Dómstólar hafa það hlutverk að skera úr um ágreining milli aðila og hvort einstaklingar, lögaðilar eða opinberir aðilar hafi brotið gegn lögum.

Þjónusta á sviði dómstólanna og tengt efni

Meginmarkmið þjónustu dómstólanna og dómstólasýslunnar

Réttlát opinber málsmeðferð

Grundvallarregla réttarríkis er réttlát og opinber málsmeðferð. Þinghöld í dómsmálum eru yfirleitt opin og úrlausnir dómstóla eru aðgengilegar þannig að allir geti fylgst með störfum þeirra.

Sjálfstæðir og óvilhallir dómstólar

Dómarar eru sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn máls fara þeir eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra eða láta óviðkomandi sjónarmið hafa áhrif á störf sín. Dómstólasýslan virðir og stuðlar að sjálfstæði dómstóla í störfum sínum.

Traust til dómstóla

Gagnsæi er undirstaða trausts. Dómstólarnir og dómstólasýslan vinna að því að gera hlutverk og starfsemi dómstóla sýnilega í samfélaginu.

Samræmd framkvæmd dómstóla stuðlar að trausti. Dómstólar og dómstólasýslan vinna að því að tryggja samræmi við framkvæmd verkefna dómstóla.

Notendamiðuð og nútímaleg þjónusta

Upplýsingum um starfsemi dómstóla er miðlað á notendavænan og nútímalegan hátt. Leitast er við að tryggja að starfsfólk dómstóla, fjölmiðlar og allur almenningur séu vel upplýst um starfsemina og eigi auðvelt með að nálgast upplýsingar. Leitað er reglulega sjónarmiða notenda, lögmanna, fjölmiðla og annarra hagaðila um gæði þjónustu dómstóla og hvernig hana megi bæta.