Rafræn gátt komin í gagnið

Síðastliðinn miðvikudag fór fyrsta ákæran ásamt gögnum frá héraðssaksóknara til Héraðsdóms Reykjavíkur í gegnum rafræna gátt. Þetta skref markar tímamót í rafrænum samskiptum í dómskerfinu en dómstólasýslan stefnir að því að allir héraðsdómstólarnir verði komnir með rafræn samskipti við héraðssaksóknara, lögreglu og verjendur innan fárra mánaða.

Nýr farvegur samskipta
Haustið 2017 hleypti fyrirrennari dómstólasýslunnar, dómstólaráð, af stað tilraunaverkefninu „rafrænn dómari“ með héraðssaksóknara en það fól í sér að héraðssaksóknari afhenti mál á pdf. formi til Héraðsdóms Reykjavíkur á minnislyklum ásamt frumriti málsgagna. Síðan afhenti dómurinn verjendum minnislykla með gögnum mála en gríðarlegt pappírsmagn sparaðist með þessu.

Á þessum tíma var ekki komin örugg leið til að senda gögn rafrænt milli aðila en dómsmálaráðuneytið setti síðan fjármuni í gerð rafrænnar gáttar fyrir réttarvörslukerfið. Á miðvikudag var ákveðið að héraðssaksóknari myndi senda fyrsta rafræna sakamálið. Að því tilefni mætti sendinefnd frá Héraðsdómi Reykjavíkur, ásamt Benedikt Bogasyni formanni stjórnar dómstólasýslunnar og Höllu Björgu Baldursdóttur verkefnastjóra réttarvörslugáttarinnar, til héraðssaksóknara sem setti ákæru ásamt gögnum inn í gáttina. Sendinefndin, sem var með fartölvu í farteskinu tók á móti ákærunni, stofnaði mál og vistaði skrárnar.

Héðan í frá munu sakamál berast frá héraðssaksóknara í gegnum gáttina og hægt verður að senda gögnin áfram með sama hætti til verjenda sem veita þeim viðtöku með því að notast við rafræn skilríki.

Með þessu skrefi hefur skapast farvegur fyrir rafræn samskipti á milli héraðsdóms, ákæruvalds og verjenda. Um leið skapast tækifæri til að feta næstu skref, sem verður m.a. að lögmenn í einkamálum og ágreiningsmálum munu senda dóminum gögn með sama hætti og að tekið verði við áfrýjun mála.

 

 

Starfsmenn Héraðsdóms Reykjavíkur ásamt fulltrúum héraðssaksóknara, dómstólasýslunnar og réttarvörslugáttarinnar.