama sínum í átta pakkningum.

            Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefna nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk ofangreind fíkniefni sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

            Ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærðu kröfu um þóknun sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærða hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að hún er sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök og er brot hennar rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærða er fædd í [...]. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur ákærða ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Ákærða hefur skýlaust játað brot sitt. Ljóst er að kærða var svokallað burðardýr og hún hefur verið samvinnufús við rannsókn málsins. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af umræddu magni fíkniefna, sem voru ætluð til söludreifingar, og 81% styrkleika, þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar refsingu ákærðu kemur gæsluvarðhald sem hún hefur sætt frá 23. desember 2016 til dómsuppsögu.

            Að kröfu ákæruvaldsins og með vísan til framangreindra laga- og reglugerðarákvæða skulu upptæk til ríkissjóðs 372,53 g af kókaíni, sem lögregla lagði hald á.

            Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað málsins. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er um að ræða kostnað vegna matsgerða og reikninga frá Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, samtals 416.370 krónur. Þóknun verjanda ákærðu þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 743.070 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, auk aksturskostnaðar að fjárhæð 80.280 krónur.

            Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Ákærða, Caroline Jeanne Simons, sæti fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar refsingu ákærðu kemur gæsluvarðhald sem hún hefur sætt frá 23. desember 2016 til dómsuppsögu.

            Ákærða sæti upptöku á 372,53 g af kókaíni, sem lögregla lagði hald á.

            Ákærða greiði 1.239.720 krónur í sakarkostnað, þar með talin þóknun skipaðs verjanda síns, Daníels Reynissonar héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 743.070 krónur, og 80.280 króna aksturskostnað hans.

 

Sandra Baldvinsdóttir