Álit og ákvarðanir nefndar árið 2024

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2024
Mál nr. 1/2024

Afgreitt  9. febrúar 2024. 
Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius formaður, Sindri M. Stephensen og Sigrún Guðmundsdóttir.
 
Kvartað var vegna niðurstöðu Landsréttar. Samkvæmt lokaákvæði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla eru kvartanir vegna dómsúrlausna undanskildar valdsviði nefndar um dómarastörf. Þær verða aðeins endurskoðaðar af æðri dómstól. Í máli þessu var lögbundinn kærufrestur einnig löngu liðin, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016. Einnig kom fram í afgreiðslu nefndarinnar að verklag við úthlutun mála til einstakra dómara fellur undir stjórnsýslu réttarins og því utan valdheimilda nefndarinnar. Erindinu var vísað frá.
 
 

Mál nr. 2/2024

Afgreitt 18. mars 2024.

Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius formaður, Sindri M. Stephensen og Sigrún Guðmundsdóttir.

Kvartað var yfir starfsháttum héraðsdómara. Gerðar voru athugasemdir við inngrip dómara í skýrslutöku yfir vitni við aðalmeðferð málsins. Málinu hafði verið áfrýjað til Landsréttar og ljóst  að tilgangur áfrýjunar var meðal annars að fá endurskoðun á afleiðingum sem kvartandi taldi inngrip dómara hafa haft á niðurstöðu málsins. Samkvæmt lokaákvæði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 er undanskilið valdsviði nefndar um dómarastörf að fjalla um kvartanir vegna dómsúrlausna. Þær verða aðeins endurskoðaðar af æðri dómstól. Erindinu var vísað frá.  

Álit nefndar um dómarastörf 22. mars 2024

í máli nr. 3/2024

 

I

Málsmeðferð

Hinn 29. febrúar 2024 barst nefnd um dómarastörf kvörtun frá A vegna starfa B héraðsdómara við Héraðsdóm […]. Dómara var kynnt kvörtunin og greinargerð kvartanda 4. mars s.á. Degi síðar barst andsvar dómara og fylgdu því nokkur skjöl. Athugasemdir við andsvar dómara bárust frá kvartanda 14., 16. og 17. mars 2024 og voru þær kynntar dómara 19. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá dómara.

Nefndina skipa í máli þessu Ragnheiður Thorlacius formaður, Sindri M. Stephensen og Sigrún Guðmundsdóttir.

 

II

Atvik

Kvartandi í máli þessu var aðili máls nr. […] fyrir Héraðsdómi […] sem lauk með úrskurði […]. Kvartandi sendi Héraðsdómi […] tölvupóst á netfangið […], föstudaginn […] klukkan […], merktur mál nr. […]. Bar tölvupósturinn yfirskriftina  „Kæra og krafa um áfrýjun til Landsréttar.“

Þar sagði […].  Var þeirri niðurstöðu héraðsdóms að […]  mótmælt sem rangri. Vísaði kvartandi til þess […]. Einnig var vísað til þess […].  Gerð var krafa um að Landsréttur felldi úr gildi umræddan úrskurð héraðsdóms og að dæmt yrði […]. 

 

Mánudaginn […] klukkan […] sendi skrifstofustjóri Héraðsdóms […] kvartanda tölvupóst. Þar segir: „Ekki er hægt að móttaka neðangreinda kæru þar sem um er að ræða tölvupóst ásamt því sem kærugjald hefur ekki verið greitt. Ef þú hyggst kæra úrskurð í máli […] þarf að senda kæru í skjali sem er undirritað af þér og greiða kr. 70.000,- í kærugjald til dómstólsins. Reikningsupplýsingar má finna hér: […] Þar sem kæran þarf að berast dómstólnum í dag er í lagi að senda kæruna sem fylgiskjal í tölvupósti til dómstólsins en frumrit hennar þarf þó að berast dómstólnum sem fyrst.

 

Kvartandi brást við ofangreindum leiðbeiningum frá skrifstofustjóra Héraðsdóms […] með tölvupósti klukkan […] sama dag með því að ítreka að hann teldi sig hafa sent „kæru og kröfu um áfrýjum máls“ löglega í tölvupósti til dómsins […]. Vísaði kvartandi til þess að hann hefði fengið leiðbeiningar frá Landsrétti en í þeim hafi ekkert staðið um hvernig erindið hafi átt að berast Héraðsdómi […]. Taldi kvartandi að leiðbeiningar sem hann hafi fengið frá þessum tveimur dómstólum hafi verið misvísandi. Þá kom fram að kvartandi væri staddur erlendis og geti ekki undirritað pappírsskjal til dómsins. Varðandi dómgjald til Landsréttar segir í pósti kvartanda til skrifstofustjóra: „Ég mun borga 70.000.- til héraðsdóms um leið og ég fæ Það staðfest að erindi mitt sé löglegt til Héraðsdóms […] í þessu máli.“ 

 

Síðustu samskipti milli kvartanda og skrifstofustjóra dómsins voru klukkan […] mánudaginn […]. Í tölvupósti skrifstofustjóra til kvartanda segir: „Héraðsdómur hefur leiðbeiningaskyldu hvað varðar það sem snýr að héraðsdómi en kærur skulu afhentar héraðsdómi. Kærur skulu vera skriflegar en tölvupóstur uppfyllir ekki það skilyrði. Í svari Landsréttar til þín var vakin athygli á XXIV. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem fjallar um kærur til Landsréttar, þar er meðal annars fjallað um það sem skal greina í kæru.

 

III

Umkvörtunarefni

Kvartandi, sem er ólöglærður, byggir á því að dómari hafi ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu við móttöku á kæru úrskurðar í máli nr. […] til Landsréttar sem kvartandi sendi  dómnum […]. Í greinargerð sem fylgdi kvörtuninni kemur fram að […] hafi engin svör borist frá héraðsdómaranum og vísar kvartandi í því sambandi til leiðbeiningaskyldu dómara, sbr. a-c liði 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem skort hafi á í málinu. Þannig hafi dómarinn vanrækt skyldur sínar og með því hindrað að kærumálið fengi löglega og réttlæta málsmeðferð fyrir Landsrétti. Telur kvartandi að dómarinn hafi með því brotið á rétti hans til aðgangs að Landsrétti.   

 

IV

Andsvör héraðsdómara

Í andsvari dómara kemur fram að erindi það sem um ræðir í máli þessu hafi aldrei borist honum, hvorki í tölvupósti né skriflega. Samkvæmt upplýsingum sem dómari hafi fengið innan dómsins hafi kvartandi sent tölvupóst á almennt netfang dómsins […] klukkan […]. Skrifstofustjóri dómstólsins hafi svarað umræddum tölvupósti kvartanda að morgni […] sama mánaðar og upplýst kvartanda um að ekki væri hægt að móttaka umræddan tölvupóst sem formlega kæru. Hafi kvartanda verið bent á að hann yrði að senda kæru í undirrituð skjali og greiða kærugjald, 70.000 krónur. Hafi kvartanda verið gefinn kostur á að koma kærunni til dómsins með tölvupósti á síðasta degi kærufrestsins en frumrit skyldi berast dómstólnum sem fyrst. Kvartandi hafi svarað sama dag, þ.e. […]., og greint frá því að hann hafi fengið leiðbeiningar frá Landsrétti um hvernig skyldi kæra niðurstöðu til Landsréttar. Hafi kvartandi í pósti sínum meðal annars vísað til leiðbeiningaskyldu dómsins og óskað álits á því hvort héraðsdómur eða Landsréttur hefði réttara fyrir sér.

 

Dómari vísaði til þess að hafa samkvæmt framanrituðu ekki verið í aðstöðu til að leiðbeina kvartanda sem ólöglærðum hvað varðaði formhlið kæru til Landsréttar. Ítrekaði dómarinn að hafa aldrei fengið tölvupóst frá kvartanda, eingöngu frá lögmanni hans meðan á rekstri málsins stóð. Í ljósi framangreinds verði ekki séð hvernig dómari hafi brotið á einhvern hátt á réttindum sóknaraðila eftir að úrskurður í málinu […] hafi verið kveðinn upp […].

 

V

Athugasemdir

Í athugasemdum kvartanda við andsvör dómara er því hafnað að dómari hafi ekki móttekið skriflegt erindi kvartanda. Vísar kvartandi til þess að um leið og skriflegt erindi hans, sem sent hafi verið á opinbert netfang Héraðsdóms […] þann […] klukkan […], hafi verið móttekið, hafi það verið komið inn á ábyrgðarsvið dómsvaldsins, héraðsdómara málsins. Umrætt erindi hafið verið sent á eina netfangið sem gefið hafi verið upp af hálfu dómstólsins. Þannig verði það skráð í dagbók skjalavarðar og þaðan úthlutað til viðkomandi héraðsdómara. Vísar kvartandi til þess að það hafi engin áhrif í máli þessu þó dómarinn segist ekkert hafa vitað af erindi hans á skrifstofu dómsins þar sem erindinu hafi verið komið á framfæri við dómstólinn eftir þeim leiðum sem áður er rakið. Varðandi greiðslu kærugjalds segir í athugasemdum kvartanda að áður en það gjald sé borgað þurfi að liggja fyrir áfrýjunarheimild frá dómara og löglegur reikningur þar sem á sé ritað fyrir fram greidd dómgjöld til Landsréttar.

 

VI

Niðurstaða

Í XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er fjallað um kæru til Landsréttar. Í 1. mgr. 144. gr. segir að vilji maður kæra dómsathöfn afhendi hann héraðsdómara skriflega kæru áður en tvær vikur eru liðnar frá uppkvaðningu úrskurðar eða dómsathöfn ef hann eða umboðsmaður hans var þá staddur á dómþingi, en ella áður en tvær vikur eru liðnar frá því hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um úrskurð eða dómsathöfn. Í andsvari héraðsdómara kom fram að lögmaður hafi rekið málið fyrir hönd kvartanda í héraðsdómi. Við uppkvaðningu úrskurðar í málinu […] hafi hvorki lögmaður kvartanda, sem boðað hafi forföll, né kvartandi mætt. Hins vegar kemur fram í tölvupósti skrifstofustjóra Héraðsdóms […] til kvartanda að […] hafi verið síðasti dagur kærufrestsins.

 

Samkvæmt 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 skal í kæru greina: a. þá dómsathöfn sem er kærð, b. kröfu um breytingu á henni og c. ástæður sem kæra er reist á. Samkvæmt 3. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 greiðir kærandi héraðsdómara lögmælt dómgjöld fyrir Landsrétti. Samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs bar kvartanda að greiða 70.000 krónur vegna kæru áðurnefnds úrskurðar héraðsdóms. Skal það gert samhliða því að kæra er afhent héraðsdómi, sbr. 3. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 og dóm Hæstaréttar frá 29. júní 2012 í máli nr. 423/2012.

 

Eins og rakið hefur verið hér að framan bárust kvartanda leiðbeiningar frá skrifstofustjóra Héraðsdóms […] að morgni […] þess efnis að hann skyldi senda undirritaða kæru í tölvupósti til dómsins og greiða kærugjald og senda síðan dómnum frumrit kærunnar sem fyrst. Af málatilbúnaði kvartanda og gögnum málsins er ljóst að eftir þessum leiðbeiningum skrifstofustjórans fór kvartandi ekki. Þess í stað ítrekaði hann í tölvupósti til skrifstofustjóra skömmu fyrir hádegi umræddan dag að hann teldi sig hafa sent „kæru og kröfu um áfrýjum máls“ löglega í tölvupósti til dómsins þann […]. 

 

Kvartandi telur að á sér hafi verið brotið þar sem dómari í málinu nr. […] hafi staðið í vegi fyrir því að kæra úrskurðar í málinu bærist Landsrétti. Samkvæmt andsvari dómara og gögnum sem því fylgdi verður ekki annað ráðið en að héraðsdómara hafi ekki verið kunnugt um kæru kvartanda til Landsréttar.

 

Af fyrirmælum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um form og efni kæru til Landsréttar er ljóst að héraðsdómari ber ábyrgð á móttöku kæru, leiðbeiningum til þess sem kærir og því að kæra berist Landsrétti og gagnaðila, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991. Þá er leiðbeiningaskylda dómara, sbr. 2. mgr. 146. gr. laganna, sérstaklega mikilvæg þegar í hlut eiga ólöglærðir, sbr. dómur Landsréttar 13. október 2020 í máli nr. 546/2020.

 

Þá má ráða af dómum Hæstaréttar og Landsréttar að það er hlutverk áfrýjunardómstóls að kveða upp úr um hvort uppfyllt séu skilyrði XXIV. kafla laga nr. 91/1991 þegar leitað er eftir endurskoðun á úrskurðum undirréttar, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 423/2012 og 357/2007 og úrskurði Landsréttar í málum nr. 259/2022 og 546/2020. Af framangreindu er ljóst að dómara bar að leiðbeina kvartanda um kæru auk þess sem skrifstofustjóri Héraðsdóms […] gat ekki staðið í vegi fyrir því að kæra kvartanda, óháð formi hennar og greiðslu dómsgjalda, gengi til Landsréttar til úrlausnar. Var málsmeðferðin því ekki í samræmi við forskrift laga nr. 91/1991.

 

Þar sem fyrir liggur að héraðsdómari hafði ekki vitneskju um kæru kvartanda og því ekki aðstöðu til að leiðbeina honum í kæruferlinu telur nefnd um dómarastörf að dómarinn hafi í reynd ekki gert á hlut kvartanda í störfum sínum í skilningi 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Er því ekki tilefni til aðfinnsla við störf dómarans.

 

Það athugast að nefnd um dómarastörf hefur að lögum ekki afskipti af stjórnsýslu dómstóla. Hins vegar verður athygli dómstjóra Héraðsdóms […] og dómstólasýslunnar vakin á kvörtun þessari enda varðar hún störf sem teljast lögum samkvæmt til dómstarfa.

 

 

Ályktarorð:

Í máli þessu eru ekki gerðar athugasemdir við starfshætti B héraðsdómara.

 

 

Mál nr. 4/2024

Afgreitt 18. mars 2024.

Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius formaður, Sindri M. Stephensen og Sigrún Guðmundsdóttir.

Kvartað var vegna hugsanlegs vanhæfis héraðsdómara og þess krafist að málið yrði falið öðrum dómara. Vísaði nefndin til þess að dómarar gæta sjálfir af hæfi sínu, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvað síðari hluta kvörtunar varðaði tók nefnd um dómarastörf fram að úthlutun dómsmála til einstakra héraðsdómara félli undir stjórnsýslu héraðsdómstóla og því utan valdheimilda nefndarinnar. Erindinu var vísað frá.

 

 

Mál nr. 5/2024

Afgreitt 19. apríl 2024.

Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius formaður, Sigrún Guðmundsdóttir og Júlí Ósk Antonsdóttir.

Kvartað var yfir starfsháttum héraðsdómara. Gerðar voru athugasemdir við ákvarðanir dómara við meðferð dómsmáls. Leita má endurskoðunar æðra dómstigs á slíkum ákvörðunum,  sbr. 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt lokaákvæði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 er undanskilið valdsviði nefndar um dómarastörf að fjalla um kvartanir vegna dómsúrlausna. Erindinu var vísað frá.  

Mál nr. 6/2024

Afgreitt 22. apríl  2024.  

Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius formaður, Sigrún Guðmundsdóttir og Júlí Ósk Antonsdóttir.

Kvörtun varðaði starfshætti dómstjóra og féll því ekki undir valdsvið nefndar um dómarastörf.

Erindinu var vísað frá.

Mál nr. 7/2024

Afgreitt 22. apríl 2024.  

Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius formaður, Sigrún Guðmundsdóttir og Júlí Ósk Antonsdóttir.

Kvörtun varðaði annars vegar starfshætti dómstjóra og hins vegar dómsúrlausn sem hafði verið endurskoðuð af æðri dómstól. Hvorugt atriðið fellur undir valdsvið nefndar um dómarastörf. Erindinu var vísað frá.   

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2023

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2023
Mál nr. 1/2023

Afgreitt  20. janúar 2023 

Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Kvartað var vegna hugsanlegs vanhæfis dómara. Vísaði nefndin til þess að dómarar gæta sjálfir að hæfi sínu, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Erindinu var vísað frá.  
 

Mál nr. 2/2023

Afgreitt  12. maí 2023

Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Kvartað var vegna niðurstöðu Héraðsdóms. Samkvæmt lokaákvæði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla er undanskilið valdsviði nefndarinnar að fjalla um kvartanir vegna dómsúrlausna. Þær verða aðeins endurskoðaðar af æðri dómstól. Erindinu var vísað frá .

Mál nr. 3/2023

Afgreitt  26.júní 2023

Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Kvartað var vegna niðurstöðu Héraðsdóms. Samkvæmt lokaákvæði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla er undanskilið valdsviði nefndarinnar að fjalla um kvartanir vegna dómsúrlausna. Þær verða aðeins endurskoðaðar af æðri dómstól. Erindinu var vísað frá.

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2022

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2022

Álit nefndar um dómarastörf 3. mars 2022

 í mál nr. 1/2022

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

I

Málsmeðferð

Hinn 6. febrúar 2022 barst nefnd um dómarastörf kvörtun frá A, kt. […], vegna starfa B héraðsdómara við Héraðsdóm […]. Var dómara kynnt kvörtunin 8. sama mánaðar og bárust andsvör ásamt fylgiskjali 10. s.m. Kvartanda voru kynnt andsvör dómara 11. s.m. og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir. Þær bárust 14. s.m. Auk þess hefur kvartandi sent nefndinni athugasemdir 8., 9., 10. og 11. s.m. ásamt fylgiskjali sem er útskrift af tölvubréfasamskiptum hans við dómstólinn. Þessi gögn voru kynnt dómara 18. s.m. ásamt fyrirspurn nefndarinnar. Dómari svaraði fyrirspurn s.d. og kvaðst ekki gera frekari athugasemdir. Einnig var skipuðum verjanda kvartanda fyrir héraðsdómi send fyrirspurn 23. s.m. Svar barst 28. s.m. Kvartanda voru kynntar framangreindar fyrirspurnir og svör degi síðar og sendi hann athugasemdir 2. þ.m. þar sem eftirgreind sjónarmið hans voru ítrekuð.

II

Umkvörtunarefni

Kvartandi, sem var ákærði í máli nr. […] við Héraðsdóm […] telur dómara málsins hafa gert á hlut sinn með því að tilkynna sér ekki um hvar og hvenær dómur yrði kveðinn upp í málinu. Hann telur þetta brjóta gegn 185. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en þar segir í 1. og 2. mgr.: „Dómari tilkynnir aðilum hvar og hvenær dómur verði kveðinn upp nema farið hafi verið með mál skv. 161. gr. Við uppkvaðningu skal lesa upp dómsorð á dómþingi [...] Endurrit af dómi eða úrskurði skal að öðru jöfnu vera til reiðu við uppkvaðningu hans.“ Þetta hafi dómarinn ekki gert eins og lög mæli fyrir um og telur hann þessa háttsemi bera þess vott að „ég var ekki velkominn og dómari kærði sig ekki um nærveru mína.“ Kveðst hann hafa óskað sérstaklega eftir því að fá að vera viðstaddur. Sé þetta bæði brot á lögum og niðurlægjandi fyrir sig. Telur hann að með þessu hafi verið farið á svig við íslenskt réttarfar og mannréttindi brotin á sér. Auk framangreinds kveður hann dóminn ekki hafa verið birtan sér og hann ekki fengið endurrit hans. Hann hafi því ekki forsendur til að taka ákvörðun um framhald málsins. Hafi þessi framkoma dómara valdið honum „gríðarlegum andlegum kvölum.“ Einnig hafi þetta valdið því að verjandi hafi sagt sig frá málinu.

Hinn 8. febrúar sl. sendi kvartandi nefndinni tölvubréfasamskipti sín við dómstólinn sem hann túlkar svo að dómstóllinn hafi ekki kært sig um nærveru hans. Hafi hann séð tilkynningu um dómsuppsögu á vefsíðu dómsins og telur að afstaða dómstólsins verði ekki skilin öðru vísi en svo að hann hafi sjálfur átt að hafa frumkvæði að því að mæta fyrst hann sá tilkynninguna. Sé það svar ófaglegt þar sem boða hafi átt hann í dómsuppsögu. Alvarlegast sé að nú þegar kvörtun er sett fram, um mánuði eftir dómsuppsögu, hafi hann enn ekki dóminn í höndunum. Af síðari tölvubréfum kvartanda 23. og 24. febrúar sl. má ráða að ákæruvaldið hefur sent honum dóminn en hann telji það ekki fullnægjandi birtingu.

Í tölvubréfi 9. febrúar sl. til nefndarinnar vísar kvartandi til samskipta við dómstólinn og bendir á að dómstjóri hafi ekki virt hann svars þegar hann leitaði eftir skýringu. Í tölvubréfi 10. febrúar sl. kveðst hann nú hafa uppgötvað af vefsíðum fjölmiðla og frá ættingjum að búið væri að birta dóminn opinberlega. Ítrekar hann að verjandi hafi sagt sig frá málinu og að dómurinn hafi ekki verið birtur honum. Telur hann að af þessu leiði að dómurinn sé varla gildur og honum geti hafa verið breytt á þeim fjórum vikum sem liðið hafi á milli dómsuppsögu og birtingar hans.

III

Andsvör héraðsdómara

Í andsvörum dómara frá 10. febrúar sl. segir að kvartanda, sem hafi verið ákærði í málinu, hafi verið skipaður verjandi, C lögmaður. Málið hafi verið dómtekið […] 2021 að lokinni tveggja daga aðalmeðferð og hafi þá verið bókað: „Málið er dómtekið og boðað verður til dómsuppsögu með hæfilegum fyrirvara.“

Hinn 7. janúar 2022 hafi verið boðað til dómsuppsögu í málinu og hafi skipaður verjandi kvartanda verið boðaður auk sækjanda og réttargæslumanns brotaþola. Dómur hafi verið kveðinn upp mánudaginn […] í samræmi við boðun og hafi verjandi sótt þing. Boðað hafi verið til dómsuppsögunnar með tölvuskeyti, líkt og venja sé, og með fylgi afrit þess.

Samkvæmt 185. gr. laga nr. 88/2008 skuli dómari tilkynna aðilum hvar og hvenær dómur verði kveðinn upp. Þá beri dómara samkvæmt 3. mgr. 36. gr. sömu laga að tilkynna verjanda um þinghöld í máli sakbornings. Kveðst dómari líta svo á, með vísan til framangreinds og 21. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, að verjandi hafi haft umboð til að taka við boðun í dómsuppsögu. Einnig sé slík boðun í samræmi við áratuga langa venju. Af þessu leiði að boðun í þinghaldið hafi verið fullnægjandi og lögmæt.

IV

Athugasemdir

Með tölvubréfi 14. febrúar sl. gerði kvartandi athugasemdir við andsvör dómara. Ítrekaði hann þar þann skilning sinn að það væri brot á lögum nr. 88/2008 að boða hann ekki til þinghaldsins. Brotið væri bæði af hálfu dómara og skipaðs verjanda. Hefði verjandi svarað fyrirspurn hans um þetta á þann veg að hann væri ekki vanur að taka skjólstæðinga sína með sér í dómsuppkvaðningu. Þar sem ekki hefði verið um lögmæta boðun að ræða leiddi það til þess að dómurinn væri ómerkur enda brot á íslensku réttarfari, réttindum hans, mannréttindum, lögum um meðferð sakamála, lögum um störf verjenda og reglum um birtingu dóma.

V

Upplýsingaöflun

Nefndin sendi dómara fyrirspurn, vegna fullyrðingar kvartanda, um hvort hann hefði sérstaklega óskað eftir að vera viðstaddur dómsuppsögu. Kvað dómari hvorki kvartanda né verjanda hans hafa óskað eftir að honum yrði sjálfum tilkynnt um dómsuppsögu. Verjandi hafi tilkynnt sér um tveimur vikum eftir dómsuppsögu að hann hefði sagt sig frá málinu.

Nefndin beindi einnig fyrirspurn til verjanda kvartanda um samskipti þeirra. Lögmaðurinn kvaðst hafa mætt til dómsuppsögu […] janúar sl. í máli kvartanda, en ekki tilkynnt honum fyrirfram um þinghaldið, enda sé það ekki vani hans. Strax á eftir hafi hann skannað dóminn og sent kvartanda á netfang hans. Kvartandi hafi staðfest móttöku og að lögmaðurinn hefði umboð til að taka við birtingu dómsins fyrir hans hönd, auk þess að fela honum að áfrýja málinu. Hinn 14. janúar sl. hafi komið upp ágreiningur í samtali þeirra sem leiddi til þess að hann hafi sagt kvartanda að finna sér annan verjanda. Nokkrum dögum síðar hafi hann tekið við birtingu dómsins, en gert ákæruvaldinu jafnframt grein fyrir því að e.t.v. mætti draga í efa umboð hans til að taka við birtingu dómsins.  

VI

Niðurstaða

Í 3. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008 er fjallað um birtingu dóma. Þar segir að dómur teljist birtur ákærða ef hann sækir þing við uppkvaðningu dóms og hann fái afhent endurrit dómsins. Sé hann ekki viðstaddur og séu honum gerð önnur eða þyngri viðurlög en sekt og ekki sé um að ræða mál sem ljúka megi samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laganna skuli ákærandi birta honum dóminn og fari um birtingu eins og segi í 156. gr. þeirra. Af þessu leiðir að það er ekki á ábyrgð dómara heldur ákæruvalds að birta dóm.

Af gögnum málsins er ljóst að dómari boðaði til dómsuppsögu […] janúar 2022 kl. […] í umræddu máli með boðunarbréfi 7. s.m. Var það sent með tölvubréfi til skipaðs verjanda kvartanda, en ekki til hans sjálfs. Sótti verjandi þing. Í 1. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008 segir að dómari tilkynni aðilum hvar og hvenær dómur verði kveðinn upp. Í 3. mgr. sömu greinar segir að „ef“ ákærði sæki þing við uppkvaðningu dóms teljist dómur birtur fyrir honum. Ella skuli ákæruvaldið sjá um birtinguna. Í ofangreindum tölvubréfasamskiptum kvartanda við dómstólinn kemur fram að hann skilji orðið „aðili“ sem svo að það vísi aðeins til ákærða sjálfs, en ekki til verjanda. Skipaður verjandi var lögskipaður umboðsmaður kvartanda þegar dómur var kveðinn upp og fól það umboð í sér að verjandi gætti hagsmuna hans fyrir dómi samkvæmt 1. og 2. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998. Var tilhögun dómara við boðun til dómsuppkvaðningar í samræmi við það.

Birting héraðsdóms hefur þau áhrif ein að frestur ákærða til að lýsa yfir áfrýjun dómsins samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 byrjar að líða við birtinguna og markar hvenær fyrst megi fullnægja ákvæðum dómsins um refsingu eða önnur viðurlög, sbr. 4. mgr. 185. gr. sömu laga og dóm Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015. Dómsbirting hefur því engin áhrif á gildi dóms eins og kvartandi heldur fram þar sem dómi verður aðeins hnekkt með æðri dómi að undangenginni áfrýjun.

Samkvæmt framansögðu gerði dómari ekki á hlut kvartanda í störfum sínum í skilningi 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla með því að boða skipaðan verjanda kvartanda til dómsuppkvaðningar en ekki hann sjálfan. Af því leiðir að ekki eru efni til að gera athugasemdir við starfshætti dómara.

Sökum málatilbúnaðar kvartanda athugast að nefnd um dómarastörf hefur að lögum hvorki afskipti af starfsháttum ákæruvalds né lögmanna eða stjórnsýslu dómstólanna sem hefur á hendi vefbirtingu dóma.

Ályktarorð:

Ekki eru gerðar athugasemdir við starfshætti dómara.

 

 

 

Mál nr. 2/2022

Afgreitt 9. febrúar 2022

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Kvartað var vegna niðurstöðu Landsréttar, hugsanlegs vanhæfis dómara og þess krafist að málið yrði tekið upp hjá Hæstarétti. Samkvæmt lokaákvæði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla er undanskilið valdsviði nefndarinnar að fjalla um kvartanir vegna dómsúrlausna. Þær verða aðeins endurskoðaðar af æðri dómstól. Nefnd um dómarastörf hefur ekki milligöngu þar um. Loks gæta dómarar sjálfir að hæfi sínu, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Erindinu var vísað frá.


 

Mál nr. 3/2022

Afgreitt 5. apríl 2022

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Málið varðaði úrskurð Landsréttar í kærumáli vegna ákvörðunar sóttvarnarlæknis um að A skyldi sæta sóttkví frá 18. desember 2021 til miðnættis 3. janúar 2022. Kvörtun til nefndarinnar sneri að því að kæra hefði verið send 30. desember í vefgátt dómsins, greinargerð gagnaðila síðdegis 31. desember, en dómarar hafi opnað málið 3. janúar og málið þá talið móttekið. Úrskuður hafi verið kveðinn upp 4. janúar og málinu þá vísað frá þar sem lögmætir hagsmunir væru ekki fyrir hendi. Samkvæmt lokaákvæði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla eru dómsúrlausnir undanskildar valdsviði nefndar um dómarastörf. Verklag dómstóla við skráningu móttöku mála og úthlutun þeirra fellur undir stjórnsýslu dómstóls og er því utan valdsviðs nefndarinnar. Erindinu var vísað frá.

Mál nr. 4/2022

Afgreitt 11. júlí 2022

Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Nefndinni bárust tveir tölvupóstar. Í tilefni þeirra var athygli sendanda vakin á ákvæðum 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/216 um dómstóla og leiðbeiningar veittar. Var sendanda tilkynnt að nefnd um dómarastörf myndi ekki aðhafast frekar vegna umræddra tölvupósta.

Mál nr. 5/2022

Afgreitt 26. ágúst 2022


Nefndina skipuðu Ragnheiður Thorlacius, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Annars vegar var kvartað vegna hugsanlegs vanhæfis dómara. Vísaði nefndin til þess að dómarar gæta sjálfir að hæfi sínu, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Erindinu var vísað frá. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við hugsanleg lögfræðistörf dómara. Var erindinu vísað frá þar sem tímafrestir 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla voru liðnir.

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2021

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2021

Mál nr. 1/2021

Afgreitt 12. apríl 2021

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

I. Málsmeðferð
Með bréfi 1. febrúar 2021 barst nefnd um dómarastörf kvörtun  Y lögmanns, f.h. X […], vegna starfa A  héraðsdómara. Á fundi nefndarinnar 16. febrúar sl. var ákveðið að taka málið til skoðunar. Dómara var kynnt kvörtunin ásamt fylgiskjölum 17. febrúar sl. Lögmaðurinn sendi viðbótar fylgiskjöl 26. febrúar sl. og 22. mars sl. og viðbótarrökstuðning 9. og 24. mars sl. Voru þessi gögn kynnt dómara jafnóðum og þau bárust. Andsvör og athugasemdir hennar eru dagsettar 7., 22. og 26. mars sl. Með bréfi 24. sama mánaðar óskaði lögmaður álitsbeiðanda eftir því að Z […], og Þ sama stað, yrðu samþykktir sem álitsbeiðendur ásamt X. Á fundi sínum 30. mars sl. komst nefndin að þeirri niðurstöðu að aðild X væri fullnægjandi, enda er hann stjórnarformaður greindra félaga. Ákveðið var að ekki væri tilefni til frekari gagnaöflunar. 


II. Umkvörtunarefni 
Kvörtun álitsbeiðenda varðar meðferð máls […/2020] við Héraðsdóm […]. Með kröfu […] desember 2020 fór embætti héraðssaksóknara fram á að Héraðsdómur […] aflétti þagnarskyldu samkvæmt lögum nr. 94/2019 um endurskoðendur og endurskoðun vegna rannsóknar héraðssaksóknara á máli nr. […] og gerði félögunum A og B sem og C að veita upplýsingar og afhenda gögn vegna þjónustu þeirra í þágu Z. og Þ allt eins og þar er nánar lýst. Álitsbeiðandi er forstjóri félaganna og hefur einnig réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara. 

Þinghaldið fór fram [...] desember 2020, en ranglega var skráð í þingbók að það hefði verið haldið degi fyrr og að rannsóknargögn hefðu legið frammi í dóminum. Upplýst er að enginn mætti í dóminn f.h. saksóknara og engin gögn önnur en krafan voru lögð fram. Úrskurður var kveðinn upp sama dag, þar sem fallist var á kröfur héraðssaksóknara, og var hann kærður til Landsréttar […] janúar 2021 af Z og Þ. Með úrskurði Landsréttar í máli nr. […/2021] var kærunni vísað frá vegna aðildarskort kærenda, en athugasemd gerð við að bókað hefði verið í þingbók að rannsóknargögn lægju frammi, sem ekki hefði verið raunin. Taldi Landsréttur „aðfinnsluvert“ að héraðsdómari hefði ekki krafið sóknaraðila um gögnin áður en hann tók kröfuna til úrskurðar í því skyni að ganga úr skugga um hvort lagaskilyrði væru uppfyllt fyrir því að fallast mætti á hana. 

Álitsbeiðandi vísar til 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og krefst þess að nefnd um dómarastörf álykti að starfshættir dómara „samrýmist ekki vönduðum dómarastörfum.“ Lúti kvörtunin annars vegar að því að dómari hafi ekki gætt skilyrða 3. málsliðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með því að kröfu saksóknara hafi ekki fylgt þau gögn sem hún var studd við, og hins vegar að því að dómari hafi engu að síður tekið fram í þingbók og úrskurði að skilyrði nefnds ákvæðis væru uppfyllt. Hefði þetta getað gefið þá röngu hugmynd að dómari hefði kynnt sér rannsóknargögnin og þar með dregið úr líkum á því að úrskurðurinn yrði kærður. Markmið laga nr. 88/2008 sé að takmarka vald lögreglu og tryggja að íþyngjandi rannsóknaraðgerðir fari ekki fram nema lagaskilyrði séu uppfyllt. Verði slík takmörkun valds að engu ef dómarar verði við slíkum kröfum án þess að kynna sér rannsóknargögn málsins. Eigi það sérstaklega við þegar andmælum verði ekki komið við. Tekur hann fram að kvörtunin sé sett fram í tilefni af aðfinnslum Landsréttar í máli nr. […/2021]. 

Úrskurður í máli […/2020] frá […] desember 2020 var kærður til Landsréttar öðru sinni […] febrúar 2021 af félögunum A og B og C að fengnu kæruleyfi. Í úrskurði Landsréttar 25. s.m. í máli nr. […/2021] var úrskurður héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Í forsendum Landsréttar segir að sú málsmeðferð héraðsdómara að boða sóknaraðila ekki til þinghalds hafi verið í andstöðu við fyrirmæli 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008. Þá hafi rannsóknargögn ekki legið frammi við fyrirtöku málsins, sem væri í andstöðu við 1. mgr. 103. gr. sömu laga, og því hefði ekki verið unnt að staðreyna hvort lagaskilyrði fyrir því að fallast á kröfu saksóknara væru fyrir hendi. Málsmeðferðinni hafi þannig verið áfátt. 

Í tilefni af andsvörum dómara sendi álitsbeiðandi nefndinni bréf 9. mars sl. þar sem sérstaklega er mótmælt þeirri kröfu dómara að vísa beri málinu frá nefndinni. Telur hann að ekki sé um dómsúrlausn að ræða, heldur háttsemi og vanrækslu dómara og vísar þar um til athugasemda Landsréttar í máli nr. […/2021], sem hafi ekkert með niðurstöðu úrskurðarins að gera eða dómsúrlausn. Telur hann mikilvægt að hægt sé að kvarta undan óvandaðri málsmeðferð dómara til nefndar um dómarastörf.

Héraðsdómari kvað upp nýjan úrskurð í máli […/2020] […] mars 2021. Við meðferð málsins var mætt bæði af hálfu sóknaraðila og varnaraðila og skaut hluti varnaraðila honum til Landsréttar. Var því máli vísað frá Landsrétti […] mars sl., sbr. mál nr. […/2021], þar sem lögvörðum hagsmunum væri ekki lengur til að dreifa. 

Í bréfi 24. mars sl. svaraði lögmaður álitsbeiðanda fyrirspurn nefndarinnar varðandi aðild og fór fram á að Z og Þ yrði heimiluð aðild að kvörtuninni. Eins og að ofan greinir taldi nefndin ekki ástæðu til að verða við því. 

III. Athugasemdir héraðsdómara
Í andsvörum sínum segir héraðsdómari að misritun í þingbók hafi átt sér stað annars vegar um dagsetningu úrskurðar og hins vegar um að gögn hafi legið frammi í dóminum, og séu þessi mistök á hennar ábyrgð. Hafi hún ekki gætt þess að lesa nægilega vandlega yfir forskráð atriði í þingbók.  

Þá telur dómari að kvörtunin lúti að dómstörfum hennar eða atriðum sem séu nátengd þeim og eigi því ekki undir valdsvið nefndar um dómarastörf samkvæmt 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016, enda hafi meðferð málsins verið borin undir æðri dóm og fengið efnislega úrlausn þar. Af þessum ástæðum eigi að vísa málinu frá nefndinni. 

Vegna fyrirspurnar nefndarinnar segir dómari að kröfugerð héraðssaksóknara hafi verið ítarleg og hafi þar verið vitnað orðrétt til ýmissa gagna. Hafi það verið mat hennar í ljósi þessa og með hliðsjón af rökstuðningi saksóknara að lagaskilyrðum væri fullnægt og taka mætti kröfuna til greina. Landsréttur hafi verið þessu ósammála og ómerkt málsmeðferðina með úrskurði sínum í máli nr. […/2021], en áður hefði rétturinn gert athugasemd við málsmeðferðina í máli nr. […/2021]. Úr þessum annmörkum hafi verið bætt við endurflutning í héraðsdómi [...] mars sl. Þrátt fyrir greinda annmarka hafi ekki verið gert á hlut álitsbeiðanda í skilningi 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016, en samkvæmt 3. mgr. sama ákvæðis verði kvörtunum vegna úrlausna dómara ekki beint til nefndar um dómarastörf. Sé það skilningur dómara að með því sé átt við úrlausnir dómara sem bera megi undir æðri dóm. Lúti kvörtunin að atriðum sem í tvígang hafi verið til meðferðar fyrir Landsrétti. 

IV. Niðurstaða
Í 4. mgr. i.f. 47. gr. laga nr. 50/2016 segir: „Kvörtunum vegna dómsúrlausna dómara verður ekki beint til nefndar um dómarastörf.“ Í frumvarpi til laganna segir í athugasemd um hugtakið „dómsúrlausn“, að „með því [sé] m.a. átt við allar úrlausnir dómara sem möguleiki [sé] á að bera undir æðri dóm.“ Svo sem áður greinir hefur Landsréttur í tvígang fjallað um greinda málsmeðferð dómara, fyrst í athugasemd og síðan í forsendum, þar sem að úrskurðurinn var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. 

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 er það hlutverk dómstjóra að vanda um við dómara, gerist hann sekur um vanrækslu í starfi. Samkvæmt 4. mgr. sama ákvæðis er hverjum „þeim öðrum sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum heimilt að beina skriflegri og rökstuddri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ 

Eins og fram kemur í úrskurði Landsréttar í máli réttarins nr. […/2021] var málsmeðferð héraðsdómara þess, sem kvörtun beinist að, ekki í samræmi við réttarfarsreglur laga nr. 88/2008 og úrskurður héraðsdóms ómerktur af þeim sökum. Við síðari meðferð málsins fyrir héraðsdómi var bætt úr þeim réttarfarsannmörkum sem leiddu til ómerkingar fyrri úrskurðar héraðsdóms og úrskurður kveðinn upp á ný með sömu niðurstöðu og áður. Samkvæmt þessu var um dómsúrlausn héraðsdómara að ræða sem unnt var að bera undir æðri dóm. Af því leiðir eftir niðurlagsákvæði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 og lögskýringargögnum með henni að kvörtun álitsbeiðanda heyrir ekki undir valdsvið nefndar um dómarastörf. Er henni því vísað frá nefndinni.

Ályktarorð:
Máli þessu er vísað frá nefnd um dómarastörf.

 

Mál nr. 2/2021

Afgreitt 15. apríl 2021

Nefndina skipuðu Guðmundur Sigurðsson, Sigríður Ingvarsdóttir  og Sindri M. Stephensen.

Með bréfi dags. 25. febrúar 2021 kvörtuðu álitsbeiðendur yfir dómara í tilefni af úrskurði dags. […] október 2020.  Samkvæmt kvörtun álitsbeiðenda töldu þeir m.a. að bæði væru verulegir meinbugir á framkvæmd og úrvinnslu dómarans í málinu auk þess sem hann hafi í úrskurðinum vegið harkalega að starfsheiðri þeirra. Þá færðu álitsbeiðendur fyrir því rök að dómarinn hafi verið vanhæfur til að dæma í málinu. Nefndin óskaði eftir nánari skýringum álitsbeiðenda á tilteknum hluta kvörtunar með bréfi dags. 29. mars 2021. Álitsbeiðendur komu á framfæri nánari skýringum með tölvubréfi dags. 9. apríl 2021.  Sá sem telur dómara hafa gert á hlut sinn getur beint kvörtun til nefndar um dómarastörf, og skal slík kvörtun hafa borist nefndinni „innan þriggja mánaða frá því að sá atburður sem kvörtunin nær til gerðist eða komst til vitundar þess sem kvartar“, sbr.  4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Úrskurðurinn var kveðinn upp […] október 2020. Kvörtun álitsbeiðanda er dags. 25. febrúar 2021 og var lögboðinn frestur því liðinn þegar kvörtunin barst nefndinni. Að auki varðar kvörtun álitsbeiðenda niðurstöðu dómara. Endurskoðun á efnislegri niðurstöðu dómara, þar með talið mat dómara á sönnunargögnum, túlkun laga og orðalag dóms/úrskurðar, er ekki á valdsviði nefndarinnar en samkvæmt framangreindu lagaákvæði verður kvörtunum vegna dómsúrlausna dómara ekki beint til nefndar um dómarastörf. Jafnframt ber að líta til þess að um vanhæfi dómara fer eftir 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 gætir dómari af sjálfsdáðum að hæfi sínu, en einnig getur aðili krafist þess að dómari víki sæti. Úrskurður héraðsdómara um hæfi hans verður kærður til Landsréttar. Það fellur því ekki undir valdsvið nefndar um dómarastörf að meta hæfi dómara í einstökum málum.  Erindi var vísað frá.

 

Mál nr. 3/2021

Afgreitt 30. apríl 2021

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

I. Málsmeðferð
Hinn 23. mars 2021 barst nefnd um dómarastörf kvörtun frá A lögmannsstofu vegna starfa B sem héraðsdómari við Héraðsdóm […]. Kvörtunin var grundvölluð á mistökum við afboðun C lögmanns til þinghalds í dómsmáli sem hann fór með f.h. A lögmannsstofu. Hefur lögmaðurinn starfsstöð í […] Dómara var kynnt kvörtunin ásamt fylgiskjölum 24 s.m. og veittur frestur til andsvara til 7. næsta mánaðar. Andsvar dómara barst samdægurs, 24. mars, og var það kynnt lögmanninum 29. s.m. Þann sama dag barst nefndinni viðbót við kvörtunina og var hún kynnt dómara daginn eftir. Með bréfi 6. apríl s.á. tilkynnti nefndin að líta bæri svo á að álitsbeiðandi væri áðurnefndur lögmaður og beindi til hans fyrirspurn, frestur til svars var veittur til 16. s.m. Þann dag svaraði álitsbeiðandi fyrirspurn nefndarinnar. Fyrirspurn og svör voru kynnt dómara 19. s.m. og sendi hann samdægurs athugasemdir sem kynntar voru álitsbeiðanda daginn eftir. Jafnframt óskaði nefndin eftir frekari rökstuðningi í ljósi atvika málsins. Svar barst ásamt fylgiskjölum 26. s.m. sem kynnt var dómara sama dag. Gagnaöflun var þar með lokið.

A lögmannsstofa byggðu kvörtun sína á því að þeir myndu þurfa að bera kostnað af flugferðum og vinnu lögmanns síns og því hafi dómari gert á þeirra hlut og valdið þeim tjóni. Í ljósi þess að kvörtunin barst nefndinni þegar daginn eftir að lögmaðurinn fór erindisleysu til […], og ekkert bendir til þess að A lögmannsstofa hafi greitt kostnað vegna þessa, er ekki unnt að fallast á að A lögmannsstofa uppfylli skilyrði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla um að dómari hafi „gert á hlut [þeirra] með störfum sínum“. Á hinn bóginn getur lögmaðurinn sjálfur átt aðild að kvörtuninni. Á þeim forsendum var málið metið tækt til efnismeðferðar.

II. Umkvörtunarefni
Í kvörtuninni er því lýst að […] mars 2021 hafi átt að fara fram málflutningur um frávísunarkröfu við Héraðsdóm […] í máli nr. […/2020]: A lögmannsstofa gegn D. Þegar álitsbeiðandi hafi mætt til þinghalds á […] hafi hvorki dómari né gagnaðili verið mættir. Hafi álitsbeiðanda verið tjáð í afgreiðslu dómsins að dómari hefði frestað málinu „að sögn með því að hringja í lögmenn“, en álitsbeiðandi hafi enga tilkynningu fengið með símtali, tölvubréfi eða smáskilaboðum. Hafi álitsbeiðandi óskað eftir að málflutningur færi fram, en það hafi ekki verið gerlegt þar sem dómari var ekki viðstaddur. Hafi hann hvorki fengið skýringar frá dómara né boðun í nýtt þinghald. Ljóst sé að talsverður kostnaður hafi orðið vegna þessa. Kvörtunin var send nefndinni kl. 17.51 daginn eftir að þinghaldið átti að fara fram.

Í framhaldskvörtun segir að dómari hafi mismunað aðilum málsins með því að hafna beiðni álitsbeiðanda um að þinghaldið færi fram með fjarfundabúnaði, en boðið síðan lögmanni gagnaðila með tölvubréfi, sem einungis hafi verið sent til þess lögmanns, að mæta með þeim hætti.

III. Athugasemdir héraðsdómara
Í andsvörum sínum segir dómari að hann hafi veikst föstudaginn 19. mars sl. Hann hafi áttað sig á því á sunnudeginum að hann myndi ekki komast til vinnu mánudaginn 22. s.m., en þá hafi m.a. verið fyrirhugað þinghald í máli nr. […/2020] kl. 9.30. Hafi hann afboðað þinghaldið með tölvubréfi kl. 11.02 fyrir hádegi degi fyrir ráðgert þinghald. Borist hafi staðfesting frá lögmanni stefnda og hafi dómari dregið þá ályktun að tölvubréfið hefði jafnframt skilað sér til álitsbeiðanda. Þegar hann kom til vinnu þriðjudaginn 23. mars sl. hafi honum verið tjáð að álitsbeiðandi hefði mætt til þinghaldsins. Hann hafi ætlað að hafa sambandi við álitsbeiðanda, en það hafi farist fyrir þann dag vegna anna við dóminn. Þegar kvörtunin hafi borist honum degi síðar hafi hann skoðað tölvubréfið um afboðun þinghaldsins og þá áttað sig á því að hann hafði sent það á rangt netfang álitsbeiðanda. Hafi hann sent það með snjalltæki frá heimili sínu, þar sem hann hafi ekki haft aðgang að upplýsingakerfum dómstólsins, en þar sé rétt netfang álitsbeiðanda skráð. Hafi hann væntanlega farið línuvillt þegar snjalltækið stakk upp á móttakanda. Kveður dómari ljóst að tjón hafi leitt af þessari yfirsjón hans og hafi hann beint því til álitsbeiðanda að gera honum persónulega reikning fyrir flugfari og þeim tíma sem hann fór á mis við vegna þessarar ferðar.

Dómari andmælti hins vegar sem röngu að hann hefði hafnað beiðni álitsbeiðanda um að mæta til þinghaldsins með aðstoð fjarfundaforritsins Teams. Kveðst hann kannast við að hafa rætt við álitsbeiðanda í síma og hafi skilningur sinn verið að álitsbeiðandi segðist ætla að mæta til þinghaldsins á Teams og því hafi hann boðið lögmanni gagnaðilans í tölvubréfi 8. mars sl. að mæta með sama hætti án þess að hafa álitsbeiðanda í afriti þess. Hafi hann átt von á því að báðir lögmennirnir myndu mæta á Teams. Það hafi því komið sér á óvart að álitsbeiðandi hafði mætt á staðinn. Mæting með fjarfundabúnaði hafi ávallt verið í boði í þinghöldum hjá sér síðan lagaheimild til þess hafi gengið í gildi og séu fjölmörg dæmi um slíkar fyrirtökur. Það sé beinlínis rangt að hann hafi hafnað beiðni álitsbeiðanda um að mæta á Teams og með því mismunað aðilum.

IV. Niðurstaða
Eins og fram hefur komið bauðst dómari strax til þess að bæta álitsbeiðanda það tjón sem hann hafði orðið fyrir vegna þeirra mistaka að afboða þinghaldið með skilaboðum til hans á netfangið [X] í stað netfangsins [Y]. Samkvæmt svari álitsbeiðanda við fyrirspurn nefndarinnar er netfangið [X] virkt en hefur ekki verið í notkun frá árinu 2018 vegna lögmannsstarfa hans. Óumdeilt er að við meðferð máls nr. […/2020] hefur netfangið [Y] verið notað og er skráð hjá dómstólnum. Í bréfi sínu 6. apríl 2021 beindi nefndin jafnframt fyrirspurn til álitsbeiðanda um samskipti milli hans og dómara eftir atvikið og um það hvort boð hins síðarnefnda um að bæta tjón hans hefði breytt afstöðu hans til kvörtunarinnar. Í svari sínu staðfesti álitsbeiðandi að dómari hafi í símtali 24. mars sl. boðið sér bætur vegna útlagðs kostnaðar og vinnutaps og degi síðar hafi átt sér stað samskipti vegna meðferðar málsins. Segir hann þessi samskipti hvorki hafa breytt afstöðu sinni né umbjóðanda síns til kvörtunarinnar. Í ljósi þessa og boðs dómara um að bæta tjónið óskaði nefndin þess í bréfi 20. apríl sl. að álitsbeiðandi rökstyddi þá afstöðu að halda kvörtuninni til streitu, sbr. 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016. Í svari hans kemur fram að óheimilt sé samkvæmt 2. mgr. 53. gr. sömu laga að krefja dómara um skaðabætur, en ef nefndin telji það heimilt muni hann gefa út reikning í samræmi við það. Þá telur hann dómara misminna varðandi samtal um mætingu í málflutning með fjarfundabúnaði. Eina símtalið þar um hafi átt sér stað daginn fyrir fyrirtöku málsins […] febrúar sl.

Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 50/2016 ber ríkið bótaábyrgð vegna tjóns sem dómari veldur í starfi. Það er ekki á valdi nefndar um dómarastörf að ákveða annað en þar greinir. Ákvæðið verður þó ekki skilið svo að dómara sé óheimilt að bjóða persónulega bætur vegna eigin mistaka kjósi hann að gera svo. Að því er varðar ágreining um hvort aðeins öðrum lögmanni dómsmálsins hafi boðist að flytja málið með fjarfundabúnaði en álitsbeiðanda ekki þá stendur þar orð gegn orði og getur nefndin ekki tekið afstöðu til þessa.

Niðurstaða nefndar um dómarastörf er því sú að ekki sé tilefni til að gera athugasemdir við starfshætti dómara.

Ályktarorð:
Ekki eru efni til að gera athugasemdir við starfshætti dómara.


Mál nr. 4/2021

Kvörtun var afturkölluð.

Mál nr. 5/2021

Afgreitt 8. júní 2021

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Kvörtunin varðar annars vegar starfshætti dómstjóra og hins vegar beiðni um endurúthlutun máls. Hvorugt atriðið fellur undir valdsvið nefndar um dómarastörf. Erindi var vísað frá.

Mál 6/2021

Afgreitt 13. október 2021

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Kvörtunin laut að ákvörðun dómstjóra um að birta ekki dóm. Birting dóma fellur undir stjórnsýslu viðkomandi dómstóls. Dómstólasýslan annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og setur stjórn hennar reglur, m.a. um birtingu dóma, og ákveður hvaða stjórnsýsluverkefni heyra undir forstöðumenn dómstólanna, sbr. 5. mgr. 7. gr. sömu laga, að því leyti sem slíkt er ekki lögbundið. Það er ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að fjalla um stjórnsýslu dómstólanna. Erindinu var vísað frá.

Álit nefndar um dómarastörf 15. nóvember 2021

í máli nr. 7/2021

 

 Nefndina skipa í máli þessu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

I

Málsmeðferð

Hinn 2. nóvember 2021 barst nefnd um dómarastörf kvörtun frá A lögmanni vegna dómstarfa B við Héraðsdóm[….]. Var dómara kynnt kvörtunin 9. sama mánaðar og barst andsvar tveimur dögum síðar, svo og athugasemdir kvartanda sem jafnframt bárust dómara. Nokkur fylgiskjöl fylgdu kvörtun og andsvari dómara. Viðbótargögn bárust frá kvartanda 12. sama mánaðar og voru þau kynnt dómara sama dag. Ekki bárust frekari athugasemdir frá dómara.

II

Umkvörtunarefni

Kvartandi, sem var lögmaður stefnanda í máli Héraðsdóms […] nr. […], heldur því fram að dómari hafi sýnt sér vanvirðingu við aðalmeðferð einkamáls þessa, sem fram fór […] 2021, svo og með ákvörðun um málskostnað og ummæli í tengslum við hana í dómi málsins sem kveðinn var upp […] 2021.

Fyrra umkvörtunarefnið byggir á því að dómari hafi við aðalmeðferð málsins krafið kvartanda tafarlausra útskýringa á því á hverju hann ætlaði að byggja tiltekna málsástæðu í ljósi þess sem komið hefði fram við skýrslutökur. Þegar hann hafi sagst myndu gera grein fyrir því í málflutningsræðu hafi dómari hálf hvæst á hann, áminnt hann um að svara sér ekki með þessum hætti og ítrekað kröfu sína. Telur kvartandi þetta sýna að ekki leiki vafi á því að dómari hafi haft „fyrirfram ákveðna skoðun á niðurstöðu málsins og að óþarft hafi verið fyrir lögmanninn að flytja málið.“ Hafi dómari verið ofsafullur í framkomu, sýnt niðurlægjandi svipbrigði og fussað á meðan á þessu stóð. Hafi kvartanda þannig ítrekað verið sýnd mjög niðurlægjandi framkoma af hálfu dómara fyrir framan lögmann stefnda og fyrirsvarsmann hans, sem „höfðu augljóslega mjög gaman af sýningunni.“

Síðara umkvörtunarefnið varðar ákvörðun dómara um vinnustundir og ferðakostnað kvartanda vegna málsins. Stefnandi hafði gjafsókn í málinu. Mikil vinna hafi farið í málið, eða 128 tímar samkvæmt tímaskýrslu kvartanda. Dómari hafi á hinn bóginn ákveðið honum 58 tíma og með því gefið í skyn að hann væri „að setja fram blekkingar.“ Ákvörðun dómara hafi ekki verið rökstudd og telur kvartandi að hann hafi með þessu verið hýrudreginn, honum sýnd vanvirðing og að um misbeitingu valds hafi verið að ræða.

Einnig segi í niðurstöðukafla dómsins „að úr hófi sé að ferðakostnaður í tímaskýrslu sé talinn rúmar 260.000 krónur á meðan unnt sé að fá flugfargjald fyrir 40.000 krónur.“ Þarna sé rangt farið með þar sem ferðakostnaður sé tilgreindur 88.464 krónur vegna aksturs til […] km á 114 kr/km. Dómari hafi síðar gefið þá skýringu að ferðatími kvartanda hafi verið reiknaður með ferðakostnaði. Þetta standist ekki og sé órökstutt. Telur kvartandi að þessi fullyrðing hafi þegar valdið honum „miklum og líklega óbætanlegum álitshnekki“ og telur það hafa verið ásetning dómara.

III

Andsvör héraðsdómara

Í andsvörum sínum segir dómari að atvik það sem kvartað er vegna sé væntanlega spurning dómara um málsgrundvöll stefnanda. Í málinu hafi meðal annars verið krafist greiðslu vangoldinna launa og sjúkrakostnaðar. Í upphafi kafla um málsástæður fyrir kröfu í stefnu segi: „Hvað varðar greiðsluskyldu vegna vangoldinna launa, þá telur stefnandi sannað að hann hafi verið að vinna hjá stefnda […].“ Ekki hafi verið útskýrt hvernig stefnandi teldi þetta sannað. Hafi dómari óskað eftir upplýsingum um hvar sönnun væri að finna í málinu á því að stefnandi hefði verið starfsmaður stefnda. Hana hafi ekki verið að finna í framlögðum gögnum og hún hafi ekki komið fram við skýrslutökur fyrir dómi. Athugasemd varðandi þetta hafi einnig komið fram  í greinargerð stefnda, en þar segi: „Í stefnu er fullyrt að það sé sannað að stefnandi hafi verið starfsmaður stefnda, en ekki eru lögð fram gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu.“ Það sé eðlilegt að krefja lögmann um að rökstyðja mál sitt fyrir dómi. Lögmaðurinn hafi virst óviðbúinn þessari spurningu og einnig því að vera bent á það sem tilgreint er úr greinargerð stefnda hér að framan og „virðist lögmaðurinn ekki hafa verið vel stemmdur.“ Hafi hann talað um „lygar“ í ræðuyfirliti sínu, sem hafi verið óviðeigandi orðalag. Fram er komið í málinu að dómari hafi framsent Lögmannafélagi Íslands tölvubréf frá kvartanda eftir dómsuppsögu ásamt skjáskoti af fésbókarfærslu. Hafnar dómari með öllu þeirri lýsingu á framkomu sinni sem lögmaðurinn setur fram í kvörtuninni og telur ummæli hans dæma sig sjálf.

 

Að því er varði ákvörðun gjafsóknarkostnaðar lúti kvörtunin að dómsúrlausn og heyri því ekki undir nefnd um dómarastörf, sbr. 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla.

IV

Athugasemdir

Í athugasemdum kvartanda við andsvör dómara kveður hann frjálslega farið með lýsingu á því sem fram hafi farið í kjölfar skýrslutöku við aðalmeðferð málsins og vegi dómari þar enn að honum „fyrir að hafa verið illa fyrirkallaður og illa undirbúinn“ en það sé alls ekki rétt. Það sé rétt að kvartandi hafi notað orðið „lygi“ í málflutningsyfirliti sínu og hafi hann beðist afsökunar á því. Málflutningsyfirlitið hafi hins vegar verið afhent dómara þegar málflutningur hófst og hafði sú framkoma dómara, sem kvartað sé vegna, þá löngu verið hafin og hverfist málið ekki um þá orðanotkun.

Kvartandi gerir athugasemd við það að dómari hafi sent nefndinni skjáskot af athugasemd hans við umræðu sem stofnað hafi verið til af lögmanni í fésbókarhópnum Lögmenn. Dómari hafi „fyrir opnum tjöldum“ sett fram ásakanir um að kvartandi hafi krafist yfir 260.000 króna vegna ferðakostnaðar. Stór hluti lögmanna hafi séð dóminn og nokkrir haft samband við sig. Einnig hafi dómurinn orðið að blaðaefni og vísar hann þar til greinar í […]Viðskiptablaðinu. Segir hann dómara virðast telja þetta í fínu lagi og haldi því fram að háttsemin sæti einungis skoðun undir áfrýjun málsins. Það telur kvartandi ekki geta staðist þar sem með orðum sínum í niðurstöðu dómsins vegi dómari með ómálefnalegum hætti að starfsheiðri kvartanda. 

V

Niðurstaða

Kvörtun þessi er tvíþætt. Annars vegar varðar hún háttsemi dómara við aðalmeðferð máls eins og lýst hefur verið hér að framan. Ganga ásakanir á víxl en bæði kvartandi og dómari segja að fyrri starfstengd samskipti þeirra hafi verið með ágætum. Fram kemur í athugasemdum kvartanda að hann hafi farið fram á hljóðupptöku af aðalmeðferðinni, en einungis skýrslutakan hafi verið á upptökunni.

Dómara ber ætíð að vanda orðfar sitt og látbragð til að koma í veg fyrir að svo geti virst sem að óhlutdrægni sé ekki gætt.

Í máli þessu háttar svo til að orð stendur gegn orði og engin önnur gögn eru tiltæk en staðhæfingar kvartanda og dómara um það sem fram fór í umræddu þinghaldi. Verður því ekki talið að sýnt hafi verið fram á að dómari hafi þar með framkomu sinni gert á hlut kvartanda í skilningi 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 þannig að efni séu til að gera athugasemdir við starfshætti dómara. Þess ber að geta að það fellur undir starfsskyldur dómara „að spyrja um hvert það atriði, sem honum þykir óljóst og kann að hafa þýðingu“, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Hins vegar lýtur kvörtun að ákvörðun málskostnaðar og forsendum hennar. Ákvörðun málskostnaðar í dómi er hluti dómsúrlausnar og verður ekki borin undir nefnd um dómarastörf samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016. Rökstuðningur og orðalag í dómi eru og hluti dómsúrlausnar. Þessum þætti málsins verður því vísað frá nefnd um dómarastörf.

Ályktarorð:

Ekki eru gerðar athugasemdir við starfshætti dómara við aðalmeðferð

máls nr. […].

Kvörtun vegna dómsúrlausnar um málskostnað er vísað frá nefnd um

dómarastörf.

 

 

 

 

 

Mál 8/2021

Afgreitt 22. nóvember 2021

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Helgi I. Jónsson og Sindri M. Stephensen.

Kvartað var vegna leiðréttingar dómara á mistökum er hann taldi sig hafa gert við ákvörðun málskostnaðar við áritun útivistarmáls. Það var ekki talið á valdsviði nefndar um dómarastörf að úrskurða um hvort leiðrétting sú sem kvartað var yfir felli innan marka 2. málsl 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Ákvörðun málskostnaðar í dómsmáli væri dómsúrlausn í skilningi lokamálsliðar 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016. Erindinu var vísað frá.

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2020

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2020

Mál nr. 1/2020

Afgreitt 13. febrúar 2020

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson

Álitsbeiðandi taldi dóm í einkamáli vera „ámælisverðan og ólögmætan og í engu samræmi við lög 26/1994 um fjöleignarhús“. Kvartaði hann yfir því að dómarinn hefði komist að rangri niðurstöðu og hefði ekki verið hlutlaus. Sá sem telur dómara hafa gert á hlut sinn getur beint kvörtun til nefndar um dómarastörf, en það skal gert „innan þriggja mánaða frá því að sá atburður sem kvörtunin nær til gerðist eða komst til vitundar þess sem kvartar“, sbr.  4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Dómurinn var kveðinn upp 24. september 2019, kvörtun álitsbeiðanda er dagsett 22. janúar 2020, lögboðinn frestur var því liðinn. Ennfremur varðaði kvörtunin niðurstöðu dómara. Í framangreindu lagaákvæði segir að „kvörtunum vegna dómsúrlausna dómara [verði] ekki beint til nefndar um dómarastörf.“ Það er því ekki á valdsviði nefndarinnar að endurskoða efnislega niðurstöðu dómara, þar með talið mat dómara á sönnunargögnum, túlkun laga og orðalag dóms. Erindi var vísað frá.

 

Mál nr. 2/2020

Afgreitt 6. mars 2020

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson

Um var að ræða endurtekna ítrekun kvörtunar álitsbeiðanda. Nefndin fjallaði fyrst um erindið í máli nr. 6/2017 sem afgreitt var 6. nóvember 2017. Annars vegar var um að ræða efnislega dómsúrlausn dómara sem ekki verður beint til nefndar um dómarastörf,  sbr.  4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Hins vegar var kvartað vegna þóknunar lögmanns sem ekki er á valdsviði nefndarinnar. Erindi var vísað frá.

Mál nr. 3/2020

Afgreidd 14. september 2020

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.

Með bréfi 8. júní 2020 barst nefnd um dómarastörf erindi frá lögmanni, f.h. A, kt. […], þar sem kvartað er yfir starfsháttum […] héraðsdómara við Héraðsdóm […] Beinist kvörtunin að því að óeðlilega lengi hafi dregist að ljúka máli […/2019] sem dómarinn hefur til meðferðar. Samkvæmt 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla getur hver sá sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum beint skriflegri og rökstuddri kvörtun af því tilefni til nefndarinnar

II

 Kvörtunin var kynnt dómaranum […]. júní 2020 ásamt fylgiskjölum sem voru tölvupóstar á milli hans og lögmanna vegna meðferðar málsins, frestur til andmæla var veittur til […]. sama mánaðar. Svar dómarans er dagsett þann dag og kynnt lögmanni sama dag. Með bréfi nefndarinnar […] júlí var dómaranum gefinn kostur á að gefa frekari skýringar og barst svar frá honum [… ] ágúst, var lögmanni kynnt það svar [...] ágúst. Í ljósi alvarleika málsins ákvað nefndin […] s.m. að gefa dómaranum enn kost á að gera athugasemdir. Frestur var veittur til […] september. Hinn […] september sendi dómarinn nefndinni tilkynningu um að hann hefði sent ráðherra beiðni um lausn frá embætti frá og með […]

III

Kvörtunin lýtur að því að aðalmeðferð í máli […/2019], A gegn [B] og [C], þingfest […] mars 2019, hafi farið fram […] nóvember 2019 og verið dómtekið í lok hennar. Vegna veikinda dómara hafi málið verið endurflutt […] febrúar 2020. Kveðst lögmaður álitsbeiðanda hafa spurst fyrir um málið símleiðis í byrjun mars og þá fengið þau svör að dóms væri að vænta eftir tvær vikur. Hinn […] mars hafi lögmaðurinn aftur sent fyrirspurn og fengið þau svör að dómsuppsaga hafi dregist vegna mikilla anna, þar sem […] hafi skyndilega farið í veikindaleyfi. Væri von til þess að dómur yrði kveðinn upp viku síðar. Hinn […] maí hafi lögmaðurinn enn sent fyrirspurn í tölvupósti um hvenær dómsniðurstöðu væri að vænta og fengið þau svör að vegna veikinda dómarans þyrfti að endurflytja málið öðru sinni. Málið hafi verið endurflutt […] maí 2020, tveimur dögum síðar hafi dómarinn tilkynnt að hann hefði séð atriði sem hann þyrfti að laga og dómur væri væntanlegur […] eða […] maí. Þegar enginn dómur hafi þá legið fyrir hafi lögmaðurinn sent fyrirspurn með tölvupósti og fengið þau svör að dómur yrði kveðinn upp […] s.m. Enginn dómur hafi legið fyrir þann dag og hafi því enn verið send fyrirspurn um hvenær dóms væri að vænta. Var þá tilkynnt um dómsuppsögu […] júní. Þann dag hafi lögmanninum borist tölvupóstur um að dómarinn væri veikur og dómur yrði ekki kveðinn upp.

Í erindi lögmanns álitsbeiðanda til nefndar um dómarastörf sem dagsett er […] júní 2020 er lögð áhersla á að liðnir séu rúmir sex mánuðir frá því að aðalmeðferð fór fram og að málið hafi verið endurflutt í tvígang. Séu tafirnar orðnar svo miklar að þær verði ekki lengur réttlættar með veikindum dómarans sjálfs, undirmönnun eða veikindum annarra. Það sé mikilvægt fyrir aðila einkamáls að fá tiltölulega hraða úrlausn á sínu máli fyrir dómi og vegna þess séu viðmiðunarreglur dómstólanna settar. Einnig sé mikilvægt að dómari kveði upp dóm svo fljótt sem verða má, svo honum séu málflutningsræður og vitnisburðir enn í fersku minni. Telji álitsbeiðandi að dómarinn hafi gert verulega á hlut sinn með framferði sínu. Um sé að ræða verulegt sinnuleysi af hálfu dómarans, sem geti ekki undir neinum kringumstæðum talist til vandaðra dómarastarfa.

Með kvörtuninni fylgdu tölvupóstssamskipti dómarans og lögmanna vegna málsins á tímabilinu frá […] janúar 2020 til […] júní s.á. Þar kemur fram að […] janúar tilkynnti dómarinn að hann hefði verið lagður inn á lyfjadeild og boðaði endurflutning á málinu, tókst að samræma tíma fyrir hann […] febrúar. Í tölvupósti til lögmanna deginum áður tekur dómarinn fram að dómur sé ekki tilbúinn og hann áætli að það verði eftir um tvær vikur. Hinn […] mars spyrst lögmaður álitsbeiðanda fyrir um hvenær dóms sé að vænta. Í svari dómara næsta dag kemur fram að […] hafi óvænt farið í sex mánaða veikindaleyfi í byrjun mánaðarins, og vinnuálag við dóminn því aukist, en „[n]iðurstaðan kemur fljótlega, vonandi í seinni hluta næstu viku.“ Hinn […] maí svarar dómarinn fyrirspurn lögmannsins um hvenær niðurstöðu sé að vænta. Þar kemur fram að honum þyki það leitt, en hann hafi fengið „hálsbólgu á versta tíma“ og orðið „lémagna af smithræðslu“ og því ekki náð að ljúka dómi innan átta vikna frestsins og hann leiti því eftir öðrum endurflutningi málsins. „Dómurinn kemur strax í kjölfarið“ eru lokaorð tölvupóstins. Endurflutningurinn fór fram á fjarfundi […] maí. Föstudaginn […] maí sendi dómarinn tölvubréf til lögmanna og sagði að þegar hann hefði ætlað að ganga frá dóminum hefði hann komist að því hann þyrfti að laga hann eitthvað þannig að það yrði bið til „mánu- eða þriðjudags“. Þriðjudaginn […] maí sendi lögmaður álitsbeiðanda fyrirspurn til dómarans um hvort stefnt væri að dómsuppsögu þann dag, en málið væri ekki inni á dagskrá dómstólsins. Í svari dómarans sama dag segir að miklar annir hafi komið í veg fyrir að hann lyki málinu, m.a. forsjársviptingarmál, og að hann stefni á fimmtudaginn. Enn kemur fyrirspurn frá lögmannsstofunni […] maí þar sem beðið er um upplýsingar um hvenær vænta megi dómsuppsögu. Í svari dómarans dagsettu […] júní segir að „þetta verði í síðasta lagi á föstudaginn kemur“. Hinn […] júní tilkynnir ritari dómsins að dómarinn sé veikur og því verði ekki af áður boðaðri dómsuppsögu í máli […/2019]. Þremur dögum síðar sendi lögmaður álitsbeiðanda kvörtun til nefndar um dómarastörf.

IV

Kvörtun álitsbeiðanda var, eins og að ofan greinir, kynnt dómaranum með bréfi […] júní 2020. Í andsvari héraðsdómarans […] sama mánaðar segir hann ólánið hafa elt sig í þessu máli og hafi það bitnað á álitsbeiðanda „í þeim skilningi að það [hafi] dregist að hann fengi úrlausn síns máls í héraði.“ Sé leitt að hann telji að með því hafi dómarinn gert verulega á hlut hans. „Ekki [þyki] efni til að gera fleiri athugasemdir að svo stöddu.“ Nefndin taldi svör dómarans ekki skýra á fullnægjandi hátt ástæðu þess mikla dráttar sem orðið hefði á því ljúka málinu og ákvað að óska eftir ítarlegri skýringum auk þess að spyrjast fyrir um stöðu málsins. Var það gert með bréfi […] júlí og svarfrestur veittur til […] ágúst. Hinn […] ágúst barst eftirfarandi svar í tölvubréfi: „Góðan dag. Ég verð væntanlega að una mati nefndarinnar í þá veru að skýringar séu ekki fullnægjandi. Hvað varðar afgreiðslu málsins, þá hef ég satt að segja ekki kunnað við að leysa úr því meðan ég er undir kærumáli aðilans.“ Með bréfi nefndarinnar til dómarans […] ágúst var m.a. lögð áhersla á alvarleika og afleiðingar þess ef dómarinn sinnti ekki embættisskyldum sínum, og ennfremur að meðferð kvörtunar álitsbeiðanda fyrir nefndinni réttlætti ekki frekari drátt á því að málinu yrði lokið hjá dómstólnum. Var enn gefinn kostur á að koma að frekari andmælum og athugasemdum og lokafrestur veittur til […] september. Eins og að ofan greinir tilkynnti dómarinn nefndinni […] september að hann hefði sent ráðherra beiðni um lausn frá embætti frá og með […]. Með bréfi […] 2020 hefur ráðherra fallist á beiðni hans.

V

Ferill máls […/2019] við Héraðsdóm […] sem […] héraðsdómari hefur verið með til meðferðar er rakinn hér að framan. Það er niðurstaða nefndar um dómarastörf að ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar á þeim drætti sem orðið hefur á því að ljúka málinu. Tæpir tíu mánuðir eru nú liðnir frá aðalmeðferð málsins og dómtöku þess og hefur endurflutningur farið fram tvisvar án þess að dómur yrði kveðinn upp. Þar sem fullnægjandi ástæður hafa ekki komið fram fyrir þeirri töf sem orðið hefur á því að málinu yrði lokið, liggur fyrir að um er að ræða ámælisvert brot á starfsskyldum embættisdómara sem varða ætti áminningu. Dómarinn hefur á hinn bóginn, eins og að framan er rakið, óskað eftir lausn frá embætti frá […] nk. og hefur ráðherra fallist á hana. Í ljósi þessarar stöðu dómarans og þar með málsins sem kvartað er vegna, lítur nefnd um dómarastörf svo á að áminning vegna meðferðar þess sé nú í sjálfu sér tilgangslaus enda myndi hún ekki leiða til frekari aðgerða. Nefndin telur því rétt að vísa málinu frá, sbr. 1. mgr. 48. laga nr. 50/2016 um dómstóla.

Ályktunarorð

Máli þessu er vísað frá nefnd um dómarastörf.

Mál nr. 4/2020

Afgreitt 3. júlí 2020

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson

Nefndin taldi ekki vera lagalegar forsendur til að verða við áskorun um að hún tæki mál fyrir að eigin frumkvæði. Kærufrestur var löngu liðinn, sbr. 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016. Því til viðbótar var viðkomandi dómari hættur störfum. Umkvörtunarefnið varðaði birtingu dóms, sú framkvæmd heyrir undir stjórnsýslu viðkomandi dómstóls, sem á undir dómstjóra. Störf dómstjóra á stjórnsýslusviði falla ekki undir valdsvið nefndarinnar. Erindinu var vísað frá nefndinni með þeirri athugasemd að mikilvægt væri að gæta persónuverndarsjónarmiða þegar dómar eru birtir, sé þar ekki viðhöfð ítrasta aðgæsla geti það skaðað traust til dómstólanna.

Mál nr. 5/2020

Afgreitt 24. júní 2020

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson

Kvartað var yfir úrskurði dómara um málskostnað í kjölfar sáttar, sem aðilar náðu í einkamáli. Atburðurinn sem kært var vegna átti sér stað 10. febrúar 2020, kært var til nefndarinnar 15. júní s.á. Kærufrestur var því liðinn og efnislegar dómsúrlausnir dómara falla ekki undir valdsvið nefndarinnar, sbr. 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016. Erindinu var vísað frá.

Mál nr. 6/2020

Afgreitt 6. október 2020

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson

Kvartað var yfir drætti á uppkvaðningu úrskurðar um frávísunarkröfu. Viðkomandi dómari fékk lausn frá embætti 1. október 2020. Þar af leiddi að erindið féll ekki lengur undir valdsvið nefndar um dómarastörf og var því vísað frá.

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2019

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2019

Mál nr. 1/2019

Nefnd um dómarastörf barst erindi dagsett 2. janúar 2019 vegna meintrar háttsemi og vanvirðandi framkomu héraðsdómara gagnvart skjólstæðingi álitsbeiðanda. Nefnd um dómarastörf hefur fjallað um erindið. Um er að ræða svar dómstjóra við fyrirspurn sem beint er til dómstóls sem hann stýrir. Fellur athöfnin sem kvartað er yfir því undir stjórnsýslu dómstólsins, en er ekki dómarastarf. Stjórnsýsla dómstóls er utan valdsviðs nefndar um dómarastörf. Af þeirri ástæðu er máli þessu vísað frá nefndinni.

Afgreitt frá nefnd um dómarastörf 16. janúar 2019

Mál nr. 2/2019

Hinn 24. mars 2019 barst nefnd um dómarastörf erindi álitsbeiðanda. Þar var kvartað yfir margvíslegum brotum dómara í starfi sem og lögbrotum þeirra eins og hér verður gerð nánari grein fyrir.  

Í fyrsta lagi voru eftirtaldir dómarar við Landsrétt sakaðir um m.a. að búa til sönnunargögn og tryggja ekki réttláta málsmeðferð í máli nr. […], þau A, B og […] C. Dómurinn var kveðinn upp […] 2019.

Í öðru lagi voru eftirtaldir hæstaréttardómarar, þeir D, E og F, kærðir fyrir að hafna áfrýjunarleyfi, sbr. áfrýjunarbeiðni til Hæstaréttar nr. […] og með því horfa fram hjá lögbrotum kollega sinna og vina og brjóta gegn réttlátri málsmeðferð.

Í þriðja lagi voru dómarar máls nr. […] sem rekið var fyrir Héraðsdómi X og dæmt […] 2018, G héraðsdómari og […] H og I, sökuð um rangláta málsmeðferð, persónuárásir, kynjamismunun og ótal lögbrot svo sem falsanir á sönnunargögnum. 

Í fjórða lagi var kærð aðkoma J […], að sáttameðferð og dómsmáli sem hafi verið J óviðkomandi og þess krafist að J verði fjarlægð af lista dómstólasýslunnar yfir sérfróða meðdómendur. 

Kæra varðandi dómara í héraðsdómi var of seint fram komin, sbr. 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Höfnun Hæstaréttar á áfrýjunarleyfi er efnisleg niðurstaða hæstaréttardómara og fellur ekki undir valdsvið nefndar um dómarastörf. Málefni J og val sérfróðra meðdómenda eiga ekki undir nefnd um dómarastörf. Var þessum þáttum því vísað frá nefndinni.

Að því er varðar dómara í landsréttarmáli nr. […] þá eru þeir sakaðir um að búa til sönnunargögn og þannig hafa komið í veg fyrir að álitsbeiðandi nyti réttlátrar málsmeðferðar í máli […]. Þrátt fyrir ítrekaða áskorun nefndarinnar hefur álitsbeiðandi ekki lagt fram nein gögn sem grunur leikur á að séu fölsuð. Við lestur fylgiskjala og nánari rökstuðning álitsbeiðanda verður því að ætla að með þessari fullyrðingu sé átt við að þar sem dómarar hafi fallist á að sáttavottorð […] væri gilt þrátt fyrir lýsta annmarka á málsmeðferð og með því að hafa hafnað því að að vísa málinu frá á þeirri forsendu, þá jafngildi það því að þeir hafi falsað sönnunargögn. Ekki er tekið undir það af hálfu nefndarinnar að slík ákvörðun dómara sé sambærileg við þá refsiverðu athöfn að falsa skjal. Mat dómara á skjölum sem lögð eru fram í dómi og framburði þeim tengdum og almenn sönnunarfærsla fyrir dómi eru hluti af því ferli í starfi dómara, efnislegri dómsniðurstöðu, sem er utan valdsviðs nefndarinnar. Sama á við um orðalag í dómi. 

Hitt atriðið, hvort álitsbeiðandi hafi notið réttlátrar málsmeðferðar kann að heyra undir nefndina við vissar aðstæður. Í því samhengi fullyrðir álitsbeiðandi einkum tvennt. Annars vegar að lögmanni hans hafi verið neitað um fullnægjandi undirbúningstíma og hins vegar að hann sjálfur hafi ekki fengið að tjá sig fyrir dóminum. Um það að mikilvægt hafi verið að álitsbeiðandi fengi að tjá sig í Landsrétti þar sem hann hafi ekki fengið það í héraði og orðið þar fyrir verulegum truflunum, vísaði álitsbeiðandi til eigin samantektar úr endurriti af þinghaldi […] 2018 í héraði og voru inn á milli skýringar hans sjálfs á því sem þar hafði átt sér stað varandi frammígrip við vitnisburð hans. Ekki var lagt fram staðfest endurrit þinghaldsins, né þinghalda í Landsrétti. Hér sem annars staðar gildir það að greinargerðir sem lýsa afstöðu þess sem kvartar eða fulltrúa hans verða ekki metnar sem hlutlæg gögn. Af fylgiskjölum sést að lögmaður ritaði greinargerð álitsbeiðanda í landsréttarmálinu, en ekkert skjal var lagt fram þar sem fram komu samskipti álitsbeiðanda eða lögmanns hans við dómstólinn, annað en bréf Landsréttar þar sem tilkynnt er um tilhögun aðalmeðferðar. Ekkert skjal var lagt fram sem sýnir mótmæli hans eða beiðni um aðra tilhögun eða svör dómstólsins við slíkri beiðni. Hvað varðar fordóma og mismunun sem álitsbeiðandi telur sig hafa sætt af hálfu dómara, þá leggur hann ekki fram nein sönnunargögn utan eigin fullyrðingar og túlkun sína á forsendum og niðurstöðu dóms, en eins og áður segir getur nefndin ekki byggt á þeim gögnum. Var þetta útskýrt í bréfum nefndarinnar undir meðferð málsins. Hafi álitsbeiðandi orðið fyrir röngum sakargiftum er um að ræða mál sem ekki er á valdsviði nefndarinnar að fjalla um. Vegna ásakana um að hafnað hafi verið flýtimeðferð hjá Landsdómi þá óskaði nefndin nánari upplýsinga og gagna. Álitsbeiðandi hefur ekki sinnt því. 

Álitsbeiðanda var síðast 15. ágúst 2019 bent á að skoða betur leiðbeiningar nefndarinnar í bréfum hennar frá 29. mars 2019 og 24. júní 2019. Þar sem engin viðbrögð bárust önnur en ítrekum á því sem áður var sagt og sent, síðast 21. október 2019, og þar sem kvörtun álitsbeiðanda og fylgigögn hennar móta ekki fullnægjandi grunn fyrir áframhaldandi meðferð erindis hans, þá var því vísað frá nefndinni í heild. 

Afgreitt frá nefnd um dómarastörf 23. október 2019.

 

Mál nr. 3/2019

Nefnd um dómarastörf barst kvörtun  þann 17. apríl 2019, annars vegar vegna þess að skort hafi á eftirlitshlutverk héraðsdómara með störfum skiptastjóra varðandi meðferð á dánarbúi […]. Hins vegar lýtur kvörtunin að málsmeðferð í þinghaldi og hæfi dómara. Það er ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að fjalla um dómsathafnir eins og þær sem rætt er um í kvörtuninni en það kann að vera heimilt að áfrýja eða kæra þær til æðra dóms, sbr. 143. gr. og 151 gr. laga nr. 91/1991. 

Að því er varðar ummæli sem haldið er fram að sýni óvandvirkni dómara og hlutdrægni, þá eru engin gögn til staðar sem sanna þau, og er þeim hafnað af hálfu dómarans. Hefur nefndin því ekki forsendur til að meta orðaskipti sem átt hafa sér stað og kvartað er vegna. Af þessu tilefni er þó almennt rétt að minna á mikilvægi þess að dómarar hafi það í huga að ólöglærðum aðilum eru aðstæður og reglur í dómsal yfirleitt framandi. Getur traust almennings til dómstólanna oltið á því að ólöglærðir fái skýringar og finni að þeir njóti jafnræðis. Það vekur athygli nefndarinnar að í þingbókarfærslum vegna máls […] er þess ekki getið að um ólöglærðan aðila sé að ræða og að gætt hafi verið leiðbeiningaskyldu gagnvart honum.

Að því er varðar höfnun dómara á að lögð væru fram andsvör við greinargerð varnaraðila, þá ber aðila máls að koma fram með slík andmæli í málflutningi, nema um skriflega málsmeðferð sé að ræða, sem ekki var í þessu tilviki. Meginreglan er að málflutningur sé munnlegur. Samkvæmt 1 mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 skal sóknaraðili leggja fram stefnu og önnur skjöl við þingfestingu máls. Ef sérstök ástæða er til kann hann að fá heimild til að leggja fram frekari gögn, en það getur ekki átt við skrifleg andmæli við málsvörn og skiptir afstaða varnaraðila ekki máli í því tilviki. 

Að því er varðar hæfi dómara, skal hann gæta þess að sjálfsdáðum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991, einkum í samræmi við 5. gr. sömu laga þar sem talin eru upp atriði sem valda því að dómari sé vanhæfur til að fara með mál. Það er ekki sjálfgefið að kæra á hendur dómara, sem ekki hefur verið staðreynd, valdi vanhæfi dómara. Rökin að baki því eru þau, að ella gætu aðilar almennt haft áhrif á hvaða dómari fer með mál þeirra, með því að leggja fram kvörtun eða kæru. Á hinn bóginn getur aðili gert kröfu um að dómari víki sæti standi rök til þess, sbr. 1 mgr. 6. gr laganna. Komi slík krafa fram fer fram málflutningur um hana og úrskurðar dómarinn um kröfuna. Úrskurðinn má kæra til æðra dóms, sbr. a. lið 1. mgr. 143. gr. laganna. 

Að öllu þessu athuguðu er það niðurstaða nefndar um dómarastörf að ekki sé tilefni til að fjalla frekar um erindi þetta og er því vísað frá nefndinni. 

Afgreitt frá nefnd um dómarastörf 24. júní 2019.

 

Mál nr. 4/2019

Afgreitt 25. september 2019

Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.

I
Málsmeðferð
Með bréfi 23. júní 2019 kvartaði X, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndar um dómarastörf vegna starfa Y héraðsdómara við Héraðsdóm Z og dómstjóra sama dómstóls. Nefndin fjallaði um erindið á fundi sínum 16. ágúst 2019 og var ákveðið að taka það til meðferðar og gefa kærðu tækifæri til andsvara. Var þeim kynnt erindið með bréfi 19. ágúst sl. og veittur frestur til 9. þ.m. Andsvör bárust frá héraðsdómaranum með bréfi 26. ágúst. Dómstjórinn staðfesti þegar móttöku, en vísar í tölvubréfi 16. þ.m. til svara héraðsdómarans. Svörin gáfu að mati nefndarinnar ekki tilefni til frekari kynningar.

II
Umkvörtunarefni og athugasemdir 

1)
Til umfjöllunar er erindi frá álitsbeiðanda, dagsett 23. júlí 2019. Með vísan til 47. gr. laga nr. 50/2016 kvartar hann yfir því að Y héraðsdómari hafi ekki sinnt embættisskyldu sinni, með því að hafa neitað að verða við kröfu hans um að kveða upp úrskurð um þóknun, sem áður hafði verið ákvörðuð honum til handa, og með því að hafa ekki svarað andmælum hans vegna þessa; einnig að Héraðsdómur Z hafi ekki svarað bréfi hans, sem beint var til dómsins, dagsett 20. júní sl. Þar hafi krafa um úrskurð verið ítrekuð og kvartað yfir háttsemi dómarans.

Álitsbeiðandi kveðst hafa farið fram á ákvörðun um þóknun vegna starfa sinna sem skipaður verjandi grunaðs manns í máli nr. […] hjá lögreglustjóranum á […]. Um hafi verið að ræða […] sem hafi verið úrskurðaður í farbann […] september 2018 í máli […] vegna rannsóknar á […]broti. Lögreglumálið hafi verið fellt niður af héraðssaksóknara […] 2018 og sú ákvörðun verið staðfest af ríkissaksóknara […] 2019. Álitsbeiðandi kveðst með bréfi til Héraðsdóms Y 2. apríl 2019 hafa óskað eftir ákvörðun um þóknun vegna vinnu sinnar við framangreint mál. Með bréfi dagsettu daginn eftir hafi Y héraðsdómari ákveðið honum þóknun. Álitsbeiðandi kveðst ekki hafa getað sætt sig við ákvörðunina og því krafist rökstudds úrskurðar um hana með bréfi 12. sama mánaðar. Dómarinn hafi með bréfi 23. sama mánaðar hafnað kröfunni á grundvelli þess að ekki væri lagaheimild fyrir því að kveða upp úrskurð um þá ákvörðun. Kveðst álitsbeiðandi hafa mótmælt þessari lagatúlkun með tölvupósti 2. maí s.á, vísað til fordæmis Hæstaréttar, og ítrekað kröfu sína. Dómarinn hafi ekki brugðist skriflega við en átt frumkvæði að samtali í síma sem nánar er lýst í erindinu. Með bréfi til Héraðsdóms Z 20. júní s.á. hafi álitsbeiðandi ítrekað kröfu sína um að úrskurður yrði kveðinn upp um þóknunina. Þessu bréfi hafi ekki verið svarað. 

Kröfu sína um úrskurð rökstyður álitsbeiðandi með vísan til 38. gr., 1. mgr. 181. gr. og d-liðar 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og með vísan til fordæma Hæstaréttar og Landsréttar. Hann telur erindi sitt eiga undir valdsvið nefndar um dómarastörf þar sem dómari hafi hafnað því að framkvæma dómsathöfn og með því komið í veg fyrir að unnt væri að leita endurskoðunar æðra dóms um ákvörðun hans, auk þess sem erindi til dómstólsins hafi ekki verið svarað. 

2)
Í andsvari héraðsdómarans í bréfi til nefndarinnar 26. ágúst sl. kveður hann álitsbeiðanda hafa farið fram á að dómstóllinn ákvarðaði honum þóknun í tölvupósti 2. apríl sl. sem skipaður verjandi nafngreinds manns, en lögreglumál gegn þeim aðila hafði þá verið fellt niður samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknara. Tímaskýrsla álitsbeiðanda hafi fylgt. 

Héraðsdómarinn rökstyður afstöðu sína með vísan til þess að samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, skuli ákvarða þóknun lögmanna með bókun í þingbók eða skriflega á annan hátt, ef máli ljúki ekki með dómi eða úrskurði, eins og átt hafi við í þessu tilfelli. Í samræmi við nefnt lagaákvæði, og það sem tíðkist í þessum tilfellum, hafi þóknun lögmannsins verið ákveðin með skriflegri ákvörðun degi síðar, eða 3. apríl sl. Afgreiðslu dómara á beiðni lögmannsins hafi þar með verið lokið. Í bréfi dagsettu 12. apríl, sem sent hafi verið dómstjóra Héraðsdóms Z, hafi álitsbeiðandi krafist þess að dómurinn myndi úrskurða honum þóknun vegna sömu verjendastarfa og að framan geti. Dómstjóri hafi falið dómaranum að svara erindinu hinn 15. s.m. Með bréfi 23. s.m . hafi álitsbeiðanda verið sent skriflegt svar við kröfu hans. Þar segi: „Samkvæmt 38. gr. laga nr. 88/2008 skal þóknun skipaðs verjanda ákveðin í dómi eða úrskurði ef máli lýkur þannig. Ef máli lýkur ekki með nefndum hætti ákveður dómari þóknun skriflega, eins og við á í máli umbjóðanda þíns.“ Þóknun hafi verið ákvörðuð 3. apríl með vísan til 38. gr. laga nr. 88/2008. „Samkvæmt því er búið að ákvarða þér þóknun í málinu og verður ekki séð af tilvísuðum lagaákvæðum að heimilt sé að krefjast úrskurðar um þá ákvörðun.“ Í tölvupósti til dómarans 2. maí hafi álitsbeiðandi ítrekað sömu kröfu og svarað hafði verið með formlegum hætti í nefndu bréfi frá 23. apríl. Með tölvupósti 10. maí hafi álitsbeiðandi enn sent dómaranum ítrekun með þeim orðum að ef hann fengi engin viðbrögð fyrir „lok dags á mánudag mun ég snúa mér annað með þetta.“ Kveðst dómarinn ekki hafa séð ástæðu til þess að svara þessum tölvupóstum.

Með vísan til framagreinds telur dómarinn að beiðni og krafa álitsbeiðanda hafi fengið lögformlega afgreiðslu. 

Dómstjóri Héraðsdóms Z, vísar til svars héraðsdómara og verður að skilja það svo að hann taki undir rök dómarans. 

III
Niðurstaða
Álitsbeiðandi telur erindi sitt eiga undir valdsvið nefndar um dómarastörf þar sem dómari hafni því að framkvæma dómsathöfn og komi með því í veg fyrir að unnt sé að leita endurskoðunar æðra dóms á ákvörðun hans. Ágreiningur aðila snýst um hvort heimilt sé að krefjast úrskurðar um ákvörðun um þóknun verjanda þegar máli hafi ekki verið lokið með dómi eða úrskurði. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 er agavald vegna vanrækslu dómara í starfi fyrst og fremst hjá forstöðumanni dómstóls og getur hann beint erindi til nefndar um dómarastörf beri tilmæli vegna þessa ekki árangur. Með 4. mgr. ákvæðisins er hverjum þeim öðrum sem telur dómara hafa gert á hlut sinn í störfum sínum heimilt að beina erindi til nefndarinnar innan tiltekinna tímamarka og með þeirri undantekningu að: „Kvörtunum vegna dómsúrlausna dómara verður ekki beint til nefndar um dómarastörf.“ Álitamál getur verið hvort ákvörðun dómara falli undir fyrrgreint hugtak, en valdsvið nefndarinnar nær ekki til endurskoðunar á efnislegri niðurstöðu dómara. Í ljósi þess að af fyrrgreindri ákvörðun dómarans, þar sem hafnað var að taka fyrir ágreining um þóknun og kveða upp úrskurð, leiddi að ákvörðunin varð ekki kærð til æðra dóms, telur nefndin að tilefni sé til að fjalla um erindið. 

Samkvæmt d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 eru úrskurðir héraðsdómara kæranlegir til æðri réttar varði þeir réttindi verjanda eða lögmanns sakborning við rannsókn máls, en réttindi verjanda felast m. a. í því að fá metna þóknun fyrir vinnu sína í þágu skjólstæðings. Þar sem ákvörðun verður ekki kærð til æðra dóms vegna þess að hún er almennt ekki rökstudd, verður að kveða upp úrskurð um ágreiningsefnið sé það kæranlegt og sé þess krafist. Samkvæmt 1. mgr. 181. gr. laga 88/2008 tekur dómari afstöðu til atriða sem varða rekstur máls með ákvörðun, ef önnur ákvæði laganna mæla ekki fyrir á annan veg, og ef ekki er uppi ágreiningur, og ef ágreiningsefnið er ekki kæranlegt. Ella skal dómari leiða atriði til lykta með úrskurði, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í 1. mgr. 38. gr. i.f. laga nr. 88/2008 segir að dómari ákveði þóknun með bókun í þingbók eða skriflega á annan hátt. Verður ákvæði þetta eðli málsins samkvæmt ekki túlkað svo að um sé að ræða fyrirmæli um að svipta verjanda lögvörðum rétti til að kæra úrlausnarefni til æðra dóms. Verður að mati nefndarinnar að skýra það með hliðsjón af 181. gr. laganna, einkum 2. mgr. ákvæðisins, sbr. 1. mgr. Vísar álitsbeiðandi jafnframt til tveggja dóma þar sem skýrt kemur fram að kveðnir hafi verið upp úrskurðir að kröfu aðila þar sem ákvörðun hafði áður verið tekin um þóknun. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 136/2009 kemur fram að ákvörðun um þóknun vegna starfa verjanda við rannsókn máls hafi verið ákvörðuð samkvæmt 38. gr. laga nr. 88/2008 „og endurskoðuð og rökstudd að kröfu sóknaraðila með hinum kærða úrskurði“ og í dómi Landsréttar í máli 386/2018 er staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun kröfu um þóknun, sem upphaflega hafði verið afgreidd með ákvörðun dómara en úrskurður síðan kveðinn upp að kröfu lögmannsins. Eru þessir dómar í samræmi við almennar lögskýringarreglur og fordæmi. Með óréttmætri neitun dómarans um að framkvæma umbeðna dómsathöfn, þá að taka fyrir ágreiningsefni sem kæranlegt er samkvæmt d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, og kveða upp úrskurð um það, telur nefndin að álitsbeiðandi hafi verið sviptur rétti sínum samkvæmt því ákvæði.

Nefndin telur erindi þetta mikilvægt enda varðar það grundvallarréttindi lögmanna í réttarríki. Ekki er deilt um efnislega niðurstöðu dómarans, heldur beinist erindið að því að dómari hafi tekið ákvörðun sem svipti álitsbeiðanda þeim rétti sem hann nýtur eftir fyrrgreindum lögum. Kom ákvörðun dómara í veg fyrir að hann gæti leitað endurskoðunar á ákvarðaðri þóknun hans vegna verjandastarfa. Með vísan til þess sem að framan segir bendir nefndin á að það er frum starfsskylda dómara að túlka lög í samræmi við almennar lögskýringarreglur og fordæmi og að fullt tilefni virðist vera til þess að héraðsdómarinn og dómstóllinn endurskoði hina umdeildu ákvörðun frá 23. apríl 2019.

Að því er varðar viðbrögð dómsins við kröfum álitsbeiðanda verður að líta til þess að hann sendi formlega kröfu til dómstólsins um uppkvaðningu úrskurðar 12. apríl 2019. Samkvæmt andsvari fól dómstjóri héraðsdómaranum að svara kröfunni og var það gert með bréfi 23. s.m. Var þar um rökstutt svar að ræða þó að erindinu væri hafnað og álitsbeiðandi væri ósáttur við efni þess. Álitsbeiðandi sendi tölvubréf til dómarans þegar hann fékk niðurstöðuna 2. maí og mótmælti henni. Samkvæmt frásögn álitsbeiðanda var þessum tölvupósti svarað með símtali. Sendi álitsbeiðandi ítrekaða kröfu til dómstólsins 20. júní þar sem hann rökstuddi kröfuna frekar, vísaði til lagaraka og ofangreindra hæstaréttar- og landsréttardóma. Þessu erindi álitsbeiðanda var ekki svarað af dómstólnum eða dómaranum og er ekki minnst á kröfuna í andsvari. Verður síðastgreint að teljast aðfinnsluvert. Hjördís Hákonardóttir


Ása Ólafsdóttir Friðgeir Björnsson

 

Mál nr. 5/2019.

Afgreitt 6. mars 2020.

Nefndina skipuðu Eiríkur Elís Þorláksson, varaformaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.

I. Kröfur og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 15. desember 2019, kvartaði X, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndar um dómarastörf yfir störfum Y héraðsdómara við Héraðsdóm Z. Nefndin fjallaði um erindið á fundi sínum 27. desember 2019 og var ákveðið að taka það til meðferðar og gefa Y tækifæri á að tjá sig um það. Var erindið kynnt honum með bréfi, dags. 27. desember 2019, og veittur frestur til andsvara til 10. janúar 2020. Andsvör ásamt fylgiskjölum bárust frá dómaranum með bréfi, dags. 10. janúar 2020. Þá voru nefndinni send gögn frá álitsbeiðanda 3. febrúar 2020 og gögn frá Þ, lögmanni Ö 10. febrúar 2020.

Álitsbeiðandi gerir þá kröfu að Y héraðsdómari verði áminntur vegna ákvarðana dómarans sem teknar voru á aðfinnslufundi í máli Ö-29/2018 vegna kvörtunar samkvæmt 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Héraðsdómari gerir þá kröfu að kvörtun álitsbeiðanda verði vísað frá nefnd um dómarastörf.

Formaður nefndarinnar, Hjördís Hákonardóttir, taldi sig vanhæfa til að fara með mál þetta. 

II. Málavextir

Héraðsdómur Z skipaði álitsbeiðanda skiptastjóra í þrotabúi A með úrskurði 7. september 2016. Undir rekstri gjaldþrotamálsins hafði tiltekinn kröfuhafi, Ö, uppi aðfinnslur við störf álitsbeiðanda sem skiptastjóra í tilgreindu þrotabúi. Ágreiningsmálið fékk númerið Ö-29/2018 hjá héraðsdómi. Það var fyrst tekið fyrir 11. janúar 2019 þar sem kvörtun yfir störfum álitsbeiðanda var lögð fram. Álitsbeiðandi lagði fram greinargerð sína í málinu 20. febrúar 2019. Á sama tíma var málið Ö-29/2018 sameinað öðrum málum, þ.e. málunum nr. Ö-2/2019, Ö-3/2019 og Ö-4/2019, og rekið undir málsnúmerinu Ö-29/2018, en hin síðarnefndu mál komu til vegna aðfinnslna tiltekinna annarra kröfuhafa í þrotabú A við störf álitsbeiðanda sem skiptastjóra. Málið var tekið fyrir í nokkur skipti og 15. október 2019 tók héraðsdómari þær ákvarðanir sem mál þetta lýtur að.

Í ákvörðun Y héraðsdómara frá 15. október 2019 var fjallað um þær aðfinnslur sem hafðar höfðu verið uppi í garð álitsbeiðanda af hálfu tiltekinna kröfuhafa í þrotabúi A Þær aðfinnslur lutu fyrst og fremst að því að álitsbeiðandi hefði ekki upplýst kröfuhafa um tilfallandi kostnað hans vegna vinnu í þágu búsins. Þá hefði hann ekki upplýst hvort hann hefði eða myndi taka sér greiðslu smám saman af fé þrotabúsins upp í áfallna þóknun eins og gert væri ráð fyrir í 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Síðar hefði komið í ljós að hann hafi greitt sjálfum sér verulegar þóknanir. Þá voru hafðar uppi athugasemdir við tímagjald sem álitsbeiðandi áskildi sér. Af hálfu kröfuhafa var þess krafist að héraðsdómur fyndi að skiptaþóknun álitsbeiðanda og að hún yrði lækkuð verulega. Hluti þeirra kröfuhafa sem höfðu uppi aðfinnslur í garð álitsbeiðanda kröfðust þess að honum yrði vikið úr starfi sem skiptastjóri þrotabús A. Álitsbeiðandi andmælti öllum kröfum og sjónarmiðum þeirra kröfuhafa sem höfðu uppi aðfinnslur í hans garð.

Í ákvörðun héraðsdómara 15. október 2019 var fallist á sjónarmið kröfuhafa í bú A að hluta. Var fallist á að álitsbeiðandi skyldi endurgreiða þá þóknun sem hann hafði greitt sér, enda skorti hann að mati héraðsdómara heimild til þeirrar ráðstöfunar að taka sér greiðslu af fjármunum búsins. Samkvæmt ákvörðun héraðsdómara skyldi endurgreiðslan fara fram fyrir 22. nóvember 2019 en þá yrði haldinn svokallaður aðfinnslufundur þar sem ákvörðun yrði tekin um framhald skiptanna. Þar kom jafnframt fram að aðfinnsluvert væri með hvaða hætti hefði verið staðið að kynningu álitsbeiðanda á tímagjaldi og skráðum tímafjölda vegna einstakra verkefna. Þar á meðal væri aðfinnsluferð sú ákvörðun skiptastjóra að taka sér greiðslu af fjármunum búsins meðan á skiptum stæði án þess að bóka um þann áskilnað í fundargerð. Afstaða til lækkunar skiptaþóknunar eða þess hver væri hæfileg þóknun álitsbeiðanda yrði hins vegar ekki tekin á því stigi málsins. Loks kom fram að þar sem skiptameðferð A væri langt komin væri ekki rétt að víkja álitsbeiðanda frá sem skiptastjóra.

Sem fyrr segir kvartaði álitsbeiðandi undan þessari ákvörðun héraðsdómara til nefndar um dómarastörf með bréfi, dags. 15. desember 2019.

III. Sjónarmið álitsbeiðanda

Álitsbeiðandi krefst þess að Y héraðsdómari verði áminntur og byggir kvörtun sína á því að ákvarðanir dómarans, sem hann tók 15. október 2019 á aðfinnslufundi í máli nr. Ö-29/2018, hafi verið ólögmætar og ámælisverðar. Ákvarðanirnar voru teknar vegna kvörtunar kröfuhafa í þrotabú A eins og nánar verður rakið síðar. Álitsbeiðandi byggir á því að héraðsdómari hafi í umræddu máli tekið á sig krók og farið langt út fyrir lagaheimildir í því skyni að taka ákvörðun sem sé verulega íþyngjandi fyrir álitsbeiðanda. Í þeirri vegferð hafi héraðsdómari að mati álitsbeiðanda farið gegn ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og anda þeirra laga og gengið gegn hagsmunum og skýrum vilja mikils meirihluta kröfuhafa í þrotabúinu. Megi af ákvörðuninni og meðferð málsins ráða að álitsbeiðandi hafi ekki notið sannmælis hjá héraðsdómaranum heldur virðist sem afstaða dómarans hafi þvert á móti litast af persónulegri andúð í garð álitsbeiðanda. Ólögmætar ákvarðanir héraðsdómarans verði trauðla hægt að skýra með öðrum hætti.

Í kvörtun álitsbeiðanda kemur fram það mat hans að efnisatriði kvörtunarinnar falli undir verksvið nefndar um dómarastörf. Nefndinni sé samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla ætlað að taka við og leysa úr kvörtunum þeirra sem telji að dómari hafi gert á sinn hlut í störfum sínum. Um slíkar kvartanir sé kveðið á um í 4. mgr. 47. gr. laganna þar sem segi að hverjum þeim sem telji dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum sé heimilt að beina skriflegri og rökstuddri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf. Kvörtunum vegna dómsúrlausna verði hins vegar ekki beint til nefndarinnar. Ljóst sé að kvartanir til nefndarinnar geti varðað störf dómara við þau mál sem hann sé með á sínu borði. Segi þannig í greinargerð með 47. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 að þegar komi að kvörtunarfrestum eigi þeir sér samsvörun í lagareglum stjórnsýsluréttar um kærufrest og þyki þeir frestir eðlilegir til að koma í veg fyrir að til nefndar um dómarastörf verði beint gömlum málum sem erfitt kunni að vera að upplýsa. Í greinargerð með ákvæðinu sé það nánar skýrt  hvað sé átt við um dómsúrlausn en þar segi að með því sé m.a. átt við allar úrlausnir dómara sem möguleiki sé að bera undir æðri dóm. Þannig verði úrlausnum um hæfi dómara eða hvort þinghald skuli vera lokað til að mynda ekki skotið til nefndarinnar. Álitsbeiðandi bendi á að ákvörðun héraðsdómara sem kvörtun hans lúti að sé ekki kæranleg til æðri dóms. Um sé að ræða ákvörðun dómara sem sé í raun stjórnsýslulegs eðlis og varði eftirlit dómstólsins með störfum skiptastjóra en ekki um eiginlega dómsúrlausn að ræða; þ.e. dóm, úrskurð eða ákvörðun sem hafi verið tekin undir rekstri dómsmáls.

Í kvörtun sinni rekur álitsbeiðandi aðdraganda þeirrar ákvörðunar héraðsdómarans sem kvörtun hans lýtur að. Hann hafi verið skipaður skiptastjóri í þrotabúi A með úrskurði Héraðsdóms Z 7. september 2016. Í kvörtun hans er lýst þeim aðgerðum sem hann hefur gripið til sem skiptastjóri. Þá er því lýst að mál það sem kvörtunin lúti að hafi hafist með bréfi lögmannsins Þ f.h. Ö til Héraðsdóms Z, dags. 20. desember 2018, þar sem vakin hafi verið athygli héraðsdóms á meintum óeðlilegum starfsháttum álitsbeiðanda sem skiptastjóra. Ástæða bréfsins hafi verið sögð sú að illa hafi verið staðið að því að upplýsa kröfuhafa um tilfallinn kostnað, skiptafundum hafi verið frestað og skiptastjóri hafi forðast að fara yfir ráðstafanir búsins og kostnað. Málið hafi fengið númerið Ö-29/2018 og verið tekið fyrir í fyrsta sinn 11. janúar 2019 þar sem álitsbeiðanda hafi verið veittur frestur til að skila greinargerð. Málið hafi svo verið tekið fyrir á ný 20. febrúar 2019 og þá hafi bæst við aðfinnslur frá fjórum öðrum lögaðilum. Þá hafi málið verið tekið fyrir nokkrum sinnum og 17. september 2017 hafi þrír aðrir lögaðilar bæst í hóp þeirra sem hafi haft uppi aðfinnslur við störf álitsbeiðanda. Aðfinnslur allra þessara aðila hafi m.a. lotið að því að álitsbeiðandi hafi tekið sér þóknun fyrir störf sín sem skiptastjóri A án þess að hann hafi áskilið sér að taka þóknun af fjármunum búsins jafnharðan.

Álitsbeiðandi rekur afstöðu sína til kvörtunarefna þeirra sem höfðu uppi athugasemdir við störf hans sem skiptastjóra í kvörtun sinni til nefndar um dómarastörf. Þessar kvartanir hafi svo leitt til hinnar ólögmætu ákvörðunar héraðsdómara. Héraðsdómari hafi boðað til fundar í aðfinnslumálinu nr. Ö-29/2018 15. október 2019. Á þeim fundi hafi verið lesin upp fundargerð sem hafði að geyma ákvörðun héraðsdómara í málinu og vísað þar til greinargerðar sem hann ritaði til að rökstyðja ákvörðun sína. Í ákvörðuninni segi að sú ákvörðun álitsbeiðanda að taka sér greiðslu af fjármunum búsins á meðan á skiptum stæði, án þess að bóka um þann áskilnað í fundargerð, væri aðfinnsluverð. Hafi héraðsdómari jafnframt lagt fyrir álitsbeiðanda að endurgreiða þrotabúinu þá þóknun sem hann hefði ráðstafað til sjálfs sín. Sú endurgreiðsla hafi átt að fara fram fyrir 22. nóvember 2019 en þá yrði haldinn aðfinnslufundur að nýju þar sem ákvörðun yrði tekin um aðkomu skiptastjóra við framhald skiptanna.

Í kvörtun álitsbeiðanda er fjallað um að ákvörðun héraðsdómara sem tekin var 15. október 2019 fái ekki staðist. Bendi álitsbeiðandi á að það sé alfarið rangt að bóka eigi í fundargerð áskilnað um að skiptastjóri taki sér greiðslu af fjármunum þrotabús á meðan á skiptum standi. Skírskotun héraðsdómara um að þörf sé á að bóka í fundargerð þann áskilnað eigi sér ekki stoð í ákvæði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 heldur komi þar aðeins fram að skiptastjóri skuli kynna ákvörðun um það á skiptafundi. Þá eigi tilvísun héraðsdómara til 128. gr. laganna ekki við. Auk þess sé röksemdafærsla héraðsdómara með ólíkindum um að álitsbeiðandi hafi ekki kynnt á skiptafundi að hann myndi taka sér þóknun á meðan á skiptum stæði. Í því sambandi sé bent á að á skiptafundi hafi verið rætt um áfallinn skiptakostnað en með því sé átt við kostnað sem væri þegar til fallinn. Hvergi væri að finna réttarheimildir sem kvæðu á um það gildisskilyrði fyrir ákvörðun samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 að bókað væri um þá ákvörðun og enn síður með hvaða hætti eða orðalagi slík ákvörðun ætti að vera bókuð.

Í kvörtun sinni rekur álitsbeiðandi meðal annars að hann hafi sýnt fram á undir rekstri aðfinnslumálsins að ákvörðun hans á grundvelli 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið kynnt á skiptafundi. Tilgreinir hann í þeim efnum tiltekna fundi og tiltekna lögmenn sem hafi staðfest að hann hafi kynnt ákvörðun sína að taka sér greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun sína á meðan á skiptum stæði. Þá bendir álitsbeiðandi á að sú aðfinnsla héraðsdómara um hvernig álitsbeiðandi hefði staðið að kynningu á tímagjaldi væri fullkomlega órökstudd. Hið sama eigi við um kynningu á tímafjölda einstakra verkefna. Ákvörðun héraðsdómara væri því ekki í samræmi við áskilnað laga nr. 21/1991 og í andstöðu við afstöðu meirihluta kröfuhafa.

III. Athugasemdir dómara

Y héraðsdómari kom sjónarmiðum sínum á framfæri með greinargerð, dags. 10. janúar 2020. Þar kemur m.a. fram að kvörtun álitsbeiðandi lyti að dómsákvörðun sem tekin hefði verið 15. október 2019. Sú dómsákvörðun væri samtals 22 blaðsíður að lengd, þar sem farið væri yfir þær kröfur sem gerðar hefðu verið í málinu og rakin þau samskipti sem átt hafi sér stað og komi fram í fundargerðum aðfinnslufunda sem hafi verið haldnir í máli nr. Ö-29/2018. Í ákvörðuninni sé rakið með hvaða hætti skiptaþóknun álitsbeiðanda hafi verið kynnt á skiptafundum og teknar upp úr fundargerðum skiptafunda einstakar umræður um þá ákvörðun. Þá sé jafnframt vikið að einstökum dómsmálum sem þrotabú A hafi staðið fyrir en kostnaður vegna þeirra sé langstærstur hluti heildarkostnaðar búsins, eða á bilinu 110 til 120 milljónir króna. Þá sé í ákvörðuninni rakin sjónarmið þeirra kröfuhafa sem hafi haft uppi aðfinnslur við störf álitsbeiðanda og sjónarmið álitsbeiðanda sjálfs. Í lokakafla dómsákvörðunarinnar séu síðan rakin sjónarmið dómsins og á hverju ákvörðunin sé byggð og ítarlega farið yfir þau lagaatriði sem skipti máli varðandi umrædda dómsákvörðun og áframhaldandi rekstur málsins.

Í greinargerð héraðsdómara kemur fram að alls hafi tíu aðilar gert athugasemdir við störf álitsbeiðanda. Af þessum tíu aðilum hafi allir, að undanskildum einum þeirra, gert þá kröfu að féllist héraðsdómur ekki á að víkja álitsbeiðanda úr starfi eftir 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 að úrskurðað yrði um frávikningu álitsbeiðanda, sbr. 3. mgr. 76. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 lýsi því nánar hvernig staðið skuli að aðgerðum ef tilefni sé til afskipta héraðsdómara af störfum skiptastjóra. Þar sé gert ráð fyrir því að héraðsdómari kveðji skiptastjóra á sinn fund og eftir atvikum þá sem geri athugasemdir við störf hans. Gert sé ráð fyrir því að héraðsdómari gefi þeim sem komi á fund hans kost á að tjá sig um málefnið og taki síðan ákvörðun um viðbrögð sín. Ekki verði séð að krafa álitsbeiðanda byggi að einhverju leyti á því að þessum atriðum hafi verið ábótavant. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við meðferð málsins að öðru leyti en því að álitsbeiðandi telji að ákvörðun héraðsdóms ólögmæta og ámælisverða.

Þá kemur fram hjá héraðsdómara að í 76. gr. laga nr. 21/1991 sé rakið hvaða viðbrögð dómara við aðfinnslum komi til greina. Þau geti orðið á þann veg að hann telji ekki tilefni til frekari aðgerða af sinni hálfu eða að veita eigi skiptastjóra áminningu og frest til þess að bæta úr starfsháttum sínum. Slík ákvörðun yrði bókuð í þingbók og ekki sé ætlast til þess að hún geti sætt kæru til æðri dóms. Ákvæði 76. gr. geri jafnframt ráð fyrir því að héraðsdómari geti vikið skiptastjóra úr starfi hvort sem áður hafi verið veitt áminning eða ekki ef dómari telji tilefni til þess. Skilyrði þess sé að um frávikninguna sé kveðinn upp rökstuddur úrskurður sem sé kæranlegur til æðri dóms. Það hafi því verið álitsbeiðanda í sjálfsvald sett hvort hann teldi ástæðu til þess að fara eftir ákvörðun dómsins. Honum hafi að sjálfsögðu verið í lófa lagið að virða aðfinnslurnar að vettugi ef hann teldi þær byggðar á ólögmætum og ámælisverðum sjónarmiðum. Slík afstaða hefði annað hvort leitt til þess að dómari hefði kveðið upp úrskurð um frávikningu hans, sem hefði verið kæranlegur til æðri dóms, eða hann hefði tekið afstöðu til krafna þeirra sem hafi gert aðfinnslur við störf álitsbeiðanda og krefðust þess að hann viki sæti með úrskurði, sem einnig hefði verið kæranlegur til æðri dóms. Álitsbeiðandi hafi hins vegar kosið að framfylgja ákvörðun dómsins og fallist með því á að lagfæra þau atriði sem fundið hafi verið að og þannig viðurkennt réttmæti aðfinnslnanna. Álitsbeiðandi geti því ekki fallist á ákvörðun dómsins og með því komið í veg fyrir að kveðinn sé upp úrskurður þegar í stað um frekari aðkomu hans að skiptunum og um leið krafist einhvers konar endurskoðunar nefndar um dómarastörf á þeirri ákvörðun.

Héraðsdómari byggir kröfu sína um að vísa beri frá kvörtun álitsbeiðanda þar sem samkvæmt 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla verði kvörtunum vegna dómsúrlausna ekki beint til nefndar um dómarastörf. Vísar hann til athugasemda með frumvarpi er varð að lögum nr. 50/2016 þar sem segi að með dómsúrlausnum sé m.a. átt við allar úrlausnir dómara sem möguleiki sé á að bera undir æðri dóm. Almennt verði að gjalda varhug við því að nefnd á vegum framkvæmdarvaldsins geti endurskoðað efnislega niðurstöður dómara. Ákvæði 47. gr. verði ekki skilið með þeim hætti að með því að ákvörðun sé ekki kæranleg falli hún sjálfkrafa undir valdsvið nefndarinnar. Í athugasemdum við frumvarp til dómstólalaga séu dómsúrlausnir, sem hægt sé að bera undri æðri dóm, aðeins nefndar í dæmaskyni um mál sem ekki falli undir valdsvið nefndarinnar. Í þessu felist ekki að öll önnur mál falli þar með undir valdsvið nefndarinnar. Almennt hljóti það að orka tvímælis, m.a. út frá 43. gr. laga nr. 50/2016 um sjálfstæði dómstóla sem og viðteknum sjónarmiðum stjórnskipunarréttar að stjórnsýslunefnd verði einhvers konar áfrýjunardómstóll sem endurskoði lögfræðilegar niðurstöður dómstóla í þeim tilvikum þar sem löggjafinn hafi falið dómstólum endanlegt úrskurðarvald. Slíkt hljóti að verða að meta hverju sinni. Ákvæði 43. gr. sé nánast samhljóða 24. gr. eldri laga um dómstóla nr. 15/1998. Í greinargerð með síðarnefnda ákvæðinu sé vikið að þessu sjálfstæði dómstóla.

Í greinargerð héraðsdómara segir að nefnd um dómarastörf hafi margsinnis fjallað um gildissvið nefndarinnar í álitum sínum. Vísar héraðsdómari til álita nefndar um dómarastörf, m.a. í málum nr. 5/2017, 1/2010, 2/2011, 5/2012, 1/2013, 4/2015, 2/2010, 1/2011, 3/2011, 1/2012, 4/2012, 3/2013, 1/2014, 2/2014, 3/2014, 4/2014, 7/2014, 2/2015, 4/2015, 6/2015, 1/2016, 2/2016, 3/2016, 6/2016, 1/2017, 2/2017, 4/2017, 5/2017, 6/2017, 7/2017 og 3/2018. Þess megi geta að ákvörðun dómara um skipan manns í starf skiptastjóra verði ekki skotið til æðra dóms. Allt að einu telji nefnd um dómarastörf að hún falli ekki undir verksvið nefndarinnar, enda sé um dómsathöfn að ræða. Álit nefndarinnar sýni að lögð sé áhersla á að valdsvið nefndarinnar taki fyrst og fremst til framferðis dómara gagnvart málsaðilum fyrir dómi, svo sem að komið sé fram við aðila af fullri virðingu og kurteisi og þeir njóti jafnræðis í réttarsal af hálfu dómara. Þá geti valdsvið nefndarinnar einnig tekið til þess að dómari hafi ekki gætt að lögbundnum skyldum sínum í starfi.

Héraðsdómarinn kveðst leggja á það áherslu að í störfum sínum hafi hann sýnt álitsbeiðanda fulla kurteisi og virðingu og tryggt jafnræði álitsbeiðanda í samskiptum hans við gagnaðila. Þá hafi hann lagt sig fram um að gæta þeirra málsmeðferðarreglna sem gildi um þá kröfu sem sé til meðferðar. Aldrei hafi komið til þess að álitsbeiðanda hafi verið synjað um dómsathafnir. Verði ekki séð að álitsbeiðandi geri neinar athugasemdir hvað þessi atriði varði. Athugasemdir hans lúti að því að efnisleg niðurstaða dómsins og sú lagatúlkun sem þar sé lögð til grundvallar feli í sér persónulega andúð í garð álitsbeiðanda. Ekki sé óþekkt að málsaðilar og jafnvel einstakir lögmenn telji að dómsniðurstöður feli í sér einhvers konar persónulega óvild í þeirra garð. Það sé enginn flötur fyrir nefnd um dómarastörf að taka slíkar beiðnir til efnismeðferðar ef ekkert annað komi til. Álitsbeiðandi hafi getað knúið á um endurskoðun á þeim sjónarmiðum sem umrædd ákvörðun hafi verið byggði á fyrir æðri dómi. Aðkoma nefndar um dómarastörf komi aðeins til greina ef dómari sýni af sér ámælisverða háttsemi í störfum sínum. Í því máli sem hér um ræði telji álitsbeiðandi að sú ámælisverða háttsemi felist í lagatúlkun dómarans. Valdsvið nefndarinnar taki ekki til efnislegrar endurskoðunar á þeirri ákvörðun.

Þá segir í greinargerð héraðsdómara að málinu sé ekki lokið fyrir héraðsdómi og m.a. vegna þess sé óheppilegt að hann tjái sig um einstök sjónarmið álitsbeiðanda. Hann vilji þó taka fram, vegna málatilbúnaðar álitsbeiðanda um að ákvörðun hans hafi í raun verið stjórnsýslulegs eðlis og varði eftirlit dómstólsins með störfum skiptastjóra, að hann fari ekki með stjórnsýsluvald í störfum sínum sem héraðsdómari. Nefnd um dómarastörf hafi litið svo á í álitum sínum að skipun skiptastjóra og eftirlit með þeim falli ekki undir valdsvið nefndarinnar. Hið sama eigi við um önnur störf dómara sem tengist meðferð dómsmáls. Þá sé það ekki á valdsviði nefndarinnar að taka afstöðu til vanhæfis hans. Loks mótmæli hann því að hann hafi frestað málinu sem um ræði án lagastoðar.

IV. Forsendur og niðurstaða

Álitsbeiðandi gerir í máli þessu þá kröfu að Y héraðsdómari verði áminntur. Álitsbeiðandi reisir kröfu sína aðallega á því að héraðsdómari hafi tekið ólögmæta og ámælisverða ákvörðun 15. október 2019 þar sem kveðið var á um að sú háttsemi álitsbeiðanda, að taka sér greiðslu þóknunar sem skiptastjóri í þrotabúi A á meðan á skiptum þess stæði, væri ólögmæt. Þá byggir álitsbeiðandi á því að líta verði til þeirrar ákvörðunar héraðsdómara að álitsbeiðandi skyldi endurgreiða þrotabúinu þá þóknun sem hann hefði ráðstafað til sín og að sú endurgreiðsla skyldi fara fram fyrir 22. nóvember 2019. Þá verður að líta svo á að kvörtun álitsbeiðanda nái til þess að dómarinn hafi fundið að því hvernig staðið hafi verið að kynningu álitsbeiðanda á tímagjaldi og tímafjölda einstakra verkefna svo og að hann hafi tekið sér greiðslu af fjármunum búsins án þess að bóka um þann áskilnað í fundargerð. Álitsbeiðandi byggir og á því að héraðsdómari hafi í umræddu máli, sem ákvörðun dómarans var tekin í, tekið á sig krók og farið langt út fyrir lagaheimildir í því skyni að taka ákvörðun sem væri verulega íþyngjandi fyrir álitsbeiðandi. 

Ágreiningur er með aðilum um hvort að kvörtun álitsbeiðanda falli undir valdsvið nefndar um dómarastörf. Álitsbeiðandi telur að svo sé og vísar í þeim efnum til 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Byggir hann á því að ekki hafi verið um dómsúrlausn að ræða í skilningi ákvæðisins. Bendir hann m.a. á ummæli í greinargerð í frumvarpi er varð að þeim lögum þar sem kemur fram að með dómsúrlausnum sé m.a. átt við allar úrlausnir dómara sem möguleiki sé að bera undir æðri dóm. Ákvörðun héraðsdómara hafi ekki verið kæranleg heldur verið í raun stjórnsýslulegs eðlis og varðað eftirlit dómstólsins með störfum skiptastjóra. Héraðsdómari telur á móti að um hafi verið að ræða dómsúrlausn og því eigi málið ekki undir nefnd um dómarastörf.

Hlutverk nefndar um dómarastörf er samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla m.a. að taka við og leysa úr kvörtunum þess sem telur dómara, eða eftir atvikum aðstoðarmann dómara, hafa gert á sinn hlut í störfum sínum og slíkum kvörtunum sem vísað er til hennar af forstöðumanni dómstóls eða ráðherra, sbr. 47. gr. Í ákvæði 47. gr. er fjallað um kvartanir vegna ávirðinga dómara. Í 1. og 2. mgr. er vikið að þeirri aðstöðu þar sem forstöðumaður dómstóls telur að háttsemi dómara geti talist aðfinnsluverð. Í 3. mgr. segir að ráðherra sé heimilt að beina máli til nefndar um dómarastörf og að nefndinni sé enn fremur heimilt að taka mál upp að eigin frumkvæði. Í 4. mgr. 47. gr., sem hér kemur einkum til skoðunar, segir að hverjum öðrum þeim sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum sé heimilt að beina skriflegri og rökstuddri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf. Skuli slík kvörtun hafa borist nefndinni innan þriggja mánaða frá því að sá atburður sem kvörtunin nær til gerðist eða komst til vitundar þess sem kvartar. Þá segir að kvörtun verði þó ekki beint til nefndar um dómarastörf að liðnu ári frá því að sá atburður sem kvörtun nær til átti sér stað. Loks segir að kvörtunum „vegna dómsúrlausna dómara“ verði ekki beint til nefndar um dómarastörf.

Sem fyrr segir verður kvörtunum vegna dómsúrlausna dómara ekki beint til nefndar um dómarastörf. Dómarar hafa hlutverki að gegna við meðferð mála sem fer eftir lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Til að mynda á það undir héraðsdóm að taka ákvörðun um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt XI. kafla laganna. Þá skipar héraðsdómur skiptastjóra eftir XIII. kafla laganna. Héraðsdómur hefur einnig það hlutverk að leysa úr ágreiningsmálum sem rísa kunna um gjaldþrotaskipti og meðferð þeirra, sbr. XXIII. og XXIV. kafla laganna. Ákvarðanir á grundvelli þessa kafla laganna eru teknar í skjóli valdheimilda dómara í samræmi við það hlutverk sem dómurum er falið í lögum nr. 21/1991. Þær ákvarðanir dómarans sem álitsbeiðandi byggir á að hafi verið ólögmætar eða ástæðulausar og eigi að leiða til áminningar héraðsdómara í máli þessu, voru teknar á grundvelli 76. gr. laga nr. 21/1991. Sama máli gegnir um aðfinnslur dómarans vegna kynningar álitsbeiðanda á tímagjaldi og tímafjölda og gjaldtöku fyrir skiptastjórn án þess að bóka um það í fundargerð. Ákvæði 76. gr. laga nr. 21/1991 felur í sér að kröfuhafar í þrotabúi geta borið upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara og hvernig hann eigi að fara með slíkar aðfinnslur. Í 2. mgr. 76. gr. segir að telji héraðsdómari aðfinnslur á rökum reistar geti hann gefið skiptastjóra kost á að bæta úr innan tiltekins frests. Á þessum grunni var ákvörðun héraðsdómara frá 15. október 2019 tekin. Fyrir dómarann var lagður tiltekinn réttarágreiningur sem hann leysti úr með vísan til þeirra ákvæða laga sem hann taldi eiga að gilda um ákvörðun hans, en nefnd um dómarastörf endurskoðar ekki það mat hans. Ákvörðun hans var því tekin á grundvelli lagaákvæðis sem gerir ráð fyrir aðkomu dómstóla undir þeim kringumstæðum að gerðar eru aðfinnslur við störf skiptastjóra þrotabús. Því var ákvörðun dómarans tekin í skjóli valdheimilda hans sem dómara. Verður því fallist á þau sjónarmið héraðsdómara að um dómsúrlausn sé að ræða í skilningi 4. mgr. 47. laga nr. 50/2016 en ekki ákvörðun sem sé stjórnsýslulegs eðlis. Kvörtunum vegna dómsúrlausna verður samkvæmt 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 ekki beint til nefndar um dómarastörf.  

Með hliðsjón af framangreindu verður að líta svo á að ákvörðun héraðsdómara frá 15. október 2019 sé dómsúrlausn í skilningi framangreinds ákvæðis sem ekki verður réttilega beint til nefndar um dómarastörf. Er því kvörtun álitsbeiðanda vegna starfa Y héraðsdómara vísað frá nefnd um dómarastörf.

 

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2018

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2018

Mál nr. 1/2018

Afgreitt 19. febrúar 2018

Nefndina skipuðu: Hjördís Hákonardóttir, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson

 

Kvartað var yfir störfum X héraðsdómara við Héraðsdóm Y

Kæran byggðist á því að dómarinn hafi gert á hlut kæranda í störfum sínum við meðferð máls nr. […/2015], sbr. 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, með því að gæta ekki óhlutdrægni gagnvart aðilum málsins. Lýsti kvartandi dæmum um háttsemi sem hafi verið til þess fallin að vekja tortryggni í garð dómarans og krafðist þess að dómarinn viki sæti en hann hafi hafnað því í úrskurði.

Ákvæði 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 er svohljóðandi:

Hverjum þeim öðrum sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum er heimilt að beina skriflegri og rökstuddri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf. Skal slík kvörtun hafa borist nefndinni innan þriggja mánaða frá því að sá atburður sem kvörtunin nær til gerðist eða komst til vitundar þess sem kvartar. Kvörtun verður þó ekki beint til nefndar um dómarastörf að liðnu ári frá því að sá atburður sem kvörtun nær til átti sér stað. Kvörtunum vegna dómsúrlausna dómara verður ekki beint til nefndar um dómarastörf.

 

Samkvæmt endurriti úr þingbók Y hélt dómarinn fyrsta þinghald í málinu […] nóvember 2015. Úrskurður um kröfu kvartanda um að dómarinn viki sæti var kveðinn upp […] desember 2015, en ekki verður séð af þingbókinni hvort úrskurðurinn var kærður til æðra dóms. Næsta þinghald þar á eftir var haldið […] janúar 2016. Aðalmeðferð fór fram […] mars 2016 og dómur var kveðinn upp í málinu […] apríl 2016.

Eins og segir í tilvitnaðri 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 skal kvörtun aðila, sem telur dómara hafa brotið á sér með störfum sínum, hafa borist nefndinni innan þriggja mánaða frá því að sá atburður sem kvörtunin nær til gerðist eða hann komst til vitundar þess sem kvartar. Ljóst má vera að […] desember 2015, þegar bókað er í þinghaldi um kröfu með vísan til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um að dómarinn víki sæti, taldi kvartandi þá þegar á sér brotið. >Rúm tvö ár voru liðin frá því að dómari hafnaði því að víkja sæti og tæp tvö ár frá því að meðferð máls þessa lauk.

Þar sem frestur til að beina kvörtun til nefndar um dómarastörf var liðinn, sbr. framangreint, var máli þessu vísað frá nefndinni.


 


Álit nefndar verður ekki birt í þessu máli vegna persónuverndarsjónarmiða. 

Mál 3/2018

Afgreitt 8. janúar 2019.

Nefndina skipuðu: Hjördís Hákonardóttir, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson

 

Kvartað var yfir störfum X héraðsdómara og þriggja landsréttardómara

Kæran barst 22. nóvember og framhaldskæra 10. desember 2018. Málinu var lokið 8. janúar 2019. Kvartað er vegna starfa fjögurra dómara: X héraðsdómara og landsréttardómaranna A, B og C. Er því haldið fram að þessir dómarar hafi viðhaft ólögmæt vinnubrögð í héraðsdómsmáli nr. […/2018] og landsréttarmáli nr. […/2018]. Kvörtunin er studd við 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016. Úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp […] júní 2018 og úrskurður Landsréttar […] ágúst 2018. Með kærunni fylgja öll málskjöl landsréttarmálsins og greinargerðir aðila í því, úrskurðir Héraðsdóms Y og Landsréttar, fjögur endurrit úr [...]bók, nokkur tölvubréf og loks kæra til Hæstaréttar […] september 2018, bréf kæranda til Hæstaréttar, dagsett […] sama mánaðar, þar sem kæran er afturkölluð og bréf Hæstaréttar dagsett […] sama mánaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla er hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum heimilt að beina skriflegri og rökstuddri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf. „Skal slík kvörtun hafa borist nefndinni innan þriggja mánaða frá því að sá atburður sem kvörtunin nær til gerðist eða komst til vitundar þess sem kvartar.“ Þá segir í lok ákvæðisins að kvörtunum vegna dómsúrlausna dómara verði ekki beint til nefndarinnar. Er þar átt við „allar úrlausnir dómara sem möguleiki er á að bera undir æðri dóm“ eins og segir í athugasemdum með frumvarpi til laganna. Er hér um ræða áréttingu á ákvæði eldri dómstólalaga.

Kvörtunin beinist að því hvernig héraðsdómari og landréttardómarar hafa leyst úr dómkröfum, málsástæðum og lagarökum. Auk þess er kvartað vegna framkomu héraðsdómarans í þinghaldi. Verður ekki fallist á að kæra dómsúrlausnar héraðsdómara til Landsréttar, eða eftir atvikum til Hæstaréttar, framlengi þann þriggja mánaða frest sem lögin áskilja. Hinn lögbundni frestur að því er héraðsdómarann varðar var því liðinn. Þegar af þeirri ástæðu er kvörtun vegna meðferðar héraðsdóms vísað frá nefnd um dómarastörf.

Úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp […] 2018 og kærður til Landsréttar […] sama mánaðar. Liðu því rúmir tveir mánuðir þar til úrskurður Landsréttar lá fyrir. Í ljósi eðlis þess máls sem um var að ræða virðist þessi tími nokkuð langur. Þegar litið er til þess að um sumarleyfistíma er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. dómstólalaga, þykir þó ekki vera nægilegt tilefni til frekari skoðunar eða til athugasemda vegna þessa.

Með vísan til niðurlags 4. mgr. 47. gr. dómstólalaga er það ekki á valdsviði nefndarinnar að fjalla um undirbúning dómara, lýsingu dómkrafna, lögskýringu dómara, forsendur eða rökstuðning fyrir niðurstöðu máls, hvort sem fjallað er um efnisatriði máls eða formhlið þess, enda eru öll þessi atriði hluti dómsúrlausnar. Af þessari ástæðu er kvörtun vegna úrskurðar Landsréttar vísað frá nefnd um dómarastörf.

 

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2017

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2017

Mál nr. 1/2017

Kvörtun barst til nefndar um dómarastörf vegna frávísunar máls. Rök álitsbeiðanda lúta að efnisatriðum deilumálsins og réttmæti þeirrar ákvörðunar dómarans að vísa málinu frá dómi. Valdsvið nefndarinnar nær ekki til slíkrar ákvörðunar dómara eða forsendna hans fyrir henni og var því erindinu vísað frá.

 

Afgreitt frá nefnd um dómarastörf 28. febrúar 2017

Mál nr. 2/2017

Erindi barst til nefndar um dómarastörf þar sem kvartað var yfir starfsháttum héraðsdómara við Héraðsdóm X, annars vegar að því er varðar fyrirtöku máls og hins vegar meðferð aðfinnslu kvartanda við störf skiptastjóra í þrotabúi.

Fyrri liðurinn snýr að því að héraðsdómarinn hafi ekki umsvifalaust, eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar tekið málið fyrir til þess að fella það niður. Nefndin hefur kynnt sér þingbók Héraðsdóms X. Samkvæmt henni var ágreiningsmálið þingfest […]nóvember 2015. Eftir að umræddur hæstaréttardómur féll var það formlega tekið fyrir […]október 2016 og fellt niður með úrskurði mánuði síðar.

Eftir að dómari fær máli úthlutað er það meðal starfsskyldna hans að ákvarða þinghöld og skipuleggja vinnu sína þannig að reka megi mál með eðlilegum hraða. Venja er að taka tillit til óska aðila um fresti falli þær innan eðlilegra marka. Þá er ljóst að hver dómari fer með mörg mál og hagar vinnu sinni í samræmi við það. Upplýst er að beiðni um að málið yrði tekið fyrir og það fellt niður kom fyrst fram […] september 2016 og síðan ítrekað í nokkur skipti. Þegar boðað var til þinghalds […] sama mánaðar kom fram beiðni gagnaðila um að fyrirhugaðri fyrirtöku yrði frestað.

Nefnd um dómarastörf telur að þó að tveir mánuðir hafi liðið frá því beiðni á grundvelli hæstaréttardómsins kom fram og þar til endanlegur úrskurður var kveðinn upp, þá sé sá tími innan ásættanlegra marka í ljósi ágreinings aðila og þess svigrúms sem dómari hefur til þess að skipuleggja meðferð þeirra dómsmála sem hann þarf að sinna. Umkvörtunarefni þetta gefur því ekki tilefni til þess að nefndin taki það til efnismeðferðar.

Síðari liðurinn snýr að því að héraðsdómarinn hafi hafnað því að taka fyrir kröfu um aðfinnslu við störf skiptastjóra í þrotabúinu. Var kröfunni fyrst hafnað af dómara á grundvelli aðildarskorts en skiptastjóri hafði ekki viðurkennt lýsta kröfu í þrotabúið. Krafan var ítrekuð með bréfi […] maí 2017 og var henni þá vísað frá dómi með úrskurði […] sama mánaðar. Eins og að framan greinir nær valdsvið nefndar um dómarastörf ekki til dómsathafna. Afgreiðsla héraðsdómarans á greindu erindi er dómsathöfn. Er síðari kvörtuninni því þegar af þeirri ástæðu vísað frá nefndinni.

Afgreitt frá nefnd um dómarastörf 7. júlí  2017

Mál nr. 3/2017

Kvartað var yfir starfsháttum setts hæstaréttardómara. Kvörtunin sneri að því að dómarinn hafi verið vanhæfur til þess að dæma í hæstaréttarmáli og hefði átt að víkja sæti í því.

Um vanhæfi dómara fer eftir 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga gætir dómari af sjálfsdáðum að hæfi sínu, en einnig getur aðili krafist þess að dómari víki sæti. Úrskurður dómara á lægra dómstigi um hæfi hans verður kærður til Hæstaréttar. Að því er varðar dómara Hæstaréttar í máli sem dómur hefur fallið í hefur aðili það úrræði að fara fram á endurupptöku máls.

Það fellur ekki undir valdsvið nefndar um dómarastörf að meta hæfi dómara í einstökum málum. Umkvörtunarefni þetta gefur ekki tilefni til þess að nefndin taki það til efnismeðferðar. Er kvörtuninni því vísað frá nefndinni.

                                                                        Afgreitt frá nefnd um dómarastörf 7. júlí  2017

                                         Álit nefndar um dómarastörf 13. júlí 2017

                                                            í máli nr. 4/2017

                                                          Kvörtun AA, f.h. K ehf.

  

I

Með bréfi 30. maí 2017 barst nefnd um dómarastörf kvörtun AA, f.h. K ehf. Kvörtunin beinist að starfsháttum dómstjóra Héraðsdóms […], BB og aðstoðarmanns hans, DD, við meðferð máls nr. […]/2017.

 

Með bréfi nefndarinnar til dómstjóra Héraðsdóms […] 12. júní 2017 var honum kynnt erindið og þess farið á leit að hann myndi tjá sig um þau atvik sem kvörtunin lyti að og láta nefndinni í té gögn sem kynnu að skipta máli. Tekið var fram að ekki hefði verið tekin ákvörðun um meðferð erindisins. Svar barst frá dómstjóranum 19. sama mánaðar og fylgdu því úrskurður Héraðsdóms […] frá […] apríl 2017 í máli nr. […]/2017, gögn þess máls nr. 1-11, boðunarbréf til „PP hdl.“ og bréf þinglýsingarstjóra Sýslumannsins á […] frá 9. mars 2017. Með bréfi nefndarinnar 23. júní 2017 var AA kynnt bréf dómstjórans og fylgiskjöl og veittur frestur til athugasemda. Sama dag var því beint til dómstjóra Héraðsdóms […] að upplýsa hvernig boðunum til þinghalda við dóminn væri háttað. Svar barst þar um með bréfi 28. júní 2017. Athugasemdir AA, f.h. K ehf., ásamt fylgiskjali bárust með bréfi 4. júlí 2017 og voru þær kynntar dómstjóra með tölvupósti 5. sama mánaðar.

 

Í máli þessu skipa nefnd um dómarastörf Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Sigríður Ingvarsdóttir.

 

II

Forsaga máls Héraðsdóms […] nr. […]/2017 er að […] janúar 2016 var móttekið til þinglýsingar, hjá Sýslumanninum á […], afsal dagsett […] nóvember 2015 fyrir íbúð 01-0101 að […], afsalshafi SS. Skjalið var innfært í þinglýsingabækur sama dag. Þinglýsingarstjóri ákvað […] febrúar 2017 að vísa skjalinu frá þinglýsingu. Úrlausnin var byggð á 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Í samræmi við 3. gr. sömu laga skaut afsalshafinn 3. mars 2017 framangreindri úrlausn þinglýsingarstjóra til Héraðsdóms […] og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi og skjalið fært að nýju í þinglýsingabók. Þinglýsingarmálið nr. […]/2017 var þingfest […] mars 2017 af aðstoðarmanni dómara og tekið til úrskurðar sama dag. Úrskurður var kveðinn upp af dómstjóra í þinghaldi […] apríl 2017 þar sem ákvörðun þinglýsingarstjóra […] febrúar 2017 var felld úr gildi og lagt fyrir þinglýsingarstjóra að færa skjalið að nýju í þinglýsingabók embættisins. Samkvæmt ákvörðun dómsins var varnaraðili í málinu K ehf. Málskostnaður var felldur niður.

 

III

Kvörtunin lýtur í fyrsta lagi að því að einkahlutafélaginu K hafi án tilefnis verið stefnt fyrir dóm til að taka til varna í máli nr. […]/2017. K ehf. hafi ekkert haft með kærða úrlausn þinglýsingarstjóra Sýslumannsins á […] frá […] febrúar 2017 að gera. Kröfu sóknaraðila hafi verið beint að embætti Sýslumannsins á […]. Einkahlutafélagið eigi eignarhlut í fjöleignarhúsinu […]. Félagið hafi ekki haft aðra aðkomu að þinglýsingunni „en að benda þinglýsingarstjóra á að lagaskilyrðum til þinglýsingar hafi ekki verið fullnægt ... og taldi K ehf. eðlilegt að benda á að stjórnvaldi bæri að leiðrétta mistök sín, eða rökstyðja ákvörðun sína ella.“ Því hafi lög ekki staðið til þess að stefna K ehf. í máli þessu.

 

Í öðru lagi lýtur kvörtunin að því með hvaða hætti K ehf. hafi verið stefnt fyrir dóminn. Aðstoðarmaður dómara hafi tilkynnt símleiðis að K ehf. væri stefnt fyrir dóm í þinglýsingarmálinu. Kveðst AA hafa mótmælt því kröftuglega og sagt málið K ehf. algerlega óviðkomandi. Aðstoðarmaðurinn hafi í kjölfarið fellt boðun K ehf. niður með tölvupósti og hafi AA þá talið fyrirtækið laust allra mála. Starfsfólk Héraðsdóms […] hafi hins vegar gengið á bak orða aðstoðarmannsins og ákveðið að stefna K ehf. fyrir dóm til varnar í máli nr. […]/2017 í stað embættis Sýslumannsins á […]. Auk þessa kveðst AA ekki hafa fengið tilkynningu um úrskurð í málinu heldur frétt af uppkvaðningu hans og þar með að K ehf. hefði verið varnaraðili í umræddu máli. Telur hann vinnubrögð þessi ámælisverð, og heldur því einnig fram að embætti Sýslumannsins á […] hafi ranglega ekki fengið tækifæri til þess að verja gjörðir sínar fyrir dóminum. Með kvörtuninni fylgdu tölvupóstssamskipti AA og aðstoðarmanns dómara frá 7. mars 2017 og 10. sama mánaðar. Verður nánar vikið að þeim síðar.

 

Í athugasemdum sínum 19. júní 2017 lýsir dómstjóri Héraðsdóms […] forsögu máls nr. […]/2017 og málsatvikum. Segir hann að með tilliti til aðdraganda ákvörðunar sýslumanns hafi aðstoðarmaður dómara sett sig símleiðis í samband við AA og kynnt honum að í tilefni af málskoti eiganda eignarhluta 01-0101 á úrlausn sýslumanns stæði honum til boða að koma að athugasemdum. Hafi niðurstaða þess símtals verið að aðstoðarmaðurinn myndi senda honum skriflega boðun um þingfestingu málsins í tölvupósti á tilgreint tölvupóstfang, sem AA hafi gefið honum upp í því skyni. Strax í kjölfar símtalsins hinn 7. mars 2017 hafi AA verið sent boðunarbréf. „Kom þar fram að málið yrði þingfest í dómsal embættisins […] sama mánaðar kl. 13.20.“ Í kjölfarið hafi „PP hdl.“ haft samband við aðstoðarmann dómara símleiðis og sagst vera að aðstoða AA, f.h. K ehf., vegna málsins. Hafi aðstoðarmanninum þá orðið ljóst að AA hefði ekki skilið fyllilega fyrri samskipti þeirra. Vegna þessa, og einnig vegna athugasemda sem fram hafi komið í samtalinu um að ekki hefði verið eðlilega staðið að boðuninni, þ.e. að hún hefði farið fram með tölvupósti, hafi aðstoðarmaðurinn sent tölvupóst til AA um að boðunin félli niður. Jafnframt hafi þar komið fram að „ef niðurstaða dómsins yrði sú að K ehf. yrði talinn aðili málsins myndi dómurinn boða til þinghalds með boðun sem birt yrði af stefnuvotti fyrir fyrirsvarsmanni K ehf.“ Í framhaldi hafi aðstoðarmaðurinn rætt við dómstjóra og hafi niðurstaða þess samtals orðið sú, að með hliðsjón af aðdraganda málsins skyldi K ehf. teljast varnaraðili í því „og gæti þá, ef óskað væri eftir, skilað inn athugasemdum vegna þess.“ Með hliðsjón af framangreindum samskiptum „við lögmanninn PP“, hafi af hálfu dómsins verið talið rétt að upplýsa hann með tölvupósti 10. mars 2017 um fyrirtöku málsins, þannig að hann gæti komið að athugasemdum fyrir hönd félagsins, auk þess sem honum hafi verið send afrit af fyrirliggjandi gögnum málsins. Í athugasemdum dómstjórans segir jafnframt: „Skal vegna þessa tekið fram að þar sem um var að ræða lögmann sem sett hafði sig í samband við dóminn vegna umrædds máls var ekki talin nein þörf á að birta honum boðunina eftir öðrum leiðum. Engin önnur viðbrögð urðu hins vegar af hálfu lögmannsins í kjölfar þess en þau að hann sendi undirrituðum dómstjóra hinn 15. mars sl. tölvupóst varðandi meint embættisafglöp aðstoðarmannsins og dómstjórans, þar sem m. a. kemur fram að það sé „skömm af þessum embættisrekstri“ í málinu, og lagt út af því að „AA hafi að ástæðulausu verið blandað inn í málið.“

 

Að ósk nefndarinnar upplýsti dómstjóri í bréfi 28. júní 2017 hvernig boðunum til þinghalda við dóminn væri háttað, þar segir: „Þegar boðað er til þinghalda við dóminn er almennt tekið mið af ákv. 92. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, á þann veg að reynt er að haga boðuninni þannig að tilkynning um þinghaldið sé send með sannanlegum hætti og með hæfilegum fyrirvara. Þegar lögmenn eru boðaðir til þinghalda í málum er boðun um þinghaldið almennt send í tölvupósti, í því formi sem málaskrá dómstólanna býður upp á og nefndarmönnum ætti að vera kunnugt um. Er þar óskað eftir því að viðkomandi lögmaður staðfesti móttöku boðunarinnar í tölvupósti. Komi hins vegar ekkert fram um það í gögnum málsins að viðkomandi aðili njóti aðstoðar lögmanns er aðilanum birt boðun um þinghaldið af stefnuvotti eða með öðrum sannanlegum hætti. Fær stefnuvotturinn þá yfirleitt útprentun úr málaskránni á framagreindu boðunarformi sent til birtingar fyrir aðilanum. Hafi viðkomandi aðili hins vegar upplýst um tölvupóstfang sitt kemur fyrir að upplýsingar um þinghöld séu sendar með sama hætti og tíðkast þegar lögmenn eiga í hlut.“

 

Með bréfi dagsettu 4. júlí 2017 gerði AA athugasemdir við bréf dómstjóra frá 19. júní 2017. Hann ítrekar þar að hann hafi, f.h. K ehf., bent þinglýsingarstjóra á það sem hann hafi talið „mistök í embættisfærslu við þinglýsingar“, en engin kæra hafi verið lögð fram af hans hálfu vegna K ehf. Þinglýsingarstjóri hafi „leiðrétt gjörð sína ex officio – af embættisskyldu“ og hafi hún verið kærð til Héraðsdóms […] af sóknaraðila í máli nr. […] 2017. Kveðst hann hafa mótmælt því að K ehf. ætti aðild að málinu og það hafi sóknaraðilinn einnig gert. Vegna mjög ruglingslegra skilaboða og símtala frá aðstoðarmanni dómara við Héraðsdóm […], sem honum hafi verið óskiljanleg, hafi hann beðið kunningja sinn, PP lögfræðing, að kanna málið fyrir sig og skýra út fyrir sér hvað væri í gangi hjá Héraðsdómi […]. PP hafi kannað málið með símtali við aðstoðarmann dómara við Héraðsdóm […] og tekið skýrt fram að hann væri ekki lögmaður K ehf. heldur aðeins að leita skýringa á því hvers vegna K ehf. „væri stefnt til þinghalds í þessu máli – og það með tölvupósti en ekki í fullu samræmi við réttarfarslög.“ Þar næst hafi aðstoðarmaðurinn afturkallað „boðun í þinghald“ með tölvupósti og staðfest að ef K ehf. yrði boðað til þinghalds yrði það gert með boðun sem birt yrði af stefnuvotti fyrir fyrirsvarsmanni K ehf. PP hafi ofboðið svo málatilbúnaður þessi að hann hafi sent dómstjóranum persónulegan tölvupóst, sem dómstjórinn vitni til í fyrrgreindu bréfi sínu til nefndarinnar. „Í svari dómstjórans [komi] fram að ofangreint [sé] rétt frá sagt, en dómstjórinn virðist telja að símtal sem PP [hafi átt] við aðstoðarmanninn hafi verið næg boðun - en PP [hafi] ekki [verið] lögmaður K ehf. í þessu máli, enda engin þörf á lögmanni.“ K ehf. hafi því ekki verið stefnt í þessu máli „en í úrskurði dómsins [komi] fram að K ehf. hafi verið varnaraðili. Það [sé] rangt, og [hljóti] því allur málatilbúnaður þessa úrskurðar [að] sýna að málið [sé] ónýtt og [skuli] annað hvort tekið upp að nýju eða úrskurður ógiltur.“ Einnig ítrekar hann að sér hafi aldrei verið „tilkynnt formlega um niðurstöðu Héraðsdóms […] í máli nr. […]/2017, eða gert kunnugt um rétt til áfrýjunar.“ Kveðst hann  gera þá kröfu „að nefndin rannsaki samskipti dómstjóra Héraðsdóms […] og Sýslumannsins á […] vegna máls nr. […]/2017.“

 

IV

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla. Valdsvið hennar er skilgreint í 1. ml. 1. mgr. 27. gr. laganna en þar segir orðrétt: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hlut sinn með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Valdsvið nefndarinnar tekur þó ekki til dómsathafna, en undir þær falla ákvarðanir sem dómari tekur vegna meðferðar dómsmáls. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. sömu laga verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með áfrýjun eða kæru til Hæstaréttar. Sé um útivistarmál að ræða er mögulegt að leita eftir heimild til endurupptöku. Að gefnu tilefni skal bent á að lög nr. 50/2016 um dómstóla hafa ekki tekið gildi. Af því leiðir að valdsvið nefndar um dómarastörf tekur ekki á þessu stigi til aðstoðarmanna dómara. Þeir starfa á hinn bóginn á ábyrgð dómstjóra. Vegna þeirrar kröfu að nefndin rannsaki samskipti dómstjóra Héraðsdóms […] og Sýslumannsins á […] vegna máls nr. […]/2017 er rétt að taka fram að starfshættir sýslumanna falla ekki undir valdsvið nefndarinnar.

 

1

Kvörtunin lýtur að tveimur atriðum. Í fyrra lagi að þeirri ákvörðun dómstjóra Héraðsdóms […] að K ehf. skyldi hafa stöðu varnaraðila í máli nr. […]/2017. Þinglýsingalög nr. 39/1978 með áorðnum breytingum eru samkvæmt orðalagi sínu ekki skýr um hvernig skal háttað varnaraðild í þinglýsingarmálum. Það er þó ljóst þegar saga laganna er skoðuð og eðli þeirra breytinga sem áttu sér stað á réttarfari í kjölfar aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði með lögum nr. 92/1989, og af athugasemdum með frumvarpi til breytingalaga nr. 6/1992, þar sem 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 var breytt í núverandi horf, sem og af dómaframkvæmd eftir þá breytingu, að héraðsdómari ákveður varnaraðild þinglýsingarmáls. Af gögnum málsins verður ráðið að þinglýsingarstjóri sendi héraðsdómi athugasemdir, skv. 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, varðandi aðild máls þess sem hér er deilt um 9. mars 2017 og athugasemdir varðandi efni þess 16. sama mánaðar.

 

Úrskurður Héraðsdóms […] í máli nr. […]/2017sem kveðinn var upp […] apríl 2017 er dómsathöfn. Hann var kæranlegur til Hæstaréttar lögum samkvæmt, og eftir atvikum mætti leita eftir endurupptöku málsins. Verður enginn þáttur hans, þar á meðal ákvörðun um aðild, borinn undir nefnd um dómarastörf.

 

2

Kvörtunin lýtur í öðru lagi að því, annars vegar hvernig kynnt var að K ehf. væri varnaraðili í máli nr. […]/2017, þar með talið hvernig boðað var til þinghalds í málinu, og hins vegar lýtur hún að því að félaginu hafi ekki verið tilkynnt um niðurstöðu málsins.

 

Tilkynningar um aðild og fyrirtöku fóru fram með eftirfarandi hætti samkvæmt þeim gögnum sem nefndin hefur: Fyrst sendir DD, aðstoðarmaður dómara í Héraðsdómi […], tölvupóst 7. mars 2017 kl. 15:24. Þar er AA, f.h. K ehf., boðaður til þinghalds sem varnaraðili í málinu nr. […]/2017 þriðjudaginn […] mars 2017 kl. 13.20. Fram kemur málsnúmer og aðilar máls. Mun þessi póstur hafa verið sendur í kjölfar símtals aðstoðarmannsins við AA. Sama dag kl. 19:05 svarar hann á svohljóðandi hátt: „Sæll DD/Móttekið/Kveðja/AA.“ Næst sendir aðstoðarmaðurinn svohljóðandi skeyti til AA 10. mars 2017 kl. 10:29: „Sæll. Neðangreind boðun fellur niður. Ef niðurstaða dómsins verður sú að K ehf., sé aðili að neðangreindu máli mun dómurinn boða til þinghalds með boðun sem birt verður af stefnuvotti fyrir fyrirsvarsmanni K ehf.“ Sama dag kl. 12:51 sendir aðstoðarmaðurinn tölvupóst til „PP hdl.“ þar sem segir að sent sé í viðhengi skannað eintak af gögnum máls nr. […]/2017og nokkrum mínútum síðar kl. 12:57 sendir hann svohljóðandi boðun í þinghald í máli nr. T-1/2017: „Sóknaraðili: SS/AP hrl./Varnaraðili: K ehf./PP hdl.“ Þinghaldið var boðað þriðjudaginn 21. mars 2017 kl. 13.20. Munu þrjú síðarnefnd skeyti hafa verið send eftir símtal lögfræðingsins við aðstoðarmanninn. Meðal málskjala í máli nr. […]/2017er jafnframt yfirlýsing AA, f.h. K ehf., til héraðsdóms dagsett 14. mars 2017 um „afturköllun þinglýsingarmáls“, þar sem þess er getið að send séu 35 fylgiskjöl um öll samskipti við sýslumannsembættið á […] varðandi þinglýsingar að […], neðri hæð, síðan segir: „Málinu er lokið af okkar hálfu, og lýsum við því málinu alfarið úr okkar höndum.“ Með athugasemdum AA, f.h. K ehf., 4. júlí 2017 fylgdi afrit tölvubréfs PP lögfræðings til dómstjóra Héraðsdóms […], sent 15. mars 2017 kl. 02:19:51. Í því kemur fram að um einkabréf sé að ræða og verður það því ekki rakið nánar. Þó er rétt að geta þess að þar kemur ekki fram að það sé misskilningur að hann sé lögmaður K ehf. Við könnun nefndarinnar á Handbók lögmanna, sem geymir uppfært félagatal þeirra, kemur í ljós að þar er ekki að finna nafn PP. Ekki var mætt til þinghalds af hálfu varnaraðilans.

 

Samkvæmt athugun nefndarinnar á fyrirtækjaskrá er DA eini stjórnarmaður K ehf. og varamaður hennar er PP. AA er prókúruhafi félagsins. Hefur hann komið fram í málinu sem fyrirsvarsmaður félagsins, t.d. í framangreindri yfirlýsingu um að málinu væri lokið af þess hálfu, og f.h. félagsins við kæru þessa. Hvorki AA né lögfræðingurinn nefna í bréfum til dómsins, að fyrirsvarsmaður K ehf. sé annar en AA. Réttar upplýsingarnar um bæði framangreind atriði voru mikilvægar og nauðsynlegar til þess að dómstóllinn mætti standa rétt að boðun þess aðila sem hann hafði ákveðið að væri til varnar í þinglýsingarmálinu nr. […]/2017.

 

Samskipti aðstoðarmanns dómara annars vegar og AA og lögfræðingsins hins vegar áttu sér að einhverju leyti stað símleiðis. Þar sem frásagnir af þeim samtölum eru ekki fyllilega samhljóða getur nefnd um dómarastörf ekki tekið afstöðu til þess hvort þar kom fram á fullnægjandi hátt að misskilningur væri uppi um aðkomu síðarnefndra að máli nr. […]/2017. Af þessu tilefni telur nefnd um dómarastörf rétt að ítreka þá almennu áréttingu að mikilvægt er fyrir traust til dómstólanna að þeir gæti formreglna við boðun mála og aðrar tilkynningar sem frá þeim fara. Á það sérstaklega við þegar ólöglærðir aðilar eiga hlut að máli. Sama gildir um leiðbeiningar til ólöglærðra í málum eins og þinglýsingamálum þar sem réttarfar er að einhverju leyti afbrigðilegt eða óljóst.

 

Að öllu framangreindu athuguðu má vera ljóst að betur hefði mátt takast til um tilkynningu á varnaraðild og boðun til þinghalds í máli nr. […]/2017. Þar verður aðstoðarmanni dómara þó ekki að öllu leyti einum um kennt, eins og rakið hefur verið, þótt telja megi að hann hefði mátt kanna betur hvort sá lögfræðingur sem hann boðaði til þinghaldsins með tölvubréfi dagsettu 10. mars 2017 hefði heimild til að mæta fyrir hönd félagsins. Þá kemur fram í bréfi AA til dómstólsins dagsettu 14. mars 2017, fyrir hönd K ehf., að málið sé alfarið úr höndum félagsins. Af því má ljóst vera að félaginu, eða í öllu falli þeim sem kom fram fyrir hönd þess, var kunnugt um fram komna boðun í þinglýsingarmálinu.

 

Í málinu hefur jafnframt verið kvartað yfir því að úrskurður dómstjórans hafi ekki verið birtur varnaraðila. Að því er varðar birtingu úrskurðar tilkynnir dómari aðilum hvar og hvenær úrskurður er kveðinn upp „ef vörnum hefur verið haldið uppi í máli“, sbr. 3. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í lögum um þinglýsingar er ekki vikið að réttarfari hvað varðar birtingu úrskurða. Eins og málið liggur fyrir var farið með það sem útivistarmál í samræmi við framangreindar reglur.

 

Að öllu framangreindum atriðum virtum þykja atvik málsins ekki gefa tilefni til frekari athugasemda af hálfu nefndar um dómarastörf.

 

 

Reykjavík, 13. júlí  2017

 

 

Hjördís Hákonardóttir, formaður

 Ása Ólafsdóttir                                                                                  Sigríður Ingvarsdóttir

 

 

                                                    Álit nefndar um dómarastörf 18. janúar 2018

                                                                             í máli nr. 5/2017.

                                                                                   Kvörtun JS

 

I

Málsmeðferð

Með bréfi dagsettu 12. október 2017 sendi JS hdl., hér eftir nefnd álitsbeiðandi, nefnd um dómarastörf erindi þar sem kvartað er yfir starfsháttum AA dómara við Héraðsdóm […] vegna máls nr. […/2017]. Kvartað er yfir ákvörðun dómarans um þóknun til álitsbeiðanda sem var réttargæslumaður brotaþola í greindu sakamáli. Með erindinu fylgdu: 1) afrit af tölvupóstsamskiptum álitsbeiðanda og dómara, dags. 22. júní 2017, 2) afrit af tímaskýrslu réttargæslumanns, 3) afrit af dómi Héraðsdóms […] í máli nr. […/2017] og 4) afrit af tölvupóstsamskiptum álitsbeiðanda og dómara, dags. 14. júlí 2017 og 1. september 2017.

 

Með bréfi nefndarinnar dagsettu 6. nóvember 2017 var erindið kynnt fyrir héraðsdómaranum og dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir. Athugasemdir frá héraðsdómaranum bárust með ódagsettu bréfi póstlögðu 10. sama mánaðar. Í bréfi dómstjóra dagsettu 9. sama mánaðar vísar hann til þess að dómarar séu sjálfstæðir í dómstörfum sínum og vinni þau á eigin ábyrgð og að hann taki því ekki afstöðu til erindisins. Bréf þessi voru send álitsbeiðanda til kynningar 29. sama mánaðar. Nefndin kynnti erindið einnig fyrir dómstólaráði með bréfi dagsettu 6. nóvember 2017 og óskaði eftir umsögn ráðsins með vísan til rökstuðnings álitsbeiðanda. Svar dómstólaráðs barst með bréfi dagsettu 15. janúar 2018.

 

Við upphaf meðferðar málsins tók varamaðurinn Pétur Dam Leifsson sæti Ásu Ólafsdóttur vegna veikindaleyfis hennar. Pétur Dam Leifsson hefur nú verið skipaður héraðsdómari og tekur ekki þátt í frekari afgreiðslum nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Ása Ólafsdóttir er komin aftur til starfa. Í máli þessu skipa því nefnd um dómarastörf Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson. Tafir hafa orðið á afgreiðslu málsins hjá nefndinni vegna þess að beðið var umsagnar dómstólaráðs, en miklar annir hafa verið þar vegna þeirra breytinga sem urðu um síðustu áramót með gildistöku laga nr. 50/2016 um dómstóla.

 

II

Umkvörtunarefni og athugasemdir héraðsdómara

Álitsbeiðandi telur að héraðsdómarinn hafi brotið á sér með ákvörðun þóknunar réttargæslumanns í máli nr. [… /2017], en dómur í málinu var kveðinn upp [… /2017]. Þar segi í forsendum að með hliðsjón af tímaskýrslu réttargæslumanns brotaþola sé hæfileg þóknun ákveðin 529.000 krónur að meðtalinni vinnu á rannsóknarstigi. Samkvæmt tímaskýrslu sem send hafi verið dómara 22. júní 2017 hafi vinna réttargæslumanns að teknu tilliti til virðisaukaskatts numið 1.124.990 krónum, en í tímaskýrslunni hafi álitsbeiðandi einnig lýst þeirri vinnu sem hún hafi innt af hendi á rannsóknarstigi og við meðferð málsins fyrir dómi.

 

Álitsbeiðandi kveðst hafa reynt að ná sambandi við dómara símleiðis 14. júlí 2017 sem hafi þá verið í sumarleyfi til 1. september. Hafi hún þá samkvæmt ráðleggingum dómstjóra sent dómaranum tölvupóst sama dag og síðan ítrekun 1. september. Hafi verið óskað skýringa á því hvernig þóknun réttargæslumanns hafi verið fundin og á hverju hún hafi byggst. Kveðst álitsbeiðandi hafa talið að um mistök væri að ræða sem leiðrétta mætti með bókun, þar sem ljóst hafi verið að þóknunin hafi ekki tekið mið af tilkynningum dómstólaráðs nr. 3/2017 og 1/2015, sem álitsbeiðandi hafi byggt tímaskýrslu sína á. Í svari dómara dagsettu 1. september hafi komið fram að ekki væri um mistök að ræða og hafi beiðni um skýringar verið synjað. Segi í svari dómarans að tekin hafi verið meðvituð ákvörðun um þóknun réttargæslumanns og standi hún óbreytt, það sé leitt ef álitsbeiðandi sé ósátt en dómari fari vel yfir þessi mál.

 

Álitsbeiðandi vísar til 3. málsliðar 2. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla um að héraðsdómurum beri að hlíta lögmætum ákvörðunum dómstólaráðs og telur það eiga við um tilkynningu dómstólaráðs nr. 3/2017 frá 4. janúar 2017 um viðmiðunarreglur um málsvarnarlaun og þóknun verjanda og réttargæslumanna í sakamálum. Fallist dómarar ekki á að taka mið af reglum dómstólaráðs um þetta efni ríki algjör óvissa um við hvað beri að miða og hvaða kaup og kjör þeir lögmenn búi við sem sinni sakamálum. Slíkt sjálfsmat dómara skapi ósamræmi í ákvörðunum um þóknun og algjöra óvissu lögmanna um kjör sín.

 

Jafnframt vísar álitsbeiðandi til álits nefndar um dómarastörf í máli nr. 6/2016 þar sem nefndin hafnaði að taka kvörtun til meðferðar vegna þess að ákvörðun um þóknun væri dómsathöfn og yrði því aðeins endurskoðuð með málskoti til æðra dóms, sbr. 3. málslið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998. Af því tilefni bendir álitsbeiðandi á: 1) að ekki sé að finna í lögum nr. 88/2008 kæruheimild til æðra dóms í þeim tilgangi að krefjast megi ógildingar og/eða endurskoðunar á ákvörðun héraðsdómara um þóknun; 2) að brotaþoli sé ekki aðili máls og geti því ekki átt aðkomu að ákvörðun um áfrýjun dóms. Þar af leiði að réttargæslumaður brotaþola eigi ekki kost á því að fá ákvörðun um þóknun sína endurskoðaða á æðra dómstigi, heldur sé ákvörðun um áfrýjun aðeins á valdi ákæruvalds og/eða dómþola; 3) verjandi gæti hagsmuna sakbornings og eigi þess því ekki kost að fara fram á að máli verði áfrýjað vegna þess að hann telji ákvörðun dóms um eigin þóknun vera ranga eða ógagnsæja. Myndi það vera andstætt hagsmunum skjólstæðings hans. Telur álitbeiðandi að af þessu leiði að ekki verði litið svo á að ákvörðun um þóknun eða laun verjanda sé dómsathöfn vegna þess að vandkvæðum sé bundið að leita endurskoðunar æðri dóms. Jafnframt sé uppi mikil óvissa um kjör lögmanna, ósamræmi í framkvæmd og dómari geti hafnað því að gefa skýringar á ákvörðun sinni.

 

Málið snúist um grundvallarréttindi lögmanna til launa fyrir störf sín í þágu þeirra sem sökum séu bornir um refsiverða háttsemi og í þágu brotaþola. Báðir þessir hópar eigi rétt til endurgjaldslausrar lögmannsþjónustu samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Það hafi áreiðanlega ekki verið ætlun löggjafans að þeir lögmenn sem taki að sér þessi störf sinni þeim á helmingi lægri launum en viðmiðunarreglur dómstólaráðs kveði á um. Hvað þá að lögmenn fái ekki skýringar þegar þóknun þeirra er ákveðin tæplega helmingur þess sem við er miðað í tilkynningum dómstólaráðs. Með slíkri framkvæmd sé rétti sakaðra manna og brotaþola til lögmannsaðstoðar án endurgjalds stefnt í hættu. Þá fullyrðir álitsbeiðandi að misræmi sé í framkvæmd dómara hvað þetta varði og því sé sú staða komin upp að það skipti máli hvaða dómari fari með mál. Þessu fylgi mikil óvissa, ógagnsæi og óöryggi fyrir lögmenn um kaup sitt og kjör, og það séu hagsmunir sakborninga og brotaþola að þeir lögmenn sem gæti réttar þeirra á kostnað hins opinbera fái greitt fyrir störf sín og að samræmis sé gætt í ákvörðunum um laun þeirra. Tilgangur reglna dómstólaráðs sé að tryggja samræmi við ákvörðun um þóknun, en þeim tilgangi verði ekki náð geti dómarar byggt ákvörðun þar um á geðþótta. Ólíðandi sé að dómari byggi á einhverjum óskilgreindum sérreglum og neiti að röstyðja ákvörðun sína þegar eftir því sé leitað.

 

Álitbeiðandi telur gróflega á sér brotið, bæði þar sem þóknun hafi verið ákveðin tæplega helmingur af þeirri vinnu sem innt hafi verið af hendi í þágu brotaþola í málinu, og með því að dómari skuli hafa neitað henni um skýringu á því hvernig tildæmd þóknun hafi verið fundin þegar eftir henni var leitað.

 

Í athugasemdum héraðsdómara er því hafnað að gert hafi verið á hlut álitsbeiðanda með því að fallast ekki á reikning hennar í óbreyttri mynd, enda hafi ákvörðun verið tekin á málefnalegum grunni í samræmi við lög. Dómarinn tekur fram að almennt geri hún kröfu til þess að tímaskýrsla lögmanns komi fram fyrir dómtöku máls til þess að hægt sé að svara hugsanlegum spurningum um einstök atriði hennar áður. Í þessu tilviki hafi þó verið gerð undantekning. Þá kveðst dómarinn einnig hafa tamið sér það verklag að halda tölvupóstsamskiptum við lögmenn í lágmarki og rökstyðji ekki dómsniðurstöður sínar eftir að dómur sé fallinn. Við ákvörðun réttargæsluþóknunar hafi hún haft til hliðsjónar tímaskýrslu lögmannsins og viðmiðunarreglur dómstólaráðs, en jafnframt hafi verið litið til þess hvað teldist raunhæf krafa réttargæslumanns miðað við eðli og umfang málsins svo og hlutverk réttargæslumanns. Að teknu tilliti til þessara atriða hafi hún talið kröfu álitsbeiðanda úr hófi. Við það mat hafi hún til samanburðar litið til sambærilegra mála sem hún hafi dæmt eða komið að og kröfugerð í þeim málum. Þótt engin tvö mál séu eins verið ekki framhjá því litið að reikningur álitsbeiðanda hafi verið sá hæsti fyrir réttargæslu sem dómarinn hafi fengið. Ekki sé dregið í efa að álitsbeiðandi hafi unnið störf sín af heilindum en tímaskýrslan hafi borið þess merki að vinnuframlag hennar hafi verið umfram það sem eðlilegt geti talist, er í því sambandi vísað til hlutverks réttargæslumanns samkvæmt lögum. Veiti réttargæslumaður brotaþola aðstoð umfram það sem falli undir lögbundið hlutverk verði að gera þá kröfu að hún sé innan eðlilegra marka og að verkaskipting á milli lögreglu eða ákæranda annars vegar og réttargæslumanns hins vegar sé skýr. Vera kunni að skilgreina þurfi betur í lögum hlutverk réttargæslumanna og aðstoð þeirra við brotaþola. Mörkin séu ekki skýr og endurspeglist það í ólíku verklagi dómara við ákvörðun réttargæsluþóknunar.

 

III

Niðurstaða

Nefnd um dómarastörf starfaði á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla þegar kvörtun þessi barst. Valdsvið hennar er þannig skilgreint í 1. málslið. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Valdsvið nefndarinnar tekur þó ekki til dómsathafna, en undir þær falla ákvarðanir sem dómari tekur vegna meðferðar og úrlausnar dómsmáls. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. sömu laga verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með áfrýjun eða kæru til æðra dóms. Í athugasemdum um þessa grein laganna er lögð áhersla á sjálfstæði og ábyrgð dómara í störfum sínum. Verður að telja ljóst að það sjálfstæði takmarkast ekki af því hvort lög heimili áfrýjun eða kæru dómsathafnar. Í lögum nr. 50/2016 um dómstóla sem nú hafa tekið gildi er þetta orðað svo í 4. mgr. 47. gr. i.f.: „Kvörtunum vegna dómsúrlausna dómara verður ekki beint til nefndar um dómarastörf.“

 

Vegna þeirra raka álitsbeiðanda að dómaranum hefði verið skylt að fylgja tilkynningu dómstólaráðs nr. 3/2017 frá 4. janúar 2017 um viðmiðunarreglur fyrir héraðsdómstólana, sem fjalla um ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar í sakamálum, sbr. 3. málslið 2. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998, sendi nefndin erindi álitsbeiðanda til umsagnar dómstólaráðs með bréfi dagsettu 6. nóvember 2017. Svar barst með bréfi dagsettu 15. janúar 2018. Þar kemur fram að þrátt fyrir að dómstólaráð hafi sett framangreindar viðmiðunarreglur sem kveði meðal annars á um ákvörðun tímagjalds þóknunar réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi og fyrir dómi á grundvelli réttmætrar sundurliðaðrar og tímasettrar skýrslu um starf réttargæslumanns, og um lágmarksþóknun, þá hafi dómstólaráð ekki neinar lögbundnar heimildir til þess að hafa afskipti af dómstörfum, enda séu dómarar sjálfstæðir í dómstörfum og leysi þau af hendi á eigin ábyrgð. Skilja verður svar dómstólaráðs svo að það telji að greind tilkynning nr. 3/2017 falli undir ákvarðanir dómstólaráðs sem héraðsdómurum beri að hafa til viðmiðunar.  

 

Ákvörðun um málskostnað í dómsmáli telst til dómsathafnar. Við þá ákvörðun getur dómari þurft að leggja mat á ýmis atriði s.s. tímaskýrslur sem lögmenn leggja fram. Það er því ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að taka afstöðu til þeirrar ákvörðunar, sbr. nú 4. mgr. 47. gr. laga nr. 50/2016. Rétt er að benda á að í tilkynningu dómstólaráðs nr. 3/2017 er tilgreind lágmarksþóknun og tímagjald, sem greitt skuli „samkvæmt réttmætri, sundurliðaðri og tímasettri skýrslu um starf réttargæslumanns.“ Gert er ráð fyrir að dómari geti óskað skýringa og gagna til stuðnings tímaskýrslu. Að því er varðar viðbrögð dómara við kvörtun álitsbeiðanda verður að líta til þess að dómara er einungis skylt að rökstyðja niðurstöðu sína í dómi og er það ekki hlutverk nefndarinnar að gagnrýna forsendur dóms.

 

Með vísan til framangreinds verður kvörtun álitsbeiðanda ekki tekin til frekari efnismeðferðar og er henni vísað frá nefnd um dómarastörf.

 

 

                                                                                               Hjördís Hákonardóttir,  

                                                                                     Ása Ólafsdóttir       Friðgeir Björnsson

 

Mál nr. 6/2017

                           

Kvartað var yfir starfsháttum héraðsdómara vegna máls nr. [… /2014], þriggja hæstaréttardómara vegna máls nr. […/2016] og héraðsdómara vegna máls nr. [… /2016]

 

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla. Valdsvið hennar er skilgreint í 1. ml. 1. mgr. 27. gr. laganna en þar segir orðrétt: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Valdsvið nefndarinnar tekur þó ekki til dómsathafna, en undir þær falla ákvarðanir sem dómari tekur vegna meðferðar dómsmáls. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. sömu laga verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með áfrýjun eða kæru til æðra dóms.

 

Umkvörtunarefni á hendur héraðsdómara varðar dóm hans í máli nr. [… /2014]. Það er, samkvæmt framansögðu, ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að endurskoða ákvarðanir sem dómari tekur í dómsmáli, hvorki mat á sönnunargögnum né efnislega niðurstöðu. Endurskoðun þessa máls átti sér stað með dómi Hæstaréttar í hæstaréttarmáli nr. [… /2016]. Það er ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að endurskoða dóm Hæstaréttar eða störf hæstaréttardómara við úrlausn máls. Það verður ekki gert nema af Hæstarétti sjálfum að undangenginni endurupptöku máls.

 

Að því er varðar kvörtun á störfum héraðsdómara í máli nr. [… /2016] gildir það sama að um er að ræða dóm sem aðeins verður endurskoðaður með áfrýjun málsins.

 

Afgreitt frá nefnd um dómarastörf 6. nóvember 2017.

Mál nr. 7/2017

Af bréfi til nefndar um dómarastörf verður ráðið að kvartað sé yfir meðferð aðstoðarmanns dómara á máli nr. [… /2017] við Héraðsdóm [X]. Kvartað var yfir því að dómarinn hafi hafnað að taka á móti greinargerð en það hafi hún gert þegar málið var tekið fyrir 13. sama mánaðar. Einkum virðist þó kvörtunin lúta að því að útburðarbeiðni skuli vera rekin sem sérstakt mál, þar sem áður hafði verið höfðað mál vegna uppboðsins sem hún byggir á, sbr. 3. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991, og er það til meðferðar við dóminn, mál nr. [X].

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla. Valdsvið hennar er skilgreint í 1. ml. 1. mgr. 27. gr. laganna en þar segir orðrétt: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Valdsvið nefndarinnar tekur þó ekki til dómsathafna, en undir þær falla ákvarðanir sem dómari tekur vegna meðferðar dómsmáls. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. sömu laga verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með áfrýjun eða kæru til æðra dóms.

Þess má geta, til upplýsingar, að dómstóll móttekur öll mál sem stefnt er inn. Séu formgallar á málshöfðun getur það hins vegar varðað frávísun. Hvert mál er sjálfstæð eining og öll mótmæli og rök verður að setja fram fyrir dómara þess. Af þeim gögnum sem fylgdu erindinu var ljóst að mál þetta er til meðferðar hjá dómstólnum og þegar af þeirri ástæðu er því vísað frá nefnd um dómarastörf.

Afgreitt frá nefnd um dómarastörf 6. nóvember 2017.

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2016

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2016

Álit nefndar um dómarastörf 14. júlí 2016
í máli nr. 1/2016
Kvörtun A o.fl.

 

I
Málsmeðferð

Með bréfi dagsettu [...] apríl 2016 barst nefnd um dómarastörf kvörtun A fyrir sína hönd og bræðra sinna V og H, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, þar sem óskað var eftir að nefndin skoðaði „framgöngu og meðferð skipaðs skiptastjóra“ á dánarbúi föður þeirra og „kanni hvernig staðið var að eftirliti með störfum hans“ af hálfu dómstjóra Héraðsdóms X „í ljósi gildandi laga og reglna sem kunna að eiga við störf beggja.“ Með bréfi nefndarinnar [...] maí 2016 var álitsbeiðendum bent á að valdsvið nefndarinnar tæki ekki til skiptastjóra og var þeim gefinn kostur á að aðskilja umkvörtunarefnin og endursenda nefndinni þann þátt sem snýr að störfum dómstjóra. Álitsbeiðendur sendu nefndinni nýja kvörtun með bréfi [...] maí 2016 þar sem þess var óskað að nefnd um dómarastörf „skoði hvernig dómstjóri og eftirlitsaðili Y ... stóð að eftirliti með störfum skipaðs skiptastjóra P hrl. ... í dánarbúi D-[...]/2010 ... sem tekið var til opinberra skipta [...] október 2010.“ Með bréfi nefndarinnar til dómstjóra Héraðsdóms X [...] maí 2016 var honum gefinn kostur á að veita umsögn vegna kvörtunarinnar. Svar barst frá dómstjóranum með bréfi [...] sama mánaðar. Álitsbeiðendum var kynnt það bréf [...] júní 2016 og að veittum viðbótarfresti bárust athugasemdir þeirra með bréfi [...] júlí 2016.

Í máli þessu skipa nefnd um dómarastörf Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.

 

II
Málavextir

Dánarbú föður álitsbeiðenda, [...] var tekið til opinberra skipta [...] 2010 með úrskurði Héraðsdóms X að kröfu Sýslumannsins á A og var P hrl. skipaður skiptastjóri. Fyrsti skiptafundur með erfingjum var haldinn [...] nóvember 2010, innköllun var birt [...] sama mánaðar og lauk innköllunarfresti [...] 2011. Skiptastjóri hélt annan skiptafund með erfingjum 3. mars 2011 og þann þriðja 31. sama mánaðar. Á þeim fundi er bókað að lögð sé fram kröfuskrá, en þessa var ekki getið í fundarboði. Fjórði skiptafundur með erfingjum var haldinn 28. september 2011. Hinn 13. apríl 2011 veitti skiptastjóri álitsbeiðanda A umboð til þess að selja bifreiðar í eigu dánarbúsins sem hún gerði og skilaði andvirði þeirra 1. desember 2011. Fasteign búsins var seld í desember 2011. Fimmti skiptafundur var haldinn 28. desember 2011. Erfingjar voru ekki boðaðir til hans, en kröfuhafar voru boðaðir með ábyrgðarbréfi. Enginn mætti. Skiptastjóri bókar þá að kröfuskrá hafi verið lögð fram 31. mars 2011 og ekki sætt mótmælum, einnig að við sölu fasteignarinnar hafi komið í ljós að búið ætti ekki fyrir skuldum. Ákveður skiptastjóri því að fara með búið samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., þ.e. sem þrotabú. Með bréfi 26. apríl 2012 tilkynnti skiptastjóri Héraðsdómi X að farið væri með búið samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. Auglýsing um skiptafund [...] júní 2012 til að ljúka skiptum var birt í Lögbirtingablaði [...] 2012, engin mótmæli bárust við frumvarpi til úthlutunar og enginn mætti til fundarins. Var skiptum lokið og skiptalok tilkynnt héraðsdómi [...]. júní 2012. Það er síðan [...] ágúst 2015 sem álitsbeiðendur spyrjast fyrir um stöðu búsins. Í framhaldinu óskuðu þau eftir endurupptöku skiptanna, sem var synjað, og sendu athugasemdir til skiptastjóra og dómstjóra Héraðsdóms X. 

 

III
Umkvörtunarefni og andsvör

Álitsbeiðendur rekja ýmis umkvörtunarefni sem varða meðferð skiptastjóra á dánarbúi föður þeirra og telja að dómstjóri Héraðsdóms X hafi brugðist að því er varðar að hafa eftirlit með skiptunum. Einnig kvarta þau yfir því að dómstjórinn hafi ekki veitt þeim liðsinni við að ná fram endurupptöku. Helstu umkvörtunarefni þeirra eru að afgreiðsla kröfuskrár hafi ekki verið samkvæmt lögum, þess hafi ekki verið getið í fundarboði skiptafundar [...] mars 2011 að leggja ætti fram kröfuskrá, eignir og skuldir hafi aðeins verið kynntar munnlega á fundinum og hafi þau gert athugasemdir. Þá hafi einkahlutafélaginu [...] ekki verið slitið og þau því verið í þeirri trú að skiptum dánarbúsins væri ekki lokið. Loks að þau hafi ekki verið boðuð til skiptafundar [...] desember 2011, en á þeim fundi ákvað skiptastjóri að fara skyldi með búið sem þrotabú. 

Í umsögn dómstjóra er vísað til bréfs hans til álitsbeiðenda [...] janúar 2016 þar sem vísað er til þess að samkvæmt 47. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. sé héraðsdómara heimilt í vissum tilvikum að hafa afskipti af störfum skiptastjóra meðan á opinberum skiptum standi, gefa honum kost á að bæta úr aðfinnsluverðu athæfi eða eftir atvikum að víkja honum úr starfi. Forsenda þess sé skrifleg aðfinnsla frá t.d. erfingjum. Þá segir í umsögn dómstjórans að meðan á skiptum stóð hafi engin kvörtun borist héraðsdómi vegna þeirra og dóminum hafi ekki með neinum öðrum hætti borist vitneskja um að framferði skiptastjóra í starfi kynni að vera aðfinnsluvert. Því hafi Héraðsdómur X ekki haft neina ástæðu til afskipta af störfum skiptastjóra meðan á skiptum stóð og bresti lagaheimild til slíkra afskipta eftir að skiptum sé lokið. Er loks vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 802/2015.

 

IV
Forsendur og niðurstaða

Vegna orðalags í kvörtun álitsbeiðenda og spurninga sem þar eru settar fram, er rétt að taka það fram í upphafi, að nefnd um dómarastörf er ekki ígildi dómstóls og er ekki ætlað að gefa lögfræðileg álit. Valdsvið nefndar um dómarastörf er skilgreint í 1. málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og er hverjum þeim sem telur dómara hafa með störfum sínum gert á hlut sinn heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndarinnar. Er þar einkum átt við atriði sem varða háttsemi dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi en getur einnig tekið til þess að dómari hafi ekki gætt að lögbundnum skyldum sínum í starfi. 

Héraðsdómari skipar skiptastjóra þegar úrskurður hefur verið kveðinn upp um að bú skuli tekið til opinberra skipta, skv. 46. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Um eftirlit með störfum skiptastjóra er fjallað í 47. gr. sömu laga. Er héraðsdómara þar falið að kanna aðfinnslur sem honum berast skriflega frá erfingum eða öðrum sem eiga hagsmuna að gæta vegna starfa skiptastjóra. Fái héraðsdómari með öðrum hætti vitneskju um að framferði skiptastjóra sé aðfinnsluvert er honum heimilt að hefja afskipti af sjálfsdáðum. Ljóst er af lýsingu bæði álitsbeiðenda og dómstjóra að engar slíkar athugasemdir bárust héraðsdómi á meðan dánarbúið var undir skiptum og var því ekkert tilefni til sérstaks eftirlits eða athugunar. Tilkynning skiptastjóra til héraðsdóms um að hann hefði ákveðið að fara með dánarbúið samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. gaf dómnum ekki tilefni til sjálfstæðrar skoðunar á réttmæti þeirrar ákvörðunar eða aðdraganda hennar, enda nægir einföld tilkynning. Segja lögin berum orðum að þá ekki sé þörf dómsúrskurðar, innköllunar, auglýsingar eða annarra tilkynninga. Erfingi eða kröfuhafi hefði getað mótmælt ákvörðuninni á skiptafundi 28. desember 2011, skv. 4. mgr. sama ákvæðis, og hefði skiptastjóra þá borið að beina ágreiningi þar um til héraðsdóms. Þar sem erfingjar voru ekki boðaðir til fundarins gátu þau ekki gætt réttar síns að þessu leyti, en skilja verður málflutning þeirra á þann veg að þau telji ekki að öllum eignum búsins hafi verið komið í verð.

Rétt er að benda á að gangist erfingjar ekki við skuldum ber skiptastjóra að beita 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 telji hann búið ekki eiga fyrir skuldum, en erfingjar hefðu getað mótmælt ákvörðuninni eða komið í veg fyrir hana með því að gangast við skuldum. Það var ekki á ábyrgð héraðsdóms að erfingjar voru ekki boðaðir á skiptafund 28. desember 2011. Eftir framangreinda ákvörðun skiptastjóra fór með búið eftir lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 76. gr. þeirra laga er ákvæði um eftirlit héraðsdóms með störfum skiptastjóra og er það sambærilegt ákvæði 47. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í 1. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 segir að skipti samkvæmt lögunum verði ekki endurupptekin nema að uppfylltum skilyrðum 163. gr. og 164. gr. laganna. Er þar um að ræða að uppfyllt séu skilyrði skilyrtrar kröfu eða niðurstaða fengin um umdeilda kröfu, sem skiptastjóri hafði tekið frá fé til að mæta í fyllingu tímans, eða að eign sem búið gat ekki ráðið yfir við skiptin standi því til ráðstöfunar. Ennfremur ef fram kemur eign eftir lok skipta sem hefði átt að falla til búsins. Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og athugasemdum með frumvarpi til laganna er ljóst að skipti verða ekki endurupptekin af öðrum ástæðum en að framan greinir, til dæmis þó að mistök hafi átt sér stað við framkvæmd þeirra, nema hugsanlega ef upp koma tilvik sem öldungis má jafna við þau tilvik sem talin eru upp í 163. gr. og 164. gr. laganna. Skiptastjóri ákveður hvort gjaldþrotaskipti verði endurupptekin og þá er það einungis á forræði skiptastjóra að beina ágreiningi um endurupptöku þeirra til héraðsdóms, eins og ráða má af dómi Hæstaréttar Íslands frá 6. janúar 2016 í máli nr. 802/2015, sem dómstjórinn vísar til í umsögn sinni til nefndarinnar. 

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið er ljóst að dómstjóri Héraðsdóms X hafði ekki tilefni til afskipta af meðferð skiptastjóra á dánarbúi föður álitsbeiðenda og síðar gjaldþrotameðferð þess, og hefur því í engu vanrækt eftirlitsskyldur sínar. Hann hafði ekki vald til að mæla fyrir um endurupptöku skiptanna, en málsókn um það ágreiningsefni þarf að koma til héraðsdóms með tilstuðlan skiptastjóra. Er kvörtun álitsbeiðenda því vísað frá nefnd um dómarastörf.

 

Hjördís Hákonardóttir

 

Ása Ólafsdóttir

 

 Friðgeir Björnsson

Álit nefndar um dómarastörf 22. nóvember 2016
í máli nr. 2/2016
Kvörtun Jóns Steinars Gunnlaugssonar

 

I
Málsmeðferð

Með bréfi dagsettu 5. apríl 2016 sendi Jón Steinar Gunnlaugsson, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, nefnd um dómarastörf erindi, þar sem hann kemur á framfæri umkvörtun yfir framgöngu meirihluta Hæstaréttar í tengslum við umsókn hans um dómaraembætti við réttinn árið 2004, sem honum var síðar veitt. Álitsbeiðandi hafði áður sent erindið innanríkisráðuneyti, en með bréfi ráðuneytisins dags. 19. febrúar 2016 þar sem erindi álitsbeiðanda var hafnað, var honum jafnframt bent á að það ætti undir valdsvið nefndar um dómarastörf. 

Með erindinu fylgdu: 1) bréf álitsbeiðanda til innanríkisráðuneytis dags. 9. febrúar 2016, 2) bréf innanríkisráðuneytis dags. 19. febrúar 2016, 3) bréf álitsbeiðanda dags. 23. febrúar 2016, 4) bréf innanríkisráðuneytis dags. 22. mars 2016 og 5) 14. kafli bókarinnar ,,Í krafti sannfæringar“ bls. 267-289.

Við meðferð málsins vék formaður nefndarinnar sæti vegna vanhæfis. Með bréfi dags. 18. maí 2016 var Þóra Hallgrímsdóttir skipuð formaður nefndarinnar við meðferð þessa máls. Í máli þessu skipa nefnd um dómarastörf því Þóra Hallgrímsdóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson. Nokkrar tafir hafa orðið á afgreiðslu málsins hjá nefndinni.

 

II
Umkvörtunarefni

Álitsbeiðandi telur að átta af níu starfandi dómurum við Hæstarétt Íslands sumarið 2004 hafi gert á hlut hans, samanber orðalag 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Vísar álitsbeiðandi þar til framgöngu dómaranna, sem lýst er í bréfi hans til ráðherra sem og í bókarkafla sem lagður var fram við meðferð málsins fyrir nefndinni. Þar greinir álitsbeiðandi frá því að átta af níu dómurum Hæstaréttar sumarið 2004 hafi ekki viljað fá sig í hóp þeirra, og hafi einum þeirra verið falið á þeim tíma að flytja álitsbeiðanda skilaboð um það sem og hvatningu um að falla frá hugmyndum um að sækja um embættið. Jafnframt hefði honum verið tjáð að léti hann verða af því að sækja um embættið, yrði hann skaðaður með umsögn réttarins. 

Þá segir álitsbeiðandi að í kjölfarið hafi hafist leit af hálfu sitjandi dómara í Hæstarétti Íslands á þeim tíma, að umsækjendum sem gætu átt möguleika á að skáka álitsbeiðanda, og hafi hann haft spurnir af þremur slíkum tilvikum. Í tveimur tilvikum hafi viðkomandi lögfræðingar skýrt álitsbeiðanda sjálfir frá því, en í einu tilviki nákomin persóna hlutaðeigandi lögfræðings.

Í umsóknarferlinu hafi síðar komið á daginn, þegar þeir átta dómarar sem skiluðu umsögn um hæfni umsækjenda, að þeir höfðu staðið við hótunina sem sett hafði verið fram, og að öllum sem til þekktu hafi verið það ljóst. Hins vegar hafi settur dómsmálaráðherra á þeim tíma sem þessir atburðir áttu sér stað, ekki látið meirihluta Hæstaréttar komast upp með þetta framferði og skipað álitsbeiðanda í embætti dómara við Hæstarétt Íslands.

 

III
Málsmeðferð innanríkisráðuneytis

Álitsbeiðandi vekur í erindi sínu sérstaka athygli á því að innanríkisráðuneytið hafi ekki talið sig hafa vald til að sinna kvörtun hans, sem hann kom upphaflega á framfæri við ráðuneytið með bréfi dags. 9. febrúar 2016. Í bréfi sínu til ráðuneytisins hafi álitsbeiðandi byggt á því að það framferði sem fram komi í erindinu lýsti alvarlegum brotum sitjandi dómara við Hæstarétt Íslands á þeim tíma sem um ræðir, og fengi álitsbeiðandi ekki betur séð en að háttsemin, ef sönn reyndist, færi í bága við almenn hegningarlög, einkum ákvæði í XIV. kafla laganna, t.d. 130., 132. og 139., sbr. einnig 141. gr. a. í lögunum. Í ljósi afstöðu innanríkisráðuneytisins væri álitsbeiðandi hins vegar í þeirri sérkennilegu stöðu að þurfa að senda nefnd um dómarastörf erindið, þótt hann hafi haldið því fram í samskiptum hans við ráðuneytið að það félli utan valdsviðs nefndarinnar. 

Við meðferð málsins hefur nefnd um dómarastörf því jafnframt litið til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um afgreiðslu á fyrrgreindu erindi álitsbeiðanda sem sent var innanríkisráðuneyti með bréfi dags. 9. febrúar 2016 og fylgdu með erindi álitsbeiðanda til nefndarinnar. 
Með bréfi innanríkisráðuneytis dags. 19. febrúar 2016 kom fram sú afstaða ráðuneytisins að það væri í höndum nefndar um dómarastörf að taka afstöðu til þess hvort háttsemi dómara í starfi væri aðfinnsluverð og þá jafnframt hvort tilefni væri til að beita dómara viðurlögum af því tilefni. Álitsbeiðanda var þar m.a. bent á að samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 væri hverjum þeim sem teldi dómara hafa gert á hlut hans með störfum sínum, heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndarinnar. Í erindi ráðuneytisins kom jafnframt fram að kvartandi þyrfti að öðru leyti ekki að uppfylla önnur skilyrði en að hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Jafnframt var í bréfi ráðuneytisins fjallað um 1. mgr. 28. gr. laga um dómstóla, en þar er lýst hlutverki forstöðumanns dómstóls í tengslum við eftirlit með háttsemi dómara eða vanrækslu í starfi eða framferði utan starfs. Í svari ráðuneytisins kom að lokum fram, að það hafi farið ítarlega yfir erindi álitsbeiðanda og telji að það væri á valdsviði nefndarinnar að fjalla um erindið og þær ávirðingar sem þar komu fram, samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

Í bréfi álitsbeiðanda til ráðuneytisins dags. 23. febrúar 2016 var framangreindri afstöðu ráðuneytisins mótmælt. Kom fram sú skoðun álitsbeiðanda að skýra yrði ákvæði laga nr. 15/1998 um dómstóla á þann veg að kvörtun á hendur dómara varði dómstörf hans, en ekki sérstök verkefni á sviði stjórnsýslu, sem honum kynnu að vera falin, eins og um ræðir í því máli sem hér er til meðferðar. Þar geti dómari ekki notið neinnar sérstöðu handhafa dómsvalds, heldur hljóti hann að hafa sömu stöðu og aðrir stjórnsýsluhafar. Til dæmis hafi umsagnaraðild um þá sem sækja um dómaraembætti nú verið færð til sérstakrar nefndar, sem þá teljist vera stjórnsýslunefnd en ekki dómstóll. Í bréfinu benti álitsbeiðandi jafnframt á að stjórnskipuleg staða þeirra sem gefa umsögn um dómaraefni breyttist ekki þó að nýjum aðila væri falið verkefnið. Í bréfinu kom jafnframt fram sú skoðun álitsbeiðanda, að einboðið yrði að nefnd um dómarastörf myndi vísa málinu frá sér, ef það bærist henni til meðferðar, enda stæðu lagareglur að mati álitsbeiðanda ekki til þess að hún sinnti því. Að auki benti álitsbeiðandi á til viðbótar, að erindi hans beindist að sjö fyrrverandi dómurum við réttinn, sem nefndin hefði enga lögsögu yfir, eftir að þeir hefðu látið af störfum.

Framangreindu erindi álitsbeiðanda var svarað með bréfi ráðuneytisins dags. 22. mars 2016, þar sem vísað var til röksemda sem fram komu í bréfi þess frá 19. febrúar 2016. Kom fram í bréfinu, að ráðuneytið liti ekki svo á að ákvæði laga um dómstóla, sem varða nefnd um dómarastörf, yrðu túlkuð svo þröngt sem álitsbeiðandi vísar til. Teldi ráðuneytið að nefnd um dómarastörf væri bær til að fjalla um öll þau störf sem dómari ynni í krafti embættis síns, hvort sem um væri að ræða störf hans að einstökum dómsmálum eða stjórnsýsluverkefni sem honum sem dómara væri að lögum skylt að sinna.

 

IV
Forsendur og niðurstaða

Álitsbeiðandi byggir á því að átta af níu starfandi dómurum við Hæstarétt Íslands sumarið 2004 hafi gert á hluta hans í tengslum við umsókn álitsbeiðanda um dómaraembætti við réttinn á árinu 2004, sem honum var síðar veitt. Byggir álitsbeiðandi á því að sú framganga falli undir 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla að mati innanríkisráðuneytisins, en nánari rökstuðning erindisins er að finna í II. kafla hér að framan. Vegna þeirra upplýsinga sem fram hafa komið um fyrri meðferð málsins og afstöðu innanríkisráðuneytis, þarf sérstaklega að fjalla um hvort kvörtun álitsbeiðanda falli undir valdsvið nefndar um dómarastörf. Jafnframt þarf að líta til þess að sjö af þeim átta dómurum sem kvörtun álitsbeiðanda beinist að, gegna ekki lengur embættum dómara við Hæstarétt Íslands.

Valdsvið nefndar um dómarastörf er skilgreint í fyrri málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla með eftirfarandi hætti: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Að framan eru rakin sjónarmið innanríkisráðuneytis sem lúta að valdsviði nefndarinnar. Þau falla ekki að þeim sjónarmiðum sem rakin eru í greinargerð með frumvarpi sem varð að dómstólalögum nr. 15/1998 um þau störf dómara sem kvörtunarheimild getur náð til. Þar segir um ákvæðið:

„Í upphafi 1. mgr. er mælt fyrir um rétt til að koma fram kvörtun. Þessi réttur er þar veittur hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í starfi. Kvörtunarheimildin væri samkvæmt þessu einkum í höndum aðila að dómsmáli sem viðkomandi dómari færi með, en einnig gæti fyrirsvarsmaður málsaðila eða lögmaður hans notið þessarar heimildar, svo og vitni eða matsmaður sem kæmi við sögu máls, eða annar sem ákvörðun dómara við rekstur máls gæti varðað. Ekki verður útilokað að enn aðrir gætu sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kvörtun á hendur dómara vegna framferðis hans í tengslum við dómsmál. Samkvæmt ákvæðinu yrði réttur til kvörtunar háður  því að störf dómara hafi með einhverjum hætti bitnað á þeim sem bæri hana fram, enda er áskilið að dómari hafi gert á hlut viðkomanda með störfum sínum. Að fullnægðum þessum skilyrðum mætti viðkomandi beina kvörtun til nefndar um dómarastörf, en samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. yrði hann að greina þar frá atvikum og röksemdum fyrir því að brotið hafi verið á rétti hans.“

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið, er valdsvið nefndar um dómarastörf eins og það er skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og með hliðsjón af því sem fram kemur um ákvæðið í lögskýringargögnum takmarkað við atriði sem varða háttsemi dómara gagnvart málsaðilum eða öðrum sem hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kvörtun vegna meðferðar máls fyrir dómi. Nefndin endurskoðar ekki dómsathafnir, svo sem efnislega niðurstöðu dóma eða úrskurða, þar með talið hvernig dómari skýrir lög og reglur, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli eða samningu dóms að öðru leyti. Að sama skapi fellur ekki undir valdsvið nefndarinnar að fjalla um önnur störf dómara en þau sem tengjast meðferð dómsmáls, enda má skýrlega ráða af greinargerð með frumvarpi til dómstólalaga að þeir lögvörðu hagsmunir sem sá sem leitar til nefndarinnar þarf að sýna fram á, séu í samhengi við framferði dómara í tengslum við dómsmál. Samkvæmt framansögðu nær valdsvið nefndarinnar ekki til stjórnsýslu dómstólanna, og þar með ekki til ágreiningsefna þeirra sem kvartað er undan í erindi álitsbeiðanda.

Auk þess hefur nefndin ekki talið sig hafa heimild til þess að taka til efnislegrar umfjöllunar tilvik þegar kvörtun er beint að dómara sem látið hefur af störfum. Agavald nefndarinnar nær þannig einvörðungu til þeirra sem gegna störfum dómara þegar kvörtun er sett fram, en svo háttar ekki til um sjö af þeim átta dómurum sem kvörtun álitsbeiðanda beinist að.

Þar sem það er ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að taka afstöðu til framgöngu meirihluta Hæstaréttar í tengslum við umsókn álitsbeiðanda um dómaraembætti við réttinn á árinu 2004, sem honum var síðar veitt, er erindi þessu vísað frá nefndinni samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998.

 

Þóra Hallgrímsdóttir

 

Ása Ólafsdóttir

 

Friðgeir Björnsson

Álit nefndar um dómarastörf 14. júlí 2016
í máli nr. 3/2016
Kvörtun Víðis Sigurðssonar

 

I
Málsmeðferð

Með ódagsettu bréfi, sem móttekið var 27. maí 2016, sendi Víðir Sigurðsson, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, nefnd um dómarastörf erindi þar sem hann kvartar yfir meintu vinnulagi Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara við meðferð máls nr. E-1390/2014 við Héraðsdóm Reykjaness. Með bréfi nefndarinnar 27. maí 2016 var óskað eftir umsögn Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara. Svar barst með bréfi 7. júní 2016 og fylgdi því endurrit allra þinghalda í málinu og ljósrit framlagðra skjala. Álitsbeiðanda var með bréfi nefndarinnar 15. júní 2016 gefinn kostur á að gera athugasemdir og veittur til þess tveggja vikna frestur. Engin athugasemd barst.

Í máli þessu skipa nefnd um dómarastörf Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.

 

II
Umkvörtunarefni og andsvör

Kjarni kvörtunar álitsbeiðanda er að hann telur dómarann ekki hafa verið óvilhallan heldur dregið taum stefnanda málsins. Kvartar hann yfir því að stefna á hendur sér hafi verið óskýr og sönnunargögn hafi skort. Skilja verður mál hans á þann veg að hann telji að annað hvort hefði átt að dæma málið þegar í stað eða vísa því frá dómi, en þess í stað og gegn vilja hans hafi verið stefnt að aðalmeðferð. Hann kveðst hafa ráðið lögmann vegna þrýstings frá dómaranum, sem reynt hafi að keyra málið í aðalmeðferð, þrátt fyrir að hann sjálfur hafi viljað láta dæma það strax. Þetta hafi kostað hann útgjöld. Þegar hann kveðst loks hafa óskað eftir að dæmt yrði í málinu og þar með ekki mætt til aðalmeðferðar, hafi lögmaður stefnanda fellt málið niður og þannig sloppið við að fá dæmdan á sig málskostnað. Lætur hann að því liggja að lögmaður stefnanda sé „inni á kaffistofunni hjá dómurum og í miklum tengslum við þá“ þar sem lögmaðurinn sjái um formhlið mála fjölda lögmanna við dómstólinn. Álitsbeiðandi kvartar yfir að erfitt hafi verið „að ná nokkru sambandi eða skilning“ hjá dómaranum og telur að hann hafi viljað „keyra málið í aðalmeðferð“ og hafi sagt að ekki þýddi að vísa málinu frá, því að þá yrði því stefnt aftur inn. Telur álitsbeiðandi ámælisvert að dómarinn hafi ekkert aðhafst þegar stefnandi vildi fella málið niður og telur dómara „eiga sjálfkrafa að verja almenna borgara fyrir órökstuddum og tilhæfulausum ásökunum annarra borgara.“

Í umsögn Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara er gangur málsins rakinn. Dómarinn kveðst hafa bent álitsbeiðanda, sem er ólöglærður og rak málið sjálfur, á þann möguleika að fá sér lögmann, þar sem hann hafi ekki virst „átta sig á og skilja leiðbeiningar dómara“ og hafnar því að hafa þrýst á hann um það. Þá segir:

„Við fyrirtöku málsins 13. maí var ekki um frekari gagnaframlagningu að ræða og var aðalmeðferð þá ákveðin að ósk lögmanna beggja aðila og átti hún að fara fram 26. maí 2015. Dómari beindi þeim tilmælum til lögmanna aðila að tjá sig um það við aðalmeðferð málsins hvort málið kynni að varða frávísun án kröfu vegna vanreifunar. Áður hafði komið til tals við lögmann stefnanda og stefnda að málið kynni að varða frávísun án kröfu. Það er rangt að dómari hafi sagt að það þýddi ekkert að vísa málinu frá því stefnandi myndi höfða nýtt mál, heldur útskýrði dómari fyrir stefnda annars vegar réttaráhrif þess að vera sýknaður í máli og hins vegar þess að máli yrði vísað frá dómi og möguleikum stefnanda á að höfða nýtt mál.“

Þá hafnar dómarinn því alfarið að hafa viljað „keyra málið í aðalmeðferð“ eða hafa hjálpað lögmanni stefnanda „að halda lífi í málinu“. Lögmaður stefnanda sé ekki í miklum tengslum við dómara dómstólsins og hafi engan aðgang að kaffistofu þeirra, eins og álitsbeiðandi haldi fram. Kveðst dómarinn alls ekki hafa rætt efnislega við hann um málið utan réttar. Að því er varði hlutverk dómara, þá sé það ekki að halda uppi vörnum fyrir ólöglærðan málsaðila heldur að leiðbeina um formhlið málsins eftir því sem tilefni sé til. Dómarinn hafi gætt leiðbeiningaskyldu sinnar, en álitsbeiðandi virðist ekki hafa skilið „leiðbeiningar dómara um réttarfarsreglur og [hafi] ýmist misskilið þær eða rangtúlkað á versta veg“. Séu fullyrðingar hans rangar og ómaklegar og kveðst dómarinn á engan hátt hafa gert á hlut hans með störfum sínum.

 

III
Forsendur og niðurstaða

Kvörtun álitsbeiðanda á upphaf sitt í einkamáli þar sem honum var stefnt til greiðslu reiknings sem hann taldi rangan og ómaklegan. Það er hlutverk dómstóla að skera úr slíkum ágreiningi og fer þá um meðferð málsins samkvæmt réttarfarsreglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Samkvæmt endurriti þingbókar í máli nr. E-1390/2014 var stefna þingfest 12. nóvember 2014 og málinu frestað til greinargerðar stefnda, álitsbeiðanda, til 10. desember sama ár og aftur í sama skyni til 14. janúar 2015 og til 28. sama mánaðar, en þá óskaði álitsbeiðandi enn eftir fresti til 2. febrúar 2015, sem var hafnað af stefnanda og var málinu frestað til úrskurðar dómara um frestbeiðnina til 6. sama mánaðar, þá lagði álitsbeiðandi fram greinargerð og eitt dómskjal og fór málið út af reglulega dómþingi. Hinn 14. sama mánaðar var því úthlutað til Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara, sem hélt fyrsta þinghald í því 25. sama mánaðar og var málinu þá frestað til 9. mars 2015. Í því þinghaldi lagði lögmaður stefnanda fram nokkur viðbótarskjöl. Bókuð voru mótmæli álitsbeiðanda bæði vegna framlagningar nýrra skjala og málatilbúnaðar stefnanda í heild. Bókað var um vitni sem stefnandi hugðist leiða. Málinu var frestað til 24. sama mánaðar til að álitsbeiðandi gæti kynnt sé ný gögn og eftir atvikum lagt fram fleiri gögn. Í því þinghaldi voru bókuð mótmæli álitsbeiðanda við fyrirætlunum stefnanda um að leiða vitni, og mótmæli við þeim mótmælum. Þá skoraði lögmaður stefnanda á álitsbeiðanda að leggja fram tiltekna kvittun og óskaði álitsbeiðandi eftir fresti til þess að taka afstöðu til áskorunarinnar, og var málinu frestað til 30. sama mánaðar. Í því þinghaldi óskaði álitsbeiðandi eftir frekari fresti til þess að leggja umrætt skjal fram og var hann veittur til 15. apríl 2015. Fram til þessa hafði álitsbeiðandi rekið mál sitt sjálfur og er í öllum tilvikum bókað að dómari gæti leiðbeiningaskyldu gagnvart honum. Í þinghaldinu 15. apríl 2015 mætti lögmaður fyrir hönd álitsbeiðanda og lagði fram skjal það sem skorað hafði verið á hann að leggja fram auk tveggja annarra, óskaði stefnandi þá eftir fresti til þess að kynna sér gögnin og var málinu frestað til 22. sama mánaðar. Í því þinghaldi skoraði lögmaður álitsbeiðanda á stefnanda að leggja fram verksamning og óskaði stefnandi eftir fresti, sem var veittur til 13. maí 2015. Málið var næst tekið fyrir 6. maí 2015 og mætti lögmaðurinn enn fyrir álitsbeiðanda. Lögmaður stefnanda upplýsti að ekki hefði verið gerður skriflegur verksamningur. Var aðalmeðferð ákveðin 26. sama mánaðar og bókað að dómari beini þeim tilmælum til lögmanna aðila „að tjá sig um það við aðalmeðferð málsins hvort málið kunni að varða frávísun án kröfu vegna vanreifunar í stefnu.“ Í þinghaldinu 26. maí 2015 var ekki sótt þing af hálfu álitsbeiðanda og er bókað að hann hafi „upplýst dómara utan réttar að ekki yrði mætt af hans hálfu en stefndi tók jafnframt fram að með þessu væri hann ekki að fallast á kröfur stefnanda heldur vildi hann að málið yrði tekið til dóms á grundvelli 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991.“ Lögmaður stefnanda lýsti því þá yfir að hann óskaði eftir að fella málið niður, og var það gert.

Valdsvið nefndar um dómarastörf er skilgreint í 1. málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og takmarkast við atriði sem varða háttsemi dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi. Dómara ber við meðferð máls að fara eftir reglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 4. mgr. 101. gr. þeirra laga ber honum að leiðbeina ólöglærðum aðila. Sú leiðbeiningaskylda tekur þó eingöngu til formsatriða máls en ekki efnisatriða. Dómarinn gætti leiðbeiningaskyldu. Það er ekki á ábyrgð dómara ef aðili fer ekki eftir leiðbeiningum eða skilur þær ekki, en telji dómari hann ófæran um að gæta hagsmuna sinna skal hann leggja fyrir aðilann að ráða sér hæfan umboðsmann til að flytja málið, sbr. 6. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991.

Álitsbeiðandi mætti níu sinnum sjálfur í málinu og síðan lögmaður þrisvar fyrir hans hönd en hann felldi sjálfur niður þingsókn þegar aðalmeðferð átti að fara fram. Hann gerði ekki kröfu um frávísun málsins í greinargerð sinni og ekki er bókað um að hann hafi síðar formlega gert slíka kröfu. Samkvæmt bókun í þinghaldi 6. maí 2015 lagði dómari á hinn bóginn fyrir lögmenn að færa fram rök með og á móti því að hugsanlega ætti dómari að vísa málinu frá dómi að eigin frumkvæði vegna vanreifunar í stefnu. Þar sem álitsbeiðandi ákvað að hætta að mæta í málinu kom ekki til þess að dómari tæki afstöðu til þessa. Í einkamáli hafa aðilar forræði máls. Dómari getur ekki einhliða ákveðið að taka mál til dóms fyrir aðalmeðferð sæki stefndi þing, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Falli þingsókn stefnda niður fer með málið eftir 96. gr. sömu laga. Mál verður fellt niður ef stefnandi krefst þess, sbr. c. lið 105. gr. laganna. Hefur dómari ekki vald til þess að hindra það. Þar sem ekki var mætt af hálfu álitsbeiðanda í þinghaldinu 26. maí 2015 þegar málið var fellt niður, gat hann ekki gert kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda. Sú ákvörðun var alfarið á ábyrgð álitsbeiðanda.

Ekki verður annað ráðið af þingbók og öðrum gögnum en að dómarinn hafi í öllu farið að réttum málsmeðferðarreglum, gætt hlutleysis og hagsmuna álitsbeiðanda að því marki sem honum bar. Er kvörtun álitsbeiðanda því án tilefnis og er henni vísað frá nefnd um dómarastörf.

 

Hjördís Hákonardóttir 

 

Ása Ólafsdóttir

 

Friðgeir Björnsson

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

 

Mál nr. 6/2016
Álitsbeiðandi: Bjarni Hauksson hrl
Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, Friðgeir Björnsson og Ása Ólafsdóttir


Með bréfi dagsettu 12. ágúst 2016 sendi Bjarni Hauksson hæstaréttarlögmaður hjá Atlas lögmönnum erindi til nefndar um dómarastörf og óskaði eftir að nefndin tæki „til skoðunar ákvörðun héraðsdómarans Sigríðar Hjaltested um málsvarnarlaun í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-[...]/2016 og annað hvort finni að störfum dómarans eða veiti áminningu, enda hafi dómarinn sýnt af sér aðfinnsluverða háttsemi og vanrækslu í starfi við umrædda ákvörðun.“ Með bréfinu fylgdu í afriti umræddur dómur, málskostnaðarreikningur og tölvupóstssamskipti lögmannsins og dómarans sem áttu sér stað eftir dóm. Lögmaðurinn var verjandi ákærða í framangreindu máli og telur hann að ákvörðun málsvarnarlauna hafi verið alltof lág og ekki í samræmi við viðmiðunarreglur dómstólaráðs.

Valdsvið nefndar um dómarastörf er þannig skilgreint í fyrri málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Samkvæmt greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/1998 er ljóst að ákvæði 27. gr. er ekki ætlað að taka til endurskoðunar á atriðum sem falla undir hugtakið „dómsathöfn“, þar með talið hvernig dómari skýrir lög og reglur, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli eða samningu dóms að öðru leyti. Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með málskoti til æðra dóms. Ákvörðun um málskostnað í dómsmáli telst til dómsathafnar.

Þar sem það er ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að taka afstöðu til réttmætis ákvörðunar héraðsdómara um málsvarnarlaun til handa verjanda í sakamáli eða til rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun er erindi þessu vísað frá nefndinni samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998.

Reykjavík, 30. ágúst 2016

Hjördís Hákonardóttir 
formaður nefndar um dómarastörf

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2015

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2015

Ákvörðun um endurupptökubeiðni hafnað

Mál nr. 2/2015
Erindi Kristleifs Indriðasonar.
Nefndina skipuðu, Ragnhildur Helgadóttir, settur formaður, Friðgeir Björnsson og Pétur Dam Leifsson.

 

I. Málsmeðferð

Með bréfi til nefndar um dómarastörf, dagsettu 28. febrúar 2015, bar Kristleifur Indriðason (hér eftir nefndur álitsbeiðandi) upp kvörtun vegna framgöngu Benedikts Bogasonar dómara í máli nr. E-364/2008. Þar vísaði hann í kvörtun Gullvers sf. frá 29. nóvember 2010, en hann er fyrirsvarsmaður og aðaleigandi félagsins. Nefnd um dómarastörf vísaði þeirri kvörtun frá nefndinni með áliti, dags. 20. apríl 2011.

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla og er fjallað um erindi álitsbeiðanda á grundvelli 27. gr. laganna og reglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku. Með bréfi, dagsettu 2. júlí 2015, óskaði nefndin eftir viðbrögðum Benedikts Bogasonar við kvörtuninni. Bréf hans, dags. 6. júlí, var sent álitsbeiðanda þann 7. sama mánaðar. Athugasemdir álitsbeiðanda, dagsettar 8. ágúst, bárust nefndinni þann 28. sama mánaðar. Því miður hefur orðið töf á afgreiðslu erindisins vegna anna og skipunar nefndarmanna í stað þeirra sem viku sæti í málinu.

Í máli þessu skipa nefndina Friðgeir Björnsson, Pétur Dam Leifsson, varamaður Ásu Ólafsdóttur sem vék sæti í málinu, og Ragnhildur Helgadóttir, sem sett var formaður nefndarinnar ad hoc þann 30. apríl 2015 þar sem að Hjördís Hákonardóttir formaður og Ingibjörg Benediktsdóttir varamaður hennar viku sæti. Í bréfi álitsbeiðanda frá 31. maí 2015 voru gerðar athugasemdir við hæfi Ragnhildar til að fjalla um mál þetta, þar sem hún sat einnig í nefndinni sem stóð að álitinu 20. apríl 2011. Á fundi nefndarinnar þann 1. júlí 2015 var tekin afstaða til hæfis setts nefndarformanns vegna þessa og þótti fyrri aðkoma ekki valda vanhæfi . 

 

II. Málavextir og rök

Í kvörtun álitsbeiðanda frá 28. febrúar 2015 kemur fram, að í kvörtun Gullvers sf. frá 29. nóvember 2010, hafi fyrst og fremst verið bent á tvennt sem talið hafi verið ámælisvert varðandi framgöngu Benedikts Bogasonar í máli nr. E-364/2008 : „Meint brot hans gegn 5 og 6. gr. einkamálalaga“ og „meint brot hans hvað varðandi fölsun á lóðarmörkum á norðurhluta á lóð Gullvers sf. að Aðalgötu 7a, Sth.“ Í bréfinu segir að í áliti nefndar um dómarastörf frá 20. apríl 2011 sé „ekki vikið einu orði að þessum hluta kvörtunar Gullvers sf og er hið meinta skjalafals ekki síður alvarlegur gerningur… Það hlýtur því að teljast verulegur ágalli á áliti hinnar sérskipuðu Nefndar… að þar hafi verið litið algerlega framhjá þeim hluta kvörtunarinnar sem sneri að hinni grófu breytingu á lóðarmörkunum, eða hinu meinta skjalafalsi og því hlýt ég að gera þá kröfu til Nefndar um dómarastörf að úr þessu verði bætt…“

Í kvörtuninni kemur einnig fram, að í máli nr. 364/2008 telji álitsbeiðandi að brotið hafi verið gegn þeirri skyldu 3. tl. 115. gr. laga um meðferð einkamála að tilkynna aðilum um hvar og hvenær dómur eða úrskurður verði kveðinn upp. Þetta kvörtunarefni hafði ekki áður komið til kasta nefndarinnar.

Í andsvari Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara og fyrrum dómstjóra við Héraðsdóm Vesturlands frá 6. júlí 2015, er vísað til bréfaskipta hans og nefndarinnar vegna kvörtunarinnar frá 29. október 2010. Þá kemur fram að við Héraðsdóm Vesturlands hafi aðilum eða lögmönnum þeirra ætíð verið tilkynnt lögum samkvæmt hvenær dómur gengi í máli. Ýmist hafi aðilum eða lögmönnum þeirra verið kynnt í þinghaldi við dómtöku máls hvenær dómur yrði kveðinn upp, eða tilkynnt þetta síðar og þá gjarnan með tölvupósti. Þá hafi verið algengt að lögmenn lýstu því við dómtöku að ekki væri óskað eftir tilkynningu um hvenær dómur gengi. Hins vegar sé ókleift að upplýsa nú, 6 árum síðar, hvernig boðað hafi verið til dómsuppsögu í þessu tiltekna máli og er því vísað á lögmenn aðila ef frekari upplýsinga sé þörf.

Í athugasemdum álitsbeiðanda við andsvari dómarans var efni kvörtunarinnar ítrekað og skýrt frekar og ítrekað að stefnendum málsins hefði ekki verið tilkynnt hvar og hvenær dómur yrði kveðinn upp. Með hliðsjón af niðurstöðu þeirri, sem rakin er hér að neðan þótti ekki ástæða til að óska eftir frekari andsvörum við athugasemdunum.

 

III. Forsendur

Kvörtun þessi lýtur í fyrsta lagi að sama ætlaða hátterni Benedikts Bogasonar, þáverandi héraðsdómara, og lýst var í kvörtun Gullvers sf. frá 29. október 2010. Kvörtunin er því, hvað þetta varðar, meðhöndluð sem beiðni um endurupptöku, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hún er svohljóðandi :

24. gr. Endurupptaka máls.
Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 
1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Samkvæmt IV. kafla laga nr. 15/1998, um dómstóla, takmarkast valdsvið nefndarinnar, sbr. líka álit hennar frá 20. apríl 2011, við atriði sem varða framferði dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi, en hlutverk hennar er ekki að endurskoða atriði sem varða dómsathöfn, þar með talið hvernig dómari skýrir lög, mat hans á sönnun, niðurstöðu sem dómari kemst að í máli eða samningu dóms. Nefndin hefur samkvæmt lögum um dómstóla ekki heimild til að fjalla um störf dómara eða annarra í matsnefnd eignarnámsbóta, nema að því leyti sem þau kynnu að hafa áhrif á « framferði hans í tengslum við dómsmál » og ítreka verður að samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með málskoti til æðra dóms.

Í áliti nefndarinnar frá 20. apríl 2011 var kvörtun Gullvers sf. vísað frá nefndinni á grundvelli valdsviðs nefndarinnar, eins og það hefur hér verið skýrt, enda lyti hlutverk nefndarinnar hvorki að því að endurskoða úrskurð um hæfi sitt né meta réttmæti ákvörðunar dómara um að víkja ekki sæti af sjálfsdáðum. Þá fellur endurskoðun á því, hvernig dómari mat sönnunargögn í dómsmáli, einnig utan valdsviðs nefndarinnar. Ekki verður séð að neitt hafi komið fram í kvörtuninni frá 28. febrúar 2015, sem gefi ástæðu til endurupptöku á málinu sem lokið var með áliti nefndarinnar frá 20. apríl 2011. Rétt er að minna á, að fjallað var um 5. og 6. gr. laga um meðferð einkamála í því áliti nefndarinnar.

Í kvörtun álitsbeiðanda frá 28. febrúar 2015 kom fram, að misbrestur hefði orðið á því að stefnendum í máli nr. 364/2008 væri tilkynnt um dómsuppsögu, eins og skylda er skv. 3. tl. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ef vörnum hefur verið haldið uppi í máli. Nefndin óskaði sérstaklega eftir sjónarmiðum dómarans um þetta atriði, en ekki hafði áður verið kvartað yfir þessu. Eins og að framan er rakið kom fram í svörum dómarans, að aðilum eða lögmönnum þeirra væri ætíð tilkynnt lögum samkvæmt hvenær dómur gengi í máli. Ýmist væri þetta gert í þinghaldi við dómtöku máls, eða síðar og þá gjarnan með tölvupósti. Skýring þessi er í samræmi við verklag í öðrum dómstólum og verður hún lögð hér til grundvallar. Af þessu tilefni er og rétt að taka fram, að hafi aðili máls falið lögmanni að annast mál fyrir sig, beinast tilkynningar dómara nær undantekningarlaust að lögmanninum náist til hans en ekki aðilanum sjálfum. Eins og mál þetta liggur fyrir nefnd um dómarastörf telur hún ekki forsendur til að finna að því að Gullveri sf. hafi ekki verið tilkynnt sérstaklega um dómsuppsöguna.

 

IV. Niðurstaða

Kvörtun Kristleifs Indriðasonar frá 28. febrúar 2015 gefur ekki tilefni til endurupptöku á máli Gullvers sf. sem lauk með áliti nefndarinnar, dags. 20. apríl 2015.

f.h. nefndar um dómarastörf,

Ragnhildur Helgadóttir

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

Mál nr. 4/2015
Álitsbeiðandi Arngrímur F. Pálmason.
Nefndina skipuðu, Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.


Nefnd um dómarastörf hefur móttekið tölvubréf þitt dagsett 14. maí 2015 þar sem þú kvartar yfir störfum fjölda dómara og annarra embættismanna.

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla. Valdsvið nefndarinnar er skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 en þar segir orðrétt: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hlut sinn með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/1998 er 27. gr. frumvarpsins skýrð og kemur þar glöggt fram að átt er við kvörtun „á hendur dómara vegna framferðis hans í tengslum við dómsmál.“ Þetta þýðir að valdsvið nefndarinnar takmarkast við atriði sem varða háttsemi dómara við meðferð máls fyrir dómi, á hinn bóginn endurskoðar hún ekki ákvarðanir dómara í ágreiningsmálum. Hún hefur því ekkert vald til þess að endurskoða atriði sem varða dómsathöfn, til dæmis hvernig dómari skýrir lög, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli, hvort sem það er í formi dóms, úrskurðar eða ákvörðunar eða samningu dóms. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með áfrýjun eða kæru til Hæstaréttar. Efnislegar ákvarðanir Hæstaréttar verða ekki endurskoðaðar nema heimild fáist til að endurupptaka mál. Loks hefur nefnd um dómarastörf alls ekkert um störf eða háttsemi annarra embættismanna að segja.

Erindi þitt uppfyllir ekki skilyrði fyrir því að nefndin geti tekið það til afgreiðslu. Af þessum sökum er því vísað frá nefndinni.

Reykjavík, 21. maí 2015

f.h. nefndar um dómarastörf
Hjördís Hákonardóttir

Álit nefndar um dómarastörf 28. apríl 2016
í máli nr. 6/2015
Kvörtun Magnúsar Þorsteinssonar

 

I
Málsmeðferð

Með tölvubréfi dagsettu 18. desember 2015 sendi Magnús Þorsteinsson, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, nefnd um dómarastörf erindi sem hann hafði áður sent innanríkisráðuneytinu með bréfi dagsettu 1. nóvember 2015. Þar kvartar hann yfir meintum seinagangi við gjaldþrotaskipameðferð. Var honum gefinn kostur á að skýra erindið nánar og styðja það gögnum. Benedikt Ólafsson hrl. sendi nefndinni, f.h. Magnúsar Þorsteinssonar, bréf dagsett 6. janúar 2016 þar sem hann kvartar yfir störfum Ólafs Ólafssonar dómstjóra Héraðsdóms Norðurlands eystra. Telur hann að dómstjóri hafi ekki fullnægt eftirlitsskyldu með störfum þess skiptastjóra sem hann skipaði til starfa þegar bú álitsbeiðanda var tekið til gjaldþrotaskipta. Þá hafi dómstjóri ekki brugðist réttilega við þeim kvörtunum sem álitsbeiðandi hefur beint til dómstólsins, en í stað þess hafi dómstjórinn tekið til greina allsendis ófullnægjandi og órökstuddar skýringar skiptastjóra.

Með erindinu fylgdu: 1) bréf lögmanns álitsbeiðanda til skiptastjóra dags. 21. október 2014, 2) bréf skiptastjóra til lögmanns álitsbeiðanda dags. 17. nóvember 2014, 3) bréf lögmanns álitsbeiðanda til skiptastjóra dags. 22. janúar 2015, 4) bréf lögmanns álitsbeiðanda dags. 9. febrúar 2015, 5) kvaðning og boðun á dómþing dags. 13. febrúar 2015, 6) endurrit þinghalds í Héraðsdómi Norðurlands eystra dags. 26. febrúar 2015, 7) bréf skiptastjóra til dómstjóra dags. 29. júní 2015, 8) bréf lögmanns álitsbeiðanda til dómstjóra dags. 16. september 2015, 9) bréf skiptastjóra til dómstjóra dags. 17. september 2015, 10) tölvupóstur lögmanns álitsbeiðanda til skiptastjóra dags. 21. september 2015, 11) bréf lögmanns álitsbeiðanda til dómstjóra dags. 9. desember 2015 og 12) bréf úrskurðarnefndar LMFÍ til álitsbeiðanda dags. 11. desember 2015.

Með tölvubréfi nefndarinnar dags. 25. janúar 2016 var óskað eftir frekari upplýsingum frá álitsbeiðanda, meðal annars um afdrif erindis álitsbeiðanda til héraðsdóms dags. 9. desember 2015. Svar barst með bréfi dags. 22. febrúar 2016, þar sem fram kom að því hefði lokið með úrskurði dags. 18. febrúar 2016. Með bréfinu fylgdu: 13) tölvupóstur héraðsdóms til álitsbeiðanda dags. 14. desember 2015, 14) bréf skiptastjóra til Héraðsdóms Norðurlands eystra dags. 20. janúar 2016, 15) bréf lögmanns álitsbeiðanda til Héraðsdóms Norðurlands eystra dags. 27. janúar 2016, 16) krafa þrotamanns lögð fram í Héraðsdómi Norðurlands eystra dags. 18. febrúar 2016, 17) endurrit úr þingbók Héraðsdóms Norðurlands eystra og 18) úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra dags. 18. febrúar 2016.

Með bréfi dagsettu 9. mars 2016 óskaði nefndin eftir umsögn dómstjórans. Svar barst frá Ólafi Ólafssyni dómstjóra með bréfi dags. 17. mars 2016. Með því fylgdi endurrit úr þingbók Héraðsdóms Norðurlands eystra, úrskurður héraðsdóms frá 18. febrúar 2016 og bréf skiptastjóra dags. 22. febrúar 2016.

Í máli þessu skipa nefnd um dómarastörf Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson. Nokkrar tafir hafa orðið á afgreiðslu málsins hjá nefndinni.

 

II
Umkvörtunarefni

 Álitsbeiðandi telur að eftirliti dómstjóra með gjaldþrotaskiptum á búi hans hafi verið verulega ábótavant. Heldur álitsbeiðandi því fram að skipti á búi hans hafi staðið lengur en dæmi finnast um og lengur en eðlilegt geti talist, en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dags. 4. maí 2009. Engin skynsamleg skýring sé á því hvað tefji skiptalok. Tvö ágreiningsmál vegna skiptanna hafi komið til úrlausnar dómstóla og síðara málinu verið lokið í ársbyrjun 2015. Bæði málin hefðu við eðlilegan hraða bússkipta átt að koma til afgreiðslu miklu fyrr. Ítrekað hafi verði beint óskum til skiptastjóra um að ljúka skiptum sem fyrst. Þá hafi ítrekað verið kvartað til dómstjóra Héraðsdóms Norðurlands eystra um störf skiptastjóra, þar sem bent hafi verið á að framgangur skipta hafi dregist úr hömlu og þess krafist að hlutast yrði til um að skiptum yrði lokið án frekari tafa. Þá hafi álitsbeiðandi einnig farið á fund dómstjóra og kvartað undan hve langan tíma gjaldþrotaskiptin hafi tekið.

Dómari hafi eftirlitsskyldu með störfum þess skiptastjóra sem hann hafi skipað til starfa, m.a. eftir reglu 76. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Telur álitsbeiðandi að Ólafur Ólafsson dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands eystra hafi ekki fullnægt þeirri skyldu að hafa eftirlit með störfum skiptastjóra. Þá hafi hann ekki brugðist réttilega við þeim kvörtunum sem álitsbeiðandi hafi beint til dómstólsins. Álitsbeiðandi telur t.d. að dómstjórinn hefði með réttu átt að veita skiptastjóra tiltekinn tímafrest til að ljúka skiptum, en víkja honum ella úr starfi. Í stað þess hafi dómstjórinn tekið til greina allsendis ófullnægjandi og órökstuddar skýringar skiptastjórans, m.a. þá skýringu sem gefin hafi verið tæpum sex árum eftir upphaf skipta að eignakönnun og fullnustugerðir í útlöndum stæðu enn yfir í samráði við stærsta kröfuhafann.

 

III
Forsendur og niðurstaða

Álitsbeiðandi telur að erindum hans til dómstjóra hafi ekki verið svarað, og að dómstjóri hafi ekki fullnægt þeim skyldum sem á honum hvíla um að hafa eftirlit með störfum skiptastjóra. Álitsbeiðandi kvartar einnig undan því að dómstjóri hafi ekki tekið ákvörðun um að setja skiptastjóra frest til þess að ljúka skiptum með bókun í þingbók, en að öðrum kosti víkja honum frá störfum og skipa nýjan skiptastjóra í hans stað.

Bú álitsbeiðanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dags. 4. maí 2009. Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar 29. maí 2009 í máli nr. 262/2009. Í svari dómstjóra Héraðsdóms Norðurlands eystra til nefndarinnar þann 17. mars 2016 kemur fram að sendar hafi verið árlegar fyrirspurnir til skiptastjóra, fyrst árið 2009. Sé það í samræmi við verklagsreglu sem tíðkast hafi hjá dómstólnum. Vísar dómstjórinn þar m.a. til endurrits úr þingbók, þar sem bókað er um bréf skiptastjóra til dómsins dags. 17. janúar 2013, 29. janúar 2014 og 2. febrúar 2015. Í svarinu kemur einnig fram að í svörum skiptastjóra hafi jafnan verið vísað til þess að tafir hafi orðið á meðferð málsins og skiptalokum og þá helst vegna mikils umfangs málsins, en einnig vegna ágreiningsmála sem hafi verið rekin fyrir dómstólnum. Er vísað um þetta til bréfa skiptastjóra frá 17. nóvember 2014 og 29. júní 2015, sem og til dóms Hæstaréttar [...]/2015. Þessu hefur álitsbeiðandi mótmælt, og talið framangreindar skýringar skiptastjóra órökstuddar og með öllu ófullnægjandi.

Fyrir liggur að erindi álitsbeiðanda til dómstjóra dags. 9. febrúar 2015 leiddi til þess að lögmaður álitsbeiðanda og skiptastjóri voru boðaðir til þinghalds þann 26. febrúar 2015. Lauk því með bókun í þingbók þar sem fram kom að ætluð skiptalok yrðu 30. júní 2015, og var jafnframt bókað í þingbók að ekki væru gerðar athugasemdir af hálfu lögmanna. Bréf álitsbeiðanda til dómstjóra 16. september 2015 þar sem kvartað var undan að skiptum væri ekki lokið, var sent skiptastjóra sem svaraði héraðsdómi með bréfi dags. 17. september 2015, þar sem fram komu skýringar skiptastjóra. Þá var erindi álitsbeiðanda sem barst héraðsdómi með bréfi 9. desember 2015 lokið með úrskurði dags. 18. febrúar 2016. Áður höfðu skiptastjóri og lögmaður álitsbeiðanda komið sjónarmiðum sínum á framfæri við héraðsdóm, með bréfum dags. 20. janúar 2016 og 27. janúar 2016.

Valdsvið nefndar um dómarastörf er skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og takmarkast við atriði sem varða háttsemi dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi. Hún endurskoðar ekki dómsathafnir, svo sem efnislega niðurstöðu dóma eða úrskurða. Sú ákvörðun dómara að víkja skiptastjóra úr starfi eða eftir atvikum veita honum frest til að ljúka skiptum með bókun í þingbók teljast til dómsathafna í framangreindum skilningi.

Af því sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að dómstjóri hafi brugðist við og kallað eftir skýringum skiptastjóra í kjölfar athugasemda álitsbeiðanda og lögmanns hans. Það er ekki á verksviði nefndar um dómarastörf að fjalla efnislega um ákvarðanir dómara um skipun skiptastjóra eða um að víkja honum úr starfi. Þá heyra störf skiptastjóra ekki undir nefndina. Samkvæmt framansögðu er kvörtun álitsbeiðanda vísað frá nefndinni.

 

Hjördís Hákonardóttir

Ása Ólafsdóttir

 

 Friðgeir Björnsson

 

 

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2014

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2014

Álit nefndar um dómarastörf 18. ágúst 2014
í máli nr. 1/2014
Kvörtun Guðbjörns Jónssonar

I
Málsmeðferð

Með bréfi dagsettu 20. maí 2014 sendi Guðbjörn Jónsson, Kríuhólum 4, 111 Reykjavík, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, erindi til nefndar um dómarastörf þar sem hann kvartar yfir störfum Ingimundar Einarssonar dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur vegna fyrirkomulags reglulegs dómþings og háttsemi tveggja löglærðra aðstoðarmanna þar, og einnig kvartar hann yfir háttsemi Jóns Finnbjörnssonar héraðsdómara. Tengist erindi hans meðferð máls E-500/2014 í tveimur fyrirtökum á reglulegu dómþingi og fyrstu fyrirtöku eftir úthlutun málsins. Álitsbeiðandi, sem er ólöglærður, þingfesti málið 18. febrúar 2014 og rekur það sjálfur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Með erindinu fylgdu: 1) endurrit tveggja þinghalda í reglulegu dómþingi 18. febrúar og 15. apríl 2014, 2) stefna og birtingarvottorð, 3) aðilaskýrsla stefnanda (álitsbeiðanda), 4) bréf álitsbeiðanda til dómstjóra dagsett 15. apríl 2014, 5) bréf dómstjóra til álitsbeiðanda ódagsett en sent 23. apríl 2014 í tölvupósti, 6) bréf álitsbeiðanda til dómstjóra dagsett 24. apríl 2014, 7) bréf álitsbeiðanda til dómstjóra dagsett 15. maí 2014, 8) greinargerð stefnda og 9) yfirlýsing. Með bréfum dagsettum 4. júní 2014 óskaði nefndin eftir umsögnum dómstjórans og héraðsdómarans. Svar barst frá Ingimundi Einarssyni dómstjóra með bréfi dagsettu 13. júní 2014 ásamt fylgiskjölum: 1) tölvubréf sem fóru á milli álitsbeiðanda og dómstjóra 15. og 16. maí 2014 (áður komin fram með gögnum álitsbeiðanda en varða ekki umkvörtunarefnið), 2) greinargerð Þórhildar Líndal aðstoðarmanns dómara dagsett 10. júní 2014, 3) greinargerð Valborgar Steingrímsdóttur aðstoðarmanns dómara dagsett 10. júní 2014, 4) Leiðbeiningar fyrir regluleg dómþing. Svar barst frá Jóni Finnbjörnssyni héraðsdómara með bréfi dagsettu 18. júní 2014, því fylgdi endurrit dómþings 13. maí 2014. Álitsbeiðanda voru með bréfi dagsettu 26. júní kynnt framangreind gögn og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir. Svar hans barst með bréfi dagsettu 8. júlí 2014. Var það kynnt dómstjóra og dómara, ekki bárust frekari athugasemdir.

Í máli þessu skipa nefnd um dómarastörf Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson. Nokkrar tafir hafa orðið á afgreiðslu málsins vegna sumarleyfa.

 

II
Umkvörtunarefni

Álitsbeiðandi telur hafa verið brotið á sér með ýmsu móti í þremur þinghöldum við meðferð máls E-500/2014. Í fyrsta lagi með því að aðstoðarmaður dómara stýrði þinghaldi annars vegar við þingfestingu málsins 18. febrúar 2014 og hins vegar við fyrirtöku þess á reglulegu dómþingi 15. apríl 2014. Í öðru lagi með því að ekki var fallist á kröfu hans í báðum þessum þinghöldum um að lögmanni, sem kom fram fyrir hönd stefnda, væri gert að framvísa umboði um að honum væri falið að mæta í málinu. Telur hann að þar með hafi verið um útivist af hálfu stefnda að ræða. Í þriðja lagi með því að mótmæli hans við ákvörðun dómara um framangreint hafi ekki verið bókuð. Í fjórða lagi með því að aðstoðarmaður dómara í þinghaldi 15. apríl hafi hótað að láta fjarlægja hann úr þingsal þó að fyrirtöku í máli hans væri ekki lokið og húsvörður verið kallaður til í því skyni. Og loks í fimmta lagi með því að héraðsdómari í fyrsta þinghaldi eftir úthlutun málsins 13. maí 2014 hafi komið fram við hann af yfirlæti og lítilsvirðingu og hótað honum eftir þinghaldið með því að segja honum „að gæta að því sem ég segði í réttarsal“. Telur álitsbeiðandi að með öllu framangreindu hafi dómskerfið sýnt hroka og spillingu og að hann hafi mátt þola að á sér væru brotin lög, stjórnarskrá og mannréttindi. 

 

III
Málavextir og rök

1) Staða aðstoðarmanna dómara.
Álitsbeiðandi heldur því fram að meðferð máls hans á reglulegu dómþingi hafi ekki samrýmst ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvæðinu segir: „Dómari stýrir þinghaldi og gætir þess að það sé háð eftir réttum reglum“. Rök hans eru þau að dómstjóri hafi án lagaheimildar falið löglærðum aðstoðarmanni dómara að stýra þinghaldi við þingfestingu máls þar sem komið geti til „dómaraúrskurðar“ og hafi sú aðstaða komið upp í máli hans 18. febrúar 2014. Þar hafi þurft að taka afstöðu til þess hvort stefndi hafi mætt til þinghaldsins. Álitsbeiðandi telur að greina eigi á milli hugtakanna „dómstörf“ og „dómarastörf“ og að „dómstörf“ verði ekki falin öðrum en embættisdómurum sem „eru sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð“, sbr. 24. gr. dómstólalaga. Hann vísar einnig til þess að aðstoðarmenn dómara séu ráðnir tímabundið, sbr. 1. mgr. 17. gr. dómstólalaga og séu ekki sjálfstæðir í dómstörfum sínum heldur hlíti boðvaldi annarra, en starf dómara njóti stjórnarskrárverndar samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar í þágu réttaröryggis. 

Í svari sínu til nefndarinnar 13. júní 2014 vísar dómstjórinn í Reykjavík til 2. mgr. 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, eins og henni var breytt með lögum nr. 51/2012 um að hann hafi heimild til þess að fela aðstoðarmönnum á sína ábyrgð að stýra þinghöldum á reglulegu dómþingi. Í því felist meðal annars „að aðstoðarmenn setja dómþing og stjórna þeim, taka við stefnum, greinargerðum og öðrum málsgögnum, merkja framlögð skjöl, veita ólöglærðum leiðbeiningar um málsmeðferð, sönnunargögn og ritun greinargerða, og ákveða næsta þinghald ef svo ber undir. Komi til ágreinings milli aðila eða lögmanna í þinghaldi, eða milli aðstoðarmanns og aðila eða lögmanna, og telji aðstoðarmaður sig ekki geta leyst úr þeim ágreiningi, kallar aðstoðarmaður til embættisdómara“. Benti dómstjóri álitsbeiðanda á þessa lagaheimild í svari sínu til hans 23. apríl 2014, en í 2. mgr. 17. gr. dómstólalaga segi: „Dómstjóri getur falið aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar.“ Loks tekur dómstjóri fram í svari sínu til nefndarinnar að hann hafi „nú beint því til aðstoðarmanna að kalla til embættisdómara í tilvikum sem þessum“ þar sem upp komi ágreiningur við aðila um meðferð máls. 

2) Um umboð lögmanns sem mætir í dómi fyrir stefnda.
Álitsbeiðandi telur að stefndi hafi ekki sótt þing við þingfestingu málsins og því hafi átt að fara með málið samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Orðalag ákvæðisins „ef stefndi sækir ekki þing“ þýði að stefnda beri sjálfum að mæta til þings og geti þá tilkynnt dómara hverjum hann feli umboð til þess að reka málið fyrir sína hönd. Ef undantekningar væru frá þessari reglu telur hann að þá myndi t.d. standa í lögunum „stefndi eða fulltrúi hans“. Álitsbeiðandi telur að brotið hafi verið á honum þegar þess hafi ekki verið gætt að lögmaðurinn sem kvaðst mæta fyrir stefnda hefði til þess lögfullt umboð og þar sem hann hafi ekki framvísað því hafi átt að fara með málið eins og um væri að ræða útivist af hálfu stefnda, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála. Einnig með því að aðstoðarmaður dómara hafnaði þessum rökum og færði til bókar að lögmaður sem var á staðnum væri mættur fyrir stefnda án þess að hann framvísaði umboði. 

Hinn 23. apríl 2014 svarar dómstjóri þessari umkvörtun álitsbeiðanda þannig: „Af þingbók verður séð að Karl F. Jóhannsson hdl. hefur verið skráður sem lögmaður stefnda, Íbúðalánasjóðs. Stefndi hefur samkvæmt því falið þeim lögmanni að gæta hagsmuna sinna/stofnunarinnar í þessu máli, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Í 1. mgr. 21. gr. sömu laga segir síðan: ‘Nú sækir lögmaður eða fulltrúi hans dómþing fyrir aðila, og skal hann þá talinn hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans nema það gagnstæða sé sannað’. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að lögmaður sem mætir á dómþingi fyrir aðila er talinn hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans. Þar sem ekkert bendir til þess að hið gagnstæða kunni að vera fyrir hendi, þ.e. að Karl F. Jóhannsson hdl. hafi ekki slíkt umboð, ber þér að færa sönnur á slíkt. Það er hins vegar ekki dómarans, eða aðstoðarmannsins, að kalla eftir umboðinu, gefi ekkert tilefni til þess.“ Síðan segir dómstjóri: „Í þingbók er skráð að við þingfestingu málsins hafi Tryggvi Viggósson hdl. sótt þing í umrætt sinn fyrir Karl F. Jóhannsson hdl. Tryggvi Viggósson hdl. sækir þing fyrir fjölda lögmanna á hverju reglulegu þingi. Heimild til þessa er að finna í 2. málslið 4. mgr. 21. gr. lögmannalaga, þar sem segir eftirfarandi: ‘Lögmaður getur þó falið fulltrúa sínum eða öðrum lögmanni að sækja fyrir sig dómþing, enda sé það ekki háð til aðalmeðferðar máls eða munnlegrar sönnunarfærslu.’ Samkvæmt þessu hefur Karl F. Jóhannsson hdl. ótvíræða heimild til að fela Tryggva Viggóssyni hdl. að sækja fyrir sig þing í umrætt sinn. Það er því rétt hjá aðstoðarmanni, eins og bókað hefur verið í þingbók, að framlagning umboðs sé ekki nauðsynlegt.“ 

Í svari sínu til nefndarinnar 13. júní 2014 vísar dómstjórinn til framangreindra skýringa. Álitsbeiðandi er í athugasemdum sínum 8. júlí 2014 ekki sáttur við þessa skýringu dómstjórans og telur að hann setji „bæði lög nr. 91/1991, um meðferð einkamála og stjórnarskrána sjálfa til hliðar, til að þjónusta lögmenn.“ Hans skilningur er sá að við meðferð dómsmáls beri að fara eftir lögum um meðferð einkamála en ekki lögum um lögmenn. Þá beri lögmanni að afla málflutningsumboðs og inna sjálfur af hendi fyrir dómi þau störf sem honum eru falin nema umbjóðandi hans samþykki annað. Loks telur hann að dómstjórinn snúi sönnunarbyrði við með því að segja að lögmaður sá sem mætir sé talinn hafa umboð nema annað sé sannað. Telur hann að það sé dómara en ekki gagnaðilans að gæta þess að lögmaður hafi lögmætt umboð. Telur hann framangreinda lögskýringu dómstjórans sýna að hann hefji á „stall starfslög lögmanna“ og víki „öllum lögskipuðum og venjubundnum réttarfarsreglum til hliðar, til að þjónusta lögmenn.“ Loks telur hann að dómari sem sleppir lögmanni við að sanna umboð sitt til að fara með málið þrátt fyrir kröfu gagnaðila þar um og knýr þannig mál áfram geti ekki talist hlutlaus og óháður og hafi brotið gegn 61. gr. stjórnarskrár um að dómendur skuli „í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.“ Í greindum athugasemdum furðar álitsbeiðandi sig ennfremur á að nafn stefnda, forstjóra Íbúðalánasjóðs, sem hann höfði málið gegn, hafi ekki verið getið í bókuninni heldur nafn lögmanns sjóðsins og það hafi ekki verið nefnt við hann. Þetta atriði nefndi álitsbeiðandi ekki í erindi sínu til nefndarinnar en það kemur fram í bréfi hans til dómstjórans 15. apríl 2014 að hinn stefndi forstjóri Íbúðalánasjóðs hafi ekki verið mættur við þingfestingu málsins. Þessu atriði svarar dómstjóri svo í tölvubréfi sínu 23. apríl 2014: „Rétt er hjá þér að samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, kemur fyrirsvarsmaður ríkisstofnunar fram fyrir hönd stofnunarinnar. Í þessu tilviki mun Sigurður Erlingsson vera fyrirsvarsmaður Íbúðalánasjóðs. Þetta merkir þó ekki að Sigurður þurfi að mæta í eigin persónu til þinghaldsins, heldur það eitt að stefna skuli honum sem fyrirsvarsmanni, enda hafi ‘hann ákvörðunarvald um þá hagsmuni aðilans sem sakarefnið varðar’, eins og segir í tilvitnuðu ákvæði.“

3) Mótmæli ekki bókuð
Álitsbeiðandi kvartar yfir því að aðstoðarmaður dómara hafi við þingfestingu málsins 18. febrúar 2014 brotið á sér með því að neita að færa til bókar andmæli hans við því „að lögmaður, sem virðist hafa fast aðsetur í þingsal héraðsdóms, væri skráður sem mættur fyrir hönd stefnda, þó hann gæti engar staðfestingar lagt fram um slíkt umboð.“ Vísar álitsbeiðandi um þetta til 2. mgr. 11. gr. laga um meðferð einkamála þar sem segir: „einnig er rétt að bóka um yfirlýsingar af hendi aðila sem hafa ekki komið fram skriflega.“ Hafi aðstoðarmaðurinn réttlætt höfnun sína með vísan til lögmannalaga um heimild lögmannsins til þess að mæta, sbr. liður 2). Álitsbeiðanda var einnig neitað um sambærilega bókun við næstu fyrirtöku málsins á reglulegu dómþingi 15. apríl 2014 og er því atviki lýst í næsta þætti. Í greinargerð aðstoðarmanns, Þórhildar Líndal, sem stjórnaði dómþingi 18. febrúar 2014, er því lýst að hún hafi útskýrt fyrir álitsbeiðanda að lögmaðurinn þyrfti ekki að framvísa umboði og hafi þetta verið bókað, þó að láðst hafi að vísa til 21. gr. laga um lögmenn auk 2. gr. þeirra laga. Þegar álitsbeiðandi hafi mótmælt þessu og vísað til þess að enga slíka heimild væri að finna í lögum um meðferð einkamála hafi honum verið gerð grein fyrir því að um þetta færi eftir lögum um lögmenn. Þegar hann hafi ítrekað kröfu sína um að hinn mætti lögmaður legði fram umboð og krafist bókunar um þá ákvörðun aðstoðarmanns að hafna því hafi hún synjað bókunar að „fordæmi dómara sem hafði áður synjað svipaðri beiðni á reglulegu dómþingi á þeim grundvelli að slík bókun væri þarflaus.“ Einnig kemur fram í greinargerð aðstoðarmanns að álitsbeiðandi og lögmaðurinn sem mætti í málinu hafi komið „sér saman um frest handa stefnda til að skila greinargerð í málinu til 15. apríl 2014“ og að álitsbeiðandi hafi haldið „áfram að krefjast þess að lögmaður stefnda legði fram umboðið“ eftir að honum var tjáð að fyrirtöku í máli hans væri lokið. Þessum tveimur síðastgreindu atriðum mótmælir álitsbeiðandi í athugasemdum sínum frá 8. júlí 2014. Fullyrðir hann að aðstoðarmaðurinn fari með ósannindi þar sem hann hafi „alls engin samskipi“ átt við hinn mætta lögmann og einnig um það að hann „hafi sýnt frekju og yfirgang“ í réttinum. 

4) Álitsbeiðanda hafi verið vísað úr þingsal
Álitsbeiðandi kvartar yfir því að í þinghaldi 15. apríl 2014 hafi aðstoðarmaður dómara, sem stýrði því þinghaldi, einnig ákveðið að mættur lögmaður þyrfti ekki að framvísa umboði og þar með tekið „úrskurðandi ákvarðanir“ og hafi neitað honum „um bókun athugasemda í þingbók og við kurteislega ítrekun slíkrar óskar“ vísað honum úr þingsal „þó fyrirtöku væri ekki lokið á máli mínu“. Hafi aðstoðarmaðurinn hringt á húsvörð og þegar hann kom beðið hann um „að fjarlægja þennan mann úr þingsal.“ Ekki hafi þó komið til þess og hafi þeir gengið saman út eftir að álitsbeiðandi hafi fengið afhent endurrit af þinghaldinu. Í greinargerð sinni 10. júní 2014 lýsir aðstoðarmaður dómara, Valborg Steingrímsdóttir, því að hún hafi útskýrt fyrir álitsbeiðanda að það væri óþarfi að lögmaðurinn legði fram umboð þar sem hann teldist hafa það lögum samkvæmt og að hún hefði hafnað því að bóka mótmæli hans þar sem hún hefði séð að þau hefðu verið bókuð 18. febrúar 2014 þegar málið var þingfest. Útskýrt hafi verið fyrir álitsbeiðanda að málið færi nú til fyrirtöku hjá dómara og teknar hafi verið niður upplýsingar svo hægt yrði að boða hann til næsta þinghalds, síðan hafi hún sagt að fyrirtöku málsins væri lokið en álitsbeiðandi hafi enn krafist bókunar. „Ég ítrekaði að fyrirtöku málsins væri lokið og að ég vildi að hann færi fram. Hann sagðist ekki ætla að fara og þá spurði ég hvort ég þyrfti að kalla til dómvörð til þess að fylgja honum út og hann svarði því játandi. Ég hringdi þá í afgreiðsluna og bað þær að senda dómvörð inn til þess að fylgja manni út.“ Dómvörðurinn hafi komið inn og hafi hún beðið hann að fylgja álitsbeiðanda út, eftir að dómritari hafi prentað út endurrit og afhent honum hafi þeir gengið saman út. Í athugasemdum sínum 8. júlí 2014 segir álitsbeiðandi um þessa greinargerð að hann sjálfur hafi lýst á réttan máta því sem gerðist og telur að í greinargerð aðstoðarmannsins felist „ósannindi og beinlínis mannorðsspillandi ummæli“ um framkomu hans í réttarsal. Hafi hann haft með sér vitni sem hafi skráð það sem fram fór. Álitsbeiðandi lýkur athugasemd sinni um þennan þátt með því að segja: „Er það ekki dálítið lýsandi dæmi um réttlætisvitund þeirra sem setjast í dómarasæti í höfuðdómi héraðsdómstigs landsins, að málshefjandi skuli jafnvel þurfa að verja mannorð sitt og æru vegna ásetnings fólks sem sat í dómarasæti að skrökva upp á málshefjanda.“ Álitsbeiðandi tilgreinir ekki nánar hvaða ummæli í greinargerð aðstoðarmannsins hann telur hafa verið meiðandi, né hvað sé þar rangt með farið, en þar segir aðstoðarmaðurinn auk þess sem að framan er rakið að álitsbeiðandi hafi ítrekað gripið fram í fyrir sér „stóð yfir mér og greip í borðið og sagði mér að hann krefðist þess að fá það bókað“ að hann teldi lögmanninn ekki hafa umboð, „og að hann krefðist framlagningar skriflegs umboðs“, einnig að eftir að hún hafi ítrekað að fyrirtöku málsins væri lokið og að hann mætti fara hafi hann ekki hreyft sig „heldur stóð enn yfir mér og krafðist þess að fá bókun“, hann „sagðist ekki ætla að fara og þá spurði ég hvort ég þyrfti að kalla til dómvörð til þess að fylgja honum út og hann svarði því játandi.“

5) Héraðsdómari hafi sýnt álitsbeiðanda yfirlæti og lítilsvirðingu og hótað honum
Loks lýtur kvörtun álitsbeiðanda að því að 13. maí 2014 við fyrstu fyrirtöku málsins eftir úthlutun þess hafi héraðsdómarinn Jón Finnbjörnsson sýnt honum yfirlæti og lítilsvirðingu á ýmsan hátt. Hvorki dómarinn né lögmaðurinn hafi kynnt sig fyrir honum. Dómarinn hafi ráðfært sig við lögmann stefnda um dagsetningu næsta þinghalds og síðan tilkynnt álitsbeiðanda hana og slitið þingi. Upplifði álitsbeiðandi sig vera einn á móti dómara og lögmanni og að hann væri ekki í hlutlausum réttarsal. Álitsbeiðandi segir sér hafa komið á óvart að ekki fór fram málflutningur um frávísunarkröfu, sem var aðalkrafa stefnda, í þessu þinghaldi og þar sem þessa hafði ekki verið getið í boðun til þinghalds. Hann hafi því spurt dómarann eftir þinghaldið „hvort þetta væri einhver sérstök aðferð til að auka kostnað við málsmeðferðina.“ hafi dómarinn þá sagt við hann „með miklum þjósti ‘Gættu að hvað þú segir í réttarsal’“. Álitsbeiðandi gagnrýnir jafnframt að ekki hafi verið þingvottur viðstaddur, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um meðferð einkamála, en þar segir í 1. ml.: „Þegar einn maður situr í dómi skal að jafnaði vera einn þingvottur.“ Dregur hann þá ályktun að þinghaldið hafi af þessum sökum verið ólöglegt. Þá hafi hann ekki fengið endurrit þingbókar, og telur að engin þingbók hafi verið rituð. 

Í svarbréfi Jóns Finnbjörnssonar héraðsdómara til nefndarinnar dagsettu 18. júní 2014 kveðst hann hafa fengið máli álitsbeiðanda úthlutað 4. maí 2014 og hafi boðað til fyrirtöku í því 13. sama mánaðar. Í þinghaldið hafi mætt álitsbeiðandi og Karl Finsen hdl. fyrir stefnda Íbúðalánasjóð. Kveðst hann hafa gert tillögu um að málið yrði munnlega flutt um frávísunarkröfu stefnda á tilteknum degi og hafi það verið ákveðið eftir stuttar samræður, að því búnu hafi dómþingi verið slitið. Síðan segir: „[U]m framkvæmd þinghaldsins get ég sagt að ég taldi óþarfa að menn kynntu sig þar sem ég taldi víst að allir vissu deili á þeim sem voru mættir, en nöfn þeirra höfðu verið skráð í dagskrá dómsins. Ég neita því að ég hafi sýnt stefnanda lítilsvirðingu eða haft í hótunum við hann. Komið var fram bæði við stefnanda og lögmann stefnda af fullri virðingu og kurteisi.“ Með bréfinu fylgdi umbeðið endurrit þinghaldsins.

 

IV
Forsendur

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla, og er fjallað um erindi álitsbeiðanda á grundvelli 27. gr. þeirra laga. Valdsvið nefndarinnar er þannig skilgreint í fyrri málslið 1. mgr. þess ákvæðis: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að dómstólalögum er 27. gr. frumvarpsins skýrð nánar og kemur þar glöggt fram að einkum sé átt við að aðili dómsmáls, eða eftir atvikum annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta vegna framferðis dómara í tengslum við dómsmál, geti kvartað til nefndarinnar telji viðkomandi brotið á rétti sínum vegna háttsemi dómara við meðferð máls eða dómarastörfin. Á hinn bóginn er það ekki á verksviði nefndar um dómarastörf að endurskoða dómsathafnir, þ.e. atriði í dómi, úrskurði eða ákvörðun dómara, sem sá sem kvartar vill ekki sætta sig við, hvort sem um er að ræða túlkun á lögum, greiningu atvika eða niðurstöðu. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. ákvæðisins verður sá sem kvartar að lýsa atvikum og rökstyðja kvörtun sína. Þrátt fyrir að það sé ekki hlutverk nefndar um dómarastörf að gefa almenn lögfræðileg álit eða setja fram lögskýringar verður ekki tekin afstaða til umkvörtunarefna álitsbeiðanda, að svo miklu leyti sem þau falla undir valdsvið nefndarinnar, með öðru móti en að fjalla að nokkru um þau almennu lagarök sem álitsbeiðandi setur fram. 

1) Um stöðu aðstoðarmanna dómara.
Álitsbeiðandi telur að á sér hafi verið brotið með því að dómstjóri fól aðstoðarmönnum dómara að stjórna reglulegu dómþingi 18. febrúar, þegar mál hans var þingfest, og 15. apríl 2014 þegar málið var tekið fyrir annað sinn á reglulegu dómþingi. Dómþing þar sem ný mál eru þingfest á héraðsdómstigi og farið með þau þar til stefndur skilar greinargerð eru í daglegu tali nefnd „regluleg dómþing“. Löggjafinn hefur ákveðið að dómstjóra sé heimilt að fela löglærðum aðstoðarmönnum dómara að fara með dómstörf að takmörkuðu leyti á sína ábyrgð. Gildir þar um 2. mgr. 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla eins og henni var breytt með lögum nr. 15/1998. Í athugasemdum með breytingalögunum segir að lagt sé til að starfsheimildir aðstoðarmanna verði færðar til þess horfs sem áður gilti um dómarafulltrúa. Á sínum tíma fóru dómarafulltrúar með flest dómstörf í eigin nafni en á ábyrgð yfirmanns viðkomandi dómstóls. Aðstoðarmanni er samkvæmt núgildandi lögum ekki heimilt að fara með einkamál ef vörnum er haldið uppi. Vörnum er haldið uppi frá þeim tíma er stefndi skilar greinargerð og fer mál þá út af reglulegu dómþingi og er úthlutað til héraðsdómara. Almenn meðferð máls á reglulegu dómþingi felur í sér móttöku skjala og ákvörðun fresta. Aðstoðarmaður vinnur verk þessi á ábyrgð dómstjóra og lýtur boðvaldi hans. Við Héraðsdóm Reykjavíkur hefur dómstjóri tekið saman leiðbeiningar fyrir regluleg dómþing sem aðstoðarmönnum ber að fara eftir. Þegar löggjafinn takmarkar verksvið aðstoðarmanna virðist hann einkum hafa haft í huga hina eiginlegu málsmeðferð eftir að máli hefur verið úthlutað. Almennt reynir ekki á ágreiningsefni á reglulegu dómþingi, en um það má deila hvernig með eigi að fara ef ágreiningur kemur upp þar. Í svarbréfi sínu til nefndarinnar 13. júní 2014 lýsir dómstjórinn þeim starfsháttum að hann hafi gefið aðstoðarmönnum fyrirmæli um það að kalla til aðstoðar embættisdómara komi upp ágreiningur á reglulegu dómþingi sem aðstoðarmaðurinn telur sig ekki geta leyst úr, svo sem ef ágreiningur er um frest eða láti aðili ekki að stjórn. Kveðst hann í tilefni þessa máls nú hafa beint því til aðstoðarmanna að kalla til embættisdómara ef til ágreinings kemur eins og þess sem álitsbeiðandi kvartar yfir. Telur nefnd um dómarastörf það vera til bóta að tryggja að embættisdómarar fjalli um öll ágreiningsatriði sem upp koma við meðferð máls, einnig á reglulegu dómþingi, enda mikilvægt að stuðla að trausti ólöglærðra aðila á dómstólum með því að forðast tilvik sem valdið geta misskilningi eða tortryggni. Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur var í fullum rétti samkvæmt lögum að fela aðstoðarmönnum sínum að stýra reglulegu dómþingi í febrúar og apríl 2014 þar sem mál álitsbeiðanda var tekið fyrir. 

2) Um umboð lögmanna.
Um meðferð einkamála fyrir dómi gilda lög nr. 91/1991, það þýðir þó ekki að þau víki til hliðar öllum öðrum lagaákvæðum sem kunna að skipta máli við meðferð máls. Ef lög stangast á fer það eftir almennum lögskýringarreglum hvor standi framar hinum. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála verður aðili sem stefnt hefur verið fyrir dóm að mæta þegar mál er þingfest vilji hann taka til varna. Meginreglan er að aðili verði að mæta sjálfur. Þó er sú mikilvæga undantekning frá þessu að aðili getur falið lögmanni, sem til þess hefur öðlast sérstök réttindi, að mæta fyrir sig í dómi og fara með mál sitt þar. Um þetta gilda lög nr. 77/1998 um lögmenn. Á reglulegu dómþingi eru mál þingfest með því að leggja fram stefnu og skrá aðila máls samkvæmt henni, merkja og leggja fram önnur gögn, skrá hvort og hverjir eru mættir og ákveða fresti þar til stefndi skilar greinargerð, en þá fer málið út af reglulegu dómþingi og er úthlutað embættisdómara til meðferðar. Í áratugi hefur sá háttur verið hafður á í Héraðsdómi Reykjavíkur, áður Borgardómi Reykjavíkur, að tilteknir lögfræðingar taka að sér að mæta á reglulegu dómþingi fyrir þá lögmenn sem taka að sér mál fyrir þann sem stefnt er. Þessi starfsháttur er í fullu samræmi við lög. Í 1. mgr. 21. gr. laga um lögmenn segir skýrt að mæti lögmaður fyrir aðila í rétti sé hann talinn hafa umboð til þess. Með öðrum orðum þarf hann ekki að framvísa skriflegu umboði til þess að sanna það að hann sé réttilega mættur fyrir hönd aðilans. Lögmanni sem tekið hefur að sér mál fyrir skjólstæðing, er skylt að sinna þeim störfum sjálfur, sbr. 4. mgr. sama lagaákvæðis, en þó er frá þessu sú undantekning að lögmaður getur falið fulltrúa sínum eða öðrum lögmanni að sækja fyrir sig dómþing, enda sé það ekki háð til aðalmeðferðar máls eða munnlegrar sönnunarfærslu. Þannig getur lögmaður máls falið öðrum lögmanni að mæta fyrir sig á reglulegu dómþingi og gildir þá sama regla að sá lögmaður sem mætir er samkvæmt framangreindu lagaákvæði talinn hafa umboð til þess. Umboð það sem aðili máls veitir lögmanni er almennt munnlegt, með þeirri undantekningu að lögmaður getur ekki tekið á móti greiðslu fyrir skjólstæðing sinn svo bindandi sé nema að hann hafi til þess sannanlegt umboð, sbr. 3. mgr. sama ákvæðis. Lögmönnum er hins vegar frjálst að gera skriflegan samning við skjólstæðing sinn vegna málsmeðferðar og hefur það færst í vöxt. Ekkert hefur komið fram í máli álitsbeiðanda sem bendir til þess að rangt sé að stefndi Íbúðalánasjóður, eða fyrirsvarsmaður hans, hafi falið lögmanninum Karli F. Jóhannessyni héraðsdómslögmanni að fara með mál það sem álitbeiðandi hefur höfðað og gat hann lögum samkvæmt falið Tryggva Viggóssyni héraðsdómslögmanni að mæta fyrir sig á reglulegu dómþingi án þess að gefa út sérstakt umboð. Nefndin gerir ekki athugasemd við leiðbeiningar löglærðra aðstoðarmanna til álitsbeiðanda um að mæting lögmanns á reglulegu dómþingi 18. febrúar og 15. apríl 2014 fyrir hönd stefnda í máli álitsbeiðanda væri í samræmi við lög.

3) Um bókanir á reglulegu dómþingi.
Í II. kafla laga um meðferð einkamála er fjallað um þinghöld, þingbækur o.fl. og eru nánari reglur um það hvað færa skuli í þingbók í 11. gr. laga um meðferð einkamála. Samkvæmt því skal bóka ákvarðanir dómara og var það gert í máli álitsbeiðanda 18. febrúar 2014, bókunin var svohljóðandi: „Stefnandi krefst þess að lögmaður stefnda leggi fram umboð um heimild hans til að mæta fyrir lögmann Íbúðalánasjóðs. Dómari hafnar því að framlagning slíks umboðs sé nauðsynleg“. Ekki er fjallað sérstaklega um bókun mótmæla, en í 2. mgr. 11. gr. segir: „Einnig er rétt að bóka um yfirlýsingar af hendi aðila sem hafa ekki komið fram skriflega. Ef önnur ákvæði þessara laga mæla ekki fyrir um að bókað verði um tiltekin atriði ákveður dómari að öðru leyti hvað verði skráð í þingbók.“ Það er því á valdi dómara hverju sinni að meta hvað skuli bókað og getur hann hafnað bókun sé hún augljóslega án tilgangs eða endurtekning á því sem áður hefur komið fram. Álitsbeiðandi krafðist þess að bókuð væru mótmæli hans við réttmæti framangreindrar ákvörðunar aðstoðarmanns dómara, en því var hafnað. Byggðist krafa hans á því að hann vefengdi leiðbeiningar aðstoðarmannsins um að lögmaðurinn þyrfti ekki að framvísa umboði þar sem hann taldi að lög um lögmenn gætu ekki átt við heldur einungis ákvæði laga um meðferð einkamála og því væri um útivist af hálfu stefnda að ræða. Nefnd um dómarastörf vill benda á að þegar ágreiningur sem þessi kemur upp í þinghaldi og dómari, eða í þessu tilviki aðstoðarmaður dómara, metur hvort bóka eigi um hann þá skiptir máli hvort í hlut á lögmaður eða ólöglærður sem fer sjálfur með mál sitt. Lögmaður á að þekkja lögin og er því þarflaust að bóka kröfur lögmanns sem augljóslega samrýmast ekki lögum. Önnur sjónarmið gilda um það hvað metið er þarflaust þegar ólöglærður aðili máls á í hlut. Það er mikilvægt að almenningur beri traust til dómskerfisins og til þess að svo megi vera þarf meðal annars að sýna þolinmæði, leiðbeina og leitast við að koma til móts við kröfur ólöglærðs aðila innan skynsamlegra marka. Ólöglærðum aðila ber hins vegar að hlíta stjórn dómara, eða eftir atvikum aðstoðarmanns dómara í þinghaldi á sama hátt og lögmönnum, en það er hlutverk dómara að stýra þinghaldi og gæta þess að það sé háð eftir réttum reglum, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um meðferð einkamála. Aðstoðarmaður dómara við þingfestingu máls álitsbeiðanda bókaði kröfu hans um að lögmaðurinn legði fram umboð og að þeirri kröfu væri hafnað, en eins og aðstoðarmaðurinn bendir sjálfur á í greinargerð sinni 10. júní 2014 hefði átt að vísa þar um til 21. gr. laga um lögmenn. Að mati nefndarinnar hefðu það einnig verið góðir starfshættir í ljósi framangreindra sjónarmiða að færa til bókar mótmæli álitsbeiðanda við þessari ákvörðun þar sem hann krafðist þess. Engu að síður er ekki hægt að taka undir það með álitsbeiðanda að á rétti hans hafi verið brotið með því að hafna því enda hafði krafa hans og ákvörðun aðstoðarmanns dómara þar að lútandi verið bókuð og bókunin hafði enga réttarfarslega þýðingu. Í þinghaldi 15. apríl 2014 endurtók álitsbeiðandi mótmæli sín við því að mættur lögmaður legði ekki fram umboð, en aðstoðarmaður dómara sem þá stýrði þinghaldinu neitaði honum um bókun þar um og gefur þá skýringu að um atriðið hafi verið bókað við þingfestingu málsins. Þrátt fyrir að álitsbeiðanda hafði verið leiðbeint um að þessi krafa hans hefði ekki lagastoð var hér um sjálfstætt þinghald að ræða og telur nefndin að það hefðu verið góðir starfshættir að bóka mótmælin og ákvörðun aðstoðarmanns dómara um að hafna kröfunni þar sem um ólöglærðan aðila var að ræða. 

4) Um brottvísun úr dómsal.
Í 1. mgr. 7. gr. laga um meðferð einkamála segir: „Dómari stýrir þinghaldi og gætir þess að það sé háð eftir réttum reglum. Hann ákveður í hverri röð mál verða tekin fyrir. Enginn má taka til máls nema með leyfi dómara og getur hann tekið orðið af manni sem heldur sig ekki við efni máls.“ Gildir þetta bæði um lögmenn og ólöglærða sem fara sjálfir með mál sitt. Þegar aðstoðarmaður dómara stýrir þinghaldi gildir ákvæði þetta um hann á sama hátt og um embættisdómara. Þinghöld eru opin á reglulegum dómþingum og eru mál ólöglærðra að jafnaði tekin fyrir í upphafi þeirra. Jafnvel þótt nefndin telji að aðstoðarmaðurinn hefði átt að bóka framkomin mótmæli bar álitsbeiðanda að hlíta ákvörðun hans og stjórn og virða þá tilkynningu að fyrirtöku málsins væri lokið. Gat fyrirtöku verið lokið þó að ekki væri búið að afhenda endurrit bókunar. Í 3. mgr. 9. gr. laga um meðferð einkamála segir: „Dómara er rétt að vísa manni úr þinghaldi ef návist hans horfir til truflunar þingfriði eða framkoma hans er óviðeigandi í orði eða verki. Ef um aðila er að ræða, fyrirsvarsmann hans eða málflytjanda skal dómari þó að jafnaði áminna hann og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en af brottvísun verður. Ákvörðun dómara um að víkja manni úr þinghaldi má framfylgja með lögregluvaldi ef með þarf. Bókað skal um brottvikningu manns ef aðili, fyrirsvarsmaður hans eða málflytjandi á í hlut.“ Telja verður að stjórn aðstoðarmanns hafi ekki verið í fullu samræmi við þetta ákvæði. Þó að fyrirtöku málsins væri lokið var þinghaldi reglulegs dómþings ekki slitið og þar sem um opið þinghald var að ræða mátti álitsbeiðandi vera áfram í þingsalnum, að því gefnu að hann truflaði ekki þingstörfin. Hefði aðstoðarmaður því réttilega átt að vísa álitsbeiðanda til sætis í dómsalnum á með hann beið eftir endurriti og að gefa honum kost á að hlíta því að víkja frá dómaraborðinu og til sætis áður en dómvörður væri kallaður til. Þar sem dómvörður var kallaður til í því skyni að vísa honum úr dómsal hefði átt að bóka um það í þingbók. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins um stjórn þinghaldsins að þessu leyti er annað óhjákvæmilegt en að átelja hana.

5) Um háttsemi héraðsdómara.
Loks lýtur kvörtun álitsbeiðanda að því að Jón Finnbjörnsson héraðsdómari hafi sýnt honum „yfirlæti og lítilsvirðingu“ þegar málið var tekið fyrir í fyrsta sinn eftir úthlutun þess 13. maí 2014. Þetta hafi falist í því að dómari hafi ekki kynnt sig og lögmann þann sem mættur var fyrir stefnda, hafi ekki spurt hann hvort sá tími sem ákveðinn var fyrir málflutning um frávísunarkröfu stefnda hentaði honum og hafi hótað honum eftir að þinghaldi lauk með því að segja að hann skyldi gæta að því sem hann segði í réttarsal. Þá telur álitsbeiðandi að þinghald þetta hafi verið óþarft og einungis þjónað þeim tilgangi að afla lögmanni gagnaðila tekna þar sem ekkert hafi átt sér stað annað en að ákveða tíma fyrir málflutning um frávísunarkröfuna í stað þess að hann færi fram í þessu þinghaldi eins og álitsbeiðandi hafi átt von á, og loks að þinghaldið hafi verið ólöglegt þar sem þingvottur hafi ekki verið viðstaddur. Við meðferð einkamála er almennt sá háttur hafður á að málið er tekið fyrir í sérstöku þinghaldi áður en ákvörðun er tekin um málflutning almennt eða um einstakar kröfur. Dómari þarf til dæmis að fá staðfest að aðilinn ætli að halda við frávísunarkröfu, hafi hún verið gerð, að öll gögn sem kröfu varða séu komin fram, og vera þess fullviss að aðilum sé ljóst hvað fram eigi að fara á næsta þingi. Almennt tíðkast ekki við íslenska dómstóla að dómari og aðilar kynni sig, það teldist þó til góðra starfshátta, a.m.k. þegar ólöglærðir aðilar reka mál sín sjálfir. Að því er varðar viðveru þingvotts segir í 2. mgr. 7. gr. laga um meðferð einkamála: „Þegar einn maður situr í dómi skal að jafnaði vera einn þingvottur.“ Vakin er athygli á orðalaginu „að jafnaði“. Hefur þetta verið skýrt svo að ekki sé nauðsynlegt í öllum tilvikum að þingvottur sé viðstaddur og metur dómari það. Dómritarar eru venjulega þingvottar og rita þingbók. Það er ekki svo vel búið að íslenskum dómstólum að hver dómari hafi einkaritara heldur þarf ritari að sinna nokkrum dómurum. Þegar aðeins er um einfalda fyrirtöku máls að ræða til dæmis til framlagningar skjala eða ákvörðun um næsta þinghald er dómari því gjarnan einn og færir sjálfur þingbók. Ekki hefur verið talin ástæða til þess að gagnrýna þetta fyrirkomulag, enda í samræmi við lagaákvæðið. Að því er varðar þau ummæli sem álitsbeiðandi gagnrýnir þykja þau í sjálfu sér ekki þurfa að vera ámælisverð. Í svarbréfi sínu til nefndarinnar kveðst dómarinn hafa komið fram við báða aðila „af fullri virðingu og kurteisi“ í þinghaldinu og gerir álitsbeiðandi ekki sérstaka athugasemd við svar hans. Nefndin hefur ekki forsendur til þess að meta þau orðaskipti sem átt hafa sér stað. Almennt er á hinn bóginn rétt að ítreka nauðsyn þess að dómarar hafi í huga að ólöglærðum aðilum eru aðstæður og reglur í dómsal framandi. Veltur traust almennings til dómstólanna að miklu leyti á því að ólöglærðir finni að þeir njóti þar jafnræðis.

 

V
Niðurstaða

Með vísan til þeirra raka sem sett eru fram í IV. kafla álits þessa er það niðurstaða nefndar um dómarastörf að kvörtun Guðbjörns Jónssonar gefi ekki tilefni til þeirra aðgerða sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Að því er varðar bókun í þinghaldi 15. apríl 2014 er um að ræða ákvörðun sem fellur undir dómsathöfn og er því ekki á valdsviði nefndarinnar. Þó að fundið sé að stjórn þinghalds í þætti IV 4) verður ekki ályktað að gert hafi verið á hlut álitsbeiðanda, eins og atvikum var háttað. Tekur hann enda sjálfur fram að ekki hafi komið til þess að hann væri færður úr dómsal. Nefndin beinir engu að síður þeim tilmælum til dómstjóra, héraðsdómara og aðstoðarmanna dómara að sérstakt tillit sé tekið til þess þegar ólöglöglærðir reka mál fyrir dómstólum að góðir dómarahættir og trúverðugleiki dómstólanna krefjast sérstakrar nærgætni við meðferð ágreiningsatriða, bókana og stjórn þinghalda.

 

 

Hjördís Hákonardóttir

 

Ása Ólafsdóttir

 

Friðgeir Björnsson

Álit nefndar um dómarastörf 3. nóvember 2014
í máli nr. 2/2014
Kvörtun Hildar Halldóru Karlsdóttur

I
Málsmeðferð

Með bréfi dagsettu 1. júlí 2014 sendi Hildur Halldóra Karlsdóttir, [...], hér eftir nefndur álitsbeiðandi, erindi til nefndar um dómarastörf þar sem hún kvartar yfir störfum Allans Vagns Magnússonar dómstjóra Héraðsdóms Vesturlands. Lýtur erindið að meðferð hans á máli nr. [...] Hildur Halldóra Karlsdóttir gegn [...]. Dómur var kveðinn upp í málinu í héraði [...], því var áfrýjað til Hæstaréttar, mál nr. [...], og var með dómi þar [...] vísað frá héraðsdómi. Kvörtun álitsbeiðanda ásamt fylgiskjölum var kynnt dómstjóranum með bréfi 18. ágúst 2014 og honum gefinn kostur á andsvörum sem dagsett eru 12. september 2014. Álitsbeiðanda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við andsvör dómstjórans og eru þær dagsettar 18. september 2014.

Í máli þessu skipa nefnd um dómarastörf Hjördís Hákonardóttir, formaður, Friðgeir Björnsson og Pétur Dam Leifsson, varamaður Ásu Ólafsdóttur, sem vék sæti vegna starfstengsla við Allan Vagn Magnússon. Nokkrar tafir hafa orðið á afgreiðslu málsins vegna sumarleyfa og síðar fjarveru formanns.

 

II
Umkvörtunarefni

Álitsbeiðandi telur dómstjórann hafa brotið á sér með þrennum hætti.

Í fyrsta lagi við stjórn skýrslutöku við aðalmeðferð málsins með því að hann hafi margítrekað gripið fram í fyrir lögmanni álitsbeiðanda og stöðvað spurningar hans til aðila og vitna, en leyft lögmönnum gagnaðila að spyrja óáreittum og grípa fram í fyrir lögmanni álitsbeiðanda. Með þessu háttalagi hafi dómstjórinn sýnt hlutdrægni. Leggur álitsbeiðandi fram hluta hæstaréttarágrips með endurriti þinghalda aðalmeðferðar í héraði 30. apríl og 27. maí 2013 og yfirlýsingar fjögurra einstaklinga sem fylgdust með opnu réttarhaldi. Er í þeim farið hörðum orðum um stjórn dómarans og fullyrt að ekki hafi ríkt jafnræði með lögmönnum aðila. Álitsbeiðandi telur að brotið hafi verið á rétti hennar til réttlátrar málsmeðferðar með því að dómstjórinn hafi sýnt af sér óafsakanlega og ólögmæta háttsemi og með því spillt sönnunarfærslu hennar. Háttsemi hans hafi verið í andstöðu við eðlilegar málsmeðferðarreglur, sbr. til dæmis 1. málslið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og að framkoma hans í dómsal hafi verið í andstöðu við sjálfsagðar háttvísis- og kurteisisreglur við aðila dómsmáls.

Í öðru lagi hafi dómstjórinn gert „vísvitandi greinarmun á stöðu sérfróðra vitna“ sem hafi komið fyrir dóm vegna málsins. Þannig hafi hann ekki brýnt fyrir tveimur öldrunarlæknum sem hafi verið hallir undir málatilbúnað stefndu lagaákvæði um þagnarskyldu heilbrigðisstétta og aðvörun um refsiviðurlög ef þeir upplýstu um einkamálefni sjúklings án undanfarandi samþykkis hlutaðeigandi, en brýnt þetta alvarlega fyrir tveimur öðrum sérfræðivitnum, hjúkrunarfræðingi og sálfræðingi. Hafi fyrrnefndi sérfræðingurinn vegna þessa hrakist úr dómsal án þess að lögmaður álitsbeiðanda gæti spurt þeirra spurninga sem til stóð, og þá hafi dómstjórinn ritstýrt spurningum lögmannsins til síðara vitnisins, sem hafi komið aftur fyrir dóminn við framhaldsmeðferð og hafi þá ekki verið áminnt um þagnarskyldu.

Í þriðja lagi telur álitsbeiðandi að dómstjórinn hafi „brotið gegn skýrum og ófrávíkjanlegum fyrirmælum“ 1. málsliðar 1. mgr. 8. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem segir að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði, gegn 2. málslið 2. mgr. 115. gr. sömu laga, sem segir að í fjölskipuðum dómi skuli allir dómendur taka þátt í uppkvaðningu dóms, en ella beri að endurtaka málflutning, og gegn 1. málslið 3. mgr. sama ákvæðis, sem segir að tilkynna skuli aðilum hvar og hvenær dómur verði kveðinn upp. Segir álitsbeiðandi að dómstjórinn hafi færst undan því að tilkynna henni og lögmanni hennar hvar og hvenær dómur yrði kveðinn upp mánudaginn 22. júlí 2013, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar að lútandi, bæði í síma og tölvubréf dagana 16. til 19. júní. Þá liggi ekkert fyrir um að dómstjórinn hafi kveðið dóminn upp í heyranda hljóði, enda hafi málið hvorki birst á dagskrá Héraðsdóms Vesturlands né Héraðsdóms Reykjavíkur vikuna 21. til 28. júlí 2013. Samkvæmt þingbók Héraðsdóms Vesturlands hafi dómþing verið sett í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 22. júlí og dómur kveðinn þar upp af dómsformanni, ekki sé bókað að sérfróðir meðdómendur hafi tekið þátt í dómsuppsögunni svo sem lögskylt sé samkvæmt 2. mgr. 115. gr. einkamálalaga og verði að draga þá ályktun að þeir hafi ekki verið viðstaddir. Telur álitsbeiðandi að með þessu hafi dómstjórinn brotið á rétti hennar til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

 

III
Andsvör og athugasemdir

Í andsvörum Allans Vagns Magnússonar dómstjóra 12. september 2014 segir að fyrsta umkvörtunarefnið lúti að stjórn dómara á þinghaldi og afskiptum af því ef dómari telur að spurningar lögmanna eða frásögn aðila eða vitna fari út fyrir það sem beinlínis varðar það atriði sem deilt er um. Kveðst hann alls ekki geta fallist á að gert hafi verið á hlut álitsbeiðanda í þeim tilvikum sem hún vitni til í kvörtun sinni, verði „enda að játa dómara nokkurt svigrúm í þessu efni sem alls ekki var farið út fyrir.“ Í öðru lagi sé vikið að framburði vitna sem borið hafi um heilsufar stefndu [...]. Kveðst hann mótmæla þeirri fullyrðingu að hann hafi hrakið vitnið [...] úr dómsal sem og að nokkuð hafi verið aðfinnsluvert við athugasemdir við spurningar lögmanns álitsbeiðandi til vitnisins [...], en [...] hafi komið tvisvar fyrir dóm og vísar þar um til endurrits þinghaldanna. Að því er þriðja umkvörtunarefnið varði hafi dómar margoft verið kveðnir upp af dómsformönnum í fjölskipuðum dómi í einkamálum án þess að meðdómsmenn væru viðstaddir og hafi það aldrei sætt aðfinnslum af Hæstarétti. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi dómur verið kveðinn upp í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur af dómsformanni einum en meðdómsmenn séu búsettir og starfi á Akureyri. Loks mótmælir dómstjórinn þeim aðdróttunum í sinn garð að hann hafi verið hlutdrægur og vilhallur við meðferð máls þessa sem tilhæfulausum með öllu.

Í athugsemdum 18. september 2014 taldi álitsbeiðandi dómstjórann ekki hafa hrakið í svari sínu rök hennar fyrir fyrsta lið umkvörtunarinnar. Að því er annan lið varðar ítrekaði hún að dómstjórinn hefði hindrað að vitneskja vitna sem stutt hafi málstað hennar kæmist inn í málið, og að annað vitnið hafi komið aftur fyrir dóminn vegna þess að dómarinn hafi stöðvað framburð hennar og síðan litið fram hjá honum í dóminum. Með athugasemdunum fylgdu tveir útfylltir „spurningalistar fyrir aðstandendur um vitræna skerðingu“. Að því er þriðja atriðið varðar segir hún dómstjórann viðurkenna að hafa kveðið einn upp dóminn, en það hafi hann gert í kyrrþey þó annað segir í þingbók hans. Hann minnist hins vegar ekki á að hann hafi ekki boðað hana til dómsuppkvaðningarinnar þrátt fyrir beiðni hennar um upplýsingar um stað og stund svo að hún gæti verið viðstödd. Hann minnist heldur ekki á að dómsuppkvaðningarinnar hafi ekki verið getið á dagskrá dómstólsins. Loks ítrekar álitsbeiðandi öll atriði í kvörtun sinni.

 

IV
Forsendur og niðurstöður

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla, og er fjallað um erindi álitsbeiðanda á grundvelli 27. gr. þeirra laga. Valdsvið nefndarinnar er þannig skilgreint í fyrri málslið 1. mgr. þess ákvæðis: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að dómstólalögum er 27. gr. frumvarpsins skýrð nánar og kemur þar glöggt fram að einkum sé átt við að aðili dómsmáls, eða eftir atvikum annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta vegna framferðis dómara í tengslum við dómsmál, geti kvartað til nefndarinnar telji viðkomandi brotið á rétti sínum vegna háttsemi dómara við meðferð máls eða dómarastörfin. Á hinn bóginn er það ekki á verksviði nefndar um dómarastörf að endurskoða dómsathafnir, þ.e. atriði í dómi, úrskurði eða ákvörðun dómara, sem sá sem kvartar vill ekki sætta sig við, hvort sem um er að ræða túlkun á lögum, greiningu atvika eða niðurstöðu. Samkvæmt 2. ml. 1. mgr. ákvæðisins verður sá sem kvartar að lýsa atvikum og rökstyðja kvörtun sína. Kvörtun álitsbeiðanda lýtur að þremur þáttum. Í fyrsta lagi að stjórn þinghalds, einkum að því er varðar yfirheyrslu yfir vitnum, í öðru lagi að því hvernig vitni voru áminnt og í þriðja lagi að því hvernig staðið var að uppsögu dóms í málinu. Um tvo fyrri þættina segir álitsbeiðandi umkvörtunarefnið varða það að dómarinn hafi ekki leitast við „að fá fram hvað væri rétt og satt í málinu“ heldur frekar að „hylma yfir þeim mistökum sem þegar höfðu átt sér stað í vinnubrögðum hjá sumum embættismönnum í kerfinu“ og horft hafi verið „framhjá framlögðum sönnunargögnum“. Ásakanir sem þessar falla ekki innan ramma verksviðs nefndar um dómarastörf. 

1) Um stjórn dómara á þinghaldi 
Dómari stýrir þinghaldi samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómara ber að vera hlutlaus gagnvart aðilum sem takast á fyrir dómi, en lögmönnum og öðrum viðstöddum ber skilyrðislaust að lúta stjórn dómara. Dómarinn skal gæta þess að lögmenn haldi sig innan þess ramma er efni málsins markar. Ákvarðanir sem dómari tekur við stjórn þinghalds, þar með talið við skýrslutökur teljast eðli málsins samkvæmt almennt til dómsathafna og falla ekki undir verksvið nefndar um dómarastörf. Í starfi dómara felst einnig að meta sönnunargögn samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um meðferð einkamála. Fellur sá þáttur starfs hans undir dómsathöfn og er ekki á verksviði nefndar um dómarastörf. Sé máli áfrýjað er hægt að benda á það sem aðili telur að hafi farið úrskeiðis við meðferð máls í héraði og metur Hæstiréttur þá hvort tilefni sé til að setja ofaní við dómara eða jafnvel ómerkja málsmeðferð. Mál álitbeiðanda hefur sætt áfrýjunarmeðferð og var það niðurstaða Hæstaréttar að álitsbeiðandi hefði ekki átt lögmætra hagsmuna að gæta til málshöfðunar. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að hvað sönnunarfærslu í málinu varðar hefur ekki verið gert á hlut álitsbeiðanda í skilningi 1. ml. 1. mgr. 27. gr. dómstólalaga.

Það kemur hins vegar til skoðunar hjá nefnd um dómarastörf hvort háttsemi dómara við stjórn þinghalds er með þeim hætti sem gera má kröfu um burtséð frá efni málsins eða þess hvort málshöfðunin sem slík uppfyllir formkröfur laga. Er þar meðal annars vísað til framkomu við aðila og jafnræðis sem þeir skulu njóta í réttarsal af hálfu dómara. Mörkin á milli þessa og stjórnar dómara geta hins vegar verið óljós. Kann aðili sem dómari metur að fari út fyrir kjarna málsins að upplifa stjórn dómara sem hlutdrægni. Endurmat á slíkum þáttum á sér stað við áfrýjun eins og áður sagði. Álitsbeiðandi bendir á nokkur atriði í endurriti frá aðalmeðferð og framhaldsaðalmeðferð sem hún telur sýna að dómarinn hafi ekki gætt hlutleysis og eða lýsi háttsemi sem hafi verið „í andstöðu við eðlilegar málsmeðferðarreglur“, brotið gegn rétti hennar til réttlátrar málsmeðferðar og að framkoma hans í dómsal hafi stangast á „við sjálfsagðar háttvísis- og kurteisisreglur við aðila dómsmáls.“ Dómstjórinn andmælir því að hann hafi á nokkurn hátt verið hlutdrægur eða vilhallur við stjórn sína á þinghaldinu. Nefndin hefur farið yfir endurrit þinghaldanna í heild og þau atriði sem álitsbeiðandi tilgreinir sérstaklega. Ekki er unnt að fallast á að af þeim verði dregin sú ályktun að dómstjórinn hafi beitt valdi sínu við stjórn þinghaldsins með ólögmætum hætti eða brotið „sjálfsagðar háttvísis- og kurteisisreglur við aðila dómsmáls“.

Álitbeiðandi hefur lagt fyrir nefndina yfirlýsingar fjögurra einstaklinga sem fylgdust með þinghaldi við aðalmeðferð málsins 30. apríl 2013 og a.m.k. einn þeirra einnig við framhaldsaðalmeðferð 27. maí sama ár, en samkvæmt þingbók hefur hluti hennar verið lokaður. Koma þar fram þungir áfellisdómar og er haldið fram svipuðum atriðum og í kvörtun álitsbeiðanda um hlutdrægni dómarans og misbeitingu valds við stjórn þinghaldsins. Er dómarinn ásakaður um að hafa ekki reynt að leiða málið til lykta með sanngjörnum hætti og ekki reynt að dylja áhugaleysi sitt. Einnig er gagnrýnt að dómarinn hafi þegið far með einum lögmanninum frá Borgarnesi til Reykjavíkur eftir þinghaldið. Í einni yfirlýsingunni segir: „Hugmyndir mínar um réttarkerfi og fagmennsku á sviði laga og réttar á Íslandi breyttust á mjög róttækan hátt við upplifun mína á þessu réttarhaldi.“ Í annarri segir að það „hvernig dómstjórinn stýrði dómþinginu vera til háborinnar skammar bæði fyrir hann og dómskerfið í landinu.“ Þá kemur fram í þessum yfirlýsingum að lögmenn gagnaðila hafi sýnt lögmanni álitsbeiðanda yfirgang og truflað störf hans og að dómarinn hafi látið það átölulaust. Það er slæmt að almenningur sem fylgist með opnu réttarhaldi fái þá tilfinningu fyrir störfum dómstólanna sem lýst er í þessum yfirlýsingum. Markmið dómstólanna er að það sé almenningi sýnilegt að þeir uppfylli skyldu sína um réttláta málsmeðferð. Á hinn bóginn spila einnig inn í þá mynd þættir sem ekki eru á valdi dómstólanna. Eitt er hlutverk lögmanna og sú skylda þeirra að gæta hagsmuna eigin skjólstæðings. Er ekki hægt að áfellast lögmenn fyrir inngrip og athugasemdir sem þjóna því markmiði né dómara fyrir að leyfa slíkt innan ákveðinna marka. Annað eru hagsmunir og tilfinningar málsaðila og þeirra sem styðja þá og þau áhrif sem þetta hefur á upplifun þeirra á því sem fram fer í réttarsal. Gera verður þá kröfu til dómara að þeir leggi sig fram um að hlutleysi þeirra sé sýnilegt við stjórn þinghalda og sýnt sé að dómstóllinn beri virðingu fyrir málaatilbúnaði málsaðila. Samkvæmt framagreindum yfirlýsingum hefur dómstjóranum ekki tekist þetta í umrætt sinn, en nefndin telur sig ekki hafa nægilegar forsendur til að álykta að dómarinn hafi sýnt af sér ámælisverða háttsemi. Það er ekki fordæmalaust að dómari ferðist með lögmanni eins aðila í tengslum við málsmeðferð, sérstaklega ef ferðast er utan höfuðborgarsvæðisins. Á hinn bóginn er rétt að benda á að slíkt getur ýtt undir tilfinningu gagnaðila um að það halli á jafnræði aðila og er af þeim sökum óæskilegt. Má taka undir að ekki skipti máli í því samhengi þótt dómari spyrji aðila hvort þeir geri athugasemdir. 

2) Um áminningu vitna 
Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga um meðferð einkamála lætur dómari vitni gera grein fyrir sér og brýnir síðan alvarlega fyrir því að segja satt og rétt frá að viðlagðri refsiábyrgð. Þá skal dómari samkvæmt 5. mgr. sama ákvæðis leiðbeina vitni um atriði sem lúta að skyldu þess og heimild til að bera vitni. Samkvæmt b. lið 2. mgr. 53. gr. sömu laga er vitni óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um einkahagi manns sem vitinu hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að í starfi sínu. Á þetta til dæmis við um heilbrigðisstarfsmenn og verður að ætla að þeim sé almennt kunn sú þagnarskylda sem á þeim hvílir. Svo virðist sem upptaka hafi ekki hafist fyrr en eftir áminningu dómstjórans, er því ekki ljóst hvaða orðalag hann notaði þegar hann áminnti vitni. Telji aðili að ekki hafi verið staðið rétt að áminningu vitnis og að það hafi haft áhrif á málsmeðferð í héraði kann það að vera tilefni til þess að gerð sé athugasemd þar um við áfrýjun málsins til Hæstaréttar. Þetta atriði, eins og það er lagt fyrir, fellur hins vegar ekki undir verksvið nefndar um dómarastörf samkvæmt 27. gr. dómstólalaga. 

3) Um uppkvaðningu dóms 
Af þeim gögnum sem fylgja kvörtun álitsbeiðanda er ljóst að dómarinn tilkynnti lögmanni hennar að hann myndi kveða upp dóm mánudaginn 22. júlí 2013, að því gefnu að honum bærust yfirlýsingar lögmanna aðila samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála þess efnis að þeir teldu óþarft að endurflytja málið. Ljóst er að lögmennirnir hafa samþykkt þetta og að því er virðist einnig að ekki yrði tilkynnt tímasetning þinghaldsins og lýst því yfir að ekki yrði mætt af þeirra hálfu. Er þessi ályktun dregin af tölvubréfi lögmanns álitsbeiðanda til hennar 21. júlí 2013, en þar segir: „Dómsformaðurinn tjáði mér í sama símtali, að lögmenn gagnaðila hafi hvor um sig gefið út yfirlýsingu samkvæmt seinni málslið 1. mgr. 115. gr. eml., og að hvorugur þeirra gerði við það athugasemdir að dómur yfir kveðinn upp í kyrrþey í dag … í ljósi alls framaritaðs tel ég, að svo komnu máli, að skynsamlegast sé að þú/við spilum með, og að ég sendi dómsformanni nú strax á eftir umbeðna yfirlýsingu … Að þessu sögðu mun ég nú senda Allan Vagni Magnússyni umbeðna yfirlýsingu, en hann segist svo munu senda okkur dóminn í rafrænu formi þegar að honum uppkveðnum“.

Þinghald er ekki opið í eiginlegri merkingu þess orðs samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 8. gr. laga um meðferð einkamála nema til staðar sé vitneskja um hvar og hvenær það eigi að fara fram og skal dómari tilkynna aðilum hvar og hvenær dómur verður kveðinn upp ef vörnum hefur verið haldið uppi í máli, sbr. 1. ml. 3. mgr. 115. gr. sömu laga. Hafi aðili að dómsmáli ráðið lögmann hefur dómari að jafnaði samskipti við lögmanninn. Af framangreindum samskiptum álitsbeiðanda og lögmanns hennar er ljóst að lögmaðurinn hefur samþykkt að ekki yrði boðað til sérstaks þinghalds til uppkvaðningar dómsins heldur látið duga að dómurinn yrði sendur rafrænt þegar hann væri tilbúinn. Verður dómstjórinn því ekki átalinn vegna þessa þó að framkvæmdin samræmdist ekki góðum starfsháttum dómara og lögum um meðferð einkamála. 

Af orðalagi 2. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála og athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga er ljóst að þar er með orðinu „uppkvaðning“ dóms fyrst og fremst átt við samningu dómsins, það er að allir dómarar fjölskipaðs dóms standi að efnislegri niðurstöðu hans og orðalagi. Í daglegu tali er það hins vegar kallað „uppkvaðning dóms“ þegar dómsorð er lesið. Í réttarframkvæmd er það ekki ófrávíkjanleg regla að fjölskipaður dómur sé allur viðstaddur þá athöfn.

Það fellur utan valdssviðs nefndar um dómarastörf sem starfar á grundvelli IV. kafla dómstólalaga að meta hvort við meðferð máls þess sem álitsbeiðandi höfðaði fyrir Héraðsdómi Vesturlands og áfrýjaði síðan til Hæstaréttar hefur verið brotið á rétti hennar til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

 

V
Ályktarorð

Samkvæmt framaskráðu er það álit nefndar um dómarastörf að kvörtun Hildar Halldóru Karlsdóttur gefi ekki tilefni til þeirra aðgerða sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. 

 

 

Hjördís Hákonardóttir formaður

 

Friðgeir Björnsson 

 

 Pétur Dam Leifsson

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

Mál nr. 3/2014
Álitsbeiðandi Vera Ósk Steinsen.
Nefndina skipuðu, Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.

Nefnd um dómarastörf hefur móttekið erindi þitt frá 12. þessa mánaðar.

Nefnd um dómarastörf getur ekki skipt sér af ákvörðunum dómara til dæmis um að vísa máli frá dómi. Allar ákvarðanir dómara vegna máls sem þeir fara með kallast dómsathafnir og falla utan verksviðs nefndarinnar. Það er ekki á verksviði nefndar um dómarastörf að veita lögfræðilega ráðgjöf, en almennt má segja að ef máli er vísað frá dómi í heild er það ekki lengur til meðferðar hjá dómstólnum. Vilji aðili halda áfram og láta reyna á efnisrök þess, þá þarf hann að höfða nýtt mál og gæta þess að leiðrétta það sem varð til þess að málinu var vísað frá. Sé máli vísað frá að hluta heldur sá hluti þess sem ekki var vísað frá áfram í efnislegri meðferð hjá dómstólnum. Leiðbeiningaskylda dómara nær aðeins til formsatriða, ekki efnisatriða eða raka fyrir þeim. Nefnd um dómarastörf hefur ekki upplýsingar um einstök mál og stöðu þeirra. Ég bendi þér á að veitt er endurgjaldslaus lögfræðiþjónusta hjá: Lögfræðiaðstoð Orators (www.orator.is), Lögfræðiþjónustu Lögréttu (www.logretta.is) og Lögmannavakt LMFÍ (www.lmfi.is).

Atriði sem nefnd eru í bréfinu og varða aðrar stofnanir en dómstóla falla ekki undir verksvið nefndarinnar.

Ef þú telur að dómari hafi í starfi sínu brotið á rétti þínum og þú vilt kvarta yfir því, þá þarftu, til þess að nefndin geti tekið erindi þitt til meðferðar, að senda nefndinni formlega kvörtun þar sem fram kemur hver dómarinn er, um hvaða mál er að ræða og gögn um það, og lýsa því í hverju brot hans er fólgið og/eða lýsa þeim samskiptum sem kvartað er yfir.

Samkvæmt því sem að framan greinir mun nefnd um dómarastörf ekki aðhafast frekar vegna bréfs þíns frá 12. þessa mánaðar.

Reykjavík, 16. september 2014

f.h. nefndar um dómarastörf
Hjördís Hákonardóttir

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

Mál nr. 4/2014
Álitsbeiðandi Haukur Þór Haraldsson.
Nefndina skipuðu, Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.


Með bréfi dagsettu 22. september 2014 sendi Haukur Þór Haraldsson, Klyfjaseli 9, Reykjavík erindi til nefndar um dómarastörf. Var honum gefinn kostur á að skýra erindið nánar. Með bréfi dagsettu 24. október 2014 lagði hann fram kvörtun á hendur Símoni Sigvaldasyni héraðsdómara vegna meðferðar hans á máli nr. [...] við Héraðsdóm Reykjavíkur. Telur hann með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dómarinn hafi brotið á rétti hans með því að dómur var ekki fjölskipaður. Telur hann dómarann hafa brotið gegn greindu lagaákvæði þrátt fyrir að hann hefði góða þekkingu á efninu, og einnig að hann hafi brotið gegn dómstólalögum, hegningarlögum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Mál nr. [...] var fyrst þingfest 16. desember 2009 og dæmt [...]. Málinu var áfrýjað og með dómi Hæstaréttar [...] í máli nr. [...] var málsmeðferð í héraði ómerkt frá og með 22. mars 2010 með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 þar sem ætla mátti að niðurstaða dómsins um sönnunarmat kynni að hafa verið röng „svo að einhverju skipti um úrslit málsins.“ Málið var aftur tekið fyrir í héraði 29. apríl 2011 og fór Símon Sigvaldason héraðsdómari þá með málið og var það dæmt [...]. Málinu var áfrýjað öðru sinni og með dómi Hæstaréttar [...] í máli nr. [...] var málsmeðferð í héraði ómerkt með vísan til framangreinds lagaákvæðis frá og með 14. júní 2011 þar sem þess hafði ekki verið gætt að þrír héraðsdómarar skyldu „skipa dóm í máli við nýja meðferð þess þegar fyrri héraðsdómur hefur verið ómerktur á grundvelli ákvæðisins.“ Málið var enn tekið fyrir í héraði 16. febrúar 2012 og dæmt [...] af þremur dómurum. Með dómi Hæstaréttar [...] í máli nr. [...] var héraðsdómur staðfestur, meðal annars ákvörðun hans um refsingu með vísan til þess „óhæfilega dráttar“ sem orðið hafði á málinu.

Nefnd um dómarastörf starfar samkvæmt lögum nr. 15/1998 um dómstóla. Valdsvið hennar er skilgreint í IV. kafla dómstólalaga. Í fyrri málslið 1. mgr. 27. gr. segir: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að dómstólalögum er 27. gr. frumvarpsins skýrð nánar og kemur þar glöggt fram að einkum er átt við að aðili dómsmáls, eða eftir atvikum annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta vegna framferðis dómara í tengslum við dómsmál, geti kvartað til nefndarinnar telji viðkomandi brotið á rétti sínum vegna háttsemi dómara við meðferð máls eða dómarastörfin. Á hinn bóginn er það ekki á verksviði nefndar um dómarastörf að endurskoða dómsathafnir, þ.e. atriði í dómi, úrskurði eða ákvörðun dómara, hvort sem um er að ræða túlkun á lögum, greiningu atvika eða niðurstöðu.

Nefnd um dómarastörf hefur fjallað um erindið, kynnt það fyrir héraðsdómaranum og kallað eftir endurriti þingbókar. Ákvörðun um að kveðja til meðdómendur eða ekki er þáttur í stjórn dómara við meðferð máls og varðar sem slík ekki samskipti dómarans við aðila máls. Ekki verður séð af endurriti þingbókar að lögmaður Hauks Þórs hafi gert athugasemd við að dómurinn væri ekki fjölskipaður eða að til orðaskipta hafi komið í þinghaldi vegna þessa. Þá hefur í dómi Hæstaréttar verið tekið tillit til þeirrar tafar sem varð á málinu vegna þessarar ákvörðunar dómarans. Geri dómari mistök í starfi verður hann ekki sóttur persónulega um bætur af þeim sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess, heldur verður að beina slíkri kröfu að íslenska ríkinu. Niðurstaða nefndar um dómarastörf er samkvæmt framansögðu að efni kvörtunar Hauks Þórs Haraldssonar falli ekki undir valdsvið nefndarinnar og mun hún því ekki taka kvörtunina til efnislegrar meðferðar.

Reykjavík, 4. desember 2014,

f.h. nefndar um dómarastörf
Hjördís Hákonardóttir, formaður

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

Mál nr. 5/2014
Álitsbeiðandi Vera Steinsen.
Nefndina skipuðu, Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.


Nefnd um dómarastörf hefur fjallað um kvörtun þína frá 5. nóvember 2014.

Valdsvið nefndar um dómarastörf er skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og takmarkast við atriði sem varða háttsemi dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi. Hún endurskoðar ekki atriði sem varða dómsathöfn.

Það er því ekki á verksviði nefndar um dómarastörf að fjalla um ákvarðanir dómara um að taka dánarbú til opinberra skipta, ákvarðanir um að skipa skiptastjóra, eða meðferð deilumála vegna úthlutunargerðar skiptastjóra. Allt eru þetta dómsathafnir. Athafnir skiptastjóra heyra ekki undir nefndina. Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hefur 23. og 27. október svarað fyrirspurnum álitsbeiðanda.

Engin atriði í kvörtun álitsbeiðanda eru þess eðlis að þau falli undir valdsvið nefndar um dómarastörf, er umfjöllun nefndarinnar um málið því lokið og kvörtuninni vísað frá nefndinni.

Reykjavík, 12. nóvember 2014

Hjördís Hákonardóttir, formaður
f.h. nefndar um dómarastörf

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

 

 

Mál nr. 7/2014
Álitsbeiðandi Helga Laufey Guðmundsdóttir.
Nefndina skipuðu, Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.

 

Nefnd um dómarastörf hefur á fundi sínum í dag fjallað um kvörtun þína á hendur Gunnari Aðalsteinssyni héraðsdómara. Kvörtunin er dagsett 27. október 2014 en hún var framsend nefndinni með bréfi innanríkisráðuneytisins 11. desember 2014. Þar vísar þú til 1. málsliðar 2. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla „Dómara er skylt að ljúka á eðlilegum tíma þeim málum sem hann fær úthlutað til meðferðar og rækja störf sín af alúð og samviskusemi.“ Telur þú að dómarinn hafi ekki viðhaft fagleg vinnubrögð og ekki gætt hlutleysis með því að hafa ekki fjallað um frávísunarkröfu þína á eðlilegum tíma og ekki farið eftir niðurstöðu dóms Hæstaréttar 20. janúar 2014 í máli nr. 797/2013 um að ljúka frávísunarþættinum. Einnig gagnrýnir þú ákvörðun dómarans um málskostnað. Nánar eru umkvörtunarefnin þessi:

Í fyrsta lagi er kvartað yfir því að dómur sem saminn var af Gunnari Aðalsteinssyni og gekk í héraði 5. júní 2013 hafi verið meingallaður og valdið þér tjóni. Áfrýjun dómsmáls eða eftir atvikum kæra er það úrræði sem aðili máls hefur sé hann ósáttur við niðurstöðu héraðsdómara. Fram kemur að Hæstiréttur fjallaði um málið, sbr. dóm réttarins 20. mars 2014 í máli nr. 673/2013. 

Í öðru lagi er kvartað yfir því að sami dómari hafi valdið álitsbeiðanda tjóni með því að úrskurða 27. nóvember 2013 um frestun á frávísun máls. Fram kemur að þessi ákvörðun var kærð til Hæstaréttar, sbr. dóm réttarins 20. janúar 2014 í máli nr. 797/2013. 

Í þriðja lagi er kvartað yfir úrskurði sama dómara 8. apríl 2014 um málskostnað. Fram kemur að úrskurðurinn var kærður til Hæstiréttar, sbr. dóm réttarins 26. maí 2014 í máli nr. 291/2014.

Valdsvið nefndar um dómarastörf er skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og takmarkast við atriði sem varða háttsemi dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi. Nefndin endurskoðar ekki dómsathafnir, svo sem efnislega niðurstöðu dóma eða úrskurða, samningu dóma og ákvarðanir um málskostnað. Þar sem þau atriði sem kvartað er yfir falla ekki undir valdsvið nefndarinnar er erindinu vísað frá. 

Reykjavík, 26. janúar 2015,

f.h. nefndar um dómarastörf
Hjördís Hákonardóttir, formaður

 

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2013

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2013

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

Mál nr. 1/2013
Álitsbeiðandi Björn Erlendsson.
Nefndina skipuðu, Ragnhildur Helgadóttir settur formaður, Friðgeir Björnsson og Ása Ólafsdóttir.


Með bréfi innanríkisráðuneytisins frá 16. júlí 2013 var undirrituð skipuð formaður ad hoc í nefnd um dómarastörf til að fjalla um erindi þitt frá 16. janúar 2013. Nefndin, sem auk formanns var skipuð þeim Friðgeiri Björnssyni, fyrrverandi dómstjóra, og Ásu Ólafsdóttur, dósent, hefur fjallað um erindið. Í bréfi, dags. 13. september 2013, og á fundi með formanni þann 3. október 2013 óskaðir þú eftir því að Friðgeir Björnsson viki sæti við meðferð málsins. Nefndin taldi ekki ástæðu til þess, enda leiddi 6. liður 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ekki til vanhæfis Friðgeirs þrátt fyrir fyrri samskipti ykkar er hann var dómstjóri héraðsdóms Reykjavíkur.

Til viðbótar við gögn þau, sem þú lagðir fram, óskaði nefndin eftir afriti af ákvörðun frá 24. febrúar 2009 um að synja beiðni þinni um endurupptöku á máli því sem lauk með dómi Hæstaréttar frá 18. október 2007 í máli nr. 12/2007.

Eins og útskýrt var í tölvubréfi nefndarinnar 24. september 2013 er valdsvið hennar skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og takmarkast við atriði sem varða framferði dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi. Hún endurskoðar ekki atriði sem varða dómsathöfn, þar með talið hvernig dómari skýrir lög, metur sönnunargögn, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli eða samningu dóms.

Í erindi þínu frá 16. janúar er umkvörtunarefnum lýst og vísað til héraðsdóms í máli nr. E-2480/2005, dóms Hæstaréttar í máli nr. 12/2007 og endurupptökubeiðnarinnar, sem áður var nefnd. Þá eru nafngreindir níu dómarar, sem þú telur hafa brotið á mannréttindum þínum með því að byggja niðurstöður dóms á ósannindum og fölsuðum gögnum.

Umkvörtunarefnin eru annars vegar dómar þessara dómstóla í máli þínu og hins vegar ákvörðun um að hafna endurupptöku Hæstaréttarmálsins nr. 12/2007. Sú ákvörðun byggði á því að Hæstiréttur hafi í dómnum tekið afstöðu til þess „að sóknaraðilum hefði verið í lófa lagið að hreyfa þeirri málsástæðu í héraði, að hnitasetning í kröfugerð varnaraðila hefði verið röng.“ Umkvörtunarefnin eru þannig öll lögfræðileg álitaefni sem dómararnir hafa tekið afstöðu til í dómum. Dómar héraðsdóms og dómur Hæstaréttar eru dómsathafnir sem falla utan verksviðs nefndar um dómarastörf, þar á meðal hvernig dómari metur þau gögn sem niðurstaða hans byggir á. Það er ekki hlutverk nefndar um dómarastörf samkvæmt lögum að fjalla um það hvort niðurstaða dómara um einstök umdeild atriði sé rétt eða röng.

Það er niðurstaða nefndar um dómarastörf að engin sú háttsemi sem lýst er í kvörtunarbréfi þínu og varðar framangreinda dómara falli undir valdsvið nefndarinnar. Er kvörtuninni því þegar af þeirri ástæðu vísað frá nefndinni.

 

Reykjavík, 8. nóvember 2013

 

Ragnhildur Helgadóttir, formaður ad hoc
f.h. nefndar um dómarastörf

 

 

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

 
Mál nr. 3/2013
Álitsbeiðandi Vera Ósk Steinsen 
Nefndina skipuðu, Hjördís Hákonardóttir, formaður, Ása Ólafsdóttir og Friðgeir Björnsson.
 
 
Nefnd um dómarastörf hefur fjallað um kvörtun þína frá 30. maí 2013 og nánari skýringu á henni frá 22. júní 2013. Engin gögn fylgdu. 
 
Eins og útskýrt var í fyrra bréfi nefndarinnar 13. júní 2013 er valdsvið hennar skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og takmarkast við atriði sem varða framferði dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi. Hún endurskoðar ekki atriði sem varða dómsathöfn, þar með talið hvernig dómari skýrir lög, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli eða samningu dóms. 
 
Í bréfi þínu 22. júní 2013 er gerð nánari grein fyrir umkvörtunarefnum þínum og nafngreindir þrír dómarar. Af lýsingunni verður ráðið að í öllum tilvikum sé um lögfræðileg álitaefni að ræða sem dómararnir hafi afgreitt. Það er ekki hlutverk nefndar um dómarastörf að fjalla um það hvort niðurstaða dómara um einstök umdeild atriði sé rétt eða röng. Anna Mjöll Karlsdóttir héraðsdómari virðist hafa tekið ákvörðun um opinber skipti á búi hinnar látnu. Þar er um að ræða dómsathöfn sem er utan verksviðs nefndar um dómarastörf, þar á meðal hvernig dómari metur þau gögn sem úrskurður byggir á. Ingiríður Lúðvíksdóttir héraðsdómari hefur fengið til meðferðar deilumál vegna úthlutunargerðar skiptastjóra og vísað því frá dómi. Hér er um dómsathöfn að ræða. Sama gildir um ákvörðun um málskostnaðartryggingu. Sé máli vísað frá dómi að öllu leyti verður það eðli máls samkvæmt ekki tekið til efnislegrar meðferðar. Að því er Ingimund Einarsson varðar virðist kvartað yfir ákvörðun hans um að skipa skiptastjóra í stað annars sem hafi sagt sig frá störfum. Slík ákvörðun er dómsathöfn. Einnig virðist kvartað yfir því að meðferð búsins hafi ekki verið í samræmi við lög. Störf skiptastjóra heyra ekki undir nefndina.
 
Það er niðurstaða nefndar um dómarastörf að engin sú háttsemi sem lýst er í kvörtunarbréfi þínu og varðar framangreinda héraðsdómara falli undir valdsvið nefndarinnar. Er kvörtuninni því þegar af þeirri ástæðu vísað frá nefndinni.
 

 

Reykjavík, 20. ágúst 2013
 
Hjördís Hákonardóttir, formaður
f.h. nefndar um dómarastörf

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2012

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2012

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

 

Mál nr. 1/2012
Álitsbeiðendur Harpa Snjólaug Lúthersdóttir og Ólafur Eggert Ólafsson 
Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Friðgeir Björnsson og Róbert R. Spanó.

Með tölvubréfi dagsettu 5. mars 2012 barst nefnd um dómarastörf erindi ykkar vegna niðurstöðu í hæstaréttarmáli nr. 270/2011. Óskið þið eftir að fá dóminn ógildan eða málið endurupptekið í Hæstarétti.

Í IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla er fjallað um nefnd um dómarastörf og hlutverk hennar. Segir þar meðal annars í 27. gr. að hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum sé heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndarinnar.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að dómstólalögum er 27. gr. frumvarpsins skýrð nánar og kemur þar glöggt fram að hlutverk nefndar um dómarastörf er ekki að endurskoða ákvarðanir dómara, samningu dóms eða túlkun dómara á lögum eða atvikum máls.

Það er ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að taka ákvörðun en endurupptöku máls. Um endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti er fjallað í XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því er það Hæstiréttur sem getur leyft slíkt að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.

Af framangreindum ástæðum er ljóst að erindi ykkar gefur ekki tilefni til frekari aðgerða og vísar nefnd um dómarastörf því frá sér, sbr. 27. gr. laga nr. 15/1998.

 

Reykjavík, 9. mars 2012

 

f.h. nefndar um dómarastörf

Hjördís Hákonardóttir, formaður

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar

 

Mál nr. 2/2012
Álitsbeiðandi EON ehf.
Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Friðgeir Björnsson og Róbert R. Spanó.

Nefnd um dómarastörf samkvæmt lögum nr. 15/1998 hefur fjallað um kvörtun EON ehf frá 12. júlí 2012 sem er í fimm liðum.

Að því er lýtur að liðum a), b) og e) vísar nefndin til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 502/2012 frá 17. september 2012. Þar er efnislega tekið undir umkvörtunarefni þau er þessir kæruliðir varða og tengjast því hvernig staðið var að dómaraskiptum í máli Z-4/2011. Þar sem Hæstiréttur hefur nú í dómi sínum sérstaklega fjallað um þessa þætti kvörtunar EON ehf til nefndarinnar er ekki tilefni til þess að hún fjalli frekar um þá.

Að því er varðar lið c) þá lýtur hann að samningu dóms sem er dómsathöfn. Valdsvið nefndarinnar er skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/1998 kemur fram að þar undir fellur ekki að endurskoða atriði sem varða dómsathafnir, þar með talið samningu dóms. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með málskoti til æðra dóms. Það hefur nú verið gert með dómi Hæstaréttar Íslands 17. september 2012. Efni c) liðs kvörtunarinnar fellur utan verksviðs nefndarinnar og er honum vísað frá.

Að því er varðar lið d) var það mat dómstjóra og viðkomandi dómara að dómarinn væri nægilega heil heilsu til þess að gegna starfi sínu, nefnd um dómarastörf hefur ekki forsendur til þess að vefengja það mat.

Með vísan til framangreinds er meðferð nefndar um dómarastörf á kvörtun EON ehf hér með lokið.

 

Reykjavík, 25. september 2012

f.h. nefndar um dómarastörf
Hjördís Hákonardóttir

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar


Mál nr. 3/2012
Álitsbeiðandi Borgarahreyfingin
Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Friðgeir Björnsson og Róbert R. Spanó.


Nefnd um dómarastörf samkvæmt lögum nr. 15/1998 hefur fjallað um kvörtun Borgarahreyfingarinnar frá 14. ágúst 2012.

Kvörtunin varðar leiðréttingu á endurriti dóms í máli nr. E-4209/2011 [...] gegn Borgarahreyfingunni sem var kveðinn upp 6. júlí 2012. Dómari var Kristjana Jónsdóttir. Um er að ræða augljósa nafnskekkju sem dómari leiðrétti samkvæmt heimild í 116. gr. laga nr. 91/1991. Ekki hefur annað komið fram en leiðrétting hafi verið gerð án tafar. Ekki er tilefni til þess að gera athugasemd við þessa framkvæmd enda heimil að lögum.

Með vísan til framangreinds er meðferð nefndar um dómarastörf á kvörtun Borgarahreyfingarinnar hér með lokið.

 

Reykjavík, 25. september 2012


f.h. nefndar um dómarastörf
Hjördís Hákonardóttir

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar


Mál nr. 4/2012
Álitsbeiðandi Y
Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Friðgeir Björnsson og Róbert R. Spanó.

Nefnd um dómarastörf samkvæmt lögum nr. 15/1998 fjallaði um kvörtun frá 29. júlí 2012, sem send var Dómstólaráði. Dómstólaráð framsendi erindið til innanríkisráðuneytisins með bréfi 13. ágúst sl., sem framsendi erindið til nefndarinnar með bréfi 28. ágúst sl.

Kvörtunin beindist að úrskurðum í málum [...]2012 og [...]/2012 X gegn Y. Dómari var Z.

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla. Valdsvið nefndarinnar er skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 en þar segir orðrétt: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hlut sinn með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/1998 er 27. gr. frumvarpsins skýrð og kemur þar glöggt fram að átt er við kvörtun „á hendur dómara vegna framferðis hans í tengslum við dómsmál.“ Samkvæmt þessu er ljóst að valdsvið nefndarinnar takmarkast við atriði sem varða framferði dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi, en hlutverk hennar er ekki að endurskoða atriði sem varða dómsathöfn, þar með talið hvernig dómari skýrir lög, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli eða samningu dóms. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með málskoti til æðra dóms.

Með vísan til framangreinds féll kvörtunin ekki undir verksvið nefndarinnar og var vísað frá nefndinni.

 

Reykjavík, 25. september 2012
f.h. nefndar um dómarastörf
Hjördís Hákonardóttir

Ákvörðun um að kvörtun verði ekki tekin til meðferðar


Mál nr. 5/2012
Álitsbeiðandi Kristján Guðmundsson
Nefndina skipuðu Hjördís Hákonardóttir, formaður, Friðgeir Björnsson og Róbert R. Spanó.

Nefnd um dómarastörf samkvæmt lögum nr. 15/1998 hefur fjallað um erindi sem barst í tveimur tölvubréfum 14. desember 2012. Um er að ræða kvörtun vegna sex mála sem þú hefur átt aðild að fyrir dómstólum.

1) Hæstaréttarmál nr. 15/1991. Kvartað er yfir efni dóms í kærumáli sem var kveðinn upp 2. október 1992 eða fyrir um 20 árum síðan. Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla. Valdsvið nefndarinnar er skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 en þar segir orðrétt: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hlut sinn með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/1998 er 27. gr. frumvarpsins skýrð nánar og kemur þar glöggt fram að átt er við kvörtun „á hendur dómara vegna framferðis hans í tengslum við dómsmál.“ Valdsvið nefndarinnar takmarkast þannig við atriði sem varða framferði dómara gagnvart málsaðilum, en hlutverk hennar er ekki að endurskoða atriði sem varða dómsathöfn, þar með talið hvernig dómari skýrir lög, ákvarðanir sem dómari tekur við málsmeðferð, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli, eða samningu dóms. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með málskoti til æðra dóms. Niðurstaða dóms Hæstaréttar er endanleg. Með vísan til framangreinds fellur kvörtun varðandi þetta mál ekki undir verksvið nefndarinnar og er lið þessum vísað frá nefndinni.

2) Sjópróf við Héraðsdóm Reykjaness vegna slyss er varð um borð í Víði EA-910 14. febrúar 1992. Kvörtun lýtur að því að dómari hafi hafnað að fresta þinghaldi 4. janúar 1993 þegar upp kom ágreiningur um framlögð skjöl. Hér er einnig um að ræða tilvik sem átti sér stað fyrir um 20 árum. Dómarinn Guðmundur L. Jóhannesson er hættur störfum. Um var að ræða ákvörðun dómarans um meðferð dómsmáls. Fellur sú athöfn fyrir utan valdsvið nefndarinnar sbr. rökstuðning í 1. lið. Þá nær agavald nefndarinnar aðeins til þeirra sem gegna störfum dómara þegar kvörtun er fram sett. Er þessum lið vísað frá nefndinni.

3) Mál E-8318/2007 við Héraðsdóm Reykjavíkur. Nefndin hefur aflað sér endurrits af umræddu þinghaldi 26. maí 2008. Bókunin er í samræmi við lýsingu sem fram kemur í kvörtuninni um að boðun til þinghaldsins sem send var í ábyrgðarbréfi hafi ekki verið móttekin. Af afsökunarbeiðni Póstsins, sem er dagsett 26. júní 2008, verður að ætla að bréfið hafi þá verið afhent eða hafi getað fengist afhent. Dómur í málinu var kveðinn upp 10. júlí 2008. Ef útivist verður í máli fer með það eftir 96. gr., sbr. 97. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og leita má eftir endurupptöku þess í samræmi við XXIII. kafla sömu laga. Virðist ekki hafa verið látið reyna á þessi ákvæði. Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að háttsemi dómarans falli undir verksvið nefndarinnar, sbr. 1. lið. Er þessum lið vísað frá nefndinni.

4) Mál E-8319/2007 við Héraðsdóm Reykjavíkur. Sama afgreiðsla og í 3. lið.

5) Matsmáli nr. 51/2001 við Héraðsdóm Reykjavíkur. Áður hefur verið kvartað við nefnd um dómarastörf vegna Eggerts Óskarssonar héraðsdómara í þessu máli. Var það skráð hjá nefndinni sem mál nr. 2/2002 og var því lokið 9. desember 2002.

6) Mál E-1345/2002 við Héraðsdóm Reykjavíkur. Umkvörtunarefnið lýtur að dómsstörfum og fellur ekki undir valdsvið nefndar um dómarastörf, sbr. 1. lið. Auk þess starfar Sigurður Tómas Magnússon ekki lengur sem dómari.

 

 Reykjavík, 24. janúar 2013

 

 f.h. nefndar um dómarastörf
 Hjördís Hákonardóttir

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2011

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2011

Álit nefndar um dómarastörf 12. maí 2011
í máli nr. 1/2011
Kvörtun Guðmundar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns

 

I
Málsmeðferð

Með bréfi dagsettu 21. febrúar 2011 sendi Guðmundur Kristjánsson hæstaréttar-lögmaður, Bæjarhrauni 8, Hafnarfirði, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, svohljóðandi kvörtun til nefndar um dómarastörf: „Meðfylgjandi er samrit bréfs míns til Finnboga Alexanderssonar dómstjóra við Héraðsdóm Reykjaness, dags. 31. janúar síðastliðinn. Þar sem hann hefur í engu sinnt erindi því, sem þar er rakið, beini ég því nú til nefndarinnar sem kvörtun. Ég tel, að nefnt bréf mitt segi allt sem segja þarf og leyfi ég mér því að vísa til þess.“

Samkvæmt hjálögðu bréfi álitsbeiðanda til dómstjórans beinist kvörtun hans að héraðsdómaranum Söndru Baldvinsdóttur vegna ákvörðunar málsvarnarlauna í máli nr. [...], Ákæruvaldið gegn [...], en álitsbeiðandi var verjandi ákærðu. Dómur í málinu var kveðinn upp [...]. 

Með bréfum dagsettum 7. mars 2011 til dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness og héraðsdómarans óskaði nefndin eftir viðbrögðum þeirra við kvörtuninni. Dómarinn svaraði 16. sama mánaðar og fylgdi endurrit nefnds dóms bréfinu. Dómstjórinn sendi athugasemdir dagsettar 18. sama mánaðar. Athugasemdirnar voru sendar álitsbeiðanda 30. sama mánaðar. Álitsbeiðandi brást við með bréfi dagsettu 11. apríl 2011. Þar áréttar hann að kvörtun sín beinist að héraðsdómaranum, en ekki að dómstjóranum. Athugasemdir hans voru kynntar dómaranum, sem gerði stutta athugasemd dagsetta 4. maí 2011.

Í máli þessu skipa nefndina Hjördís Hákonardóttir, formaður, Eiríkur Tómasson og Friðgeir Björnsson.

II
Málavextir og rök

Í nefndu bréfi sínu til dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness frá 31. janúar 2011 kveðst álitsbeiðandi hafa verið verjandi ákærðu í ofangreindu máli [...] og kvartar yfir þeirri þóknun sem dómarinn hafi ákveðið honum, 58.609 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ályktar álitsbeiðandi að dómarinn hafi farið eftir 4. tölulið I. gr. viðmiðunarreglna dómstólaráðs fyrir héraðsdómstólana nr. 1/2010, en þar segi að „málsvarnarlaun séu þó aldrei lægri en 46.700 krónur.“ Hann tekur fram að hann hafi ekki lagt fram tímaskýrslu, en hafi mætt fjórum sinnum í málinu, fyrst við þingfestingu þess í Keflavík 11. október 2010, síðan við fyrirtöku 28. sama mánaðar, og við aðalmeðferð 2. desember 2010 og 5. janúar 2011. Auk þessa hafi farið tími í yfirlestur málsins, undirbúning málflutnings og í viðtöl við ákærðu, því sé ljóst að vinna við málið hafi verið 9-10 klukkustundir hið minnsta. Í ljósi þessa hafi dómara verið óheimilt að ákveða lágmarksþóknun. Vísar álitsbeiðandi þar um til 1. gr. reglugerðar nr. 715/2009, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 1. gr. framangreindra viðmiðunarreglna, sem byggi á lögum nr. 15/1998 um dómstóla. Séu ákvæði þessarar greinar fortakslaus og óundanþæg. Í V. kafla dómsins segi: „Við ákvörðun um þóknun verjanda verður að líta til þess að um einfalt mál er að ræða og engar haldbærar varnir í málinu.“ Þessi ummæli telur álitsbeiðandi vera „mjög upplýsandi um viðhorf [dómarans] og virðingu til réttar ákærðu samanber 157. og 158. grein nefndra laga nr. 88/2008 og skyldna verjandans samkvæmt 1. málsgrein [35.] greinar sömu laga.“ Hafi héraðsdómarinn með ákvörðun sinni valdið honum tjóni. Fer álitsbeiðandi fram á að tekið verði á málinu í samræmi við 28. gr. laga nr. 15/1998 og að embættið bæti honum þann mismun sem sé á dæmdri þóknun og þeirri þóknun sem teljist eðlileg, réttmæt og lögskyld. Þessu erindi beindi álitsbeiðandi síðan óbreyttu til nefndar um dómarastörf með bréfi 21. febrúar 2011, svo sem lýst er hér að ofan.

Í andsvörum dómstjórans kemur meðal annars fram, að um sé að ræða dómsúrlausn sjálfstæðs og óháðs dómara og falli það „utan valdheimilda dómstjóra að hafa nokkur afskipti af né gera nokkrar athugasemdir við efnislegar úrlausnir einstakra dómara hvort sem er áður eða eftir að dómur hefur verið kveðinn upp.“

Í andsvörum héraðsdómarans er málsmeðferðinni og tímasetningum lýst. Þóknun hafi verið ákveðin í samræmi við 1. gr. reglugerðar nr. 715/2009 um tímagjald við ákvörðun þóknunar til verjenda og réttargæslumanna og I. kafla viðmiðunarreglna dómstólaráðs fyrir héraðsdómstólana í sakamálum nr. 1/2010, en í I. kafla sé fjallað um ákvörðun málsvarnarlauna verjanda þegar fram fari sókn og vörn. Vísar héraðsdómarinn því á bug að hún hafi „vísvitandi gert á hlut“ álitsbeiðanda og valdið honum tjóni og mótmælir sem röngum og ómaklegum þeim ummælum hans að hún „virði ekki rétt ákærðu til að fá skipaðan verjanda eða skyldur verjanda“. Tekið er fram að álitsbeiðandi hafi ekki lagt fram tímaskýrslu, og litið hafi verið til þess hvenær þinghöld hófust og hvenær þeim lauk. Hafi fyrstu tvö þinghöldin tekið örfáar mínútur en aðalmeðferðin, sem fór fram í tvennu lagi, hafi tekið samtals um eina og hálfa klukkustund. Síðan segir: „Miðað við frammistöðu lögmannsins mætti ætla að hann hafi engum tíma eytt í viðtöl við skjólstæðing sinn eða lestur á gögnum málsins, sem ekki tekur nema nokkrar mínútur.“

Í athugasemdum sínum frá 11. apríl 2011 áréttar álitsbeiðandi kvörtun sína og að dómarinn sé bundinn við og sé skylt að fara eftir ofangreindum viðmiðunareglum nr. 1/2010, sbr. 1.-3. tölulið I. gr. og 1. tölulið V. gr., en þetta hafi hún ekki gert; sé þetta enn alvarlegra þar sem dómarinn segi að eftir þessum reglum hafi verið farið. Ennfremur lúti kvörtunin að „þeim alvarlegu svigurmælum“ sem felist í ummælum dómarans um frammistöðu hans sem verjanda. 

Í bréfi dagsettu 4. maí 2011 gerir héraðsdómarinn athugasemd við þá fullyrðingu álitsbeiðanda að dómara sé skylt að fara eftir viðmiðunarreglum samkvæmt tilkynningu dómstólaráðs nr. 1/2010. Þar sé um að ræða viðmiðunarreglur sem ekki séu bindandi. Því sé einnig mótmælt að ekki hafi verið farið eftir þessum reglum, en þóknunin hafi verið innan marka þeirra.

III
Forsendur

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla, og er fjallað um erindi álitsbeiðanda á grundvelli 27. gr. þeirra laga. Valdsvið nefndarinnar er þannig skilgreint í fyrri málslið 1. mgr. þess ákvæðis: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/1998 er 27. gr. frumvarpsins skýrð nánar og kemur þar glöggt fram að átt er við kvörtun „á hendur dómara vegna framferðis hans í tengslum við dómsmál.“ Samkvæmt þessu er ljóst að hlutverk nefndar um dómarastörf er ekki að endurskoða atriði sem varða dómsathöfn, þar með talið hvernig dómari skýrir lög og reglur, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli og aðili þess eða lögmaður vill ekki sætta sig við, eða samningu dóms að öðru leyti. Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með málskoti til æðra dóms.

Kvörtun álitsbeiðanda snýr að ákvörðun málsvarnarlauna í sakamáli og rökstuðningi fyrir henni. Honum voru ákveðnar 58.609 krónur, sem eru lágmarks málflutningslaun til handa verjanda í sakamáli þar sem fram fer sókn og vörn, samkvæmt greindum viðmiðunarreglum dómstólaráðs. Rökstuðningur dómarans var þannig: „Við ákvörðun um þóknun verjanda verður að líta til þess að um einfalt mál er að ræða og engar haldbærar varnir í málinu.“ Álitsbeiðandi túlkar þessi rök dómarans fyrir ákvörðun um málsvarnarlaun þannig að vegið sé ómaklega að starfsheiðri hans og rétti ákærðu. Þessi ákvörðun og rökstuðningur fyrir henni er dómsathöfn en lýtur ekki að framferði eða störfum dómarans í tengslum við meðferð dómsmálsins, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998. Með vísan til þess sem að framan segir um hlutverk nefndar um dómarastörf hefur hún ekki vald til að endurskoða réttmæti forsendna dóms, túlkun reglna eða efni hans að öðru leyti. Orð héraðsdómara í bréfi hennar dagsettu 16. mars 2011, sem hafa fallið vegna þessarar kvörtunar álitsbeiðanda og hann gerir athugasemd við, teljast ekki viðhöfð í tengslum við dómsmál samkvæmt framansögðu og falla því heldur ekki undir verksvið nefndarinnar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að taka afstöðu til réttmætis ákvörðunar héraðsdómarans um málsvarnarlaun til handa álitsbeiðanda eða til rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun. Ber af þessum sökum að vísa kvörtun álitsbeiðanda frá á grundvelli 3. málsliðar 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998.

IV
Niðurstaða

Kvörtun Guðmundar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns er vísað frá nefnd um dómarastörf.

 

Hjördís Hákonardóttir

 

Friðgeir Björnsson

 

Eiríkur Tómasson

Álit nefndar um dómarastörf 19. júlí 2011
í máli nr. 2/2011
Kvörtun Agnesar Egilsdóttur og Árna Gunnarssonar

 

I
Málsmeðferð

Með bréfi dagsettu 17. maí 2011 sendu Agnes Egilsdóttir og Árni Gunnarsson [...] hér eftir nefnd álitsbeiðendur, kvörtun til nefndar um dómarastörf. Kvörtunin var send innanríkisráðuneytinu og var nefnd um dómarastörf kunngert um hana með bréfi ráðuneytisins dagsettu 24. maí 2011, en vegna mistaka fylgdu málsgögn ekki bréfinu. Gögnin bárust nefndinni föstudaginn 3. júní sl. Vegna fjarveru formanns var ekki unnt að fjalla tafarlaust um kvörtunina. Var álitsbeiðendum kunngert þetta með bréfi dagsettu 20. júní 2011.
Nefnd um dómarastörf skipa í þessu máli Hjördís Hákonardóttir, formaður, Dýrleif Kristjánsdóttir, héraðsdómslögmaður, og Friðgeir Björnsson, en Eiríkur Tómasson víkur sæti í þessu máli þar sem kvörtunin beinist að Benedikt Bogasyni dómstjóra, sem er samstarfsmaður hans við Háskóla Íslands. 

II
Málavextir og rök

Í bréfi 17. maí 2011 segja álitsbeiðendur kvörtun sína snúa að ákvörðun Héraðsdóms Vesturlands frá 1. október 2009 um að skipa [...] hæstaréttarlögmann umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum vegna Sparisjóðs Mýrasýslu. Hafi þessari ákvörðun verið mótmælt með bréfi 2. október 2009 „þar sem mál [...] skiptastjóra þrotabús [...] hf. nr. [...] hafði ekki fengið efnislega meðferð að lögum hjá Ríkissaksóknara, sbr. bréf skiptastjóra 22. ágúst 2006.“ Þá er í kvörtun álitsbeiðenda vísað til svarbréfa Héraðsdóms Vesturlands 26. október og 3. desember 2009 og 24. febrúar 2010 (svo) sem sé ranglega ársett og eigi réttilega að vera dagsett 24. febrúar 2011, einnig er vísað til bréfs Ríkisendurskoðunar til álitsbeiðenda frá 30. desember 2010. Kvartað er yfir því að ártal í framangreindu bréfi dómsins hafi ekki verið leiðrétt. Álitsbeiðendur segjast með bréfi til Héraðsdóms Vesturlands 15. apríl 2011 hafa skorað á dómstjóra að endurmeta framangreinda ákvörðun um skipan umsjónarmanns, hafi fundur verið haldinn með dómstjóra 3. maí 2011 en engin viðbrögð komið. Álitsbeiðendur segja síðan í kvörtunarbréfi sínu til nefndarinnar að dómstjóri hafi „augljóslega [gert] mistök við skipun þessa umsjónarmanns því hagsmunum kröfuhafa, ríkissjóðs og undirritaðra, fórnaði hæstaréttarlögmaðurinn við skiptameðferð í þrotabúi [...] hf. vegna hagsmunagæzlu fyrir Sparisjóðinn í Keflavík og útibú Landsbanka Íslands í Keflavík sbr. bréf [...] skiptastjóra 22. ágúst 2006 til Umboðsmanns Alþingis og bréf Ríkisendurskoðunar 30. desember 2010 um hagsmunagæzlu vegna ríkissjóðs við skiptameðferð í þrotabúi [...] hf.“ Ekki eru gefnar nánari skýringar á tengslum álitsbeiðenda og skuldara sem leitar nauðasamninga, tengslum hans við framangreinda aðila, né í hverju hinir skertu hagsmunir eru fólgnir, og ekki eru færð rök fyrir því í hverju meint mistök dómstjóra hafi verið fólgin.

Í greindu mótmælabréfi frá 2. október 2009 er vísað til bréfs frá 10. september 2009 vegna máls nr. [...]. Bréf þetta fylgir ekki kvörtun. Vísað er til fréttar um að nefndur hæstaréttarlögmaður hafi verið skipaður umsjónarmaður í tengslum við heimild sem Héraðsdómur Vesturlands hafi veitt Sparisjóði Mýrasýslu til að leita nauðasamninga, ekki eru skýrð tengsl fréttarinnar við kvörtun þeirra. Loks er í bréfinu mótmælt þeirri ákvörðun að skipa greindan hæstaréttarlögmann til verksins með vísan til máls nr. [...]. Ekki eru færð efnisleg rök fyrir mótmælunum, né útskýrt um hvað mál þetta snýst eða tengslum þessara mála. Gögn sem fylgja kvörtuninni til nefndarinnar skýra þetta ekki nánar, að öðru leyti en því að fram kemur í meðfylgjandi bréfi [...] lögfræðings 22. ágúst 2006 að álitsbeiðendur hafi ákveðið að kæra tilteknar stjórnsýsluathafnir vegna skiptameðferðar á þrotabúi [...] hf. Má ráða af framangreindu að álitsbeiðendur telji að hagsmunir sínir hafi í því máli verið skertir vegna aðgerða þess hæstaréttarlögmanns sem dómstjóri skipaði umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum Sparisjóðs Mýrasýslu 1. október 2009. Ekki er gerð grein fyrir tengslum álitsbeiðenda og Sparisjóðs Mýrasýslu.

Í svarbréfi Héraðsdóms Vesturlands 26. október 2009 við mótmælum álitsbeiðenda frá 2. og 17. október 2009 segir: „Í fyrra bréfinu er skipun [...] mótmælt en í því síðara er þeirri spurningu beint til dómsins hvort ákvörðunin hafi verið endurskoðuð. Því er til að svara að ákvörðunin hefur ekki verið endurskoðuð, enda verður ekki séð að efni standi til þess.“ Í bréfi dómsins frá 3. desember 2009, sem álitsbeiðendur vísa til, kemur fram að það sé ritað í tilefni af beiðni þeirra frá 30. nóvember 2009 og þar segir: „Í bréfi yðar er óskað eftir formlegu svari varðandi skipun dómsins á umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum Sparisjóðs Mýrasýslu. Þessu erindi hefur þegar verið svarað með bréfi 26. október sl. og er engu við það að bæta.“ Sama efnis er bréf dómsins frá 24. febrúar 2011 (ranglega ársett 2010). Erindi álitsbeiðenda til nefndarinnar fylgja ennfremur fjögur bréf til Héraðsdóms Vesturlands dagsett 11. apríl 2011, 15. apríl 2011, 4. maí 2011 og 11. maí 2011 þar sem ítrekað er farið fram á skýringar á orðalagi í framangreindum bréfum dómsins og að ákvörðun verði breytt. Loks fylgir erindinu bréf Ríkisendurskoðunar til álitsbeiðenda frá 30. desember 2010.

III
Forsendur

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla, og er fjallað um erindi álitsbeiðanda á grundvelli 27. gr. þeirra laga. Valdsvið nefndarinnar er þannig skilgreint í fyrri málslið 1. mgr. þess ákvæðis: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að dómstólalögum er 27. gr. frumvarpsins skýrð nánar og kemur þar glöggt fram að einkum sé átt við að aðili dómsmáls, eða eftir atvikum annar sem á lögvarinna hagsmuna að gæta vegna framferðis dómara í tengslum við dómsmál, geti kvartað til nefndarinnar telji viðkomandi brotið á rétti sínum. Samkvæmt þessu er ljóst að hlutverk nefndar um dómarastörf er ekki að endurskoða ákvarðanir dómara, túlkun dómara á lögum eða samningu dóms, úrskurðar eða ákvörðunar, sem sá sem kvartar vill ekki sætta sig við. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. greinarinnar verður sá sem kvartar að greina frá atvikum og rökstyðja kvörtun sína.

Samkvæmt 38. og 39. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. heimilar héraðsdómari eða synjar með úrskurði beiðni skuldara um að leita nauðasamninga. Úrskurði þar sem heimild er veitt verður ekki skotið til æðra dóms, en úrskurði um synjun getur skuldari einn skotið til æðra dóms. Tafarlaust eftir að heimild hefur verið veitt til að leita nauðasamnings skal héraðsdómari skipa mann með bókun í þingbók til að hafa umsjón með framkvæmd nauðasamningsumleitana. Gilda þar um, eftir því sem við á, sömu reglur og um skiptastjóra, sbr. 2. mgr. 39. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Umsjónarmaður skal í samræmi við 75. gr. laganna vera orðinn 25 ára gamall, vera lögráða og hafa ekki misst forræði á búi sínu, vera svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt starfanum, skal ekki hafa orðið sannur að refsiverðu athæfi sem verður talið svívirðilegt að almenningsáliti eða athæfi sem gerir hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum, skal hafa lokið embættisprófi í lögum, og mætti ekki vera vanhæfur sem dómari í einkamáli sem skuldarinn eða kröfuhafar hans ættu aðild að, sbr. 2. mgr. 75. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Ljóst er af ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga að dómari hefur einn ákvörðunarvald um skipun umsjónarmanns, og ber að gæta þess að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Komi síðar í ljós að umsjónarmaður fullnægir ekki hæfisskilyrðum skal dómari víkja honum úr starfi.

Sá sem telur umsjónarmann ekki fullnægja skilyrðum 2. mgr. 75. gr. gjaldþrotaskiptalaga getur krafist þess að héraðsdómari kveði á um það með úrskurði hvort viðkomandi verði vikið frá af þeim sökum, sbr. 3. mgr. 76. gr. laganna. Farið skal með slíkar kröfur eftir 169. gr. sömu laga. Með hliðsjón af þeirri grein skal sá, sem krefjast vill úrskurðar héraðsdómara um hvort umsjónarmanni með nauðasamningi verði vikið úr starfi, beina skriflegri kröfu sinni um það til þess héraðsdóms þar sem skipunin var gerð. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:

        1. nafn þess sem hefur kröfuna uppi, kennitala hans og heimilisfang, ásamt skýringu á því hvernig hann telji sig eiga aðild að slíkri kröfu
        2. hver sá [umsjónarmaður] sé sem krafist er að verði vikið úr starfi og til hverra starfa hann hafi verið skipaður,
        3. röksemdir fyrir kröfunni ásamt skýringu þeirra atvika sem nauðsyn ber til samhengis vegna.

Kröfunni skulu fylgja gögn sem hún er studd við.

Kvörtun álitsbeiðenda til nefndar um dómarastörf er nokkuð óljós en virðist snúa að því að dómstjóri Héraðsdóms Vesturlands hafi ekki rökstutt svar sitt við mótmælum þeirra í bréfi 2. október 2009. Eins og ljóst má vera af framangreindu hafa álitsbeiðendur ekki lagt erindi sitt fyrir Héraðsdóm Vesturlands með þeim hætti að tilefni hafi verið til umfjöllunar um aðild þeirra eða efnisatriði þeirra raka sem þau kynnu að hafa fram að færa fyrir kröfu um úrskurð um hæfi hins skipaða umsjónarmanns. Verður ekki séð að dómstjóra hafi verið skylt að rökstyðja svar sitt við erindi þeirra nánar en gert er, eins og það var fram sett. Það er ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að taka afstöðu til réttmætis þeirrar ákvörðunar dómstjóra sem kvartað er yfir og að framan er lýst. Að því er varðar leiðréttingu á ártali bréfs sem af samhengi máls er augljóslega ritað árið 2011 þá hafa álitsbeiðendur ekki sýnt fram á að þeir hafi borið skaða af eða að brotið hafi verið á rétti þeirra vegna þessarar misritunar, sbr. 1. mgr. 27. gr. dómstólalaga. Mistök af þessu tagi eru almennt ekki talin vera tilefni athugasemda af hálfu nefndarinnar. Af framangreindum ástæðum ber að vísa kvörtun álitsbeiðenda frá á grundvelli 3. málsliðar 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

IV
Niðurstaða

Kvörtun Agnesar Egilsdóttur og Árna Gunnarssonar er vísað frá nefnd um dómarastörf.

 

 

Hjördís Hákonardóttir

 

Friðgeir Björnsson

 

Dýrleif Kristjánsdóttir

Ákvörðun um endurupptökubeiðni hafnað

 

Mál nr. 3/2011
Erindi Geirs Hjartarsonar.
Nefndina skipuðu, Ragnhildur Helgadóttir, settur formaður.

Með erindum dagsettum m.a. 11. nóvember 2010, 24. nóvember 2010 og 4. ágúst 2011, hefur þú óskað endurupptöku á ákvörðun nefndar um dómarastörf frá 25. nóvember 2009. Í þeirri ákvörðun var kvörtun þinni vísað frá nefndinni og því lýst að valdsvið nefndarinnar væri skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, og takmarkaðist við atriði sem varða framferði dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi. Nefndin endurskoði ekki atriði sem varða dómsathöfn, þar með talið hvernig dómari skýrir lög, metur sönnunargögn, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli eða samningu dóms. 

I. Meðferð málsins

Upphaflega skyldi nefndin vegna beiðni þinnar um endurupptöku vera skipuð Friðgeiri Björnssyni, Róberti R. Spanó og Eggerti Óskarssyni. Þeir viku allir sæti í nefndinni, eins og þér var tilkynnt með bréfi dagsettu 14. desember 2011. Undirrituð var skipuð í nefndina með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu í nóvember 2011 og Ása Ólafsdóttir dósent við Háskóla Íslands tók sæti í nefndinni sem varamaður Róberts R. Spanó. Í desember 2011 var óskað eftir því við innanríkisráðuneytið að nýr nefndarmaður yrði skipaður í stað Eggerts Óskarssonar. Í október 2014 var Freyr Ófeigsson, fyrrverandi dómstjóri skipaður í nefndina. 
Með bréfi, dags. 22. desember 2011 óskaðir þú eftir því að undirrituð viki sæti við meðferð málsins vegna vanhæfis. Í samræmi við bréf það, sem þér var sent í desember 2011 var ekki tekin afstaða til þess fyrr en nefndin var fullskipuð. Í nóvember 2014 ákváðu Ása og Freyr, í samræmi við 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga, að ekki væri ástæða til þess að undirrituð viki sæti í nefndinni, enda leiddi 6. liður 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ekki til vanhæfis undirritaðrar þrátt fyrir störf hennar fyrir umboðsmann Alþingis á árunum 1996-1997, samstarf hennar við Björgu Thorarensen á vettvangi aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu auk þess sem skyldleiki hennar við Hjördísi Hákonardóttur fyrrverandi dómara væri ekki slíkur að varðaði vanhæfi. 
Nefndin óskaði eftir afriti af öllum gögnum í máli þínu í desember 2011 og fékk þau send í október 2014. Þeirra á meðal voru afrit af áliti nefndarinnar frá 25. nóvember 2009 og beiðnum þínum og rökstuðningi fyrir endurupptöku hennar.

II. Forsendur og niðurstaða

Nefnd um dómarastörf kvað árið 2009 upp álit sitt á kvörtun þinni frá 10. ágúst það ár. Það erindi sem hér er til umfjöllunar lýtur að því hvort taka skuli kvörtunina til meðferðar á ný en beiðni þín þar að lútandi byggist fyrst og fremst á því að Eggert Óskarsson hafi verið vanhæfur til að taka þátt í meðferð málsins hjá nefndinni. Kveðið er á um skilyrði endurupptöku máls í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hún er svohljóðandi:

24. gr. Endurupptaka máls.
Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 
1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Það er álit nefndarinnar, að engar aðstæður séu fyrir hendi sem heimila endurupptöku á ákvörðuninni frá 25. nóvember 2009. Ekkert hefur komið fram um að frávísun máls þíns frá nefndinni hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Því eru ekki forsendur til að taka upp málið, sem nefnd um dómarastörf lauk með áliti 25. nóvember 2009.

Vegna athugasemda þinna við hæfi Eggerts Óskarssonar til að koma að ákvörðun nefndarinnar frá 2009 er rétt að taka fram, að hefði vanhæfur nefndarmaður tekið þátt í afgreiðslu máls kynni að koma til afturköllunar ákvörðunarinnar, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það er hins vegar álit nefndarinnar að ekkert hafi komið fram, sem bendir til annars en að Eggert Óskarsson hafi verið hæfur til að taka þátt í meðferð málsins sem lauk með ákvörðun nefndarinnar 25. nóvember 2009. Þetta byggir á þeim rökum sem fram koma í ákvörðuninni sjálfri þar sem tekin var afstaða til þessa atriðis, en rétt er að bæta því við að almennt er talið að samstarf valdi ekki vanhæfi á grundvelli 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, komi ekki annað til.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er endurupptöku á máli því sem lauk með áliti nefndar um dómarastörf frá 25. nóvember 2009, hafnað. Beðist er afsökunar á því hve meðferð málsins hefur dregist í höndum nefndarinnar, en nú eru 4 mánuðir frá því hún var fullskipuð. 


Reykjavík, 18. mars 2015

Ragnhildur Helgadóttir, settur formaður ad hoc

f.h. nefndar um dómarastörf

Álit og ákvarðanir nefndar árið 2010

Vinsamlegast smellið á málsnúmer til þess að opna viðeigandi álit eða ákvarðanir frá árinu 2010

Álit nefndar um dómarastörf 5. október 2010
í máli nr. 1/2010
Kvörtun Sálfræðingafélags Íslands

 

I.
Málsmeðferð

Með bréfi dagsettu 11. júní 2010 til nefndar um dómarastörf kvartaði Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Sálfræðingafélags Íslands, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, fyrir hönd Sjafnar Evertsdóttur sálfræðings á Landspítala, vegna tiltekinna ummæla í dómi Héraðsdóms Vesturlands „eins og þau birtast á heimasíðu dómstólsins.“ Hefur ekki annað komið fram en framangreind birting dómsins sé í samræmi við staðfest endurrit hans. Sálfræðingafélag Íslands fer fram á það í erindi sínu að fundið verði að störfum hlutaðeigandi dómara. 

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla, og er fjallað um erindi álitsbeiðanda á grundvelli 27. gr. þeirra laga. Kvartað er yfir ummælum í dómi fjölskipaðs dóms sem kveðinn var upp við Héraðsdóm Vesturlands 7. apríl 2010 í máli nr. S-[...]/2009: Ákæruvaldið gegn A. Með bréfi dagsettu 29. júní 2010 óskaði nefndin eftir viðbrögðum dómaranna í framangreindu dómsmáli, Benedikts Bogasonar, Arnfríðar Einarsdóttur og Halldórs Björnssonar, við kvörtun álitsbeiðanda. Dómsformaður, Benedikt Bogason dómstjóri, svaraði fyrir hönd dómenda 16. júlí 2010 og fylgdu, að beiðni nefndarinnar, vottorð og reikningur sálfræðingsins og endurrit úr þingbók með framburði hennar fyrir dómi. Umsögn dómsformanns var send álitsbeiðanda 21. sama mánaðar. Athugasemdir álitsbeiðanda eru dagsettar 9. ágúst 2010 og voru kynntar dómsformanni, sem ekki taldi tilefni til frekari andsvara. Nokkur töf hefur orðið á afgreiðslu erindis þessa vegna breytinga á skipan formanns nefndarinnar, vanhæfis nefndarmanns og sumarleyfa.

Í máli þessu skipa nefndina Hjördís Hákonardóttir, formaður, Friðgeir Björnsson og Guðrún Erlendsdóttir, sem varamaður Eiríks Tómassonar, en hann vék sæti.

II.
Málavextir og rök

Kvartað er yfir ummælum í forsendum dóms í framangreindu sakamáli, þar sem ákærði var sakfelldur fyrir að nauðga brotaþola, sem var skjólstæðingur sálfræðingsins. Dómþola var gerð refsing og hann dæmdur til greiðslu skaðabóta. Ummælin sem kvartað er vegna eru þessi: „[…] sá kostnaður, að fjárhæð [...] krónur, er langt úr hófi fram.“ Koma þau fram í tengslum við mat á kostnaði sem dómfellda var gert að greiða. Í dóminum segir að brotaþoli hafi verið „í viðtölum hjá Sjöfn Evertsdóttur, sálfræðingi neyðarmóttöku, á tímabilinu frá 3. september til 4. nóvember 2009. Í vottorði sálfræðingsins 21. febrúar 2010 [komi] fram að [brotaþoli] hafi gengið í gegnum mörg áföll og búið við langvarandi bágbornar félagslegar aðstæður. Einnig [segi] í vottorðinu að viðbrögð [brotaþola] við atburðinum uppfylli viðmið um alvarlegt áfall (fyrsta viðmið í greiningu áfallastreituröskunar).“ Í lok dómsins er fjallað um sakarkostnað en þar segir: „Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, verður ákærða gert að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ákæruvalds að frátöldum kostnaði við öflun sálfræðivottorðs frá Landspítalanum, en sá kostnaður, að fjárhæð [...] krónur, er langt úr hófi fram.“

Vottorð sálfræðingsins er ritað 21. febrúar 2010 eða um þremur og hálfum mánuði eftir síðasta viðtal og er tvær blaðsíður að lengd. Skýrði sálfræðingurinn dóminum frá því, aðspurð við aðalmeðferð málsins, að að baki því lægi vinna í tíu klukkustundir, fjórar vegna úrvinnslu gagna, fjórar við gerð skýrslu og tvær við lokafrágang.

Í rökstuðningi sálfræðingafélagsins fyrir kvörtuninni segir meðal annars: „Með ummælunum þykir Sálfræðingafélagi Íslands vegið ómaklega að starfsheiðri og heilindum SE í starfi svo og trúverðugleika hennar, þegar sagt er algerlega órökstutt, að kostnaður við öflun vottorðsins sé langt úr hófi fram. Þar með hlýtur að mega álykta að dómara [þyki] verðlagningin allt of há eða tímafjöldinn allt of mikill. Af dómnum er ómögulegt að sjá af hverju það mat leiðir, auk þess sem það er varla dómarans að setja opinberlega fram algerlega órökstutt mat eða skoðun á verðlagningu vinnu sálfræðinga. Það skal ítrekað að engin athugasemd var gerð við reikninginn hvorki verðlagningu eða fjölda tíma […]. Ummæli sem þessi, í opinberum skjölum, eru til þess fallin að rýra trúverðugleika sálfræðinga, bæði SE og sálfræðinga almennt og ekki verður séð að órökstuddar skoðanir dómara, sem þessar, eigi heima í dómum.“

Í andsvörum dómstjórans bendir hann á að reikningur sálfræðingsins hafi verið lagður ósundurliðaður fyrir dóminn. Í tilefni af fjárhæð hans hafi hún verið spurð við aðalmeðferð málsins hvernig hann sundurliðaðist. Síðan er rakið efni vottorðsins og sú niðurstaða dómsins „að ekki gæti verið vel ríflega dagsverk að rita vottorð af þessu tagi.“ Tekið er fram að dómendur hafi allir reynslu af því að afgreiða reikninga fyrir vinnu sérfræðinga. Dóminum beri, samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að ákveða sakarkostnað sem dómfellda sé gert að greiða, þar með talið sérfræðikostnað. Við mat á því hvort eða að hve miklu leyti dómfellda sé gert að greiða slíkan kostnað skipti ekki máli hvort hann hafi verið greiddur af ákæruvaldi án athugasemda. Málskostnaður sé samkvæmt venju ekki ræddur ítarlega í dómi og hafi verið nægilegt að nefna fjárhæð reikningsins. Er því „eindregið mótmælt, sem haldið er fram í kvörtuninni, að umfjöllun um réttmæti reikningsins hafi ekki átt heima í dóminum og að niðurstaðan hafi að þessu leyti verið órökstudd.“ Þá er upplýst að umræddum dómi hafi verið áfrýjað og muni þetta atriði sæta endurskoðun Hæstaréttar verði sakfelling staðfest, og geti það einnig sætt athugasemdum verði ákærði sýknaður, ef efni yrðu talin standa til þess. Þegar þetta er haft í huga sé „vafasamt að málefnið sé þannig vaxið að það verði borið undir stjórnsýslunefnd.“

Andsvör dómsformanns voru kynnt álitsbeiðanda sem sendi athugasemdir dagsettar 9. ágúst 2010. Andmælt er þar þeirri fullyrðingu að vinnsla vottorðsins geti varla hafa tekið tíu tíma. Nauðsynlegt hafi verið að yfirfara öll gögn sem hafi verið margvísleg, ekki síst vegna flókinnar áfallasögu brotaþola en mismunagreining hafi ekki farið fram. Vandasamt sé að meta hvað koma skuli fram í slíku vottorði og orða það á skýran og hnitmiðaðan hátt. Þá er tekið fram að sundurliðun reikningsins hafi fylgt honum til ríkissaksóknara. Ekkert í andsvörum dómsformannsins réttlæti þá fullyrðingu í dóminum að reikningurinn hafi verið „langt úr hófi fram“. Ítrekar álitsbeiðandi að orð þessi séu til þess fallin „að vega ekki einungis að starfsheiðri, trúverðugleika og heilindum sálfræðingsins sem í hlut á heldur einnig sálfræðinga almennt.“

Eins og að framan greinir taldi dómsformaður ekki tilefni til frekari andsvara.

III.
Forsendur

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla. Valdsvið nefndarinnar er skilgreint í fyrsta málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998 en þar segir orðrétt: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hlut sinn með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/1998 er 27. gr. frumvarpsins skýrð og kemur þar glöggt fram að átt er við kvörtun „á hendur dómara vegna framferðis hans í tengslum við dómsmál.“ Samkvæmt þessu er ljóst að valdsvið nefndarinnar takmarkast við atriði sem varða framferði dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi, en hlutverk hennar er ekki að endurskoða atriði sem varða dómsathöfn, þar með talið hvernig dómari skýrir lög, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli eða samningu dóms. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með málskoti til æðra dóms.

Kvörtun álitsbeiðanda snýr að tilteknum rökstuðningi í dómi Héraðsdóms Vesturlands frá 7. apríl 2010 í máli nr. S-[...]/2009, en ekki að framferði eða störfum dómenda í tengslum við meðferð dómsmálsins, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998. Álitsbeiðandi leggur út af tilgreindum orðum dómsins og telur með þeim vegið ómaklega að starfsheiðri, heilindum og trúverðugleika bæði viðkomandi sálfræðings og sálfræðinga almennt. Með vísan til þess sem að framan segir um hlutverk nefndar um dómarastörf lýtur það ekki að því að meta réttmæti forsendna dóms, eða að endurskoða hvernig þær eru orðaðar, og breytir þar engu þó að nokkuð fast kunni að vera að orði kveðið. Slíkt mat og endurskoðun dóms getur aðeins átt sér stað við áfrýjun máls. Viðkomandi máli mun hafa verið áfrýjað til Hæstaréttar. Af framangreindu er ljóst að það er ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að taka afstöðu til þess hvort dómurinn átti að rökstyðja niðurstöðu sína með öðrum hætti en hann gerði.

Nefnd um dómarastörf ber af þessum sökum að vísa kvörtun álitsbeiðanda frá sér, sbr. 3. málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998.

 

IV.
Niðurstaða

 Kvörtun Sálfræðingafélags Íslands er vísað frá nefnd um dómarastörf.

 

 

Hjördís Hákonardóttir

 

Friðgeir Björnsson

 

Guðrún Erlendsdóttir

 

Álit nefndar um dómarastörf 20. apríl 2011
í máli nr. 2/2010
Kvörtun Gullvers sf.

 

I.
Málsmeðferð

Með bréfi dags. 29. nóvember 2010 til nefndar um dómarastörf kvartaði Kristleifur Indriðason f.h. Gullvers sf. (hér eftir nefnt álitsbeiðandi), vegna starfa Benedikts Bogasonar sem héraðsdómara annars vegar og matsmanns í matsnefnd eignarnámsbóta hins vegar.

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla, og er fjallað um erindi álitsbeiðanda á grundvelli 27. gr. laganna. Með bréfi dagsettu 8. desember 2010 óskaði nefndin eftir viðbrögðum Benedikts Bogasonar við kvörtun álitsbeiðanda. Svar hans frá 4. janúar 2011 var sent álitsbeiðanda 14. sama mánaðar. Athugasemdir álitsbeiðanda eru dagsettar 28. janúar 2011 en hann sendi einnig viðbótargögn með bréfi, dags. 10. febrúar 2011. Nokkur töf hefur orðið á afgreiðslu erindis þessa vegna anna og skipunar nefndarmanna í stað þeirra sem viku sæti í málinu.

Í máli þessu skipa nefndina Friðgeir Björnsson, Viðar Lúðvíksson, settur nefndarmaður í stað Eiríks Tómassonar og Ragnhildur Helgadóttir settur formaður nefndarinnar í stað Hjördísar Hákonardóttur, en þau Eiríkur og Hjördís viku sæti.

 

II.
Málavextir og rök

Kvartað er yfir því, að Benedikt Bogason héraðsdómari hafi setið í matsnefnd eignarnámsbóta árið 2001, er tekinn var eignarnámi hluti af lóð við hús við Aðalgötu 7 í Stykkishólmi í eigu Gullvers sf., auk þess að dæma í máli sem félagið höfðaði árið 2008 vegna umferðarréttar um aðliggjandi lóð og að háttsemi hans í þessum tveimur hlutverkum hafi verið ósamrýmanleg. Telur álitsbeiðandi að Benedikt hafi verið vanhæfur til að dæma í hinu síðara máli en einnig efast álitsbeiðandi um heimild dómarans til að sitja í matsnefnd eignarnámsbóta. Í kvörtuninni er á því byggt að framganga Benedikts í málum álitsbeiðanda hafi verið með þeim hætti að óhjákvæmilegt sé að veita honum áminningu og ,,hvíldarlausn frá hinum mörgu hlutverkum sem  hann leikur“, eins og tekið er til orða í kvörtuninni.

Sá úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta, sem Benedikt sat í ásamt fleirum, var kveðinn upp 17. maí 2004 í máli nr. 2/2004. Þar voru metnar bætur fyrir 12x12 m spildu úr lóð Aðalgötu 7 í Stykkishólmi, út frá miðju fjarskiptamasturs á lóðinni, auk 2 m lagnaleiðar frá mastrinu út fyrir lóðamörk og réttar til umferðar og aðgangi að hinum eignarnumda hluta. Í úrskurðinum kemur fram að bætur „vegna lagna að lóðamörkum, almenna verðrýrnun og umferðarréttar til framtíðar“ séu kr. 800.000. Máli, sem höfðað var vegna eignarnámsheimildarinnar sjálfrar lauk með dómi Hæstaréttar þann 18. maí 2006 en um fjárhæð eignarnámsbótanna var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 13. janúar 2011, í málinu E-14132/2009, og voru þær ákvarðaðar kr. 7.600.000.

Í máli því sem lauk með dómi Héraðsdóms Vesturlands frá 14. maí 2009, í máli nr. E-364/2009, var tekist á um umferðarrétt að Aðalgötu 7 og 7a, meðfram nærliggjandi húsi, eftir sama slóða og aðgangur er að lagnaleiðinni. Niðurstaða dómarans, Benedikts Bogasonar, var að umferðarréttur eigenda húsa við Aðalgötu 7 og 7a um slóðann væri ekki fyrir hendi.

Í kvörtun álitsbeiðanda segir um þetta „Með þessum dómi sínum gerir hann Benedikt Bogason matsmann að algerum ómerking en hann hafði áður metið þennan áðurnefnda umferðarrétt til verðs þegar hann gerðist matsmaður í Matsnefnd eignarnámsbóta! Þarna skiptir sami maðurinn um hlutverk eins og ekkert sé og þegar hann er í hlutverki dómarans þá eru verk hans sem matsmanns, dómaranum algerlega óviðkomandi.“
Í andsvörum Benedikts Bogasonar héraðsdómara frá 4. janúar 2011 kemur fram að hann hafi aflað sér heimildar nefndar um dómarastörf áður en hann tók sæti í matsnefnd eignarmámsbóta. Heimildin hafi verið veitt með bréfi, dags. 10. mars 2004. Þá tók hann fram „til skýringar að matsnefndin tók enga afstöðu til þess hvort umferðarréttur yfir aðliggjandi lóð fylgdi eigninni. Hins vegar voru metnar bætur vegna umferðar um lóð Gullvers sf. að mastrinu.“

Andsvör dómarans voru kynnt álitsbeiðanda sem sendi athugasemdir dagsettar 
28. janúar 2011. Þar tjáði hann efasemdir sínar um það að tilhlýðilegt væri að heimila dómara að gerast matsmaður í eignarnámsmáli í eigin umdæmi. Þar kom og fram, að áltisbeiðandi hefði engar skýringar á því af hverju lögmaður hans hefði ekki gert athugasemdir við hæfi dómarans undir rekstri málsins. Loks var ítrekuð sú afstaða að dómaranum hefði borið skylda til að gæta sjálfur að hæfi sínu til að fara með málið E-364/2009.

Með hliðsjón af niðurstöðunni, sem rakin er hér að neðan, taldi nefndin ekki ástæðu til að óska eftir andsvörum dómarans við athugasemdum þessum.

 

III.
Forsendur

Nefnd um dómarastörf starfar á grundvelli IV. kafla laga nr. 15/1998 um dómstóla. Valdsvið nefndarinar er skilgreint í fyrsta málslið 1 mgr. 27. gr. laganna en þar segir orðrétt: „Hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum er heimilt að beina skriflegri kvörtun af því tilefni til nefndar um dómarastörf.“ Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 15/1998, er 27. gr. frumvarpsins skýrð og kemur þar glöggt fram að átt er við kvörtun „á hendur dómara vegna framferðis hans í tengslum við dómsmál.“ Samkvæmt þessu er ljóst að valdsvið nefndarinnar takmarkast við atriði sem varða framferði dómara gagnvart málsaðilum við meðferð máls fyrir dómi, en hlutverk hennar er ekki að endurskoða atriði sem varða dómsathöfn, þar með talið hvernig dómari skýrir lög, niðurstöðu sem dómari hefur komist að í dómsmáli eða samningu dóms. Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla verður dómsathöfn aðeins endurskoðuð með málskoti til æðra dóms. Þá hefur nefndin ekki heimild samkvæmt lögum nr. 15/1998 til að fjalla um störf dómara eða annarra í matsnefnd eignarnámsbóta, nema að því leyti sem þau kynnu að hafa áhrif á „framferði hans í tengslum við dómsmál“.

Kvörtun álitsbeiðanda snýst um það hvort Benedikt Bogason hafi verð hæfur til þess að sitja í dómi í máli nr. E-364/2009 í ljósi aðkomu sinnar að eignarnámsmálinu árið 2004 og er ljóst að álitsbeiðandi telur að dómarinn hafi verið vanhæfur í dómsmálinu. Kveðið er á um það hvenær dómari er vanhæfur til að fara með mál í 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 6. gr. þeirra segir svo: „1. Dómari gætir að hæfi sínu og meðdómsmanna til að fara með mál af sjálfsdáðum, en aðili getur einnig krafist að hann eða þeir víki sæti.[/] 2. Dómari kveður sjálfur upp úrskurð um kröfu aðila um að hann víki sæti, svo og ef hann víkur sæti af sjálfsdáðum.“ Samkvæmt 143. gr. sömu laga sætir úrskurður dómara um hvort hann víkur sæti kæru til Hæstaréttar.

Telji aðili máls að dómara beri að víkja sæti vegna vanhæfis þarf hann, sbr. áður tilvitnuð lagaákvæði, að krefjast þess fyrir dómi. Úrskurður dómara þar um er dómsathöfn og endurskoðun ákvörðunar hans um hæfi sitt getur eingöngu átt sér stað við kæru úrskurðar hans þar að lútandi til Hæstaréttar. Í því tilviki sem hér um ræðir var því ekki borið við fyrir héraðsdómi að dómarinn væri vanhæfur. Með vísan til þess sem að framan segir um hlutverk nefnar um dómarastörf lýtur það hvorki að því að endurskoða úrskurð dómara um hæfi sitt né að meta réttmæti ákvörðunar dómara um að víkja ekki sæti af sjálfsdáðum. Af þessu er ljóst að það er ekki á valdsviði nefndar um dómarastörf að taka afstöðu til þess hvort dómaranum bar að víkja sæti í máli nr. E-364/2009.

Nefnd um dómarastörf ber af þessum sökum að vísa kvörtun álitsbeiðanda frá sér, sbr. 3. málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 15/1998.

 

IV.
Niðurstaða

Kvörtun Gullvers sf. er vísað frá nefnd um dómarastörf.


 

Ragnhildur Helgadóttir

Friðgeir Björnsson

 

Viðar Lúðvíksson