Reglur dómstólasýslunnar nr. 4/2020
1. gr.
Ráðherra skipar fimm dómendur í Endurupptökudóm. Þrír af þeim skulu vera embættisdómarar. Einn skal tilnefndur af Hæstarétti úr hópi dómara við réttinn, annar af Landsrétti úr hópi dómara við réttinn og sá þriðji sameiginlega af dómstjórum héraðsdómstólanna úr hópi héraðsdómara. Tilnefningaraðilar skulu tilnefna bæði karl og konu til setu í dóminum en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að það er ekki mögulegt og skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Skipa skal jafnmarga varamenn fyrir þá dómendur sem koma úr hópi embættisdómara og ákveður ráðherra hvor þeirra sem tilnefndir eru af hverjum tilnefningaraðila verði aðalmaður og hvor verði varamaður.
2. gr.
Tilnefning Hæstaréttar og Landsréttar skal ákveðin á fundi með dómurum réttarins. Ekki síðar en tveimur vikum fyrir fund þar sem tilnefningin er ákveðin skal forseti viðkomandi dómstóls bjóða dómurum réttarins að gefa kost á sér til setu í Endurupptökudómi innan 10 daga. Skulu nöfn þeirra sem gefið hafa kost á sér koma fram í fundarboði sem dómurum réttarins er sent ekki síðar en þremur virkum dögum fyrir fund þar sem tilnefning skal ákveðin. Allir dómarar réttarins sem ekki hafa sérstaklega beiðst undan tilnefningu eru í kjöri. Kosning skal vera leynileg. Tilnefnd skulu sá karl og sú kona sem flest atkvæði fá. Falli atkvæði jafnt skal hlutkesti ráða.
3. gr.
Tilnefning dómenda úr röðum héraðsdómara skal ákveðin af dómstjórum héraðsdómstólanna á kjörfundi sem dómstólasýslan boðar til. Ekki síðar en tveimur vikum fyrir kjörfund býður framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar héraðsdómurum að gefa kost á sér til setu í dóminum innan 10 daga og boðar dómstjóra héraðsdómstólanna til kjörfundar ekki síðar en þremur virkum dögum fyrir þann fund. Skulu nöfn þeirra sem boðið hafa sig fram koma fram í fundarboði. Allir héraðsdómarar sem ekki hafa sérstaklega beðist undan tilnefningu eru í kjöri. Kosning er rafræn og leynileg. Tilnefnd skulu sá karl og sú kona sem flest atkvæði fá. Falli atkvæði jafnt skal hlutkesti ráða. Framkvæmdastjóri sér um tilnefningu héraðsdómara til setu í Endurupptökudómi fyrir hönd dómstjóranna þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir.
4. gr.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 54. gr. laga nr. 47/2020 um breytingu á lögum nr. 50/2016 um dómstóla. Þær öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
10. september 2020.
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.