R E G L U R
um birtingu álita nefndar um dómarastörf


1. gr.
Opinber birting álita.

Með þeim takmörkunum sem greinir í reglum þessum skulu álit nefndar um dómarastörf birt á vefsíðu dómstólasýslunnar. 

Í samræmi við meginregluna um opinbera málsmeðferð er með opinberri birtingu álitanna leitast við að koma á framfæri upplýsingum sem erindi geta átt við almenning. Jafnframt er tilgangur birtingarinnar sá að miðla þeim upplýsingum sem komið geta lögfræðingum og öðrum sérfræðingum að notum í störfum þeirra.

2. gr.
Umsjón.

Dómstólasýslan skal, f.h. nefndar um dómarastörf, birta álit nefndarinnar á vefsíðu sinni innan tveggja vikna frá því það var gefið og sent álitsbeiðanda. 

3. gr.
Nafnleynd og atriði er afmá skal.

Gæta skal nafnleyndar varði kæra sakamál. Ekki skal birta kennitölur þeirra sem aðild eiga að kærumáli. Nema skal brott upplýsingar um einka-, fjárhags-, og viðskiptahagsmuni einstaklinga og lögpersóna, og atriði sem tengt geta aðra við álitaefnið.


4. gr.
Takmarkanir á birtingu.

 Álit skal ekki birta þegar kæra varðar meðferð dómsmála um:

a. lögræði
b. sifjar
c. erfðir
d. málefni barna
e. nálgunarbann
f. önnur viðkvæm málefni að mati nefndarinnar

5. gr.
Heimild og gildistaka.

     Reglur þessar eru settar samkvæmt ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla í samráði við stjórn Dómstólasýslunnar. Þær öðlast gildi 20. nóvember 2018.

Reykjavík 6. nóvember 2018.

Nefnd um dómarastörf