Reglur dómstólasýslunnar nr. 7/2024



1. gr.
Markmið útgáfu dagskrár

Útgáfa dagskrár miðar að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna og tryggja rétt almennings í lýðræðislegu samfélagi til aðgangs að upplýsingum um réttarframkvæmd. Auk þess er útgáfunni ætlað að styðja við fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglu réttarfars um opinbera málsmeðferð sem meðal annars er ætlað að veita dómstólum aðhald og stuðla að því að borgararnir geti treyst því að allir njóti jafnræðis við úrlausn mála fyrir dómstólum.

2. gr.
Útgáfa dagskrár

Hver héraðsdómstóll birtir dagskrá þar sem fram kemur listi yfir þau dómsmál þar sem dagsetning þinghalds hefur verið ákveðin.
Þinghöld í rannsóknarmálum eru ekki birt á dagskrá.

Dagskrá skal birt á vef hvers dómstóls þegar dagsetning þinghalds liggur fyrir nema sérstakar ástæður er varða málsaðila réttlæti frávik frá því, svo sem þegar beðið er eftir staðfestingu á móttöku fyrirkalls.

Dagskrá hvers dags skal birt á áberandi stað í dómhúsi.



3. gr.
Upplýsingar sem koma skulu fram á dagskrá

Á dagskrá skulu koma fram upplýsingar um málsnúmer, dagsetningu og tíma þinghalds, dómsal, nafn dómara málsins, eðli þinghaldsins og þegar við á að þinghaldið sé lokað.

Þegar um einkamál er að ræða skulu koma fram á dagskrá upplýsingar um nöfn aðila máls, sbr. þó 4. gr., lögmanna svo og upplýsingar um tegund máls.

Þegar um sakamál er að ræða skulu koma fram upplýsingar um nöfn sakbornings eða sakborninga, sbr. þó 4. gr., verjanda svo og upplýsingar um tegund máls.

Fram skulu koma upplýsingar um hvenær reglulegt dómþing er haldið en ekki skal birta upplýsingar um mál á reglulegu dómþingi.


4. gr.
Um nafnleynd við útgáfu dagskrár


Ákveði dómari að þinghald skuli vera lokað af ástæðum sem varða ákærða eða tengsl hans við brotaþola skulu nöfn aðila ekki koma fram á útgefinni dagskrá.
Nöfn aðila máls skulu ekki birt á dagskrá þegar málið varðar viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna, umgengni við þau og barnavernd.


5. gr.
Gildistaka og lagastoð

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 og eru bindandi. Þær öðlast gildi 1. júlí 2024 að öðru leyti en því að ákvæði 2. og 3. mgr. 3. gr. um birtingu upplýsinga um tegund máls öðlast gildi 1. janúar 2025.


Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
27. júní 2024. 

Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.