Reglur dómstólasýslunnar nr. 3/2022

 

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Útgáfa dómsúrlausna og markmið hennar

Um útgáfu dóma og úrskurða á öllum dómstigum og úrskurða Endurupptökudóms á vefsíðum dómstólanna fer eftir því sem segir í 6. mgr. 7., 20., 28. og 38. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og reglum þessum.

Útgáfa dómsúrlausna skal miða að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna og tryggja rétt almennings í lýðræðislegu samfélagi til aðgangs að upplýsingum um réttarframkvæmd. Auk þess er útgáfunni ætlað að styðja við fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglu réttarfars um opinbera málsmeðferð sem meðal annars er ætlað að veita dómstólum aðhald og stuðla að því að borgararnir geti treyst því að allir njóti jafnræðis við úrlausn mála fyrir dómstólum.

Við útgáfu dómsúrlausna skal gætt að stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs og lagaákvæðum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

2. gr.

Frestur til útgáfu

Dómsúrlausn sem gefin er út samkvæmt reglum þessum skal að jafnaði gefin út á vefsíðu viðkomandi dómstóls innan fimm virkra daga frá uppkvaðningu dóms eða úrskurðar, þó eigi síðar en innan 14 virkra daga frá uppkvaðningu.

Dómsúrlausn skal þó ekki gefin út fyrr en liðin er að lágmarki ein klukkustund frá uppkvaðningu svo lögmanni, verjanda eða réttargæslumanni gefist ráðrúm til að upplýsa skjólstæðing sinn um niðurstöðu máls.

Landsréttur getur eigi að síður ákveðið að fresta útgáfu úrskurðar þar sem leyst er úr kröfu lögreglu eða ákæruvalds undir rannsókn sakamáls ef rannsóknarhagsmunir krefjast þess.

3. gr.

Viðbótarupplýsingar

Með útgáfu á dómsúrlausn skal fylgja stutt lýsing á sakarefni máls og niðurstöðu þess. Enn fremur skulu fylgja útgáfu efnisorð (lykilorð/uppflettiorð) sem eiga við um mál auk þess sem tilgreina skal í leitarvél þau lagaákvæði sem reyndi á í máli.

4. gr.

Aðferðir til að tryggja friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga

Unnt er að beita eftirfarandi aðgerðum við útgáfu dómsúrlausnar í þeim tilgangi að tryggja friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga aðila dómsmáls eða annarra sem koma þar við sögu, eftir því sem nánar er tilgreint í reglunum.

  1. Gefa dómsúrlausn ekki út, sbr. 6. og 7. gr.
  2. Gæta nafnleyndar um þá sem greindir eru í dómsúrlausn í samræmi við 9. og 10. gr.
  3. Afmá í dómsúrlausn upplýsingar í samræmi við 12. gr.
  4. Nú verður ekki tryggt að leynd ríki um atriði sem leynt eiga að fara með því að fella út nöfn og/eða eftir atvikum afmá önnur atriði úr dómsúrlausn. Er þá heimilt í stað þess að gefa út dómsúrlausnina sjálfa að gefa út útdrátt þar sem meðal annars kemur fram á hverju niðurstaðan er reist. Jafnframt má ákveða að fresta útgáfu slíks útdráttar sé það til þess fallið að tryggja betur persónuvernd.
  5. Ef sérstakar ástæður mæla með geta forstöðumenn dómstólanna ákveðið að gæta nafnleyndar eða afmá upplýsingar úr dómsúrlausn í ríkari mæli en leiðir af reglum þessum, svo sem ef útgáfa hennar án þess að nöfn eða aðrar upplýsingar séu afmáðar yrði sérstaklega þungbær fyrir aðila eða aðra eða vegna fámenns landsvæðis þar sem atvik máls gerðust eða eru tengd við.

 

II. KAFLI

Dómsúrlausnir sem gefa skal út

5. gr.

Útgáfa dómsúrlausna Hæstaréttar og Landsréttar

Gefa skal út allar dómsúrlausnir Landsréttar og Hæstaréttar.

Þegar dómsúrlausn Landsréttar eða dómur Hæstaréttar er gefinn út skulu fylgja viðeigandi dómsúrlausnir lægri réttar eða hlekkur á þær. Skal þá gætt að því að útgáfa á dómsúrlausnum lægri réttar sé í samræmi við ákvæði I., III. og IV. kafla reglna þessara þannig að markmiðum 1. gr. þeirra verði náð.

6. gr.

Útgáfa dómsúrlausna í héraði

Dómsúrlausnir í héraði sem fela í sér lyktir máls skulu gefnar út með þeim undantekningum sem fram koma í 2. mgr. þessarar greinar og 7. gr.

Ekki skal gefa út dómsúrlausnir í héraði þegar um er að ræða :

  1. Kröfu um gjaldþrotaskipti.
  2. Kröfu um opinber skipti.
  3. Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar.
  4. Beiðni um heimild til að leita nauðasamnings.
  5. Mál samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.
  6. Beiðni um dómkvaðningu matsmanns.
  7. Beiðni um úrskurð á grundvelli laga um horfna menn nr. 44/1981.
  8. Mál samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.
  9. Mál samkvæmt barnalögum nr. 76/2003.
  10. Mál samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993.
  11. Mál um erfðir.
  12. Kröfu um heimild til beinnar aðfarargerðar (innsetningar- og útburðarmál).
  13. Úrskurð sem gengur undir rekstri máls og felur ekki í sér lokaniðurstöðu þess.
  14. Einkamál þar sem ekki er haldið uppi vörnum.
  15. Kröfu um úrskurð samkvæmt ákvæðum IX.-XV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
  16. Kröfu um breytingu eða niðurfellingu ráðstafana samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
  17. Sakamál þar sem refsing er sekt undir áfrýjunarfjárhæð.

7. gr.

Undanþáguheimildir um dómsúrlausnir í héraði

Þegar sérstaklega stendur á getur dómstjóri með hliðsjón af hagsmunum málsaðila eða annarra sem getið er í dómsúrlausn ákveðið að vikið skuli frá ákvæðum 6. gr. Dómstjóri skal skrá rökstuðning fyrir ákvörðun sinni í málaskrá.

Þegar um er að ræða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. er dómstjóri ekki bundinn af fresti samkvæmt 1. mgr. 2. gr.

8. gr.

Útgáfa úrskurða Endurupptökudóms

Gefa skal út úrskurði Endurupptökudóms ef sú dómsúrlausn sem leitað hefur verið eftir endurupptöku á hefur verið gefin út í samræmi við reglur þessar.

 

III. KAFLI

Um nafnleynd við útgáfu dómsúrlausna

9. gr.

Nafnleynd í einkamálum

Við útgáfu allra dómsúrlausna í einkamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir þegar í úrlausn er fjallað um viðkvæm persónuleg málefni, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna, umgengni við þau og barnavernd. Sama á við þegar fram koma upplýsingar sem viðkvæmar teljast, þar á meðal persónuupplýsingar um kynþátt, þjóðernisuppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, kynlíf, kynhneigð og kynvitund, heilsufarsupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar.

Við útgáfuna skal þá jafnframt má út önnur atriði úr henni sem geta ein og sér eða fleiri saman tengt aðila eða aðra við sakarefnið, svo sem fæðingardaga, heimilisföng, verknaðarstað og vettvang annarra atvika.

Þegar gætt er nafnleyndar skal hún að öðru jöfnu taka til matsmanna og þeirra sem láta í té sérfræði álit.

Nafnleyndar skal gæta um lögaðila ef gæta ber nafnleyndar um fyrirsvarsmann hans.

Við útgáfuna skal jafnframt huga að þeim atriðum sem getið er um í 4. til 5. tölulið 4. gr.

10. gr.

Nafnleynd í sakamálum

Við útgáfu dóma í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur nema hann hafi ekki náð 18 ára aldri þegar brot var framið. Einnig skal gæta nafnleyndar um dómfellda ef birting á nafni hans getur verið andstæð hagsmunum brotaþola eða vitna svo sem vegna fjölskyldutengsla. Við mat á hagsmunum brotaþola skal leita sjónarmiða hans.

Þegar dómi í sakamáli er áfrýjað til æðri réttar skal gæta nafnleyndar um meðákærða, hvort sem hann hefur verið sakfelldur eða sýknaður, ef þeirri niðurstöðu hefur ekki verið áfrýjað til æðra dóms.

Í úrskurðum sem ganga undir rannsókn eða meðferð sakamáls skal Landsréttur gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir. Á það jafnt við um einstaklinga sem lögaðila.mfellda.﷽﷽afnleyndar um dig mrða tengsl yldutengsla hagsmunir aðila eða annarra eru s

Þegar svo stendur á að Landsréttur eða Hæstiréttur ákveður að gæta nafnleyndar í dómsúrlausn sinni skal ganga úr skugga um að nafnleyndar sé einnig gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs. Sé nafnleyndar ekki gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs skal æðra dómstigið óska eftir því að dómur lægra dómstigs verði endurútgefinn með nafnleynd áður en dómur æðra dómstigs er gefinn út.

Við útgáfuna skal jafnframt gæta að þeim atriðum sem getið er um í 4. til 5. tölulið 4. gr.

Við útgáfu úrskurða Endurupptökudóms í sakamálum skal fara eftir ákvæðum greinarinnar eftir því sem við getur átt.

11. gr.

Nafnleynd eftir útgáfu dómsúrlausnar

Að liðnu ári frá því að dómsúrlausn í einkamáli eða sakamáli var gefin út og nafnleynd ekki viðhöfð getur sá sem í hlut á komið á framfæri við forstöðumann viðkomandi dómstóls beiðni um nafnleynd. Skal brugðist við slíkri beiðni svo skjótt sem auðið er.

IV. KAFLI

Um brottnám upplýsinga við útgáfu dómsúrlausnar

12. gr.

Um brottnám upplýsinga í einka- og sakamálum

Við útgáfu dómsúrlausnar skal nema brott upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna, upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari þar á meðal persónuupplýsingar um kynþátt, þjóðernisuppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, kynlíf, kynhneigð og kynvitund, heilsufarsupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar nema að því leyti sem slík atriði eru kjarni þess máls sem dómsúrlausn lýtur að. Sama á við þótt nafnleyndar hafi verið gætt ef nafnleyndin ein og sér nægir ekki til að vernda þá hagsmuni sem henni er ætlað að vernda.

Afmá skal kennitölur og heimilisföng úr öllum dómsúrlausnum áður en þær eru gefnar út.

Þegar upplýsingar hafa verið afmáðar úr dómsúrlausn skal þess gætt að það sem eftir stendur verði ekki tengt þeim hagsmunum sem ætlunin er að vernda.

Teljist nauðsynlegt að afmá úr dómsúrlausn upplýsingar í þeim mæli að dómsúrlausn, einstakir hlutar hennar eða samhengi verði við það torskilið er heimilt að setja inn í hina útgefnu dómsúrlausn, innan hornklofa, almennar upplýsingar um hvers konar atriði hafi verið afmáð þannig að útgáfan geti þjónað því markmiði sem henni er ætlað að þjóna samkvæmt 1. gr.

Ef nafnleynd tryggir nægilega vernd þeirra hagsmuna sem um ræðir er þó ekki þörf á að afmá upplýsingar úr dómsúrlausn eða eftir atvikum ekki í jafn ríkum mæli.

V. KAFLI

Ábyrgð á útgáfu, eftirlit og kvartanir

13. gr.

Ábyrgð á útgáfu dómsúrlausna

Hver dómstóll fyrir sig er útgefandi dóma og úrskurða sem þar eru kveðnir upp og ber ábyrgð á því að útgáfa þeirra sé í samræmi við reglur þessar.

14. gr.

Eftirlit

Dómstólasýslan fer með eftirlit með reglum þessum og getur komið ábendingum á framfæri um túlkun reglnanna og hvernig rétt sé að bregðast við varðandi framkvæmd þeirra í einstökum tilvikum, sbr. 2. og 3. mgr. 15. gr.

Dómstólasýslan getur að eigin frumkvæði ákveðið að kanna hvort útgáfa dóma sé í samræmi við reglur þessar og komið á framfæri við dómstól eða dómstóla athugasemdum eða ábendingum um túlkun og beitingu reglnanna.

15. gr.

Athugasemdir og kvartanir

Kvörtun eða athugasemd við útgáfu dómsúrlausnar á netinu skal beina til forstöðumanns þess dómstóls sem gefur úrlausnina út.

Hver sá sem telur að brotið hafi verið gegn reglum þessum við útgáfu dómsúrlausnar getur beint athugasemdum eða ábendingum til dómstólasýslunnar að undangenginni úrlausn kvörtunar til þess dómstóls sem stóð að útgáfu dómsúrlausnar.

Unnt er að beina til dómstólasýslunnar almennum athugasemdum eða ábendingum um framkvæmd útgáfu dómsúrlausna.

16. gr.

Tilkynningar

Verði dómstóll var við að útgáfa dómsúrlausnar samræmist ekki reglum þessum skal hann tilkynna dómstólasýslunni um frávikið án ótilhlýðilegrar tafar.

Feli frávikið í sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklinga skal dómstóllinn einnig tilkynna viðkomandi um það  án ótilhlýðilegrar tafar. Dómstólasýslan gefur út leiðbeiningar um efni slíkrar tilkynningar.

17. gr.

Málsmeðferð

Við meðferð mála vegna ábendinga eða athugasemda skal farið eftir almennum reglum stjórnsýsluréttar eftir því sem við á.

VI. KAFLI

Heimild og gildistaka.

18. gr.

Gildistaka

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. 41. gr. laga nr. 76/2019, og að höfðu samráði við þá dómstóla sem reglurnar varða. Reglurnar öðlast gildi 1. október 2022 og falla þá úr gildi reglur nr. 3/2019 um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna.

 

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar

9. júní 2022

 

Sigurður Tómas Magnússon

formaður stjórnar dómstólasýslunnar