Reglur dómstólasýslunnar nr. 3/2023
LEIÐBEINANDI
SIÐAREGLUR
fyrir starfsmenn dómstóla
Í því skyni að efla sjálfstæði, skilvirkni og gagnsæi dómstólanna, og auka traust á þeim, staðfestir dómstólasýslan siðareglur fyrir starfsmenn dómstóla, sbr. 4. mgr. 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Siðareglur þessar taka til allra starfsmanna dómstólanna. Reglur þessar skal endurskoða á tveggja ára fresti.
Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og lögum um dómstóla nr. 50/2016 eru dómarar sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn máls fara þeir eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra.
Starfsmenn dómstólanna gæta að því, hver fyrir sitt leyti, að farið sé eftir siðareglunum. Forsetar Hæstaréttar og Landsréttar og dómstjórar héraðsdómstólanna skulu sjá til þess að starfsfólki sé kunnugt um reglurnar og að þær séu eðlilegur þáttur í starfi dómstólanna.
Siðareglur þessar verður að skoða í samhengi við lög um dómstóla nr. 50/2016, almennar siðareglur starfsmanna ríkisins nr. 491/2013, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur sem gilda um ákveðna starfsmenn dómstólanna. Siðareglurnar endurspegla tiltekin grunngildi í störfum hjá ríkinu eins og heilindi, óhlutdrægni og skilvirkni.
1. gr.
Vinnubrögð og samskipti á vinnustað.
Samvinna, traust og virðing einkennir samskipti starfsmanna. Í öllum samskiptum láta starfsmenn samstarfsfólk njóta sannmælis og sanngirni og sýna tillitsemi í hvívetna.
Samráð, gagnsæi og jafnræði einkennir starfsvettvang dómstólanna.
Starfsmenn vinna störf sín af heilindum, virðingu og heiðarleika og gæta trúnaðar eftir því sem við á.
Starfsmenn fara að löglegum fyrirskipunum um starf sitt og virða þær.
Starfsmenn sýna ráðdeild við meðferð fjármuna dómstólanna og stuðla að því sama meðal samstarfsmanna.
2. gr.
Háttsemi og framkoma.
Starfsmenn draga skýr mörk á milli einkalífs og vinnu. Við notkun tölvupósts skal taka mið af þessari meginreglu.
Starfsmenn notfæra sér ekki stöðu sína eða upplýsingar, sem þeir fái í starfi sínu, í eiginhagsmunaskyni eða fyrir aðra.
Starfsmenn rýra ekki trúverðugleika dómstólanna með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við mannhelgi og mannréttindi.
Starfsmenn þiggja ekki persónulegar gjafir vegna starfs síns.
Í samskiptum utan vinnu, þ. á m. við notkun samfélagsmiðla, virða starfsmenn trúnað við samstarfsfólk og gagnvart vinnustað.
3. gr.
Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar.
Starfsmenn gæta þess að vina-, hagsmuna- og skyldleikatengsl hafi ekki áhrif á störf sín.
Starfsmenn upplýsa forseta eða dómstjóra um aukastörf sín. Aðstoðarmenn dómara upplýsa dómstjóra einnig um eignarhlut sinn í félögum og atvinnufyrirtækjum. Um dómara gilda hins vegar reglur um aukastörf héraðsdómara, landsréttardómara og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum og skráningu þeirra nr. 1165/2017.
Gæta skal þess að slík tengsl eða aukastörf valdi ekki hagsmunaárekstrum, eða séu til þess fallin að rýra traust á dómstólunum.
4. gr.
Upplýsingagjöf og samskipti.
Starfsmenn leggja sig fram við að veita upplýsingar um starfsemi dómstólanna og málsmeðferðað þvímarki sem gildandi lög og reglur kveða á um.
Starfsmenn sýna þeim sem til dómstólanna leita virðingu og umburðalyndi og gæta jafnræðis og jafnréttis í hvívetna.
5. gr.
Ábyrgð og eftirfylgni.
Hver starfsmaður dómstóla er ábyrgur fyrir því að athafnir hans og gjörðir séu í samræmi við siðareglur þessar.
Forsetar Hæstaréttar og Landsréttar og dómstjórar héraðsdómstólanna kynna starfsmönnum reglur sem um starfið gilda, eru á varðbergi gagnvart aðstæðum sem auka líkur á að ekki sé farið eftir reglum, bregðast við þegar þörf krefur og ganga á undan með góðu fordæmi.
Verði starfsmaður áskynja um siðferðislega ámælisvert eða ólögmætt athæfi á vinnustað skal hann koma ábendingu þar um til næsta yfirmanns, sem ekki á sjálfur hagsmuna að gæta, eða annarra viðeigandi aðila.
Starfsmenn gjalda ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum eða fyrir að leita réttar síns telji þeir á sér brotið.
6. gr.
Gildistaka
Reglur þessar öðlast gildi nú þegar og og falla þá úr gildi reglur nr. 2/2018 um siðareglur fyrir starfsmenn dómstóla.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
23. maí 2023.
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.