Myndir o.fl. frá matsmannanámskeiði

Dómstólasýslan og Lögmannafélag Íslands stóðu fyrir námskeiði fyrir dómkvadda matsmenn dagana 15-16. maí 2018. Námskeiðið var afar vel sótt og fór svo að það reyndist fullbókað.

Fyrri dag námskeiðisins fór Viðar Lúðvíksson lögmaður hjá Landslögum yfir þau lögfræðilegu atriði sem matsmenn þurfa að hafa í huga. Seinni daginn fór Ragnar Ómarsson byggingafræðingur á Verkfræðistofunni Verkís og formaður Matsmannafélags Íslands yfir ýmis praktísk atriði sem snúa að störfum matsmanna.

Loks endaði námskeiðið með heimsókn niður í Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari og Lilja Rún Sigurðardóttir aðstoðarmaður dómara tóku á móti þátttakendum og upplýstu nánar um samskipti dómkvaddra matsmanna við dómstólana og svöruðu fjöldamörgum spurningum.

Með námskeiðinu fylgjdu ítarlegar leiðbeiningar fyrir dómkvadda matsmenn sem jafnframt hafa að geyma áhugaverða dóma sem snúa að störfum matsmanna. Er nú hægt að kaupa leiðbeiningarnar hjá Lögmannafélagi Íslands og gefur Eyrún Ingadóttir nánari upplýsingar í síma 568 5620 og á netfanginu eyrun@lmfi.is