• Lykilorð:
  • Vinnusamningur

 

                                             D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2009 í máli nr. E-3759/2008:

                                                  Friðrik Guðmundsson

                                                  (Ragnar Halldór Hall hrl.)

                                                  gegn

                                                  Byggingafélagi námsmanna ses.

                                                  (Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

 

            Mál þetta var höfðað 19. maí 2008 og dómtekið 22. f.m.

            Stefnandi er Friðrik Guðmundsson, Aðalþingi 4, Kópavogi.

            Stefndi er Byggingafélag námsmanna ses., Laugavegi 66-68, Reykjavík.

            Dómkröfur stefnanda eru þessar:

            Að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.287.180 krónur með dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.643.590 krónum frá 1. apríl 2008 til 1. maí s.á. og af 3.287.180 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

            Að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða stefnanda laun, orlofslaun og bifreiðahlunningi, svo og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, allt samkvæmt ráðn­ingar­samningi hans við stefnda, frá 1. maí 2008 til 31. desember s.á. að viðbættum dráttarvöxtum frá gjalddaga hverrar greiðslu til greiðsludags.

            Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 króna í miskabætur og beri sú fjárhæð dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2008 til greiðsludags.

            Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi hefur ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti vegna þóknunar lögmanns síns.

            Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

 

                                                                     1

            Stefndi er sjálfseignarstofnun og starfar á grundvelli laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.  Stefnandi varð framkvæmdastjóri forvera stefnda, Byggingafélags námsmanna, 1. mars 2001 en rekstrarformi þess félags var breytt í sjálfseignarstofnun 28. febrúar 2007 og yfirtók hún öll réttindi og skyldur eldra félagsins gagnvart stefnanda og öðrum.  Skriflegur ráðningarsamningur var gerður við stefnanda 16. mars 2005 og lítilsháttar breyting var gerð á honum með ákvörðun stjórnar félagsins 28. júlí 2006.

            Með svohljóðandi bréfi stjórnar stefnda, sem stefnandi móttök 21. desember 2007, var honum tilkynnt tímabundin lausn frá störfum:

            „Á stjórnarfundi BN, þann 21. desember 2007, sem haldinn var á skrifstofu BN að Laugavegi 66, Reykjavík, var einróma samþykkt tillaga um að fela KPMG endurskoðunarskrifstofu að framkvæma innri endurskoðun á rekstri BN.  Meðan að sú endurskoðun fer fram var einnig einróma samþykkt af stjórn BN að veita þér, Friðriki Guðmundssyni, kt. 040455-2139, framkvæmdastjóra BN, tímabundna lausn frá störfum.  Ekki er því óskað starfskrafta þinna meðan að ofangreind rannsókn stendur yfir og ber þér að afhenda stjórn félagsins lykla að skrifstofu, kredit- og debetkort og önnur gögn sem þú kannt að hafa í fórum þínum.  Jafnframt mun stjórn félagsins tilkynna lánastofnunum, hluta­félagaskrá og öðrum nauðsynlegum stofnunum að pró­kúru­umboð og framkvæmdarstjórnarvald þitt er ekki lengur tímabundið í gildi.  Er þér óheimilt að koma fram í nafni félagsins, gera samninga, samkomulög eða ráðstafa hagsmunum félagsins á nokkurn hátt á meðan tímabundin lausn frá störum er í gildi.  Ákvörðun stjórnar tekur gildi samstundis og mun standa þar til frekari ákvörðun varðandi málefni félagsins og stöðu þína sem framkvæmdastjóri BN verður tekin. “

            Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 11. janúar 2008 þar sem segir að stefnandi telji uppsögnina tilefnislausa og að hún vegi gróflega að starfsheiðri hans.

            Stjórn stefnda sendi stefnanda bréf, dags. 28. febrúar 2008, sem hefur að yfirskrift Riftun á ráðningarsamningi.  Þar er í upphafi vísað til þess að ástæða hinnar tímabundnu lausnar stefnanda frá störfum hafi verið rökstuddur grunur um fjármála­óreiðu innan félagsins og hafi KPMG endurskoðun hf. verið falin innri endurskoðun á bókhaldi þess ásamt því að stjórn félagsins hafi falið LOGOS lögmannsþjónustu að fara yfir samninga og löggerninga sem gerðir hafi verið í nafni stefnda síðastliðin ár.  Ofangreindar úttektir hafi farið fram og drög verið kynnt stjórn félagsins á stjórnarfundi 29. janúar 2008.  Alvarlegar athugasemdir hafi komið í ljós við yfirferð á bókhaldi, samningsgögnum og tengdum gjörningum og eru þær raktar í bréfinu en í lok þess segir að vegna alvarlegra og vítaverðra brota í starfi sé ráðningarsamningi við stefnanda rift og taki riftunin gildi þegar í stað.  Félagið telji sig ekki skuldbundið til þess að greiða honum frekari laun eða tengd gjöld.  Þá segir að þess sé krafist að stefnandi láti þegar af hendi umráð lykla og bifreiðar sem félagið hafi greitt af svo og farsíma og fartölvu í eigu félagsins.

            Stefndi greiddi stefnanda laun fram til loka febrúar 2008.

           


 

                                                                     2

            Kröfugerð stefnanda er reist á 8. gr. starfssamnings stefnanda frá 1. október 2006 um starfslok þar sem segir:  „Framkvæmdastjóri skal halda fullum launum og hlunnindum í 12 mánuði eftir starfslok komi til uppsagnar af hálfu BN.“  Þar er einnig kveðið á um eftirfarandi:  „Segi framkvæmdastjóri starfi sínu lausu skal hann halda fullum launum og hlunnindum í þann tíma sem hér er tilgreindur:  Uppsögn eftir undirritun samnings – 4 mánuðir.  Uppsögn eftir 1. mars 2007 – 8 mánuðir.  Uppsögn eftir 1. sept. 2007 – 12 mánuðir.  Réttindi þau sem hér greinir um eru óháð því hvort hann ræðst til annarra starfa á því tímabili sem réttindi ná til.“  Stefnandi vísar til þess að hann hafi verið leystur frá störfum í desember 2007 og eigi því rétt til launa og  annarra hlunninda, sem ráðningarsamningnum fylgi, til 31. desember 2008.

            Stefnandi kveður aldrei, áður en atvik máls þessa urðu, hafa verið fundið að störfum sínum fyrir stefnda eða neinu sem því tengdist af hálfu stjórnar stofnunarinnar eða forvera hennar.  Í stefnu segir að stefndi hafi með bréfi um riftun ráðningar­samnings aðila sett fram í löngu máli alls kyns ávirðingar sem svokallaðan rökstuðn­ing fyrir riftuninni.  Stefnandi telur þennan málatilbúnað gersamlega haldlausan og honum hafi ekki verið kynnt neitt af efni skjala sem sögð séu hafa verið tekin saman um málefni félagsins eftir að hann lét þar af störfum.

            Töluleg sundurliðun fyrstu dómkröfu stefnanda er þannig:  Mánaðarlaun 1.211.304 krónur.  Orlof 12.07 % 146.204 krónur.  Töpuð lífeyrisréttindi 12% 145.357 krónur.  Bifreiðahlunnindi 140.725 krónur.  Samtals 1.643.590 krónur.

            Launakrafa stefnanda tekur til mánaðanna mars og apríl 2008, sem áttu að greiðast 1. apríl  og 1. maí s. á.  og tekur dráttarvaxtakrafa stefnanda mið af því.  Um orlofslaun vísar stefnandi til starfssamnings síns við stefnda, þar sem orlofprósenta hans sé tilgreind 12,07 sem svari til 28 virkra orlofsdaga, og til ákvæða orlofslaga nr. 30/1987 en samkvæmt 8. gr. þeirra skuli greiða starfsmanni áunnin orlofslaun sé ráðningarsambandi slitið.  Kröfuliður vegna tapaðra 12% lífeyrisréttinda er skýrður sem 6% mótframlag stefnda til lífeyrissjóðs og 6% mótframlag til séreignar­lífeyrissjóðs. Kröfuliður vegna bifreiðahlunninda er skýrður með því að stefndi hafi krafist þess af stefnanda að hann skilaði bifreið, sem hann hafi haft til einkanota og nota í starfi sínu sem framkvæmdastjóri stefnda, og hafi hann orðið við þeirri kröfu.

            Um aðra dómkröfu stefnanda segir í stefnu að kröfuliðir, sem hana varði, séu hinir sömu og tilgreindir séu í fyrstu dómkröfunni.  Kröfurnar séu ekki gjaldfallnar (þ.e. við útgáfu stefnu) en í ljósi afstöðu stefnda sé ljóst að hann muni ekki greiða þær án undangengins dóms.  Um heimild til öflunar viðurkenningardóms vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. 

            Um lagagrundvöll fyrir þriðju dómkröfu sinni – um miskabætur – vísar stefnandi til b-liðs 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Á því er byggt að uppsögnin hafi verið framkvæmd með afar meiðandi hætti, á síðasta vinnudegi fyrir jól og án þess að stefnandi fengi á nokkur átt að tjá sig um ástæður hennar áður en hún var látin koma til framkvæmdar.  Jafnframt hafi þess verið getið að uppsögnin yrði tilkynnt lánastofnunum, hlutafélagaskrá og öðrum „nauðsynlegum“ stofnunum.  Allt hafi þetta verið algerlega ástæðulaust að mati stefnanda og eingöngu gert til að lítillækka hann í augum fjölskyldu hans, samstarfsmanna og annarra sem málið varðaði.

 

                                                                     3

           

            Af hálfu stefnda er byggt á því að honum hafi verið heimilt að lögum að segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum hjá félaginu og án bóta í ljósi grófra brota hans á skyldum gagnvart stefnda.  Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda enda hafi brottvikning stefnanda verið lögleg. 

            Sýknukrafa stefnda byggist einnig á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna riftunar ráðningarsamningsins og honum beri að draga úr tjóni sínu.  Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. ráðningarsamningsins komi ekki til greina að viðurkenna kröfu stefnanda um óskert laun og hlunnindi í tólf mánuði óháð því hvort stefnandi hverfi til annarra starfa og hafi þar tekjur á sama tíma.  Verði talið að brot stefnanda á starfsskyldum séu ekki svo veruleg að þau hafi heimilað fyrirvaralausa brottvikningu beri að líta til eigin sakar hans við mat á ætluðum bótarétti og víkja fyrrgreindu samningsákvæði til hliðar enda hafi ekki verið markmið samningsaðila að stefnanda yrðu greidd óskert laun í tólf mánuði í þeim tilvikum er stefnandi hefði gerst sekur um brot á starfsskyldum sínum.  Er þess krafist að fyrrgreindu samningsákvæði verði vikið til hliðar með vísun til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936. 

            Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega með vísun til fyrrgreindra röksemda.

            Stefndi krefst sýknu af viðurkenningarkröfu stefnanda og vísar til sömu röksemda og fyrr greinir.  Þá krefst stefndi þess til vara að hann verði sýknaður  að svo stöddu af þeirri kröfu. 

            Stefndi mótmælir fjárhæð fyrstu dómkröfu stefnanda og bendir á að mánaðarlaun stefnanda ásamt bifreiðahlunnindum hafi verið 1.321.000 krónur.  Kröfum um orlof á uppsagnarfresti og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda í upp­sagnar­fresti er mótmælt og eigi þær sér ekki stoð í ráðningarsamningi eða lögum.  Þá er mótmælt kröfu um upphafstíma dráttarvaxta og þess krafist, verði fallist á kröfur stefnanda að einhverju leyti, að dráttarvextir reiknist frá dómsuppsögudegi.

            Af hálfu stefnda er miskabótakröfu stefnanda mótmælt.  Uppsögn stefnanda hafi verið réttmæt og stefnandi eigi sjálfur alla sök á ætlaðri vanlíðan sinni.  Þá er því mótmælt að 26. gr. laga nr. 50/1993 sé stoð fyrir kröfu stefnanda og sé ósannað að fyrir hendi séu skilyrði um ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda.  Verði fallist á kröfu um greiðslu miskabóta er þess krafist að hún verði lækkuð verulega.

            Af hálfu stefnda er því lýst yfir að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi stefnanda og muni hann höfða mál á hendur stefnanda til greiðslu skaðabóta vegna þess.  Háttsemi stefnanda kunni að varða hann refsingu og stefndi hafi kært hana til lögreglu.  Í greinargerð stefnda er áskilinn réttur til að leggja fram í málinu niður­stöður þeirrar rannsóknar en það hefur ekki verið gert.

 

                                                                     4

            Starfslok stefnanda hjá stefnda urðu vegna fyrirvaralausrar uppsagnar, - riftunar ráðningarsamnings - , af hálfu stjórnar stefnda.  Hér að framan, í 2. kafla dómsins, er tilgreint orðrétt efni 8. greinar samningsins sem kröfugerð stefnanda er reist á.  Samningsákvæðið veitir stefnanda skýlausan rétt vegna starfsloka og verður ekki jafnað til hefðbundinna ákvæða starfssamninga um gagnkvæman uppsagnarfrest þar sem stefnandi skal, án nokkurs fyrirvara að því er tekur til ástæðna þess að til uppsagnar komi af hálfu stefnda eða greiðslna frá öðrum aðilum, halda fullum launum og hlunnindum í tólf mánuði eftir starfslok vegna uppsagnar stefnda.  Í málinu er hins vegar ekki deilt um lögmæti þess að til uppsagnar kom af hálfu stjórnar stefnda.  Samkvæmt þessu er ekki efni til þess að í dóminum verði tekin afstaða til ávirðinga sem stefnandi er borinn af hálfu stefnda eða að þær séu tíundaðar og ekki verður fallist á sýknukröfu stefnda sem byggist á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna riftunar ráðningarsamningsins.  Umfram skýrt orðalag tilvitnaðs samnings­ákvæðis er ekkert fram komið um markmið samningsaðila og er ekki fallist á að sýkna beri stefnda eða lækka kröfur stefnanda með vísun til þeirra eða á grundvelli ákvæða 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936.

            Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að fallast beri að meginefni á fyrstu kröfu stefnanda.  Af framlögðum launaseðlum er ljóst að krafan er réttilega gerð um laun og hlunnindi að því undanskildu að ekki verður að fullu fallist á kröfuliðinn “Töpuð lífeyrisréttindi 12% 145.357 krónur“ þar sem mótframlag atvinnurekanda til lífeyrissjóðs var 8% og til séreignasjóðs 2% af mánaðarlaunum eða samtals 10%.  Kröfuliðurinn lækkar því í 121.130 krónur.  Samkvæmt þessu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda á grundvelli fyrstu kröfu hans 3.238.726 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

            Öll hin sömu rök dómsins, sem hér hafa verið færð fram, sbr. einnig 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 svo og að engin rök verða fundin fyrir því að sýkna beri stefnda að svo stöddu, leiða til þeirrar niðurstöðu að fallast beri á aðra dómkröfu stefnanda, þ.e. viðurkenningarkröfu hans.

            Eigi er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði til að dæma stefnanda miskabætur úr hendi stefnda, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna þess hvernig staðið var að uppsögn hans af hálfu stefnda.  Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af þriðju dómkröfu stefnanda.

            Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem er ákveðinn 500.000 krónur.

            Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

 

                                                           D ó m s o r ð:

            Stefndi, Byggingafélag námsmanna ses., greiði stefnanda, Friðriki Guð­mundssyni, 3.238.726 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.619.363 krónum frá 1. apríl 2008 til 1. maí s.á. og af 3.238.726 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

            Viðurkennd er skylda stefnda til að greiða stefnanda laun, orlofslaun og bifreiðahlunnindi, svo og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, allt samkvæmt ráðn­ingar­samningi hans við stefnda, frá 1. maí 2008 til 31. desember s.á. að viðbættum dráttarvöxtum frá gjalddaga hverrar greiðslu til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.

           

                                    Sigurður H. Stefánsson