Reglur dómstólasýslunnar nr. 2/2024
LEIÐBEINANDI

 

1. gr.
Almennt.

Eftirfarandi reglur gilda um ákvörðun málskostnaðar þegar stefna er árituð í útivistarmáli eftir 113. gr. laga nr. 91/1991. Miðað er við að ákvörðun um málskostnað, skv. 4. gr. þessara reglna, taki tillit til kostnaðar af samningu stefnu í máli. Ekki er tekið tillit til kostnaðar við birtingu stefnu, þingfestingargjalda sem renna í ríkissjóð vegna málsins, sannanlegs milliinnheimtukostnaðar eða annars kostnaðar af því tagi. Sá kostnaður bætist því við fjárhæð sem ákveðin er skv. 4. gr.
Reglur þessar taka mið af XXI. kafla laga nr. 91/1991, IV. kafla lögmannalaga nr. 77/1998 og innheimtulaga nr. 95/2008.


2. gr.
Grundvöllur viðmiðunar.

Þegar stefna er árituð í útivistarmáli liggja til grundvallar ákvörðun um málskostnað öðru fremur sjónarmið um vinnu að baki gerð stefnunnar. Þó er í undantekningartilfellum heimilt að líta til annarra atriða, svo sem ef um sérfræðilega ráðgjöf er að ræða. Við ákvörðun málskostnaðar er heimilt að líta til þess ef um mörg samkynja mál er að ræða milli sömu aðila sem öll eru þingfest í sama þinghaldi. Einnig má líta til þess ef útivist hefur orðið af hálfu stefnda í máli sem áður hefur ítrekað verið frestað að kröfu stefnda.

 


3. gr.
Áhrif þess að vanrækja að senda innheimtuviðvörun.

Nú hefur innheimtuviðvörun skv. 7. gr. laga nr. 95/2008 ekki verið send skuldara áður en mál er höfðað og samningi er ekki fyrir að fara þar sem vikið er frá því ákvæði og skal þá málskostnaður að jafnaði ákveðinn í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. Ef mörg mál eru rekin milli sömu aðila skal tekið tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

 


4. gr.
Einstaka fjárhæðir málskostnaðarákvörðunar.

Málskostnaður skal að jafnaði ákveðinn innan eftirfarandi viðmiðunarflokka. Fjárhæð miðast við aðila sem er ekki með virðisaukaskattskylda starfsemi:

a. Einfalt innheimtumál 68.000 – 136.000 krónur.
Í þennan flokk falla að jafnaði kröfur samkvæmt skuldabréfi, víxli, tékka, reikningi eða reikningsyfirliti.
b. Viðameiri innheimtumál 136.000 – 204.000 krónur
Miðað er við að mál taki til viðameiri álitaefna en mál samkvæmt staflið a.
c. Viðamikil mál með umfangsmikilli gagnaöflun 204.000 – 340.000 krónur
Miðað er við að um sé að ræða mál þar sem veruleg gagnaöflun hefur farið fram og álitaefni eru flókin.
Ef mál eru enn stærri í sniðum hvað varðar álitaefni og hagsmuni er heimilt að ákveða málskostnað hærri en að framan greinir, þó að hámarki 680.000 krónur.

 

5. gr.
Endurskoðun.

Reglur þessar sæta endurskoðun um viðmiðunarfjárhæðir þegar dómstólasýslan telur þess þörf í ljósi verðlagsþróunar.

 


6. gr.
Heimild og gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2024 og jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1/2021.

 

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
21. desember 2023

Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.