Reglur dómstólasýslunnar nr. 1/2025
LEIÐBEINANDI
 
 

R E G L U R
um málsvarnarlaun eða þóknun til verjenda
og þóknun til réttargæslumanna o.fl.

 

1. gr.
Ákvörðun málsvarnarlauna verjanda þegar fram fer sókn og vörn

1. Bóka skal nákvæmlega hvenær þinghald hefst og hvenær því lýkur og miða málsvarnarlaun við þann tíma, þó þannig að brot úr klukkustund telst heil klukkustund.

2. Dómari skal ætla verjanda tíma fyrir yfirlestur málsins og undirbúning málflutnings með tilliti til eðli sakarefnisins og umfangs málsins.

3. Fyrir fjölda klukkustunda samkvæmt töluliðum 1 og 2 skal greiða 27.000 krónur á tímann.

4. Málsvarnarlaun skulu þó aldrei vera lægri en 135.000 krónur.

5. Leggi verjandi  fram tímaskýrslu skal framangreint haft í huga við mat á réttmæti hennar.

2. gr.
Ákvörðun þóknunar verjanda þegar ekki fer fram sókn og vörn

1. Þegar mál er ekki sótt og varið er ákvörðunin nefnd þóknun en ekki málsvarnarlaun.

2. Fyrir þessi störf skulu greiddar 108.000 til 189.000 krónur, sem dómari ákveður í samræmi við þá vinnu sem hann telur verjanda hafa innt af höndum.

3. Miða skal við þegar verjandi fer með mál vegna einfaldra játaðra brota, t.d. vegna eins brots, aksturs eftir sviptingu eða ölvunaraksturs, að fjárhæðir séu lægri en þegar um mikinn lestur málskjala að ræða. Í síðarnefndum tilvikum getur þóknun farið fram úr framangreindu hámarki og það sama gildir ef verjandi þarf að mæta oftar en einu sinni vegna erfiðleika við að ná til ákærða.

4. Að öðru leyti gilda 1. til 3. töluliður 1. gr.

3. gr.
Ákvörðun þóknunar lögmanns þegar krafa er gerð um símahlustun eða önnur sambærileg úrræði

Í þóknun skipaðs lögmanns við símahlustun eða önnur sambærileg úrræði á grundvelli IX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal greiða 54.000 krónur en sé um fleiri mál að ræða sem tekin eru fyrir samhliða skal fjárhæðin lækka í eðlilegu samræmi við það.

4. gr.
Ákvörðun þóknunar verjanda á rannsóknarstigi

Þóknun fyrir störf verjanda á rannsóknarstigi skal greidd samkvæmt réttmætri, sundurliðaðri og tímasettri skýrslu um starf hans og skal tímagjaldið vera 27.000 krónur. Ef líkur eru á að yfirheyrsla hafi staðið í skemmri tíma en í tímaskýrslu greinir er dómara rétt að óska eftir því að fá lögregluskýrslu í hendur eða leita upplýsinga  lögreglu um tímalengd. Enn fremur er dómara rétt að krefjast nánari skýringa á útlögðum kostnaði telji hann þess þörf.

5. gr.
Ákvörðun þóknunar réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi og fyrir dómi

Þóknun skal greidd samkvæmt réttmætri, sundurliðaðri og tímasettri skýrslu um starf réttargæslumanns og skal tímagjaldið vera 27.000 krónur. Ef líkur eru á að yfirheyrsla hafi staðið í skemmri tíma en í tímaskýrslu greinir er dómara rétt að óska eftir því að fá lögregluskýrslu í hendur eða leita upplýsinga lögreglu um tímalengd. Enn fremur er dómara rétt að krefjast nánari skýringa á útlögðum kostnaði telji hann þess þörf.


6. gr.
Þóknun vegna þess tíma sem fer í ferðalög og ferðakostnaður

1. Þegar verjandi eða réttargæslumaður þarf vegna starfa sinna að  ferðast lengur en hálfa klukkustund skal tekið tillit til þess við ákvörðun þóknunar og málsvarnarlauna. 

2. Enn fremur skal á rannsóknarstigi ákveðinn ferðakostnaður í samræmi við reglur ferðakostnaðarnefndar, sbr. nú auglýsingu nr. 1/2019 um akstursgjald ríkisstarfsmanna. Nauðsynlegar flugferðir ber að greiða samkvæmt reikningi. Þá skulu einnig ákveðnir dagpeningar ef skilyrðum til greiðslu þeirra er fullnægt, sbr. nú auglýsingu nr. 3/2019 um dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands.

7. gr.
Virðisaukaskattur

Þegar fjárhæð þóknunar verjanda, skipaðs lögmanns við símahlustun eða sambærileg úrræði eða réttargæslumanns brotaþola er ákveðin skal það gert að viðbættum virðisaukaskatti og þegar máli lýkur með dómsúrlausn skal greint frá því í forsendum hennar að tekið hafi verið tillit til skattsins. Sama á við þegar þóknun er ákveðin með viðurlagaákvörðun, bókun eða bréfi dómara.

8. gr.
Greiðslur til lögreglumanna

Lögreglumönnum sem gefa skýrslu fyrir dómi skal aðeins greiddur ferðakostnaður eða annar útlagður kostnaður.

9. gr.
Heimild og gildistaka

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2025 og jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1/2024 um málsvarnarlaun eða þóknun til verjanda og þóknun til réttargæslumanna o.fl. 

 

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar

17. desember 2024

 

 

Sigurður Tómas Magnússon

formaður stjórnar dómstólasýslunnar.