• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Ítrekun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2017 í máli nr. S-184/2017:

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ingva Hrafni Tómassyni

(Ingi Freyr Ágústsson hdl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 7. apríl sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 21. mars 2017 á hendur:

 

            „Ingva Hrafni Tómassyni, Reykjavík,                       

                       

Fyrir eftirgreind umferðarlaga – og fíkniefnabrot á árinu 2016, nema annað sé tekið fram, með því að hafa:

 

I.

Fíkniefnabrot, með því að hafa:

 

1. Miðvikudaginn 27. maí 2015 í Hafnarfirði haft í vörslum sínum, í sölu og dreifingarskyni, 16 kannabisplöntur sem lögregla fann við húsleit og lagði hald á í iðnaðarhúsnæði að Gjáhellu 7 og hafa um nokkurt skeið til þess dags staðið að ræktun greindra plantna

 

2. Þriðjudaginn 14. júní í Reykjavík haft í vörslum sínum 0,85 g af hassi og 0,82 g af maríhúana sem lögregla fann við leit á honum í kjölfar handtöku við Breiðholtsbraut.

 

3. Þriðjudaginn 26. júní í Reykjavík haft í vörslum sínum, í sölu og dreifingarskyni, 187.89 g af amfetamíni, 24.89 g af hassi og 373.79 g af maríhúana ásamt 36 ml af anabólískum sterum sem ákærði vissi eða mátti vita að væru ólöglega innfluttir til landsins, allt sem lögregla fann við leit á Baldursgötu 17 og lagði hald á.

 

4. Miðvikudaginn 6. júlí í Reykjavík haft í vörslum sínum 4,67 g af maríhúana sem hann framvísaði til lögreglu í kjölfar afskipta hennar af honum við gatnamót Freyjugötu og Baldursgötu.

 

5. Laugardaginn 27. ágúst í Kópavogi haft í vörslum sínum 6,60 g af maríhúana og 0,14 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem lögregla fann við leit í kjölfar afskipta og handtöku á honum við verslun 10-11 Dalvegi.

 

6. Þriðjudaginn 20. september í Hafnafirði haft í vörslum sínum 3,54 g af amfetamíni sem hann framvísaði til lögreglu á lögreglustöðinni við Flatahraun.

 

II.

Umferðarlagabrot, með því að hafa

 

7. Þriðjudaginn 22. mars í Reykjavík ekið bifreiðinni RL-727 sviptur ökurétti, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 9,0 ng/ml) og með 101 km hraða á klst. vestur Vesturlandsveg þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km á klst. uns lögregla stöðvaði aksturinn.

 

8. Fimmtudaginn  21. apríl í Reykjavík  ekið bifreiðinni AO-981 sviptur ökurétti, án þess að vera fær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja ( í blóði mældist Díazepam 325 ng/ml, Kókaín 85 ng/ml, Nítrazepam 40 ng/ml, Nordíazepam 130 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 3,5 ng/ml og í þvagi fannst amfetamín og umbrotsefni benzódíazepínsambanda) vestur Miklubraut uns lögregla stöðvaði aksturinn.

 

9. Mánudaginn 2. maí í Reykjanesbæ ekið bifreiðinni YP-789 sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 0,6 ng/ml) á bifreiðastæði við Hótel Keflavík þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

 

10. Þriðjudaginn 14. júní í Reykjavík ekið bifreiðinni MP-528 sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 7,5 ng/ml) austur Breiðholtsbraut og áleiðis eftir Skógarseli þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

 

11. Laugardaginn 27. ágúst í Kópavogi ekið bifreiðinni TF-228 sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 22 ng/ml) um Reykjanesbraut uns lögregla stöðvaði aksturinn við verslun 10-11 Dalvegi.

 

Teljast brot í 1. til og með 6. lið varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001, auk þess sem brot í 1. lið telst  einnig varða við 4. gr. nefndra laga um ávana- og fíkniefni og brot í 3. lið einnig við 1. mgr. 171. gr., sbr. 169. gr., tollalaga nr. 88/2005 og teljast brot í  7. til og með 11. lið varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 45. gr. a., auk þess sem brot í 7. lið telst varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 37. gr.  og brot í 8. lið við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 44. gr., allt sbr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/ 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001. Þá  er þess jafnframt krafist að með dómi verði gerðir upptækir 4 gróðurhúsalampar, 4 straumbreytar, tjald, vifta og kolasía, sbr. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og  að framangreindir anabólískir sterar verði gerðir upptækir samkvæmt 3. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1993, 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga og 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005.“

 

Þá var höfðað mál á hendur ákærða með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dagsettri 28. mars 2017 „fyrir fíkniefnabrot í Hafnarfirði á árinu 2016 með því að hafa fimmtudaginn 8. september haft í vörslum sínum 35.69 g af amfetamíni, 44.87 g af maríhúana og 23,50 stykki af ecstasy töflum (MDMA) sem lögregla fann við leit á dvalarstað hans að Köldukinn 16 og lagði hald á.

 

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001,

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/ 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001.“

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í júlí 1992. Hann á að baki langan sakarferil sem nær aftur til ársins 2010. Eftir að hann náði 18 ára aldri hefur hann ítrekað gerst brotlegur við umferðarlög, brot á lögum um ávana- og fíkniefni og auðgunarbrot. Nú síðast hlaut ákærði 10 mánaða fangelsisdóm fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

            Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir sex fíkniefnalagabrot á tímabilinu 27. maí 2015 til 20. september 2016. Einnig fyrir fimm umferðarlagabrot á tímabilinu 22. mars til 22. ágúst 2016 en í öllum tilvikum ók hann undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptur ökurétti. Hluti þessara brota var framinn áður en hann hlaut dóma 11. desember 2012 og 15. júní 2016 og er refsing hans vegna þeirra ákveðinn hegningarauki við þá dóma.

            Við ákvörðun refsingar er litið til sakarferils ákærða. Hann hefur gengist við brotum sínum en hefur hingað til ekki bætt ráð sitt. Til þess er litið að ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir vörslu fíkniefna í sölu og dreifingarskyni en slík brot eru litin alvarlegum augum.

Með hliðsjón af framangreindu og að virtum ákvæðum 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 22 mánuði. Þá er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar.

            Með vísan til þeirra lagaákvæða sem greinir í ákæru verða gerð upptæk kannabisplöntur, fíkniefni, áhöld og anabólískir sterar, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

            Loks skal ákærði með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 greiða allan sakarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Ingvi Hrafn Tómasson, sæti fangelsi í 22 mánuði.

            Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

            Ákærði sæti upptöku á 16 kannabisplöntum, 0,14 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, 51,48 g af hassi, 475,62 g af marijúana, 227,12 g af amfetamíni og 23,5 stk. af ecstasy töflum (MDMA), 4 gróðurhúsalampar, 4 straumbreytar, tjald, vifta og kolasía og 36 ml anabólískir sterar,

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Inga Freys Ágústssonar hdl., 105.400 krónur og 783.293 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                Sigríður Hjaltested (sign.)