Reglur dómstólasýslunnar nr. 9/2024
LEIÐBEINANDI



I. KAFLI
Almennar reglur


1. gr.
Gildissvið

Reglur þessar eiga við um þinghöld, þar með talið þingfestingu og aðalmeðferð, sem fara í heild eða að hluta til fram í gegnum fjarfundarbúnað (fjarþinghald). Þær eiga jafnt við í einkamálum og sakamálum nema annað sé sérstaklega tekið fram.


2. gr.
Markmið

Reglunum er ætlað að stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni við rekstur mála fyrir dómi með notkun fjarfundarbúnaðar þar sem við á og að gættum grunnreglum um opinbera og réttláta málsmeðferð. Þá er reglunum ætlað að tryggja samræmda framkvæmd fjarþinghalda og stuðla með því að jafnræði allra fyrir dómstólum.


3. gr.
Opinber málsmeðferð


Í samræmi við meginregluna um opinbera málsmeðferð skal fjarþinghald haldið í dómsal ef um opið þinghald er að ræða enda sé þinghald ekki háð utan reglulegs þingstaðar. Dómari máls skal vera viðstaddur í dómsal. Í fjölskipuðum dómi geta þó aðrir en dómsformaður tekið þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundarbúnað ef aðstæður krefja.


4. gr.
Skipulag og stjórnun fjarþinghalds

Við boðun þinghalds leggur dómari mat á hvort að boða skuli til fjarþinghalds. Áður en dómari ákveður að þinghald skuli fara fram á fjarfundi eða að skýrslugjöf fari í heild eða hluta fram í fjarfundarbúnaði er rétt að dómari hafi samráð við málsaðila þar um ef tilefni er til.

Ef rétt er að vísa manni úr þinghaldi samkvæmt lögum um meðferð einkamála eða lögum um meðferð sakamála getur dómari lokað fyrir tengingu viðkomandi inn á fjarþinghaldið.


5. gr.
Öryggi og virkni fjarfundarbúnaðar

Tryggt skal að fjarfundarbúnaður hafi fullnægjandi varnir og að streymi um hann sé öruggt svo friðhelgi einkalífs sé sem best tryggð.

Fjarfundarbúnaður skal settur upp með þeim hætti að þátttakendur í þinghaldi og allir sem staddir eru í dómsal heyri og eftir atvikum sjái vel það sem fram fer.

Áður en þinghald hefst skal gengið úr skugga um að fjarfundarbúnaður virki sem skyldi.
Ef tekin er ákvörðun um að fresta þinghaldi vegna tæknilegra örðugleika skal færa ákvörðun um það í þingbók.



II. KAFLI
Þinghöld í sakamálum

6. gr.
Notkun fjarfundarbúnaðar í þinghaldi

Í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 getur dómari heimilað þátttöku í þinghaldi í gegnum fjarfundarbúnað, enda verði því háttað þannig að allir sem viðstaddir eru geti fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila.
Dómari getur ákveðið að ákærði gefi skýrslu í fjarfundarbúnaði með hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafi á auðkenni ákærða og tryggt þyki að hann geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar, sbr. nánar 8. gr. reglnanna.

Ákærða eða sakborningi verður þó ekki gert, gegn vilja sínum, að taka þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundarbúnað skv. 1. og 2. mgr. nema ríkar ástæður séu fyrir hendi og ákvörðunin þjóni lögmætum markmiðum, s.s. til verndar allsherjarreglu, til verndar heilsu manna, til að firra glæpum og til verndar vitnum og brotaþolum, eða til þess að málsmeðferð ljúki innan hæfilegs tíma.

Einnig skal vera tryggt að ákærði eða sakborningur njóti réttlátrar málsmeðferðar, þ.m.t. réttar til að spyrja spurninga og geti á öllum stigum máls notið virkrar aðstoðar verjanda og hafi tækifæri til að ráðfæra sig við verjanda í einrúmi og trúnaði meðan á þinghaldi stendur, svo sem með því að gera hlé á þinghaldi fyrir símtal.


7. gr.
Skýrslugjöf vitnis

Í samræmi við 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála getur dómari ef vitni, þar á meðal brotaþoli og matsmaður, er statt fjarri þingstað eða það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi í gegnum fjarfundarbúnað með hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafi á auðkenni vitnis og tryggt þykir að það geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar.

Ef sérstaklega stendur á getur dómari þó ákveðið að skýrslugjöf fari einungis fram með hljóði enda megi ekki ætla að úrslit máls geti ráðist af framburði vitnis og skýrslugjöf verði hagað þannig að viðstaddir heyri orðaskipti við vitnið.


8. gr.
Aðstæður við skýrslugjöf

Í þeim tilgangi að tryggja að ákærði eða vitni, þar á meðal brotaþoli og matsmaður, geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar getur dómari ákveðið að skýrslugjöf fari fram í gegnum fjarfundarbúnað á starfstöð annars dómstóls eða opinberrar stofnunar, s.s. lögreglu, sýslumanns eða sendiráðs eða annarri sambærilegri starfsstöð hér á landi eða erlendis.


III. KAFLI
Þinghöld í einkamálum

9. gr.
Notkun fjarfundarbúnaðar

Dómari getur heimilað þátttöku í þinghaldi, þar með talið þingfestingu og aðalmeðferð, í gegnum fjarfundarbúnað í samræmi við 4. mgr. 8. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila. Mat dómara byggir á því hvað talist getur sanngjarnt og eðlilegt í því máli sem um ræðir, svo sem með hliðsjón af umfangi máls, hagsmunum sem ágreiningur lýtur að og sönnunarmati.


10. gr.
Skýrslugjöf vitnis

Í samræmi við 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála getur dómari ef vitni er statt fjarri þingstað eða það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm eða það er til þess fallið að greiða fyrir meðferð málsins að öðru leyti, ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, eftir atvikum í hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafa á auðkenni vitnis og tryggt þykir að það geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar.

Skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað skal hagað þannig að allir sem eru staddir á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið.


11. gr.
Aðstæður við skýrslugjöf

Telji dómari þess þörf, meðal annars til að tryggja að vitni geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar, getur dómari ákveðið að vitni gefi skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað á starfstöð annars dómstóls eða opinberrar stofnunar, s.s. lögreglu, sýslumanns eða sendiráðs eða annarri sambærilegri starfstöð hér á landi eða erlendis.


12. gr.
Skýrslugjöf aðila og matsmanns

Ákvæðum 10. og 11. gr. verður eftir því sem þau geta átt við beitt um skýrslugjöf aðila máls, sbr. 2. mgr. 49. gr. laga um meðferð einkamála og um skýrslugjöf matsmanns, sbr. 2. mgr. 65. gr. sömu laga.


13. gr.
Heimild og gildistaka

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 9. gr. laga um meðferð sakamála og 5. mgr. 8. gr. laga um meðferð einkamála og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. nóvember 2024.



Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar, 9. október 2024.

Sigurður Tómas Magnússon,
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.