Fundargerðir stjórnar dómstólasýslunnar

Frá janúar 2019 birtast fundargerðir stjórnar dómstólasýslunnar hér á heimasíðunni. Með því að smella á númerin fást fundargerðirnar eftir tímaröð.

2019

D Ó M S T Ó L A S Ý S L A N

1. fundur, 16. janúar 2019

 

Árið 2019, miðvikudaginn 16. janúar, var haldinn fundur stjórnar dómstólasýslunnar í fundarherbergi dómstólasýslunnar að Suðurlandsbraut 14. Fundinn sátu, Benedikt Bogason, Halldór Björnsson, Hervör Þorvaldsdóttir og Kristín Haraldsdóttir, auk Ólafar Finnsdóttur, framkvæmdastjóra og Írisar Elmu Guðmann verkefnastjóra, sem ritaði fundargerð.

Benedikt Bogason stjórnaði fundi og setti hann kl. 12:10.

 

Fundarefni:

 

 1. Fundargerð 19. fundar 2018.

   

  Fundargerðin var samþykkt.

   

 2. Málatölur 2018 og ársskýrsla.

   

  Fram voru lagðar málatölur héraðsdómstólanna, Landsréttar og Hæstaréttar á árinu 2018. Formaður gerði nánari grein fyrir málatölum dómstólanna en fækkun þingfestra munnlegra fluttra einkamála við Héraðsdóm Reykjavíkur á liðnu ári vakti einkum athygli ásamt því að við Héraðsdóm Reykjaness voru kveðnir upp fleiri gæsluvarðhaldsúrskurðir á árinu en við Héraðsdóm Reykjavíkur. Þingfest munnleg flutt einkamál við Héraðsdóm Reykjavíkur á liðnu ári voru samtals 585 samanborið við 712 á árinu 2017. Þá var einnig fækkun ákærumála við dómstólinn eða úr 679 á árinu 2017 í 602 á árinu 2018. Á sama tíma varð fjölgun ákærumála við Héraðsdóm Reykjaness, ákærumál voru 433 á árinu 2017 en 514 á árinu 2018. Rannsóknarúrskurðir við Héraðsdóm Reykjaness voru 653 á árinu 2018, þar af 227 gæsluvarðhaldsúrskurðir, en rannsóknarúrskurðir voru 648 við Héraðsdóm Reykjavíkur, þar af 213 gæsluvarðhaldsúrskurðir. Við Héraðsdóm Reykjavíkur eru 25 dómarar en 8 dómarar við Héraðsdóm Reykjaness.

   

  Samþykkt var að fela formanni og framkvæmdastjóra að eiga fund með dómstjórum Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness til þess að ræða málatölur liðins árs og fjölda stöðugilda við dómstólana, sbr. 3.mgr. 7.gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla.

  Málið verður tekið fyrir að nýju á næsta fundi stjórnar.

   

  Formaður sagði frá því að vinna væri hafin við ársskýrslu dómstólasýslunnar, héraðsdómstólanna, Landsréttar og Hæstaréttar fyrir árið 2018 og stefnt sé að útgáfu hennar í marsmánuði.

   

 3. Námskeið fyrir dómkvadda matsmenn 15. og 16. janúar 2019.

  Framkvæmdastjóri sagði frá námskeiði dómstólasýslunnar og Lögmannafélags Íslands fyrir dómkvadda matsmenn sem haldið var daga 15. og 16. janúar 2019. Á námskeiðinu, sem um 30 manns sóttu, var farið m.a. yfir hlutverk matsmanna og starf þeirra frá dómkvaðningu til skila á matsgerð og/eða mætingu fyrir dóm. Við lok námskeiðsins var farið í Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem héraðsdómari og aðstoðarmaður dómara upplýstu nánar um samskipti dómkvaddra matsmanna við dómstólana.

   

 4. Málþing um réttaröryggi fatlaðs fólks 17. janúar 2019.

  Framkvæmdastjóri sagði frá málþingi dómstólasýslunnar, réttindavaktar félagsmálaráðuneytisins og mennta- og þróunarseturs lögreglunnar en um eitthundrað manns voru skráðir til þátttöku. Framsögu á málþinginu munu hafa Elís Kjartansson rannsóknarlögreglumaður, Jón Þorsteinn Sigurðsson réttindagæslumaður, Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari, Kristin Booth Glenn fyrrverandi dómari í New York, Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, Phil Moris, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður í Manchester og Svavar Kjarval laganemi.

   

 5. Heimsókn Hæstaréttar Íslands til dómstólasýslunnar.

  Formaður sagði frá fyrirhugaðri heimsókn Hæstaréttar Íslands til dómstólasýslunnar í byrjun febrúarmánaðar. Samþykkt að bjóða sömuleiðis Landsrétti til heimsóknar til dómstólasýslunnar.

   

 6. Önnur mál.

  Íris Elma Guðmann, sem kjörin var af starfsmönnum dómstóla í stjórn dómstólasýslunnar, hefur verið ráðin til starfa hjá dómstólasýslunni og fékk samhliða því lausn frá setu í stjórn dómstólasýslunnar. Varamaður hennar, Erna Björt Árnadóttir, dómritari við Héraðsdóm Reykjaness, tekur sæti hennar þar til kjör nýs aðalsmanns er yfirstaðið. Samþykkt að boða til rafrænnar kosningar um nýjan aðalmann í stjórn dómstólasýslunnar sem fyrst.

 

Formaður vakti athygli á því að frumvarp um birtingu dóma er ekki lengur að finna á frumvarpslista dómsmálaráðuneytisins. Því er mikilvægt að dómstólasýslan hugi að samræmingu reglna um birtingu dóma á öllum dómstigum. Samþykkt að dómstólasýslan vinni drög að reglum um samræmda birtingu dóma á öllum dómstigum og fái í kjölfarið fulltrúa frá öllum dómstigum að málinu.

 

Fleiri mál voru ekki rædd.

Næsti fundur stjórnar ákveðinn 29. janúar 2019 kl. 15:00.

Fundi slitið kl. 13:30.

 

 Benedikt Bogason

Hervör Þorvaldsdóttir             

Halldór Björnsson                  

Kristín Haraldsdóttir                                                    

D Ó M S T Ó L A S Ý S L A N
2. fundur, 29. janúar 2019

Árið 2019, þriðjudaginn 29. janúar, var haldinn fundur stjórnar dómstólasýslunnar í fundarherbergi dómstólasýslunnar að Suðurlandsbraut 14. Fundinn sátu Benedikt Bogason, Halldór Björnsson, Kristín Haraldsdóttir, Davíð Þór Björgvinsson og Erna Björt Árnadóttir. auk Ólafar Finnsdóttur, framkvæmdastjóra og Írisi Elmu Guðmann verkefnastjóra, sem ritaði fundargerð.
Benedikt Bogason stjórnaði fundi og setti hann kl. 15:05.

Fundarefni:1. Fundargerð 1. fundar 2019.

Fundargerðin var samþykkt.

 

2. Umsögn dómstólasýslunnar um frumvarp til laga um breytingu á ákvæðum upplýsingalaga.

Formaður gerði nánari grein fyrir málinu.
Dómstólasýslan gerir í megindráttum ekki athugasemdir við þær breytingar sem leiða af frumvarpinu og fela meðal annars í sér að upplýsingalög taki til dómstóla og dómstólasýslunnar með þeim takmörkunum sem nánar er mælt fyrir um í frumvarpinu og leiðir af reglum laganna. Í þeim takmörkunum felst meðal annars að lögin gilda ekki um gögn í vörslum dómstóla um meðferð einstakra dómsmála og endurrit úr dómabók og þingbók. Til viðbótar við þetta vill dómstólasýslan leggja til að gerðarbækur dómstólanna verði undanþegnar upplýsingarétti, enda standa ekki frekari rök til að þau gögn verði undirorpin upplýsingarétti en annað það sem talið er í 6. gr. laganna. Umsögn dómstólasýslunnar í þessa veru verið komið á framfæri við forsætisráðuneytið.

 

 

3. Upplýsingaöryggisstefna dómstólasýslunnar.

Framkvæmdastjóri gerði nánari grein fyrir tilgangi og markmiðum upplýsingaöryggisstefnu sem er m.a. að tryggja öryggi þeirra upplýsinga sem verða til, berast eða eru varðveitt hjá dómstólunum. Lögð er áhersla á að stefnan er bindandi fyrir alla starfsmenn dómstólanna sem og alla þjónustuaðila sem meðhöndla gögn og kerfi dómstólanna.
Stefnan er samþykkt og verður kynnt starfsmönnum og birt á vef dómstólasýslunnar.

 

4. Málatölur héraðsdómstólanna 2018.

Á fundi stjórnar dómstólasýslunnar 16. janúar sl. voru málatölur héraðsdómstólanna til umræðu. Fækkun þingfestra munnlegra fluttra einkamála við Héraðsdóm Reykjavíkur á liðnu ári vakti einkum athygli ásamt því að við Héraðsdóm Reykjaness voru kveðnir upp fleiri gæsluvarðhaldsúrskurðir á árinu en við Héraðsdóm Reykjavíkur. Þingfest munnleg flutt einkamál við Héraðsdóm Reykjavíkur á liðnu ári voru samtals 585 samanborið við 712 á árinu 2017. Þá var einnig fækkun ákærumála við dómstólinn eða úr 679 á árinu 2017 í 602 á árinu 2018. Á sama tíma varð fjölgun ákærumála við Héraðsdóm Reykjaness, ákærumál voru 433 á árinu 2017 en 514 á árinu 2018. Rannsóknarúrskurðir við Héraðsdóm Reykjaness voru 653 á árinu 2018, þar af 227 gæsluvarðhaldsúrskurðir, en rannsóknarúrskurðir voru 648 við Héraðsdóm Reykjavíkur, þar af 213 gæsluvarðhaldsúrskurðir. Við Héraðsdóm Reykjavíkur eru 24 dómarar en 8 dómarar við Héraðsdóm Reykjaness. Stjórn dómstólasýslunnar samþykkti að fela formanni og framkvæmdastjóra að eiga fund með dómstjórum Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness til þess að ræða málatölur liðins árs og fjölda stöðugilda við dómstólana, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og leggja málið fyrir að nýju á næsta fundi. Áður hafði verið ákveðið að fela faranddómurum að vinna að sakamálum við dómstólinn ásamt því að Hjörtur O. Aðalsteinsson hefur fallist á að vinna að sakamálum til þess að létta álagið á dómstólnum.
Samþykkt í ljósi fyrirliggjandi málatalna með hliðsjón af 5. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla að fela framkvæmdastjóra að bjóða dómurum við Héraðsdóm Reykjavíkur sem áhuga kunna hafa á því að skipta um starfsvettvang að flytja starfsstöð sína tímabundið til Héraðsdóms Reykjaness. Tímasetning á væntanlegum flutningi liggur enn ekki fyrir og verður ákveðin í samráði við aðila. Lögð er áhersla á að um tímabundna ráðstöfun er að ræða sem sætir endurskoðun svo fljótt sem verða má. Ákveðið að taka málið fyrir að nýju á næsta fundi.

5. Afrit bréfs Gunnars Aðalsteinssonar dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness, dags. 21. janúar sl. til dómsmálaráðuneytisins.

Gunnar Aðalsteinsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness, hefur vakið athygli dómsmálaráðuneytisins á því að honum bera að veita lausn frá störfum til samræmis við ákvæði 5. mgr. 52. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 en hann verður sjötugur 13. nóvember nk.

6. Önnur mál.

Formaður sagði frá fundi hans og framkvæmdastjóra með ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra fjármála og lagaskrifstofu þar sem framtíðarsýn ráðuneytisins um dómhús á stjórnarráðsreit voru m.a. til umræðu. Þá var einnig rætt um frumvarp um breytingu á ákvæðum laga um dómstóla um birtingu dóma og myndatökur í dómhúsum sem ráðuneytið hefur tekið af lista yfir frumvörp ríkissjórnar sem gert er ráð fyrir að verði afgreidd á vorþingi. Formaður lagði áherslu á mikilvægi þess að dómstólasýslunni verði fengið umboð til þess að setja samræmdar reglur um birtingu dóma á öllum dómstigum.

Fleiri mál voru ekki rædd.
Næsti fundur stjórnar ákveðinn þriðjudaginn 19. febrúar 2019 kl. 15.
Fundi slitið kl. 16.00.Benedikt Bogason

Davíð Þór Björgvinsson
Halldór Björnsson
Erna Björt Árnadóttir
Kristín Haraldsdóttir


D Ó M S T Ó L A S Ý S L A N
3. fundur, 19. febrúar 2019


Árið 2019, þriðjudaginn 19. febrúar, var haldinn fundur stjórnar dómstólasýslunnar í fundarherbergi dómstólasýslunnar að Suðurlandsbraut 14. Fundinn sátu Benedikt Bogason, Halldór Björnsson, Kristín Haraldsdóttir, Hervör Þorvaldsdóttir og Bergþóra Benediktsdóttir. auk Ólafar Finnsdóttur, framkvæmdastjóra og Írisi Elmu Guðmann verkefnastjóra, sem ritaði fundargerð.
Benedikt Bogason stjórnaði fundi og setti hann kl. 15:20. Bergþóra Benediktsdóttir, nýkjörinn fulltrúa í stjórn dómstólasýslunnar, var boðin velkomin til starfa.

Fundarefni:


1. Fundargerð 2. fundar 2019.

Fundargerðin var samþykkt.

2. Héraðsdómur Reykjaness og Héraðsdómur Reykjavíkur. Samkomulag um flutning dómara.

Formaður gerði nánari grein fyrir málinu.
Í samræmi við ákvörðun á síðasta fundi dómstólasýslunnar var öllum dómurum við Héraðsdóm Reykjavíkur gefinn kostur á að færa starfsvettvang sinn til Héraðsdóms Reykjaness. Þar sem enginn dómari óskaði eftir því kemur í hlut dómstólasýslunnar að ákveða hvaða dómari verði færður til í starfi. Arnaldur Hjartarson hlaut síðast skipun í embætti við dóminn og hefur honum af þeim sökum verið kynnt að til standi að hann verði fyrir valinu. Af því tilefni hefur honum verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við dómstólasýsluna. Arnaldur hefur fyrir sitt leyti fallist á þetta þótt hann hefði frekar kosið að starfa áfram við Héraðsdóm Reykjavíkur. Dómstólasýslan áréttar að um tímabundna ráðstöfun er að ræða og því verður Arnaldi gefinn kostur á að koma aftur til starfa við Héraðsdóm Reykjavíkur um leið og embætti dómara verður laust við dóminn.

Samþykkt.

3. Beiðni um setningu dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra.

Stjórn dómstólasýslunnar hefur samþykkt ósk Erlings Sigtryggssonar dómstjóra Héraðsdóms Norðurlands eystra um veikindaleyfi frá 11.febrúar sl. til 1. september nk. Þá ákvað stjórn dómstólasýslunnar á grundvelli 2.mgr. 35.gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla að fara þess á leit við dómsmálaráðuneytið að dómari verði settur í embættið frá 1. mars 2019 til 1. september 2019. Með vísan til 2. mgr. 31. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla gegnir Halldór Björnsson héraðsdómari við Héraðsdóm Norðurland eystra embætti dómstjóra á meðan veikindaleyfi stendur.

4. Til umsagnar frumvarp allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um breytingu á eml. og sml. (táknmálstúlkar).

Stjórn dómstólasýslunnar telur að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu vera til bóta og gerir engar athugasemdir við efni þess.

5. Námsleyfi dómstjóra Héraðsdóms Austurlands frá 1. desember 2019.

Formaður vakti máls á væntanlegu námsleyfi dómstjóra Héraðsdóms Austurlands sem hefst 1. desember nk. og mikilvægi þess að hugað verði tímanlega að mönnun embættisins á meðan námsleyfi hans stendur.

6. Vefgátt réttarvörslukerfisins – staða verkefnisins.

Brynhildur Þorgeirsdóttir, sérfræðingur á fjármálaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins mætti á fundinn kl. 15:45. Brynhildur sagði frá stöðu verkefnis ráðuneytisins um réttarvörslugátt en eitt meginmarkmiða verkefnisins er að gögn réttarvörslukerfisins verði aðgengileg rafrænt, þvert á stofnanir, með öruggum hætti. Brynhildur lagði áherslu á að samstarf þvert á stofnanir réttarvörslukerfisins er lykilatriði fyrir framvindu verkefnisins og sömuleiðis að að stofnanir haldi að sér höndum við að fara eigin leiðir á meðan verkefninu stendur. Leiðarljósið er aukin skilvirkni, öryggi gagna, aðgengi og rekjanleiki þeirra. Fjármagn hefur verið veitt til verkefnisins til næstu þriggja ára og áætlun um að því verði lokið fyrir þann tíma.
Brynhildur Þorgeirsdóttir vék af fundi kl. 16:10.

7. Önnur mál.

Áður ákveðinn fundur stjórnar með dómstjórum héraðsdómstólanna sem átti að halda 8. mars nk. er frestað til 15.mars nk. kl. 15:00.Fleiri mál voru ekki rædd.
Næsti fundur stjórnar ákveðinn föstudaginn 15. mars 2019 kl. 14:00.
Fundi slitið kl. 16:25.
Benedikt Bogason
Hervör Þorvaldsdóttir
Halldór Björnsson
Bergþóra Benediktsdóttir
Kristín Haraldsdóttir


D Ó M S T Ó L A S Ý S L A N
4. fundur, 15. mars 2019

 

Árið 2019, föstudaginn 15. mars, var haldinn fundur stjórnar dómstólasýslunnar í fundarherbergi dómstólasýslunnar að Suðurlandsbraut 14. Fundinn sátu Benedikt Bogason, Halldór Björnsson, Kristín Haraldsdóttir, Hervör Þorvaldsdóttir og Bergþóra Benediktsdóttir. auk Ólafar Finnsdóttur, framkvæmdastjóra og Írisi Elmu Guðmann verkefnastjóra, sem ritaði fundargerð.
Benedikt Bogason stjórnaði fundi og setti hann kl. 14:00.

 

Fundarefni:

 

1. Fundargerð 3. fundar 2019.

Fundargerðin var samþykkt.


2. Landsréttur, dómur Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars 2019. Viðbrögð dómstólasýslunnar.

Formaður gerði nánari grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Eftirfarandi bókun var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu atkvæði Hervarar Þorvaldsdóttur.

Eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll 12. þessa mánaðar í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi (mál nr. 26374/18) hefur dómstólasýslan haft til meðferðar viðbrögð við dóminum. Í þeim efnum hefur formaður stjórnar dómstólasýslunnar og framkvæmdastjóri átt ítarlegar viðræður við fulltrúa dómsmálaráðuneytisins og nokkra af dómurum við Landsrétt, auk þess sem haft hefur verið samráð við réttarfarsnefnd. Að öllu þessu virtu fer dómstólasýslan þess á leit við ráðuneytið að það hlutist til um lagabreytingu um að heimilt verði að fjölga dómurum við Landsrétt. Þetta tekur mið af því að fjórir dómarar við réttinn geta að óbreyttu ekki tekið þátt í dómstörfum. Án þess að gripið verði til þessa úrræðis mun álagið við réttinn aukast verulega með tilheyrandi drætti á meðferð mála. Áður en endanleg ákvörðun verður tekin um af Íslands hálfu að óska eftir að málinu verði vísað til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins leggur dómstólasýslan jafnframt ríka áherslu á að áhrif slíks málsskots verði könnuð. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga þá óvissu sem Landsréttur hefur mátt búa við allt frá því að hann tók til starfa 1. janúar 2018. Einnig telur dómstólasýslan mikilvægt að traustum stoðum verði skotið undir Landsrétt, svo fljótt sem verða má, í stað þess að lagalegur grundvöllur hans verði áfram dreginn í efa. Dómstólasýslan er reiðubúin til samráðs og að veita alla aðstoð í þessu sambandi.


3. Fjármálaáætlun 2020-2024

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fyrirliggjandi drögum að fjármálaáætlun sem byggir á ákvæðum laga nr. 123/2015 um opinber fjármál en ráðherra skal leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Í greinargerð með fjármálaáætlun skal kynna stefnumótun ráðherra fyrir einstök málefnasvið, þar á meðal dómstóla. Í áætlun skal gera grein fyrir helstu áherslum og markmiðum, þ.m.t. gæða- og þjónustumarkmiðum, greina frá nýtingu fjármuna og helstu áherslum um innkaup.

Fjármálaáætlun var samþykkt með áorðnum breytingum varðandi mælikvarða um málsmeðferðartíma í héraði og um traustmælingar. Framkvæmdastjóra var falið að gera ráðuneytinu grein fyrir þeim breytingum.


4. Fundur með dómstjórum héraðsdómstólanna.

Kl. 15 hófst fundur stjórnar dómstólasýslunnar með dómstjórum og öðrum stjórnendum héraðsdómstólanna en á fundinn mættu: Barbara Björnsdóttir, Gunnar Aðalasteinsson, Bergþóra Ingólfsdóttir, Halla Jónsdóttir og Jenný Jónsdóttir. Með aðstoð fjarfundarbúnaðar tóku þátt, Ásgeir Magnússon, Halldór Halldórsson og Ólafur Ólafsson. Elín Sigurðardóttir ritaði fundargerð.

Á fundinum var m.a. kynnt og farið yfir:

a) Stöðu á innleiðingaráætlun fyrir nýtt upplýsingakerfi héraðsdómstólanna og skjalamál o.fl.
b) Verkefnastjóri sagði frá því að innleiðing hefst við Héraðsdóm Suðurlands mánudaginn 25. mars nk. Þar næst verði kerfið sett upp hjá Héraðsdómi Vesturlands og Héraðsdómi Vestfjarða 13. maí nk. Við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Norðurlands vestra 20. maí nk. Við Héraðsdóm Reykjaness 3. júní nk. og loks Héraðsdóm Reykjavíkur 11. júní nk. ef allt gengur að óskum. Mikilvægur þáttur í innleiðingu á hinu nýja kerfi er þjálfun starfsmanna á hverjum dómstól fyrir sig en tilnefndir hafa verið sérstakir ,,ofurnotendur“ sem gegna lykilhlutverki í ferlinu, hver á sínum dómstól. Skjalastjóri sagði frá mikilvægi þess að samhliða innleiðingu á nýju upplýsingakerfi verði lögð áhersla á samræmda skráningu mála á öllum héraðsdómstólum og samræmdan frágang og vistun gagna. Endurnýjun tölvubúnaðar héraðsdómstólanna er að mestu yfirstaðin og dómstólarnir því betur í stakk búnir til þess að nýta upplýsingakerfið til fullnustu.

c) Nýting talgreinis við vinnslu dómsmála. Dómstólasýslan hefur kynnt sér notkun talgreinis hjá Alþingi en þar eru þingræður ritaðar og birtar beint á vef þingsins án þess að mannshöndin komi þar nærri. Unnið er að kostnaðarmati á mögulegri innleiðingu fyrir dómstólana en vænta má að mikið hagræði fylgi af nýtingu slíks búnaðar hjá dómstólunum.

d) Dómstóladagurinn. Stefnt er að sameiginlegum fræðsludegi allra dómstólanna 6. september nk. þar sem umfjöllunarefnið verður m.a. upplýsingatækni og öryggismál.

Fleiri mál voru ekki rædd.
Næsti fundur stjórnar ákveðinn miðvikudaginn 27. mars 2019 kl. 15:00.
Fundi slitið kl. 16:40.
Benedikt Bogason

Hervör Þorvaldsdóttir

Halldór Björnsson

Bergþóra Benediktsdóttir

Kristín Haraldsdóttir

D Ó M S T Ó L A S Ý S L A N
5. fundur, 27. mars 2019

 

Árið 2019, miðvikudaginn 27. mars, var haldinn fundur stjórnar dómstólasýslunnar í fundarherbergi dómstólasýslunnar að Suðurlandsbraut 14. Fundinn sátu Benedikt Bogason, Bergþóra Benediktsdóttir, Davíð Þór Björgvinsson og Halldór Björnsson, sem tók þátt í fundinum með aðstoð fjarfundarbúnaðar, auk Ólafar Finnsdóttur, framkvæmdastjóra sem ritaði fundargerð. Hervör Þorvaldsdóttir og Kristín Haraldsdóttir boðuðu forföll. Guðni Bergsson varamaður Kristínar Haraldsdóttir gat ekki tekið sæti á fundinum vegna annarra starfa.
Benedikt Bogason stjórnaði fundi og setti hann kl. 15:00.


Fundarefni:

1. Fundargerð 4. fundar 2019.

Fundargerðin var samþykkt.


2. Bréf dómsmálaráðuneytisins dags. 19. mars 2019. Tilnefning aðal- og varamanns í endurupptökunefnd.

Formaður gerði nánari grein fyrir málinu og rætt um tilnefningu í endurupptökunefnd.
Málinu frestað til næsta fundar.

3. Ársskýrsla 2018 – drög til kynningar.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir fyrirliggjandi drögum að ársskýrslu dómstólasýslunnar og dómstólanna fyrir árið 2018 en það er eitt lögbundinna hlutverka dómstólasýslunnar að safna saman og birta upplýsingar um fjölda og afgreiðslu mála við dómstóla ásamt því að gefa út ársskýrslu. Tölfræðiupplýsingar sem birtar verða í skýrslunni eru unnar með aðstoð Hæstaréttar og Landsréttar. Tölfræðiupplýsingar héraðsdómstólanna eru birtar til samræmis við það sem áður hefur verið gert enda byggja þær á upplýsingum úr núverandi málaskrárkerfi þeirra. Ársskýrslan verður gefin út og birt á vef dómstólasýslunnar.

4. Landsréttur - staða mála.

Formaður gerði nánari grein fyrir málinu en enn liggja ekki fyrir upplýsingar um viðbrögð stjórnarvalda við þeirri stöðu sem uppi er varðandi réttinn. Á fundinum var m.a. rætt um að fljótlega færu áhrif þess að fjóra dómara vantar við réttinn að segja til sín og hætta væri á að mál færu að safnast upp og möguleg viðbrögð við því.


5. Önnur mál.
- Rætt var um nýlega dóma sem kveðnir hafa verið upp annars vegar í Hæstarétti og Landsrétti varðandi sérfróða meðdómsmenn þar sem dómar voru ómerktir og vísað heim í hérað að nýju á grundvelli skipan dóms með tveimur sérfróðum meðdómsmönnum.
Samþykkt að fela dómstólasýslunni að vekja athygli á framangreindum dómum.

- Rætt var um opnun Barnahúss á Akureyri 1. apríl nk. sem hefur í för með sér mikla breytingu varðandi aðstöðu til skýrslutökur yfir börnum. Halldór Björnsson, starfandi dómstjóri við Héraðsdóm Norðurlands eystra, og stjórnarmaður dómstólasýslunnar mun flytja ávarp við opnunina og flytja kveðjur stjórnar dómstólasýslunnar.
-

Fleiri mál voru ekki rædd.
Næsti fundur stjórnar ákveðinn miðvikudaginn 24. apríl 2019 kl. 15:00.
Fundi slitið kl. 16:25.


Benedikt Bogason

Davíð Þór Björgvinsson

Halldór Björnsson

Bergþóra Benediktsdóttir