Námskeið fyrir starfsfólk dómstólanna

Rafræn skjöl og réttaráhrif þeirra - 31. október
Í þriðja og síðasta hluta námskeiðalotunnar verður fjallað um rafræn skjöl og hvaða breytingar eru framundan á grundvelli réttaráhrifa þeirra sem grunnur er lagður að með eIDAS reglugerðinni. Til umræðu verða þau skref sem reglugerðin stígur, ásamt því að tæpa á því sem reglugerðin skilur eftir til ákvörðunar innanlands og hvaða áhrif það getur haft.
Fyrirlesari: Elfur Logadóttir lögfræðingur hjá ERA en hún er með framhaldsmenntun í upplýsingatæknirétti frá Háskólanum í Osló.
Hvenær: Miðvikudaginn 31. október kl. 12.00-13.30
Hvar: Í fundarsal dómstólasýslunnar, Suðurlandsbraut 14, 108 Reykjavík.
Skráning hér á rafræn skjöl
Fonsjuris á 40 mínútum - 7. nóvember
Farið verður yfir hvernig best er að nota leitarmöguleika sem FJ býður uppá.
Fyrirlesari: Einar Sigurbergsson, vöruþróunarstjóri FonsJuris.
Hvenær: Miðvikudagur 7. nóv. kl. 12.00-13.00
Hvar: Í fundarsal dómstólasýslunnar
Skráning hér á FonsJuris á 40 mínútum
Mansal - 15. nóvember
Fyrir dómara og aðstoðarmenn
Einstakt tækifæri fyrir dómara og aðstoðarmenn til að hlusta á fyrirlestur Barböru Martinez sem kemur hingað á vegum dómsmálaráðuneytisins í samvinnu við bandaríska sendiráðið. Hér er hægt að lesa um Barböru: https://www.law.miami.edu/faculty/barbara-martinez
Fyrirlesari: Barbara Martinez yfirmaður „Special Prosecutions Section“ fyrir bandaríska dómsmálaráðuneytið.
Hvenær: Fimmtudagur 15. nóvember kl. 15.30-17.00
Hvar: Í fundarsal dómstólasýslunnar, Suðurlandsbraut 14, 108 Reykjavík. Einnig er hægt að vera á fjarfundi.
Skráning hér á námskeið um Mansal
Nýlegir dómar EFTA-dómstólsins og hagnýt atriði er lúta að beiðni um ráðgefandi álit– 21. nóvember
Fyrir dómara og aðstoðarmenn
Í fyrri hluta námskeiðsins verður farið yfir áhugaverða dóma EFTA-dómstólsins frá síðustu árum með sérstakri áherslu á atriði úr dómaframkvæmd sem hefur raunhæfa þýðingu fyrir dómara, s.s. varðandi dóma sem lúta að áhrifum EES-réttar í landsrétti. Einnig verður litið til ákvarðana frá eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
Í síðari hluta verður vikið að því hvernig rétt sé að standa að beiðni um ráðgefandi áliti til EFTA-dómstólsins. Má þar nefna á hvaða tímamarki sé rétt að leita til EFTA-dómstólsins, hvaða atriða æskilegt sé að dómari hafi mótað sér afstöðu til áður en sendir beiðnina, hvernig beiðnin skuli vera úr garði gerð o.s.frv. Þá verða eldri beiðnir um ráðgefandi álit frá Íslandi og hinum EFTA-ríkjunum skoðaðar sem dæmi um hvernig best sé að haga beiðninni.
Fyrirlesarar: Páll Hreinsson forseti EFTA-dómstólsins og Ólafur Jóhannes Einarsson ritari EFTA-dómstólsins.
Hvenær: Miðvikudagur 21. nóvember kl. 15.30-18.30
Hvar: Í fundarsal dómstólasýslunnar, Suðurlandsbraut 14, 108 Reykjavík. Einnig er hægt að vera á fjarfundi.
Skráning hér á nýlega dóma EFTA dómstólsins
Vísdómur - Meðferð ágreiningsmála við gjaldþrotaskipti
Í 5. þætti laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er mælt fyrir um ýmis ágreiningsefni sem lögð verða fyrir héraðsdóm samkvæmt lögunum, svo sem vegna greiðslustöðvunar, nauðasamninga og gjaldþrotaskipta.
Á námskeiðinu verður stuttlega vikið að þeim grundvallarskilyrðum sem þurfa að vera uppfyllt til að kröfur um gjaldþrotaskipti nái fram að ganga fyrir dómi. Þá verður sérstök áhersla lögð á þær reglur sem gilda um þá málsmeðferð sem viðhafa ber þegar ágreiningur rís milli aðila vegna krafna um gjaldþrotaskipti.
Fjallað verður um helstu flokka slíkra ágreiningsefna og jafnframt gerð grein fyrir því á hvaða hátt málsmeðferð í slíkum ágreiningsmálum er frábrugðin hefðbundinni málsmeðferð í einkamálum, sbr. lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Skráning hér á gjaldþrotanámskeið

Alþjóðleg námskeið