• Lykilorð:
  • Lánssamningur
  • Verðtrygging

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2017 í máli nr. E-2481/2015:

Íþrótta- og sýningahöllin hf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 19. desember 2016, að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Fasteignafélaginu Laugardal ehf., Engjavegi 8, Reykjavík, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 29. júní 2015.

Á hluthafafundum í Fasteignafélaginu Laugardal ehf. og Íþrótta- og sýningahöllinni hf., sem haldnir voru 12. maí 2016, var samþykktur samruni félaganna tveggja, sbr. framlagða bókun frá 19. desember 2016 og endurrit úr fundagerðarbók Íþrótta- og sýningahallarinnar hf.  Yfirtók þá Íþrótta- og sýningahöllin hf. allar eignir og skuldir Fasteigna­félags­ins Laugardals ehf. og þar með kröfu félagsins á hendur Íslandsbanka í þessu máli.  Íþrótta- og sýningahöllin hf. tók þar með við aðild að málinu og verður hér eftir vísað til félagsins sem stefnanda þessa máls.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 80.938.323 krónur með 5,18% vöxtum frá 13. desember 2010 til 21. desember 2010, frá þeim degi með 5,08 vöxtum til 1. apríl 2011, frá þeim degi með 4,88% vöxtum til 1. apríl 2012, frá þeim degi með 4,63% vöxtum til 30. júní 2015, og frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 80.938.323 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 13. desember 2010 til 30. júní 2015, og frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, til greiðsludags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 80.938.323 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 13. desember 2010 til 30. júní 2015, og frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, til greiðsludags.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Stefndi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

 

II

 

Forveri stefnda, Glitnir banki hf., og forveri stefnanda, Fasteignafélagið Laugardalur ehf., gerðu með sér samning, dagsettan 3. maí 2006, sem auðkenndur er með númerinu 103734.  Á forsíðunni er fyrirsögn samningsins: „Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum verðtryggt/óverðtryggt)“.  Í inngangsorðum samningsins segir að hann sé um lán til 30 ára, að fjárhæð „allt að jafnvirði kr. 273.000.000,- [...] sem skiptist í tvo lánshluta allt eftir vali lántaka, þ.e. lánshluta A, sem er lán í allt að fjórum erlendum myntum og/eða íslenskum krónum og lánshluta B, sem er verðtryggt lán í íslenskum krónum með þeim skilmálum sem greinir í samningi þessum“.

Í 1. gr. samningsins er kveðið á um lánsfjárhæð og útborgun.  Þar segir að lántaki lofi að taka að láni og lánveitandi að lána umsamda lánsfjárhæð og að lánið sé laust til útborgunar frá undirritun samningsins til 10. maí 2006.  Lágmarksfjárhæð hvers lánshluta sem greiddur sé út sé 30.000.000 króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum.  Lántaki skyldi senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara og tiltaka í beiðni þann reikning sem leggja skyldi lánið eða lánshlutann inn á.  Form að útborgunarbeiðni er viðauki 1 við samninginn.

Í útborgunarbeiðni skyldi lántaki tilkynna lánveitanda „í hvaða myntum hann hyggst taka A hluta lánsins og í hvaða hlutföllum; þó að lágmarki 5% fyrir einstakan gjaldmiðil.  Fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins.  Á því tímamarki verða fjárhæðirnar endanlegar og munu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kunni að breytast á lánstímanum.  Lánið verður þá eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum samkvæmt heimildum samningsins.“

Láninu skyldi ráðstafað til að greiða niður skammtímafjármögnun hjá Glitni banka hf.

Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi endurgreiða lánið, sem var til 30 ára, með 360 mánaðarlegum greiðslum afborgana og vaxta (annuitet) og skyldi endurgreiðsla hefjast 20. júní 2006.  Höfuðstóll lánshluta B í íslenskum krónum skyldi bundinn vísitölu neysluverðs, þ.e. verðtryggður.  Í 2. gr. samningsins kemur einnig fram að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af.  Greiða skuli lán í erlendum myntum inn á viðeigandi gjaldeyrisreikninga lánveitanda.  Þá er kveðið á um að lántaki megi því aðeins greiða lánshluta í erlendum myntum í íslenskum krónum hafi lánveitandi samþykkt það og móttekið skriflega beiðni lántaka þar um.  Greiðsla sem lántaka beri að inna af hendi í erlendum myntum verði umreiknuð í íslenskar krónur tveimur virkum bankadögum fyrir gjalddaga.

Lánshlutar í erlendum myntum samkvæmt lánshluta A, öðrum en evrum, skyldu bera 1 mánaðar LIBOR-vexti, en lánshluti í evrum 1 mánaðar EURIBOR-vexti, hvora tveggja að viðbættu 1,30% vaxtaálagi, samkvæmt 3. gr. samningsins.  Lánshluti í íslenskum krónum samkvæmt lánshluta A skyldi síðan bera 1 mánaðar REIBOR-vexti, að viðbættu 1,30% vaxtaálagi.  Lánshluti í verðtryggðum íslenskum krónum samkvæmt lánshluta B skyldi hins vegar bera fasta eftirágreidda vexti, þá 5,70%, sem skyldu ákvarðast fyrir hvern ádrátt í fimm ár frá útborgun lánshluta.  Lánveitandi skyldi einhliða ákveða hvaða vextir væru í boði samkvæmt lánshluta B á hverjum tíma „t.d. ef lántaki ákveður að færa lánshluta úr lánshluta A yfir í lánshluta B“.  Dráttarvextir vegna vanefnda lántaka á skuld í erlendum myntum skyldu vera viðeigandi vaxtagrunnur að viðbættu vaxtaálagi, auk 5% vanskilaálags.  Vegna slíkra vanefnda skyldi lánveitanda og heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda, en þá bæri að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Væri um vanefnd á skuld í íslenskum krónum að ræða skyldi lántaki greiða sömu dráttarvexti, þ.e. samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Í 4. gr. samningsins er kveðið á um heimild lántaka til að óska eftir myntbreytingu lánshluta A í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum á gjalddögum, í fyrsta sinn að tveimur árum liðnum frá útborgun þess, þannig að eftirstöðvar lánsins miðist við aðra erlenda mynt og/eða íslenskar krónur, samkvæmt nánar tilgreindum skilmálum.  Valréttur lántaka skyldi takmarkast við bandaríkjadali, sterlingspund, danskar krónur, norskar krónur, sænskar krónur, svissneska franka, japönsk jen, evrur og íslenskar krónur.  Þá segir að við myntbreytingu kunni samningurinn að fá ný lánsnúmer að öllu leyti eða að hluta.  Lánshluta B í íslenskum krónum yrði ekki hægt að breyta nema við endurskoðun vaxta.

Samkvæmt 5. gr. samningsins skyldi lántaki greiða lántökugjald, 0,3% af heildarfjárhæð lánsins, og skyldi það dregið af útborgun fyrsta lánshluta.

Í 6. gr. samningsins er kveðið á um tryggingar og kemur þar fram að lántaki hafi þegar gefið út tvö tryggingarbréf til lánveitanda, annars vegar að fjárhæð 9.000.000 evra og hins vegar að fjárhæð 372.000.000 króna, tryggð með veði í fasteigninni að Engjavegi 8 í Reykjavík.  Til viðbótar þeim tryggingum gaf lántaki út tryggingarbréf til lánveitanda að fjárhæð 300.300.000 krónur, tryggt með 3. veðrétti og uppfærslu í sömu fasteigninni að Engjavegi 8, Laugardalshöll – Íþrótta- og sýningarhöll, lóðarhluta II, 7405 leigulóð undir íþrótta- og sýningarhöll, með fastanúmer 201-9522.

Sama dag og framangreindur samningur var undirritaður, 3. maí 2006, gerði Íþrótta- og sýningahöllin hf. samning um „[l]án í erlendum gjaldmiðlum“ við lánveitanda, Glitni banka hf., að fjárhæð 70.000.000 króna.  Í 1. gr. þess samnings kemur fram að ráðstafa skuli láninu til endurgreiðslu á skammtíma­fjármögnun Fasteignafélagsins Laugardals ehf. hjá Glitni banka hf. og að lánið sé veitt samkvæmt ákvæði í viðauka við „fasteignastjórnunarsamning um Höllina milli Reykjavíkurborgar og Íþrótta- og sýningarhallarinnar hf., dags. 4. apríl 2006“.

Til að greiða niður eða til endurgreiðslu á skammtímafjármögnun Fasteignafélagsins Laugardals ehf. átti því að nýta lán samkvæmt báðum framangreindum samningum.

Útborgunarbeiðni með vísan til 1. gr. samningsins frá 3. maí 2006, milli Fasteignafélagsins Laugardals hf. og Glitnis banka hf., er dagsett 16. maí sama ár.  Með beiðninni óskar lántaki eftir því að 272.181.000 krónur (lánsfjárhæðin að frádregnu lántökugjaldi) verði greiddar út með þeim hætti að lánshluti í íslenskum krónum skyldi nema 56% fjárhæðarinnar, samtals 152.421.360 krónum en lánshlutar í erlendum myntum skyldu nema 44% fjárhæðarinnar, samtals 119.759.640 krónum.  Lánshluti í erlendum myntum skyldi skiptast þannig að 25% skyldu vera í bandaríkjadölum, jafnvirði 29.939.910 króna, 10% skyldu vera í sterlingspundum, jafnvirði 11.975.964 króna, 10% skyldu vera í svissneskum frönkum, jafnvirði 11.975.964 króna, 5% skyldu vera í japönskum jenum, jafnvirði 5.987.982 króna, og 50% skyldu vera í evrum, jafnvirði 59.879.820 króna.  Á útborgunarbeiðninni segir að ráðstafa skuli láninu til að greiða upp PM-lán hjá Fasteignafélaginu Laugardal sem sé á gjalddaga 16. maí 2006 og það sem eftir standi skuli greiða inn á reikning félagsins nr. [...], sem er tékkareikningur í íslenskum krónum.  Þá segir á beiðninni að Glitni banka sé veitt heimild til að fá tilboð í og festa gengi vegna gjaldeyrisviðskiptanna sem verði til samhliða myntbreytingunni.

Af framlagðri kaupnótu og gjaldeyrispöntun má ráða að erlendir gjaldmiðlar hafi verið lagðir inn á gjaldeyrisreikninga í samræmi við framangreinda útborgunarbeiðni.  Á kaupnótunni koma fjárhæðir hvers lánshluta fram í hinum erlendu gjaldmiðlum sem og í íslenskum krónum.  Samkvæmt þessum skjölum voru fjárhæðir lánshlutanna í hinum erlendu gjaldmiðlum ekki þær sömu í íslenskum krónum og samkvæmt útborgunarbeiðninni en hlutföllin voru hins vegar þau sömu.  Samtals var 426.139 bandaríkjadölum, 90.445 sterlingspundum, 206.108 svissneskum frönkum, 9.342.044 japönskum jenum og 663.720 evrum ráðstafað inn á gjaldeyrisreikninga, sem stefndi kveður að hafi verið í eigu lánveitanda.

Í málinu er einnig lögð fram útborgunarbeiðni Íþrótta- og sýningarhallarinnar hf., dagsett 16. maí 2006, vegna samningsins sem að framan greinir.  Óskaði félagið þess að 69.790.000 krónur yrðu greiddar út með þeim hætti að 25% fjárhæðarinnar skyldu vera í bandaríkjadölum, jafnvirði 17.447.500 króna, 10% í sterlingspundum, jafnvirði 6.979.000 króna, 10% í svissneskum frönkum, jafnvirði 6.979.000 króna, 5% í japönskum jenum, jafnvirði 3.489.500 króna og 50% í evrum, jafnvirði 34.896.000 króna.  Láninu skyldi ráðstafa til að greiða upp PM-lán hjá Fasteignafélaginu Laugardal, sem var á gjalddaga 16. maí 2006.  Ráðstafa skyldi því sem eftir stæði inn á tékkareikning Fasteignafélagsins Laugardals í íslenskum krónum.  Þá var Glitni banka veitt sérstök heimild til að fá tilboð í og festa gengi vegna gjaldeyrisviðskiptanna sem til yrðu samhliða myntbreytingunni.  Framlögð kaupnóta og gjaldeyrispöntun eru samsvarandi þeim sem að framan greinir.

Í greinargerð stefnda er eftirfarandi tafla sett fram til skýringar á rástöfunum lána samkvæmt framangreindum samningum:

 

Fasteignafélagið Laugardalur                                             

Íþrótta- og sýningarhöllin               

Samtals útgreitt

USD

426.139

USD

248.333

USD

674.472

GBP

90.445

GBP

52.707

GBP

143.152

CHF

206.108

CHF

120.110

CHF

326.218

JPY

9.342.044

JPY

5.444.082

JPY

14.786.126

EUR

663.720

EUR

386.783

EUR

1.050.503

ISK

152.880.000

ISK

0

ISK

152.880.000

 

Tilvísuð skammtímafjármögnun Fasteignafélagsins Laugardals ehf., eru skuld­bindingar félagsins samkvæmt peningamarkaðslánum, sem jafnan er vísað til sem PM-lána.  Stefndi kveður að þær skuldbindingar Fasteignafélagsins, sem gera hafi átt upp með lánsfjárhæðum framangreindra samninga, hafi verið í öðrum gjaldmiðlum og fjárhæðum miðað við 16. maí 2006.  Í greinargerð stefnda er eftirfarandi tafla sett fram til skýringar á uppgjörinu:

 

Mynt

Samtals til útborgunar

Til uppgreiðslu PM-lána

Mismunur

USD

674.472

0

674.472

GBP

143.152

0

143.152

CHF

326.218

0

326.218

JPY

14.786.126

96.148.341

-81.362.215

EUR

1.050.503,00

700.893,38

349.609,62

ISK

152.880.000

164.516.559

-11.636.559

 

Samkvæmt framlögðum samningum um gjaldmiðlaviðskipti var 674.472 bandaríkjadölum, 143.152 sterlingspundum, 326.218 svissneskum frönkum og 349.609 evrum skipt í íslenskar krónur, samtals 117.190.193 krónur.  Þeirri fjárhæð auk 152.880.000 króna, sem voru til útborgunar samkvæmt umþrættum samningi, samtals 270.070.193 krónur, var síðan ráðstafað inn á biðreikning lánveitanda.  Þaðan var þessari fjárhæð svo ráðstafað þannig að 164.516.559 krónur voru greiddar inn á peningamarkaðslán Fasteignafélagsins Laugardals ehf. í íslenskum krónum, 52.307.769 krónur voru notaðar til að kaupa 81.362.216 japönsk jen, sem síðan voru notuð, ásamt þeim 14.786.126 japönsku jenum sem voru til útborgunar samkvæmt framangreindum samningum til að gera upp peningamarkaðslán félagsins í japönskum jenum, og loks var 53.245.865 krónum ráðstafað inn á tékkareikning Fasteignafélagsins Laugardals í íslenskum krónum.  Þá voru 700.893,38 evrur notaðar til að gera upp peningamarkaðslán Fasteignafélagsins Laugardals ehf. í evrum.

Af framlögðum greiðsluseðlum sem Glitnir banki hf. sendi Fasteignafélaginu Laugardal ehf. í júní 2008 má sjá að afborganir og vextir af láni samkvæmt samningi þeirra frá 3. maí 2006 voru innheimt í hinum erlendu gjaldmiðlum og var hver leggur lánsins innheimtur á sérstökum greiðsluseðli.

Stefnandi kveður að allar greiðslur af láninu hafi verið í íslenskum krónum.  Lánið var síðan gert upp að fullu með nýjum lánssamningi milli Fasteignafélagsins Laugardals ehf. og stefnda, Íslandsbanka hf., undirrituðum 9. desember 2010, sem lagður er fram í málinu.  Á framlögðu uppgjörsblaði vegna höfuðstólslækkunar, dagsettu sama dag, kemur fram að höfuðstóll láns nr. 505-103734, sem tekið var á grundvelli umþrætts samnings, sé þá að uppgreiðsluverðmæti alls 392.408.514 krónur en að höfuðstólslækkun sé að fjárhæð 20.361.298 krónur.  Með lánssamningnum frá 9. desember 2010 var því gert ráð fyrir því að alls 372.047.216 krónum yrði ráðstafað til uppgjörs á umþrættum samningi.

Af hálfu Fasteignafélagsins Laugardals ehf. var undirrituð umsókn um „höfuðstólslækkun og myntbreytingu láns/lána í erlendri mynt“, 10. janúar 2011.  Tók umsóknin m.a. til umþrætts samnings.  Í umsókninni segir að sótt sé um að skilmálum lána umsækjanda í erlendri mynt verði breytt þannig að allir lánshlutar umreiknist í íslenskar krónur og höfuðstóll lækki.  Þá segir að breytingin felist í því að skilmálum lánanna verði breyt þannig að eftirstöðvar þeirra umreiknist í íslenskar krónur frá og með 9. desember 2010.  Miðað sé við lækkun á höfuðstól þannig að hann sé umreiknaður í íslenskar krónur miðað við sölugengi undirliggjandi mynta 29. september 2008, samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands.  Munurinn á þeirri stöðu og uppreikningi þann 9. desember 2010 sé höfuðstólslækkun lánanna.  Vanskil og áfallnir vextir frá síðasta gjalddaga sæti ekki lækkun og leggist ofan á höfuðstól nýju lánanna.  Þá er í umsókninni fyrirvari þess efnis að lántaki fyrirgeri ekki mögulegum betri rétti sínum til höfuðstólslækkunar gefi niðurstöður Hæstaréttar Íslands tilefni til.

Með tölvupósti 4. júlí 2014 er af hálfu Fasteignafélagsins Laugardals ehf. spurst fyrir um afstöðu stefnda til lögmætis umþrætts samnings.  Með tölvupósti 15. september sama ár er af hálfu stefnda gefið það svar að talið sé að sá hluti samningsins sem hafi verið í erlendum gjaldmiðlum sé „löglegt erlent lán“.

Aðild stefnanda sem og stefnda að málinu er óumdeild.

 

III

 

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að umþrættur lánssamningur hafi að hluta til verið um lán í íslenskum krónum, að fjárhæð 119.759.640 krónur, bundið gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Óumdeilt er að hluti lánsins, að fjárhæð 152.421.360 krónur, var í íslenskum krónum.

Fyrir dómstólum hafi margsinnis verið tekist á um hvort samningar teljist vera gengistryggðir eða ekki.  Í ljósi úrlausna Hæstaréttar Íslands í þessum málum þyki rétt að gera grein fyrir efni lánssamningsins sem og því hvernig aðalskyldur aðila samkvæmt honum voru efndar.  Um efni samningsins og útborgunarbeiðni samkvæmt honum vísast til framangreindrar umfjöllunar.  Stefnandi vísar m.a. til þess að í samningnum sé höfuðstólsfjárhæð lánsins einungis tilgreind í íslenskum krónum.  Fjárhæð lánsins sé hvergi tilgreind í erlendum gjaldmiðlum og að sama skapi ekki í hlutföllum erlendra gjaldmiðla.

Stefnandi kveðst aldrei hafa átt gjaldeyrisreikninga hjá bankanum eða verið með lán í erlendum gjaldmiðlum og að erlendir gjaldmiðlar hafi ekki skipt um hendur milli aðila, hvorki við útborgun lánsins né við greiðslu af láni.  Hafi einhver gjaldeyrisviðskipti farið fram sé byggt á því af hálfu stefnanda að það hafi verið innanhússviðskipti bankans sem séu stefnanda alls óviðkomandi.  Stefnandi ítrekar að hann hafi ekki skuldað bankanum lán í erlendum gjaldmiðlum og m.a. af þeim sökum geti lánveiting að fjárhæð 119.759.640 krónur ekki hafa falið í sér lán í erlendum gjaldmiðlum.

Samkvæmt 2. gr. samningsins hafi lántaka borið að endurgreiða lánið í þeim gjaldmiðlum sem lánið hafi samanstaðið af og hafi stefnandi greitt allar afborganir af láninu í íslenskum krónum.  Þá hafi lánið verið gert upp með fyrrgreindum lánssamningi, dagsettum 9. desember 2010, sem hafi verið að öllu leyti um lán í íslenskum krónum.  Aðilar hafi því efnt aðalskyldur sínar samkvæmt umþrættum samningi í íslenskum krónum.  Lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum og greitt hafi verið af láninu í íslenskum krónum.

Stefnandi telur að í dómum Hæstaréttar Íslands sé að finna mjög skýrar leiðbeiningar um hvernig fara eigi með samninga eins og umþrættan samning og vísar í því samhengi til dóma réttarins í málum nr. 603/2010, 155/2011, 520/2011, 50/2012, 386/2012, 498/2013, 337/2013, 3/2012, 391/2013 og 66/2012.  Af framangreindum dómafordæmum megi draga þá ályktun að tilgreining lánsfjárhæðar hafi grundvallarþýðingu við mat á því hvort um sé að ræða gengistryggt lán eða erlent lán.  Útgreiðsla og afborganir af láni geti hins vegar komið til skoðunar, taki textaskýring ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn sé, til dæmis þegar tilgreind séu hlutföll erlendra gjaldmiðla.

Í umþrættum samningi sé lánsfjárhæðin einungis tilgreind í íslenskum krónum og því geti textaskýring aldrei leitt annað í ljós en að samningurinn feli í sér lán í íslenskum krónum.  Þar eð fjárhæð lánsins sé aðeins tilgreind í íslenskum krónum í umþrættum lánssamningi sé engum vafa undirorpið að samningurinn hafi einungis kveðið á um skuldbindingar í íslenskum krónum, sem óheimilt hafi verið að binda við gengi erlendra gjaldmiðla samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Vísar stefnandi um þetta til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 386/2012.

Þá beri enn fremur til þess að líta að í greiðsluseðlum sé ítrekað viðurkennt af hálfu bankans að umþrættur lánssamningur sé gengistryggður.  Á greiðsluseðlunum komi fram hver sé verðtryggingargrunnur, þ.e. ,,reiknað grunngengi“, á hverjum gjalddaga og sé útreikningur á gengistryggingu sérstaklega útskýrður.  Þá segi í greiðsluseðlunum um gengistrygginguna: ,,Verðtrygging nú“.  Skýrar verði vart að orði komist um gengistryggingu lánsins.  Stefnandi telur að þessi gögn séu skýr og mikilvæg samtímagögn sem sýni, svo ekki verði um villst, að umþrætt lán hafi verið gengistryggt.  Gögnin lýsi vel afstöðu stefnda, og forvera hans, til samningsins.  Augljóst megi vera að bankinn hafi litið svo á að lánið væri gengistryggt og skyldi því breytast í samræmi við breytingar á gengi gjaldmiðla frá grunnverðtryggingargengi.  Gögn þessi staðfesti efni samnings aðila og vilja þeirra við samningsgerð.

Með hliðsjón af öllu framangreindu sé ljóst að skuldbinding stefnanda, á grundvelli umþrætts hluta lánssamnings nr. 103734, sé aðeins tilgreind í íslenskum krónum og geti því ekki falið í sér lán í erlendri mynt.  Lánið sé í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla.  Hafi forveri stefnda á annað borð ætlað að hafa samninginn í erlendum myntum hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina hinar erlendu myntir sem höfuðstólsfjárhæð í samningi aðila.  Það hafi bankinn hins vegar ekki gert og því blasi við að um sé að ræða gengistryggðan lánssamning.

Stefnandi leggur áherslu á að framlögð kaupnóta lánssamningsins og gjaldeyrispöntun stafi ekki frá stefnanda og skjölin séu ekki undirrituð af hálfu forvera stefnanda heldur aðeins af starfsmönnum forvera stefnda.  Gögnin séu því þýðingar­laus með öllu.  Kaupnótan sé þar að auki óskiljanleg.  Í henni séu tilgreindir reikningar með höfuðbók 38 sem séu ekki og hafi ekki verið í eigu stefnanda.  Stefnandi hafi aldrei stofnað eða átt gjaldeyrisreikninga hjá forvera stefnda.  Stefnandi skori á stefnda að leggja fram gögn um stofnun þeirra reikninga, verði á því byggt að stefnandi hafi átt tilgreinda reikninga í bankanum.  Skjal um gjaldeyrispöntun sé einnig óskiljanlegt skjal, enda hafi stefnandi aldrei pantað gjaldeyri hjá forvera stefnda.  Skjalið sé innanhússplagg bankans, líkt og kaupnótan, sem hafi enga þýðingu í málinu og geti ekki skuldbundið stefnanda á neinn hátt né breytt efni skýrs lánssamnings aðila.  Í beiðni um útborgun lánsins komi fram að lán samkvæmt lánssamningnum skiptist í tvennt og að hluti þess sé verðtryggður í íslenskum krónum og hluti sé bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þá staðfesti greiðsluseðlar bankans gengistryggingu.  Hvað sem öllu öðru líði, breyti útborgunarbeiðni ekki efni láns­samningsins sjálfs eða eðli hans, sbr. skýrt fordæmi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 386/2012.  Þá segi í niðurlagi útborgunarbeiðninnar að bankanum sé veitt heimild til að fá tilboð og festa gengi vegna gjaldeyrisviðskipta sem til verði samhliða myntbreytingu.  Að mati stefnanda staðfesti framangreint að lánið hafi verið gengistryggt enda fjallað um möguleg gjaldeyrisviðskipti í kjölfar lánveitingar en gjaldeyrisviðskipti hafi svo ekki farið fram.

Fyrir liggi að erlendir gjaldmiðlar hafi ekki skipt um hendur, hvorki við lánveitingu né við greiðslu af láni.  Hafi einhver gjaldeyrisviðskipti átt sér stað hafi það verið án aðkomu stefnanda og óskuldbindandi fyrir hann.

Verði ekki fallist á framangreint byggir stefnandi á því að hinn umdeildi lánshluti hafi í raun ekki verið greiddur út í erlendum gjaldeyri, þótt jafnvirði lánsins kunni að hafa verið fært inn á svokallaða gjaldeyrisreikninga hjá bankanum.  Stefnandi telji nánar tiltekið að gjaldeyrir hafi í raun aldrei verið afhentur honum.  Byggir stefnandi á því að þegar fjárhæð sé lögð inn á reikning með höfuðbók 38 felist ekki í því afhending á erlendum gjaldeyri heldur íslenskum krónum með gengistryggingu, þ.e. tengingu við erlenda gjaldmiðla.  Innlendir viðskiptabankar hafi til marga ára boðið upp á sparireikninga í erlendri mynt, svokallaða IG-reikninga, með höfuðbók 38.  Það sé útbreiddur misskilningur að með því að millifæra inn á slíka gjaldeyrisreikninga þá flytjist gjaldeyrir til Íslands.  Gjaldeyrir þjóðarinnar sé aldrei geymdur á Íslandi heldur sé hann í því landi/löndum sem gefi út viðkomandi gjaldmiðil.  Pund séu ávallt í Bretlandi, evrur í þeim löndum sem tilheyri því myntsvæði, bandaríkjadalir í Bandaríkjunum o.s.frv.  Stefnandi byggir því á því að gjaldeyrir sé ekki afhentur þegar lagt sé inn á reikning með höfuðbók 38 hér á landi, heldur sé einungis um færslu á blaði að ræða.  Eina leiðin til þess að afhenda lántaka gjaldeyri í raun sé að leggja hann inn á reikning í eigu lántaka í banka í því landi sem gefi út viðkomandi gjaldeyri eða að afhenda gjaldeyrinn í seðlum.

Með vísan til alls framangreinds telji stefnandi að sýnt hafi verið fram á að samningur aðila nr. 103734 sé gengistryggður í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi reisir kröfur sínar á framlögðum útreikningum frá PWC, dagsettum 8. júní 2015.  Við útreikninginn styðjist PWC við dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 464/2012.  Í þeim dómi, ásamt dómum réttarins í málum nr. 430/2013, 661/2013 og 544/2013, hafi rétturinn mótað regluna um gildi fullnaðarkvittana, sem feli í sér að hafi lántaki greitt vexti af samningi í samræmi við kröfur lánastofnunar, frá lántökudegi til þess dags þegar honum hafi mátt vera ljóst að samningurinn hafi verið ólögmætur, þá verði lántakinn ekki krafinn um vexti Seðlabanka Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, aftur í tímann.

Stefnandi telji einsýnt að skilyrði séu fyrir hendi til þess að víkja frá reglunni um viðbótarkröfu.  Í fyrsta lagi beri að líta til þess að stefnandi hafi verið í góðri trú og hvorki vitað né mátt vita að greiðslur hans væru ófullnægjandi þegar þær hafi verið inntar af hendi.  Stefnandi hafi á umræddu tímabili greitt stefnda í samræmi við greiðslutilkynningar stefnda og stefndi hafi tekið við greiðslum vegna vaxta og gefið út fyrirvaralausar kvittanir vegna þeirra.  Í öðru lagi sé aðstöðumunur aðila augljós.  Forveri stefnda hafi verið fjármálafyrirtæki, sem starfað hafi á lánamarkaði og boðið viðskiptavinum upp á lán með ólögmætri gengistryggingu.  Forveri stefnanda hafi hins vegar verið eignarhaldsfélag utan um Laugardalshöll og án nokkurrar sérþekkingar á sviði fjármála.  Ljóst megi því vera að það hafi staðið bankanum nær að gæta að því gagnvart stefnanda að samningurinn væri í samræmi við lög og bera áhættuna af því að svo hafi ekki verið gert.  Í þriðja lagi telji stefnandi engum vafa undirorpið að slík festa hafi verið á framkvæmd greiðslna af samningnum að það réttlæti frávik frá meginreglunni um viðbótarkröfu kröfuhafa.  Í fjórða lagi telji stefnandi það skilyrði uppfyllt að viðbótarkröfur vegna lánssamningsins teljist vera verulegar og að þær feli augljóslega í sér mikla röskun á stöðu stefnanda.  Raunverulegar vaxtagreiðslur stefnanda vegna lánsins nemi 25.008.357 krónum en endurreiknaðar vaxtagreiðslur nemi 76.677.548 krónum.  Viðbótarvextir nemi því 51.669.191 krónu, eða 43% af upphaflegum höfuðstól lánsins og 207% af greiddum vöxtum.  Þar af leiðandi megi ljóst vera að krafa stefnda um viðbótarvexti feli í sér slíka röskun á stöðu stefnanda að stefndi hefur misst rétt sinn til fullra efnda og sé þar af leiðandi óheimilt að krefjast viðbótarvaxta aftur í tímann.

Upphaflegur höfuðstóll lánsins hafi verið 273.000.000 króna en umþrættur lánshluti hafi numið 119.759.640 krónum.  Fyrir liggi að lánið hafi verið gert upp með lánssamningi milli stefnanda og forvera stefnda, dagsettum 9. desember 2010.  Uppgreiðslufjárhæð lánssamningsins hafi þá numið 392.408.514 krónum.  Þar af hafi 92.468.601 krónu verið ráðstafað til uppgreiðslu á legg lánsins gengistryggðum í evrum, 46.290.708 krónum til uppgreiðslu á legg gengistryggðum í bandaríkjadölum, 11.223.559 krónum til uppgreiðslu á legg gengistryggðum í japönskum jenum, 21.525.808 krónum til uppgreiðslu á legg gengistryggðum í svissneskum frönkum, og að 15.426.193 krónum til uppgreiðslu á legg gengistryggðum í sterlingspundum.  Samtals hafi greiðslurnar vegna gengistryggðu lánsleggjanna því numið 186.934.869 krónum.  Afborganir stefnanda á tímabilinu frá 20. júní 2006 til 25. nóvember 2010 hafi samtals numið 13.763.094 krónum.  Samtals hafi greiðslur stefnanda af hinum gengistryggða hluta lánsins því numið 200.697.963 krónum.  Þar sem upphaflegur höfuðstóll lánsins hafi verið 119.759.640 krónur liggi fyrir að stefnandi hafi ofgreitt 80.938.323 krónur við uppgreiðslu lánsins 13. desember 2010.

Aðal-, vara og þrautavarakrafa stefnanda eigi það sammerkt að þær geri ráð fyrir því að hluti láns samkvæmt samningi nr. 103734, alls 119.759.640 krónur, hafi verið bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Verði fallist á að lánshlutinn hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu, hafi stefnandi ofgreitt 80.938.323 krónur, samkvæmt útreikningum PWC og því sem að framan greinir.

Það sem greini á milli aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda sé hvaða vexti ofgreiðslan skuli bera, frá uppgreiðsludegi 13. desember 2010.  Stefnandi telji ótækt, verði fallist á að lánið hafi verið gengistryggt, að ofgreiðsla stefnanda beri enga vexti.  Nærtækast sé að styðjast við sömu vexti og lán samkvæmt framangreindum samningi frá 9. desember 2010, sem notað hafi verið til uppgjörs á láni samkvæmt samningi nr. 103734.  Samkvæmt 3. gr. samningsins beri lánið vexti sem verðtryggður vaxta­grunnur lánveitanda, „kjörvextir“.  Krafa stefnanda um vexti af ofgreiðslunni byggi á reglum kröfuréttar og skaðabótaréttar.  Eins og rakið hafi verið hafi stefnandi ofgreitt lánið um 80.938.323 krónur með lánssamningnum 9. desember 2010 og hafi stefnandi því greitt vexti af hærri fjárhæð í kjölfarið en stefndi hafi átt rétt á.  Tjón stefnanda nemi því þeim vöxtum sem hann hafi greitt af fyrrgreindu láni og af hærri höfuðstól en löglegt hafi verið.  Stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna þeirrar ólögmætu kröfu enda hafi stefndi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með ólögmætri kröfu á hendur stefnanda.  Orsakasamband sé milli háttsemi stefnda og tjóns stefnanda og sé tjón hans sennileg afleiðing af háttsemi stefnda.

Verði ekki fallist á að lánið beri kjörvexti stefnda sé til vara krafist vaxta á grundvelli 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, frá uppgreiðsludegi til þingfestingardags.  Stefnandi telji að rétt og sanngjarnt sé að ofgreiðsla gengistryggðra lána beri sömu vexti og lánin sjálf, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010.  Þá beri enn fremur að líta til þess að áður en 18. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010 hafi með ákvæðinu verið kveðið á um að ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teldist ógildur og hefði endurgjald verið greitt ranglega bæri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefði þannig ranglega af honum haft.  Við ákvörðun endurgreiðslu skyldi miða við vexti samkvæmt 4. gr. laganna, eftir því sem við gæti átt.  Styðji þetta enn frekar þá kröfugerð stefnanda að ofgreiðslukrafa stefnanda beri vexti á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001.

Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu sé þess krafist til þrautavara að krafan beri skaðabótavexti frá uppgreiðsludegi til þingfestingardags á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 eða fyrir lögjöfnun frá því ákvæði, sbr. einnig til hliðsjónar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, eins og síðastnefndum lögum var breytt með 1. gr. laga nr. 131/2002.  Þá sé á því byggt að endurgreiðslukrafa stefnanda sé í reynd skaðabótakrafa sem megi rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og og forvera hans, sem falist hafi í því að veita forvera stefnanda ólögmæt gengistryggð lán og senda stefnanda of háa greiðsluseðla vegna þeirra lána.  Stefnandi byggi á því að tjónið nemi þeirri ofgreiðslu sem hann hafi innt af hendi vegna hinna ólögmætu lána og því sé eðlilegt að endurgreiðslukrafan vegna umræddrar ofgreiðslu beri skaðabótavexti.  Þá byggi stefnandi á því að stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við uppgjör árið 2010 enda hafi hann haft í frammi ólögmætar fjárkröfur og krafið stefnanda um greiðslu gengistryggingar í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001.  Ólögmæt og saknæm háttsemi stefnda hafi valdið stefnanda fjártjóni og sé krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeim sökum.

Í öllum kröfuliðum sé krafist dráttarvaxta frá þingfestingardegi stefnu, 30. júní 2015.

Stefnandi byggir kröfur sínar á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna.  Vaxtakröfur sínar byggir hann á ákvæðum sömu laga, einkum 4., 6. og 8. gr.  Stefnandi vísar um kröfur sínar til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 386/2012.  Þá vísar stefnandi til reglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar og til laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Stefnandi byggir kröfu um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna. 

 

 

 

IV

 

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda og krefst sýknu af öllum dómkröfum hans en lækkun dómkrafna, verði ekki fallist á sýknukröfu.  Þá gerir stefndi fyrirvara við túlkanir stefnanda á einstökum dómum Hæstaréttar Íslands.

Stefndi byggir á því að þær skuldbindingar stefnanda samkvæmt umþrættum samningi, dags. 3. maí 2006, sem stefnandi telji ólögmætar, teljist lögmætar skuldbindingar í hinum erlendu gjaldmiðlum, bæði með hliðsjón af efni og framkvæmd samningsins.  Orðalag og uppbygging samnings­ins, athafnir samnings­aðila á grundvelli hans, þ.á m. útborgunarbeiðni stefnanda og staðfesting lánveitanda á henni í formi kaupnótu, framkvæmd útborgunar lánsfjárhæða og uppgreiðsla peningamarkaðslána stefnanda, og önnur atvik málsins, taki af skarið um að skuldbindingarnar séu að sönnu í erlendum gjaldmiðlum.  Öllum málsástæðum stefnanda til stuðnings öndverðri niðurstöðu sé mótmælt.

Eins og fram hafi komið beri umræddur samningur með sér að vera um „[l]án í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum verðtryggt/óverðtryggt“ samkvæmt auðkenningu á forsíðu samningsins.  Þá sé í inngangsorðum samningsins vísað til þess að lán samkvæmt honum „skiptist í tvo lánshluta allt eftir vali lántaka“, þ.e. lánshluta A, í erlendum gjaldmiðlum og/eða íslenskum krónum, og lánshluta B, verðtryggt lán í íslenskum krónum, „allt að jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum, 273.000.000 króna, með þeim skilmálum sem greini í samningnum.  Þetta orðalag geti ekki bent til annars en að stefnanda hafi verið heimilt að stofna til skuldbindinga í erlendum gjaldmiðlum samkvæmt samningnum.  Geti engu breytt í því sambandi þótt honum hafi jafnframt verið heimilt að stofna til skuldbindinga í íslenskum krónum, samkvæmt lánshluta A eða B.  Önnur ákvæði samningsins styðji jafnframt framangreint, sbr. t.d. 1. gr. um útborgunarbeiðni stefnanda, 2. gr. um að lánið skyldi endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af og að greiða skyldi lán í erlendum myntum inn á viðeigandi gjaldeyrisreikninga lánveitanda, 3. gr. um vexti og 4. gr. um myntbreytingarheimild stefnanda.

Hér skipti sérstöku máli, til viðbótar framangreindu, að samkvæmt efni og eðli umþrætts samnings hafi með honum verið afmarkaður rammi heildarlánsloforðs lánveitanda gagnvart forvera stefnanda.  Í samningnum hafi verið settur rammi um lánsviðskipti samningsaðila, meðal annars með ákvæðum um útborgun hugsanlegra einstakra lánshluta á grundvelli samningsins, endurgreiðslu þeirra og vexti af þeim, kæmi til þess að stefnandi léti reyna á rétt sinn til að fá lán á grundvelli samningsins.  Samningurinn hafi hins vegar ekki kveðið á um kröfurétt tiltekinnar fjárhæðar sem forveri stefnanda skuldaði lánveitanda.  Í þessu ljósi, og með hliðsjón af dóma­framkvæmd, geti það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli þótt heildarumfang lánsviðskiptanna hafi verið afmarkað í samningnum með tilgreiningu á jafnvirði fjárhæðar í íslenskum krónum.

Til samræmis við uppbyggingu samningsins megi ráða af útborgunarbeiðninni að stefnandi hafi nýtt rétt sinn samkvæmt samningnum til að fá 44% af heildarlánsfjárhæð samkvæmt inngangsorðum samningsins í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. í bandaríkjadölum, sterlingspundum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum.  Samhliða því hafi stefnandi nýtt rétt sinn til að fá 56% sömu heildar­lánsfjárhæðar í formi verðtryggðs láns.  Ráðstafa skyldi lánsfjárhæðum til að greiða upp „PM lán“ stefnanda hjá lánveitanda.  Öll afgreiðsla lánveitanda hafi tekið mið af þessu og beri sýnilega með sér að um lán í erlendum gjaldmiðlum hafi verið að ræða.  Lánsfjármunirnir hafi meðal annars verið millifærðir á gjaldeyrisreikninga í eigu bankans, sbr. fyrri umfjöllun.

Þótt erlendir gjaldmiðlar hafi ekki skipt um hendur með þeim hætti að þeir hafi verið lagðir inn á sérstaka reikninga í eigu forvera stefnanda við efndir lánveitanda á aðalskyldu sinni, þá hafi ástæða þess verið sú að lánsfjárhæðum skyldi ráðstafað til uppgreiðslu peningamarkaðslána forvera stefnanda hjá lánveitanda.  Þar af leiðandi hafi ekki þurft að leggja lánsfjárhæðirnar inn á reikninga hans.  Umrædd peninga­markaðslán hafi að stórum hluta verið í erlendum gjaldmiðlum.

Að því er varði framkvæmd lánveitanda á efndum sínum, skuli áréttað að í útborgunarbeiðni lántaka hafi sérstaklega verið tekið fram að lánveitanda væri „veitt heimild til að fá tilboð í og festa gengi vegna gjaldeyrisviðskiptanna sem til verða samhliða myntbreytingunni“.  Að mati stefnda sé hér sýnilega vísað til þeirra gjaldeyrisviðskipta og myntbreytinga, sem nauðsynlegar hafi verið til að greiða fyrrgreind peningamarkaðslán, enda ljóst að hinar eldri skuldbindingar hafi verið í öðrum gjaldmiðlum og fjárhæðum en skuldbindingarnar sem forveri stefnanda hafi stofnaði til samkvæmt umþrættum samningi.  Lánveitanda hafi verið fengin heimild, eða umboð, til að ráðstafa útborgunarfjárhæðum til uppgreiðslu hinna eldri skuldbindinga, og samhliða heimild, eða umboð, til að framkvæma nauðsynleg gjaldeyrisviðskipti, og þá í nafni forvera stefnanda.  Af þessum ástæðum jafnframt hafi engin nauðsyn staðið til þess að erlendir gjaldmiðlar yrðu lagðir inn á gjaldeyrisreikninga forvera stefnanda.  Málatilbúnaður í stefnu, þar sem ítrekað sé látið að því liggja að þessi viðskipti séu stefnanda alls óviðkomandi, standist því engan veginn.

Stefndi hafnar alfarið málatilbúnaði stefnanda sem lýtur að innlendum gjaldeyrisreikningum, með höfuðbók 38.  Því sé meðal annars hafnað að „þegar fjárhæð sé lögð inn á reikning með höfuðbók 38 felist ekki í því afhending á erlendum gjaldeyri heldur íslenskum krónum með gengistryggingu“, að það sé „útbreiddur misskilningur að með því að fá millifærslu inn á slíka gjaldeyrisreikninga þá flytjist gjaldeyrir til Íslands“, „að engin afhending á gjaldeyri felist í því að „leggja inn“ gjaldeyri á 38 reikning hér á landi, heldur sé þar einungis um færslu á blaði að ræða“ og að „[e]ina leiðin til þess að í raun afhenda gjaldeyri sé að leggja hann inn á reikning í eigu lántakans í banka í því landi sem gefur út viðkomandi gjaldeyri, eða að afhenda gjaldeyrinn í seðlum“.  Þessi málatilbúnaður stefnanda fari í bága við skýr dómafordæmi Hæstaréttar Íslands, t.d. í málum nr. 337/2015, 577/2014, 558/2014, 466/2014, 409/2014, 90/2014, 57/2014, 25/2014, 26/2014, 187/2014, 498/2013, 446/2013, 337/2013, 715/2013, 66/2012, 467/2011, 50/2012 og 3/2012.  Í öllum tilvikum hafi lánsskuldbindingar gagnvart innlendum fjármálafyrirtækjum verið taldar í erlendum myntum.  Af hálfu stefnda sé þvert á móti á því byggt að af ákvæðum laga nr. 38/2001 leiði að engar takmarkanir séu á lánveitingum innlendra lánastofnana í erlendum myntum.  Um þá lögskýringu vísist meðal annars til tilvísaðra dóma hér að framan, sbr. og einnig dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010.

Þá virðist málatilbúnaður stefnanda einfaldlega í andstöðu við eðli bankastarfsemi og innlánsreikninga, þ. á m. sá greinarmunur sem stefnandi geri á krónureikningum og gjaldeyrisreikningum.  Leiði hann raunar af sér ómöguleika þegar erlend lán séu annars vegar, nema því aðeins að lánveitingin fari fram fyrir tilstuðlan banka í heimalandi viðkomandi gjaldmiðils.  Það hafi ekki hingað til verið talin raunin í bankastarfsemi, þ. á m. alþjóðlegri bankastarfsemi.  Innistæðueigendur eigi jafnan rétt á að fá gjaldeyri afhentan við úttekt innistæðu, í þeim gjaldmiðli sem innistæðan sé í.  Við þessar aðstæður teljist fé í erlendum gjaldmiðlum í reynd hafa skipt um hendur í þeim skilningi sem hér skipti máli, sbr. og fyrrnefndur dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 66/2012.

Þá breyti engu þótt greiðslur forvera stefnanda á afborgunum og vöxtum hafi verið í íslenskum krónum, þar sem skýrlega hafi verið stofnað til skuldbindinga í erlendum gjaldmiðlum.  Þá hafi verið farið með greiðslurnar, í kerfis- og bókhaldslegu tilliti, eins og þær hefðu verið í erlendum gjaldmiðlum.  Forveri stefnda hafi skuldbundið sig til að greiða „lán í erlendum myntum inn á viðeigandi gjaldeyrisreikninga lánveitanda“, en gert hafi verið ráð fyrir að lánveitandi gæti heimilað forvera stefnanda að inna greiðslur sínar af hendi í íslenskum krónum, líkt og raunin hafi verið.

Við skýringu samningsins beri og að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.  Forveri stefnanda hafi, hvað sem öðru líði, með athafnaleysi sínu samþykkt að líta skuli svo á að umþrættar skuldbindingar hafi verið í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum.

Þá mótmæli stefndi sérstaklega umfjöllun stefnanda um að greiðsluseðlar feli í sér viðurkenningu lánveitanda á því að skuldbindingar séu gengistryggðar, og viðlíka umfjöllun.  Margsinnis hafi reynt á slík skjöl í dómaframkvæmd og málatilbúnaði sem þessum verið hafnað, enda sýni skjöl sem þessi einfaldlega stöðu skuldbindingar í íslenskum krónum sem og í erlendum myntum.  Íslenskir bankar geri upp í krónum og því eðli málsins samkvæmt nauðsynlegt að átta sig á krónustöðu krafna og skulda.  Greiðsluseðlarnir, vegna lánshluta í hinum erlendu myntum, séu til marks um að þær skuldbindingar stefnanda hafi verið í erlendum myntum, þvert á það sem stefnandi haldi fram.  Í greiðsluseðlunum sé enda vísað í „sölugengi“, sem sé einmitt til marks um að í reynd sé greiðslum í íslenskum krónum ráðstafað til kaupa á hinum erlendu myntum þótt hinar erlendu myntir skipti vissulega ekki um hendur milli aðila í þeim skilningi að millifærðir séu fjármunir af gjaldeyrisreikningum í hans eigu.  Vísast í þessu sambandi til framlagðra skjala um kerfis- og bókhaldslega meðhöndlun erlendra lána hjá stefnda og framlagðs yfirlits yfir greiðslur stefnanda vegna hvers lánshluta í bandaríkjadölum, sterlingspundum, svissneskum frönkum, japönskum jenum, evrum og íslenskum krónum.

Stefndi getur þess sérstaklega að ekki sé fyrir hendi ágreiningur um að uppgreiðsla skuldbindinga forvera stefnanda, samkvæmt umþrættum samningi, hafi farið fram með þeim fyrirvara sem fylgi lánssamningnum, dagsettum 9. desember 2010, sem og þeim fyrirvara sem fylgi „Umsókn um höfuðstólslækkun og myntbreytingu láns/lána í erlendri mynt“, dagsettri 10. janúar 2011.  Að því er síðari fyrirvarann varði, en skýra verði fyrri fyrirvarann með hliðsjón af honum, sé þess hins vegar að geta að hann hafi lotið að „mögulegum betri rétti [...] komist Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að skilmálar í erlendum lánum bankans, samkvæmt sams konar skuldaskjölum, uppfylli ekki þau skilyrði er rétturinn setur fram fyrir því að lán geti talist erlent“.  Sá fyrirvari hafi hins vegar gilt „um þau skuldaskjöl sem gefin verða út í samræmi við umsókn þessa og koma í stað hinna erlendu lána“, þ.e. um samninginn, dagsettan 9. desember 2010.  Fyrirvarinn hafi því einungis lotið að því að forveri stefnanda fyrirgerði ekki rétti til lækkunar á skuldbindingu sinni samkvæmt þeim samningi.  Stefndi byggir hins vegar á því að stefnandi hafi glatað hvers konar rétti til að hafa uppi fjárkröfu, í formi hreinnar endurgreiðslukröfu, enda ekki gerður fyrirvari um slíkt.  Fyrirvarinn hafi einnig verið háður því skilyrði að Hæstiréttur Íslands kæmist að þeirri niðurstöðu að skilmálar samkvæmt „sams konar skuldaskjölum“ teldust ólögmætir, en sú hafi ekki orðið raunin.

Þá sé réttur stefnanda niður fallinn sökum tómlætis, meðal annars í ljósi þess langa tíma sem liðinn sé, og hafi stefndi með réttu mátt vænta þess að ekki yrði höfð uppi hrein endurgreiðslukrafa.  Á hinn bóginn sé ljóst, vegna þeirrar sérstöku fyrningarreglu sem tekin hafi verið upp í lög nr. 38/2001, sbr. bráðabirgðaákvæði XIV, að eigi stefnandi á annað borð kröfurétt í formi endurgreiðslukröfu, teljist hann ekki fyrndur, en vextir eldri en fjögurra ára teljast þó alltaf fyrndir.  Stefndi telji einnig að hvers konar skaðabótaréttur teljist alltaf fyrndur, þ. á m. vextir af skaðabótakröfum.

Verði ekki fallist á það með stefnda að umþrættur samningur sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum, þá hafni stefndi því að útreikningar stefnanda verði lagðir til grundvallar.  Í útreikningum og málatilbúnaði stefnanda felist enda sú afstaða hans að ekki sé tekið tillit til réttra vaxtaviðmiðana.  Stefndi byggir á því að við þær aðstæður, sem hér um ræði, þá beri skuldbindingar samkvæmt samningnum umsamda REIBOR-vexti, sbr. 3. gr. samningsins, frá öndverðu og til uppgreiðsludags, enda hafi verið samið sérstaklega um slíka vexti af skuldbindingu í íslenskum krónum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 120/2011.  Verði ekki fallist á að skuldbindingin beri REIBOR-vexti samkvæmt framangreindu þá beri hún vexti samkvæmt 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá öndverðu til uppgreiðsludags, sbr. einnig lög nr. 151/2010.  Stefndi byggir á því að af almennum reglum um endurheimt ofgreidds fjár leiði að fjárhæð hvers konar endurgreiðslukröfu hljóti alltaf að takmarkast við þá fjárhæð sem lántaki hafi innt af hendi umfram það sem hann hafi réttilega átt að greiða, með tilliti til réttra vaxtaviðmiðana.  Fari ekki um úrlausnarefnið eftir almennum reglum um endurheimt ofgreidds fjár þá eigi stefndi hins vegar kröfu á hendur stefnanda um það sem vangreitt sé, í samræmi við meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem fengið hafi minna greitt en hann eigi rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé.  Kvittanir sem lánveitandi hafi gefið út til forvera stefnanda, leiði ekki til þess að stefndi hafi glatað viðbótarkröfu sinni, eins og hér standi á.

Kröfuréttur stefnanda sé reistur á ætlaðri ofgreiðslu fjárkrafna sem hann hafi verið krafinn um og virðist í grunninn reistur á því að reikna eigi út umþrætta skuldbindingu sem óverðtryggða og eftir svokallaðri „fullnaðarkvittanaaðferð“.  Stefndi vísar til þess að skuldarsambandi aðila vegna samningsins hafi lokið, samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins, með því að skuldbindingarnar hafi að fullu verið greiddar í desember 2010.  Ágreiningur aðila snúist því í eðli sínu ekki um hvort stefnda sé, eftir almennum reglum kröfuréttar, heimilt að krefja stefnanda um viðbótargreiðslu vegna vangreiddra vaxta, sbr. þó hér síðar, heldur fari um úrlausnarefnið eftir reglum um endurheimt ofgreidds fjár.

Sem fyrr segi sé á því byggt að fjárhæð hvers konar endurgreiðslukröfu stefnanda, eftir reglum um endurheimt ofgreidds fjár, hljóti alltaf að takmarkast við þá fjárhæð sem stefnandi hafi innt af hendi, umfram það sem hann hefði réttilega átt að greiða með tilliti til réttra vaxtaviðmiðana.  Því beri að líta alveg fram hjá ákvæðum umþrætts samnings um svokallaða LIBOR- og EURIBOR-vexti og leggja til grundvallar að skuldbindingin beri REIBOR-vexti eða vexti samkvæmt 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.  Stefndi leggi fram útreikninga sem miði við þessar forsendur.  Sé miðað við að skuldbindingar forvera stefnanda beri umsamda REIBOR-vexti frá öndverðu til uppgreiðsludags, 9. desember 2010, þá hafi skuldbindingin á þeim degi verið að fjárhæð 162.944.574 krónur.  Að teknu tilliti til innborgunar eða uppgreiðslu í desember 2010, að fjárhæð 166.755.475 krónur, hafi forveri stefnanda því ekki ofgreitt nema 3.810.901 krónu.  Sé miðað við sömu forsendur að öðru leyti en því að skuldbindingin beri vexti samkvæmt 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, frá öndverðu til uppgreiðsludags, þá hafi skuldbindingin verið að fjárhæð 167.143.514 krónur, 9. desember 2010.  Að teknu tilliti til innborgunar eða uppgreiðslu í desember 2010, að fjárhæð 166.755.745 krónur, hafi forveri stefnanda þá ekki ofgreitt, heldur þvert á móti vangreitt 388.039 krónur.  Að mati stefnda sé því ljóst að dómkröfur og málatilbúnaður stefnanda standist ekki skoðun, enda taki þær ekki tillit til framangreinds.

Þá byggir stefndi á því að sanngirnisrök mæli ekki með kröfum stefnanda sem byggi á meintum endurheimturétti hans.  Kröfurnar takmarkist enda ekki við þær fjárhæðir sem forveri stefnanda hafi innt af hendi umfram það sem hann hafi réttilega átt að greiða með tilliti til réttra vaxtaviðmiðana.  Ekki geti átt við það grunnskilyrði endurheimturéttar að stefndi myndi auðgast á kostnað stefnanda við endurútreikning sem tæki tillit til réttra vaxtaviðmiðana.  Þvert á móti verði að líta svo á að endurheimtukrafa stefnanda, sem miðist við að skuldbindingin sé íslensk óverðtryggð lánsfjárhæð sem beri aðeins lága erlenda vexti, í stað réttra vaxtaviðmiðana, teljist frekar fela í sér auðgun stefnanda á kostnað stefnda, eins og hér standi á.

Fari hins vegar um úrlausnarefnið eftir reglum kröfuréttar um rétt til viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð sé á því byggt að stefndi eigi þá kröfu á hendur stefnanda um vangreidda vexti, sbr. framlagða útreikninga stefnda.  Þar sem stefndi telji skuldbindingarnar ekki haldnar ólögmætri gengisviðmiðun hafi hann eðli máls samkvæmt ekki beint sérstakri kröfu að stefnanda.  Stefndi telji hins vegar að fari svo að skuldbindingarnar verði taldar haldnar ólögmætri gengistryggingu þá hljóti eðli málsins að leiða til þess að við útreikning, og þegar tekin sé afstaða til lögmætis hvers konar fjárkröfu stefnanda af því tilefni, beri að líta til þess hvort slíkri viðbótarkröfu verði komið við samkvæmt almennum reglum kröfuréttar.  Málatilbúnaður stefnanda feli þetta jafnframt í sér, þ.e. krafa hans sé grundvölluð á því að stefndi eigi ekki viðbótarkröfurétt.  Séu skilyrði viðbótarkröfuréttar talin uppfyllt, þá leiði af framangreindu, sem og útreikningum stefnda, að krafa stefnanda sé ekki 80.938.323 krónur, heldur 3.810.901 króna, sé miðað við REIBOR-vexti.  Sé miðað við vexti samkvæmt 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, þá eigi stefnandi enga kröfu á hendur stefnda heldur standi í skuld við hann, að fjárhæð 388.039 krónur.

Stefndi vísar til þess að samkvæmt meginreglu kröfuréttar eigi kröfuhafi, sem hafi fengið minna greitt en hann eigi rétt til, kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé.  Frá meginreglunni séu þó undantekningar, meðal annars að fullnaðar­kvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu.  Tilkalli kröfuhafa til viðbótargreiðslu verði þó einungis hafnað af þeim sökum við sérstakar aðstæður.  Þau atriði sem litið hafi verið til við mat á því hvort efni séu til að víkja frá meginreglunni séu hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er, hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans hafi verið ófullnægjandi þegar hann hafi innt hana af hendi.  Þá hafi í annan stað verið litið til þess hvort sá aðstöðumunur hafi verið á aðilum að það réttlæti að viðbótarkröfu sé hafnað og í framhaldi af því hvorum þeirra standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leitt hafi til þess að vangreitt hafi verið.  Í þeim efnum hafi einkum verið litið til þess hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök hafi komið fram þar til að krafa hafi verið höfð uppi, hvorum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssamband sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu.  Öll eru þessi atriði ásamt öðrum til viðmiðunar og ekkert eitt þeirra geti ráðið úrslitum um hvort vikið verði frá meginreglunni.  Heildarmat á aðstæðum öllum ráði, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari séu rökin til að víkja frá meginreglunni.

Stefnandi beri fyrir sig undantekningu frá meginreglu kröfuréttar.  Á stefnanda hvíli því sú byrði að sanna, gegn andmælum stefnda, að viðbótarkröfuréttur feli í sér umtalsvert óhagræði fyrir stefnanda.  Það sé ósannað og í öllu falli vanreifað af hálfu stefnanda.  Í málinu liggi ekkert fyrir um að viðbótarkröfuréttur valdi slíkri röskun á fjárhagslegri stöðu stefnanda að skilyrði séu til að víkja frá þeim rétti.  Mat á þessu ráðist væntanlega af, meðal annarra atriða, fjárhagslegum upplýsingum sem snúi að stefnanda sjálfum, sem stefnandi hafi ekki reifað neinar málsástæður um.  Stefndi telji þetta leiða til sýknu af kröfum stefnanda.  Hvað sem líði skorti stefnanda á sönnun telji stefndi lagaskilyrði viðbótarkröfuréttar uppfyllt.  Sé því þar af leiðandi hafnað að þær sérstöku aðstæður séu fyrir hendi sem réttlæti frávik frá viðbótarkröfurétti og slíkt að minnsta kosti ósannað, sem fyrr segir.

Að mati stefnda sé ekki unnt að líta svo á að forveri stefnanda hafi verið í sérstaklega góðri trú um að vextir væru endanlega greiddir þegar hann hafi greitt afborganir sínar, því lánsmyntin, sem hafi verið forsenda vaxtanna, hafi átt eftir að sæta endurskoðun.  Forvera stefnanda hafi vart getað dulist samhengi milli mynt­tilgreiningar og vaxtaviðmiðunar og það hljóti að skipta máli við heildarmatið.  Sérstaklega hafi verið samið um mismunandi vexti af lánsfjárhæðum í íslenskum krónum og erlendum myntum og ákvæði 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 hafi að sönnu verið í gildi á því tímabili sem greiðslur forvera stefnanda hafi verið inntar af hendi.

Ekki verði heldur séð að sá aðstöðumunur sé með aðilum sem Hæstiréttur Íslands hafi lagt til grundvallar í sumum dóma sinna og verði stefnanda engan veginn jafnað við einstakling, lítið fyrirtæki eða dreifbýlissveitarfélag.  Vísast í þessu sambandi meðal annars til framlagðra ársreikninga forvera stefnanda og framlagðra ársreikninga stefnanda.  Stefndi telji að taka beri mið af samstæðu forvera stefnanda í þessu sambandi og líta þá meðal annars til þess að móðurfélag hans, nú stefnandi, sé í eigu Reykjavíkurborgar og Samtaka iðnaðarins.  Þá hljóti forveri stefnanda að teljast hafa verið í samningsstöðu til að hafa áhrif á einstök atriði í skilmálum umþrætts samnings, auk þess sem hann sé í eðli sínu gagnkvæmur.

Því sé einnig mótmælt að slík festa hafi verið komin á framkvæmd samningsins að það réttlæti að vikið sé frá meginreglunni.  Lánið hafi verið til 30 ára og skyldi endurgreiðast með 360 mánaðarlegum greiðslum afborgana og vaxta, fyrst 20. júní 2006.  Því sé ljóst að fyrir uppgreiðslu í desember 2010 hafi forveri stefnanda ekki greitt nema hluta af umsömdum afborgunum og þar með af skuldbindingum sínum.

Þá sé því sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda að útreikningar stefnanda verði lagðir til grundvallar varðandi umfang viðbótarkröfu.  Stefndi telji umfang viðbótarkröfu ekki slíkt að það standi viðbótarkröfurétti í vegi, að teknu tilliti til atvika allra og aðstæðna.  Upphafleg höfuðstólsfjárhæð sé frá árinu 2006 og því í reynd önnur og um leið umtalsvert hærri á þeim tíma sem hér skipti máli, að teknu tilliti til verðlagsþróunar.  Höfuðstólsfjárhæð umþrætts lánshluta, að jafnvirði 120.120.000 krónur, framreiknuð frá maí 2006 fram til desember 2010, miðað við vísitölu neysluverðs, sé 170.125.087 krónur.  Hið sama eigi einnig við um vaxtagreiðslur stefnanda sem séu umtalsvert hærri á þeim tíma sem hér skipti máli en þegar þær hafi verið inntar af hendi.  Taka verði tillit til þessa við mat á umfangi viðbótakrafna stefnda.  Þá beri að líta til þess að fjárhæð REIBOR-vaxta og vaxta samkvæmt 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, miðað við hvern vaxtagjalddaga sem lántaka hefði þá borið að greiða hefði lánið frá öndverðu talist óverðtryggt í íslenskum krónum, geti aldrei talist veruleg í þessu sambandi eða í hvers konar samanburði við upphaflega höfuðstólsfjárhæð, greidda vexti eða fjárhagsstöðu lántaka eða stefnanda.

Með vísan til framangreinds telji stefndi að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði til að víkja megi frá umræddri meginreglu kröfuréttar, svo sem málatilbúnaður stefnanda byggi á.  Stefnandi, sem beri fyrir sig undantekningu frá meginreglu, verði að bera allan halla af hvers konar vafa í því tilliti.

Málatilbúnaður stefnanda sem byggi á skaðabótaréttarlegum sjónarmiðum, sem virðist raunar takmarkaður við umfjöllun um vexti, sé vanreifaður.  Auk þess mótmæli stefndi því að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi, þ. á m. skilyrði um saknæmi og ólögmæta háttsemi, enda hafi stefndi, og fyrirrennari hans, enga ástæðu haft til að ætla að ekki væri um gild lán að ræða, hvorki við stofnun hins umþrætta samnings né uppgjör hans.  Eins sé ljóst, að væri háttsemi stefnda metin honum til sakar, þá ætti það sama við um stefnanda og hljóti hann að hafa firrt sig skaðabótarétti að öllu leyti eða að hluta vegna eigin sakar.  Þá væru skaðabótakröfur alltaf fyrndar og skaðabótakröfur á hendur Glitni banka hf. hafi þar að auki ekki verið fluttar yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, sem leiði þá til sýknu vegna aðildarskorts.  Gildi þessi umfjöllun líka um vaxtakröfur stefnanda, eftir því sem við eigi.

Í málinu geri stefnandi aðal-, vara- og þrautavarakröfu en eini munurinn á þeim felist í vaxtakröfum stefnanda.  Sú fjárhæð sem stefnandi krefjist úr hendi stefnda sé hins vegar alltaf sú sama, 80.938.323 krónur.  Verði fallist á forsendur málatilbúnaðar stefnanda, sem stefndi mótmæli, fallist stefndi ekki á útreikninga stefnanda eða dómkröfur.  Stefndi geri í fyrsta lagi þá athugasemd við útreikninga og dómkröfu stefnanda að ekki sé miðað við rétta útgreidda lánsfjárhæð, en stefnandi virðist ekki taka tillit til 0,3% lántökugjalds.  Miða beri útreikninga við að útborguð lánsfjárhæð hafi verið 120.120.000 krónur en ekki 119.759.640 krónur, eins og stefnandi geri.  Í öðru lagi virðist stefnandi ekki miða við rétt gengi við umreikning.  Í þriðja lagi miði stefnandi við ranga uppgreiðslufjárhæð umþrætts samnings í desember 2010 en hún hafi verið 166.755.475 krónur, að teknu tilliti til höfuðstólslækkunar að fjárhæð 20.361.298 krónur og áfallinna vaxta vegna þess hluta lánsins sem hafi verið í verðtryggðum íslenskum krónum, að fjárhæð 615.734 krónur.  Með vísan til framlagðra útreikninga stefnda telji stefndi að krafa stefnanda, verði fallist á málatilbúnað hans, geti aldrei verið hærri en 60.405.620 krónur.

Stefndi fallist heldur ekki á að meint krafa stefnanda geti borið vexti frá uppgreiðslu-/endurfjármögnunardegi eins og stefnandi geri kröfu um og sé vöxtunum mótmælt, þ. á m. vaxtafæti, upphafstíma og málsástæðum þeim til grundvallar.

Því sé sérstaklega mótmælt að það sé „nærtækast“ eða „eðlilegast“ að krafan beri vexti samkvæmt samningnum frá 9. desember 2010, eða að slík vaxtaviðmiðun eigi sér stoð í reglum kröfuréttar eða skaðabótaréttar eða öðrum réttarreglum.  Þetta sé enda órökstutt af hálfu stefnanda.  Því sé einnig mótmælt að skilyrði skaðabóta­ábyrgðar séu fyrir hendi.  Stefndi hafi, á uppgjörsdegi í desember 2010, mátt ætla að um lögmæta skuldbindingu hafi verið að ræða.  Þá sé einnig óútskýrt með hvaða hætti og á hvaða grunni vextirnir breytist og málatilbúnaðurinn að því leyti vanreifaður.

Því sé einnig mótmælt að meint krafa stefnanda geti borið vexti samkvæmt 4., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, enda leiði slík vaxtaviðmiðun ekki af „samningi, venju eða lögum“ og því raunar ekki borið við af hálfu stefnanda.  Gildi einu þótt stefnandi telji „að rétt og sanngjarnt sé að ofgreiðsla gengistryggðra lána beri sömu vexti og lánin sjálf“.  Þá eigi 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og hún hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 151/2010, sýnilega ekki við í þessu tilviki og lögskýringu stefnanda sé mótmælt.

Þá geti krafa stefnanda ekki borið vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001.  Ekki sé um skaðabótaskylda háttsemi að ræða og ekki unnt að lögjafna frá ákvæðinu eða lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.  Því sé mótmælt að endurgreiðslukrafa stefnanda sé í reynd skaðabótakrafa sem rekja megi til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og forvera hans.  Skilyrði skaðabóta­ábyrgðar séu ekki fyrir hendi og séu fullyrðingar stefnanda þess efnis ósannaðar.  Þá séu skilyrði fyrir lögjöfnun ekki fyrir hendi.

Stefndi mótmælir jafnframt dráttarvaxtakröfu stefnanda.  Verði fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda sé þess krafist að dráttarvextir reiknist fyrst frá dóms­uppkvaðningu.  Þá hljóti vextir eldri en fjögurra ára alltaf að teljast fyrndir, enda taki uppgjörsregla laga nr. 151/2010 ekki til vaxta af endurgreiðslukröfum og skaðabóta­kröfum.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010, til meginreglna fjármunaréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga og takmörk endur­heimturéttar og meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð vegna þess sem vangreitt telst.  Stefndi vísar einnig til reglna skaðabótaréttar um skilyrði skaðabótaábyrgðar.

Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

V

 

Í máli þessu greinir aðila á um hvort hluti, lánshluti A, umþrætts samnings, dagsetts 3. maí 2006, sem upphaflega var gerður milli Glitnis banka hf. og Fasteignafélagsins Laugardals ehf. hafi verið skuld í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Byggja dómkröfur stefnanda á því að framangreindur lánshluti hafi verið í íslenskum krónum og að skilmálar lánsins um tengingu fjárhæða við gengi erlendra gjaldmiðla sé ólögmæt og óskuldbindandi fyrir hann.  Óumdeilt er að lánið var gert upp með nýju láni hjá stefnda, dagsettu 9. desember 2010.  Byggir stefnandi á því að hann hafi við uppgjörið ofgreitt stefnda sem nemi kröfu hans í málinu.

Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001.  Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.  Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni.  Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindinginn er tilgreind í þeim.  Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur Íslands fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.  Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.

Ákvæðum umþrætts lánssamnings er lýst hér að framan.  Samkvæmt fyrirsögn og meginmáli samningsins gátu lánshlutar á grundvelli hans hvort heldur verið í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum.  Í samningnum sjálfum er hann sagður vera að jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar, 273.000.000 króna, en ekki er tekið fram í hvaða gjaldmiðlum lánið eigi að vera heldur skírskotað til óska lántaka.  Segir að lánið skiptist í tvo lánshluta, A og B, „allt eftir vali lántaka“.  Lán sem féllu undir lánshluta B skyldu vera verðtryggð lán í íslenskum krónum með fasta vexti.  Lán sem sem féllu undir lánshluta A gátu hvort heldur verið í erlendum myntum eða íslenskum krónum.  Væru þau í íslenskum krónum skyldu þau bera svonefnda REIBOR-vexti, án verð- og gengistryggingar.  Væru þau í erlendum myntum skyldu þau ýmist bera LIBOR- eða EURIBOR vexti.  Af þessum texta samningsins verður tæplega ráðið að vilji aðila hafi staðið til þess að lán samkvæmt samningnum yrði í heild sinni í íslenskum krónum og þá bundið gengistryggingu.  Ákvæði samningsins um vexti og heimild lánveitanda til að umreikna lánshluta í erlendum myntum í íslenskar krónur við gjaldfellingu þess og reikna á það dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 samræmast því einnig að lántaka hafi, á grundvelli samningsins, verið unnt að óska eftir láni í erlendum myntum.  Í sömu átt hníga ákvæði samningsins um heimild lántaka til myntbreytinga.  Þá bar lántaka að senda lánveitanda tilkynningu um það í hvaða myntum hann hygðist taka lánið og í hvaða hlutföllum.

Lán samkvæmt samningnum skyldi laust til útborgunar 10. maí 2006 og er í samningnum gert ráð fyrir því að lántaki sendi lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara.  Er jafnframt gert ráð fyrir því að með útborgunarbeiðni tiltaki lántaki í hvaða myntum hann hyggist taka A hluta lánsins og í hvaða hlutföllum og að lánið verði þá eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum, samkvæmt heimild samningsins.  Í framlagðri útborgunarbeiðni, dagsettri 16. maí 2006, er óskað eftir því að umdeildur lánshluti „í erlendum myntum“ nemi 44% af lánsfjárhæðinni, alls 119.759.640 krónum.  Eru hlutföll hinna erlendu mynta tilgreind og jafnvirði hvers mynthluta í íslenskum krónum.  Samkvæmt útborgunarbeiðninni skyldi ráðstafa láninu til að „greiða upp PM lán“ Fasteignafélagsins Laugardals ehf. og leggja það sem eftir stæði inn á tékkareikning félagsins í íslenskum krónum.  Á framlagðri kaupnótu kemur heildarfjárhæð lánsins fram í íslenskum krónum og skipting þess og fjárhæð hvers leggs bæði í íslenskum krónum í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum.  Einnig liggur fyrir í málinu skjal sem ber yfirskriftina „gjaldeyrispöntun“ með sömu tilgreiningu lánsfjárhæðar.  Þrátt fyrir að skjalið sé unnið einhliða af bankanum verður gildi þess ekki dregið í efa, þ.e. að það sýni fram á að erlendir gjaldmiðlar hafi verið pantaðir í tengslum við lánveitinguna.  Kemur þar fram að til útborgunar hafi komið erlendir gjaldmiðlar í samræmi við framangreinda útborgunarbeiðni og kaupnótu.

Samkvæmt framlögðum staðfestingum, útgefnum af Glitni banka hf. á árunum 2005 og 2006, voru framlengd peningamarkaðslán Fasteignafélagsins Laugardals ehf. gerð upp 16. maí 2006, sama dag og framangreind útborgunarbeiðni er dagsett.  Staða lánanna á þeim degi var 700.893,38 evrur, 164.516.559 krónur og 96.148.341 japanskt jen.  Þá leggur stefndi fram samninga um gjaldmiðlaviðskipti, gefna út af Glitni banka hf. 16. maí 2006.  Samkvæmt þeim var hluti hinna erlendu gjaldmiðla, sem lánaðir voru samkvæmt umþrættum lánssamningi og útborgunarbeiðni samkvæmt honum, seldir fyrir íslenskar krónur sem svo voru notaðar til að kaupa erlenda gjaldmiðla.  Þeir gjaldmiðlar sem þannig voru keyptir voru notaðir ásamt hluta þeirra gjaldmiðla sem lánaðir voru samkvæmt umþrættum samningi til að gera upp peninga­markaðslánin, í samræmi við fyrrgreind skjöl.  Verður því talið að stefnda hafi, með framangreindum skjölum og málatilbúnaði sínum, tekist að sýna fram á að lán samkvæmt umþrættum samningi hafi að stærstum hluta til verið notað til að gera upp peningamarkaðslán forvera stefnanda sem ýmist voru í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, að ósk forvera stefnanda.  Ekki er því fallist á það með stefnanda að gjaldeyrisviðskipti innan bankans hafi verið honum alls óviðkomandi.  Verður þar af leiðandi fallist á það með stefnda að fé í erlendum gjaldmiðlum hafi skipt um hendur þegar Glitnir banki hf. efndi aðalskyldu sína samkvæmt samningnum þrátt fyrir að forveri stefnanda hafi ekki fengið þá með beinum hætti í sínar vörslur.  Þá bera framlagðir greiðsluseðlar, útgefnir af Glitni banka hf. árið 2008, með sér að umþrættur lánshluti hafi eftirleiðis einungis verið tilgreindur með fjárhæðum hinna erlendu gjaldmiðla.  Eru atvik að þessu leyti því ólík atvikum máls í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 386/2012, sem stefnandi vísar til, til stuðnings kröfum sínum.

Fallist er á það með stefnanda að það geti haft þýðingu að umræddur samningur og útborgunarbeiðni hafi ekki að geyma nánari tilgreiningu á fjárhæð lánsins í hinum erlendu gjaldmiðlum heldur einungis í íslenskum krónum.  Í ljósi ítrekaðra dómafordæma Hæstaréttar Íslands getur þetta atriði, eitt og sér, þó ekki ráðið úrslitum heldur verður einnig að líta til annarra atriða, eins og til annarra ákvæða lánssamnings og þess hvernig aðilar efndu meginskyldur sínar.  Í því sambandi verður ekki litið fram hjá því að framangreind gjaldeyrisviðskipti fór fram í tengslum við lánveitinguna og að lán, sem forveri stefnanda tók á grundvelli umþrætts samnings, var notað til að greiða upp peningamarkaðslán sem ýmist voru í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, í samræmi við óskir forvera stefnanda.  Þá bera önnur ákvæði samningsins sjálfs og framlögð skjöl sem gefin voru út í tengslum við lánveitinguna, þar með taldir framlagðir greiðsluseðlar, með sér að umþrættur hluti lánsins hafi verið í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum.  Eru þessi atvik að mörgu leyti sambærileg atvikum í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 466/2014.  Þá verður ekki fallist á málsástæður stefnanda sem lúta að því að erlendur gjaldeyrir geti ekki skipt um hendur með millifærslu milli reikninga á Íslands og vísast um það til fjölmargra dóma Hæstaréttar Íslands, t.d. í framangreindu máli nr. 466/2014.

Óumdeilt er í málinu að lánið var gert upp með öðru láni í íslenskum krónum í desember 2010 en getur það eitt og sér ekki hreyft framangreindri niðurstöðu, í ljósi ítrekaðra dómafordæma Hæstaréttar Íslands.

Að öllu þessu virtu verður að hafna málsástæðum stefnanda sem lúta að því að lánið hafi í reynd verið í íslenskum krónum og leggja til grundvallar að samið hafi verið um lán að hluta í erlendum gjaldmiðlum hvað varðar lánshluta A umþrætts samnings.  Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir þessa niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Íþrótta- og sýningarhallarinnar hf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.

 

Hervör Þorvaldsdóttir