Reglur dómstólasýslunnar nr. 3/2024
LEIÐBEINANDI

 

1. gr.
Tilnefning sérfróðs meðdómsmanns.

Sérfróður meðdómsmaður skal tilnefndir úr röðum umsækjenda að undangenginni opinberri auglýsingu. Einnig verður meðdómsmaður tilnefndur eftir ábendingu dómara eða að tilhlutan dómstólasýslunnar. Þá getur dómstólasýslan tilnefnt meðdómsmann til meðferðar einstaks máls.
Dómstólasýslan skal ganga úr skugga um að þeir sem eru tilnefndir hafi fullnægjandi þekkingu og reynslu til að geta gengt starfi sérfróðs meðdómanda í dómsmálum á viðkomandi sérsviði og að þeir fullnægi almennum hæfisskilyrðum, sbr. 3. mgr. 39. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016.
Dómstólasýslan ákveður eftir þörfum hvenær auglýst er eftir sérfróðum meðdómsmönnum til tilnefningar. Upplýsingar um tilnefningu sérfróðra meðdómsmanna skulu vera á vefsíðu dómstólasýslunnar.
Dómstólasýslan ákveður á hvaða fagsviðum sérfróðir meðdómsmenn skuli tilnefndir og hversu margir á hverju fagsviði. Ákvarðanir dómstólasýslunnar um fagsvið og fjölda tilnefninga skulu miðast við það að tryggja að þörfum dómstólanna sé mætt hverju sinni.

 


2. gr.
Umsókn um tilnefningu.

Í umsókn um tilnefningu sem sérfróður meðdómsmaður skal umsækjandi gera ítarlega grein fyrir menntun sinni og starfsreynslu á viðkomandi fagsviði. Umsóknareyðublað fyrir tilnefningu skal vera aðgengilegt á vefsíðu dómstólasýslunnar.
Með umsókn skal fylgja nýlegt sakavottorð og námsskírteini umsækjanda. Ef ástæða þykir til getur dómstólasýslan óskað eftir frekari gögnum frá umsækjanda.

 


3. gr.
Listi yfir tilnefnda meðdómsmenn og tilkynning um tilnefningu.

Þeir sem hljóta tilnefningu sem sérfróðir meðdómsmenn skal skipað á lista yfir þá og skal hann birtur á vefsíðu dómstólasýslunnar. Listi yfir sérfróða meðdómsmenn skal uppfærður reglulega.
Dómstólasýslan skal tilkynna með tölvupósti um tilnefningu til þess sem hana hefur hlotið. Nú hefur sérfróður meðdómsmaður verið tilnefndur til meðferðar einstaks máls, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016, og skal þá tekið fram í tilkynningunni að tilnefningin sé bundin við það mál.
Með tilkynningu skv. 2. mgr. skal fylgja til undirritunar drengskaparheit sérfróðs meðdómsmanns og skal það endursent dómstólasýslunni.

 


4. gr.
Upphaf og lok tilnefningar.

Tilnefning sérfróðs meðdómsmanns tekur gildi þegar honum er send tilkynning um tilnefninguna skv. 2. mgr. 3. gr.
Tilnefning er til fimm ára og fellur hún sjálfkrafa niður að þeim tíma liðnum. Eftir ósk viðkomandi verður tilnefning endurnýjuð til fimm ára í senn.
Þegar tilnefning tekur til meðferðar einstaks máls fellur hún niður þegar máli er lokið.
Tilnefning fellur sjálfkrafa niður ef sá sem tilnefndur er missir almennt hæfi sitt skv. 3. mgr. 39. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016. Jafnframt getur dómstólasýslan fellt tilnefninguna niður ef veigamiklar ástæður mæla með því eða sá sem tilnefndur er óskar þess.

 


5. gr.
Þóknun.

Við ákvörðun þóknunar til sérfróðs meðdómsmanns skal dómsformaður áætla fjölda vinnustunda vegna yfirlesturs málsgagna og annars undirbúnings fyrir aðalmeðferð og fjölda vinnustunda eftir dómtöku máls. Við mat á þessu getur dómsformaður óskað eftir að meðdómsmaðurinn leggi fram sundurliðaða tímaskýrslu.
Fyrir áætlaðan fjölda vinnustunda skv. 1. mgr. að viðbættum þeim tíma sem þinghöld með meðdómsmanninum hafa tekið skulu greiddar 17.000 krónur fyrir hverja klukkustund. Frá því tímagjaldi má víkja ef sérstakar ástæður eru til.

 

6. gr.
Útlagður kostnaður.

Greiða skal útlagðan ferðakostnað sérfróðs meðdómsmanns í samræmi við reglur ferðakostnaðarnefndar, sbr. auglýsing nr. 3/2015 um akstursgjald ríkisstarfsmanna. Ef meðdómsmaður þarf að ferðast um lengri veg vegna meðferðar málsins skulu greiddir dagpeningar, sbr. auglýsing nr. 2/2017. Annar útlagður kostnaður skal greiddur eftir reikningi.

 


7. gr.
Heimild og gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 1. og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Reglurnar öðlast gildi 1. janúar 2024.


Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar 21. desember 2023.


Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.